Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 592  —  264. mál.




Nefndarálit



um frv. til. l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur, Ólaf Pál Gunnarsson, Maríönnu Jónasdóttur og Bolla Þór Bollason frá fjármálaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson og Kristján Gunnar Valdimarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Finn Sveinbjörnsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra og Andra V. Sigurðsson og Vilhjálm Vilhjálmsson frá Kaupþingi. Þá bárust gögn frá fjármálaráðuneyti og umsagnir um málið frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Verðbréfaþingi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Þjóðhagsstofnun, Samtökum atvinnulífsins, Félagi löggiltra endurskoðenda, Seðlabanka Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum iðnaðarins, ríkisskattstjóra, Verslunarráði Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þær helstu snúa að reglum um frestun á skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa og skattalegri meðferð söluhagnaðarins, en lagt er til að regla, sem hefur verið í gildi frá árinu 1996 um að einstaklingar hafi heimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót, verði felld úr gildi. Hins vegar er gert ráð fyrir því að reglan um frestun skattlagningar söluhagnaðar haldi áfram gildi sínu gagnvart lögaðilum. Jafnhliða fyrirhugaðri niðurfellingu heimildar einstaklinga til frestunar er lagt til að söluhagnaður þeirra af hlutabréfum verði allur skattlagður um 10% eins og aðrar fjármagnstekjur í stað gildandi reglu um að söluhagnaður yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum sé skattlagður eins og um almennan tekjuskatt sé að ræða. Þá er í frumvarpinu lagt til að skýrt verði kveðið á um kæruleiðir vegna fyrirframgreiðslu barnabóta og vaxtabóta og tekinn af allur vafi um kauprétt starfsmanns hlutafélags að hlutabréfum, en reglan er sú að einungis megi kaupa fyrir 600 þús. kr. árlega og óheimilt er að flytja ónýttar kaupréttarheimildir milli ára.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að vafi lék á að bráðabirgðaákvæði um meðferð söluhagnaðar þeirra sem fengið hafa frestun skattlagningar á árunum 1998 og 1999 stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni skattalaga þar sem ekki var gert ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum þeim til handa sem keypt hafa hlutabréf á árinu 2000 með það í huga að óska eftir frestun skattlagningar á söluhagnað af þeim bréfum á næstkomandi ári. Með hliðsjón af þessu gerir meiri hlutinn því breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að unnt sé að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa einstaklinga á árinu 2000 um ein áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð söluhagnaðarins er umfram ákveðin mörk. Þannig hafa þeir sem keypt hafa bréf á árinu 2000 tíma fram til ársloka 2001 til að kaupa ný bréf.
    Meiri hlutinn flytur einnig breytingartillögu þess efnis að að öðrum skilyrðum greinarinnar uppfylltum gildi reglur um samsköttun móðurfélags og dótturfélags í 57. gr. B einnig um dótturfélag í eigu samvinnufélags. Þá er gerð breytingartillaga þess efnis að lagaheimild til innheimtu hátekjuskatts verði framlengd til ársins 2002 með bráðabirgðaákvæði þar að lútandi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Drífa Hjartardóttir.



Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.