Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 584  —  283. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Tómas N. Möller, Kjartan J. Bendtsen og Telmu Halldórsdóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust gögn frá fjármálaráðuneyti og umsagnir um málið frá Eimskip innanlands hf., Almenningsvögnum bs., Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Bændasamtökum Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að lækka kílómetragjald þungaskatts um 10%. Þetta er gert til að koma til móts við eigendur bifreiða sem greiða gjald samkvæmt mæli, en að undanförnu hefur veruleg hækkun orðið á útsöluverði dísilolíu. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir framlengingu á undanþágu frá greiðslu þungaskatts vegna bifreiða sem nota í tilraunaskyni aðra orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu um tvö ár til viðbótar. Nefndin leggur til þá breytingu á frumvarpinu að í bráðabirgðaákvæði verði greint hvernig bregðast skuli við þegar ekki er komið með ökutæki til álestrar á réttum tíma.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Ný gjaldskrá B-liðar 4. gr. laganna tekur gildi 11. febrúar 2001. Nýja gjaldið fyrir hvern ekinn kílómetra tekur gildi strax að loknu fyrsta álestrartímabili sem er frá 20. janúar til 10. febrúar 2001, sbr. 2. mgr. B-liðar 7. gr. laganna. Sé ekki komið með ökutæki til álestrar á réttum tíma skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir lok fyrrgreinds álestrartímabils.

    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er samþykkur álitinu.
    Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara og munu flytja breytingartillögu við málið þess efnis að þungaskattur verði felldur niður af almenningsvögnum.

Alþingi, 15. des. 2000.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Kristinn H. Gunnarsson.


Ögmundur Jónasson.Sigríður A. Þórðardóttir.


Hjálmar Árnason.