Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 539  —  154. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Með frumvarpinu eru ekki gerðar breytingar á núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra. Hins vegar er lagt til að ákvæði laga nr. 54/1990 verði aðlöguð þeirri framkvæmd á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem þróast hefur og að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis.
    Það verklag sem þróast hefur við innflutning dýra síðan lög nr. 54/1990, um innflutning dýra, voru sett hefur í meginatriðum gengið áfallalaust og er því ekki ástæða til að mæla gegn því að því tilskildu að í engu sé slakað á í kröfum um sóttvarnir.
    Því er mikilvægt að settar verði í reglugerðir skýrari reglur um útbúnað sóttvarna- og einangrunarstöðva og eins um rekstur þeirra, eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Þetta er mikilvægt þar sem margir aðilar reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar í dag og þeim mun að öllum líkindum fjölga með lagabreytingunni þrátt fyrir yfirlýsingar landbúnaðarráðherra um hið gagnstæða varðandi gæludýr. Það er ljóst að töluverður áhugi er á því að hafa sóttvarna- og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr nær höfuðborgarsvæðinu. Þessi áhugi er viðskiptalegs eðlis en einnig mikið hagsmunamál eigenda gæludýra og með lagabreytingunni verður erfitt að hafa einungis eina sóttvarna- og einangrunarstöð fyrir gæludýr.
    Eftirlit með sóttvarna- og einangrunarstöðvunum verður að vera virkt og á ábyrgð hins opinbera. Mikilvægt er að fjölga stöðugildum sóttvarnadýralækna í samræmi við fjölda einangrunarstöðva og eins aukinna verkefna.
    Mjög alvarlegar athugasemdir komu fram í umsögn varðandi einangrun gæludýra við flutning þeirra eftir komu til landsins að sóttvarna- og einangrunarstöðinni í Hrísey. Því er treyst að brugðist verði við þessum athugasemdum.
    Embætti yfirdýralæknis leggur til að sett verði í lögin hæfileg refsiákvæði vegna brota á lögunum og reglum sem settar verða samkvæmt þeim.
    Ákvæði um sóttvarna- og einangrunarstöðvar eru sett til að forðast sýkingu í íslenska dýrastofninum, ekki eingöngu í þeim dýrategundum sem flutt eru inn heldur einnig í öðrum sem gætu tekið smit frá sýktum dýrum.

Alþingi, 14. des. 2000.



Þuríður Backman.