Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 560  —  361. mál.
Frumvarp til lagaum eldi nytjastofna sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)
1. gr.

    Markmið þessara laga er að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.

2. gr.

    Til eldis samkvæmt lögum þessum teljast geymsla, gæsla og fóðrun nytjastofna, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er á landi eða í sjó.
    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru eða kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi, landgrunni eða á landi með eldi. Ferskvatnsfiskar teljast ekki til nytjastofna samkvæmt þessum lögum.

3. gr.

    Til eldis nytjastofna þarf rekstrarleyfi sjávarútvegsráðherra. Áður en ráðherra gefur úr slíkt leyfi skal hann afla umsagnar fiskeldisnefndar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar og Hollustuverndar. Er eldi nytjastofna óheimilt á Íslandi eða í fiskveiðilandhelgi Íslands án slíks leyfis.
    Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Ráðherra getur krafist þess að umsókn fylgi þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að lagt verði mat á það hvort viðkomandi rekstur samræmist tilgangi laga þessara.
    Ráðherra getur bundið rekstrarleyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til þess að tryggja að tilgangi þessara laga verði náð.
    Ráðherra skal setja reglugerð á grundvelli þessara laga sem mælir fyrir um þau skilyrði sem umsóknaraðilar um rekstrarleyfi samkvæmt lögunum þurfa að uppfylla til að fá útgefið leyfi.

4. gr.

    Í fiskeldisnefnd eiga sæti fjórir menn. Landbúnaðarráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn nefndarmann án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar og einn samkvæmt tilnefningu veiðimálastjóra. Landbúnaðarráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn. Fiskeldisnefnd skal vera til ráðgjafar og stefnumótunar um eldi vatnafiska og nytjastofna bæði á landi og í sjó og fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt lögum.

5. gr.

    Fiskistofa og eftirlitsmenn í hennar þjónustu annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og skulu ákvæði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, gilda eftir því sem við á um það eftirlit, sbr. þó ákvæði 6. gr.

6. gr.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

7. gr.

    Ráðherra getur svipt leyfishafa rekstrarleyfi fyrir brot á leyfisskilyrðum eða reglum sem settar eru á grundvelli laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Í því frumvarpi er m.a. kveðið á um að sett verði á laggirnar fiskeldisnefnd er sé til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi bæði á landi og í sjó. Þá skal nefndin fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt þeim lögum. Ákvæði laga um lax- og silungsveiði varðandi fiskeldi taka einungis til ferskvatnsfiska eins og þeir eru þar skilgreindir. Við auðlindastjórnun er mikilvægt að leitast við að samræma ólíka hagsmuni, t.d. hagsmuni af fiskveiðum, af eldi á vatnafiski og af eldi nytjastofna. Til að tryggja samræmda stefnumótun og framkvæmd reglna varðandi fiskeldi er mikilvægt að þeir ráðherrar sem að þessum málum koma hafi aðgang að sambærilegum upplýsingum og njóti sambærilegrar ráðgjafar. Ekki er í gildi löggjöf um eldi nytjastofna sjávar sem sambærileg er þeirri sem gildir um eldi vatnafiska og er brýnt að úr því verði bætt. Fiskeldisnefndinni er m.a. ætlað að vera sjávarútvegsráðherra til ráðgjafar við þá vinnu sem fram undan er við framangreindar úrbætur. Ákvæðum þessa frumvarps er ætlað að brúa bilið þar til allsherjarendurskoðun hefur farið fram á þessu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um tilgang laganna. Tilvísun til ábyrgs eldis annars vegar og til réttmætra hagsmuna þeirra sem nýta villta nytjastofna hins vegar er ætlað leggja þá skyldu á ráðherra að hann vegi og meti þá hagsmuni sem kunna annars vegar að felast í fyrirhuguðu fiskeldi en hins vegar í nýtingu villtra nytjastofna.

Um 2. gr.


    Orðið eldi er notað í sömu merkingu og orðið fiskeldi í lax- og silungsveiðilögum með þeirri breytingu sem leiðir af því að í þeim lögum er það skilgreiningaratriði að um eldi vatnafiska sé að ræða. Í frumvarpi þessu nær eldi hins vegar til bæði sjávardýra og sjávargróðurs. Ekki skiptir hér máli hvort eldið fer fram á landi eða í sjó.
    Með hugtakinu nytjastofnar er átt við auðlindir jafnt úr jurta- og dýraríkinu, hvort heldur sem slíkar lífverur þrífast á hafsbotni eða í hafinu yfir honum. Ástæða þess að ferskvatnsfiskar eru undanskildir við skilgreiningu hugtaksins nytjastofnar er sú að lög um lax- og silungsveiði eiga við um það eldi svo sem að framan er rakið.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að rekstrarleyfi þurfi til eldis nytjastofna. Áður hefur þessa ekki verið krafist með svo almennum hætti sem nú er gert. Í lögum um ostrurækt, nr. 21/1939, er að finna hliðstætt ákvæði á hinu takmarkaða gildissviði þeirra laga. Fyrirmynd að því ákvæði sem hér er gerð tillaga um er að finna í lax- og silungsveiðilögum sem þó er mun ítarlegra. Er sjávarútvegsráðherra rétt að krefjast hliðstæðra gagna og þar er gerð krafa um að fylgi umsókn og að hann megi setja sambærileg skilyrði fyrir leyfisveitingu og þau lög kveða á um, að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna. Ráðherra er gert að setja reglugerð varðandi þau skilyrði sem umsóknaraðilar um rekstrarleyfi þurfa að uppfylla. Í reglugerðinni skal meðal annars tilgreina viðmið varðandi stærð stöðvar, eldisrými, framleiðslugetu og önnur vistfræðileg og sjúkdómsskyld sjónarmið.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um skipan fiskeldisnefndar. Um nefnd þessa er fjallað í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði sem nú liggur fyrir Alþingi. Vísast til athugasemda við það frumvarp í þessu sambandi. Rétt er að árétta það sem segir í almennum athugasemdum hér að framan um mikilvægi þess að sjávarútvegsráðherra geti notið ráðgjafar nefndarinnar í þeirri stefnumótunarvinnu og lagasmíð sem fram undan er á þessu sviði.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er fjallað um eftirlit Fiskistofu með framkvæmd laganna. Þau ákvæði núgildandi fiskveiðistjórnunarlaga sem gilt gætu um eftirlitið eru einkum 2. mgr. 15. gr. og 17. gr. laganna. Tilvísun til ákvæða 6. gr. skýrir sig sjálf. Ákvæðið á sér hliðstæðu í 13. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

Um 6.–8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um eldi nytjastofna.

    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Tilgangurinn með frumvarpinu er að stuðla að hagkvæmu og ábyrgu eldi nytjastofna og verndun villtra stofna þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að til eldis nytjastofna þurfi rekstrarleyfi sem sjávarútvegsráðherra gefur út. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um gjaldtöku vegna rekstrarleyfisins. Jafnframt er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra tilnefni einn fulltrúa í fiskeldisnefnd sem gegni formennsku þegar nefndin vinnur að málefnum sem snúa að valdsviði hans. Landbúnaðarráðherra skipar nefndina og er gert ráð fyrir kostnaði við hana hjá landbúnaðarráðuneytinu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.