Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 546  —  360. mál.




Skýrsla



félagsmálaráðherra um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem haldið var á árinu 1999.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



Formáli.
    Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), sem er sérstök stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, var sett á stofn árið 1919. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1945. Þau ákvæði sem lágu til grundvallar stofnuninni er að finna í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918. Er þar kveðið á um að komið skuli á fót sérstakri stofnun sem hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og verði aðeins unnið á með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna.
    Starf ILO beinist einkum að grundvallarréttindum í atvinnulífinu, atvinnu, félagslegri vernd og samráði aðila vinnumarkaðarins. Á vettvangi ILO hafa verið sett alþjóðleg viðmið um grundvallarréttindi við vinnu sem birtast í fjölmörgum samþykktum og tilmælum stofnunarinnar um félagafrelsi, réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu, jafnrétti til vinnu og fjölmörg önnur réttindamál tengd vinnu.
    Sérstaða ILO byggist mjög á hinu þríhliða samstarfi innan stofnunarinnar, sem felur í sér að fulltrúar launafólks og atvinnurekenda taka ásamt fulltrúum ríkisstjórna þátt í umræðum og ákvörðunum stofnunarinnar. Starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar byggist sér í lagi á Alþjóðavinnumálaþinginu, stjórnarnefnd ILO og alþjóðavinnumálaskrifstofunni.
    Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman í Genf í júní ár hvert. Sendinefndir aðildarríkja ILO á þinginu eru skipaðar tveimur ríkisstjórnarfulltrúum, fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa launafólks auk sérfræðinga. Venjulega eru vinnumálaráðherrar aðildarríkjanna í forsvari fyrir sendinefndunum. Á Alþjóðavinnumálaþinginu er fjallað um réttindi tengd vinnu og alþjóðleg viðmið um það efni samþykkt. Á þinginu er jafnframt samþykkt fjárhagsáætlun stofnunarinnar og stjórnarnefnd hennar kosin.
    Stjórnarnefnd ILO er framkvæmdastjórn stofnunarinnar og kemur saman þrisvar á ári í Genf. Þar eru teknar ákvarðanir um stefnu ILO og jafnframt samþykkt framkvæmdaráætlun og fjárhagsáætlun sem eru lagðar fyrir Alþjóðavinnumálaþingið til umfjöllunar og afgreiðslu. Kosningar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar fara þar einnig fram. Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eiga 56 fulltrúar sæti í stjórnarnefnd hennar. Þar af eru 28 ríkisstjórnarfulltrúar, fjórtán fulltrúar launafólks og fjórtán fulltrúar atvinnurekenda. Tíu ríkisstjórnarfulltrúanna eru tilnefndir af ríkisstjórnum iðnríkja en hinir átján eru kosnir af fulltrúum ríkisstjórna á Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Alþjóðavinnumálaskrifstofan starfar undir eftirliti stjórnarnefndarinnar og undir yfirstjórn forstjóra skrifstofunnar sem er kosinn til fimm ára í senn. Á vegum skrifstofunnar starfa um 1900 starfsmenn frá yfir 110 þjóðum í höfuðstöðvunum í Genf og á 40 skrifstofum sem settar hafa verið upp víða um heim vegna sérstakra verkefna. Því til viðbótar starfa fjölmargir sérfræðingar í sendinefndum ILO við tækni- og þróunaraðstoð.

1. INNGANGUR
    Hinn 4. mars 1999 tók nýr forstjóri, Juan Somavia, sem hefur verið fastafulltrúi Chile hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, við stöðu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar af Michel Hansenne sem hefur gegnt því starfi frá 1989. Af þessu tilefni var sett upp sérstök skrifstofa til að undirbúa forstjóraskiptin og vinna að skilgreiningu verkefna og framtíðaráhersluatriða ILO. Jafnframt undirbjó skrifstofan skýrslu forstjórans um starfsemi og áhersluatriði stofnunarinnar til 87. Alþjóðavinnumálaþingsins 1999.
    Í skýrslu hins nýja forstjóra til Alþjóðavinnumálaþingsins er einkum lögð áhersla á að skilgreina meginmarkmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til framtíðar sem er mannsæmandi vinna (decent work). Forstjórinn lagði einnig fram skýrslu um skipulag tækni- og þróunaraðstoðar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í henni er lagt til að aðstoðin grundvallist á fjórum meginmarkmiðum stofnunarinnar sem eru grundvallarréttindi í atvinnulífinu, atvinna, félagsleg vernd og samráð aðila vinnumarkaðarins.
    Á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu náðist einstæð samstaða um afgreiðslu nýrrar samþykktar um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Aðildarríki samþykktarinnar skuldbinda sig til að leggja bann við og afnema barnavinnu eins og hún gerist verst samkvæmt nánari skilgreiningu í samþykktinni. Samþykktin kemur til fyllingar samþykkt ILO nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu, sem Ísland fullgilti árið 1999. Þá fór fram fyrsta umræða í sérstakri þingnefnd um endurskoðun samþykktar nr. 103 frá 1952, um mæðravernd, til undirbúnings gerðar nýrrar samþykktar um efnið á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2000.
    Ein fjölmennasta nefnd þingsins var að venju nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Ýmsum viðurlögum er beitt í þeirri nefnd til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum samþykkta ILO sem þau hafa brotið. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Að þessu sinni var þessum viðurlögum beitt gagnvart tveimur ríkjum, annars vegar Burma vegna brota á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, og nr. 87, um félagafrelsi, og hins vegar Kamerún vegna brota á samþykkt nr. 87.
    Á allsherjarþinginu var samþykkt harðorð ályktun þar sem Burma var fordæmt vegna viðvarandi brota á samþykkt nr. 29 og þess að ríkið hefur hunsað að fara eftir niðurstöðum og tilmælum eftirlitsaðila Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um úrbætur.
    Eins og undanfarin ár er gerð grein fyrir starfi þríhliða nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1999 í fylgiskjali með skýrslu þessari. Þá er í viðauka við skýrsluna greint frá athugasemdum sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum sáttmálans á árunum 1992–1996.
    Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 87. vinnumálaþingið.

2. 87. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1999
2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Alþjóðavinnumálaþingið var sett í 87. skipti í Þjóðabandalagshöllinni í Genf 1. júní 1999.
Forseti þingsins var kosinn Alhaji Muhammed Mumuni, félags- og vinnumálaráðherra Gana. Kjörnir voru varaforsetar úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu: Sem ríkisstjórnarfulltrúi Ali M. Khalil, ráðherra félags- og atvinnumála í Sýrlandi, Tom Diju Owuor, fulltrúi atvinnurekenda í Kenía, og Patricia O'Donovan, fulltrúi launafólks á Írlandi.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Elín Blöndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Gylfi Kristinsson, ráðgjafi hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópusambandinu í Brussel. Frá utanríkisráðuneyti: Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Haukur Ólafsson sendiráðunautur og Þórður Ingvi Guðmundsson, fyrsti sendiráðsritari. Fulltrúar atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúar launafólks: Hervar Gunnarsson, fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands. Varamaður hans var Ástráður Haraldsson, lögfræðingur Alþýðusambandsins.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
     1.      Skýrsla forstjóra og stjórnarnefndar.
     2.      Fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
     3.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
     4.      Tillaga um samþykkt um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
     5.      Endurskoðun samþykktar og tillögu frá 1952 um mæðravernd.
     6.      Tækni- og þróunaraðstoð ILO.
     7.      Kjörbréf.
    Daginn fyrir þingsetningu, 31. maí, voru haldnir óformlegir samráðsfundir fulltrúa hinna einstöku hópa sem eiga aðild að þinginu, þ.e. ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, nefndar sem fjallaði um drög að samþykkt um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd, nefndar um mæðravernd, nefndar um tækni- og þróunarsamvinnu, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins . Fulltrúar Íslands tóku þátt í starfi nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og nefndar um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd .
    Á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu fóru fram kosningar til setu í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Kosnir voru átján ríkisstjórnarfulltrúar, fjórtán fulltrúar launafólks og fjórtán fulltrúar ríkisstjórna.
    Sérstakir heiðursgestir forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Juan Somavia, og Alþjóðavinnumálaþingsins voru Ruth Dreifuss, forseti Sviss, Konan Bédié, forseti Fílabeinsstrandarinnar, og prófessor Amartya Sen, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Auk þess ávarpaði Bandaríkjaforseti, William J. Clinton, þingið.

2.2. SKÝRSLA FORSTJÓRA

    Sem fyrr segir lagði nýr forstjóri ILO, Juan Somavia, að þessu sinni fram fyrstu skýrslu sína til þingsins og bar skýrslan heitið Mannsæmandi vinna (Decent Work). Í því hugtaki felst einkum tilvísun til baráttu ILO fyrir störfum og starfsskilyrðum alls launafólks og áhersla á þau réttindi sem allt starfandi fólk á tilkall til. Það vísar einnig til þeirra fjögurra meginmarkmiða Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem stjórnarnefnd hennar samþykkti á fundi sínum í mars 1999, grundvallarréttinda í atvinnulífinu, atvinnu, félagslegrar verndar og samráðs aðila vinnumarkaðarins. Í skýrslunni er jafnframt lögð áhersla á að búa stofnunina undir þá áskorun sem felst í breytingum á sviði vinnumála og þróun alþjóðahagkerfisins í byrjun nýrrar aldar.
    Í skýrslunni eru gerðar margar tillögur um breytingar á störfum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þegar hefur nokkrum af þessum breytingum verið hrundið af stað, svo sem gerð nýrrar fjárhags- og framkvæmdaáætlunar sem byggist á framangreindum fjórum meginmarkmiðum ILO. Framangreind atriði eru nánar útfærð í skýrslunni sem almennt mæltist mjög vel fyrir hjá þingfulltrúunum. Virðist svo sem hinn nýi forstjóri njóti mikils álits og þess sé vænst að honum takist að efla starf stofnunarinnar verulega.
    Í viðauka við skýrslu forstjórans er fjallað um aðstæður launafólks á hernumdu svæðunum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Fjallað var sérstaklega um þetta málefni í allsherjarþinginu.

2.3. FJÁRMÁL

    Alþjóðavinnumálaþingið afgreiðir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina til tveggja ára í senn. Fjallað er um fjármálin í sérstakri þingnefnd, fjárhagsnefnd, sem í eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna. Formaður nefndarinnar var kjörinn Bjorn Jonzon frá Svíþjóð og varaformaður P. Klekner frá Ungverjalandi.
    Fjárhagsáætlunin fyrir árin 1998–1999 var 481 millj. Bandaríkjadala (702.333.000 svissneskir frankar) en tillaga fyrir árin 2000–2001 hljóðaði upp á 467.470.000 Bandaríkjadala (715.229.100 svissneskir frankar). Hlutdeild Íslands í árgjöldunum er 0,031%. Árgjald Íslands á árinu 2000 verður samkvæmt því 110.861 svissneskir frankar.

2.4. FRAMKVÆMD SAMÞYKKTA OG TILLAGNA

    Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta er ein fjölmennasta nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins. Á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu sátu í nefndinni 228 fulltrúar með atkvæðisrétt, 109 fulltrúar ríkisstjórna, 25 fulltrúar atvinnurekenda og 94 fulltrúar launafólks. Auk þess sátu 189 áheyrnarfulltrúar þessara hópa fundi nefndarinnar. Þá áttu 44 alþjóðasamtök áheyrnarfulltrúa í nefndinni.
    Formaður nefndarinnar var að þessu sinni kosin R. Dimapilis-Baldos, ríkisstjórnarfulltrúi frá Filippseyjum. Varaformenn voru kosnir þeir sömu og undanfarin vinnumálaþing: Alfred Wisskirchen, fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, og Willy Peirens, fulltrúi launafólks í Belgíu. Af hálfu Íslands sátu í nefndinni Elín Blöndal, Gylfi Kristinsson, Ástráður Haraldsson, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón Magnússon.
    Nefndin hélt samtals 18 fundi. Umræður í henni byggjast á skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Í skýrslunni gerir sérfræðinganefndin almennt grein fyrir framvindu mála varðandi framkvæmd samþykkta og tillagna sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um framkvæmd einstakra aðildarríkja á samþykktum sem þau hafa fullgilt. Einnig er að finna upplýsingar um það hvernig aðildarríkin uppfylla aðrar skuldbindingar, t.d. þá að kynna fyrir löggjafarsamkomu samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins og hvort alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf hafa borist skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta eins og áskilið er í stofnskrá ILO.
    Störf þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta hefjast á umræðum um almenna hluta skýrslu sérfræðinganna. Fjölmargir fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks tóku þátt í umræðunum. Formaður sérfræðinganefndarinnar, William Douglas, var viðstaddur almennar umræður í nefndinni.
    Að vanda gerðu margir að umtalsefni skoðanaskipti sem hafa orðið um hlutverk annars vegar þingnefndarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og hins vegar sérfræðinganefndar ILO. Einnig var fjallað um fjölda fullgildinga, skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og nokkur önnur atriði sem fram koma í almennum hluta skýrslunnar.
    Fulltrúi Svíþjóðar hafði að þessu sinni orð fyrir fulltrúum ríkisstjórna Norðurlandanna. Í ræðu sinni benti hann m.a. á mikilvægi nefndar ILO sem fjallar um mál varðandi félagafrelsi. Hann kvað einnig mikilvægt skref hafa verið stigið með samþykkt yfirlýsingar um grundvallarréttindi launafólks á Alþjóðavinnumálaþinginu 1998 sem styrkti mjög möguleika Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að fylgja eftir þeim grundvallarmannréttindum sem starf stofnunarinnar byggist á. Fulltrúinn tók sérstaklega til umfjöllunar það vandamál að sífellt færri ríki fullgilda nýjar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í því sambandi sé mikilvægt að þau alþjóðlegu viðmið sem stofnunin setji séu raunhæf og gagnleg ríkjum. Þannig þurfi m.a. að vanda betur undirbúning nýrra samþykkta. Loks lýsti hann yfir stuðningi við hugmyndir um að breyta starfsskipulagi nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, m.a. þannig að styttri tíma verði eytt í almennar umræður en meiri áhersla lögð á að fjalla um brot ríkja á samþykktum stofnunarinnar.
    Í nefndinni kom einnig til umfjöllunar skýrsla nefndar sem fjallar um endurskoðun samþykkta og tillagna ILO. Nefndin hefur unnið að því að fara yfir samþykktir og tillögur stofnunarinnar í því tilliti að gera tillögur um að þær sem eru úreltar eða koma ekki lengur að gagni við að ná fram markmiðum hennar verði felldar úr gildi. Byggist þetta á breytingum á stofnskrá ILO sem afgreiddar voru á 85. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1997. Ísland fullgilti þessar breytingar í lok árs 1999.
    Í síðari hluta almennra umræðna var fjallað um skýrslu sérfræðinganefndarinnar um framkvæmd samþykkta nr. 97 (1949) og 143 (1975) er varða réttindi farandverkafólks. Ástæða þess að stjórnarnefnd ILO ákvað að hafa þetta málefni á dagskrá 87. Alþjóðavinnumálaþingsins var einkum sú staðreynd að tiltölulega fá ríki hafa fullgilt þessar samþykktir. Þannig hafði 41 ríki fullgilt samþykkt nr. 97 í lok árs 1998 og 18 ríki fullgilt samþykkt nr. 143 á sama tíma. Þá höfðu aðeins 12 ríki fullgilt báðar þessar samþykktir.
    Í umræðunum var m.a. fjallað um stóraukinn fólksflutning á milli landa og mikilvægi þess að Alþjóðavinnumálastofnunin fjalli áfram um þetta málefni. Skiptar skoðanir voru aftur á móti um hvernig rétt sé að standa að málum, svo sem með því að endurskoða gildandi samþykktir, með þríhliða ráðstefnu um fólksflutninga eða með almennri umræðu um málið á Alþjóðavinnumálaþinginu.

Umfjöllun um framkvæmd einstakra ríkja á alþjóðasamþykktum.

    Að venju var mestum hluta af starfstíma þingnefndarinnar varið í umfjöllun um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum og um athugasemdir sem sérfræðinganefndin gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á ákvæðum í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða í samþykktum sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Athugasemdirnar eru í árlegri skýrslu sérfræðinganefndarinnar til þingsins. Þar sem athugasemdirnar eru mun fleiri en nokkur kostur er að taka til umfjöllunar á þinginu vinnur nefndin eftir skrá yfir mál sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins koma sér saman um að tekin verði til athugunar í nefndinni. Á seinni árum hefur málum verið skipt í tvo flokka. Annars vegar eru málefni sem rekja má til vanrækslu af hálfu aðildarríkjanna. Misbrestur á því að kynna löggjafarsamkomu nýjar samþykktir eða tillögur er dæmi um mál af þessu tagi. Hinn flokkinn fylla alvarleg brot aðildarríkja á samþykktum. Þessi mál eru tekin til efnislegrar umfjöllunar sem getur tekið nokkrar klukkustundir allt eftir efni og alvarleika. Brot á grundvallarsamþykktum ILO eru litin sérstaklega alvarlegum augum.
    Samtals var fulltrúum 23 aðildarríkja stefnt fyrir nefndina til að taka þátt í umræðum um meint brot á alþjóðasamþykktum og mættu fulltrúar 21 ríkis. Ríkin tvö (Afganistan og Djíbútí) sem ekki sendu fulltrúa fyrir nefndina höfðu ekki sent sendinefnd til þingsins.

Sérstakar ábendingar.

    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum samþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja verknaðarins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Að þessu sinni var þessum viðurlögum beitt gagnvart tveimur ríkjum, annars vegar Burma vegna brota á samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu og nr. 87 um félagafrelsi og hins vegar Kamerún vegna brota á samþykkt nr. 87. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir málum þeirra.

Burma.

    Sérfræðinganefnd ILO hefur fordæmt framkvæmd nauðungarvinnu í Burma í yfir 35 ár. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin ekki gripið til neinna aðgerða til að tryggja að ákvæði samþykktar nr. 29 um bann við nauðungarvinnu séu virt. Þvert á móti virðist sem nauðungarvinna hafi orðið algengari og umfangsmeiri með árunum. Þannig sýna gögn að almenningur í landinu er neyddur af ríkisstjórninni og hernum til ýmiss konar vinnu, svo sem til burðar, byggingarvinnu, vegavinnu, brúargerðar og gerðar járnbrauta, viðhalds og þjónustu í herbúðum og annarrar vinnu í þágu ríkisins og hersins og jafnvel í þágu einkaaðila. Þessi nauðungarvinna bitnar m.a. illa á konum, börnum, eldra fólki og minnihlutahópum í Burma. Þetta er í fjórða skipti á síðastliðnum átta árum sem þingnefndin fjallar um brot ríkisins á samþykkt nr. 29 og árið 1996 var máls Burma getið í sérstökum hluta skýrslu hennar sem dæmi um alvarlegt brot á að uppfylla skyldur samkvæmt fullgiltri samþykkt.
    Við umræður um málið flutti fulltrúi ríkisstjórnar Bretlands ræðu í nafni þrettán ríkisstjórna, þar á meðal ríkisstjórnar Íslands. Hann lýsti yfir þungum áhyggjum þessara ríkja af ástandi mála í Burma og skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart skýrslum, niðurstöðum og aðvörunum nefnda ILO. Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarfulltrúa Burma annars efnis væri ljóst af nýlegri skýrslu forstjóra ILO að ríkið hefði ekki farið að tilmælum rannsóknarnefndar ILO og að almenningur í ríkinu þjáðist áfram vegna kerfisbundinnar misnotkunar og mannréttindabrota. Fulltrúinn varaði við því að Alþjóðavinnumálastofnunin og eftirlitskerfi hennar mundi bíða hnekki ef ekki væru teknar ótvíræðar og afgerandi ákvarðanir af hálfu stofnunarinnar til að tryggja að stjórnvöld í Burma uppfylltu skuldbindingar sínar gagnvart henni án frekari tafa. Því ætti að skoða allar tiltækar ráðstafanir í því efni og þingnefndin ætti að gefa stofnuninni sem skýrast umboð til slíkra aðgerða.
    Í niðurstöðu þingnefndarinnar segir m.a. að þær skýringar sem ríkisstjórnin hafi látið í té séu ekki í samræmi við þær upplýsingar sem nefndir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafi aflað um ástand mála. Lýst var vonbrigðum yfir að ríkisstjórn Burma hefði ekki heimilað rannsóknarnefnd ILO að heimsækja ríkið til að meta ástandið. Þá beindi nefndin því til stjórnarnefndar, sérfræðinganefndar og skrifstofu ILO að halda áfram öllum mögulegum aðgerðum til að tryggja að ríkið fylgdi tilmælum rannsóknarnefndarinnar sem fram koma í skýrslu hennar frá því í ágúst 1998 en þær staðfesta og fela í sér nánari útfærslu á niðurstöðum sérfræðinganefndarinnar.
    Þingnefndin hefur einnig fjallað ár eftir ár um framkvæmd Burma á samþykkt nr. 87 um félagafrelsi. Í skýrslum sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins hefur árum saman komið fram að ríkisstjórnin hafi ekki gripið til neinna aðgerða til að tryggja að ákvæði samþykktarinnar væru virt þrátt fyrir síendurtekin loforð um umbætur. Í niðurstöðum nefndarinnar var, með hliðstæðum hætti og að framan greinir varðandi samþykkt nr. 29, getið síendurtekinna og viðvarandi alvarlegra brota ríkisins á samþykkt nr. 87 í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar til allsherjarþingsins.

Kamerún.

    Þingnefndin samþykkti að geta Kamerún í sérstökum hluta skýrslu sinnar til allsherjarþingsins vegna alvarlegra brota á samþykkt nr. 87 um félagafrelsi. Í niðurstöðu nefndarinnar bendir hún á að mál Kamerún hefur oftsinnis verið til umfjöllunar í nefndinni og lýsir hún yfir vonbrigðum með að þrátt fyrir það hafi engar umbætur átt sér stað. Nefndin hvatti ríkið til að grípa til virkra ráðstafana til að afnema hindranir á félagafrelsi, þar á meðal kröfur um leyfi til að stofna stéttarfélög og til að tryggja að allt launafólk eigi rétt á að ganga í og setja á stofn stéttarfélög að eigin vali. Nefndin lýsti yfir áhyggjum yfir að Kamerún hefur ekki skilað skýrslum um framkvæmd samþykktarinnar árum saman og hvatti ríkið til að skila sérfræðinganefndinni nákvæmri skýrslu um aðgerðir til að færa löggjöf og framkvæmd til samræmis við skuldbindingar samkvæmt samþykktinni.

Íran.

    Til viðbótar við framangreint er rétt að gera grein fyrir umfjöllun um mál Írans í þingnefndinni.
    Á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu flutti fulltrúi ríkisstjórnar Hollands ræðu í nafni 14 ríkisstjórna, þar á meðal Íslands, við umræðu um framkvæmd Írans á samþykkt nr. 111 (1958) er varðar misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa. Málið, sem varðar mismunun með tilliti til kynferðis og trúar, hefur verið oftsinnis til umræðu í nefndinni, frá 1983 til 1990 og 1993. Árin 1996 og 1997 var ríkisins getið í sérstökum hluta skýrslu þingnefndarinnar til allsherjarþingsins.
    Í ræðu sinni kvað fulltrúinn ljóst að nokkur árangur hefur átt sér stað að því er snertir aukna atvinnuþátttöku og menntun kvenna. Þrátt fyrir þann árangur sé frekari aðgerða þörf í þessu efni, sérstaklega varðandi menntun bæði karla og kvenna og til að afnema mismunun með tilliti til trúar. Þannig leiddi sú staðreynd að aðeins hluti trúarlegra minnihlutahópa væri viðurkenndur af hálfu ríkisins til mismununar með tilliti til atvinnu og menntunar. Þetta ætti sérstaklega við um Baháa-trúarhópinn sem er stærsti trúflokkur í Íran en samt sem áður ekki viðurkenndur sem slíkur. Fulltrúinn kvað mikilvægt að ríkisstjórn Írans hefði samþykkt samvinnu við alþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Alþjóðavinnumálastofnunina, en jákvæðari viðhorf væru ekki nægileg heldur væri kominn tími til fyrir ríkisstjórnina að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samþykkt nr. 111 að fullu.
    Í niðurstöðu þingnefndarinnar er með jákvæðum hætti gefinn gaumur að þeim framförum sem hafa átt sér stað í Íran til að stuðla að atvinnu kvenna og trúarlegra minnihlutahópa en um leið bent á að enn sé óljóst hverjar raunverulegar niðurstöður um árangur eru í þessu efni. Nefndin lýsti jafnframt yfir ánægju sinni með ósk ríkisstjórnar Íran um að sérstök nefnd ILO kanni framkvæmd stjórnvalda varðandi þau atriði sem sérfræðinganefndin gerði athugasemdir við í skýrslu sinni. Þá tók nefndin mið af jákvæðu viðhorfi ríkisstjórnarinnar í þá átt að bæta framkvæmd samþykktarinnar. Hún óskaði eftir frekari upplýsingum um málið og lýsti yfir þeirri von að ríkisstjórn Íran mundi sem fyrst geta gefið skýrslu til sérfræðinganefndarinnar sem staðfesti að löggjöf og framkvæmd í ríkinu væru í fullu samræmi við samþykkt nr. 111.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum.

    Í skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins koma ekki fram allar ábendingar eða athugasemdir sem hún gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á fullgiltum alþjóðasamþykktum. Í kafla um framkvæmd samþykktar nr. 98 er þó að finna umfjöllun vegna samþykktarinnar en þar kemur fram að nefndin veitir athygli breytingum á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, árið 1996 en gerir ekki athugasemdir að öðru leyti.

Framkvæmd samþykktar nr. 98 um félagafrelsi og réttinn til að gera kjarasamninga.

    Í skýrslunni til 87. Alþjóðavinnumálaþingsins vísar sérfræðinganefndin til fyrri athugasemda sinna varðandi mikilvægi þess að ríkisstjórnin forðist að grípa inn í kjarasamninga sem gerðir hafi verið með frjálsum samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins þar sem slíkt skerði rétt launafólks og atvinnurekenda til að semja um kjör og vinnuskilyrði. Nefndin kveðst veita athygli upplýsingum í skýrslu ríkisstjórnarinnar um að vinnuhópur um samskiptareglur á vinnumarkaði sem félagsmálaráðherra skipaði í október 1994 hafi skilað áfangaskýrslu í nóvember 1995 eftir 48 fundi. Í framhaldi af tillögum starfshópsins hafi verið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1996 og það síðan verið samþykkt á Alþingi sem lög nr. 75/1996. Nefndin veitir því athygli að lagabreytingarnar mæla ekki fyrir um bindandi gerðadóma að ósk annars aðila eða að frumkvæði yfirvalda.

Framkvæmd annarra samþykkta.

    Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar er ekki fjallað frekar um framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykktum ILO en niðurstöður nefndarinnar að því er Ísland varðar byggðust á skýrslum ríkisstjórnarinnar frá 1998 um framkvæmd eftirfarandi samþykkta: Nr. 2 um ráðstafanir gegn atvinnuleysi, nr. 29 um nauðungarvinnu, nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, nr. 98 um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, nr. 100 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, nr. 102 um lágmark félagslegs öryggis, nr. 108 um persónuskírteini sjómanna, nr. 122 um stefnu í atvinnumálum og nr. 139 um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini. Hins vegar kemur fram í skýrslunni að ríkisstjórninni hafi verið sendar bréflega ábendingar og athugasemdir við framkvæmd samþykkta.
    Að því er snertir alþjóðasamþykkt nr. 108, um persónuskírteini sjómanna, bendir sérfræðinganefndin á að ekki er vísað til samþykktar nr. 108 í sjóferðabókum sem gefnar eru út á Íslandi. Með vísan til 2. mgr. 4. gr. samþykktarinnar óskar nefndin eftir því að íslensk stjórnvöld grípi til viðeigandi aðgerða til að bæta úr þessu.
    Þá kveðst sérfræðinganefndin gefa gaum að þeim upplýsingum sem veittar eru í skýrslu ríkisstjórnarinnar um framkvæmd samþykktar nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini og óskar eftir nánari upplýsingum um ýmis atriði í næstu skýrslu ríkisstjórnarinnar.
    

2.5. AFNÁM BARNAVINNU Í SINNI VERSTU MYND

    Á þinginu fór fram önnur umræða um drög að samþykkt um bann við og afnám barnavinnu í sinni verstu mynd í sérstakri þingnefnd. Nefndin kaus A. Atsain, ríkisstjórnarfulltrúa frá Fílabeinsströndinni, sem formann. Varaformenn voru kosnir B. Botha, fulltrúi atvinnurekenda í Suður-Afríku, og L. Trotman, fulltrúi launafólks á Barbadoseyjum.
    Nefndin hélt samtals 20 fundi. Fyrir henni lá það verkefni að komast að niðurstöðu um texta sem kæmi til viðbótar samþykkt nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu, og hefði það að markmiði að útrýma barnavinnu eins og hún gerist verst. Í nefndinni varð mikil umfjöllun um hermennsku barna, þ.e. hvort leggja ætti bann við henni í samþykktinni. Var m.a. uppi það álitamál hvort láta ætti nefnd, sem hefur unnið að gerð viðauka við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eftir að fjalla um þetta málefni eða hvort málefnið ætti undir samþykktina. Fulltrúar margra ríkja, svo sem Bandaríkjanna, voru einarðir í þeirri afstöðu sinni að ekki kæmi til greina að banna hermennsku einstaklinga yngri en 18 ára með öllu. Málamiðlunin varð sú að leggja bann við að börn séu skylduð eða neydd til að gegna hermennsku. Með börnum er í samþykktinni átt við einstaklinga undir 18 ára aldri.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Kanada flutti ræðu, m.a. í nafni ríkisstjórnar Íslands, við umræðu um skýrslu nefndarinnar um barnavinnu á allsherjarþinginu. Í henni var lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við samþykktina og lýst yfir þeirri trú að hún muni verða mikilvægt tæki til verndar börnum. Fulltrúinn kvað mikilvægt að tafarlausum aðgerðum verði beitt gegn barnavinnu í sinni verstu mynd. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé miðað við 15 ára aldur varðandi hermennsku barna en í þessari nýju samþykkt sé lágmarksaldurinn hækkaður í 18 ár og um leið staðfest að hún sé meðal verstu tegunda barnavinnu. Litið sé á þessa samþykkt sem fyrsta skrefið í þá átt að 18 ára aldur verði alþjóðlegt viðmið um algjört bann við hermennsku og þátttöku barna í stríði. Aðildarríki ILO voru í yfirlýsingunni hvött til að nota tækifærið og tryggja að þetta viðmið verði sett í viðauka við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá voru ríkin einnig hvött til að greiða atkvæði með þessari samþykkt.
    Við atkvæðagreiðslu í allsherjarþinginu kom í ljós sú einstæða samstaða sem var um afgreiðslu málsins en þar greiddu 415 þingfulltrúar atkvæði með afgreiðslu samþykktarinnar, ekkert atkvæði var á móti og enginn fulltrúi sat hjá.
    Samþykktinni er ætlað að koma til fyllingar samþykkt ILO nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu, sem fullgilt var af Íslands hálfu árið 1999. Samkvæmt samþykktinni skuldbinda aðildarríki hennar sig til að leggja bann við og afnema verstu tegundir barnavinnu. Undir það fellur, samkvæmt skilgreiningu samþykktarinnar, þrælkun eða athæfi sem líkja má við þrælkun, vændi, klám, notkun barna í ólögmætum tilgangi, svo sem við sölu eiturefna og vinna sem er hættuleg heilsu, öryggi eða siðferði barna. Ísland fullgilti samþykkt nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd, í lok maí 2000. Er staðfestur skráningardagur fullgildingarskjals Íslands 29. maí og í samræmi við ákvæði 10. gr. samþykktarinnar. Hún mun því ganga í gildi hvað Ísland varðar 29. maí 2001.

2.6. MÆÐRAVERND

    Sérstök þingnefnd tók til fyrstu umræðu drög að samþykkt um vernd barnshafandi kvenna. Formaður nefndarinnar var kosin A. Andersen, ríkisstjórnarfulltrúi frá Danmörku. Varaformenn voru kosin A. Knowles, fulltrúi atvinnurekenda á Nýja-Sjálandi, og U. Engelen-Kefer, fulltrúi launafólks í Þýskalandi.
    Nefndin hélt samtals 19 fundi. Fyrir henni lá það verkefni að ræða tillögur um endurskoðaðan texta eldri samþykktar um sama efni nr. 103 frá 1952 með hliðsjón af breyttum viðhorfum og aðstæðum varðandi vernd kvenna í tengslum við barnsburð og fæðingu. Jafnframt lá fyrir að nokkur ákvæði eldri samþykktarinnar þykja of ósveigjanleg og því hafa tiltölulega fá ríki fullgilt hana.
    Í skýrslu nefndarinnar til allsherjarþingsins eru lagðar til talsverðar breytingar frá réttindum samkvæmt samþykkt nr. 103, svo sem að því er snertir gildissvið samþykktarinnar, fæðingarorlof, greiðslur í fæðingarorlofi, aukna vernd barnshafandi kvenna gegn brottrekstri úr starfi og aðferðir til að vernda barnshafandi konur gegn mismunun í starfi.
    Þessi fyrsta umræða um samþykktina leggur grunn að síðari umræðu um málið á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2000 en þá reynir á hvort það tekst að ná samkomulagi um efni nýrrar samþykktar um mæðravernd.

2.7. TÆKNI- OG ÞRÓUNARSAMVINNA

    Almenn umræða fór fram í sérstakri þingnefnd um tæknisamvinnu og þróunaraðstoð. Málefnið sem er reglulega til umræðu var síðast til umfjöllunar á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1993 og samþykkti stjórnarnefnd ILO að það yrði á ný á dagskrá 87. Alþjóðavinnumálaþingsins. Formaður nefndarinnar var kostinn Rafael Alburquerque, ríkisstjórnarfulltrúi í Dóminíska lýðveldinu, og varaformenn Azad Jeetun, fulltrúi atvinnurekenda á Máritíus, og William Brett, fulltrúi launafólks í Bretlandi. Nefndin hélt samtals 8 fundi. Alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði fyrir þingið tekið saman skýrslu um þetta efni og auk þess lá fyrir skýrsla forstjóra ILO um skipulag tækni- og þróunarsamvinnu. Í skýrslu forstjórans eru lagðar til nýjar leiðir í þessu efni og lagt til að aðstoðin grundvallist á fjórum meginmarkmiðum stofnunarinnar sem eru grundvallarréttindi í atvinnulífinu, atvinna, félagsleg vernd og samráð aðila vinnumarkaðarins. Lögð er áhersla á að markmið þurfi að vera skýr, í takt við tímann og í samræmi við þarfir þeirra sem aðstoðarinnar njóta. Tæknileg samvinna eigi ekki að takmarkast við aðstoð til ríkja svo þau geti fullgilt samþykktir ILO heldur sé markmiðið einnig að hún stuðli að möguleikum samtaka aðila vinnumarkaðarins til að taka að fullu þátt í þróuninni. Aðstoðin á að leiða til varanlegs árangurs, efla samtök aðila vinnumarkaðarins og þríhliða samstarf þeirra og ríkisstjórna, auk þess að stuðla að félagslegu jafnvægi á lands-, svæðis- og alþjóðavísu. Umræður í nefndinni snerust einkum um hlutverk ILO varðandi tækni- og þróunaraðstoð og lýstu fulltrúar almennt yfir stuðningi sínum við áætlunina sem grundvallast eins og að framan greinir á fjórum grundvallarmarkmiðum stofnunarinnar og átta framkvæmdaáætlunum sem þeim tengjast, svokölluðum „InFocus“-áætlunum. Í ályktun nefndarinnar, sem samþykkt var af allsherjarþinginu, var því jafnframt beint til skrifstofu ILO að hún tæki framkvæmd aðstoðarinnar til endurskoðunar í því skyni að hámarka áhrif hennar og sýnileika. Í ályktuninni er einnig lögð áhersla á þörfina fyrir að styrkja samstarfið við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og Bretton Woods-stofnanirnar.
    Þess má geta að útgjöld stofnunarinnar á árinu 1998 vegna tæknisamvinnu og þróunaraðstoðar voru 95 millj. Bandaríkjadala sem varið var til yfir 1.500 verkefna af margvíslegum toga, svo sem til baráttu gegn barnavinnu, félagslegri útilokun og mismunun, til að stuðla að atvinnu og öryggi og hollustu á vinnustöðum, til að styrkja stéttarfélög og samtök atvinnurekenda og til að stuðla að samráði aðila vinnumarkaðarins.

2.8. ÁLYKTUN VEGNA NAUÐUNGARVINNU Í BURMA

    Til viðbótar við harðorðar niðurstöður nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta vegna brota Burma á samþykktum ILO nr. 29 og 87 var á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu samþykkt harðorð ályktun þar sem ríkið var fordæmt vegna viðvarandi brota á samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu og þess að það hefur hunsað að fara eftir niðurstöðum og tilmælum eftirlitsaðila Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um úrbætur. Í ágúst 1998 skilaði sérstök rannsóknarnefnd ILO niðurstöðum sínum vegna máls Burma. Þar kemur fram að víðtæk nauðungarvinna á sér stað í ríkinu. Í skýrslu forstjóra ILO til stjórnarnefndarinnar frá 21. mars 1999 um aðgerðir ríkisstjórnar Burma í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að ekki hafi verið farið að þeim tilmælum sem þar er beint til hennar.
    Í ályktun allsherjarþingsins segir að viðhorf og hegðun ríkisstjórnar Burma sé verulega í ósamræmi við þau skilyrði og grundvallarviðmið sem aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni byggist á. Einnig að stöðva eigi alla tæknilega samvinnu og þróunaraðstoð til Burma af hálfu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nema um sé að ræða beina aðstoð í þeim tilgangi að hrinda tafarlaust í framkvæmd tilmælum rannsóknarnefndarinnar. Þá segir að ríkisstjórn Burma skuli verða útilokuð frá því að sækja fundi og ráðstefnur á vegum ILO nema í þeim tilgangi einum að tryggja tafarlausa og fulla framkvæmd á tilmælum rannsóknarnefndarinnar. Ályktunin var samþykkt í allsherjarþinginu með 333 atkvæðum gegn 27 en 47 þingfulltrúar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Ályktuninni er ætlað að vera í gildi þar til Burma hefur hrint í framkvæmd tilmælum rannsóknarnefndarinnar um að endurskoða löggjöf sína og færa hana til samræmis við samþykkt nr. 29 og þar að auki látið af þeim brotum á grundvallarmannréttindum sem eiga sér stað í ríkinu.

2.9. SAMSTARF VIÐ FULLTRÚA ANNARRA RÍKJA

    Alþjóðavinnumálaþingið er meðal umfangsmeiri alþjóðaþinga sem haldin eru. Í þessari skýrslu kemur fram að þingstörfum er fram haldið samtímis á allsherjarþingi og í fjölmörgum þingnefndum. Ljóst er að það er borin von fyrir litla sendinefnd eins og þá íslensku að geta fylgst með öllu sem fram fer. Þess vegna skiptir samstarf við aðra miklu máli. Þar vega þyngst vikulegir samráðsfundir fulltrúa ríkisstjórna Norðurlandanna. Á þeim fer fram kynning á stöðu málefna í einstökum nefndum og lögð á ráðin um sameiginlegt ræðuhald Norðurlandanna á allsherjarþinginu og í nefndum.
    Annað atriði, sem er til þess fallið að létta sendinefndinni þingstörfin, er samráðsfundir fulltrúa vestrænna iðnríkja (IMEC). Þessir fundir eru haldnir daglega og á þeim er farið yfir þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni. Með þátttöku í þessum fundum má fá gott yfirlit yfir það sem er að gerast á þessu fjölmenna alþjóðaþingi. Fundirnir eru einnig góður vettvangur til að kynna tillögur sem fulltrúar einstakra ríkja ráðgera að flytja í þingnefndum. Á þeim er einnig fjallað um mál sem eru til umfjöllunar í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, einkum ef þau snerta ríki sem eiga aðild að hópnum. Loks eru oft tekin til umfjöllunar drög að ræðum sem fulltrúar einstakra ríkja hyggjast flytja annaðhvort í eigin nafni eða fyrir hönd fleiri ríkja eða hópsins í heild.


Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 182, um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd
og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,
    sem kom saman til 87. þingsetu sinnar í Genf 1. júní 1999 að kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og
    með hliðsjón af því að þörf er á að setja ný viðmið um að banna barnavinnu í sinni verstu mynd og afnema hana og að veita ber slíkum aðgerðum sem mestan forgang bæði innan einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu og aðstoð, til fyllingar samþykkt og tilmælum um lágmarksaldur við vinnu frá 1973 sem áfram eru grundvallarviðmið um barnavinnu og
    að teknu tilliti til þess að raunverulegt afnám barnavinnu í sinni verstu mynd krefst tafarlausra og víðtækra aðgerða þar sem tillit verði tekið til mikilvægis grundvallarmenntunar börnum að kostnaðarlausu og þess að taka verður börn sem þannig er ástatt um úr allri slíkri vinnu og sjá þeim fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun um leið og brugðist er við þörfum fjölskyldna þeirra og
    sem minnist ályktunar um afnám barnavinnu sem samþykkt var á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1996,
    sem gerir sér grein fyrir að barnavinna er að miklu leyti afleiðing fátæktar og að langtímalausn á þessu vandamáli felst í viðvarandi hagvexti sem leiðir til félagslegra framfara, einkum til afnáms fátæktar og að allir eigi kost á menntun og
    sem minnist Samningsins um réttindi barnsins sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 20. nóvember 1989,
    sem minnist yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir sem samþykktar voru á 86. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1998,
    
sem minnist þess að aðrir alþjóðasáttmálar taka til barnavinnu í nokkrum verstu myndum sínum, einkum samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu frá 1930 og samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám þrælahalds og þrælasölu frá 1956 og
    sem hefur komið sér saman um ákveðnar tillögur varðandi barnavinnu sem er fjórða mál á dagskrá þingsins og
    að tekinni ákvörðun um að tillögur þessar skuli birtast í formi alþjóðasáttmála,
    gerir hinn sautjánda júní árið 1999 eftirfarandi samþykkt sem vísa má til sem Samþykktar um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999.

1. gr.

    Hvert aðildarríki sem fullgildir samþykkt þessa skal þegar í stað gera virkar ráðstafanir til að tryggja bann við og afnám barnavinnu í sinni verstu mynd og skal litið á það sem brýnt verkefni.

2. gr.

    Í samþykkt þessari á orðið barn við um hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri.

3. gr.

    Í samþykkt þessari á hugtakið „barnavinna í sinni verstu mynd“ við um eftirfarandi:
     a.      Hvers konar þrælkun eða framkvæmd sem jafna má til þrælkunar, svo sem sölu og verslunar með börn, skuldaránauð, aðra ánauð og nauðungar- eða skylduvinnu, þar með talið að börn séu neydd eða skylduð til þátttöku í vopnuðum átökum.
     b.      Notkun, öflun eða framboð barna til vændis, til framleiðslu á klámi eða til klámsýninga.
     c.      Notkun, öflun eða framboð barna til ólöglegra athafna, einkum til framleiðslu og verslunar með ávana- og fíkniefni eins og þau eru skilgreind í viðeigandi alþjóðasáttmálum.
     d.      Störf sem vegna eðlis síns eða þeirra aðstæðna sem þau eru unnin við eru líkleg til að skaða heilsu, öryggi eða siðferði barna.

4. gr.

    1.     Tilgreina skal hvaða störf falla undir d-lið 3. gr. með landslögum eða reglum eða af þar til bæru yfirvaldi að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks og með tilliti til viðeigandi alþjóðlegra viðmiða, einkum 3. og 4. gr. tilmæla um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999.
    2.     Þar til bært yfirvald skal að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks tilgreina hvar störf sem þannig hafa verið ákvörðuð eru stunduð.
    3.     Skrá um þau störf sem tilgreind eru samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skal yfirfarin reglulega og endurskoðuð eins og þörf krefur í samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks.

5. gr.

    Hvert aðildarríki skal að höfðu samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks koma á viðeigandi tilhögun til að fylgjast með framkvæmd þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar eða fela viðeigandi aðilum að gera það.

6. gr.

    1.     Hvert aðildarríki skal hafa sem forgangsverkefni að setja sér og framkvæma aðgerðaáætlanir til að uppræta barnavinnu í sinni verstu mynd.
    2.     Slíkar aðgerðaáætlanir skulu gerðar og framkvæmdar í samráði við viðeigandi stofnanir ríkisvaldsins og samtök atvinnurekenda og launafólks og taka eins og við kann að eiga tillit til sjónarmiða annarra hópa sem þær varða.

7. gr.

    1.     Hvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja innleiðingu og framkvæmd þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar og framfylgja þeim, þar á meðal með því að mæla fyrir um refsiviðurlög og beitingu þeirra eða önnur viðurlög eins og við kann að eiga.
    2.     Með tilliti til mikilvægis menntunar við að uppræta barnavinnu skal hvert aðildarríki gera virkar ráðstafanir innan ákveðins frests til að:
     a.      koma í veg fyrir að börn séu sett í barnavinnu í sinni verstu mynd,
     b.      veita nauðsynlega og viðeigandi beina aðstoð til að taka börn úr barnavinnu í sinni verstu mynd og til endurhæfingar þeirra og félagslegrar aðlögunar,
     c.      tryggja aðgang að grundvallarmenntun barna, þeim að kostnaðarlausu, og starfsmenntun hvarvetna þar sem það er nauðsynlegt og viðeigandi, fyrir öll börn sem tekin eru úr barnavinnu í sinni verstu mynd,
     d.      finna börn sem háð eru sérstakri áhættu og ná til þeirra og
     e.      taka tillit til sérstakra aðstæðna stúlkna.
    3.     Hvert aðildarríki skal tilgreina það yfirvald sem ber ábyrgð á innleiðingu þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar.

8. gr.

    Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að aðstoða hvert annað við að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktar þessarar með aukinni alþjóðlegri samvinnu og/eða aðstoð, þar með talið stuðningi við félagslega og efnahagslega uppbyggingu, áætlunum til afnáms fátæktar og menntun fyrir alla.

9. gr.

    Formlegar fullgildingar þessarar samþykktar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

10. gr.

    1.     Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2.     Hún skal öðlast gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3.     Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

11. gr.

    1.     Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynning um uppsögn skal send forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2.     Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í 1. mgr., rétt þann til uppsagnar sem þar er kveðið á um, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil en er síðan heimilt að segja henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

12. gr.

    1.     Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum stofnun
arinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2.     Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar sem honum berst skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gengur í gildi.

13. gr.

    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

14. gr.

    Þegar stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

15. gr.

    1.     Ef þingið gerir nýja samþykkt sem breytir þessari samþykkt að nokkru eða öllu leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg skal:
     a.      fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist.
     b.      aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2.     Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

16. gr.

    Enskur og franskur texti þessarar samþykktar er jafngildur.



Fylgiskjal II.


Tilmæli nr. 190, um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd
og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,
    sem kom saman til 87. þingsetu sinnar í Genf 1. júní 1999 að kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    sem undirritað hefur Samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999 og
    sem hefur ákveðið að samþykkja ákveðnar tillögur varðandi barnavinnu sem er fjórða mál á dagskrá þingsins og
    sem hefur ákveðið að tillögur þessar verði í formi tilmæla, til fyllingar samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999,
    samþykkir hinn sautjánda júní 1999 eftirfarandi tilmæli sem vísa má til sem tilmæli um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999.

    1.     Ákvæði tilmæla þessara eru til fyllingar samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999 (hér á eftir nefnd samþykktin), og ber að beita þeim jafnhliða henni.

     I. Aðgerðaáætlanir.
    2.     Aðgerðaáætlanir, sem um er fjallað í 6. gr. samþykktarinnar, ætti að ákveða og hrinda í framkvæmd með hraði , í samráði við viðeigandi ríkisstofnanir og samtök atvinnurekenda og launafólks að teknu tilliti til sjónarmiða þeirra barna sem barnavinna í sinni verstu mynd kemur beint niður á og fjölskyldna þeirra og eins og við getur átt annarra hópa sem vinna að markmiðum samþykktarinnar og tilmæla þessara. Með slíkum áætlunum ætti meðal annars að stefna að því að:
     a.      finna og fordæma barnavinnu í sinni verstu mynd,
     b.      koma í veg fyrir að börn séu sett í barnavinnu í sinni verstu mynd, taka þau úr slíkri vinnu, vernda þau fyrir hefndaraðgerðum og sjá þeim fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun með ráðstöfunum sem beinast að þörfum þeirra til menntunar sem og líkamlegum og sálfræðilegum þörfum þeirra;
     c.      veita sérstaka athygli:
                  i.      ungum börnum,
                  ii.      stúlkubörnum,
                  iii.      því vandamáli sem felst í duldum vinnuaðstæðum þar sem stúlkur búa við sérstaka áhættu,
                  iv.      öðrum hópum barna sem þarfnast sérstakrar verndar eða hafa sérstakar þarfir,
     d.      finna samfélög þar sem börn búa við sérstaka áhættu, ná til þeirra og starfa með þeim,
     e.      upplýsa almenning og gera hann meðvitaðan um vandann og nýta almenningsálit og hópa sem láta sig slíkt varða, þar á meðal börn og fjölskyldur þeirra.

     II. Hættuleg störf.
    
3.     Þegar ákvarðað er hvaða vinna fellur undir d-lið 3. gr. samþykktarinnar og skilgreint hvar slík vinna er stunduð ætti meðal annars að líta til:
     a.      vinnu þar sem börn eiga á hættu líkamlegt eða sálrænt ofbeldi eða kynferðislega misnotkun,
     b.      vinnu neðanjarðar eða undir vatnsyfirborði, í hættulegri hæð eða í þröngu rými,
     c.      vinnu við hættulegar vélar, búnað eða verkfæri eða þar sem þung vara er meðhöndluð eða flutt með handafli,
     d.      vinnu við heilsuspillandi aðstæður þar sem börnum er til dæmis hætta búin af efnum, skaðvöldum eða vinnsluferlum, hitastigi, hávaðastigi eða titringi sem spillt getur heilsu þeirra,
     e.      vinnu við sérstaklega erfiðar aðstæður, svo sem langan vinnutíma, næturvinnu eða vinnu þar sem barn er með óréttmætum hætti bundið við vinnustað sinn.
    4.     Að því er snertir þá vinnu sem vísað er til í d-lið 3. gr. samþykktarinnar og 3. gr. hér að framan gætu landslög eða reglur eða þar til bært yfirvald heimilað starf eða vinnu frá 16 ára aldri að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks með þeim skilyrðum að gætt sé til hlítar heilsu, öryggis og siðferðis þeirra barna sem í hlut eiga og að þeim hafi með fullnægjandi hætti verið veittar sérstakar leiðbeiningar eða starfsþjálfun í viðkomandi grein.

     III. Framkvæmd.
    5.1.    Safna ætti og halda við ítarlegum upplýsingum og tölfræðilegum gögnum um eðli og umfang barnavinnu, til að mynda grundvöll fyrir ákvörðun forgangsverkefna sem miða að afnámi barnavinnu í aðildarríki, einkum til að banna og afnema barnavinnu í sinni verstu mynd.
         2.     Að því marki sem unnt er þyrftu upplýsingarnar og hin tölfræðilegu gögn að fela í sér sundurliðaðar upplýsingar eftir kynferði, aldri, starfi, atvinnugrein, atvinnustöðu, skólasókn og staðsetningu. Taka ætti tillit til þess hversu mikilvæg fæðingarskráning er, þar á meðal útgáfa fæðingarvottorða.
         3.     Taka ætti saman og halda við upplýsingum um brot gegn landslögum um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar.
    6.     Taka ætti réttmætt tillit til friðhelgi einkalífs við söfnun og meðferð upplýsinga þeirra og gagna sem fjallað er um í 5. gr. hér að framan.
    7.     Senda ætti alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega þær upplýsingar sem safnað er samkvæmt ákvæðum 5. gr.
    8.     Aðildarríki ættu að koma á eða tilgreina viðeigandi tilhögun innan lands til að fylgjast með framkvæmd landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar, að höfðu samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks.
    9.     Aðildarríki ættu að tryggja að þau yfirvöld sem bera ábyrgð á að framkvæma reglur landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar hafi samstarf sín á milli og samræmi störf sín.
    10.     Ákvarða ætti í landslögum eða reglugerðum eða af þar til bæru yfirvaldi hverja draga ber til ábyrgðar ef ákvæðum landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar er ekki fylgt.
    11.     Aðildarríki ættu að því marki sem samræmist landslögum að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu sem miðar að banni við og afnámi barnavinnu í sinni verstu mynd, þar sem mikið liggur við að það verði gert, með því að:
     a.      safna saman og skiptast á upplýsingum um refsilagabrot, þar á meðal brot tengd skipulagðri alþjóðlegri samvinnu,
     b.      finna og sækja til saka þá sem fást við sölu barna og verslun með börn eða nýtingu, útvegun eða framboð á börnum til ólögmætrar starfsemi, til vændis, framleiðslu á klámi eða til klámsýninga,
     c.      skrá þá sem slík brot fremja.
    12.     Aðildarríki ættu að kveða svo á að eftirtalin barnavinna í sinni verstu mynd feli í sér refsilagabrot:
     a.      þrælkun í hvaða formi sem er eða framkvæmd sem er áþekk þrælkun, svo sem sala og verslun með börn, skuldaránauð, önnur ánauð og nauðungar- eða skylduvinna, þar með talið að börn séu neydd eða skylduð til þátttöku í vopnuðum átökum,
     b.      nýting, öflun eða framboð á barni til vændis, til framleiðslu á klámi eða til klámsýninga og
     c.      nýting, öflun eða framboð á barni til ólöglegra athafna, einkum til framleiðslu og verslunar með ávana- og fíkniefni eins og þau eru skilgreind í viðeigandi alþjóðasáttmálum, eða til athafna sem fela í sér ólöglega meðferð eða notkun á skotvopnum eða öðrum vopnum.
    13.     Aðildarríki ættu að tryggja að viðurlögum, þar með talið ef við getur átt refsiviðurlögum, sé komið fram vegna brota gegn landslögum um bann við störfum af hverju því tagi sem fjallað er um í d-lið 3. gr. samþykktarinnar og afnám slíkra starfa.
    14.     Aðildarríki ættu jafnframt að sjá til þess með hraði að þar sem við á séu fyrir hendi refsiréttarleg og borgaraleg úrræði og stjórnsýsluúrræði til að tryggja að landslögum um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar sé framfylgt með virkum hætti, svo sem með sérstöku eftirliti með fyrirtækjum sem nýtt hafa sér barnavinnu í sinni verstu mynd og ef um er að ræða ítrekuð brot að tekið sé til athugunar að afturkalla rekstrarleyfi tímabundið eða til frambúðar.
    15.     Aðrar ráðstafanir sem miða að banni við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnámi hennar gætu meðal annars falið í sér að:
     a.      upplýsa almenning, gera hann meðvitaðan um vandann og fá liðveislu hans, þar á meðal forustumenn í landsmálum og sveitarstjórnarmálum, þingmenn og dómara,
     b.      fá til liðs samtök atvinnurekenda og launafólks og almannasamtök og veita þeim leiðsögn,
     c.      veita þeim opinberu starfsmönnum sem um þessi mál fjalla, einkum eftirlitsmönnum og löggæslumönnum, svo og öðru viðkomandi fagfólki, viðeigandi þjálfun,
     d.      sjá til þess að þeir ríkisborgarar aðildarríkis sem fremja afbrot samkvæmt landslögum þess um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar verði sóttir til saka í heimalandi sínu, jafnvel þótt slík brot hafi verið framin í öðru landi,
     e.      einfalda lagalega og stjórnsýslulega málsmeðferð og tryggja að hún sé viðeigandi og tafarlaus,
     f.      hvetja til stefnumótunar með aðgerðum sem miði að því að ná fram markmiðum samþykktarinnar,
     g.      fylgjast með og kynna opinberlega þær starfsaðferðir sem best hafa gefist við afnám barnavinnu,
     h.      kynna opinberlega lagaákvæði eða aðrar ráðstafanir um barnavinnu á mismunandi tungumálum eða mállýskum,
     i.      koma á sérstökum kæruleiðum og gera ráðstafanir til að vernda gegn mismunun og hefndaraðgerðum þá sem löglega koma upp um brot gegn ákvæðum samþykktarinnar, og koma á aðstoðarleiðum eða sambandsstöðvum og umboðsmannaembættum,
     j.      gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta innra skipulag menntakerfisins og þjálfa kennara til að uppfylla þarfir drengja og stúlkna,
     k.      taka svo sem unnt er í aðgerðaáætlunum í hverju landi tillit til:
                  i.      þarfa foreldra og fullorðinna í fjölskyldum barna er starfa við aðstæður sem samþykktin tekur til, fyrir atvinnusköpun og starfsmenntun og
                  ii.      þess að foreldrar verða að vera meðvitaðir um það vandamál sem vinna barna við slíkar aðstæður er.
    16.     Aukin alþjóðleg samvinna og/eða aðstoð aðildarríkjanna í milli til að banna og afnema í raun barnavinnu í sinni verstu mynd ætti að styrkja það sem gert er innan lands og getur eftir því sem við á verið mótuð og framkvæmd í samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks. Slík alþjóðleg samvinna og/eða aðstoð ætti að fela í sér:
     a.      að nauðsynleg framlög verði veitt til framkvæmdaáætlana innan lands og á alþjóðavettvangi,
     b.      gagnkvæma lagalega aðstoð,
     c.      tæknilega aðstoð, þar með talin upplýsingaskipti,
     d.      stuðning við félagslega og efnahagslega uppbyggingu, útrýmingu fátæktar og almenna menntun.



Fylgiskjal III.


Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1999.

    Á 61. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í Genf árið 1976, var afgreidd samþykkt
nr. 144, um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Ísland fullgilti samþykktina árið 1981. Samþykktin endurspeglar það samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins sem fram fer innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skapar henni sérstöðu meðal annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í anda samþykktar nr. 144 var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins (hér eftir kölluð ILO-nefndin) sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 1999 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Ástráður Haraldsson, lögfræðingur ASÍ, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands (síðar Samtaka atvinnulífsins), Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins, sem jafnframt gegnir formennsku í nefndinni, er Elín Blöndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu.
    Verkefni nefndarinnar eru svipuð frá ári til árs, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefndin hélt samtals 16 fundi á árinu 1999. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru eftirfarandi:

Málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
a.     Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þannig skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Þá getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna.
    Á árinu 1999 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
    Nr. 11, um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks.
    Nr. 98, um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega.
    Nr. 105, um afnám nauðungarvinnu.
    Nr. 111, varðandi misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa.
    Nr. 144, varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála.
    Nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981.
    Nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra, 1983.

b.     Undirbúningur fyrir þátttöku á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 1999 um dagskrármál 87. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að samþykkt um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd og skýrslu ILO um endurskoðun á samþykkt nr. 103, um mæðravernd. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál vinnumálaþingsins.

c.    Fullgilding alþjóðasamþykkta.
    Á árinu fjallaði nefndin um hugsanlega fullgildingu Íslands á eftirfarandi alþjóðasamþykktum:
    Nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu.
    Nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum.
    Nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk         með fjölskylduábyrgð.
    Nr. 173, um vernd launa við gjaldþrot.
    Nr. 174, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys.
    Nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
    Nefndin mælti á árinu með fullgildingu samþykkta nr. 138, 147 og 156. Þá ítrekaði nefndin þá afstöðu sína að rétt væri að fullgilda gerð um breytingu á stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem samþykkt var á 85. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1997. Í breytingunni felst að bætt er við nýrri málsgrein við gildandi 19. gr. stofnskrárinnar. Samkvæmt henni getur stjórnarnefnd ILO lagt til við Alþjóðavinnumálaþingið að felldar séu úr gildi alþjóðasamþykktir sem eru úreltar eða koma ekki lengur að gagni við að ná markmiðum stofnunarinnar. Gerð þessi var fullgilt af Íslands hálfu 22. nóvember 1999. Ekki þurfti að breyta íslenskri löggjöf vegna fullgildingarinnar.
    Samþykkt nr. 138 (1973), um lágmarksaldur við vinnu, var fullgilt af Íslands hálfu 6. desember 1999. Á sama tíma var tilkynnt um uppsögn Íslands á samþykkt nr. 15, um lágmarksaldur kyndara og kolamokara (1921). Þá fól fullgilding samþykktarinnar sjálfkrafa í sér uppsögn endurskoðaðrar samþykktar nr. 58, um lágmarksaldur barna við sjómennsku (1936). Samþykktin tekur gildi fyrir Ísland 6. desember 2000. Fullgilding samþykktarinnar kallaði ekki á lagabreytingar hér á landi.
    Ísland fullgilti samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum, 11. maí 1999 (gildistaka 11. maí 2000).
    Nefndin gerði tillögu til félagsmálaráðherra um lagaákvæði vegna samþykktar nr. 156, (1981) um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, en fyrir lá að breyta þyrfti lögum hér á landi vegna fullgildingar samþykktarinnar. Var það vegna ákvæðis hennar um að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs. Frumvarpið var lagt fram á 124. löggjafarþingi vorið 1999 en varð ekki útrætt. Það var lagt fram að nýju á 125. löggjafarþingi haustið 1999.
    Á síðari hluta ársins fór nefndin yfir íslenska þýðingu á samþykkt ILO nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd og hóf jafnframt umfjöllun um efni hennar. Sú umfjöllun var vel á veg komin í lok árs 1999.

Félagsmálasáttmáli Evrópu.
    Umfjöllun um aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu er meðal verkefna sem falin hafa verið ILO-nefndinni. Helstu viðfangsefni nefndarinnar í sambandi við félagsmálasáttmálann voru gerð skýrslu um framkvæmd nokkurra ákvæða sáttmálans, athugun á athugasemdum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við framkvæmd Íslands á sáttmálanum og könnun á hugsanlegri fullgildingu Íslands á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmála Evrópu frá árinu 1996.

a.    Skýrsla um framkvæmd félagsmálasáttmálans.
    Ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum 17. september 1992 að breyta til reynslu fyrirkomulagi á skýrslugjöf um framkvæmd sáttmálans. Samkvæmt 21. gr. sáttmálans skulu aðildarríki taka saman á tveggja ára fresti skýrslu um framkvæmdina. Samkvæmt því hafa aðildarríkin tekið saman annað hvert ár skýrslu um framkvæmd allra fullgiltra ákvæða sáttmálans. Enn fremur hefur þeim verið skipt í tvo hópa og hafa ríkjahóparnir skipst á um að senda Evrópuráðinu skýrslur sínar. Þessu var breytt þannig að taka skal saman á hverju ári skýrslu um framkvæmd á tilteknum fjölda greina. Aðildarríkin hafa því í raun skilað skýrslu á tveimur árum um framkvæmd ákvæða sáttmálans. Síðar var ákveðið að létta aðildarríkjunum skýrslugjöfina með því að óska einungis eftir skýrslu fjórða hvert ár um tilteknar greinar sáttmálans. Af þessum breytingum hefur leitt að sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur nú getað lagt samtímis mat á framkvæmd allra aðildarríkjanna á ákvæðum sáttmálans. Það hefur leitt til þess að betri samanburður fæst á framkvæmd ríkjanna á sáttmálanum.
    Í samræmi við breyttar reglur um skýrslur um framkvæmd á félagsmálasáttmálanum óskaði Evrópuráðið eftir skýrslu á árinu 1999 um framkvæmd á eftirtöldum greinum sáttmálans fyrir tímabilið 1. janúar 1997 til 31. desember 1998: 1. gr. (réttur til vinnu), 5. gr. (félagafrelsi), 6. gr. (réttur til að gera kjarasamninga), 12. og 13. gr. (réttur til félagslegs öryggis og til félags- og heilbrigðisaðstoðar) og 16. gr. (réttur fjölskyldunnar til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar).
    Skýrslan var unnin í samráði við ýmsa aðila, einkum fjármálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið, Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og Vinnumálastofnun.

b. Athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmálans.
    Nefndin fjallaði á árinu um athugasemdir við framkvæmd Íslands á nokkrum ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu sem koma fram í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópuráðsins sem var gefin út í niðurstöðum XIV–2 í desember 1998. Athugasemdirnar eru birtar í viðauka með þessari skýrslu.

c.    Hugsanleg fullgilding á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmálans.
    Árið 1990 samþykktu evrópskir félagsmálaráðherrar tillögu Lalumiere, þáverandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, um endurskoðun á ákvæðum félagsmálasáttmálans. Í framhaldi af samþykkt tillögunnar var hafin endurskoðun sáttmálans af sérstakri nefnd á vegum Evrópuráðsins. Nefndin afgreiddi til ráðherranefndar Evrópuráðsins árið 1991 drög að bókun við félagsmálasáttmálann þar sem skýrar er kveðið á um hlutverk sérfræðinganefndar Evrópuráðsins. Í henni er einnig kveðið skýrar á um verkefni nefndar sem í eiga sæti fulltrúar aðildarríkja sáttmálans, svokallaðrar embættismannanefndar. Að tillögu nefndarinnar samþykkti ráðherranefndin árið 1995 viðauka við sáttmálann sem veitir heildarsamtökum vinnumarkaðarins rétt til að kæra framkvæmd sáttmálans til Evrópuráðsins. Þriðja skjalið sem nefndin afgreiddi til ráðherranefndarinnar er ný gerð sáttmálans þar sem eldri ákvæði hafa verið færð í nútímalegra horf en jafnframt bætt við 11 nýjum efnisgreinum . ILO-nefndin fór á árinu yfir breytingar sem hafa verið gerðar frá eldri gerð sáttmálans. Markmiðið hefur verið að kanna hugsanlega fullgildingu Íslands á þessari endurskoðuðu gerð félagsmálasáttmálans . Sú umfjöllun stóð enn yfir í árslok 1999.


VIÐAUKI

Athugasemdir nefndar óháðra sérfræðinga við framkvæmd Íslands
á félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1992–1996.

    Hér á eftir eru birtar athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins (European Committee on Social Rights) hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu. Um er að ræða athugasemdir í framhaldi af 12. skýrslu Íslands um framkvæmd 3. og 5. mgr. 2. gr., 1.–3. mgr. 3. gr. og 2., 4. og 5. mgr. 4. gr. félagsmálasáttmála Evrópu á tímabilinu 1. janúar 1992 til 31. desember 1996 og 1. mgr. 2. gr., 1. og 3. mgr. 4. gr. og 15. gr. fyrir tímabilið 1. janúar 1994 til 31. desember 1996. Athugasemdirnar eru birtar í skýrslu sérfræðinganefndarinnar, European Social Charter, Committee of Independent Experts of the European Social Charter, Conclusions XIV–2, Strasbourg, desember 1998. Það skal tekið fram athugasemdir sérfræðinganefndarinnar eru ekki tilfærðar orðrétt heldur er um að ræða efnislega samantekt.

1. gr.
Réttur til vinnu.

    4. mgr. Starfsráðgjöf, þjálfun og endurhæfing.
    Nefndin gefur í skýrslu sinni gaum að ítarlegum upplýsingum sem fylgdu með skýrslu Íslands varðandi starfsmenntun og starfsþjálfun en nefndin hafði óskað eftir svörum um þetta efni í fyrri niðurstöðum sínum. Nefndin vísar þar til upplýsinga um lög um starfsmenntun í atvinnulífinu og um hlutverk Starfsmenntaráðs.
    Í því skyni að koma á fót samstæðu kerfi starfsmenntunar eiga félagsmálaráðuneytið og Starfsmenntaráð samstarf við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Vinnuveitendasamband Íslands (VSÍ). Nefndin óskar eftir frekari upplýsingum um framvindu þessarar samvinnu og um árangur við mörkun samhæfðrar stefnu í menntunar- og þjálfunarmálum.
    Varðandi atvinnumál fatlaðra, sbr. 2. mgr. 15. gr. félagsmálasáttmálans, frestar nefndin því að komast að niðurstöðu með tilliti til þess hve takmarkaðar upplýsingar er að finna í skýrslu Íslands. Hún óskar eftir því að ítarlegar upplýsingar verði veittar í næstu skýrslu um atvinnuleysi fatlaðra, um ábyrgð vinnuveitenda þegar fötlun stafar af vinnuslysi eða veikindum, svo og um launakjör fatlaðra og jafnræði í meðferð fatlaðra einstaklinga sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja félagsmálasáttmálans.
    Með tilliti til mikilvægis þeirra spurninga sem enn er ósvarað frestar nefndin því að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmd á Íslandi sé í samræmi við 4. mgr. 1. gr. félagsmálasáttmálans.

2. gr.
Réttur til sanngjarnra vinnuskilyrða.

     1. mgr. Sanngjarn daglegur og vikulegur vinnutími.
    Nefndin veitir athygli upplýsingum í skýrslu Íslands um lög nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar takmarka lögin dagvinnutíma við átta klukkustundir á dag og fjörutíu klukkustundir á viku. Lögin mæla enn fremur svo fyrir að aðilar vinnumarkaðarins skuli með kjarasamningum ákveða skiptinguna milli dagvinnutíma og yfirvinnutíma.
    Auk þess er takmörkun á vinnutíma samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, sem mæla svo fyrir að starfsmenn eigi rétt á a.m.k. 10 klukkustunda hvíld á hverjum sólarhring auk heils hvíldardags á hverju sjö daga vinnutímabili. Í undantekningartilvikum og með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins er heimilt að stytta hvíldartímann niður í algert lágmark, sem er 8 klukkustundir, í vinnu svo sem vaktavinnu, við gæslustörf, landbúnaðarstörf og björgunarstörf.
    Samkvæmt þessum lagaramma er í samningum um kaup og kjör, sem ná til allra vinnandi manna á vinnumarkaðnum, gert ráð fyrir fjörutíu klukkustunda vinnuviku að meðtöldum launuðum hléum. Nefndin gefur gaum að því í upplýsingum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) að aðilar vinnumarkaðarins hafa gert með sér samninga árið 1997 (utan viðmiðunartímans) til að innleiða tilskipun ESB 93/104 varðandi tiltekna þætti skipulags á vinnutíma. Nefndin óskar eftir frekari upplýsingum í næstu skýrslu um þessa kjarasamninga.
    Hins vegar gefur nefndin gaum að því að virkar vinnustundir eru miklu fleiri en að framan getur; reyndar eru meðalvinnuvikur langsamlega lengstar á Íslandi af öllum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (43 klst. að meðaltali að meðtöldu starfsfólki í hlutastarfi og 50,2 klst. að meðaltali hjá starfsfólki í fullu starfi). Auk þess vinna karlmenn í fullu starfi að meðaltali 53 klst. á viku en konur 44 klst. að meðaltali. Nefndin kveður skýringuna á miklum mun á lögbundnum eðlilegum vinnutíma og raunverulegum vinnutíma kunna að vera að hefð sé fyrir mikilli yfirvinnu á íslenska vinnumarkaðnum vegna skorts á vinnuafli, svo og vegna þess mikla hvata sem fólginn er í tiltölulega háum yfirvinnulaunum (sjá einnig athugasemdir í 2. mgr. 4. gr.). Samkvæmt þeim tölum, sem birtar eru í skýrslunni, var meðalvinnutími þegar á heildina er litið 42,7 klst. 1994 og jókst í 43,7 klst. 1996. Gera má ráð fyrir að þessar tölur nái einnig til fólks í hlutastörfum þótt þess sé ekki nákvæmlega getið í skýrslunni.
    Í skýrslunni eru einnig tilgreindar vikulegar vinnustundir í hinum ýmsu starfsgreinum. Í iðnaði var meðaltalið 46,5 klst. 1996, í þjónustugreinum 41,2 klst. og sameiginlegt meðaltal í landbúnaði og fiskiðnaði var 54,7 klst., sem nefndin telur mjög langan vinnutíma. Vikulegt meðaltal í fiskiðnaði var 60,6 klst. sem nefndin telur óhóflegan vinnutíma og hugsanlega skaðlegan fyrir heilsu og öryggi viðkomandi starfsmanna. En þar eð aðeins u.þ.b. 5% vinnuafls er starfandi í fiskiðnaði á Íslandi brýtur ástandið í þessari atvinnugrein út af fyrir sig ekki í bága við ákvæði 33. gr. félagsmálasáttmálans.
    Þótt löggjöf um eðlilegan daglegan og vikulegan vinnutíma brjóti sem slík ekki í bága við kröfur félagsmálasáttmálans kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að yfirvinna, lögbundinn daglegur vinnutími og virkur vinnutími séu áhyggjuefni. Nefndin bendir á að vinnustundir eru metnar ekki aðeins með tilliti til eðlilegs vinnutíma heldur einnig yfirvinnutíma. Samkvæmt félagsmálasáttmálanum er þess krafist að settar skuli reglur um yfirvinnutíma og að takmarka skuli notkun og/eða lengd yfirvinnutíma til þess að vernda starfsmenn fyrir áhættu varðandi heilsu og öryggi. Á Íslandi er yfirvinnutími greinilega afmarkaður í samningum um kaup og kjör en eina takmörkunin á lengd hans virðist vera framangreind ákvæði um daglegan og vikulegan hvíldartíma í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
    Á grundvelli þessa er nefndin þeirrar skoðunar að ákvæðin um daglegan hvíldartíma heimili í raun allt að 16 klst. vinnutíma á einum sólarhring í tilteknum atvinnugreinum og við sérstakar aðstæður en slíkt telur nefndin vera of langan vinnutíma til að hann geti talist sanngjarn. Engin takmörkun er á vikulegum vinnustundum nema einn hvíldardagur á hverju sjö daga tímabili sem er því unnt að framlengja umfram það sem nefndin telur eðlilegt.
    Loks má geta þess að þær tölur, sem fyrir hendi eru, benda til þess að raunverulegur vinnutími sé mjög langur á Íslandi. Nefndin minnir á að skuldbindingin í 1. mgr. 2. gr. um sanngjarnan vinnutíma er ætluð til að vernda heilsu og öryggi starfsmanna og þar af leiðandi líf þeirra og veita einkalífi og fjölskyldulífi starfsmanna viðunandi vernd.
    Niðurstaða nefndarinnar er neikvæð þar eð skortur á eðlilegri takmörkun á daglegum yfirvinnutíma kann í tilteknum tilvikum að stuðla að allt að 16 klst. vinnutíma og að vikulegar vinnustundir geti einnig orðið óhóflega margar.
    3. mgr. Árlegt launað leyfi.
    Nefndin gefur gaum að því í skýrslu Íslands að ástandið, sem hún hefur þegar talið viðunandi, hefur ekki breyst. Hún kemst því að jákvæðri niðurstöðu á ný. Hún óskar þó eftir að gefnar verði ítarlegar upplýsingar um framkvæmd ákvæðisins í næstu skýrslu Íslands um framkvæmd þess. Sérstaklega óskar hún eftir upplýsingum um hvort starfsmenn sem verða veikir eða verða fyrir slysi í árlegu leyfi sínu eða hluta af því eigi rétt á að fá jafnmarga frídaga á öðrum tíma, a.m.k. að því marki sem nauðsynlegt kann að reynast til að njóta tveggja vikna leyfis árlega samkvæmt ákvæðum félagsmálasáttmálans. Hún óskar enn fremur eftir því að í næstu skýrslu verði útskýrt hver sé staða starfsmanna í hlutastarfi varðandi þetta ákvæði félagsmálasáttmálans.
    5. mgr. Vikulegur hvíldartími.
    Nefndin gefur gaum að því í skýrslu Íslands að ástandið, sem hún hefur þegar talið viðunandi, hefur ekki breyst. Hún kemst því að jákvæðri niðurstöðu á ný. Hún óskar þó eftir að gefnar verði ítarlegar upplýsingar um framkvæmd ákvæðisins í næstu skýrslu Íslands um framkvæmd þess. Sérstaklega óskar hún eftir að í næstu skýrslu komi fram um hvaða undantekningar sé að ræða á reglunni um vikulegan hvíldartíma og hvort þær heimili starfsmanni að vinna í meira en tólf daga samfellt.

3. gr.
Réttur til öryggis og heilbrigðis við vinnu.

    1. mgr. Útgáfa öryggis- og heilbrigðisreglna.
    Nefndin kveðst veita athygli þeim upplýsingum sem er að finna í skýrslu Íslands. Hún óskar þess að með næstu skýrslu fylgi ensk þýðing á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
    Samkvæmt lögum nr. 46/1980 er almenn ábyrgð vinnuveitenda fólgin í því að sjá um að tryggja heilbrigði og öryggi á vinnustað, að starfsmenn séu varaðir við slysahættu og hættu fyrir heilsu þeirra sem getur leitt af starfi þeirra og að starfsmenn fái nauðsynlegar leiðbeiningar og þjálfun um framkvæmd verka sinna með þeim hætti að vinnan valdi ekki hættu. Nefndin spyr hvort tilskipun Evrópusambandsins nr. 89/391/EBE, um ráðstafanir til að hvetja til endurbóta á öryggi og heilbrigði starfsmanna við vinnu, hafi verið innleidd í landslög og, ef svo er, hvort það hafi valdið nokkrum breytingum varðandi almennar skyldur vinnuveitenda.
    Nefndin lýsir því áliti sínu að í íslenskri löggjöf og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi við vinnu sé að finna ákvæði um vernd fyrir flestum áhættuþáttum varðandi hættuleg efni og efnasambönd. En þar eð nefndinni hefur ekki tekist að fá staðfest hvaða reglugerð gildir um vernd fyrir jónandi geislun frestar hún mati sínu og óskar þess að í næstu skýrslu verði að finna ítarlegar upplýsingar um þetta efni.
    Nefndin gerir eftirfarandi athugasemdir varðandi ráðstafanir til verndar og forvarna sem reglugerðir veita á Íslandi:
     *      Vernd fyrir hættulegum efnum og efnasamböndum:
    Nefndin gefur því gaum í fyrri skýrslu að með reglugerð nr. 74/1983 var bannað að flytja inn og nota asbest og að í leiðbeiningum nr. 2/1984 var mælt fyrir um öryggisráðstafanir við notkun asbests. Auk þess bendir þessi skýrsla til þess að reglugerð nr. 379/1996 hrindi í framkvæmd tilskipun ESB 83/477 eins og henni var breytt með tilskipun 91/382. Nefndin óskar eftir ítarlegri upplýsingum um inntak þessara texta og spyr hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að gerður verði listi yfir byggingar sem innihalda asbest.
     *      Vernd fyrir áhættu í tengslum við tilteknar atvinnugreinar og störf:
    Þar eð nefndin hefur gefið gaum að því að fjöldi vinnuslysa var sérstaklega hár í fiskiðnaði óskar hún eftir því að í næstu skýrslu verði upplýst hvaða ráðstafanir séu ráðgerðar til að vinna bug á áhættuþáttum í þessari atvinnugrein og bæta ástandið í þessum efnum.
     *      Vernd fyrir tiltekna hópa starfsmanna sem eru í sérstakri hættu.
    Nefndin spyr hvort einhverjar reglur eða sérstakar aðgerðir hafi verið samþykktar til að taka tillit til sérstakra aðstæðna starfsmanna sem ráðnir hafa verið til tiltekins tíma eða samkvæmt tímabundnum samningum til þess að tryggja að þeir njóti sömu verndar og aðrir starfsmenn fyrirtækja.
    Samkvæmt fyrri skýrslum eiga lög nr. 46/1980 ekki við um þá sem starfa við fiskveiðar, siglingar og flug. Um slík störf gilda sérstakar öryggisráðstafanir samkvæmt öðrum lögum (svo sem siglingalögum nr. 34/1985). Nefndin vísar til framangreindrar spurningar um vernd fiskimanna.
    „Heimilisstörf á einkaheimilum“ eru einnig undanþegin gildissviði laganna og nefndin spyr því hvernig réttur starfsmanna á heimilum sé tryggður varðandi heilbrigði og öryggi við vinnu. Hún óskar þess einnig að í næstu skýrslu verði útskýrt að hve miklu leyti heilbrigðis- og öryggisreglur gildi um vinnu á heimilum.
    Nefndin kveðst fresta niðurstöðu sinni um hvort framkvæmd á Íslandi sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. með tilliti til þess hve mikilvægt er að fá svör við þeim spurningum sem hún hefur óskað svara við.
    2. mgr. Ákvæði um framkvæmd öryggis- og heilbrigðisreglna með ráðstöfunum varðandi eftirlit.
    
Að því er snertir vinnuslys og sjúkdóma gefur nefndin gaum að því í Árbók Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um tölfræði vinnumarkaðarins (1997) að fjöldi vinnuslysa, sem tilkynnt voru Vinnueftirliti ríkisins, jókst verulega á viðmiðunartímanum, úr 636 árið 1994 í 980 árið 1996. Miðað við heildarfjölda vinnandi manna á sama tímabili vitna þessar tölur einnig um jafnvel meiri fjölgun slysa, þ.e. 0,8 slys á hverja 100 starfsmenn árið 1996 miðað við 0,46 árið 1994. Þessi neikvæða þróun kemur einnig fram í skýrslu þar sem upplýst er að á tímabilinu 1991–1996 urðu 4.282 slys eða að meðaltali 713 slys á ári, samanborið við alls 2.300 slys á tímabilinu 1986–1990. Nefndin minnir á að hún hefur þegar tekið eftir fjölgun vinnuslysa í fyrri niðurstöðum sínum (niðurstöðum XIII–1, bls. 96) sem íslensk stjórnvöld skýrðu með breytingu árið 1990 á reglum um tilkynningar um vinnuslys. Auk þess kemur fram í fyrri skýrslu að raunverulegur fjöldi slysa hafi verið miklu meiri en fjöldi tilkynntra slysa.
    Miðað við þær tölur, sem koma fram í skýrslunni, sýnist nefndinni að vinnuslys séu flest í fiskiðnaði, eða 13% af öllum slysum frá 1991 til 1996. Nefndin spyr hvort slysin hafi orðið við sjálfar veiðarnar og/eða við vinnslu aflans (fjöldi hlutaðeigandi starfsmanna í þessum tveimur atvinnugreinum er mismunandi). Önnur mesta slysatíðni er í byggingariðnaði þar sem starfsmenn eru 7% af öllu vinnuafli en 11% slysa þar urðu á sama tíma og 22% banaslysa. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði greint frá algengustu orsökum slysa.
    Nefndin veitir því athygli að frá 1991 til 1996 ollu 27 slys dauða starfsmanna, þ.e. 4,5 banaslys að meðaltali en frá 1986 til 1990 urðu 3,6 banaslys á ári. Hæsta hlutfall banaslysa á tímabilinu 1991–1996 var við landbúnaðarstörf (30% af öllum banaslysum). Nefndin gefur gaum að því að á viðmiðunartímanum voru banaslys 0,6% af öllum slysum, sem er hátt hlutfall miðað við önnur aðildarríki, og að ástandið hefur versnað í samanburði við fyrra viðmiðunartímabil.
    Nefndin kveðst hafa áhyggjur vegna ástandsins á Íslandi:
     *      Í fyrsta lagi vegna verulegrar fjölgunar banaslysa. Nefndin vekur athygli íslenskra stjórnvalda á því að með því að samþykkja 3. gr. félagsmálasáttmálans hafa þau skuldbundið sig til þess að tryggja rétt til heilbrigðis og öryggis við vinnu. Nefndin fylgist með virkri framkvæmd þessa réttar skv. 2. mgr. þessa ákvæðis og telur að hvað þetta varðar skipti fjölgun banaslysa miklu máli,
     *      í öðru lagi vegna þess að óttast megi að tölur um fjölda slysa, sem tilkynnt eru yfirvöldum, endurspegli ekki raunverulegt ástand mála. Nefndin kveðst leggja áherslu á mikilvægi gildrar og raunhæfrar tölfræði, einkum með tilliti til þess að settar verði viðeigandi reglur og endurtekur spurningu sína úr fyrri niðurstöðum um fyrirhugaðar lagabreytingar sem gera hlutaðeigandi yfirvöldum kleift að fá allar upplýsingar um vinnuslys.
    Nefndin spyr hvernig á því standi að ekki séu fyrir hendi neinar tölur um atvinnusjúkdóma. Þar sem ekki eru fyrir hendi upplýsingar um ný tilfelli atvinnusjúkdóma óskar nefndin eftir að í næstu skýrslu verði vikið að þróun í fjölda sjúkdóma þar sem bætur hafa verið greiddar.
    Samkvæmt lögum nr. 46/1980 ber Vinnueftirlit ríkisins, sem starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins, ábyrgð á því að lögum og reglum varðandi heilbrigði og öryggi við vinnu sé framfylgt og að stuðlað sé að ráðstöfunum til forvarna á vinnustöðum. Nefndin vísar í því sambandi til skýrslu Íslands þar sem fram kemur að eftirlitsmenn séu 26, þ.e. 1–3 á hverju svæði en 11 í Reykjavík. Samkvæmt skýrslunni eru að meðaltali 5.000 fyrirtæki af 25.000 fyrirtækjum árið 1992 og af 30.000 fyrirtækjum 1996 heimsótt bæði árin, sem er örlítil aukning á fjölda heimsókna miðað við fyrra viðmiðunartímabil. Milli 600 og 1.000 heimsóknir eiga sér stað til lögbýla og milli 5.000 og 8.000 skoðanir fara fram árlega á þungavinnuvélum. Mikilvægustu fyrirtækin og hættuleg starfsemi hefur forgang (ein heimsókn á ári). Nefndin óskar eftir upplýsingum um það í næstu skýrslu til hve margra starfsmanna slíkar heimsóknir ná.
    Brot á þessum reglum geta varðað sektum samkvæmt lögum nr. 46/1980 nema mælt sé fyrir um þyngri refsingar í öðrum lögum. En í skýrslunni segir að yfirleitt nægi forvarnaaðgerðir (formleg tilkynning til þess að fá fram lagfæringu á ástandi eða innsiglun húsnæðis) til þess að fá menn til að bæta fyrir brot sitt. Nefndin óskar eftir að fá frekari upplýsingar um brot á reglum á sviði heilbrigðis og öryggis við vinnu, í hvaða atvinnugreinum þau hafa átt sér stað og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar.
    Loks má nefna að nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði að finna tölur um slíkt eftirlit, einkum varðandi starfsmenn í fiskiðnaði, en nefndin hefur veitt því athygli að önnur ráðuneyti bera ábyrgð á atvinnugreinum (fiskveiðar, siglingar og flug) sem lög nr. 46/1980 ná ekki til.
    Nefndin kveðst að lokum fresta niðurstöðu sinni þangað til henni hafa borist umbeðnar upplýsingar og þangað til ástandið hefur batnað varðandi banaslys.
     3. mgr. Samráð við samtök vinnuveitenda og launafólks um öryggi og heilbrigði.
    Nefndin kveðst minnast þess að á Íslandi tilnefna samtök starfsmanna og vinnuveitenda stjórnarmenn Vinnueftirlits ríkisins sem ber ábyrgð á að reglur og leiðbeiningar séu samdar um heilbrigði og öryggi við vinnu samkvæmt lögum nr. 46/1980. Nefndin æskir staðfestingar á því að stjórn Vinnueftirlits ríkisins komi einnig að gerð og breytingum laga um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Hún óskar einnig eftir því að fá upplýsingar um hvernig 3. mgr. 3. gr. félagsmálasáttmálans er beitt á þeim sviðum sem lög nr. 46/1980 (fiskveiðar, siglingar og flug) ná ekki til.
    Hvað varðar samráð á vettvangi fyrirtækja kveðst nefndin veita athygli upplýsingum um að í fyrirtækjum, sem fleiri en fimmtíu starfsmenn vinna hjá, skuli stofnuð öryggisnefnd. Nefndin óskar eftir að fá upplýsingar um útnefningu nefndarmanna, svo og hvernig framfylgd 3. mgr. 3. gr. er háttað í fyrirtækjum með færri en fimmtíu starfsmenn.
    Nefndin kveðst telja að Ísland fullnægi þessu ákvæði félagsmálasáttmálans en óskar eftir að þær upplýsingar sem hún hefur óskað eftir samkvæmt framansögðu verði veittar í næstu skýrslu Íslands um framkvæmd þess.

4. gr.
Réttur til sanngjarnra launa.

    1. mgr. Viðeigandi umbun.
    Nefndin bendir á að samkvæmt skýrslu Íslands eru lágmarkslaun ákveðin í almennum kjarasamningum samtaka launafólks og atvinnurekenda. Samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, hafa slíkir samningar almennt gildi varðandi lágmarkslaun þannig að allir starfsmenn á Íslandi njóta verndar almennra kjarasamninga.
    Nefndin kveðst hafa heimildir fyrir því að lágmarkslaun séu mismunandi eftir atvinnugreinum og landshlutum en að umsamin lágmarkslaun ófaglærðra verkamanna séu viðurkennd sem lágmark fyrir allt landið. Í skýrslu Íslands segir að á samantekt talna um tímakaup og föst laun á Íslandi séu nú að verða róttækar breytingar. Á grundvelli talna, sem Kjararannsóknarnefnd hefur tekið saman, og launavísitölu Hagstofu Íslands er í skýrslunni hins vegar að finna áætlanir um meðalkaup, lágt kaup (ófaglærðir verkamenn og verslunarmenn) og lágmarkslaun.
    Árið 1996 voru heildarmánaðarlaun að meðaltali talin vera 138.000 kr. Gera megi ráð fyrir að hér sé um að ræða meðaltal fyrir allt landið þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram í skýrslunni. Lágmarksmánaðarkaup sama ár var 54.743 kr., þ.e. aðeins um 40% af meðaltalinu. Til samanburðar: Meðalmánaðarkaup ófaglærðs karlmanns við verkamannastörf var 82.805 kr. og meðalmánaðarkaup karlmanns við verslunarstörf var 94.575 kr. Í skýrslunni er ekki að finna upplýsingar um nettókaup að frádregnum almannatryggingagjöldum og sköttum. Nefndin kveðst vænta þess að fá slíkar upplýsingar um nettófjárhæð, bæði meðalkaups og lágmarkskaups í næstu skýrslu um framkvæmd ákvæðisins.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) fá innan við 0,5% vinnandi fólks lágmarkslaun á landsvísu. Nefndin kveðst vænta þess að fá nýjar upplýsingar um þetta efni í næstu skýrslu.
    Nefndin bendir á að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) áætlar að heildarmánaðarkaup að meðaltali hjá iðnverkamanni árið 1996 hafi verið 125.917 kr. og að samsvarandi nettómeðaltal hafi verið 98.571 kr. Nefndin kveðst veita því athygli að jafnvel þegar heildarlágmarkskaup er borið saman við meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar er útkoman aðeins u.þ.b. 56%. Tvö atriði valda nefndinni áhyggjum: Í fyrsta lagi er líklegt að nettómeðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar varðandi sérhvern iðnverkamann sé lægra en nettómeðaltalið fyrir allt landið og í öðru lagi er framangreint lágmarkskaup heildarkaup sem líklegt er að sé lægra þegar miðað er við nettókaup. Efnahags- og framfarastofnunin hefur reiknað út að frá kaupi sérhvers einstaks iðnverkamanns, sem hefur í kaup 2/3 af meðalkaupi, séu dregin 12,1% vegna almannatryggingagjalda og skatta. Sambærilegur frádráttur frá lágmarkskaupi ylli því að það yrði lægra en 50% af meðalkaupi en slíkt telst ekki samræmast kröfum félagsmálasáttmálans.
    Þar eð nefndinni hafa ekki borist nægilegar upplýsingar um nettókaup, einkum nettógildi lágmarkskaups, frestar hún því að taka afstöðu til málsins. Auk þeirra upplýsinga, sem óskað er eftir samkvæmt framansögðu, biður nefndin stjórnvöld að upplýsa hvernig lágmarkskaup, sem er svo miklu lægra en meðaltalið í samfélaginu, geti nægt til að tryggja verkamanni viðunandi lífskjör.
    Nefndin frestar því niðurstöðu sinni um það hvort framkvæmd á Íslandi sé í samræmi við ákvæðið þar til henni hafa borist þær upplýsingar sem hún hefur óskað eftir.
    2. mgr. Hærra kaup fyrir yfirvinnu.
    Nefndin óskar eftir svari við almennri spurningu sinni um afleiðingar sveigjanlegs vinnutíma varðandi þóknun eða laun fyrir yfirvinnu í næstu skýrslu Íslands um framkvæmd ákvæðisins.
    Álag vegna yfirvinnu er tiltölulega hátt. Samkvæmt upplýsingum frá Efnahags- og framfarastofnuninni er venjulegt yfirvinnukaup samkvæmt almennum kjarasamningum 180% hærra en dagvinnukaup og enn hærra fyrir vinnu á helgidögum. Nefndin kveðst vonast til að fá nýjar upplýsingar um yfirvinnukaup í næstu skýrslu.
    Niðurstaða nefndarinnar er að framkvæmd á Íslandi sé í samræmi við þetta ákvæði félagsmálasáttmálans.
    3. mgr. Bann við mismunun karla og kvenna varðandi laun.
    Nefndin kveðst veita athygli upplýsingum sem fram koma í skýrslu Íslands um að jafnræðisregla hafi verið sett í stjórnarskrá Íslands 1995 en hún kveður á um að „karlar og konur skuli njóta jafnræðis að öllu leyti“.
    Þær tölur sem fram koma í skýrslunni sýna að launamunur eykst töluvert með aukinni menntun. Meðal ófaglærðra starfsmanna var munur milli kaups karla og kvenna minni en 8% á viðmiðunartímanum. Í störfum, þar sem krafist var meiri menntunar, varð munurinn milli 20 og 30%.
    Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni hefur könnun á vegum félagsmálaráðuneytisins leitt til þess að mælt er með því að komið verði á fót tilraunaverkefni um ókynbundið starfsmat á allmörgum opinberum og einkareknum vinnustöðum. Nefndin óskar eftir að fá upplýsingar um árangurinn af þessari ráðstöfun.
    Nefndin frestaði fyrri niðurstöðu sinni vegna skorts á upplýsingum um til hvaða úrræða samkvæmt íslenskum lögum starfsmenn geta gripið ef þeim hefur verið sagt upp störfum í refsingarskyni fyrir að leitast við að framfylgja réttinum til jafnra launa. Samkvæmt fordæmisrétti nefndarinnar ættu að vera í landslögum ákvæði um endurráðningu í slíkum tilvikum. Ef því verður ekki við komið eða ef starfsmaður óskar ekki eftir því kunna fébætur að koma til greina en þó því aðeins að þær nægi til að hafa varnaðaráhrif gagnvart vinnuveitandanum og bæta starfsmanni það tjón sem hann hefur orðið fyrir (niðurstöður XIII–5, bls. 254–255). Í fyrri skýrslum Íslands hefur komið fram að réttur til endurráðningar sé ekki fyrir hendi. Nefndin spyr hvort sú sé enn raunin. Hún endurtekur spurningu sína um réttarvenju við úrskurði um bætur til handa starfsmönnum sem hefur verið sagt upp í refsingarskyni.
    Nefndin kveðst ekki komast hjá því að fresta því enn einu sinni að komast að niðurstöðu þangað til henni hafa borist umbeðnar upplýsingar.
    4. mgr. Hæfilegur uppsagnarfrestur.
    Nefndin óskar eftir að í næstu skýrslu Íslands verði að finna svör við spurningum hennar um stöðu starfsmanna í hlutastarfi sem inna af hendi færri en 775 vinnustundir á ári og stöðu allra starfsmanna sem starfa í minna en 12 mánuði. Nefndin óskar eftir ítarlegum upplýsingum um þetta efni í næstu skýrslu Íslands um framkvæmd ákvæðisins.
    5. mgr. Takmörkun á frádrætti frá launum.
    Í skýrslu Íslands segir að engar breytingar hafi orðið á stöðu mála sem nefndin hefur ávallt talið fullnægja ákvæðum félagsmálasáttmálans. Hún áréttar því jákvæða niðurstöðu sína.

15. gr.
Réttur fatlaðra til starfsþjálfunar, endurhæfingar
og félagslegrar aðlögunar.

    1. mgr. Starfsþjálfun fatlaðra.
    Nefndin kveðst gefa gaum að þeim upplýsingum sem veittar eru í skýrslu Íslands. Að því er snertir mat á starfshæfni fatlaðra bendir hún á að í skýrslunni segir að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins beri ábyrgð á greiningu fötlunar og ráðgjöf handa foreldrum fatlaðra og öðrum þeim sem taka þátt í umönnun, meðferð og menntun þeirra. Nefndin óskar eftir að fá ítarlegri upplýsingar um möguleika fatlaðra til að taka þátt í þessu stigi rannsóknar og greiningar og spyr hvort starfsemi stöðvarinnar nái til mats á starfshæfi fatlaðra. Ef svo er óskar nefndin eftir upplýsingum um hvernig slíkt fer fram.
    Hvað varðar aðstöðu til starfsþjálfunar kveðst nefndin hafa heimildir fyrir því að samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins sé einum degi á ári í grunnskólum og framhaldsskólum varið til þess að miðla upplýsingum um vandamál fatlaðra. Í skýrslunni er að finna stuttorða lýsingu á þeirri þjónustu sem fatlaðir njóta samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Nefndin veitir því athygli að þau eiga aðeins við um sérhæfðar stofnanir (sambýli, vistunarheimili fyrir börn og heimili handa fötluðum) og fjalla ekki um starfsþjálfun. Svipaðar upplýsingar voru veittar í annarri skýrslu Íslands varðandi þetta ákvæði. Nefndin vísar því til þeirra athugasemda sem hún gerði þá. Hún óskar eftir því að í næstu skýrslu um framkvæmd ákvæðisins verði einnig að finna upplýsingar um möguleika ungra fatlaðra til að njóta menntunar í almennum skólum en samkvæmt jafnræðisreglunni um aðgang að menntun og félagslegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu, samkvæmt lögum nr. 59/1992, ber að auka þá möguleika. Nefndin óskar eftir að fá frekari upplýsingar um stöðu þeirra sem verða fatlaðir af völdum atvinnusjúkdóma eða vinnuslysa hvað varðar aðstöðu til endurhæfingar í starfsþjálfun.
    Samkvæmt upplýsingum í skýrslu Íslands er þjálfun starfsfólks við endurhæfingu á Íslandi á ábyrgð Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Nefndin óskar eftir að fá ítarlegri upplýsingar um menntun starfsmanna sem sjá um endurhæfingu, sérstaklega um möguleika á frekari þjálfun/endurþjálfun á þessu sviði.
    Nefndin kveðst ekki geta metið, út frá þeim tölum sem gefnar eru upp í skýrslunni um fjölda þeirra sem njóta hinna ýmsu tegunda þjónustu, hvort aðstaða til starfsþjálfunar er fullnægjandi. Hún óskar eftir ítarlegri upplýsingum í næstu skýrslu þar sem fram kemur fjöldi umsókna og fjöldi plássa sem eru fyrir hendi á sérhverjum stað þar sem starfsþjálfun fer fram, svo og upplýsingar um fjölda starfsmanna sem sjá um starfsþjálfun fatlaðra.
    Síðustu upplýsingar um fjárveitingar ríkisins vegna fatlaðra, sem nefndinni er kunnugt um, fengust á 10. eftirlitshringnum (á viðmiðunartímabilinu 1984–1986). Nefndin óskar eftir að fá nýjustu tölur í næstu skýrslu. Hún óskar einnig eftir upplýsingum um hvaða hlutfall þetta sé af heildarfjárveitingum til starfsþjálfunar.
    Í skýrslunni er ekki svarað þeirri spurningu nefndarinnar hvort þegnar annarra aðildarríkja félagsmálasáttmálans, sem eru löglega búsettir eða starfandi til langframa á Íslandi, njóti starfsþjálfunar til jafns við íslenska ríkisborgara. Nefndin fer fram á að fá upplýsingar um þetta efni næstu skýrslu.
    Niðurstaða nefndarinnar hvað þetta ákvæði varðar er að staða mála á Íslandi fullnægi kröfum félagsmálasáttmálans.
    2. mgr. Vistun fatlaðra.
    Í skýrslunni er gefið til kynna að fatlaðir hafi sama aðgang og aðrir að faglegum leiðbeiningum, vinnumiðlun og vistunarþjónustu. Nefndin gefur gaum að því að aðeins 72 fatlaðir notfærðu sér vistunarþjónustu í því skyni að fá vinnu sem ætluð er fötluðum en 166 fatlaðir notfærðu sér þessa þjónustu til að finna annars konar vinnu. Nefndinni er ekki alveg ljós munurinn á vinnu fyrir fatlaða og annars konar vinnu. Henni er ekki ljóst hvort tiltekin störf eru aðeins ætluð fötluðum sem hluti af kvótakerfi, til dæmis, eða hvort um er að ræða verndaða vinnustaði. Hún óskar eftir frekari upplýsingum um þetta atriði í næstu skýrslu. Hún óskar einnig eftir því að næsta skýrsla geymi tölulegar upplýsingar um atvinnuleysi fatlaðra.
    Nefndin minnir á að eftir gildistöku laga nr. 59/1992 er nú lögð áhersla á að fatlaðir fái vinnu á almennum vinnumarkaði. Með reglugerð nr. 376/1996, um vinnu fatlaðra, er lokið vinnu til stuðnings þátttöku fatlaðra á almennum vinnumarkaði með því að koma á fót ýmiss konar þjónustu (107 einstaklingar komu við sögu á viðmiðunartímanum). Nefndin gefur gaum að því að þetta átti m.a. við um sérhæfða einstaklingsþjónustu við fatlaða sem voru að hefja störf (63 fatlaðir komu við sögu) og eftirlit sérstaklega ráðins einstaklings til þess að hafa eftirlit með hinum fatlaða (17 fatlaðir komu við sögu). Hún gefur einnig gaum að því að ráðstafanir hafa verið gerðar um verndaða vinnuaðstöðu í einkafyrirtækjum sem gera fötluðum kleift að njóta verndaðrar vinnuaðstöðu á venjulegum vinnustað (9 fatlaðir komu við sögu). Samkvæmt upplýsingum í skýrslunni eru þeir, sem njóta aðstoðar í starfi sínu á almennum vinnumarkaði, einkum á aldrinum 26–40 ára og flestir vinna hlutastarf.
    Nefndin óskar eftir að fá upplýsingar um hvort einhverjar sérstakar skuldbindingar (útvegun nýrrar vinnu fyrir fatlaða starfsmenn) eru lagðar á vinnuveitendur þegar starfsmaður þeirra verður fatlaður af völdum vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms.
    Í fyrri skýrslu voru upplýsingar um aukningu fjárveitinga til atvinnuleitar og aðstoðar á vinnumarkaði síðan 1990. Vegna skorts á nýjum upplýsingum í síðustu skýrslu er nefndinni ekki kleift að meta frekari þróun. Hún óskar því eftir að í næstu skýrslu verði upplýsingar um næsta viðmiðunartímabil, þar sem sérstaklega er tekið fram hvaða fjárhæð verður varið til virkra ráðstafana, varðandi vinnu fatlaðra. Loks óskar nefndin eftir upplýsingum um launakjör fatlaðra, bæði á hinum almenna vinnumarkaði og á vernduðum vinnustöðum.
    Að því er snertir jafna meðferð þegna annarra aðildarríkja félagsmálasáttmálans leggur nefndin áherslu á að í næstu skýrslu um framkvæmd sáttmálans verði upplýst hvaða aðgengi fatlaðir þegnar annarra aðildarríkja, sem eru löglega búsettir eða vinna reglulega á Íslandi, hafi að útvegun starfa og aðlögun.
    Með tilliti til mikilvægis óútkljáðra mála frestar nefndin niðurstöðu sinni um hvort framkvæmd á Íslandi sé í samræmi við ákvæðið.