Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 577  —  310. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Efnahags- og viðskiptanefnd fékk til umfjöllunar frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001. Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til skerðingar á sérstökum eignarskatti sem lagður er á og skal varið til þess að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana. Í frumvarpinu er lagt til að allar tekjur af þessum sérstaka eignarskatti umfram 480 millj. kr. skuli renna í ríkissjóð á árinu 2001. Við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga var ákveðið að 20 millj. kr. til viðbótar rynnu í endurbótasjóð menningarstofnana og skulu 17 af þessum 20 fara í endurbætur á Þjóðleikhúsinu. Skerðingin nemur engu að síður um 130 millj. kr. á næsta ári. Enn liggja fyrir mörg brýn verkefni sem bíða úrlausna. Eðlilegra væri að nýta þá fjármuni sem endurbótasjóðurinn á lögum samkvæmt að fá til þess að sinna þessum brýnu verkefnum en að taka hluta þeirra til almennra útgjalda úr ríkissjóði.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að lögin um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, nr. 12/1952, falli úr gildi og í framhaldi af því er lögð til sú breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, að erfðafjárskatturinn renni í ríkissjóð. Ef þessi fyrirætlun ríkisstjórnarinnar verður samþykkt er vandséð hvernig tryggja á fjármagn til margvíslegrar starfsemi fyrir fatlaða, svo sem til hæfingar- og endurhæfingarstofnana, dagþjónustustofnana fatlaðra, áfangastaða, skammtímavistana og verndaðra vinnustaða. Frá árinu 1995 hafa markaðir tekjustofnar til þess að sinna þessum verkefnum verið skertir um 1,8 milljarða króna. Sú skerðing er með öllu óskiljanleg í ljósi þess að enn eru langir biðlistar eftir ýmsum þjónustuúrræðum fyrir fatlaða og enn er langt í land að þessi hópur fólks búi við jafnan rétt á ýmsum sviðum þjóðfélagsins sem stjórnvöldum ber þó skylda til að tryggja. Á meðan svo er tekur minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar undir efasemdir sem fram hafa komið frá Samtökum fatlaðra, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands þess efnis að ekki sé tímabært að afnema fasta tekjustofna vegna málefna fatlaðra.
    Enn er verulegur skortur á húsnæði fyrir fatlaða. Ekki verður séð að nýleg viljayfirlýsing félagsmálaráðherra í þeim efnum leysi þann vanda. Af skýrslu félagsmálaráðherra um kostnað vegna þjónustu við fatlaða frá því í október 2000 verður ekki annað séð en að fyrirhugaðar séu grundvallarbreytingar á fjármögnun sambýla fyrir fatlaða. Þar má sjá tillögur um stofnun hlutafélags um flestar eða allar húseignir sem notaðar eru í þjónustu við þennan hóp og að fötluðum er ætlað að mæta rekstrarkostnaði með auknum leigugreiðslum, þeir greiði að jafnaði sem svarar um 4% af stofnkostnaði í leigu og að árleg niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar verði sem nemur 6% af stofnkostnaði eins og segir í skýrslunni. Ekki verður annað skilið af innihaldi skýrslunnar en að þar séu uppi hugmyndir um að auka leigugreiðslur íbúa um 220 millj. kr. en á móti eiga einungis að koma 40 millj. kr. í húsaleigubætur. Minni hlutinn varar alvarlega við því ef gera á þær grundvallarbreytingar á þjónustu við fatlaða að íbúar í húsnæði fyrir fatlaða eigi að fara að standa undir verulegum hluta rekstrarkostnaðarins. Þá hefur Alþingi samþykkt þingsályktanir um stefnumótun í málefnum langveikra barna og fyrir liggur að þjónusta við langveik börn verði eftir því sem við á í samræmi við lög um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Fram hefur komið í tengslum við yfirlýsingar félagsmálaráðuneytis og Öryrkjabandalags að veita á auknu fjármagni til málefna fatlaðra vegna bættrar þjónustu við langveik börn. Það styður það álit minni hlutans að fjarstæða er að leggja niður tekjustofn sem ætlaður er til uppbyggingar og þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.
    Þá bendir minni hlutinn á skýrslu sem skilað var til félagsmálaráðherra fyrir rúmu ári um möguleika fatlaðra til menningar- og tómstundastarfa. Þar kemur fram að verulegra úrbóta er þörf og stór verkefni bíða úrlausna ríkis og sveitarfélaga. Minni hlutinn mótmælir því þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001 og fela í sér að lögbundin ráðstöfun tekna af erfðafjárskatti og erfðafé í framkvæmdasjóð fatlaðra verði afnumin. Minni hlutinn mun því greiða atkvæði gegn ákvæðum þessa frumvarps.
    Efnahags- og viðskiptanefnd sendi málið til umsagnar félagsmálanefndar, menntamálanefndar og allsherjarnefndar.

Alþingi, 15. des. 2000.Margrét Frímannsdóttir,


    frsm.

Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.