Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 507  —  320. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson og Þóru Margréti Hjaltested frá iðnaðarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA gerði við lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, en talið var að þau stönguðust á við reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisstyrki. Hér er einkum um að ræða atriði varðandi menningarlega skírskotun þeirra kvikmynda og sjónvarpsefnis sem endurgreiðsla fæst fyrir samkvæmt ákvæðum laganna, ákvæði um af hversu háu hlutfalli heildarframleiðslukostnaðar endurgreiðsla samkvæmt lögunum skal reiknast og ákvæði um framleiðslu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er það ekki lengur gert að skilyrði að þeir sem sækja um endurgreiðslu samkvæmt lögunum þurfi að stofna sérstakt félag hér á landi, heldur er nægilegt að viðkomandi aðili hafi útibú eða umboðsskrifstofu skráða í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í frumvarpinu eru ákvæði laganna að auki gerð markvissari og skýrari. Þá er Kvikmyndasjóði Íslands veittur tilnefningarréttur í stjórn endurgreiðslunefndar, auk þess sem bætt er við lögin ákvæði um að þeir sem hlotið hafi styrk úr Kvikmyndasjóði séu ekki útilokaðir frá endurgreiðslu samkvæmt lögunum, heldur verði styrkupphæðin dregin frá innlendum framleiðslukostnaði viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal, Ísólfur Gylfi Pálmason og Bryndís Hlöðversdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. des. 2000.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Svanfríður Jónasdóttir.



Drifa Hjartardóttir.


Árni R. Árnason.