Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 625  —  51. mál.




Skýrsla



dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl., samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Skýrsla þessi er lögð fram af dómsmálaráðherra sem svar við beiðni Guðrúnar Ögmundsdóttur o.fl. þingmanna um skýrslu frá dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. Beiðnin var fyrst flutt á 125. löggjafarþingi 1999–2000 (þskj. 942) en var endurflutt á 126. löggjafarþingi og samþykkt 9. október 2000 (þskj. 51). Skýrslan var tekin saman á vegum dómsmálaráðuneytisins sem fól Svölu Ólafsdóttur lögfræðingi að vinna að samningu hennar.
    Í greinargerð með beiðninni segir að mikilvægt sé að skoða hvernig nágrannalöndin hagi löggjöf sinni á þessum sviðum, hvernig hún hafi reynst og hvaða breytingum hún hafi tekið á síðastliðnum árum. Með því að taka saman skýrslu af þessum toga sé hægt að nýta þá þróun sem orðið hafi annars staðar á Norðurlöndum og vinna að endurskoðun og stefnumörkun í þessum málum hér á landi.
    Skýrslan var unnin á tímabilinu maí–október 2000 og miðast við réttarstöðuna eins og hún var 1. september 2000.

Sólveig Pétursdóttir


dómsmálaráðherra.





I. ÍSLAND



1. Klám

1.1 Almennt
    Mikilvægustu ákvæðin um klám í íslenskri löggjöf er að finna í 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (hgl.). Greinin stóð óbreytt allt frá gildistöku hegningarlaganna til ársins 1996, þegar nýju ákvæði um barnaklám var bætt við hana, sbr. 4. mgr. 1 Hinn 27. apríl 2000 voru samþykkt á Alþingi lög er breyttu á ný 2. og 4. mgr. greinarinnar. 2 Breytingarnar fólu annars vegar í sér að refsihámark var hækkað vegna barnakláms 3 og hins vegar var refsivernd gegn barnaklámi aukin. 4 Þá er rétt að nefna að með 105. gr. laga nr. 82/1998 var gerð smávægileg breyting á 1. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, í framhaldi af því að varðhald, sem sérstök refsitegund, var afnumið úr íslenskri löggjöf.
    Ákvæði 210. gr. hgl. hljóðar nú svo:

     210. gr.
              Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
              Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
              Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.
              Hver sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.

1.2 Hugtakið
    Hugtakið „klám“ er hvorki skilgreint í 210. gr. hgl. né í greinargerð. Þá er skilgreiningu á hugtakinu ekki að finna í öðrum lögum. Frá því að hegningarlögin voru sett árið 1940 er ljóst að inntak hugtaksins hefur tekið breytingum í samræmi við breytta þjóðfélagsháttu og frjálslyndari og opnari umfjöllun um kynferðismál. Umburðarlyndi fólks á þessu sviði fer vaxandi og æ meira þarf til þess að gengið sé fram af því í þessum efnum og þar með að lögregluyfirvöld sjái ástæðu til að grípa til aðgerða. Það má sjá af þeim fáu dómum Hæstaréttar sem gengið hafa og fjalla um klám að það sem féll undir hugtakið t.d. fyrir þrjátíu árum mundi tæplega gera það nú. Inntak hugtaksins er þannig breytilegt frá einum tíma til annars og erfitt að gefa eina nákvæma skilgreiningu á því. Þetta viðhorf er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar H 1984:855 (Spegilsmál).
    Fræðimenn í lögfræði hafa freistað þess að setja fram skilgreiningar á hugtakinu þótt ekki hafi það verið gert í löggjöfinni sjálfri. Þannig skýrir Jónatan Þórmundsson lagaprófessor hugtakið í skýrslu nauðgunarmálanefndar frá árinu 1992: 5

              Klámi má lýsa svo, að í því felist lostug lýsing á kynfærum, kynferðislegum stellingum, athöfnum eða hugsunum, en lostug telst lýsingin því aðeins, að sérstök áhersla sé lögð á hið lostavekjandi (nákvæm lýsing, veigamikill hluti verks) eða hún feli í sér eitthvað afbrigðilegt eða ýkt og þar af leiðandi hneykslanlegt samkvæmt almennu siðamati í kynferðismálum.

    Árið 1986 var af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna gerður greinarmunur á hugtökunum „klámi“ (pornografia) og „kynþokkalist“ (erotika). Skilgreining hennar á klámi hljóðar svo í íslenskri þýðingu: 6

              Klám er ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist er bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.

    Hér þykir einnig rétt að nefna skilgreiningu sem kom fram í greinargerð með frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 126/1996 og fjallaði um barnaklám. Þar eru hugtökin „kynferðislegur“ og „klámfenginn“ skilgreind í tengslum við barnaklám. Þar segir: 7

              Með hugtökunum „kynferðislegur“ og „klámfenginn“ er í ákvæðinu átt við kynferðislega lýsingu (ásýnd) sem virkar stuðandi eða er á annan hátt til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta.

    Allar þessar skilgreiningar geta hjálpað og verið leiðbeinandi í þeim tilfellum þegar nauðsynlegt er að skera úr um það hvort efni telst klám eða ekki.

1.3 Birting kláms á prenti
    Samkvæmt 1. mgr. 210. gr. hgl. er refsivert að birta klám á prenti. Í V. kafla prentlaga, nr. 57/1956, með síðari breytingum, er kveðið á um hver beri ábyrgð á efni rita. Í 14. gr. laganna er m.a. fjallað um ábyrgð á efni blaða eða tímarita sem fjalla aðallega um „lostugt efni“.
    Brot gegn 1. mgr. 210. gr. getur varðað sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Í H 1984:855 (Spegilsmál) var ritstjóri tímarits dæmdur til greiðslu sektar m.a. fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. hgl. Þetta er eini dómur Hæstaréttar þar sem sakfellt hefur verið fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. Dómurinn er reifaður nánar í kafla 1.18.

1.4 Dreifing á klámefni o.fl.
    Í 2. mgr. 210. gr. hgl., sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 39/2000, er lögð refsing við því að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá opinberlega til sýnis. Þá er jafnframt lögð refsing við því að efna til opinbers fyrirlestrar eða leiks sem er ósiðlegur á sama hátt. Ekki er því refsivert að búa til, eiga eða flytja inn klámefni til eigin nota eða efna til fyrirlestrar eða ósiðlegs leiks sem ekki er opinber. Þetta tekur þó ekki til klámefnis sem sýnir börn, sbr. 4. mgr. 210. gr. hgl., sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 39/2000.
    Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 210. gr. hgl. getur refsing vegna brots á þessu ákvæði varðað viðkomandi sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði, sbr. orðin „sömu refsingu“ sem vísa til refsimarka 1. mgr. 210. gr. Með lögum nr. 39/2000 var 2. málsl. bætt við 2. mgr. 210. gr., sbr. a-lið 7. gr. þeirra laga. Þar er heimilað refsihámark fangelsi í allt að 2 ár þegar um er að ræða dreifingu klámefnis sem sýnir börn. Í ræðu dómsmálaráðherra á Alþingi, þar sem hann mælir fyrir frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/2000, segir að með þessari breytingu sé leitast við að veita börnum frekari vernd gegn þeirri misnotkun sem felst í framleiðslu og dreifingu barnakláms, auk þess sem lögð sé sérstök áhersla á alvarleika þessara brota. 8
    Í Hæstarétti hafa gengið nokkrir dómar þar sem sakfellt hefur verið fyrir brot á 2. mgr. 210. gr. hgl. Eru það H 1973:452 („plaköt“), H 1984:855 (Spegilsmál), H 1990:1103 (Stöð 2), H 1998:516 (netið) og H 1998:969 (myndbönd). Í H 1973:452 („plaköt“) var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Í hinum fjórum voru ákærðu dæmdir til greiðslu sektar. 9 Nánar er fjallað um þessa dóma í kafla 1.18.
    Þeirri spurningu má varpa fram hvort 2. mgr. 210. gr. geti tekið til nektarsýninga á veitinga- og skemmtistöðum, sbr. orðalagið að „efna til opinbers fyrirlestrar eða leiks sem er ósiðlegur“. Tæpast verður þó talið að venjulegar nektarsýningar geti almennt talist svo klámfengnar að þær falli undir ákvæði 2. mgr. Þetta verður þó að meta í hverju einstöku tilviki. Í lögreglusamþykktum fyrir einstök sveitarfélög er heldur ekki að finna ákvæði sem unnt er að beita til að stemma stigu við slíkum sýningum. Þó er bent á að í lögum um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988, er að finna ákvæði í 3. gr. sem heimilar að settar séu í lögreglusamþykktir fyrir hvert sveitarfélag reglur um skemmtanahald. Hugsanlegt er að á grundvelli þessa ákvæðis sé unnt að setja nánari reglur sem lúta að nektarsýningum og framkvæmd þeirra. Ekki verður þó talið að á grundvelli ákvæðisins sé beinlínis hægt að banna þær.

1.5 Afhending klámefnis til ungmenna
    Í 3. mgr. 210. gr. hgl. er refsing lögð við því að afhenda ungmennum yngri en 18 ára klámefni. Brot gegn því getur varðað sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði, sbr. orðin „sömu refsingu“ sem vísa til refsimarka 1. mgr. 210. gr. Tilgangur ákvæðisins var án efa að vernda börn og ungmenni gegn skaðlegum áhrifum sem klámefni var talið hafa.
    Til er einn dómur Hæstaréttar þar sem sakfellt var m.a. fyrir brot gegn 3. mgr. 210. gr. hgl., sbr. H 1992:1705 (sex unglingsstúlkur). Í því máli var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn áfengislögum, 3. mgr. 210. gr. og 1. mgr. 200. gr. hgl. (sbr. nú 1. mgr. 202. gr. laganna) Refsing var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Dómurinn er reifaður nánar í kafla 1.18.

1.6 Barnaklám

    Í 4. mgr. 210. gr. hgl., sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 39/2000, er að finna ákvæði er lýtur sérstaklega að barnaklámi. Samkvæmt fyrri málslið þess er refsing lögð við því að flytja inn eða hafa í vörslu sinni klámefni sem sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Ákvæðið er að því leyti frábrugðið 2. mgr. 210. gr. hgl. að hér er refsing lögð við innflutningi og vörslu á slíku efni óháð því hvort til stóð að dreifa því eða ekki. Samkvæmt því er það eitt að hafa barnaklám undir höndum refsivert, óháð því hvort það er ætlað til eigin nota eða dreifingar. Sá sem dreifir efni með barnaklámi getur aftur á móti sætt strangari refsiviðurlögum skv. 2. mgr. 210. gr. hgl. Fram kemur í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi því er varð að lögum nr. 126/1996 10 að með vörslum sé ekki endilega átt við að maður eigi efnið, heldur nægi að viðkomandi hafi það á leigu, að láni eða í geymslu. 11 Þá er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að efni sem sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt sé ólöglegt og er það ekki skilyrði refsiábyrgðar að um gróft barnaklám sé að ræða, svo sem þar sem börn eru sýnd í samförum eða öðrum kynferðismökum. Það er því refsivert að hafa í vörslu sinni efni með hvers kyns barnaklámi og er ekki skilyrði að við töku myndefnis hafi verið framið kynferðisbrot gegn barninu. 12 Um hugtökin „kynferðislegan“ og „klámfenginn“ hátt segir í greinargerðinni að átt sé við kynferðislega lýsingu (ásýnd) sem virkar stuðandi eða er á annan hátt til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta. 13
    Rétt er að nefna að upphaflega gerði frumvarpið, er síðar varð að lögum nr. 126/1996, ráð fyrir því í 2. málsl. ákvæðisins að börn væru sýnd nota hluti á „grófan“ klámfenginn hátt. Þessu var breytt í meðförum þingsins og skilyrðið um „grófan“ klámfenginn hátt fellt niður. Um þetta segir í nefndaráliti allsherjarnefndar: 14

              Nefndin leggur til að gerð verði sú breyting á 1. gr. frumvarpsins að það varði refsingu að sýna börn nota hluti á klámfenginn hátt en slíkt verði ekki bundið við grófan klámfenginn hátt.

    Hér má til fróðleiks nefna að lagt var fyrir 120. löggjafarþing (1995–1996) frumvarp er gerði ráð fyrir því að einungis varsla á grófu barnaklámi yrði gerð refsiverð. Í því frumvarpi hljóðaði ákvæðið á þessa leið: 15

              Hver sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í holdlegu samræði eða öðrum kynferðismökum skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á grófan klámfenginn hátt.
    Þetta orðalag ákvæðisins, sem gerði ráð fyrir að einungis varsla á grófu barnaklámi væri refsiverð, mætti mikilli andstöðu í þinginu og fór svo að frumvarpið varð eigi útrætt. Frumvarpið var lagt fram að nýju af dómsmálaráðherra á næsta löggjafarþingi á eftir (121. löggjafarþing, 1996–1997) með nokkrum breytingum. 16 Helsta breytingin fólst í því að lagt var til í fyrri málslið málsgreinarinnar að refsivert yrði að hafa í vörslu sinni myndefni með hvers kyns barnaklámi og ekki var því lengur skilyrði að myndefnið sýndi að kynferðisbrot hefði verið framið á barni eins og fyrra frumvarpið gerði ráð fyrir með því að áskilja að myndefnið sýndi börn í holdlegu samræði eða öðrum kynferðismökum. Frumvarpið var samþykkt óbreytt að öðru leyti en því að úr síðari málslið ákvæðisins var fellt niður orðið „grófan“ eins og áður hefur komið fram og varð það þannig að lögum nr. 126/1996.
    Í XXII. kafla hgl., sem ber heitið Kynferðisbrot, er að finna ýmis ákvæði til verndar börnum og ungmennum gegn kynferðisbrotum. Má þar nefna 201. og 202. gr. er varða börn sérstaklega. Ákvæði þeirra áskilja ekki sérstakar vítaverðar aðferðir við framningu brots, heldur geta t.d. ákveðið aldursmark eða ákveðin fjölskyldutengsl nægt til refsiábyrgðar. Önnur ákvæði XXII. kafla geta að sjálfsögðu einnig átt við um börn og ungmenni ef því er að skipta, t.d. getur barn verið beitt nauðung og því notið refsiverndar 194. eða 195. gr. Væri brotaþoli í slíkum tilvikum yngri en 14 ára bæri einnig að beita 1. mgr. 202. gr. samhliða. Þá eru sérstakar refsihækkunarheimildir í 1. og 2. mgr. 200. gr., þegar þannig háttar til að kynferðisbrot er framið gagnvart barni yngra en 16 ára. Þannig kæmi til greina að beita öðrum ákvæðum XXII. kafla samhliða 2. eða 4. mgr. 210. gr. ef því væri að skipta. 17
    Með síðari málslið 2. mgr. 210. gr., sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 39/2000, er lögð þyngri refsing við þeim brotum sem þar eru talin upp þegar klámefni sýnir börn. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/2000 er með þessu móti reynt að veita börnum frekari vernd gegn þeirri misnotkun sem felst í framleiðslu og dreifingu barnakláms. 18
    Stefna sú sem 4. mgr. 210. gr. hgl. vitnar um er í samræmi við alþjóðlega þróun. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið og Norðurlandaráð höfðu þá skorað á aðildarríki sín að lýsa vörslu barnakláms refsiverða í heimalöndum sínum. Með því móti er reynt að vinna gegn þessum þætti klámiðnaðar í heiminum og halda fram þeim siðgæðisviðhorfum að börn og kynlíf fari ekki saman. Fram kemur í greinargerð með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 126/1996 að markmið löggjafans með því að lýsa vörslu efnis með barnaklámi refsiverða sé að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun, þar sem bann við því að hafa slíkt efni í vörslu sinni sé talið geta dregið úr eða jafnvel fyrirbyggt kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð þess. Þá segir orðrétt: 19

              Þegar efni með barnaklámi er framleitt eru jafnframt framin alvarleg refsiverð brot gegn börnunum. Með því að banna vörslu á efni með barnaklámi er mótuð skýr afstaða gegn kynferðislegri misnotkun á börnum, jafnframt því sem það getur stuðlað að því að bæta réttarstöðu barna. Ef ríki heims gera vörslu á efni með barnaklámi refsiverða er það til þess fallið að takmarka eftirspurn eftir slíku efni og þar með kynferðislega misnotkun barna í tengslum við framleiðslu þess.

    Vorið 2000 voru samþykkt á Alþingi breytingalög sem rýmkuðu efni 4. mgr. 210. gr. hgl. Með þeim var innflutningur á efni með barnaklámi einnig lýstur refsiverður, hvort sem honum fylgdu vörslur á efninu eða ekki, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 39/2000. Var breytingin rökstudd með því að í framkvæmd hefðu þekkst dæmi um að barnaklám hefði fundist í flutningi áður en það var afhent viðtakanda og hefði ekki verið talið unnt að sækja menn til sakar í slíkum tilvikum miðað við gildandi löggjöf. 20

1.7 Frumvarp til breytinga á 210. gr. hgl.

    Hinn 7. mars 2000 lögðu þingmennirnir Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman fram frumvarp á Alþingi er gerði m.a. ráð fyrir breytingum á 210. hgl. 21 Helstu breytingarnar sem lagðar voru til voru þessar:
     1.      Refsihámark skv. 1. mgr. fyrir að birta klám á prenti skyldi hækka úr fangelsi í allt 6 mánuði í fangelsi allt að einu ári.
     2.      Gert var ráð fyrir nýjum málslið í 2. mgr., er yrði 1. málsl. Þar yrði kveðið á um refsingu þess sem er ábyrgur fyrir að auglýsa í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi aðgang að klámi í hvaða mynd sem það er fram borið.
    Frumvarp þetta beið enn fyrstu umræðu er þingi var slitið vorið 2000.

1.8 Póstsendingar
    Í 1. mgr. 27. gr. laga um póstþjónustu, nr. 142/1996, kemur fram að póstsending megi ekki innihalda neitt sem bannað er að flytja eða dreifa eða sem að ytra útliti ber með sér eitthvað ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi. Hér undir gæti því fallið klámefni. Þá kemur fram í 2. mgr. að óskylt sé að taka við póstsendingu sem hætta getur stafað af eða erfiðleikar eru á að flytja, svo og hlutum sem óheimilt er að flytja samkvæmt öðrum lögum eða reglum. Í 45. gr., sbr. 229. gr. laga nr. 82/1998, er kveðið á um viðurlög við brotum á lögunum.

1.9 Auglýsingar
    Í 3.–5. mgr. 22. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, með síðari breytingum, er sérstaklega fjallað um börn og auglýsingar. Í 3. mgr. kemur fram að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og megi þær á engan hátt misbjóða þeim. Þá er jafnframt hnykkt á þessu í 1. og 13. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingar. Í 1. gr. þeirra segir að auglýsingar skuli ekki innihalda boðskap, í orðum eða myndum, sem brjóti gegn almennri velsæmiskennd. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. að auglýsingar, sem beint er til barna eða unglinga eða eru líklegar til að hafa áhrif á þá aldursflokka, skuli ekki innihalda staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað hina yngri geðrænt, siðferðilega eða líkamlega. Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að stemma stigu við því að auglýsingar séu klámfengnar og að auglýsendur haldi sig innan þeirra marka sem samræmast almennum hugmyndum um velsæmi eins og þær eru í þjóðfélaginu á hverjum tíma.
    Samkeppnisráð hefur það hlutverk að framfylgja samkeppnislögum. Sérstök nefnd, auglýsinganefnd, er ráðinu til ráðgjafar. Hlutverk hennar er að fjalla um auglýsingar og gæta þess að þær brjóti ekki gegn 21. eða 22. gr. laganna. Þá starfar jafnframt svonefnd siðanefnd sem komið var á fót að frumkvæði Sambands íslenskra auglýsingastofa. Hún hefur það hlutverk að framfylgja siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingar.
    Í útvarpslögum, nr. 53 17. maí 2000, er að finna ákvæði sem ætlað er að vernda börn gegn ótilhlýðilegum auglýsingum í útvarpi. Í 1. mgr. 20. gr. kemur fram sú meginregla að auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi skuli þannig gerðar og fluttar að þær valdi börnum ekki siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Þá eru jafnframt tiltekin sérstaklega nokkur tilvik sem eru óleyfileg samkvæmt lögunum. Annað ákvæði í útvarpslögunum, sem varðar sjónvarpsútsendingar sérstaklega og sett er til verndar börnum, er að finna í 14. gr. þeirra. Þar segir að sjónvarpsstöðvum sé óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni. Í greininni er einnig að finna reglur um það hvenær og hvernig skuli standa að útsendingu slíks efnis í sjónvarpi.
    Þessum ákvæðum útvarpslaganna er ætlað að vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga og eru efnislega í samræmi við sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins, nr. 89/552/EBE, eins og henni var breytt með tilskipun nr. 97/36/EB. 22 Í kaflanum hér á eftir verður viðeigandi ákvæðum sjónvarpstilskipunarinnar lýst.
    Rétt þykir að nefna í þessu sambandi 5. gr. útvarpslaganna, sem heimilar tímabundna stöðvun á endursendingum sjónvarps frá EES-ríkjum í ákveðnum tilvikum, t.d. þegar dagskrárefni felur í sér klám. Hér undir gæti fallið klámfengið efni í auglýsingum.
    Þá er í gildi reglugerð nr. 611/1989 um auglýsingar í útvarpi. Í 1. mgr. 2. gr. hennar eru talin upp skilyrði í ellefu töluliðum sem auglýsingar, sem ætlaðar eru til flutnings í útvarpi, skulu fullnægja. Skv. 2. tölul. skulu auglýsingar ekki brjóta í bága við almennt velsæmi. Í 3. tölul. er kveðið svo á að auglýsingar megi ekki brjóta í bága við íslensk lög, svo sem almenn hegningarlög. Þá er sérstaklega fjallað um börn og auglýsingar í 8. tölul. Þar segir m.a. að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og að þær megi á engan hátt misbjóða þeim. Jafnframt segir að auglýsingar, sem beint er til barna eða eru líklegar til að hafa áhrif á börn, skuli ekki geyma staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað þau geðrænt eða siðferðilega. Hér undir geta augljóslega fallið klámfengnar auglýsingar.

1.10 Sjónvarpsefni
    Í V. kafla áðurnefndrar sjónvarpstilskipunar Evrópusambandsins er fjallað um vernd barna og ungmenna. Kaflinn er aðeins ein grein, 22. gr., sem hljóðar svo:

              Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að sjónvarpssendingar sjónvarpenda sem lögsaga þeirra nær yfir innihaldi ekki dagskrárefni sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, einkum og sér í lagi dagskrár sem í felst klám eða tilefnislaust ofbeldi. Þetta ákvæði skal einnig ná til dagskrárefnis sem líklegt er til þess að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, nema þegar tryggt er, með vali á útsendingartíma eða með einhverjum tæknilegum ráðstöfunum, að börn og ungmenni á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar …

    Í 14. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, sem byggð er á ákvæðum sjónvarpstilskipunar Evrópusambandsins, eru ákvæði sem hafa það hlutverk að vernda börn gegn sjónvarpsefni sem talið er geta haft alvarleg skaðvænleg áhrif á þroska þeirra eða er til þess fallið að hafa slík áhrif. Skv. 1. mgr. er sjónvarpsstöðvum óheimilt að senda út dagskrárefni sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni. Í ákvæðinu er sérstaklega nefnt efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Í 2. mgr. eru ákvæði þess efnis að dagskrárefni, sem ekki er talið við hæfi barna, skuli einungis sýnt á þann hátt að tryggt sé með tæknilegum ráðstöfunum að börn á því svæði sem útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Á undan slíku efni skal fara munnleg viðvörun eða það auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsendingin stendur yfir. Þá er ráðherra falið í 3. mgr. að setja nánari reglur um útsendingartíma eða tæknilegar ráðstafanir þegar um slíkt efni er að ræða til að koma í veg fyrir svo sem verða má að börn sjái það eða heyri.
    Þá er heimild til þess fyrir íslensk yfirvöld í 5. gr. útvarpslaganna að stöðva tímabundið sjónvarpssendingar frá öðrum EES-ríkjum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ef útsendingin er talin brjóta ljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum 14. gr. laganna eða telst að öðru leyti geta haft alvarleg skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Dagskrárefni sem felur í sér klám er eitt af því sem sérstaklega er nefnt í ákvæðinu í dæmaskyni. Lagagreinin styðst við fyrrnefnda sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að útvarpslögum, nr. 53/2000, segir um þetta ákvæði: 23

              Í flestum tilvikum væri hér um að ræða efni sem refsivert telst samkvæmt hegningarlögum, sbr. 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Efnið þyrfti þó ekki að vera svo alvarlegs eðlis því að ætlast er til að einnig verði mögulegt að banna tímabundið samkvæmt heimild greinarinnar sjónvarp á efni sem fellur undir 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

    Reynt hefur á túlkun sjónvarpstilskipunar Evrópusambandsins fyrir EFTA-dómstólnum. Samkvæmt túlkun hans á þessum ákvæðum sjónvarpstilskipunarinnar eru það siðferðileg viðhorf í mótttökuríkinu sem eiga að ráða í því mati sem hér á reynir, en ekki siðferðileg viðhorf í útsendingarríkinu. Ekki eru talin vera til staðar sameiginleg siðferðisviðhorf í þessum efnum innan EES-svæðisins. 24 Þá hafa Mannréttindadómstóll Evrópu og Evrópudómstóllinn jafnframt talið að hvert ríki fyrir sig hafi rúm valdmörk til ákvarðana þegar um siðferðileg álitaefni er að ræða. 25

1.11 Kvikmyndir

    Samkvæmt lögum um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995, er starfrækt á vegum ríkisins nefnd undir heitinu Kvikmyndaskoðun. 26 Hlutverk hennar er að skoða allar kvikmyndir, sem ætlaðar eru til sýningar eða dreifingar á Íslandi, með það fyrir augum hvort þær teljist vera ofbeldiskvikmyndir í skilningi laganna og hvort þær teljist vera við hæfi barna. Sjónvarpsstöðvar, sem leyfi hafa til útvarps, annast þó sjálfar þessa skoðun á kvikmyndum sem sýna á í dagskrá að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun, sbr. 5. gr. Það eru því fyrst og fremst þær kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýninga í kvikmyndahúsum, til leigu á myndbandaleigum eða til sölu í myndbandaleigum eða verslunum sem Kvikmyndaskoðun skoðar og metur með hliðsjón af 1.–3. gr. laganna. Sala, dreifing eða sýning kvikmyndar er þannig með öllu óheimil, nema fyrir liggi skoðunarvottorð Kvikmyndaskoðunar. Telji Kvikmyndaskoðun kvikmynd geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna ákveður hún hvort banna skuli að sýna eða afhenda kvikmyndina börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna og reglugerð um Kvikmyndaskoðun, nr. 388/1995, með síðari breytingum. 27 Það er hlutverk barnaverndarnefnda og lögreglunnar að hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt og að aðeins séu sýndar kvikmyndir, eða þeim dreift, sem viðurkenndar eru af Kvikmyndaskoðun, sbr. 9. gr. laga nr. 47/1995.

1.12 Tölvuleikir
    Í 11. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995, var að finna nýmæli. Ákvæðið heimilar ráðherra að setja reglur um skoðun tölvuleikja, þ.e. tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki, til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laganna. Samkvæmt almennum athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna kemur fram að hlutverk þeirra sé að „stemma stigu við sýningu kvikmynda þar sem gróft ofbeldi er birt án þess að þjóna tilgangi upplýsinga eða listar, svo og að vernda börn eins og kostur er gegn öðru kvikmyndaefni sem talið er þeim skaðvænlegt“. 28 Þá segir jafnframt að haga skuli skoðun á tölvuleikjum með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum Kvikmyndaskoðunar. Með þessu ákvæði er ráðherra fengin heimild til þess að fella tölvuleiki undir sambærilega skoðunarskyldu og kvikmyndir lúta samkvæmt lögunum. Orðrétt segir í greinargerðinni: 29

              „Myndefni“ af þessu tagi er tiltölulega nýtt fyrirbæri en í örri útbreiðslu og kann að reynast full ástæða til að fylgjast með því hvaða viðfangsefni börnum eru fengin á þeim vettvangi.

    Ekki er að finna ákvæði sem lýtur að skoðun á tölvuleikjum í reglugerð um Kvikmyndaskoðun nr. 388 frá árinu 1995, með síðari breytingum, sem sett er með heimild í lögum nr. 47/1995.
    Á 121. löggjafarþingi (1996–1997) lagði menntamálaráðherra fram frumvarp á Alþingi til breytinga á gildandi lögum um Kvikmyndaskoðun, nr. 47/1995. Rót þessara frumvarpsdraga var að rekja til bréfs umboðsmanns barna til ráðherra þar sem hann lagði til að lögin um Kvikmyndaskoðun yrðu endurskoðuð með það að markmiði að tryggja börnum betur þá vernd sem m.a. væri kveðið á um í stjórnarskrá, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og tilteknum ákvæðum tilskipana EB. Í bréfi umboðsmanns barna komu fram tillögur til gagngerra lagabreytinga og voru þær hafðar til hliðsjónar við samningu frumvarpsins. 30 Í 3. gr. frumvarpsins var gert ráð fyrir því að ráðherra væri ekki aðeins heimilt, heldur skylt, að setja reglur um skoðun tölvuleikja þannig að þeir yrðu látnir lúta hliðstæðum skoðunarreglum og kvikmyndir. Frumvarp þetta varð ekki útrætt og hefur ekki verið lagt fram á ný.
    
1.13 Opinberar sýningar og skemmtanir
    Samkvæmt 56. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, með síðari breytingum, skal barnaverndarnefnd, eftir því sem hún telur ástæðu til, hafa eftirlit með leiksýningum hvers konar og opinberum sýningum eða skemmtunum ætluðum börnum. Telji barnaverndarnefnd að skemmtun sé með einhverjum hætti skaðleg börnum getur hún bannað að börn innan ákveðins aldurs fái aðgang að henni. Hér undir gætu að sjálfsögðu fallið sýningar sem innihéldu klámfengið efni.

1.14 Símaþjónusta (símaklám)
    Almenningur hefur aðgang að fjölmörgum símalínum sem bera yfirgjald. Í 4. mgr. 30. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999, sem tóku gildi 1. janúar 2000, er að finna ákvæði sem eiga að vernda neytendur fyrir kostnaði við þessa þjónustu. Málsgreinin kemur í stað 27. gr. eldri laga um fjarskipti, nr. 143/1996, um eftirlit með símatorgsþjónustu. Samkvæmt henni kom það í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar að hafa eftirlit með þessari þjónustugrein og gæta hagsmuna neytenda. Í 2. mgr. 27. gr. sagði að teldi Póst- og fjarskiptastofnun að símatorgsþjónusta væri andstæð almennu siðferði, svo sem vegna kláms eða þvíumlíks, gæti hún mælt fyrir um fyrirvaralausa stöðvun starfseminnar.
    Með heimild í eldri lögum um fjarskipti, þ.e. lögum nr. 143/1996, setti samgönguráðherra nánari reglur um símatorgsþjónustu í reglugerð. Reglugerðin er nr. 359 frá árinu 1997. Í 1. gr. hennar kemur fram að símatorg sé upplýsingaþjónusta. Upplýsingar skulu lesnar inn á sjálfvirkan svörunarbúnað og má nálgast þær með því að hringja í sérstök uppkallsnúmer. Heimilt er að taka aukagjald fyrir símtöl við símatorgsnúmer. Sá sem óskar eftir að veita upplýsingaþjónustu á símatorgi þarf m.a. í umsókn sinni að gefa upplýsingar um fyrirhugaða upplýsingaþjónustu, sbr. 2. gr. Öll svörun í númer á símatorgi skal vera sjálfvirk, sbr. 3. gr. Þá segir í 13. gr. reglugerðarinnar:

              Óheimilt er að hafa á símatorgi efni, sem brýtur gegn almennum siðgæðisreglum svo sem efni, sem hvetur til ofbeldis og glæpa eða efni, sem kynnir eða tengist kynferðislegum athöfnum eða líkir eftir þeim.

    Þá er jafnframt tekið fram í 15. gr. að auglýsingar og kynning á símatorgsþjónustu skuli ekki brjóta í bága við ákvæði 13. gr.
    Í 18. gr. reglugerðarinnar segir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með því að rekstrarleyfishafar og upplýsingaveitendur fylgi ákvæðum fjarskiptalaga og reglugerðarinnar. Eftirlit stofnunarinnar skal m.a. felast í upphringingum í uppkallsnúmer upplýsingaveitanda. Við mat á því hvort upplýsingar, sem veittar eru á símatorgi, brjóti gegn ákvæðum 13. gr. reglugerðarinnar um almennar siðgæðisreglur getur Póst- og fjarskiptastofnunin leitað til sérstakrar símatorgsnefndar, sem samgönguráðherra skipar til þriggja ára í senn. Hlutverk hennar samkvæmt reglugerðinni er að gefa álit á því hvort efni á símatorgi stríði gegn almennum siðgæðisreglum. Ef Póst- og fjarskiptastofnunin telur að upplýsingaveitandi veiti upplýsingar sem brjóta gegn almennu siðgæði er henni heimilt að loka fyrirvaralaust uppkallsnúmeri hans, sbr. 19. gr.
    Ljóst er þegar ákvæði reglugerðarinnar eru skoðuð og þau borin saman við auglýsingar í fjölmiðlum, t.d. í dagblaðinu DV þar sem þær birtast flestar, að á þeim fáu árum sem liðið hafa frá því að reglugerð um símatorg tók gildi hefur markaðurinn fyrir símatorgsþjónustu tekið miklum breytingum og þjónustan sem þar er boðið upp á teygt sig langt út fyrir það sem ákvæði reglugerðarinnar mæla fyrir um. Sem dæmi má nefna að mikið hefur verið auglýst af efni, t.d. í DV síðustu ár, sem einmitt „kynnir eða tengist kynferðislegum athöfnum eða líkir eftir þeim“. Þá er ekki lengur um það að ræða að símalínurnar séu allar upplýsingalínur þar sem svörunin er sjálfvirk, heldur eru margar þeirra samtalslínur og eins er auglýst á sumum þeirra.
    Í hinum nýju lögum um fjarskipti, sem tóku gildi 1. janúar 2000, er ekki að finna ákvæði sem svarar að öllu leyti til 27. gr. eldri laganna. Gildandi lög nota ekki orðin „símatorgsþjónusta“, heldur „símtöl sem bera yfirgjald“ og einungis er í 4. mgr. 30. gr. gildandi laga, sem kemur í stað 27. gr. eldri laga, kveðið á um neytendavernd varðandi þann kostnað sem af slíkum upphringingum getur hlotist, en ekki lengur varðandi það efni sem boðið er upp á eins og var í 27. gr. eldri laganna. Í lok 4. mgr. 30. gr. gildandi fjarskiptalaga segir að nánar skuli kveðið á um símtöl með yfirgjaldi í reglugerð. Sú reglugerð hefur ekki verið sett þegar þetta er skrifað. Skv. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 110/1999, sem gengu í gildi 1. janúar 2000, er það áfram eitt af hlutverkum stofnunarinnar að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt.
    Eftir gildistöku laga um fjarskipti, nr. 107/1999, er það vafamál hvort ákvæði reglugerðar um símatorgsþjónustu, nr. 359/1997, eigi sér nægilega lagastoð, sérstaklega í ljósi þess að ekki er að finna í hinum nýju lögum ákvæði sem er hliðstætt 27. gr. eldri laga, nr. 143/1996.

1.15 Netið
    Engar sérreglur er að finna í íslenskri löggjöf um birtingu og dreifingu kláms á netinu. Gilda því um það sömu reglur og um klám yfirleitt. Einn dóm er að finna í dómasafni Hæstaréttar þar sem klám á netinu var til umfjöllunar, H 1998:516. Í því máli var maður ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 210. gr. hgl. fyrir birtingu og dreifingu á klámi með því að hafa veitt almenningi aðgang að heimasíðu sinni á netinu þar sem var að finna klámfengnar myndir. Dómurinn er ítarlegar reifaður í kafla 1.18 hér á eftir.

1.16 Brot gegn blygðunarsemi
    Í 209. gr. hgl., sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 104. gr. laga nr. 82/1998, er fjallað um brot gegn blygðunarsemi. Þar segir:

              Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.

    Samkvæmt athugasemdum í greinargerð er fylgdi með frumvarpi því er varð að breytingalögum nr. 40/1992, segir m.a.: 31

              Af nýjum sérákvæðum í 200.–202. gr., sbr. 8.–10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.

    Um muninn á 209. og 210. gr. hgl. segir Jónatan Þórmundsson lagaprófessor: 32

              Sá munur er á 209. og 210. gr. hgl., að 209. gr. leggur refsingu við því athæfi sjálfu, sem þar er lýst, en 210. gr. er stefnt gegn tiltekinni tjáningu hugsunar eða lýsingu í ýmsu formi.

1.17 Eftirlit með klámi
    Lögreglu ber að hafa gætur á afbrotum og eru brot gegn 210. gr. hgl. þar meðtalin. Eins og sjá má hér að framan kemur það einnig í hlut ýmissa fleiri aðila að hafa eftirlit með því að ekki sé gengið of nærri almennu velsæmi í landinu. Má þar nefna starfsmenn póstþjónustunnar, samkeppnisráð, auglýsinganefnd og siðanefnd, útvarpsréttarnefnd, Kvikmyndaskoðun, barnaverndarnefndir og Póst- og fjarskiptastofnun. Öllum þessum aðilum er ætlað það hlutverk samkvæmt lögum og reglugerðum að hafa eftirlit með efni sem hugsanlega brýtur gegn almennum velsæmisreglum. Vel má hugsa sér að efni sé álitið brjóta gegn einstökum ákvæðum sérlaga hvað þetta varðar, þótt ekki verði það talið brjóta gegn 210. gr. hgl.
    Í tengslum við gerð skýrslu þessarar var öllum lögreglustjóraembættum landsins, ásamt embætti ríkissaksóknara, sent bréf í lok júlí árið 2000 þar sem beðið var um upplýsingar um fjölda kæra vegna kláms síðastliðin fimm ár og afdrif þeirra. Rétt þykir að gera grein fyrir þessum tölulegu upplýsingum í skýrslunni, enda varpa þær ljósi á þýðingu klámákvæða í íslenskri löggjöf, þ.e. túlkun þeirra og raunverulega framkvæmd. Hafa ber þann fyrirvara að ekki er víst að tölurnar séu að öllu leyti nákvæmar þar sem mál af þessu tagi voru skráð undir heitinu kynferðisbrot fram til ársins 1997. Þá er hugsanlegt að einstök mál hafi farið á milli lögreglustjóraembætta og séu þar af leiðandi talin oftar en einu sinni. Enn fremur er mögulegt að mál vegna brota gegn 210. gr. hafi verið hluti af öðrum og stærri málum og þar af leiðandi ekki skráð sérstaklega sem brot gegn 210. gr. í málaskrá ríkissaksóknara eða að ríkissaksóknari hafi skráð fleiri en eina kæru á sama málanúmer. Þessar upplýsingar eru þó allnákvæmar og gefa skýra mynd af því hve margar kærur berast yfirvöldum á ári hverju vegna ætlaðra brota á 210. gr. og af afdrifum þeirra.
    Samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra utan Reykjavíkur var um að ræða 18 kærur á þessu tímabili. Níu málanna voru send ríkissaksóknara til afgreiðslu, einu þeirra lauk með sáttargerð, sex voru felld niður eða rannsókn þeirra hætt og tvö þeirra eru enn í rannsókn.
    Í svari lögreglustjórans í Reykjavík kom í ljós að á árunum 1995 til júlíloka árið 2000 höfðu samtals 26 mál af þessu tagi verið til afgreiðslu hjá embættinu. Ellefu þeirra voru send embætti ríkissaksóknara til meðferðar, fjögur voru felld niður, fjögur voru lögð upp, þar af eitt vegna andláts sakbornings, eitt var sett í geymslu og sex eru enn í rannsókn.
    Þá hafði embætti rannsóknarlögreglu ríkisins sjö kærur til meðferðar á árunum 1995–1997, en embættið var lagt niður 1. júlí 1997. Fimm málanna voru send embætti ríkissaksóknara til afgreiðslu og tvö þeirra voru lögð upp.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara eru skráð samtals 28 mál af þessu tagi í málaskrá embættisins á umræddu tímabili. Tvö árið 1995, fimm árið 1996, þrjú árið 1997, átta árið 1998, sex árið 1999 og fjögur í lok júlí árið 2000. Átta þeirra lauk með dómi (þar af einn frávísunardómur), sjö með viðurlagaákvörðun og ellefu þeirra voru felld niður. Í einu málinu hefur verið gefin út ákæra og eitt mál bíður enn afgreiðslu. Öll þessi mál voru framsend embættinu frá lögreglustjórum á landinu, að einu frátöldu sem var kært beint til ríkissaksóknara.
    Miðað við framboð hér á landi á efni af kynferðislegum toga hljóta þetta að teljast tiltölulega fá mál sem leiða til málshöfðunar. Til þess að varpa ljósi á túlkun og framkvæmd ákvæða hegningarlaganna sem varða klám voru 14 þeirra mála sem leiddu til sakfellingar, ýmist með dómi eða viðurlagaákvörðun, skoðuð sérstaklega. Í ljós kemur að sex mál lúta að barnaklámi. Í fimm þeirra var sakfellt fyrir vörslur, sbr. 4. mgr. 210. gr. hgl. Í einu þeirra var sakfellt fyrir vörslur og dreifingu, sbr. 2. og 4. mgr. 210. gr.
    Í hinum átta málunum var sakfellt fyrir dreifingu annars klámefnis, sbr. 2. mgr. 210. gr. Þremur þessara mála lauk með viðurlagaákvörðun og er þar af leiðandi takmarkaðar upplýsingar að finna um eðli þess kláms er þar var um að ræða. Í þeim fimm dómum sem varða dreifingu kláms er í tveimur málanna tekið fram að ekki hafi verið um að ræða klám sem „almennt er til þess fallið að misbjóða siðferðisvitund fullorðins fólks“. Í tveimur tilvikum, þar sem um var að ræða tiltölulega umfangsmikla dreifingu, má ráða af dómunum að m.a. hafi verið um klám af grófara tagi að ræða. Öðrum þessara dóma var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. H 1998:969, og er hann reifaður í kafla 1.18 hér á eftir. Í einu málanna var um að ræða dreifingu kláms á netinu. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. H 1998:516, og er hann reifaður í kafla 1.18 hér á eftir.
    Erfitt er að draga ályktanir af svo fáum dómum um framkvæmd á klámákvæði hegningarlaganna. Þannig virðist málshöfðun ekki sérstaklega vera bundin við umfangsmikla dreifingu eða gróft klám. Þvert á móti virðast umsvifin í sumum tilvikum hafa verið fremur lítil (í einu tilvikinu var um sex myndbandsspólur að ræða) og í öðrum var klámið ekki talið „til þess fallið að misbjóða siðferðisvitund fullorðins fólks“, eins og það er orðað í tveimur dómanna. Þannig verður tæpast dregin önnur ályktun en sú að framkvæmd ákvæðisins sé fremur tilviljanakennd frekar en að fylgt sé samræmdum viðmiðum um hvenær lögregla aðhefst nokkuð í slíkum málum.

1.18 Dómar Hæstaréttar
    Þegar dómasafn Hæstaréttar er skoðað kemur í ljós að fáir dómar hafa gengið þar sem reynt hefur á klámákvæði almennra hegningarlaga. Verða þeir nú reifaðir í tímaröð.
    H 1972:397 ( klámritið „Kynblendingsstúlkan“).
    Saksóknari ríkisins gaf út ákæru á hendur tveimur mönnum fyrir að hafa gefið út og haft til sölu á almennum innlendum markaði klámrit, og var það talið varða við 210. gr. hgl. Í ákæru var hinum ákærðu nánar gefið að sök að hafa gerst brotlegir við nefnda lagagrein með:

    … útgáfu og dreifingu klámritsins „Kynblendingsstúlkan“ til almennrar sölu á innlendum markaði sumarið 1970 eftir að hafa fengið bók þessa þýdda úr dönsku …

    Héraðsdómari vísaði málinu frá dómi þar sem í ákæru var eigi vitnað til einstaks eða einstakra kafla, blaðsíðna, málsgreina, setninga né orða í bókinni til að renna stoðum undir að hún væri klámrit. Saksóknari ríkisins kærði frávísunardóminn til Hæstaréttar sem staðfesti hann með skírskotun til forsendna hans.
    H 1973:452 („ plaköt“).
    Í málinu voru G og H ákærðir:

    … fyrir brot samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með því að hafa látið prenta 2000 myndspjöld („plaköt“), en á hverju þessara spjalda voru 12 klámfengnar myndir af fólki í ýmiss konar samræðisstellingum. Komu ákærðu síðan nokkrum hluta upplagsins til sölu í verzlun Karnabæjar … í janúarmánuði 1972, en gáfu ennfremur nokkur af þeim.

    Málavextir voru þeir að bræðurnir G og H stofnuðu sameignarfélagið P og var tilgangur þess útgáfustarfsemi. G kvaðst hafa látið gera erlendis teikningar af veggspjöldum með stjörnumerkjum. Sýndu þau fólk í 12 samræðisstellingum. G kvað þessar teikningar hafa verið gerðar að fyrirmynd mismunandi erlendra veggspjalda, sem hefðu verið á boðstólum í verslunum í Englandi og Bandaríkjunum. G bar teikningarnar síðan undir H sem féllst á að P gæfi þær út. Voru þær prentaðar hér á landi í 2000 eintaka upplagi. H geymdi um helming upplagsins en G hinn helminginn. G kom um 200 eintökum til sölu í verslunina K. Kvaðst kaupmaður í K hafa selt spjöld þessi, sem voru þar til sýnis og sölu, á 300 kr. eintakið og skyldi K fá 100 kr. umboðssölulaun. G kvaðst hafa gefið nokkrum mönnum spjöld þessi og hefði enginn þeirra verið undir 18 ára aldri. Af hálfu lögregluyfirvalda var sala spjaldanna stöðvuð og lagt hald á samtals 1603 eintök. Kynlífsteikningar þessar voru skuggamyndir og sýndu líkamsstöður en eigi t.d. kynfæri. Eigi varð talið að veggspjöld þessi helguðust af neinum listrænum tilgangi öðrum en þeim að gera myndirnar að söluvarningi. Þær voru til sölu í K sem höfðaði mjög til ungs fólks með auglýsingum sínum og vörum sem þar voru á boðstólum.
    Ákærðu héldu því fram undir rekstri málsins að veggspjöldin væru ekki klám og því hefðu þeir ekki framið refsiverðan verknað. Í héraðsdómi segir m.a.:

              Kynlífsteikningarnar tólf eru skuggamyndir, „silhouettur“, en þó þannig, að helztu líkamslínurnar, sem ekki markast af fletinum sjálfum, eru sýndar negatívar, þ.e. hvítar. Sýnd stjörnumerkjanna er hins vegar öfug við þetta: Þau eru hvít á svörtum grunni og innlínurnar því svartar. Teikningarnar eru kunnáttusamlega gerðar, og í þeim er á engan hátt leitazt við að draga neitt fram umfram líkamsstöðurnar, sem þær sýna, t.d. eru kynfæri ekki sýnd.
              Spjald þetta er veggspjald, ætlað til þess að hanga uppi og því auðsætt hverjum, þar sem það er. Er að þessu leyti um að ræða beinni og opnari skírskotun myndanna heldur en væri í blaði eða bók.
              Ekki verður séð, að veggspjald þetta helgist af neinum listrænum tilgangi né heldur neinum öðrum tilgangi en þeim að gera nefndar myndir að söluvarningi. Í því sambandi ber að líta á það, að eini staðurinn, þar sem spjöldin voru falboðin, var verzlun, sem höfðar mjög til ungs fólks með auglýsingum sínum og vörum þeim, er hún hefur á boðstólum.
              Af hálfu ákærðu hefur ekki verið bent á neitt, sem hér á landi hefur verið gefið út myndaefnis, er gangi jafnlangt í klámkennda átt. Þykir dóminum ekki rétt, að hann gangi fram fyrir skjöldu til þess að rýmka mörkin í þessum efnum. Samkvæmt þessu þykja ákærðu hafa gerzt brotlegir gegn 210. gr., 2. mgr., almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
              Með tilliti til þess, að skiptar skoðanir geta verið um, hvað teljast skuli klám, og að ákærðu kunni að hafa haft nokkra ástæðu til að ætla, að gerð og dreifing fyrrgreindra veggspjalda væri innan marka þess, sem leyfilegt væri talið, þykir mega ákveða, að þeim skuli eigi refsing gerð.

    Hæstiréttur komst svo að orði um veggspjöld þessi:

              Fallast ber á það mat héraðsdóms, að veggspjöld þessu [sic] séu ekki liður í listrænni tjáningu. Myndir þessar eru klámfengnar, og tilbúningur þeirra og dreifing með þeim hætti, er í héraðsdómi greinir, varðar báða ákærðu refsingu samkvæmt 210. gr., 2. málsgrein, almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

    Hæstiréttur taldi þó, svo sem sakarefni var háttað, að rétt væri að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið miðað við 2 ár, sbr. 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá voru veggspjöldin, sem lögreglan hafði lagt hald á við rannsókn málsins, gerð upptæk.
    H 1983:1568.
    Í dóminum er fjallað um kærumál vegna haldlagningar lögreglu á tímaritum er talin voru innihalda m.a. klámfengið efni. Mál var síðar höfðað til refsingar, sbr. H 1984:855 ( Spegilsmál).
    H 1984:855 ( Spegilsmál).
    Ákæruvaldið höfðaði mál á hendur Ú fyrir að hafa, með útgáfu og dreifingu tveggja tímarita, gerst brotlegur gegn 125. gr. (guðlast) og 210. gr. hgl. og gegn lögum um prentrétt.
    Dómur Hæstaréttar féll á þann veg að Ú var sakfelldur fyrir brot á 125. gr. hgl. vegna ummæla í tímaritunum. Fólu þau í sér háð um grundvallartrúarkenningar Þjóðkirkjunnar. Jók það á saknæmi brotsins að við háðið um trúarkenningar voru í lesmáli tengdir mjög alvarlegir glæpir.
    Þá var Ú sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 210. gr. hgl. vegna greinar er tjáðist vera útdráttur úr dagbók nafngreinds manns, en þar var vikið að kynrænum efnum. Um þennan hluta ákæruskjalsins segir í dómi Hæstiréttar:

              Lesefnið er rakin smekkleysa, sem lýtur að nafngreindum mönnum, og ósæmilegt með öllu, en verður ekki talið klám svo sem skýra þykir eiga það orð í 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eftir þeim viðhorfum, sem nú ríkja um umfjöllun um kynræn efni, m.a. í rituðu máli. Ber því að sýkna ákærða af ákæru fyrir brot á nefndu ákvæði.

    Í héraði hafði Ú aftur á móti verið sakfelldur fyrir þennan ákærulið með eftirfarandi orðum héraðsdómarans m.a.:

              Orð þessi eru lágkúruleg, illkvittin, ófyrirleitin, móðgandi og í alla staði hin grófasta árás á einkalíf fólks og virðast aðeins sett fram í því skyni að svívirða hjónin á hinn grófasta hátt og selja blaðið til hagsbóta fyrir útgefandann. Ófyrirleitin kynlífsumföllun af þessu tagi, sem þjónar engum jákvæðum tilgangi, álítur dómurinn vera brot á 1. og 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, og hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt henni.

    Ú var síðan sakfelldur í Hæstarétti vegna myndar er sýndi konu og barn og svo karlmann sem mundaði sveðju að nöktum getnaðarlimi sínum. Í dóminum segir m.a.:

              Þessi sorafengna mynd þykir, þegar hún er virt heildstætt, vera með þeim hætti, að hún varði ákærða refsingu samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga.

    Þá var Ú einnig sakfelldur fyrir brot á prentlögum. Ú var dæmdur til að greiðslu sektar að fjárhæð 16.000 kr. Þá voru þær blaðsíður tímaritanna sem geymdu refsiverð ummæli dæmd upptæk, ásamt þeim myndmótum og offsetfilmum er vörðuðu þetta efni.
    H 1990:1103 ( Stöð 2).
    J var ákærður fyrir að hafa, sem útvarpsstjóri sjónvarpsstöðvarinnar Stöð 2, sýnt á Stöð 2 tvær klámmyndir, „Í nautsmerkinu“ og „Í tvíburamerkinu“. Í ákæru segir orðrétt:

              … í báðum myndunum koma fyrir mörg klámfengin atriði, þar sem lögð er áhersla á að sýna með lostafullum hætti kynfæri karla og kvenna, kynmök samkynja fólks og ósamkynja, mök fleiri en tveggja í einu og fólk við sjálfsfróun …

    Í ákæruskjali var þetta talið varða við 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, svo og útvarpslög. Um sakarefnið segir svo í dómi héraðsdóms:

              Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.
              Í kvikmyndum þeim, sem til umfjöllunar eru í máli þessu, er greinilega lögð áhersla á að sýna á ögrandi hátt í langflestum þeim atriðum, sem ákært er út af … oft í nærmynd kynfæri karla og kvenna, kynmök fólks og fólk við sjálfsfróun, án þess að séð verði, að það þjóni neinu augljósu markmiði öðru en að sýna kynlífsathafnir. Listrænn, fagurfræðilegur eða leikrænn tilgangur þessara atriða í myndunum þykir eigi vera sýnilegur.

    Var það álit héraðsdóms að í öllum þeim tilvikum sem ákært var út af, að undanskildum tveimur, væri um klám að ræða í skilningi 2. mgr. 210. gr. hgl. Var ákærði dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 200.000 kr. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest í Hæstarétti.
    H 1992:1705 ( sex unglingsstúlkur).
    H var sakfelldur fyrir að veita nokkrum stúlkum undir lögaldri áfengi á heimili sínu frá mars til ágúst 1991, fyrir að sýna þeim klámkvikmyndir í myndbandstæki, svo og fyrir að hafa haft samfarir við þrjár þeirra, fæddar 1977, 1978 og 1979, er þær voru ölvaðar, eftir að hann hafði veitt þeim áfengi. H var ljós aldur stúlknanna. H braut þannig gegn áfengislögum og 1. mgr. 202. gr. hgl., eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 40/1992, hvað varðaði að veita stúlkunum áfengi og hafa mök við þrjár þeirra undir lögaldri. Athæfi hans að sýna þeim klámmyndir í myndbandstæki á heimili sínu varðaði við 3. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. Refsing var ákveðin tveggja ára og sex mánaða fangelsi.
    H 1998:516 ( netið).
    Þ var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 210. gr. hgl. fyrir birtingu og dreifingu á klámi með því að hafa veitt almenningi aðgang að heimasíðu sinni á netinu þar sem var að finna klámfengnar myndir. Þ skráði heimasíðu sína hjá leitarstöð á vegum H og einnig í erlendri leitarstöð. Ekki varð séð af skráningunum, að hann hefði merkt heimasíðu sína á þann hátt að þar væri að finna svonefnt „heitt“ efni, en hann setti myndirnar á heimasíðu sína án þess að búa svo um að aðgangur annarra að þeim væri háður heimild hans. Var því litið svo á að hann hefði boðið öðrum aðgang að myndunum og þar með miðlað efninu í gegnum netið. Slík miðlun taldist dreifing í skilningi 2. mgr. 210. gr. hgl.
    Í dómi héraðsdóms segir um sakarefnið:

              Ekki þykir orka tvímælis, að þær 67 myndir, sem ákært er út af og sýna kynfæri karla og kvenna, kynmök og aðrar kynlífsathafnir á opinskáan hátt, án þess að séð verði, að listrænn, fagurfræðilegur eða leikrænn tilgangur liggi að baki, eru klámmyndir í skilningi 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.

    Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að umræddar myndir væru klám í skilningi 2. mgr. 210. gr. hgl. Þar sem brotið var ekki stórfellt, ekki drýgt í auðgunarskyni og Þ vakti ekki sérstaka athygli annarra á myndefninu þótti refsing hans hæfilega ákveðin 20.000 kr. sekt í ríkissjóð.
    H 1998:969 ( myndbönd).
    M var m.a. ákærður fyrir að hafa á tímabilinu frá 1. september til 1. nóvember 1996 haft til láns og leigu 102 kvikmyndir með klámfengnu efni í myndbandaleigu sinni, „en á öllum myndunum, sem lögregla lagði hald á við húsleit … er meginmyndefnið klámfengin atriði, þar sem lögð er áhersla á að sýna með lostafullum hætti kynfæri karla og kvenna í margs konar kynmökum“, eins og segir í ákæru. Var þetta talið varða við 2. mgr. 210. gr. hgl.
    Í héraðsdómi segir:

              Í dómi sakadóms Reykjavíkur 28. febrúar 1990 í málinu nr. 124/1990: Ákæruvaldið gegn J …, en sá dómur var staðfestur í Hæstarétti …, er tilgreind skilgreining sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna á klámi. Í forsendum dómsins segir: „Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.“ Dómendur telja, að við þessa skilgreiningu megi styðjast, þegar metið er, hvort myndbönd þau, sem ákært er fyrir dreifingu á í þessu máli, innihaldi klám.
              Að mati dómenda eru öll þau myndskeið, sem þeir skoðuðu … klámfengin, þó að misgróf séu. Hið sama gildir um öll þau myndskeið, sem lýst er í … skoðunarskýrslu, en þar er lýst myndskeiðum úr öllum þeim myndböndum, sem ákært er út af. Lögð er áhersla á að sýna kynfæri og kynmök og sjálfsfróun á ögrandi hátt. Ögrunin felst m.a. í því, að myndskeið eru dregin á langinn, kynfæri sýnd í nærmynd við kynmök og sjálfsfróun og stundum lögð áhersla á afbrigðileg kynmök. Klámið er þó ekki af grófasta tagi; á myndböndunum virðist ekki að finna barna- eða dýraklám eða klám tengt grófu ofbeldi. Að mati dómenda örlaði ekki á kynþokkalist í þeim myndskeiðum, sem þeir skoðuðu. Að þeirra mati er augljóst, að framleiðsla myndbandanna í máli þessu hefur ekki listrænan eða fagurfræðilegan tilgang, heldur eru þau einungis gerð í hagnaðarskyni. Dómendur telja, að í öllum myndböndum málsins sé klám, sem falli undir ákvæði 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

    Í Hæstarétti var M dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 210. gr. hgl. Hann var einnig sakfelldur fyrir brot gegn áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Var hann dæmdur til greiðslu 450.000 kr. sektar í ríkissjóð.

2. Vændi
2.1 Almennt
    Í XXII. kafla almennra hegningarlaga (Um kynferðisbrot), 206. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992 og 103. gr. laga nr. 82/1998, er að finna ákvæði um vændi. Þá er í 208. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 40/1992, sérstök ítrekunarheimild, sem heimilar aukna refsingu þegar sá sem sæta skal refsingu eftir 206. gr., hefur áður verið dæmdur fyrir brot á því ákvæði eða hann hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot.
    Ákvæði 207. gr. hgl., sem fjallaði sérstaklega um kynferðismök samkynhneigðra gegn greiðslu, var fellt niður með 16. gr. laga nr. 40/1992 í samræmi við breyttan tíðaranda gagnvart samkynhneigðum.

2.2 Stundan vændis
    Samkvæmt 1. mgr. 206. gr. hgl., með síðari breytingum, er lögð refsing við því að stunda vændi sér til framfærslu, en þar segir:

              Hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

    Ákvæði 1. mgr. 206. gr. var áður að finna í XX. kafla hgl., 181. gr. Það var síðan með breytingalögum nr. 40/1992, 13. gr., sem það var flutt úr XX. kafla laganna, Brot á reglum um framfærslu og atvinnuháttu, yfir í XXII. kafla, sem fjallar um kynferðisbrot. Þótti það eðlilegra fyrirkomulag að flokka þetta brot með öðrum kynferðisbrotum, þar sem þau varða öll kynlíf og kynhegðun fólks. Þá voru jafnframt gerðar orðalagsbreytingar á ákvæðinu þótt það héldi sér efnislega. Í 181. gr. var m.a. talað um að „afla sér framfærslu með ólöglegu móti, svo sem með … lauslæti“. Hugtakið „vændi“ kemur því ekki fyrir í íslenskri löggjöf fyrr en með breytingalögum, nr. 40/1992. Refsimörkin í 1. mgr. 206. gr. eru þau sömu og kveðið var á um í 181. gr. Refsihámarkið er 2 ára fangelsi og þar sem ekkert sérstakt refsilágmark er tiltekið, gilda um það ákvæði 34. gr. hgl.
    Hugtakið „vændi“ er hvorki skilgreint í lagatextanum sjálfum né í greinargerð. Þá var hugtakið „lauslæti“ í 181. gr. laganna, eins og hún hljóðaði fyrir breytinguna árið 1992, heldur ekki skilgreint, hvorki í texta laganna sjálfra né greinargerð. Rétt er að gera ráð fyrir því að almennur skilningur á hugtakinu vændi feli í sér að aðilar (kaupandi og seljandi) semji svo um að kynferðisathafnir fari fram á milli þeirra gegn greiðslu. Greiðslan getur hvort heldur verið í formi peninga eða annarra verðmæta.
    Jónatan Þórmundsson lagaprófessor skilgreinir hugtakið vændi í grein er birtist í Morgunblaðinu árið 1980 og hljóðar skilgreiningin svo: 33

              Hugtakið vændi (prostitution) má nota um þá hegðun karls eða konu að gefa hverjum sem er öðrum, karli eða konu, kost á líkama sínum til einhvers konar kynferðismaka fyrir borgun.

    Orðin „að stunda vændi sér til framfærslu“ í 1.mgr. 206. gr. vísa til umfangs vændisins. Það hefur þá merkingu að til þess að vændi sé refsiverð háttsemi, þurfi að vera um að ræða hátterni sem stundað er í svo ríkum mæli að endurgjald fyrir það skipti verulegu máli í framfærslu viðkomandi. Það getur verið eina „atvinna“ viðkomandi, aðal-„atvinna“ eða a.m.k. stundað svo reglubundið að verulega muni um þau verðmæti sem fyrir vændið fást í framfærslu viðkomandi. Í þessum tilvikum er um ólöglega framfærsluleið að ræða. Að öðru leyti er vændi (lauslæti) ekki refsivert.
    Í samræmi við réttrarþróun í öðrum löndum var sú stefna tekin við endurskoðun kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga árið 1992, sem leiddi til breytingalaga nr. 40/1992, að ákvæði hans urðu ókynbundin. Ákvæði 1. mgr. 206. gr. nær þannig jafnt til karla og kvenna sem seljenda þessarar þjónustu, þ.e. konur sem karlar geta gerst sek um vændi, og eins tekur ákvæðið til vændis gagnkynhneigðra sem og samkynhneigðra, þ.e. kaupandi þjónustunnar getur hvort heldur sem er verið af sama kyni og seljandinn eða af gagnstæðu kyni.
    Það er athyglisvert til samanburðar að skv. 207. gr. hgl., sem felld var niður með 16. gr. laga nr. 40/1992, varðaði það mann refsingu að hafa kynferðismök við annan mann, sama kyns, fyrir borgun. Hér virðist því hafa dugað til refsiábyrgðar eitt einstakt skipti, ef því var að skipta. Eins og áður hefur komið fram var ákvæði þetta, sem þótti vitna um fordóma í garð samkynhneigðra, fellt úr lögunum árið 1992 í samræmi við breytt viðhorf gagnvart þessum hópi fólks.
    Árið 1992, lá frumvarp að breytingalögum nr. 40/1992 fyrir Alþingi, og spunnust þá miklar umræður innan þingsins um það hvort yfirleitt væri rétt og eðlilegt að refsa mönnum fyrir vændi sér til framfærslu. Voru skiptar skoðanir um það efni meðal þingmanna. Allsherjarnefnd, sem hafði frumvarpið til umfjöllunar á sínum tíma, klofnaði í afstöðu sinni. Meiri hluti hennar var fylgjandi því að hafa ákvæði sem þetta áfram í íslenskum hegningarlögum, 34 en minni hlutinn vildi fella úr lögunum ákvæði sem lýsti vændi sér til framfærslu refsivert. 35 Helstu rökin sem fram komu hjá þingmönnum gegn því að rétt væri að refsa fyrir vændi sér til framfærslu voru í fyrsta lagi að flestir sem gripu til þessa ráðs sér til viðurværis gerðu það út úr mikilli neyð og að oft á tíðum færi saman eiturlyfjaneysla og vændi. Í öðru lagi mundi slíkt refsiákvæði vinna gegn því að þeir sem stunduðu vændi og yrðu fyrir kynferðislegu ofbeldi við þær aðstæður kærðu slík brot til lögreglunnar af hættu við að koma upp um sjálfa sig. Í þriðja lagi töldu þingmenn að óeðlilegt væri að aðeins öðrum aðilanum væri refsað, þ.e. þeim er stundar vændið, en ekki hinum, þ.e. þeim sem kaupir þjónustuna. 36 Rökin fyrir ákvæðinu eru fyrst og fremst þau að ákvæði sem þetta sé til þess fallið að hafa áhrif á almennt siðgæði í landinu, hafa varnaðaráhrif. 37 Slíku ákvæði sé ætlað að vera „skilaboð til þjóðfélagsins um hug löggjafarvaldsins til verknaðarins“, eins og einn ræðumanna á Alþingi komst að orði er frumvarpið var þar til meðferðar. 38 Enginn ágreiningur varð aftur á móti um það innan þingsins að rétt væri að refsa fyrir hagnýtingu vændis, sbr. 2.–5. mgr. 206. gr. hgl.

2.3 Hagnýting vændis
    Í 2.–5. mgr. 206. gr. hgl., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992 og 103. gr. laga nr. 82/1998, er að finna ýmis ákvæði er lúta að hagnýtingu vændis í einni eða annarri mynd. Í ákvæðunum er ekki notað orðið „vændi“ heldur orðið „lauslæti“. Í kandídatsritgerð Ástu Sigrúnar Helgadóttur, sem áður hefur verið vitnað til, segir: „Telja verður að tilgangurinn með því að nota orðið lauslæti sé að gera ákvæðin víðtækari, þ.e. að ákvæðin nái yfir fleiri athafnir en vændi samkvæmt lagaskilningi, þ.e. orðið lauslæti er víðtækara.“ 39 Það er sameiginlegt með verknuðunum sem lýst er í 2.–5. mgr. 206. gr. að þeir eru almennt unnir í hagnaðarskyni og miða refsiákvæðin öll að því að gera þá sem nefna mætti „milligöngumenn“ eða „vændismiðlara“ í þessu sambandi refsiábyrga. Það er einkenni flestra vændisbrota að þeir einstaklingar sem þau fremja eru oftar en ekki illa á vegi staddir heilsufarslega, andlega og/eða félagslega. Það sýnir hversu alvarlegum augum löggjafinn lýtur það er menn hafa eymd og neyð annarra að féþúfu að refsihámark fyrir brot á þessum ákvæðum er hærra en skv. 1. mgr. 206. gr., eða fjögur ár.

    a) Atvinna eða viðurværi af lauslæti annarra
    Ákvæði 2. mgr. 206. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992, er svohljóðandi:

              Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

    Fyrir breytinguna, sem gerð var á hegningarlögunum með lögum nr. 40/1992, var samsvarandi ákvæði að finna í 181. gr. laganna. Samkvæmt orðalagi þeirrar lagagreinar var það m.a. ólögleg framfærsluleið að fá „… viðurværi sitt frá kvenmanni sem hefur ofan af fyrir sér með lauslæti …“ Slík háttsemi gat varðað allt að tveggja ára fangelsi, enda lægi ekki þyngri refsing við broti eftir öðrum lögum. Með 13. gr. laga nr. 40/1992 var refsihámarkið fyrir þetta brot hækkað úr tveimur árum í fjögur. Tilgangur ákvæðisins er að koma í veg fyrir að milligöngumenn notfæri sér lauslæti annarra í hagnaðarskyni.

    b) Ginning, hvatning eða aðstoð við ungmenni til að hafa viðurværi sitt af lauslæti
    Ákvæði 3. mgr. 206. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992, er svohljóðandi:

              Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti.

    Ákvæðið svarar til 2. mgr. 206. gr. hgl. eins og hún hljóðaði áður en breytingalög nr. 40/1992 tóku gildi. Ákvæðin eru efnislega samhljóða, aðeins voru gerðar smávægilegar breytingar á orðalagi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, kemur fram í skýringum með ákvæðinu að þar sé lögð refsing við verknaði sem miði að því að spilla siðferði barna og unglinga. 40 Hinn refsiverði verknaður er fólginn í því að fá ungmenni, sem ekki hafa náð 18 ára aldri, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti með einhverri þeirri aðferð sem tiltekin er í ákvæðinu. Í greinargerð kemur fram að sá verknaður sé refsiverður þótt hann sé ekki framinn í ávinningsskyni. 41
    Orðin „sömu refsingu“ vísa til 2. mgr. 206. gr. þar sem fram kemur að brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að fjórum árum.

     c) Flutningur fólks milli landa í því skyni að það hafi viðurværi sitt af lauslæti
    Í 4. mgr. 206. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992, er að finna eftirfarandi ákvæði:

              Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar.

    Ákvæðið svarar til 3. mgr. 206. gr. eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku breytingalaga nr. 40/1992. Með 13. gr. breytingalaganna voru þær efnislegu breytingar gerðar á ákvæðinu að það var látið taka bæði til þess að stuðla að því að maður flytti úr landi og til landsins í því skyni að hann hefði viðurværi sitt af lauslæti. Ákvæðið, eins og það hljóðaði fyrir breytinguna, tók aðeins til þess verknaðar að stuðla að flutningi manns úr landi í því skyni að hann hefði ofan af fyrir sér erlendis með lauslæti. Þessi verknaðarlýsing þótti vera of þröng þar sem það gæti átt sér stað að stuðlað væri að því að fólk flytti hingað til lands í sama tilgangi.
    Samkvæmt 4. mgr. 206. gr. er annars vegar refsivert að hafa milligöngu um að maður, sem er yngri en 21 árs, flytji úr landi eða til þess í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti. Aldursmörkin eru höfð óbreytt frá því sem þau voru er ákvæðið var sett í almenn hegningarlög árið 1940. Á þeim tíma varð fólk lögráða 21 árs en verður nú lögráða við 18 ára aldur. Vafa laust hefur löggjafinn litið svo á þegar endurskoðun fór fram á XX. kafla hegningarlag anna árið 1992 að fólk sem væri 20 ára eða yngra væri enn svo ungt og reynslulaust að rétt væri að ákvæðið tæki til þess aldurshóps, óháð því hvenær menn öðluðust lögræði samkvæmt lög ræðislögum. Þá skiptir það ekki máli um refsinæmi verknaðar hvort viðkomandi ungmenni var kunnugt um þennan tilgang fararinnar eða ekki. Samþykki svo ungrar manneskju leys ir milligöngumann þannig ekki undan refsiábyrgð. Fram kemur í frumvarpi því er varð að almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, að refsiákvæði þetta sé sett til verndar siðferði barna og unglinga. 42
    Hins vegar varðar það refsingu skv. 4. mgr. 206. gr. að hafa milligöngu um inn- eða útflutn ings manns sem orðinn er 21 árs í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti sé hon um ókunnugt um þennan tilgang dvalarinnar. Þegar þessar aðstæður eru fyrir hendi skiptir aldur viðkomandi engu máli. Ef manni er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar fylgir því ávallt refsiábyrgð fyrir milligöngumanninn. Hafi viðkomandi aftur á móti verið kunn ugt um tilganginn fylgir því ekki refsiábyrgð fyrir milligöngumanninn, nema við kom andi sé yngri en 21 árs.
    Með „sömu refsingu“ er með vísan til 2. mgr. 206. gr. átt við fangelsi í allt að fjögur ár.

    d) Hvatning til þess að aðrir hafi kynferðismök gegn greiðslu eða hagnýting lauslætis annarra

    Ákvæði 5. mgr. 206. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1992, er svohljóðandi:

              Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða gerir sér lauslæti annarra að tekjulind, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.

    Ákvæðið svarar til 1. mgr. 206. gr. hgl., eins og hún hljóðaði áður en breytingalög nr. 40/1992 tóku gildi. Með 13. gr. breytingalaganna var efni ákvæðisins rýmkað frá því sem áður var að því leyti að sá sem með ginningum, hvatningum eða milligöngu stuðlar að því að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu skal sæta refsingu eins og sá sem gerir sér lauslæti annarra að tekjulind. 43 Þá er þess nú freistað að skýra hvað átt sé við með orðunum „að gera sér lauslæti annarra að tekjulind“. Sem dæmi er nefnd útleiga húsnæðis. Fleiri dæmi eru nefnd í greinargerð, svo sem útvegun ungmenna til þátttöku í kynlífsmyndum eða milliganga um að manneskja sem er háð vímuefnum eigi kynferðismök í einstakt skipti eða oftar. 44
    Samkvæmt 13. gr. laga nr. 40/1992 var refsihámark ákvæðisins látið halda sér, en sett voru sérrefsimörk þess efnis að væru málsbætur fyrir hendi mætti dæma menn í sektir eða varðhald allt að 1 ári (nú fangelsi, sbr. 103. gr. laga nr. 82/1998).
    Dómar sem gengið hafa í Hæstarétti Íslands varðandi vændi varða allir brot gegn 5. mgr. 206. gr. hgl. (áður 1. mgr. sömu lagagreinar).

2.4 Ítrekun
    Í 208. gr. hgl., sbr. 14. gr. laga nr. 40/1992, er að finna eftirfarandi ítrekunarákvæði:

              Nú hefur maður, sem sæta skal refsingu eftir 206. gr., áður verið dæmdur fyrir brot á þeirri grein, eða hann hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot, má þyngja refsingu svo bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

    Greinin er að mestu leyti óbreytt miðað við hljóðan hennar fyrir breytingalög nr. 40/1992. Aðeins voru gerðar á henni lítilsháttar orðalagsbreytingar til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á hegningarlögunum með breytingalögunum.
    Samkvæmt 208. gr. er heimilt að láta brot gegn 206. gr. hafa ítrekunaráhrif, þ.e. hafa áhrif til aukinnar refsingar, ef sakborningur hefur áður verið dæmdur fyrir brot gegn sama lagaákvæði eða hann hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot. Ákvæði 208. gr. felur þannig í sér refsihækkunarástæðu og heimilar að refsing sakbornings verði þyngd þannig að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Áður en ítrekunarheimild 208. gr. verður beitt, ber dómara að ganga úr skugga um hvort hin almennu skilyrði fyrir ítrekunaráhrifum sem tilgreind eru í 71. gr. hgl. séu fyrir hendi.

2.5 Lögreglusamþykktir
    Samkvæmt lögum um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988, skal í lögreglusamþykktum sveitarfélaga kveða á um það sem varðar allsherjarreglu, svo sem reglu og velsæmi á og við almannafæri, sbr. 1. mgr. 3. gr. Sem dæmi má nefna að í nýlegri lögreglusamþykkt fyrir Dalvíkurbyggð, nr. 525/1999, er þetta orðað svo í 1. mgr. 2. gr. að enginn megi sýna öðrum áreitni á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega hegðun, svo sem með ósæmilegum orðum eða látbragði. Hér undir gætu fallið þau tilvik er þeir sem stunda vændi byðu upp á þjónustu sína á almannafæri (götuvændi). Einnig er hugsanlegt að slík hegðun gæti heyrt undir undir 209. gr. hgl.

2.6 Hjúalög
    Í tengslum við umfjöllun um lagaákvæði sem lúta að vændi og lauslæti í íslenskri löggjöf er rétt að gera í örstuttu máli grein fyrir ákvæðum hjúalaga, nr. 22/1928, sem þetta varða. Þótt telja verði að ákvæði þessi séu orðin úrelt vegna breyttra þjóðfélagshátta þykir rétt að gera grein fyrir þeim hér þar sem þau eru þrátt fyrir allt gildandi lög í landinu.
    Ákvæði 23. gr. hjúalaga hljóðar svo:

               23. gr.
              Hjúi er vítalaust að koma ekki í vistina, ef það getur sannað, að húsbóndinn hafi á síðasta ári áður en vistarráðin áttu að hefjast misþyrmt hjúi eða svelt það, leitast við að tæla hjú til illverka eða lauslætis, enda hafi hjúi verið ókunnugt um þessar sakir, þegar samningar um vistina tókust.
              Ef hjú er komið í vistina, þegar það fær vitneskju um eitthvert þeirra afbrota af hálfu húsbónda sem nefnd voru, er því heimilt að víkja úr vistinni fyrirvaralaust, enda geri það svo innan 14 daga eftir að það fékk vitneskju um verknaðinn. Kaups getur hjúið aðeins krafist fyrir þann tíma, sem það var í vistinni.

    Þá er 24. gr. hjúalaga svohljóðandi:

              Hjúi er heimilt að ganga fyrirvaralaust úr vistinni, þegar það getur sannað að húsbóndi hafi gerst sekur um alvarlegt brot á skyldum sínum gagnvart því, svo sem ef hann:
        …
        2.    leitast við að tæla hjúið til illverka eða lauslætis, eða ef aðrir heimilismenn gera sig bera að slíku og húsbóndi veitir ekki hjúinu tilhlýðilega vernd, þótt það beri sig upp undan því við hann.

    Loks er að finna ákvæði í 27. gr. laganna:

              Húsbóndi má þegar vísa hjúi úr vist, er hann getur sannað, að hjúið hafi gerst mjög brotlegt gegn skyldum sínum, eða ef framferði þess er mjög ábótavant, svo sem ef hjúið:
        …
                  6.      raskar heimilisfriði með lauslætisframferði.

    Ákvæði þessi þarfnast tæplega frekari skýringa, enda hafa þau enga þýðingu í framkvæmd. Þess má þó geta að ekki er víst að hugtakið „lauslæti“ í hjúalögunum yrði skýrt með sama hætti og í 206. gr. hgl.

2.7 Húsaleigusamningar
    Í 61. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, kemur fram að leigusala sé heimilt að rifta húsaleigusamningi ef leigjandi nýtir húsnæðið á annan hátt en húsaleigulögin eða leigusamningur mæla fyrir um og landslög leyfa að öðru leyti og lætur ekki af misnotkun þess þrátt fyrir skriflega áminningu leigusala. Sem dæmi um tilvik sem gæti átt hér undir væri ef leigjandi stundaði vændi í hinu leigða húsnæði.

2.8 Kaup á vændi barna og ungmenna
    Ef barn yngra en 14 ára býður líkama sinn til kaups verður kaupandinn ávallt refsiábyrgur skv. 1. mgr. 202. gr. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Hegðun barnsins væri aftur á móti refsilaus þar sem það hefði ekki náð lögbundnum sakhæfisaldri. 45 Hafi kaupandi ekki gert sér grein fyrir ungum aldri seljandans ber að beita vægari refsingu að tiltölu, sbr. 204. gr. hgl., sbr. 102. gr. laga nr. 82/1998 og 11. gr. laga nr. 40/1992. Kaupandi kynlífsþjónustu af ungmenni á aldrinum 14–16 ára, verður aftur á móti ekki refsiábyrgur nema hann hafi beitt einhverjum þeim aðferðum sem fram koma í 2. mgr. 202. gr. hgl. Ólíklegt er að það geti átt við ef að það er ungmennið sjálft sem hefur átt frumkvæði að því að bjóða fram þjónustu sína.
    Þá má minna á áðurnefnda 3. mgr. 206. gr. hgl. þar sem lögð er refsing við því að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni yngra en 18 ára til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti.

2.9 Eftirlit með vændi
    Eftirlit með vændi og hagnýtingu þess er í höndum lögreglunnar eins og eftirlit með afbrotum yfirleitt.
    Í bréfi frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík til dómsmálaráðuneytisins, dags. 7. júlí sl., kemur fram að á árinu 1999 hafi embættið komið á fót sérstöku skipulagi í sambandi við óformlegar upplýsingar er lúta að vændi. Þessum upplýsingum er nú beint til upplýsinga- og eftirlitsdeildar embættisins þar sem farið er yfir þær með hliðsjón af því hvort ástæða þyki til að hefja rannsókn á grundvelli þeirra. Þá segir orðrétt í bréfinu:

              Safnað hefur verið saman upplýsingum sem borist hafa embættinu sl. tvö ár og leitast við að kanna hvort þessar upplýsingar væru á rökum reistar og hvort mögulegt væri að staðfesta saknæmt athæfi. Ekki er hægt að nefna ákveðinn fjölda í sambandi við svona upplýsingar vegna eðlis þeirra, þar sem oft er sami upplýsingaaðili að nefna fleiri en einn stað og persónu og upplýsingar stundum mjög óljósar.
              Mikið af þessum upplýsingum hafa ekki verið um brot á 206. gr. alm. hegningarlaga, heldur um klám, nektardans og um einstakar konur sem selja blíðu sína án þess að stunda vændi sér til framfærslu. Deildin hefur upplýsingar um á þriðja tug kvenna sem hafa verið grunaðar um að selja blíðu sína, hefur kannað mál þeirra og rætt við sumar þeirra án þess að það hafi leitt til frekari rannsóknar eða kæru.
              Sérsaklega hefur eitt hús í Reykjavík verið skoðað, en það hefur lengi haft orð á sér að þar væri rekin skipulögð vændisstarfsemi. Þrátt fyrir það tókst ekki að afla neinna þeirra gagna sem leitt gætu til kæru eða frekari rannsóknar.
              …
              Þess skal getið að jafnan berast öðru hvoru upplýsingar um vændi sem sagt er stundað í tengslum við svokallaða nektardansstaði. Embættið hefur haft reglulegt eftirlit með þessum stöðum og stúlkunum sem þar dansa en engar staðfestingar fengist um brot á 206. gr. alm. hegningarlaga. Eftirlitið með þessum stöðum hefur nú fremur verið aukið vegna breyttra aðstæðna, m.a. vegna lagabreytinga.

2.10 Vændi á Íslandi
    Um umfang vændis og hagnýtingu þess á Íslandi er afar erfitt að staðhæfa nokkuð. Þessi starfsemi er oftast dulin og því erfitt að fá nokkra raunhæfa mynd af raunverulegu umfangi hennar í gegnum upplýsingar um fjölda kæra.
    Dómsmálaráðuneytið fór þess á leit við lögreglustjóraembætti landsins og embætti ríkissaksóknara snemma árs 1999, í kjölfar fyrirspurnar eins alþingismanns um eftirlit með vændi, 46 að þau létu ráðuneytinu í té upplýsingar um fjölda kæra sem embættum þeirra hefðu borist vegna brota á 206. og 208. gr. hgl. undanfarin fimm ár, svo og fjölda ákæra sem gefnar hefðu verið út í kjölfar slíkra kæra.
     Lögreglustjórar utan Reykjavíkur sögðust engar kærur hafa haft til meðferðar vegna brota á tilvitnuðum hegningarlagagreinum á tilgreindu tímabili. Í svari lögreglustjórans í Reykjavík kom fram að frá árinu 1994 hefðu 17 mál vegna ætlaðra brota gegn 206. gr. hgl. verið tilkynnt til lögreglu. 47 Í svari dómsmálaráðherra kom ekkert fram um það hvort eitthvert þeirra hefði leitt til málshöfðunar. Ekki kom heldur fram í svarinu hvort ríkissaksóknari hefði haft einhver slík mál til meðferðar á umræddu tímabili. Því var leitað eftir upplýsingum um það í tengslum við gerð skýrslu þessarar og kom í ljós að embætti ríkissaksóknara hafði ekki haft neitt mál af þessu tagi til meðferðar á tilgreindu tímabili. Þá voru jafnframt könnuð afdrif þessara 17 kæra sem lögreglustjórinn í Reykjavík hafði tilgreint. Kom í ljós að unnið hafði verið að þremur þessara mála innan embættisins. Eitt þeirra var sett í geymslu og tvö lögð upp. Ellefu málanna voru send rannsóknarlögreglu ríkisins, sem þá var starfandi, og þrjú þeirra annað. Í ljósi þess að ekkert mál var höfðað á vegum embættis ríkissaksóknara fyrir brot gegn 206. gr. hgl. á þessu tímabili, en hann fer með ákæruvald í málum af þessu tagi, er ljóst að ekkert þeirra hefur leitt til málshöfðunar fyrir dómi.
    Í tengslum við gerð þessarar skýrslu var lögreglustjórum á landinu ásamt embætti ríkissaksóknara sent bréf í lok júlí 2000 þar sem beðið var um upplýsingar um fjölda kæra vegna brota gegn 206. gr. hgl. árið 1999 fram á mitt árið 2000.
    Í svari ríkissaksóknara kom fram að aðeins eitt mál (tvær kærur) hefði komið til kasta embættis hans á umræddu tímabili og var það fellt niður. Það mál barst embættinu frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Í svari sem barst frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 7. júlí sl., segir m.a.: 48

              Frá 1. jan. 1999 hafa 3 mál vegna ætlaðra brota á 206. gr. almennra hegningarlaga verið skráð í málaskrá lögreglu. Þar af eru tvö mál vegna ætlaðra brota á 5. mgr. 206. gr. en þau eru í raun og veru eitt mál sem fjallar um tvær auglýsingar sem hengdar voru upp á almannafæri. Þessi mál voru felld niður [af ríkissaksóknara] þar sem sakarefni var ekki talið nægilegt til sakfellis. Eitt mál er skráð sem ætlað brot á 3. málsgr. 206. gr. Því máli er ekki lokið þar sem ekki hefur náðst í vitni en verður líklega fellt niður enda á mörkum þess að hægt sé að flokka sakarefnið undir þessa grein hegningarlaganna.

    Þau tvö mál, sem skráð eru hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík vegna auglýsinga á almannafæri, voru eins og áður kom fram send ríkissaksóknara til frekari meðferðar. Þar eru þau skráð sem eitt mál.
    Í svari lögreglustjóra utan Reykjavíkur kom fram að ekkert mál vegna ætlaðs brots gegn 206. gr. hgl. hefði verið kært til embætta þeirra á umræddu tímabili.
    Þessar tölur gefa til kynna að afar fá mál af þessu tagi séu kærð til lögreglu á ársgrundvelli. Hvort það þýðir að þessi brot fyrirfinnist vart í raun hér á landi eða hvort rétt sé að gera ráð fyrir að brotastarfsemi þessi sé að mestu leyti dulin skal ekki fullyrt hér. Til fróðleiks má vitna í nýlega grein eftir Áshildi Bragadóttur stjórnmálafræðing sem birtist í tímaritinu Veru. 49 Þar segir m.a.:

              Ekki er hægt með neinni vissu að alhæfa um útbreiðslu vændis hér á landi, né hvernig vændismarkaðurinn er, enda engar marktækar rannsóknir verið gerðar.
              Til Stígamóta, samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi, hafa leitað yfir þrjátíu einstaklingar sem voru um lengri eða skemmri tíma í vændi. Í langflestum tilvikum er um konur að ræða. Ástæðan fyrir komu þeirra til Stígamóta var ekki vændið eitt og sér heldur kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir í bernsku og/eða á unglingsárum.
              Með því að hjálpa þessum einstaklingum að vinna úr afleiðingum kynferðisofbeldisins og vændisins fengust allgóðar upplýsingar um vændismarkaðinn hér á landi. Vitað er að hér eru starfrækt vændishús þar sem einn aðili á eða stjórnar starfseminni, tekur á móti pöntunum og útvegar viðskiptavininum hold. Vændið fer ýmist fram innan veggja vændishússins, á hótelum, vinnustöðum viðskiptavinarins eða heimili hans. Þetta er eitt skipulagðasta form vændis hér á landi. Einnig eru ákveðin veitingahús nefnd þar sem eigendur eða rekstraraðilar voru milliliðir milli viðskiptavinarins og þess sem seldi sig. Enn eitt form vændis eins og það birtist hér á landi eru fylgisþjónusturnar. Í flestum tilvikum verða stúlkurnar sér sjálfar úti um viðskiptavini með einum eða öðrum hætti. Hér á landi þrífst einnig vændi þar sem karlmenn gera skipulega út konur. Eru þeir oft á tíðum kærastar eða makar þeirra sem eru í vændinu. Síðast en ekki síst þrífst hér á landi það sem við getum kallað tilviljanakennt götuvændi. Er í flestum tilvikum um barnungar stúlkur að ræða sem selja líkama sinn fyrir mjög lítinn pening til þess að fjármagna eiturlyfjaneyslu með skjótum hætti.
              Vændi hefur oft verið nefnt í tengslum við nektardansstaðina hér á landi en litlar upplýsingar eru til um hversu umfangsmikil sú starfsemi er.

    Undanfarna mánuði hefur mikil umræða átt sér stað í þjóðfélaginu um hina fjölmörgu nektardansstaði sem skotið hafa upp kollinum hér á landi á síðastliðnum árum og fer sífellt fjölgandi. Umræðan hefur m.a. lotið að því hvort vændi sé stundað innan vébanda þessara staða eða á þeirra vegum. Í ræðu á Alþingi hinn 14. október 1999 sagði dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, m.a.: „Sá orðrómur hefur gengið fjöllunum hærra um nokkurt skeið að skemmtistaðir hér í borg þar sem boðið er upp á nektardanssýningar séu tengdir vændi. Ekki hefur þó tekist að staðfesta þetta og er lögreglunni erfitt um vik að ljóstra upp um slík brot …“ 50 Algengast er að stúlkur komi til sýningarstarfa á þessum stöðum erlendis frá. Til þess að yfirvöld geti fylgst betur með þessari starfsemi voru samþykktar á Alþingi vorið 2000 breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Fram til þess höfðu þessar erlendu stúlkur verið undanþegnar kröfu um atvinnuleyfi til vinnu í allt að fjórar vikur hér á landi á þeim grundvelli að þær væru listamenn. Þessu hefur nú verið breytt með lögum nr. 41/2000. Samhliða frumvarpi því er varð að breytingalögum nr. 41/2000 var til meðferðar á Alþingi frumvarp er laut að breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 167/1995, með síðari breytingum. Það frumvarp var síðan samþykkt sem lög nr. 66/2000. Þessar tvær lagabreytingar voru gerðar í kjölfar starfs viðræðunefndar sem komið var á fót vorið 1999 að frumkvæði Reykjavíkurborgar og hafði það hlutverk að finna leiðir til að sporna við starfsemi svonefndra „erótískra veitingastaða“. 51 Lagabreytingarnar eru gerðar með það fyrir augum að auðvelda stjórnvöldum stjórn og eftirlit með starfsemi nektardansstaða í landinu.
    Á 125. löggjafarþingi (1999–2000) var borin fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um könnun á umfangi vændis. Samkvæmt henni átti að fara þess á leit við dómsmálaráðherra að hann skipaði „þverfaglegan“ vinnuhóp sem hefði það hlutverk að kanna umfang vændis á Íslandi. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a.: 52

              Mikil umræða hefur farið fram á síðustu mánuðum um það hvort vændi sé stundað á Íslandi og þá hvert sé eðli þess og umfang. Ekki hafa verið gerðar nýlega rannsóknir sem hægt væri að nýta í þeim tilgangi að skoða þessi mál. … Mikilvægt er að skoða eðli vændis, þ.e. fylgdarþjónustu, símaþjónustu, netið, dansstaði o.fl., og hvort það er frábrugðið því sem gerist annars staðar, t.d. í öðrum norrænum ríkjum. Áríðandi er að athuga hvaða hópar stundi vændi hér á landi.

    Þingsályktunartillagan var ekki samþykkt og vinnuhópurinn því aldrei skipaður.

2.11 Frumvarp til breytinga á 206. gr. hgl.
    Á 125. löggjafarþingi (1999–2000) lögðu tveir þingmenn fram frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið, sem er tvær greinar auk gildistökuákvæðis, gerði ráð fyrir breytingum á 206. gr. annars vegar og 210. gr. hins vegar. 53
    Helstu breytingar, sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrðu gerðar á 206. gr. laganna, voru eftirfarandi:
    1. Gildandi 1. mgr. 206. gr., þar sem refsing er lögð við því að stunda vændi sér til framfærslu, yrði felld á brott.
    2. Í stað hennar kæmi ný málsgrein, er yrði 1. mgr., þar sem lögð yrði refsing við kaupum á vændi. Í frumvarpinu hljóðar málsgreinin svo:

              Hver sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

    Segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu að með þessu sé vakin „… athygli á þeirri áherslu sem lögð er á að draga notendur kynlífsþjónustu til ábyrgðar ekki síður en seljendur hennar.“ 54
    3. Refsihámark gildandi 2. mgr. yrði hækkað úr 4 árum í 6 ár.
    4. Þá gerði frumvarpið ráð fyrir því að nýrri málsgrein yrði bætt við 206. gr., sem yrði þar með 6. mgr. hennar, þar sem lögð væri refsing við því að bjóða upp á kynferðislegar nektarsýningar og skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu í gegnum síma eða tölvur. Í frumvarpinu hljóðar ákvæðið svo:

              Hver sem býður upp á kynferðislegar nektarsýningar og hefur þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu skal sæta allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu varðar það að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur.

    Um þetta segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu:

              Að undanförnu hafa miklar umræður orðið í íslensku samfélagi um klám og kynlífsþjónustu og þykir flestum mikilvægt að nú þegar verði brugðist við.
              Samkomustaðir, svokallaðir nektardansstaðir, hafa skotið upp kollinum bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mikilvægt er að takmarka eða koma í veg fyrir starfrækslu slíkra staða hérlendis, enda þykir líklegt að á þeim eða í tengslum við þá sé stundað vændi í einhverjum mæli þótt ekki liggi fyrir neinar skjalfestar sannanir í því efni. Þá hefur vakið athygli hvernig viðgengist hafa alls kyns auglýsingar, t.d. í dagblöðum, um ýmiss konar kynlífsþjónustu, auk þess sem talið er að í tengslum við ákveðnar vefsíður sé stundað skipulagt vændi.
              Með breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði á almennum hegningarlögum er lögð áhersla á að refsingar við brotum sem hér er fjallað um beinist að þeim sem kaupa kynlífsþjónustu hvers konar eða hafa líkama annarra sér að féþúfu. Sömuleiðis er hér leitast við að stemma stigu við þeirri opinberu og ógeðfelldu klámþjónustu sem greinilega er stunduð á vegum símafyrirtækja og mikið auglýst í fjölmiðlum, bæði prentmiðlum og á öldum ljósvakans.

    Frumvarp þetta, sem var lagt fram 7. mars 2000, beið enn fyrstu umræðu er þingi var slitið um vorið.

2.12 Dómar Hæstaréttar
    Í dómsafni Hæstaréttar er aðeins að finna fjóra dóma er lúta að vændi. Þrír þeirra eru frá svonefndum „ástandsárum“ en sá fjórði frá árinu 1990. Verða þeir nú reifaðir.
    H 1954:695.
    I og H voru ákærðir fyrir að hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind skv. 1. mgr. 206. gr. hgl. (nú 5. mgr. sömu greinar):

              … með því á tímabilinu júlí–október 1952 að koma karlmönnum, aðallega erlendum hermönnum og sjómönnum, í kynni við stúlkur og láta þeim í té húsnæði til holdlegs samræðis og annarra kynferðismaka í herbergi, sem meðákærði H hafði á leigu … gegn þóknun frá karlmönnum í peningum eða áfengi, tóbaki o.fl.

    Með vætti margra vitna og að nokkru með játningu I og H var sannað að á tímabilinu júlí eða ágúst til október 1952 stuðluðu þeir oft að því sem milligöngumenn að hermenn og erlendir sjómenn kæmust í samband við íslenskar stúlkur til lauslætis og drykkjuskapar og létu þeim í þessu skyni í té herbergi sem H hafði á leigu, og var I og H ljóst að karlar þessir og konur höfðu þar öðru hverju samfarir. Sannað var að I og H fengu ókeypis áfengi og vindlinga fyrir milligöngu sína. Þeir höfðu með þessu brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 206. gr. hgl. I var dæmd refsing, fjögurra mánaða fangelsi, en hann hafði auk þess gerst sekur um fjárdrátt. H var dæmd fangelsisrefsing í þrjá mánuði.
    H 1955:47.
    Konan G var m.a. ákærð fyrir að hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind skv. 1. mgr. 206. gr. hgl. (nú 5. mgr. sömu greinar):

              … með því á tímabilinu frá júlí til september 1952 að leigja út af íbúð sinni … annað herbergi íbúðarinnar til eins sólarhrings í senn til karlmanna, sem oftast fengu kvenfólk í heimsókn til sín í herbergið, en leiga fyrir herbergið yfir sólarhringinn er talin hafa verið 80 krónur, en með þessu er ákærða talin hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind …

    Héraðsdómari leit svo á að ekki væri næg sönnun fengin fyrir því að lauslæti hefði átt sér stað í herbergi því sem ákærða leigði út af íbúð sinni. Segir í dóminum:

              En 1) framangreindur háttur ákærðu á útleigu herbergis aðeins til einnar nætur í senn, stundum til Íslendinga, en mestmegnis til hermanna, án þess að halda skrá yfir þá eða spyrja þá um nafn sitt, 2) upphæð leigu eftir herbergið og loks 3) tíð samdvöl stúlkna og leigjenda þar, sem ákærða skipti sér ekkert af, sýna ótvírætt hjá ákærðu ásetning í verki, sem miðar að því að gera sér lauslæti annarra að tekjulind í skilningi 206. gr., 1. mgr., almennra hegningarlaga nr. 19 12. febrúar 1940.

    G var með þessum orðum héraðsdómarans sakfelld fyrir tilraun til brots á 1. mgr. 206. gr. hgl. Hæstiréttur taldi það aftur á móti sannað eftir framhaldsrannsókn sem fór fram í þágu málsins að um fullframið brot gegn 1. mgr. 206. gr. hgl. hefði verið að ræða og staðfesti refsiákvörðun héraðsdóms. G var þannig dæmd til 45 daga fangelsisrefsingar, sem var gerð skilorðsbundin í 2 ár (G var jafnframt sakfelld fyrir brot á lögum um eftirlit með útlendingum).

    H1955:53.
    Konan A var m.a. ákærð fyrir að hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind skv. 1. mgr. 206. gr. hgl. (nú 5. mgr. sömu greinar):

     með því á tímabilinu frá febrúar/marz til september 1952 að leigja eitt herbergi íbúðarinnar til einnar nætur í senn til karlmanna, sem oftast fengu heimsóknir kvenfólks, sem oft var þar um nætur, en leiga fyrir herbergið er talin hafa verið 60 krónur fyrir sólarhringinn, en með þessu er ákærða talin hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind …

    Með framhaldsákæru var ákærða m.a. ákærð fyrir brot á 1. mgr. 206. gr. hgl.:

     með því á tímabilinu frá nóvember 1952 til apríl 1953 að leigja út úr húsi sínu … herbergi til stutts tíma í senn til karlmanna, sem voru í fylgd með kvenfólki eða fengu heimsóknir kvenfólks, sem oft var þar um nætur, en greiðsla fyrir þetta er talin hafa verið 85–100 krónur fyrir manninn yfir sólarhringinn eða part úr sólarhring, en með þessu er ákærða talin hafa gert sér lauslæti annarra að tekjulind …

    Héraðsdómari taldi fullsannað í málinu að ákærða hefði gert sér lauslæti annarra að tekjulind og þannig gerst brotleg gegn 1. mgr. 206. gr. hgl. Hún var jafnframt sakfelld fyrir brot á lögum um eftirlit með útlendingum. Var hún dæmd til fangelsisrefsingar í 3 mánuði.
    Framhaldsrannsókn fór fram í málinu eftir uppsögu héraðsdóms. Í Hæstarétti var sakfelling héraðsdómara staðfest og ákvörðun um refsingu ákærðu, að öðru leyti en því að Hæstarétti þótti rétt að skilorðsbinda hana til þriggja ára.
    H 1990:305.
    Mál var höfðað á hendur manninum J:

    fyrir að hafa á árinu 1988 og til 2. febrúar 1989 í ávinningsskyni margsinnis haft milligöngu um það í Reykjavík, að fólk hefði holdlegar samfarir, og í þessu skyni haft á sínum snærum fimm nafngreindar stúlkur, sem hann kom í sambönd við karla, er leituðu til hans samkvæmt auglýsingum frá honum, og jafnframt selt á leigu herbergi heima hjá sér til kynmakanna, en að jafnaði greiddi hver karl ákærða kr. 2.000 fyrir hvert skipti með einhverri stúlknanna, sem voru á vegum ákærða …

    Var þetta talið varða við 1. mgr. 206. gr. hgl. (nú 5. mgr. 206. gr.). J var sakfelldur í héraðsdómi samkvæmt ákæru og dæmdur í 6 mánaða fangelsi, þar af þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Héraðsdómurinn var staðfestur í Hæstarétti.

3. Alþjóðlegar skuldbindingar sem varða kynferðislega misnotkun á börnum

    Ísland hefur undirgengist ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar sem varða kynferðislega misnotkun á börnum. Taka þær bæði til vændisþjónustu barna og ungmenna og til þátttöku þeirra í gerð klámefnis.
    Fyrstan ber að nefna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 sem Ísland fullgilti 28. október 1992. Í 34. gr. hans kemur fram að aðildarríkin skuldbindi sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðisleg um tilgangi. Í þeim tilgangi skuli þau einkum gera allt sem við á, bæði innan lands og með tvíhliða og fjölhliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir: a) Að börn séu talin á eða þvinguð til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi. b) Að börn séu notuð til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna. c) Að börn séu notuð í klámsýningum eða til að búa til klámefni. Þess má geta að 7. september 2000 undirritaði forsætisráðherra tvær bók anir við þennan samning. Önnur þeirra var gerð til að bregðast við aukinni tíðni á mansali barna, barnavændi og barnaklámi.
    Þá má geta þess að 5. mars 1992 samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna aðgerðaáætlun varðandi sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, sbr. ályktun 1992/74.
    Enn fremur ber að nefna ályktun Evrópuráðsins nr. (91)11 um kynferðislega notkun, klám, vændi og verslun með börn og ungmenni. Í henni er því m.a. beint til aðildarríkjanna að þau hugi að því hvort ráðlegt sé að gera vörslur á barnaklámi refsiverðar. Í þessu sambandi ber einnig að geta tilmæla Norðurlandaráðs nr. 9/1994 um sama efni. 55
    Að síðustu skal nefnt að Ísland fullgilti í maí 2000 samþykkt ILO nr. 182 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Í samþykktinni á hugtakið (barnavinna í sinni verstu mynd) við um hvers konar þrælkun eða framkvæmd sem jafna má til þrælkunar, notkun barna til vændis, framleiðslu á klámi eða til klámsýninga o.s.frv. Samkvæmt samþykktinni skulu aðildarríki framkvæma aðgerðaráætlanir til að uppræta barnavinnu í sinni verstu mynd.


II. DANMÖRK



1. Klám
1.1 Almennt

    Ákvæði um klám er að finna í 24. kafla dönsku hegningarlaganna (borgerlig straffelov, nr. 126/1930), sem ber heitið: Forbrydelser mot kønssædeligheden, 234. og 235. gr. Ákvæðin hafa tekið miklum breytingum frá upphaflegri gerð þeirra í átt til meira frjálsræðis á þessu sviði, að undanskildu ákvæðinu um barnaklám sem sett var í lögin árið 1980. Verður gerð grein fyrir þessum ákvæðum og þeim breytingum sem þau hafa sætt hér á eftir.

1.2 Helstu breytingar á ákvæðum um klám
    Seint á sjöunda áratugnum voru gerðar verulegar breytingar á þeim ákvæðum dönsku hegningarlaganna er lúta að klámi. Annars vegar var bann við birtingu eða dreifingu klámrita afnumið, sbr. lög nr. 248/1967, og hins vegar var sams konar bann er laut að klámmyndum afnumið stuttu síðar, sbr. lög nr. 224/1969. Vert er að vekja hér sérstaka athygli á þeim mun sem gerður var á klámritum (utugtige/pornografiske skrifter) annars vegar og klámmyndum (utugtige/pornografiske billeder) hins vegar. Sérstakt ákvæði var þó áfram í lögunum sem ætlað var að vernda börn og ungmenni yngri en 16 ára. Þar var lagt bann við því að selja þeim klámmyndir eða aðra slíka hluti. Gerð verður nákvæmari grein fyrir þessum breytingum í a og b-liðum hér á eftir.
    Fram að þessu hafði bann við klámi verið grundvallað á tveimur sjónarmiðum, annars vegar því að klám væri siðferðilega hneykslanlegt og hins vegar því að klám hefði skaðvænleg áhrif, sérstaklega á börn og ungmenni. Tvenns konar rök voru færð fyrir því að afnema lagaákvæði er bönnuðu birtingu og dreifingu á klámfengnu efni. Í fyrsta lagi að ekki hefði verið hægt að sýna fram á skaðvænleg áhrif kláms á fólk og í öðru lagi að þeim sem telja klám hneykslanlegt væri í lófa lagið að forðast slíkt efni, sérstaklega þegar um er að ræða klámrit. Til viðbótar var þetta talið samræmast betur meginreglum um tjáningarfrelsi og rétt manna til aðgangs að því efni sem þeir kjósa. 56 Þrátt fyrir þau sjónarmið sem að framan eru rakin er engu að síður að finna í danskri löggjöf ákvæði sem takmarka aðgengi að klámefni og setja því mörk hve langt má ganga í að hafa „hneykslanlega“ hluti til sýnis (skrifter og billeder af „anstødelig karakter“) .
    Rétt er að benda hér á ákvæði 235. gr. dönsku hegningarlaganna um barnaklám sem sett var inn árið 1980 og gerð verður grein fyrir hér á eftir.

     a) Afnám banns við birtingu eða dreifingu klámrita
    Með lögum nr. 248 frá 9. júní 1967 var 234. gr. dönsku hegningarlaganna m.a. breytt á þann veg að bann 2. tölul. 1. mgr. við birtingu eða dreifingu klámrita var afnumið með öllu. Bann við því að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni klámrit var jafnframt afnumið . Þá leiddi af þessari breytingu að bann við því að bjóða eða afhenda ungmennum undir 18 ára aldri klámrit var einnig afnumið, sbr. 1. tölul. 1. mgr.
    Fyrir breytinguna var ákvæðið svohljóðandi:

               § 234. Med bøde, hæfte eller under skærpende omstændigheder med fængsel indtil 6 måneder straffes den, som
          1)      tilbyder eller overlader en person under 18 år utugtige skrifter, billeder eller genstande,
          2)      offentliggør eller udbreder eller i sådan hensigt forfærdiger eller indfører utugtige skrifter, billeder eller genstande,
          3)      foranstalter offentligt foredrag, forestilling eller udstilling af utugtigt indhold.
               Stk.2. Begås de ovenfor nævnte handlinger i erhvervsmæssigt øjemed, kan kun under særlig formildende omstændigheder straf af bøde anvendes.
               Stk. 3. Den, der for vindings skyld offentliggør eller udbreder eller i sådan hensigt forfærdiger eller indfører skrifter eller billeder, der, uden at de kan anses for egentlig utugtige, udelukkende må antages at have forretningsmæssig spekulation i sanselighed til formål, straffes med bøde eller hæfte.

    Eftir lagabreytinguna 1967 hljóðaði ákvæðið svo:

               § 234. Med bøde, hæfte eller under skærpende omstændigheder med fængsel indtil 6 måneder straffes den, der
          1)      tilbyder eller overlader en person under 18 år utugtige billeder eller genstande.
          2)      offentliggør eller udbreder eller i sådan hensigt forfærdiger eller indfører utugtige billeder eller genstande.
          3)      foranstalter offentlige foredrag, forestillinger eller udstillinger af utugtigt indhold.

    Ákvæði 2. mgr., er laut að hækkun refsingar ef brot gegn 1. mgr. var framið í atvinnuskyni, var afnumið. Eins var ákvæði 3. mgr. afnumið.
    Í tengslum við þessa lagabreytingu hafði það verið til endurskoðunar hjá dönsku refsiréttarnefndinni (straffelovrådet) hvort rétt væri að láta breytingarnar jafnframt ná til klámmynda eða sambærilegra hluta (utugtige billeder eller genstande). Niðurstaða nefndarinnar var sú að gera það ekki. Þegar danski dómsmálaráðherrann lagði fram frumvarp það er varð að lögum nr. 248/1967 á danska Þjóðþinginu sagði hann m.a. að velta mætti fyrir sér hvort eðlilegt væri að láta mismunandi reglur gilda um klámrit annars vegar og klámmyndir eða sambærilega hluti hins vegar. Í nefndinni sem fékk frumvarpið til meðferðar voru uppi skiptar skoðanir um þetta efni. Niðurstaðan varð að lokum sú að afnema ekki að svo stöddu bann við birtingu eða dreifingu klámmynda eða sambærilegra hluta. Þau rök voru m.a. tilfærð að með því væri réttarstaðan í þessum efnum sú sama og í Svíþjóð, en það væri æskilegt. 57

     b) Afnám banns við birtingu eða dreifingu á klámmyndum eða sambærilegum hlutum
    Með lögum nr. 224 frá 4. júní 1969 var 234. gr. dönsku hegningarlaganna aftur breytt í frjálsræðisátt. Með þeim var einnig afnumið bann við birtingu eða dreifingu á klámmyndum eða sambærilegum hlutum. Meðal röksemda fyrir lagabreytingunni má nefna eftirfarandi: Í fyrsta lagi var talið að þótt bann við birtingu og dreifingu klámmynda eða annarra sambærilegra hluta yrði afnumið mundi það ekki endilega leiða til aukinnar framleiðslu eða útbreiðslu á slíku efni, enda hefði ekki verið sýnt fram á að afnám banns við birtingu og dreifingu klámrita tveimur árum áður hefði haft slík áhrif. Í öðru lagi væri ómögulegt fyrir lögreglu að fylgjast með og framfylgja banni gegn klámmyndum, svo mikið væri framboðið á klámfengnu efni og verndin sem þetta veitti blygðunarsemi fólks væri þar af leiðandi tilviljunarkennd. Í þriðja lagi væri aðstaðan í raun oftast þannig að ekki reyndi á afskipti lögreglu fyrr en búið væri að dreifa hinu klámfengna efni. Í fjórða lagi reyndist afmörkun á klámfengnu efni annars vegar og öðru erótísku efni hins vegar afar erfið í framkvæmd. Að síðustu var bent á að jafnvel þótt þetta bann væri afnumið mundi það ekki þýða að menn gætu haft klámmyndir eða sambærilega hluti til sýnis hvar sem þeim sýndist þar sem blygðunarsemisákvæði hegningarlaganna og ákvæði lögreglusamþykkta mundu setja því skorður. 58
    Með lögum nr. 224/1969 voru 2. og 3. tölul. 234. gr. felldir niður. Ákvæði 1. tölul., sem hafði það að markmiði að vernda siðgæði barna og ungmenna, var látið halda sér en efni þess þó þrengt. Í stað þess að refsivert væri að bjóða eða afhenda ungmennum klámmyndir eða sambærilega hluti var nú eingöngu refsivert að selja þeim slíkt efni. Þá voru aldursmörkin lækkuð úr 18 árum í 16 ár.
    Eftir breytinguna 1969 hljóðar 234. gr. dönsku hegningarlaganna svo:

              § 234. Den, som sælger utugtige billeder eller genstande til en person under 16 år, straffes med bøde.

    Rökin fyrir því að lækka aldursmörkin voru þau að eðlilegt væri að miða við sömu aldursmörk og notuð eru í reglum um skoðun og eftirlit með kvikmyndum. 59

1.3 Sala á klámmyndum eða sambærilegum hlutum til barna
    Ástæða er til þess að gera frekari grein fyrir banninu í 234. gr. dönsku hegningarlaganna við því að selja börnum yngri en 16 ára klámmyndir eða sambærilega hluti.
    Samkvæmt orðalagi 234. gr., eins og hún hljóðar nú, er einungis sala klámmynda eða sambærilegra hluta til barna undir 16 ára aldri bönnuð. Samkvæmt þessu er t.d. afhending til láns, leigu, geymslu eða sem gjöf ekki refsiverð. Ásetningur er hér skilyrði refsiábyrgðar og engu ákvæði sem svarar til 226. gr. dönsku hegningarlaganna um gáleysi varðandi aldur ungmennis er til að dreifa í þessu sambandi. 60
    Í tengslum við 234. gr. er mikilvægt að skilgreina klámmyndir og sambærilega hluti. Slíka skilgreiningu er ekki að finna í lögum. Miðað hefur verið við skilgreiningu sem sett var fram árið 1969 í tengslum við breytingar sem þá voru gerðar á hegningarlöggjöfinni: 61

              Hovedkriteriet vil være om et billede rummer en detailpræget og stærkt anstødelig gengivelse af sexuelle emner – herunder kønsdele – uden at gengivelsen kan anses for legitimeret ved udførelsens kunstneriske værdi eller ved et videnskabeligt eller undervisningsmæssigt formål.

    Hvað varðar vernd almennings að öðru leyti fyrir klámmyndum og þess háttar, sem telja má hneykslanlegar, má benda á 232. gr. dönsku hegningarlaganna og lögreglusamþykktir sem banna að efni hneykslanlegs eðlis sé hengt upp á almannafæri eða því dreift til almennings. Þá eru einnig ákvæði í lögreglusamþykktum sem banna að slíku efni sé dreift í hús án óskar íbúanna. Þá er að finna ákvæði í póstlögum varðandi sendingar er innihalda ólöglegt efni.

1.4 Barnaklám
    Eftir framangreinda lagabreytingu var ekki að finna ákvæði í dönskum lögum sem mælti fyrir um refsingu fyrir dreifingu eða vörslur á barnaklámi frekar en öðru klámefni, að undanskildu banni hegningarlaganna við að selja ungmennum undir 16 ára aldri klámmyndir eða sambærilega hluti.
    Það var síðan með breytingalögum nr. 252 frá árinu 1980 sem ákvæði, sem lagði bann við dreifingu á barnaklámi að viðlagðri sektarrefsingu, var bætt inn í dönsku hegningarlögin sem nýrri 235. gr. Samkvæmt því var dreifing á barnaklámi í atvinnuskyni bönnuð („erhvervsmæssigt sælger eller på anden måde udbreder“). Með breytingalögum nr. 272/1989 var refsimörkum ákvæðisins breytt á þann veg að brot gegn því gat varðað sökunaut sektum, varðhaldi eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Rökin fyrir þessari breytingu voru í fyrsta lagi þau að með hækkuðu refsihámarki kæmi betur í ljós andúð samfélagsins á brotum af þessu tagi og í öðru lagi væri þetta til þess fallið að auka varnaðaráhrifin. 62
    Með lögum nr. 1100 frá árinu 1994 var nýrri málsgrein, er varð 2. mgr., bætt við 235. gr. dönsku hegningarlaganna í samræmi við tilmæli frá alþjóðlegum stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu og Norðurlandaráði. Í henni var mælt fyrir um bann við vörslum á grófari tegundum barnakláms. Í athugasemdum í greinargerð kemur fram að tilgangurinn með ákvæðinu sé að mæla fyrir um refsingu við vörslum á grófu barnaklámi („grovere former for børnepornografi“). Rökin fyrir því séu fyrst og fremst þau að það hljóti að teljast réttmætt að leggja refsingar við vörslum á efni með grófu barnaklámi þegar ljóst er að við framleiðslu þess séu framin alvarleg refsiverð brot gegn börnum. Þá vitni slíkt bann um skýra andstöðu löggjafans gegn kynferðislegri misnotkun barna og stuðli að því að réttindi barna séu virt. Í þriðja lagi sé slíkt bann fallið til þess að draga úr eftirspurn eftir slíku efni og þar með framleiðslu þess. 63 Sú millileið var farin við lögfestingu ákvæðisins að einungis varsla á grófu barnaklámi var lýst refsiverð, og var það byggt á því að við framleiðslu slíks efnis væru oft framin alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Ákvæðið var þannig takmarkað við myndir eða sambærilega hluti er sýndu börn „der har samleje eller anden kønslig omgængelse end samleje“. Með þessum rökum var varsla á myndum eða sambærilegum hlutum sem ekki flokkuðust undir gróft barnaklám ekki mæld refsiverð. Ákvæði 1. mgr. 235. gr., sem fjallar um dreifingu á barnaklámi, er ekki bundið við gróft barnaklám. Þar er lagt bann við dreifingu klámmynda eða sambærilegra hluta sem sýna börn („utugtige fotografier, film eller lignende af børn“).
    Í upphaflega frumvarpinu, sem lagt var fram á danska Þjóðþinginu, var gert ráð fyrir að einungis yrði lagt bann við því að hafa undir höndum myndir sem sýndu börn í holdlegu samræði eða öðrum kynferðismökum. Við meðferð frumvarpsins í þinginu var vörslubannið rýmkað á þann veg að það var einnig látið taka til klámmynda eða sambærilegra hluta er sýndu börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á grófan kynferðislegan hátt. 64 Brot gegn 2. mgr. 235. gr. gat varðað viðkomandi sektum.
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 1100/1994 segir um skýringu á hugtakinu „vörslur“: 65

    … at spørgsmålet om, hvorvidt en person kan siges at »besidde« børnepornografisk materiale som omhandlet i bestemmelsen, undertiden kan give anledning til tvivl, navnlig hvor materialet udbredes via elektroniska medier.
              Ved betragtning af tv-udsendelser (eksempelsvis sendt via satellit) eller billeder, der overføres fra en database til egen edb-skærm, vil billedet ikke kunne siges at være i betragterens besiddelse. Er der derimod tale om, at billedet lagres, det være sig på videobånd, harddisk, diskette eller lignende, således at den pågældende selv kan kalde det frem igen, må materialet anses for at være i vekommende besiddelse.

    Meginmarkmiðið með því að leggja refsingar við dreifingu og vörslum á barnaklámi, er að vernda börn gegn þeirri kynferðislegu misnotkun sem þau verða fyrir í tengslum við framleiðslu efnisins. Hinir fullorðnu, sem taka þátt í kynferðisathöfnunum með börnunum, geta t.d. gerst brotlegir við 216. gr. dönsku hegningarlaganna (nauðgun), 222. gr. (samræði við barn undir lögaldri), sbr. 224. eða 225. gr., eða 232. gr. (brot gegn blygðunarsemi), allt eftir aðstæðum hverju sinni. Framangreind ákvæði taka aftur á móti ekki til þeirra sem koma að þessu efni eftir að framleiðslu er lokið og hafa það hlutverk að koma því á framfæri við neytendur. Þessir milliliðir á milli framleiðslu og neytenda, svo sem dreifingar- eða söluaðilar, hafa ekki endilega átt beinan þátt í framleiðslu klámefnisins og hafa þar af leiðandi ekki gerst brotlegir gegn framannefndum ákvæðum hegningarlaganna. Þá verður kaupandi efnisins ekki heldur dreginn til ábyrgðar fyrir brot gegn framangreindum ákvæðum. Til þess að ná árangri í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun barna var talið nauðsynlegt að ná til þessara milliliða sem og kaupanda efnisins og því voru ákvæði 235. gr. sett í lög. 66
    Vorið 2000 var lagt fram frumvarp á danska Þjóðþinginu til breytinga á dönsku hegningarlögunum þar sem m.a. var gert ráð fyrir breytingum á 235. gr. laganna. 67 Frumvarpið varð að lögum nr. 441 frá 31. maí 2000 og gengu þau í gildi 1. júlí sama ár. Eftir breytinguna hljóðar 235. gr. svo:

              § 235. Den, som erhvervsmæssigt sælger eller på anden måde udbreder utugtige fotografier, film eller lignende af børn, straffes med bøde, hæfte eller fængsel indtil 2 år. På samme måde straffes den, som i en videre kreds udbreder sådanne fremstillinger.
              Stk. 2. Den, som besidder eller mod vederlag gør sig bekendt med fotografier, film eller lignende af børn, der
    1)    har samleje eller anden kønslig omgængelse end samleje,
    2)    har kønslig omgang med dyr eller
    3)    anvender genstande på groft utugtig måde,
    straffes med bøde eller under skærpende omstændigheder med hæfte eller fængsel indtil 6 måneder.

    Breytingarnar sem gerðar voru miðuðu að því að styrkja enn frekar vernd barna og ungmenna gegn kynferðislegri misnotkun. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
    1. Eins og 1. mgr. hljóðaði áður, var einungis hægt að refsa manni fyrir dreifingu klámmynda af börnum eða sambærilegra hluta ef hægt var að sanna að dreifingin hefði átt sér stað í atvinnuskyni. Væri ekki hægt að sýna fram á það var einungis hægt að refsa manni fyrir vörslur samkvæmt 2. mgr. 235. gr. og gat brot þá ekki varðað þyngri refsingu en sektum. Í ljósi þeirra tækniframfara sem hafa átt sér stað á undanförnum árum, svo sem á sviði tölvutækni, þótti efnissvið 1. mgr. vera of þröngt þar sem það var bundið við dreifingu á barnaklámi í atvinnuskyni. Orðalag hennar var því rýmkað á þann veg að nú tekur hún til dreifingar á barnaklámi hvort sem hún er stunduð í atvinnuskyni eða ekki („udbredelse i en videre kreds“), sbr. 2. málsl. 1. mgr. 235. gr. T.d. er ljóst að dreifing á barnaklámi á netinu er ekki öll stunduð í atvinnuskyni, en útbreiðsla þess ýtir undir framleiðslu barnakláms. Með því að lögleiða refsiábyrgð fyrir dreifingu barnakláms, þótt sú dreifing eigi sér ekki stað í atvinnuskyni, er stuðlað að því að hamla enn frekar gegn kynferðislegri misnotkun á börnum, rétt eins og með því að banna dreifingu þess í atvinnuskyni. 68 Til þess að til refsiábyrgðar geti komið samkvæmt 1. mgr. 235. gr. þarf að vera um dreifingu á barnaklámi að ræða. Þannig dugir ekki til refsiábyrgðar að senda t.d. einum eða fáum einstaklingum slíkt efni á netinu. Þá mundi 2. mgr. 235. gr. eiga við um athæfið þannig að refsiábyrgðin byggðist á vörslum á efni með barnaklámi. 69
    Í greinargerð kemur fram að síðastliðin fimm ár hafi kærum er varða brot gegn 235. gr. dönsku hegningarlaganna fjölgað verulega. Fjölgunin er að hluta til skýrð með aukinni notkun netsins og útbreiðslu barnakláms þar. 70
    2. Refsihámark 1. mgr. var hækkað. Með hliðsjón af þeim mikilvægu verndarhagsmunum sem búa að baki var álitið að refsihámarkið væri of lágt (fangelsi í 6 mánuði). Brot þessi geta nú varðað fangelsisrefsingu í allt að tvö ár. 71
    3. Efnissvið 2. mgr., sem lýtur að vörslum grófs barnakláms, var rýmkað. Hinn almenni skilningur á vörsluhugtakinu í tengslum við 235. gr. hefur verið sá að barnaklámið birtist í „hefðbundnu formi“, svo sem á pappír, ljósmyndum, myndbandsspólum, og að vörsluhafinn geti raunverulega haft hönd á því (fysisk besiddelse). Í greinargerð er bent á að í sumum tilfellum geti það verið vafa undirorpið hvort efni með barnaklámi teljist vera í „vörslum“ (besiddelse) viðkomandi, t.d. í tilvikum þegar efni er dreift með rafrænum miðlum. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð er eingöngu hægt að tala um vörslur í skilningi 2. mgr. 235. gr. þegar um rafræna miðla er að ræða að maður hafi gert eitthvað til þess að varðveita efnið með afritun þess þannig að hann geti kallað það fram hvenær sem er. 72 Þá segir jafnframt í greinargerðinni: 73

              De mere tilfældighedsprægede situationer, hvor Internetbrugere kommer ind på særlige områder, hvort der måtte væri fri adgang til børnepornografi, uden at de har noget ønske om at se børnepornografi eller der er tale om et enskelt nysgerrigt (gratis) besøg, falder uden for det strafbare område. Dette gælder dog ikke, hvis der sker en lagring, hvorved der etableres en besiddelse.

    Með framþróun tækninnar hafa ýmsir aðrir möguleikar opnast fólki í þessum efnum. Þannig getur fólk orðið sér úti um barnaklám með hjálp tölvutækninnar, svo sem á netinu, án þess að hafa raunverulega hönd á því og því ekki hægt að tala um vörslur í hefðbundnum skilningi. Af þeim sökum þótti ástæða til að rýmka 2. mgr. 235. gr. þannig að hún tæki ekki einungis til varslna á barnaklámi, heldur væri nú einnig refsivert „at gøre sig bekendt med“ gróft barnaklám gegn endurgjaldi, eins og t.d. er hægt á netinu. Af orðum greinargerðarinnar virðist eiga að skilja ákvæðið þannig að brot teljist fullframið þegar viðkomandi hefur opnað sér að aðgang að efninu með greiðslu. 74
    4. Þá voru gerðar breytingar á refsiviðurlögum 2. mgr. 235. Áður gat brot gegn ákvæðinu einungis varðað sektum. Eftir breytinguna er heimilt að dæma mann til að sæta varðhaldi eða fangelsi í allt að 6 mánuði ef um sérstaklega refsiþyngjandi aðstæður er að ræða (skærpende omstændigheder). Meðal refsiþyngjandi aðstæðna eru í greinargerðinni m.a. nefnd tilfelli þar sem um er að ræða að maður hafi greitt háar fjárhæðir fyrir efni með grófu barnaklámi eða fyrir aðgang að slíku efni á netinu. Þá er það enn fremur nefnt til refsiþyngingar ef maður hefur í vörslum sínum eða hefur gegn greiðslu skapað sér aðgang að miklu magni af grófu barnaklámi eða sérlega grófu efni, svo sem þar sem börnum er nauðgað. 75
    Í greinargerðinni kemur fram að í tengslum við þá endurskoðun sem fór fram á 235. gr. hafi það komið til athugunar hvort rétt væri að fella undir lagagreinina klámmyndir af börnum sem ekki byggðu á raunverulegum kynferðisathöfnum (fiktiv børnepornografi), þ.e. teikningar eða myndir unnar með tölvutækni sem líta út fyrir að sýna atburði sem raunverulega hafa átt sér stað. Í greinargerðinni er lögð áhersla á að reglurnar um barnaklám miði fyrst og fremst að því að vernda börn gegn kynferðislegri misnotkun. Þegar um sé að ræða tilbúnar (fiktiv) myndir lýsi þær ekki raunverulegum atburðum þar sem börn hafa verið misnotuð. Þess vegna taldi nefndin sem samdi frumvarpið að ekki væri nauðsynlegt að lögin tækju til slíks tilbúins efnis. Þetta er í samræmi við þau viðhorf sem áður hafa verið uppi í þessum efnum í danskri löggjöf. 76
    Í 235. gr. er talað um klámmyndir eða sambærilega hluti af börnum. Ekki er tilgreint sérstakt aldursmark í þessu sambandi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 441/2000 kemur fram að með orðinu „börn“ í 235. gr. sé miðað við einstaklinga sem hafa líkamlegan þroska barns undir 15 ára aldri og eru þar af leiðandi ekki orðin kynþroska eða kynþroski þeirra er rétt hafinn. Líkamlegur þroski barnsins sem klámefnið sýnir skiptir þannig sköpum fyrir refsinæmi verknaðarins en ekki nákvæmur aldur barnsins í árum. 77

1.5 Þátttaka barna og ungmenna í klámmyndum
    Til að uppfylla ákvæði ILO-samþykktar nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd (sbr. kafla 3 í I. hluta), bættu Danir nýrri lagagrein, 230. gr., við dönsku hegningarlögin með breytingalögum nr. 441/2000. Hún kveður á um bann við þátttöku barna og ungmenna undir 18 ára aldri í klámmyndum (bæði ljósmyndum og kvikmyndum) eða sambærilegum hlutum og er liður í því að auka vernd barna og ungmenna gegn kynferðislegri misnotkun. Ekkert ákvæði í dönsku hegningarlögunum kvað beinlínis á um þetta þótt margar greinar væri þar að finna er tækju til kynferðislegrar misnotkunar á börnum.
    Nýja lagaákvæðið er svohljóðandi:

              § 230. Den, der optager utugtige fotografier, film eller lignende af en person under 18 år med forsæt til at sælge eller på anden måde udbrede materialet, straffes med hæfte eller fængsel indtil 2 år, under formildende omstændigheder med bøde. § 226 finder anvendelse.

    Af hálfu löggjafans var m.a. talið að sérstök þörf væri á að auka vernd barna og ungmenna gegn því að vera notuð sem „klámmyndafyrirsætur“ og einnig að ná til aldurshópsins 15–17 ára. Þátttaka barna á þessum vettvangi yki hættuna á kynferðislegri misnotkun þeirra og eins væru þau of ung til að geta tekið skynsamlega ákvörðun um þátttöku í gerð klámefnis. Þá væri auðvelt að beita svo ungt fólk þrýstingi og þar af leiðandi oft vafamál hvort þátttakan er í raun af fúsum og frjálsum vilja. 78
    Ákvæðið tekur til þeirra sem taka (optager) klámljósmyndir, klámkvikmyndir eða þess háttar af einstaklingum undir 18 ára aldri, í þeim tilgangi að selja þær eða dreifa þeim á annan hátt. Hlutdeild er jafnframt refsiverð, sbr. 23. gr. dönsku hegningarlaganna. Ákvæðið nær þar af leiðandi ekki til þeirra sem síðar hafa þessar myndir í fórum sínum án þess að hafa átt hlut í gerð þeirra. Þeir sem kaupa slíkt myndefni falla heldur ekki undir ákvæðið. Kaupendum slíkra mynda mætti refsa samkvæmt 235. gr. ef myndirnar sýndu börn eða ungmenni sem ekki hefðu náð kynþroska. 79

1.6 Breytingar á lögum um meðferð opinberra mála
    Í tengslum við áðurnefndar breytingar sem gerðar voru á 235. gr. dönsku hegningarlaganna um dreifingu og vörslur á barnaklámi með breytingalögum nr. 441/2000 var jafnframt gerð breyting á dönsku réttarfarslögunum (lov om rettens pleje) í því skyni að auðvelda lögreglu rannsókn þessara mála. Skilyrðum fyrir beitingu þvingunarráðstafana sem fela í sér inngrip í friðhelgi einkalífsins (samskiptafrelsi, á dönsku: indgreb i meddelelseshemmeligheden) var breytt til þess að auðvelda rannsókn mála er lúta að barnaklámi. Hér er átt við rannsóknaraðgerðir eins og símhleranir, hleranir á samtölum með annars konar fjarskiptabúnaði, að fá upplýsingar um símtöl við tiltekið símtæki eða fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki, opnun bréfa og stöðvun póstsendinga til að auðvelda rannsókn.
    Rökin fyrir þessari breytingu voru fyrst og fremst þau að sú þróun sem hefur orðið á sviði tölvutækni hafi gert það að verkum að það geti reynst lögreglu afar erfitt að rannsaka mál af þessu tagi með venjubundnum rannsóknaraðferðum. Því hafi verið talið nauðsynlegt við rannsókn mála er varða barnaklám að veita lögreglu rýmri heimildir til að grípa til þvingunaraðgerða í þágu rannsóknar máls en hún ella hefði. Er þetta talið auka líkurnar á því að árangur náist í baráttunni gegn þessum brotum. 80

1.7 Nektardans
    Samkvæmt dönskum lögum eru nektardanssýningar háðar leyfum sem lögreglustjórar veita. Þessi leyfi eru háð ákveðnum skilyrðum sem danska dómsmálaráðuneytið hefur mælt fyrir um í sérstökum reglum. 81 Gildandi reglur hljóða svo:
     1.      Að sýningin fari fram í nægilega rúmgóðu húsnæði, þannig að gott rými sé á milli sýnenda og áhorfenda (miða skal við u.þ.b. 4 m). Frá þessu má þó veita undanþágu í ákveðnum tilvikum ef aðstæður eru með þeim hætti.
     2.      „Live-show“ eru ekki leyfð. Með „live-show“ er m.a. átt við það þegar tveir eða fleiri sýnendur láta vel hvor/hver að öðrum, svo sem með því að afklæða hvor/hver annan, sýna hvor/hver öðrum ástaratlot, þvo eða bera sápu hvor/hver á annan.
     3.      Börnum yngri en 18 ára er óheimilt að taka þátt í slíkum sýningum.
    Áður gerðu reglurnar jafnframt ráð fyrir því að óheimilt væri að sýnendur færu um meðal áhorfenda og að þeir beruðu kynfæri sín í slíkum sýningum. Þessi bönn voru afnumin árið 1995.

2. Vændi
2.1 Almennt
    Lagaákvæði um vændi er að finna í 24. kafla dönsku hegningarlaganna (Forbrydelser mod kønssædeligheden). Þá var jafnframt allt til ársins 1999 að finna lagaákvæði um þetta efni í 22. kafla laganna, sem heitir: Betleri og skadelig erhvervsvirksomhed. Á árunum 1999 og 2000 hafa orðið miklar breytingar í Danmörku á þeim hegningarlagaákvæðum sem lúta að vændi. Verður nú gerð grein fyrir gildandi réttarástandi og þeim breytingum sem hafa átt sér stað að undanförnu.

2.2 Stundan vændis
    Allt fram til ársins 1999 var að finna í 22. kafla dönsku hegningarlaganna (Betleri og skadelig erhvervsvirksomhed) lagaákvæði sem fjallaði um ólöglega atvinnuháttu og var svohljóðandi:

              § 199. Hengiver nogen sig til lediggang under sådanne forhold, at der er grund til at antage, at han ikke søger at ernære sig på lovlig vis, skal der af politiet gives ham pålæg om at søge lovligt erhverv inden en fastsat rimelig frist og så vidt muligt anvises ham sådant erhverv. Efterkommes pålægget ikke, straffes den pågældende med hæfte eller med fængsel indtil 1 år. Pålægget har gyldighed for 5 år.
               Stk. 2. Som lovligt erhverv anses ikke spil, utugt eller understøttelse fra kvinder, der ernærer sig ved utugt.

    Samkvæmt lagagreininni var heimilt að refsa manni með sektum eða fangelsi í allt að 1 ár ef hann sinnti ekki áminningu lögreglu um að leita sér löglegrar atvinnu. Að baki þessu lagaákvæði, sem og öðrum lagaákvæðum 22. kafla dönsku hegningarlaganna, bjuggu ekki síst hagsmunir samfélagsins af því að þegnar þess sæju fyrir sér á löglegan máta. 82 Þá var í 2. mgr. talið upp í dæmaskyni hvað teldist ekki vera lögleg atvinna. Vændi og það að þiggja viðurværi sitt af kvenmanni sem stundar vændi voru þar á meðal. Ákvæði 199. gr. fjallaði þannig um skyldu þegnanna til að sjá fyrir sér með löglegum hætti en ekki um bann við vændi sem slíku. Samkvæmt ákvæðum 199. gr. tók greinin aðeins til þeirra sem sáu fyrir sér með ólöglegri atvinnustarfsemi. Þeir sem öfluðu aukatekna með ólöglegri atvinnustarfsemi, svo sem vændi, féllu ekki undir lagagreinina. Ákvæði 199. gr. tók bæði til vændis gagnkyn hneigðra og samkynhneigðra. 83
    Á haustdögum 1998 lagði dómsmálaráðherra Danmerkur fram frumvarp á Þjóðþinginu til breytinga á dönsku hegningarlögunum. 84 Frumvarpið var samþykkt sem lög nr. 141 frá 17. mars 1999. Samkvæmt þeim voru 198. og 199. gr. hegningarlaganna felldar brott. Þetta hafði þá stefnubreytingu í för með sér að ekki er lengur refsivert að hafa framfæri sitt af vændi eða kvenmanni sem stundar vændi, svo framarlega sem ekki er um hagnýtingu/milligöngu að ræða, sbr. 228. og 229. gr. dönsku hegningarlaganna.
    Í greinargerð kemur fram að ákvæðum 199. gr. hafi á árum áður nánast eingöngu verið beitt gegn ógiftum vændiskonum sem ekki stunduðu jafnframt aðra atvinnu. Þá segir að í framkvæmd sé ákvæðinu ekki lengur beitt. Í greinargerðinni segir m.a. orðrétt: 85

              Straffelovens bestemmelse om straf for at overtræde et påbud om at søge lovligt erhverv anvendes ikke længere i praksis. Den foreslåede afkriminalisering af prostitution m.v. har således alene til formål at markere, at prostitution i sig selv ikke bør anses som en kriminel aktivitet. Prostitution er derimod både et udtryk for og årsag til sociale problemer, sem bedst løses i det socialpolitiske regi.

    Þá kemur einnig fram að ekki þyki rétt að viðhalda ákvæðum 199. gr. í lögum af þeirri ástæðu að nauðsynlegt sé að hjálpa fólki sem hefur komið sér í þessa stöðu en ekki refsa því. 86 Við meðferð frumvarpsins á danska Þjóðþinginu komu sterkt fram þau sjónarmið að vændi væri fyrst og fremst félagslegt vandamál sem ætti að fyrirbyggja og freista þess að leysa í félagsmálalöggjöfinni. Vændi kallaði á ráðstafanir til að hjálpa þeim sem það stunda en ekki á refsingar. 87
    Tekið er fram berum orðum í 2. mgr. 2. gr. breytingalaga nr. 141/1999 að afnám 199. gr. úr dönskum hegningarlögunum, hafi ekki í för með sér að litið sé á vændi (og það að þiggja framfæri sitt af kvenmanni sem stundar vændi) sem löglega atvinnugrein. Ákvæðið hljóðar svo:

              Loven medfører ikke, at spil, prostitution og understøttelse fra kvinder, som ernærer sig ved prostitution, anses som lovlige erhverv.

    Með afnámi 199. gr. úr dönsku hegningarlögunum var því ekki verið að lögleiða vændi í Danmörku (legalisering) heldur er eingöngu um það að ræða að vændi sem slíkt (og það að þiggja framfæri sitt af vændiskonu) er ekki lengur refsivert (afkriminalisering).
    Í umræðum um frumvarpið kom fram það sjónarmið að með því að fella niður 199. gr. kynni „markaðssetning“ á vændi að verða sýnilegri og opinskárri. Ákvæði 233. gr. hegningarlaganna (sbr. kafla 2.7 hér á eftir) og ákvæði í lögreglusamþykktum setja því þó skorður hvernig þeir sem stunda vændi geta komið þjónustu sinni á framfæri.
    Þá segir jafnframt í áðurnefndri greinargerð að með afnámi 199. gr. sé einungis verið að koma til móts við breytt viðhorf gagnvart þeim sem stunda vændi, þeim þurfi að hjálpa en ekki refsa. Það breyti aftur á móti ekki því að áfram verði barist af fullum þunga gegn hagnýtingu vændis (milligöngumönnum/vændismiðlurum). Stjórnvöld í Danmörku hafa gert ýmislegt á undanförnum árum í því skyni að aðstoða þá sem stunda vændi. Má sem dæmi nefna svokallað PRO-Center sem komið var á fót árið 1997. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að vera stjórnvöldum og stofnunum til ráðgjafar um það hvernig hægt sé að fyrirbyggja og draga úr vændi í landinu ásamt því að leita lausna á félagslegum og heilbrigðislegum vandamálum þeirra sem stunda vændi. 88

2.3 Hagnýting vændis
    Um stuðning við vændi og hagnýtingu þess er fjallað í 228. og 229. gr. dönsku hegningarlaganna. Ákvæðin miða að því að refsa svonefndum milligöngumönnum og taka bæði til vændis gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. 89 Ákvæðin hljóða svo:

              § 228. Den, der
               1)      forleder nogen til at søge tjeneste ved kønslig usædelighed med andre,
              2)      for vindings skyld forleder nogen til kønslig usædelighed med andre eller afholder nogen, der driver erhverv ved kønslig usædelighed, fra at opgive det, eller
              3)      holder bordel,
    straffes for rufferi med fængsel indtil 4 år.
              Stk. 2. På samme måde straffes den, der tilskynder eller bistår en person under 21 år til at søge erhverv ved kønslig usædelighed, samt den, der medvirker til en persons befordring ud af riget, for at denne i udlandet skal drive erhverv ved kønslig usædelighed eller benyttes til sådan usædelighed, når den befordrede person er under 21 år eller uvidende om formålet.

               § 229. Den, der fremmer kønslig usædelighed ved for vindings skyld eller i oftere gentagne tilfælde at optræde som mellemmand, eller som udnytter en andens erhverv ved kønslig usædelighed, straffes med fængsel indtil 3 år eller under formildende omstændigheder med hæfte eller bøde.
              Stk. 2. Den, der udlejer værelse i hotel eller gæstgiveri til benyttelse til erhvervsmæssig utugt, straffes med hæfte eller med fængsel intil 1 år eller under formildende omstændigheder med bøde.

    Hugtakið „prostitution“ er ekki notað í lagatextanum heldur „kønslig usædelighed“. Í bók Knuds Waabens Strafferettens specielle del er að finna skilgreiningu á orðunum „kønslig usædelighed“: 90

              Dette udtryk omfatter navnlig tilfældige kønslige forbindelser mod betaling; nogle forskelle mellem bestemmelserne følger af de ord som bestemmer fuldbyrdelsesmomentet og af udtryk som »for vindings skyld«, »søge fortjeneste«, »drive (søge) erhverv« m.v.

    Hugtakið „prostitution“ kemur fyrir í nýju ákvæði dönsku hegningarlaganna, 223. gr. a, sem lögfest var árið 1999 og fjallar um kaup á vændi barna yngri en 18 ára. Í greinargerð sem fylgdi með því er hugtakið „prostitution“ skilgreint sem : levering af seksuelle ydelser mod betaling. 91 Þá segir jafnframt að ákveðið hafi verið að nota hugtakið „prostitution“ í hinu nýja ákvæði í staðinn fyrir „utugt“, sem notað er í 229. og 233. gr., þar sem það sé mun nútímalegra.
    Orðin „lauslæti“ og „vændi“ verða hér eftir, sem hingað til, notuð jöfnum höndum í sömu merkingunni: að veita kynlífsþjónustu gegn greiðslu, en þessi orð eru notuð í íslensku hegningarlögunum.

    a) Ginning til lauslætis o.fl. (rufferi)
    Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. er þrenns konar milliganga refsiverð. Skv. 1. tölul. er refsivert að ginna aðra manneskju til lauslætis. Ákvæðið gerir ráð fyrir því að sá sem lauslætið stundar geri það í hagnaðarskyni, en ekki er nauðsynlegt að milligöngumaðurinn hafi af því ávinning. 92 Skv. 2. tölul. er annars vegar refsivert að ginna aðra manneskju til lauslætis og hins vegar að hindra hana í því að hætta að stunda vændi (søge erhverv). Þá er skv. 3. tölul. refsivert að reka vændishús. Skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. er það skilyrði refsiábyrgðar að milligöngumaðurinn vinni verknaðinn í ávinningsskyni.
    Litið hefur verið svo á að ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 228. gr. taki jafnframt til kynlífsathafna sem eru liður í myndatökum, þ.e. framleiðslu klámkvikmynda eða klámljósmynda þar sem fólk er sýnt í kynferðisathöfnum með öðrum. 93 Samkvæmt ákvæðinu er því hægt að refsa þeim sem hafa milligöngu um að fólk taki þátt í gerð slíks efnis.

     b) Ungmenni hvatt til að sjá fyrir sér með vændi eða stuðlað að flutningi manns úr landi í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af vændi
    Í 2. mgr. 228. gr. er lögð refsing við tvenns konar verknaði, annars vegar að stuðla að því að ungmenni, sem ekki hefur náð 21 árs aldri, hafi viðurværi sitt af vændi og hins vegar að eiga þátt í því að maður flytji úr landi í því skyni að sjá fyrir sér með vændi. Þetta er það sem nefnt hefur verið „hvít þrælasala“. 94 Bæði er ólöglegt að stuðla að því að ungmenni yngra en 21 árs flytji úr landi í þessu skyni, óháð því hvort því er kunnugt um ástæðuna eða ekki, og eins er ólöglegt að stuðla að útflutningi manns sem er 21 árs eða eldri sé honum ókunnugt um tilgang fararinnar. Samþykki ungmennis sem er yngra en 21 árs leysir milligöngumanninn því ekki undan refsiábyrgð. Aldursmörkin hér eru þau sömu og í 4. mgr. 206. gr. íslensku hegningarlaganna og ákvæðin efnislega samhljóða. Með þeim breytingum sem gerðar voru á íslenska ákvæðinu árið 1992 hefur það þó verið rýmkað í samanburði við hið danska þar sem íslenska ákvæðið tekur jafnframt til flutnings fólks til landsins í þessu skyni.
    Þar sem 2. mgr. 228. gr. tekur eingöngu til flutnings fólks úr landi ber að beita öðrum lagaákvæðum þegar um ólöglegan flutning fólks til landsins er að ræða. Slík háttsemi varðar við lög um útlendinga.
    Til umræðu hefur komið í danska Þjóðþinginu að lækka aldursmörkin sem ákvæðið miðast við í samræmi við breyttan lögræðisaldur, en tillögur þess efnis hafa ekki náð fram að ganga. 95

     c) Rekstur vændishúss
    Í 3. tölul. 1. mgr. 228. gr. er rekstur vændishúsa mæltur refsiverður. Í danskri réttarframkvæmd hefur afmörkun hugtaksins „vændishúss“ reynst erfið. 96 Ekki þykir ástæða til þess að gera grein fyrir því hér.

    d) Stuðlað að lauslæti annarra eða hagnýting þess
    Árið 1961 var fyrri hluta 1. mgr. 229. gr. breytt í þeim tilgangi m.a. að ákvæðið tæki til þeirra sem störfuðu í „þjónustugeiranum“ og litu á það sem hluta af þjónustu sinni við viðskiptavininn að benda á aðila sem stunduðu vændi, hvort sem það var gert gegn greiðslu eða ekki. Eins og ákvæðið hljóðar eftir breytinguna varðar það refsiábyrgð að koma fram sem milliliður, þ.e. að vísa endurtekið eða í ávinningsskyni á aðila sem stunda vændi. Sem dæmi um þá sem geta fallið undir ákvæðið má nefna leigubílstjóra, barþjóna, þjóna á veitingahúsum og hótelstarfsmenn. Ef greitt er fyrir milligönguna nægir aðeins eitt skipti til refsiábyrgðar. 97
    Þá er samkvæmt síðari hluta 1. mgr. 229. gr. refsivert að hagnýta sér vændi annarra. Til að hægt sé að tala um hagnýtingu þarf að vera nokkuð viðvarandi samband á milli þess sem stundar vændi og milliliðarins. Hér má sem dæmi nefna endurtekið lán á húsnæði gegn greiðslu þess sem stundar vændi. Lán á íbúðarherbergi gegn greiðslu í eitt einstakt skipti dygði því ekki til refsiábyrgðar samkvæmt ákvæðinu heldur yrði slíkt „lán“ á íbúðarhúsnæði að eiga sér stað nokkuð reglulega. Um skýringu á þessu ákvæði segir í bók Vagn Greve o.fl.: 98

              Anvendelse af § 229, stk. 1, 2. led, forudsætter, at gerningsmanden har »udnyttet« den prostituerede, hvilket ifølge mot. indebærer, at »Bestemmelsen kun kommer til Anvendelse, hvort der er Tale om Forhold af en vis varigere Karakter, og hvor det drejer sig om økonomisk Fordel, som Modtageren ikke har retligt eller naturligt Krav paa at motdtage« (strl. bet. 1923, mot 328.)

    Samkvæmt 2. mgr. 229. gr. er refsivert að leigja út herbergi á hótelum eða gistihúsum í þeim tilgangi að þar sé stundað vændi. Dugir eitt einstakt skipti til refsiábyrgðar. 99
    Á dönsku hefur hegðun sú sem lýst er í 1. og 2. mgr. 229. gr. verið kölluð „aktivt alfonseri“. „Aktive alfonser“ eru þeir „… som enten udnytter en andens erhverv som prostitueret, eller som for vindings skyld eller oftere gentaget optræder som mellemmænd“. 100

    e) Framfærsla af tekjum vændiskonu (passivt alfonseri)
    Með breytingalögum nr. 141/1999 voru 3.–5. mgr. 229. gr. dönsku hegningarlaganna felldar niður. Þótt ákvæði þessi séu ekki lengur í dönskum lögum þykir til fróðleiks rétt að gera stuttlega grein fyrir þeim. Ákvæðin voru svohljóðandi:

              Stk. 3. Med fængsel indtil 4 år straffes den mandsperson, som helt eller delvis lader sig underholde af en kvinde, der driver utugt som erhverv.
              Stk. 4. Med fængsel intil 1 år straffes den mandsperson, som imod politiets advarsel deler bolig med en kvinde, der driver utugt som erhverv. En af politiet meddelt advarsel har gyldighed for 5 år.
              Stk. 5. De i stk. 3 og 4 givne straffebestemmelser finder ikke anvendelse på mandspersoner under 18 år, over for hvem kvinden har underholdspligt.

    Ákvæði 3. og 4. mgr. tóku til svonefnds „passivt alfonseri“ (eða „soutenørvirksomhed“), 101 þ.e. til þeirra aðstæðna er karlmenn lifðu af tekjum vændiskvenna, án þess að stuðla beinlínis að vændinu. Þetta gátu t.d. verið eiginmenn þeirra og í raun gátu þeir verið alfarið á móti þessari iðju. Synir vændiskvenna, yngri en 18 ára, sem þeim var skylt samkvæmt lögum að framfæra, gátu þó ekki gerst brotlegir fyrir að þiggja lífsviðurværi sitt af konu sem sá fyrir sér með vændi, sbr. 5. mgr. Í framkvæmd gat verið erfitt að gera greinarmun á því hvort rétt væri að heimfæra brot undir 2. tölul. 1. mgr. 228. gr. eða 3. mgr. 229. gr. Það hafði þó ekki sérstaka þýðingu í raun þar sem refsimörkin voru hin sömu.
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1999 kemur m.a. fram að í tengslum við þá ákvörðun að fella niður refsiábyrgð fyrir það að stunda vændi í atvinnuskyni (þ.e. að fella niður 199. gr. dönsku hegningarlaganna) sé eðlilegt að fella niður refsiábyrgð skv. 3.–5. mgr. 229. gr. Segir þar orðrétt: 102

              Hvis prostitution ikke længere er forbundet med et (indirekt) strafansvar, bør det efter Justitsministeriets opfattelse heller ikke være strafbart at leve sammen med eller lade sig underholde af en prostituetret, medmindre der er tale om udnyttelse af den prostituerede.

    Þrátt fyrir að 3.–5. mgr. 229. gr. hafi verið felldar niður verður milligöngumönnum, sem leggja því með einhverjum hætti lið að einstaklingur stundi vændi, refsað skv. 1. eða 2. mgr. lagagreinarinnar („aktive alfonser“).

2.4 Ítrekun
    Í 231. gr. dönsku hegningarlaganna er að finna ítrekunarákvæði sem svarar til 208. gr. íslensku hegningarlaganna. Þar segir:

              § 231. Har den, som skal dømmes efter §§ 228 eller 229, tidligere været dømt for nogen i disse bestemmelser omhandlet forbrydelse eller for løsgængeri, eller har han for en berigelsesforbrydelse været dømt til fængsel, kan straffen forhøjes med indtil det halve.

2.5 Vændi samkynhneigðra
    Allt frá árinu 1905 og fram til ársins 1967 var að finna sérstakt ákvæði í dönsku hegningarlögunum um vændi samkynhneigðra. Ákvæðið var í 230. gr. laganna og hljóðaði svo:

              § 230.
Modtager nogen betaling for at øve kønslig usædelighed med en person af samme køn, straffes han med hæfte eller med fængsel indil 1 år.

    
Með lögum nr. 248/1967 var ákvæðið, sem lagði bann við því að viðlagðri refsingu að taka við greiðslu fyrir kynferðisathafnir með manneskju sama kyns, afnumið. Ákvæðið var að því leyti ólíkt 199. gr. dönsku hegningarlaganna að einungis eitt einstakt skipti dugði til refsiábyrgðar skv. 230. gr. og skipti engu máli í því sambandi þótt viðkomandi stundaði löglega atvinnu sér til framfærslu. Þá var refsiábyrgðin heldur ekki háð undanfarandi viðvörun eins og gert var ráð fyrir í 199. gr.
    Ákvæði 228. og 229. gr. dönsku hegningarlaganna taka bæði til vændis gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og er ekki lengur gerður neinn greinarmunur þar á. Sömu sögu er að segja um 223. gr. a, sbr. 225. gr. eins og henni var breytt með lögum nr. 141/1999, sem kom inn í lögin fyrri hluta árs 2000.

2.6 Kaup á vændi
    Samkvæmt dönskum rétti hefur það ekki varðað refsingu að kaupa vændisþjónustu. Þess ber þó að geta að kynferðismök við börn yngri en 15 ára voru og eru refsiverð samkvæmt 222. gr. dönsku hegningarlaganna (sambærilegt ákvæði er að finna í 202. gr. íslensku hegningarlaganna). Þetta á að sjálfsögðu við þótt atvik séu þannig að maður kaupi vændisþjónustu af barninu.
    Með breytingalögum nr. 141 frá 17. mars 1999 var nýrri lagagrein bætt við dönsku hegningarlögin, 223. gr. a. Hún fjallar um kaup á vændisþjónustu af einstaklingum sem eru yngri en 18 ára og hljóðar svo:

              § 223 a
. Den, der som kunde har samleje med en person under 18 år, der helt eller delvis ernærer sig ved prostitution, straffes med bøde, hæfte eller fængsel indtil 2 år.

    Samkvæmt ákvæðinu er nú refsivert að kaupa kynlífsþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára. Í greinargerð kemur fram að lögfesting þessa lagaákvæðis sé liður í því að spyrna á móti þeirri kynferðislegu misnotkun á börnum og ungmennum sem útbreidd er víða um heim. Þá sé það í samræmi við alþjóðlegt samstarf á þessu sviði sem hafi það að markmiði að vinna gegn kynferðislegri misnotkun barna. Með lögfestingu þessa lagaákvæðis, til viðbótar við lagaákvæði er leggja refsingu við milligöngu, sé vonast til að eftirspurn eftir kynlífsþjónustu þessa aldurshóps minnki. 103
    Ákvæðið tekur til þess að hafa samræði, sem og önnur kynferðismök, við barn yngra en 18 ára, sbr. 224. gr. dönsku hegningarlaganna eins og henni var breytt með 3. tölul. 1. mgr. laga nr. 141/1999. Þá tekur það til þess þegar um kaupendur sama kyns er að ræða, sbr. 225. gr. dönsku hegningarlaganna eins og henni var breytt með 4. tölul. 1. mgr. laga nr. 141/1999.
    Með orðinu „kunde“ (viðskiptavinur) í lagatextanum er efni ákvæðisins takmarkað við að greiðsla fyrir þjónustuna fari fram eða að loforð hafi verið gefið um greiðslu. Ekki skiptir máli í því sambandi hvort kaupandinn sjálfur eða þriðji maður innir greiðsluna af hendi. Þá þarf ekki að vera um beina peningagreiðslu að ræða, en endurgjaldið þarf að vera hægt að meta til fjár. Það er ekki heldur skilyrði refsiábyrgðar að seljandinn hafi aðaltekjur sínar af vændi. Það nægir að aðeins hluti tekna ungmennisins sé fenginn með þessum hætti. 104
    Brot gegn ákvæðinu getur varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum. Sé seljandi þjónustunnar yngri en 15 ára fellur brotið undir 222. gr. dönsku hegningarlaganna sem mælir fyrir um enn þyngri viðurlög. Einungis er hægt að refsa manni fyrir brot gegn 223. gr. a að honum hafi verið kunnugt um að ungmennið stundaði vændi og að kynlífsathafnirnar væru liður í því. Hafi brotið verið framið af gáleysi um aldur viðkomandi skal skv. 226. gr. dönsku hegningarlaganna beita vægari viðurlögum. 105
    Aldur kaupandans hefur ekki áhrif á refsiábyrgð svo framarlega sem hann hefur náð sakhæfisaldri. Hann gæti því sjálfur verið yngri en 18 ára. 106

    Að lokum er rétt að minnast hér á 227. gr. dönsku hegningarlaganna þar sem heimilað er að fella refsingu niður vegna brots gegn 223. gr. a ef sá sem stundar vændi og viðskiptavinurinn ganga síðar að eigast.

2.7 Takmarkanir á auglýsingum á vændi
    Í 233. gr. dönsku hegningarlaganna er að finna svohljóðandi ákvæði:

              § 233.
Den, som opfordrer eller indbyder til utugt eller stiller usædelig levevis til skue på anden måde, der er egnet til at forulempe andre eller vække offentlig forargelse, straffes med hæfte eller med fængsel indtil 1 år eller under formildende omstændigheder med bøde.

    Þessari lagagrein, eins og 228. og 229. gr., er sérstaklega ætlað að vinna gegn vændi. Ákvæðið leggur m.a. refsingu við því að hvetja til lauslætis eða bjóða upp á lauslæti, þar með vændisþjónustu, á þann hátt að öðrum sé misboðið eða að það sé til þess fallið að vekja almenna hneykslan. Ákvæðið setur einkum þeim sem stunda vændi á götum úti mörk að því er varðar hegðun og aðferðir við að afla sér viðskiptavina. Á sama hátt setur þetta efni auglýsinga um slíka þjónusta, svo sem í blöðum og tímaritum, mörk að því er varðar efni og framsetningu. Þessar auglýsingar, svo og hegðun þeirra sem leita viðskiptavina, mega ekki fara út fyrir mörk almenns velsæmis. 107 Lagagreinin tekur einungis til mjög grófs eða sérstaklega hneykslanlegs verknaðar. Ákvæði 5. og 6. gr. lögreglusamþykktar (normalpolitivedtægten) eru greininni til frekari fyllingar. Þau hljóða svo:

               § 5. Det er forbudt på eller ud til en vej eller andre steder, hvortil der er almindelig adgang, at vise uanstændig opførsel, f.eks. ved uanstændige ord eller handlinger, ved uanstændlige blottelse af legemet eller ved at opfordre til utugt.
               § 6. Politiet kan forbyde enhver, der opholder sig på en vej, at stå stille der eller að færdes frem og tilbage på kortere strækninger, når den pågældendes ophold eller færden medfører ulempe for omboende eller forbipasserende, eller der er begrundet formodning om, at den pågældende på dette sted udøver et ulovligt erhverv.

    Orðunum „stiller usædelig levevis til skue“ var upphaflega beint gegn hneykslanlegum kynferðissýningum en ekki eingöngu vændi. Ákvæðinu má beita gegn viðskiptavinum þeirra sem stunda vændi ef hegðun þeirra er misbjóðandi. 108
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1999 kemur fram að tilvitnuðum ákvæðum lögreglusamþykktarinnar sé að jafnaði beitt vegna þeirrar hegðunar sem annars fellur undir 233. gr. Af þessum sökum hafi 233. gr. lítt eða ekki verið beitt í réttarframkvæmd. Þá kemur einnig fram að í tengslum við frumvarpið hafi verið íhugað hvort ekki væri rétt að fella 233. gr. niður. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir að ákvæðið hefði fram til þessa ekki haft mikla þýðingu í framkvæmd væri rétt að hafa það áfram í gildi. Er sérstaklega á það bent að ákvæði lögreglusamþykktarinnar taki ekki til auglýsinga. Því var talið að ástæða væri til að hafa ákvæðið áfram í lögum þar sem ekki væri hægt að útiloka að þörf kynni að vera á vernd gegn mjög grófum og hneykslanlegum auglýsingum um kynferðislega þjónustu. 109


III. NOREGUR



1. Klám
1.1 Almennt
    Hinn 13. júní 2000 samþykkti Stórþing Norðmanna margvíslegar og umfangsmiklar breytingar á 19. kafla norsku hegningarlaganna, almindelig borgerlig straffelov, nr. 10 frá 22. maí 1902, með síðari breytingum. Kaflinn, sem nú heitir Seksualforbrytelser í stað Forbrytelser mot sedeligheten, hefur sætt gagngerri endurskoðun. Tilgangurinn var annars vegar að einfalda ákvæði kaflans og gera þau nútímalegri og hins vegar að styrkja vernd kvenna og barna gegn kynferðislegri misnotkun. 110 Hin nýju breytingalög eru nr. 76 frá 11. ágúst 2000.
    Þessar nýlegu breytingar á norsku hegningarlögunum eiga að miklu leyti rót sína að rekja til skýrslu sem svonefnd kynferðisbrotanefnd (Seksuallovbruttutvalg) skilaði árið 1997. Í henni var gerð nákvæm úttekt á ákvæðum norsku hegningarlaganna er lutu að kynferðisbrotum og tillögur gerðar til breytinga á þeim. 111
    Áður en breytingalög nr. 76/2000 gengu í gildi var ákvæði norsku hegningarlaganna um klám að finna í 211. gr. Ákvæðið sætti nokkrum sinnum breytingum í gegnum árin. Mikilvægustu breytingarnar voru gerðar árin 1985 og 1992. Meðal breytinga árið 1985 voru þær að hugtakið „pornografi“ var tekið upp í efni greinarinnar samhliða hugtakinu „utuktig“, og voru bæði hugtökin skilgreind í greininni sjálfri. 112 Þá var ákvæði um bann við barnaklámi bætt við greinina árið 1992. 113
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2000 kemur fram að breytingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir á klámákvæðum hegningarlaganna eigi ekki að leiða til aukins frjálsræðis á þessu sviði. Yfirvöld séu sannfærð um að klám hafi óheppileg áhrif, bæði á þjóðfélagið í heild sinni sem og á hvern þann einstakling sem umgangist það. Þá séu hin neikvæðu áhrif sem klám geti haft á ungt fólk, sem ekki hefur tekið út kynferðislegan þroska eða öðlast skilning á þessum efnum, yfirvöldum sérstakt áhyggjuefni. Einnig sé erfitt að sjá jákvæð gildi þess að auka enn frekar aðgengi fullorðinna að klámi. Klám sé að miklu leyti lýsingar á kynferðislegri hegðun sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og aukin útbreiðsla þess meðal fullorðins fólks geti haft í för með sér að grafið sé undan þeirri siðferðisvitund sem þjóðfélagið byggist á og hefur rétt til að vernda. Þá segir að þeir sem vilja verða sér úti um klám geti gert það á tiltölulega auðveldan og löglegan hátt utan lögsögu Noregs, að efni með barnaklámi frátöldu. Þetta sé t.d. hægt að gera með því að flytja inn myndbönd eða tímarit, gerast áskrifandi að sjónvarpsstöðvum sem bjóða upp á þess konar efni eða á netinu. Markmið yfirvalda með bönnum á þessu sviði sé að hindra að klámiðnaður nái að vaxa og dafna í Noregi með öllum þeim neikvæðu áhrifum sem honum fylgja. 114
    Lög nr. 76/2000 hafa ýmsar breytingar í för með sér. Sem dæmi má nefna að ákvæði um barnaklám var rýmkað á þann veg að það tekur nú til framleiðslu og afhendingar á slíku efni til viðbótar við vörslur og innflutning. Þá er skilgreiningin á því hvað telst til barnakláms ekki lengur bundin við ákveðinn aldur. Í greinargerðinni er þetta skýrt þannig að líta beri á 16 ára aldursmörkin, sem er hinn „kynferðislegi lögaldur“ (seksuell lavalder) samkvæmt norskum lögum, sem leiðbeinandi viðmiðun í því efni. Til barnakláms telst klámefni sem sýnir raunveruleg börn eða einhvern sem lítur út fyrir að vera barn eða er látinn líta út fyrir að vera barn. Þá er lagt bann við því að ginna börn eða ungmenni yngri en 18 ára til þátttöku í ljósmyndum eða kvikmyndum sem eru af kynferðislegum toga. Sömuleiðis er lagt bann við því að framleiða slíkar myndir ef þær sýna einstaklinga yngri en 18 ára.
    Ákvæði 211. gr. norsku hegningarlaganna, eins og það var fyrir þessa breytingu, hafði litla þýðingu í réttarframkvæmd. 115
    Eftir hina umfangsmiklu endurskoðun á 19. kafla norsku hegningarlaganna er aðalákvæðið um klám nú að finna í 204. gr. laganna (í stað 211. gr. áður). Það hljóðar svo:

              § 204. Den som
                  a)      utgir, selger eller på annen måte søker å utbre pornografi,
                  b)      innfører pornografi med sikte på utbredelse,
                  c)      overlater pornografi til personer under 18 år,
                  d)      produserer, innfører, besitter, overlater til en annen eller mot vederlag gjør seg kjent med barnepornografi,
                  e)      holder offentlig foredrag eller istandbringer offentlig forestilling eller utstilling med pornografisk innhold, eller
                  f)      forleder noen under 18 år til å la seg avbilde som ledd i kommersiell fremstilling av rørlige og urørlige bilder med seksuelt innhold, eller produserer slike fremstillinger hvor noen under 18 år er avbildet,
    straffes med bøter eller med fengsel inntil 2 år.
              Med pornografi menes i denne paragrafen kjønnslige skildringer som virker støtende eller på annen måte er egnet til å virke menneskelig nedverdigende eller forrående, herunder kjønnslige skildringer hvor det gjøres bruk av barn, lik, dyr, vold og tvang. Med barnepornografi menes kjønnslige skildringer i rørlige og urørlige bilder hvor det gjøres bruk av barn, noen som må regnes som barn eller noen som er fremstilt som barn. Som pornografi regnes ikke kjønnslige skildringer som må anses forsvarlige ut fra et kunstnerisk, vitenskapelig, informativt eller lignende formål.
              Den som uaktsomt foretar handling som nevnt i første ledd a til f, straffes med bøter eller med fengsel inntil 6 måneder. På samme måte straffes den innehaver eller overordnede som forsettlig eller uaktsomt unnlater å hindre at det i en virksomhet blir foretatt handling som nevnt i denne paragrafen.
              Paragrafen gjelder ikke for film eller videogram som Statens filmtilsyn ved forhåndskontroll har godkjent til erhvervsmessig fremvisning eller omsetning.

    Ákvæði 1. mgr. skiptist í sex liði. Ákvæði f-liðar er nýmæli. Refsihámark fyrir brot gegn einstökum liðum getur samkvæmt lokaorðum málsgreinarinnar varðað fangelsi allt að 2 árum. Skilyrði refsiábyrgðar fyrir brot gegn 1. mgr. 204. gr. er að þau hafi verið framin af ásetningi. Í 3. mgr. 204. gr., sem svarar til eldri 4. mgr. 211. gr., eru brot gegn 1. mgr, sem framin eru af gáleysi, jafnframt lýst refsiverð. Refsihámarkið er þó lægra en fyrir ásetningsbrot, eða fangelsi í allt að sex mánuði.
    Nánar verður gerð grein fyrir einstökum liðum 1. mgr. 204. gr. í köflum 1.3–1.8 hér á eftir.

1.2 Skilgreining hugtaka
    Hugtakið klám (pornografi) er skilgreint í 1. málsl. 2. mgr. 204. gr. norsku hegningarlaganna. Samkvæmt skilgreiningunni er klám:

    … kjønnslige skildringer som virker støtende eller på annen måte er egnet til å virke menneskelig nedverdigende eller forrående, herunder kjønnslige skildringer hvort det gjøres bruk av barn, lik, dyr, vold og tvang.

    Skilgreiningin samsvarar þeirri sem gilt hefur og kom fram í eldri 2. mgr. 211. gr., en gerðar voru nokkrar orðalagsbreytingar á ákvæðinu í samræmi við breytt tungutak. Orðið „utukt“ er ekki lengur haft með í skilgreiningunni, enda var það talið óþarft í ljósi þess að „utukt“ og „pornografi“ væru samheiti og að orðið „utukt“ væri að mestu leyti horfið úr daglegu máli. Þá var misnotkun líks bætt við skilgreininguna til að taka af allan vafa, en litið hafði verið svo á að kynferðisleg misnotkun á líki félli undir skilgreininguna á klámi samkvæmt eldri 2. mgr. 211. gr. þótt það væri ekki tekið fram í ákvæðinu berum orðum.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 204. gr. er hugtakið barnaklám (barnepornografi) sérstaklega skilgreint. Slíka skilgreiningu var að finna í eldri d-lið 1. mgr. 211. gr., en í 2. mgr. 204. gr. hefur hún hefur verið rýmkuð og sérstök aldursmörk afnumin. Skilgreiningin er nú svohljóðandi:

              Med barnepornografi menes kjønnslige skildringer i rørlige og urørlige bilder hvor det gjøres bruk av barn, noen som må regnes som barn eller noen som er fremstillt som barn.

    Skilgreiningin tekur til kyrrmynda og hreyfimynda, óháð því hvaða tækni er notuð til að gera þær. 116 Til barnakláms telst það þegar myndir innihalda kynferðislegar lýsingar á börnum, þ.e. á einstaklingum sem í raun og veru eru börn. Þá telst það einnig til barnakláms þegar klámefni inniheldur kynferðislegar lýsingar á einstaklingum sem gera má ráð fyrir að séu börn eða eru látnir líta út fyrir að vera börn. Í eldri 2. mgr. 211. gr. var í skilgreiningunni miðað við kynferðislegar lýsingar á börnum yngri en 16 ára eða einstaklingum sem litu út fyrir að hafa ekki náð þeim aldri. Nú hafa sérstök aldursmörk verið afnumin og miðað er við að þeir einstaklingar, sem ekki hafa tekið út kynferðislegan þroska, séu börn í skilningi ákvæðisins. Þrátt fyrir að sérstök aldursmörk hafi verið afnumin úr ákvæðinu er sá lágmarksaldur sem börn verða að hafa náð samkvæmt norskum lögum til að heimilt sé að stunda með þeim kynlíf (seksuel lavalder) áfram viðmiðunin í þessu efni.
    Í 3. málsl. 2. mgr. 204. gr. er það nánar afmarkað hvers konar kynferðislegar lýsingar teljist ekki til kláms. Þar segir:

              Som pornografi regnes ikke kjønnslige skildringer som må anses forsvarlige ut fra et kunstnerisk, vitenskapelig, informativt eller lignende formål.

1.3 Dreifing
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. 204. gr. er bannað að gefa út, selja eða að leitast við að dreifa klámi á annan hátt. Ákvæðið eins og það hljóðar nú tekur til alls klámefnis, óháð birtingarformi þess. Þannig fellur nú klámefni sem dreift er í gegnum rafræna miðla, svo sem netið og gervihnetti, undir ákvæðið, svo framarlega sem tilgangurinn er að dreifa því. 117 Til samanburðar má geta þess að ákvæðið tók áður til kláms sem birtist á prenti (skrifter), á myndum, í kvikmyndum, í myndböndum eða sambærilegum hlutum. Ákvæðið hefur ekki í för með sér að óheimilt sé að verða sér úti um og hafa í vörslum sínum klámefni til eigin nota, að efni með barnaklámi frátöldu, sbr. d-lið.

1.4 Innflutningur
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. 204. gr. er óheimilt að flytja inn klámefni sem ætlað er til dreifingar. Að öðru leyti er heimilt að flytja inn klámefni til eigin nota, sbr. þó d-lið.

1.5 Afhending klámefnis til barna og ungmenna
    Markmið c-liðar 1. mgr. 204. gr. er að veita einstaklingum undir 18 ára aldri sérstaka vernd, en samkvæmt liðnum er óheimilt að láta þeim í té (overlate) klámefni. Með orðunum „að láta í té“ er átt við að börnum eða ungmennum sé fengið efnið í hendur þannig að þau hafi umráð þess. Þannig nægir ekki til refsiábyrgðar að barni sé sýnd klámmynd í eitt einstakt skipti. Klámefnið þarf að vera í umráðum barns eða ungmennis til að háttsemin falli undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. 118

1.6 Barnaklám
    Ákvæði um barnaklám kom fyrst inn í norsku hegningarlögin árið 1992. 119 Verknaðarlýsing ákvæðisins, eins og það er nú eftir breytinguna sem gerð var á hegningarlögunum með lögum nr. 76/2000, er nokkuð rýmri en áður var. Skv. d-lið 1. mgr. 204. gr. er nú óheimilt að framleiða, flytja inn, hafa í vörslum sínum, láta öðrum í té eða kynna sér gegn endurgjaldi efni með barnaklámi. Ekki skiptir máli hvort efnið er ætlað til eigin nota eða til dreifingar. Ákvæðið felur í sér fortakslaust bann við slíku efni.
    Í greinargerð með breytingalögunum kemur fram að með orðunum „mot vederlag gjør seg kjent med barnepornografi“ sé verið að ná til þeirrar háttsemi þegar fólk, gegn greiðslu peninga eða gegn annars konar endurgjaldi (svo sem með skiptum (býtti)), fær aðgang að myndum á tölvuskjám án þess að hægt sé að tala um að efnið sé beinlínis í vörslum þess. 120
    Bann við því að að framleiða, flytja inn, hafa í vörslum sínum, láta öðrum í té eða kynna sér gegn endurgjaldi efni með barnaklámi skv. d-lið 1. mgr. 204. gr. gildir ekki eingöngu um brot sem framin eru í Noregi, heldur tekur það einnig til norskra ríkisborgara á erlendri grundu. Þetta leiðir af breytingu sem gerð var á a-lið 3. mgr. 12. gr. norsku hegningarlaganna með lögum nr. 76/2000, en með breytingunni er gildissvið laganna rýmkað að því er barrnaklámsbrot varðar. Er það í samræmi við þá alþjóðlegu stefnu að vernda börn og ungmenni almennt fyrir kynferðislegri misnotkun, hvar sem þau eru búsett í heiminum.
    Um skilgreiningu og skýringar á hugtakinu barnaklám (børnepornografi) vísast til kafla 1.2 hér að framan.

1.7 Sýningar o.fl. á opinberum vettvangi
    Samkvæmt e-lið 1. mgr. 204. gr. er lagt bann við því að halda fyrirlestur (þ.m.t. upplestur), efna til sýningar eða stilla upp klámefni á opinberum vettvangi. Um skýringu á því hvað telst vera „opinber vettvangur“ vísast til 2. mgr. 7. gr. norsku hegningarlaganna. Ákvæðið tekur m.a. til auglýsinga (svo sem á vegum leikhúsa, kvikmyndahúsa, sirkusa, nektardansstaða og „liveshow“-sýningarstaða), sjónvarpssendinga, skilta, plakata og útstillinga (svo sem í búðargluggum). 121 Að baki ákvæði sem þessu búa þeir hagsmunir að vernda almenning fyrir því að þurfa að þola að efni, sem stríðir gegn almennri velsæmiskennd, sé haft fyrir fólki án þess að það eigi um það nokkurt val.

1.8 Þátttaka barna og ungmenna í klámmyndum
    Ákvæði f-liðar 1. mgr. 204. gr. er nýmæli í lögunum. Með orðunum „kommersiell utnyttelse“ er átt við kynferðislega notkun (nýtingu) barns í hagnaðarskyni. 122 Í f-lið er annars vegar lagt bann við því að tæla einstaklinga yngri en 18 ára (t.d. með peningum eða öðrum fjárverðmætum) til að láta taka af sér myndir sem hafa kynferðislegt innihald (bilder med seksuelt innhold) í ágóðaskyni. Hins vegar er bannað að framleiða efni með kynferðislegu innihaldi í ágóðaskyni sem sýnir einstakling undir 18 ára aldri.
    Markmiðið með þessu lagaákvæði er annars vegar að veita 16 og 17 ára ungmennum, sem enn eru ólögráða, sérstaka vernd gegn misnotkun í tengslum við hinn umfangsmikla klámmyndaiðnað og hins vegar er verið að vernda þau fyrir þeim óæskilegu áhrifum sem það getur haft á allt líf þeirra að hafa setið fyrir á myndum sem hafa kynferðislegt innihald en flokkast þó ekki endilega undir klámmyndir (pornografi), svo sem nektarmyndum sem birtast í tímaritum. Orðrétt segir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2000: 123

              Departementet har vurdet hvilke kjønnslige skildringer som skal være omfattet. En mulighet er å begrense dette til deltakelse i pornografiske skildringer, jf. lovens legaldefinisjon av pornografi. Etter departementets mening bør forbudet ha et videre nedslagsfelt. Også deltakelse foran kamera ved mykpornografisk nakenfotografering bør omfattes fordi formålet bl.a. er å beskytte ungdom mot handlinger som de senere kan komme til å angre på. Det må være en målsetting med forbudet å forhindre at 16–17 åringer poserer som nakenmodeller i blader og videofilmer etc. selv om de handlinger de gjør med seg selv eller andre på bildene ikke vil omfattes av pornografidefinisjonen. Det kan ikke forventes at ungdom i denne alderen fullt ut innser hvilken belastning det kan være – rent umiddelbart og i fremtiden – å fremstå som modell i mer eller mindre pornografiske skildringer. Departementet mener det billedmaterialet det her snakkes om, best kan uttrykkes som «bilder med seksuelt innhold».

    Ungmennið sjálft getur ekki brotið gegn ákvæðinu með þátttöku sinni heldur sá sem fær það til þátttökunnar, t.d. ljósmyndari, leikstjóri og útgefandi svo einhverjir séu nefndir. Vonast er til að ákvæði af þessu tagi leiði til þess að þeir sem standa að framleiðslu klámefnis eða efnis með kynferðislegu innihaldi gangi úr skugga um aldur þeirra sem þeir fá til að sitja fyrir á myndum eða til að „leika“ í kvikmyndum, sérstaklega í ljósi þess að gáleysisbrot eru jafnframt refsiverð, sbr. 3. mgr. 204. gr. 124
    Bannið tekur einungis til töku á kyrr- eða hreyfimyndum sem er liður í framleiðslu á varningi sem ætlunin er að hagnast á (kommersiell produktion) en ekki til einkamyndatöku eða myndatöku sem líta verður á sem forsvaranlega, t.d. út frá listrænum eða vísindalegum sjónarmiðum. 125

1.9 Kvikmyndir
    Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1987 „om film og videogram“ er að finna svohljóðandi ákvæði:

              Statens filmtilsyn må ikke godkjenne for framsyning i næring bilete som tilsynet meiner krenkjer sømd eller strir mot straffelova § 382.

    Hafi Kvikmyndaeftirlit ríkisins (Statens filmtilsyn) skoðað kvikmynd og gefið leyfi til sýningar hennar eða verslunar með hana í atvinnuskyni er refsiábyrgð skv. 1. mgr. 204. gr. þar með útilokuð, sbr. 4. mgr. 204. gr. Það sama á við um myndbönd. 126

1.10 Hlutdeild
    Í 3. mgr. 211. gr. norsku hegningarlaganna, eins og hún hljóðaði áður en breytingalög nr. 76/2000 tóku gildi, var ákvæði þess efnis að við hlutdeild í brotum gegn 1. mgr. 211. gr. lægi sama refsing og endranær. Með breytingalögum nr. 76/2000 var ákvæði þessa efnis fellt niður úr lagagreininni sem fjallar um klám. Þess í stað var lögfest nýtt almennt hlutdeildarákvæði, 205. gr., sem tekur til allra brota í 19. kafla laganna.

2. Vændi
2.1 Almennt
    Gildandi ákvæði um vændi er að finna í 19. kafla norsku hegningarlaganna (Seksuallovbrudd), 202. gr., en var fyrir gildistöku breytingalaga nr. 76/2000 í 206. gr. Áður en tilvitnuð lög gengu í gildi var hugtakið „vændi“ (prostitusjon) hvergi að finna í norskri löggjöf. Þrátt fyrir það var hugtakið þekkt og notað í daglegu máli í merkingunni „sala á kynlífsþjónustu“. 127 Í 206. gr. norsku hegningarlaganna, sem fjallaði um hagnýtingu vændis áður en breytingalög nr. 76/2000 gengu í gildi, var talað um „utukt som erverv“ eða „ervervsmessig utukt“. Með lögum nr. 76/2000 voru þessi „gamaldags“ orðasambönd felld niður og hugtakið „prostitusjon“ tekið upp í lagatextann í staðinn. Ekki var látið þar við sitja heldur var hugtakið jafnframt skilgreint til að taka af allan vafa um merkingu þess, sbr. 3. mgr. 202. gr. Skilgreiningin er svohljóðandi:

              Med prostitusjon menes at en person har seksuell omgang eller handling med en annen mot vederlag.

    Eins og fram kemur í greinargerð er aðalmarkmiðið með skilgreiningunni „å få fram at det er tale om kjøp og salg av seksuelle tjensester“. 128
    Form endurgjaldsins skiptir ekki máli. Oftast er um peningagreiðslur að ræða, en endurgjaldið getur einnig verið í formi fíkniefna, áfengis eða annarra verðmæta.
    Skilgreiningin tekur til þeirra sem stunda vændi, hvort sem það eru karlmenn eða konur. Ekki skiptir heldur máli hvort viðskiptavinurinn er sama kyns og sá sem selur vændisþjónustuna eða af gagnstæðu kyni.

2.2 Stundan vændis
    Það er ekki refsivert að stunda vændi í Noregi, svo framarlega sem þeir sem það gera sýna ekki af sér hneykslanlega hegðun á almannafæri. Með slíkri háttsemi gætu þeir brotið gegn 201. gr. norsku hegningarlaganna (áður 378. gr.) sem hljóðar svo:

              § 201. Den som i ord eller handling utviser seksuelt krenkende eller annen uanstendig adferd
          a)      på offentlig sted,
          b)      i nærvær av eller overfor noen som ikke har samtykket til det, eller
          c)      i nærvær av eller overfor barn under 16 år,
    straffes med bøter eller med fængsel inntil 1 år.
    
    Í fræðiritum á sviði lögfræði kemur fram að ákvæðið sé „lite brukt“ 129 og að um sé að ræða því sem næst „en sovende paragraf“. 130
    Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 76/2000 kemur fram að í tengslum við endurskoðunina á 19. kafla norsku hegningarlaganna hafi sala á vændi verið til umræðu. Niðurstaðan varð sú að ekki væri ástæða til að hreyfa við gildandi löggjöf hvað það varðar. Stundan vændis yrði áfram refsilaus verknaður í norskri löggjöf. Rétt væri aftur á móti að styrkja þau ákvæði sem beint væri gegn milligöngumönnum/vændismiðlurum (á norsku: bakmenn). Í greinargerðinni segir orðrétt: 131

    Riktignok er prostitusjon et samfunnsmessig onde som må begrenses i størst mulig grad. Straffelovgivningen bør imidlertid rette seg mot dem som står bak og utnytter og profiterer på andres prostitusjon. De prostituerte er for det meste en svak gruppe som ikke bør trues med straff, men heller tilbys hjelp til å komme ut av en eventuell vanskelig livssituasjon som kan ha ført dem ut i prostitusjonen.

    Þá segir jafnframt að bann við vændi nú bryti í bága við ríkjandi réttarhefð í Noregi á þessu sviði og eins mælti samnorræn réttareining gegn slíkum hugmyndum þar sem stundan vændis væri refsilaus í meiri hluta hinna norrænu ríkja. 132

2.3 Viðurværi af þeim sem stundar vændi
    Árið 1963 var 3. mgr. bætt við 206. gr. norsku hegningarlaganna og var hún í gildi allt þar til breytingalög nr. 76/2000 gengu í gildi. Samkvæmt henni var refsivert að þiggja viðurværi sitt af vændiskonu. Ákvæðið hljóðaði svo:

              En mann som helt eller delvis lar seg underholde av en kvinne som driver utukt som erverv, straffes med fengsel inntil 2 år.

    Tilgangurinn með ákvæðinu var að styðja enn frekar bann laganna um milligöngu þar sem það hafði sýnt sig að oft var erfiðleikum bundið að sanna að karlmaður styddi eða hagnýtti sér vændi kvenmanns í orði eða verki. Hámarksrefsing fyrir brot gegn ákvæðinu var minni en fyrir brot gegn 1. eða 2. mgr. 206. gr., eða fangelsi í allt að 2 ár í stað fangelsis allt að 5 árum. Með breytingalögum nr. 76/2000 var ákvæðið fellt niður með þeim rökum að orðalag þess væri allt of rúmt þar sem það tæki til allra sem væru á framfæri vændiskonu, óháð því hvort viðkomandi hvetti hana til vændis á einhvern hátt eða ekki. Það gæti því hæglega leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. 133 Til enn frekari stuðnings afnámi ákvæðisins var vísað til þess að í Danmörku hefði nýlega verið afnumið ákvæði í refsilöggjöf sem hefði kveðið á um „passivt alfonseri“ með þeim rökum: „at så lenge ikke prostitusjon i seg selv er straffbart, bør det heller ikke være straffbart å leve sammen med eller la seg underholde av en prostituert, med mindre det er tale om utnyttelse.“ 134
    Í þessu samhengi er rétt að benda á 4. gr. laga „om Løsgjængeri, Betleri og Drukkenskab“, nr. 5/1900. Smávægilegar orðalagsbreytingar án efnisbreytinga voru gerðar á greininni með breytingalögum nr. 76/2000. Ákvæði 1. mgr. 4. gr. hljóðar nú svo:

              Den, som hengir sig til ørkesløshet eller driver omkring under saadanne forhold, at der er grund til at anta, at han helt eller delvis skaffer sig midlerne til sin livsførsel ved strafbare handlinger eller ved andres prostitusjon, straffes for løsgjængeri med fængsel indtil 3 maaneder.

    Þetta lagaákvæði er náskylt 202. gr., en hér er það skilyrði að sá sem hefur viðurværi sitt að hluta eða að öllu leyti af vændi annarra stundi ekki atvinnu heldur slæpist bara um (hengir sig til ørkesløshet eller driver omkring). Þannig er ekki hægt að beita ákvæðinu ef viðkomandi lifir nokkuð reglubundnu lífi og stundar vinnu af og til. Þá væri aftur á móti hægt að beita 202. gr., svo framarlega sem hægt væri að sanna að skilyrðin sem þar koma fram séu uppfyllt.

2.4 Hagnýting vændis
    Ákvæðum 202. gr. norsku hegningarlaganna er beint að svonefndum milligöngumönnum (bakmenn), þ.e. þeim sem standa að baki vændi annarra (hagnýta sér/notfæra sér vændi annarra) á einhvern máta, yfirleitt í auðgunartilgangi. Fyrir breytinguna sem gerð var á 19. kafla með breytingalögum nr. 76/2000 var samsvarandi ákvæði að finna í 206. gr. laganna.
    Gildandi ákvæði 202. gr. er svohljóðandi:

               § 202. Den som
       a)      forleder nogen til å drive med prostitusjon eller til å fortsette med det,
       b)      fremmer eller utnytter andres prostitusjon, eller
       c)      leier ut lokaler og forstår at lokalene skal brukes til prostitusjon eller utviser grov uaktsomhet i så måte,
    straffes med bøter eller fengsel inntil 5 år.
              Den som i offentlig kunngjøring utvetydig tilbyr, formidler eller etterspør prostitusjon, straffes med bøter eller med fengsel inntil 6 måneder.
              Med prostitusjon menes i denne bestemmelsen at en person har seksuell omgang eller handling med en annen mot vederlag.

    Markmiðið með ákvæðum 1. mgr. 202. gr. er að vernda þá sem leiðast út á braut vændis fyrir óprúttnum einstaklingum sem hafa það að markmiði að hagnast á því sjálfir. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2000 segir um milligöngumenn: 135

              Straffetrusler mot prostitusjonens bakmenn er, sammen med hjelpetiltak rettet mot de prostituerte, den beste måten å bekjempe uønsket prostitusjon på.

    a) Stundan vændis vegna þrýstings frá öðrum
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. er refsivert að tæla (lokka, ginna) aðra manneskju til þess að leggja stund á vændi eða halda áfram slíkri iðju.
    Með orðinu „forleder“ í þessu samhengi er átt við: „psykisk påvirkning til enten å innlede eller å fortsette prostitusjon“. 136 Sem dæmi um „ulike former for psykisk påvirkning“ má nefna „lokking eller luring“ 137 (sem á íslensku mætti þýða með að lokka eða ginna).
    Samkvæmt ákvæðinu ber að líta á þátt milligöngumannsins sem stuðning við þessa atvinnustarfsemi – í formi andlegs þrýstings. Hann beitir áhrifamætti sínum til þess að lokka annan mann til að leggja út á braut vændis eða hindra hann í því að hætta slíkri iðju. Hér er því mælt fyrir um refsingu fyrir það að beita annan mann þrýstingi í því skyni að fá hann til að stunda vændi, á meðan þeim er vændið stundar verður ekki refsað.

    b) Tilstuðlun eða hagnýting vændis annarra
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. er refsivert að stuðla að eða hagnýta sér vændi annarra. Um skýringar á orðunum „fremmer eller utnytter“ segir í greinargerð: 138

              Å fremme andres utukt innebærer å bidra til at utukten kan finne sted. Dette kan skje på mange måter, f. eks. ved mellommannsvirksomhet eller ved organisering av sex-klubber. … Utnyttelse forutsetter at gjerningsmannen selv oppnår en fordel av den prostituertes virksomhet. Grensen mellom de ulike alternativene er ikke klar.

    c) Útleiga húsnæðis
    Samkvæmt c-lið er refsivert að leigja út vistarverur til þess að hægt sé að stunda þar vændi. Skilyrði sakfellingar er að leigusali hafi unnið verknaðinn af ásetningi eða sýnt af sér stórfellt gáleysi.

    d) Auglýsingar
    Ákvæði sem m.a. bannaði auglýsingar á vændi var að finna í 378. gr. norsku hegningarlaganna allt fram til þess að breytingalög nr. 76/2000 gengu í gildi. Í greinargerð kemur fram að 378. gr. „er så å si ikke i bruk“. 139 Þá hefur ákvæðið ekki verið til umfjöllunar í Hæstarétti Noregs síðan árið 1955.
    Með lögum nr. 76/2000 var 378. gr. laganna felld úr gildi, en við 202. gr. var bætt nýrri málsgrein, 2. mgr., sem fjallar um þetta efni. Hún hljóðar svo:

              Den som i offentlig kunngjøring utvetydig tilbyr, formidler eller etterspør prostitusjon, straffes med bøter eller med fengsel inntil 6 måneder.

    Samkvæmt ákvæðinu er refsivert að auglýsa vændi opinberlega. Fram kemur í greinargerð að ákvæðið beri að skýra svo að það taki til auglýsinga sem ganga langt, þ.e. eru til þess fallnar að hneyksla þá sem þær sjá, heyra eða lesa. Þetta bann tekur jafnt til auglýsinga frá milligöngumönnum og þeim sem stunda vændi. Þá má einnig refsa þeim sem prenta þess háttar auglýsingar eða dreifa þeim. Ákvæðið heimilar jafnframt að þeim sé refsað sem auglýsir eftir vændisþjónustu. Um nánari skýringu á ákvæðinu segir í greinargerð: 140

              Departementet er videre enig med utvalget i at bare den utvetydige formidling bør rammes. En slik begrensing kan lette håndhevingen av bestemmelsen. I den grad beskyttelsen av det offentlige rom begrunner forbudet, bør bare den klare formidling rammes, idet det er først og fremst den som virker støtende på ufrivillige lesere, lyttere eller seere.

    Um skýringu á orðinu „offentlig“ vísast til 2. mgr. 7. gr. norsku hegningarlaganna.

    e) Hlutdeild
    Um hlutdeild í brotum gegn 202. gr. vísast til 205. gr. norsku hegningarlaganna.

2.5 Kaup á vændi
    Fram til þess að breytingalög nr. 76/2000 gengu í gildi var það refsilaust í Noregi að kaupa vændisþjónustu. Aftur á móti gátu viðskiptavinirnir brotið gegn öðrum ákvæðum 19. kafla norsku hegningarlaganna ef því var að skipta, t.d. 195. eða 196. gr., ef þeir keyptu kynlífsþjónustu af einstaklingum sem voru yngri en 16 ára eða beittu ofbeldi, nauðung eða álíka.

    a) Almennt bann
    Við undirbúning frumvarps þess er síðar varð samþykkt sem lög nr. 76/2000 var það eitt af viðfangsefnunum að vega og meta hvort rétt væri að leggja refsingu við þeirri háttsemi að kaupa vændisþjónustu. Niðurstaðan varð að ekki væri rétt að setja ákvæði í refsilöggjöfina sem legði almennt bann við kaupum á þjónustu af þessu tagi. Rökin voru m.a. að þrátt fyrir að slíkt refsiákvæði gæti hugsanlega dregið úr framboði á vændi gætu risið af slíku banni ýmis önnur vandamál, svo sem að starfsemi í kringum vændi yrði enn duldari með þeim afleiðingum að mun erfiðara yrði hafa uppi á þeim sem stunduðu vændi, m.a. í þeim tilgangi að veita þeim aðstoð til að koma undir sig fótunum með öðrum hætti. Þá gæti slíkt bann orðið til þess að styrkja stöðu milligöngumanna og auka áhrif þeirra. Þá gæti það enn fremur leitt til þess að þeir sem stunduðu vændi yrðu tregari en ella til að kæra ofbeldi sem þeir yrðu fyrir af hálfu viðskiptavina. Að síðustu gæti slíkt bann valdið því að þeir sem stunduðu vændi og væru háðir fíkniefnum leiddust út í afbrot til að afla fjár til að standa undir neyslunni. 141 Niðurstaðan varð sú að leggja ekki refsingu við kaupum á vændi almennt að svo stöddu. Jafnframt var ákveðið að taka þetta til endurskoðunar og endurmats að tveimur árum liðnum.

    b) Bann við kaupum á vændi barna og ungmenna
    Í breytingalögum nr. 76/2000 er að finna nýmæli sem leggur á fortakslaust bann við kaupum á vændisþjónustu einstaklinga sem ekki hafa náð 18 ára aldri. Ákvæðið er að finna í 203. gr. norsku hegningarlaganna og hljóðar svo:

              § 203. Den som mot vederlag har seksuell omgang eller handling med en person under 18 år, straffes med bøter eller med fengsel inntil 2 år.

    Rökin fyrir ákvæði af þessu tagi eru fyrst og fremst þau að rík þörf sé á að vernda svo ungt fólk fyrir kynferðislegri misnotkun. Líta beri á það sem mun alvarlegri verknað að kaupa kynlífsþjónustu af svo ungu fólki en þegar um fullorðna einstaklinga er að ræða. Þá er slíkt ákvæði í samræmi við þá stefnu sem tekin hefur verið á alþjóðlegum vettvangi sem er að vernda einstaklinga undir 18 ára aldri fyrir kynferðislegri misnotkun. 142 Aldur þess sem kaupir þjónustuna hefur ekki áhrif á refsinæmi verknaðar, svo framarlega sem viðkomandi hefur náð sakhæfisaldri.
    Ákvæðið hefur aðeins raunhæfa þýðingu gagnvart 16 og 17 ára ungmennum þar sem hegningarlögin hafa að geyma ákvæði sem leggja bann við því að stunda kynlíf með ungmennum yngri en 16 ára, sbr. 195. og 196. gr.
    Refsing við verknaði þessum varðar sektum eða fangelsi í allt að 2 ár. Hafi viðskiptavinurinn sýnt af sér gáleysi varðandi aldur seljandans má jafnframt refsa honum. Tilraun er refsiverð, sbr. 49. gr. norsku hegningarlaganna, sem og hlutdeild, sbr. 205. gr. sömu laga.
    Með breytingalögum nr. 76/2000 hefur gildissvið norsku hegningarlaganna verið rýmkað á þann veg að þau taka einnig til brota sem lýst er í 203. gr. sem norskir þegnar fremja utan heimalandsins, óháð því hvort háttsemin er refsiverð samkvæmt lögum viðkomandi lands eða ekki, sbr. a-lið 3. mgr. 12. gr. norsku laganna. Breytingin er gerð í samræmi við þá alþjóðlegu stefnu að vernda börn og ungmenni almennt fyrir kynferðislegri misnotkun, hvar sem þau eru búsett í heiminum.

IV. SVÍÞJÓÐ 143



1. Klám
1.1 Almennt

    Klám er að mestu leyti löglegt í Svíþjóð. Þó er að finna í sænskri hegningarlöggjöf ákvæði þar sem lagt er bann við ákveðnum tegundum kláms, þ.e. barnaklámi og klámefni sem inniheldur ofbeldi og þvingun. Einnig er að finna reglur er setja meðferð á löglegu klámefni skorður. Þessi ákvæði er að finna í 16. kafla sænsku hegningarlaganna, Brottsbalk frá 21. desember 1962, með síðari breytingum, sem heitir Om brott mot allmän ordning, 10. gr. a, 10. gr. b, 10. gr. c, 11. gr. og 12. gr. Þá er í 6. kafla laganna (Om sexualbrott) að finna ákvæði þar sem lagt er bann við þátttöku barna og ungmenna í klámmyndum, sbr. 7. gr.

1.2 Barnaklám
    a) Verknaðarlýsing
    Í 16. kafla sænsku hegningarlaganna, 10. gr. a., er að finna ákvæði um barnaklám. Það hljóðar svo:

              10 a § Den som
          1.      skildrar barn i pornografisk bild,
          2.      sprider, överlåter, upplåter, förevisar eller på annat sätt gör en sådan bild av barn tillgänglig för någon annan,
          3.      förvärvar eller bjuder ut en sådan bild av barn,
          4.      förmedlar kontakter mellan köpare och säljare av sådana bilder av barn eller vidtar någon annan liknande åtgärd som syftar till at främja handel med sådana bilder, eller
          5.      innehar en sådan bild av barn,
    döms för barnpornografibrott till fängelse i högst två eller, om brottet är ringa, till böter eller fängelse i högst sex månader.
              Med barn avses en person vars pubertetsutveckling inter är fullbordad eller som, när det fremgår av bilden och omständigheterna kring den, är under 18 år.
              Den som i yrkesmässig verksamhet eller annars i förvärvssyfte av oaktsamhet sprider en sådan bild som avses i första stycket, döms som sägs där.
              Är brott som avses i första stycket att anse som grovt skall dömas för grovt barnpornografibrott till fängelse lägst sex månader och högst fyra år. Vid bedömande av om brottet är grovt skall särskilt beaktas om det har begåtts yrkesmässigt eller i vinstsyfte, utgjort ett led i brottslig verksamhet som utövats systematiskt eller i större omfattning, avsett en särskilt stor mängd bilder eller avsett bilder där barn utsätts för särskilt hänsynslös behandling.
              Förbuden mot skildring och innehav gäller inte den som tecknar, målar eller på något annat liknande hantverksmässigt sätt framställer en sådan bild som avses i första stycket, om bilden inter är avsedd att spridas, överlåtas, upplåtas, förevisas eller på annat sätt göras tillgänglig för andra. Även i andra fall skall en gärning inte utgöra brott, om gärningen med hänsyn till omständigheterna är försvarlig. Lag (1998:1444).

    Þeir verknaðir sem lýst er í 1.–5. tölul. 1. mgr. kallast á sænsku barnepornogafibrott, sbr. lok málsgreinarinnar. Þessir verknaðir eru bundnir við klámefni sem sýnir börn en eru annars löglegir þegar um annars konar klámmyndir er að ræða. Skv. 1. tölul. má klámmynd ekki sýna barn. Skv. 2. tölul. er bannað að dreifa, afhenda, lána, leigja eða sýna öðrum barnaklámmyndir eða á annan hátt hafa þær aðgengilegar öðrum. Skv. 3. tölul. eru kaup og sala slíkra mynda bönnuð. Skv. 4. tölul. er bannað að hafa milligöngu um kaup og sölu slíkra mynda eða aðhafast nokkuð sem stuðlar að því að slík viðskipti eigi sér stað. Þá er í 5. tölul. lagt bann við vörslu slíkra mynda. Þá kemur fram í 5. mgr. að sé verknaður forsvaranlegur miðað við aðstæður sé hann ekki refsiverður.
    Í 5. mgr. er sérstaklega tekið fram að refsing við því að sýna barn í klámmynd eða að hafa í vörslum sínum klámmynd sem sýnir barn taki ekki til þeirra sem teikna, mála eða á annan sambærilegan hátt búa til slíkar myndir, svo framarlega sem ekki er ætlunin að dreifa þeim, láta þær af hendi, sýna þær öðrum eða hafa þær aðgengilegar öðru fólki. Þá er heldur ekki refsivert að hafa slíkar myndir undir höndum ef hægt er að sýna fram á að handhöfn þeirra sé forsvaranleg miðað við aðstæður. Sem dæmi má nefna ef handhöfn mynda af þessu tagi er liður í rannsóknum á þessu sviði eða verið er að vinna að fréttatengdu efni um þessi mál.

     b) Hugtakið „klám“
    Í skýrslu frá árinu 1993, sem unnin var á vegum sænska dómsmálaráðuneytisins, kemur fram hvaða viðmiðun beri að nota þegar metið er hvort mynd telst vera klámmynd. 144

              Allmänt kan sägas att en bild är pornografisk, om den på ett ohöljt och utmanande sätt återger ett sexuellt motiv i syfte att påverka betraktaren sexuellt. Bilden är således inte pornografisk, om den har ett vetenskapligt, undervisande eller påtagligt konstnärligt ändamål.

    Í þessari skilgreiningu er lögð áhersla á þann tilgang myndar að höfða til kynferðishvata áhorfandans.

     c) Hugtakið „barn“
    Hugtakið „barn“ er skilgreint í 2. mgr. 10. gr. a. Þar kemur fram að átt sé við einstakling sem ekki hefur náð fullum kynþroska eða einstakling sem virðist eftir myndinni og öllum aðstæðum að dæma vera yngri en 18 ára.

     d) Viðurlög, tilraun og hlutdeild
    Brot gegn 1. mgr. 10. gr. a getur varðað fangelsi í allt að tvö ár. Ef brot er minni háttar má dæma í sektir eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Þá kemur fram í 4. mgr. sömu greinar að sé brot stórfellt varði það fangelsi ekki skemur en 6 mánuði og allt að 4 árum. Þá eru nokkrar leiðbeiningar gefnar í 4. mgr. sem hafa skal í huga við mat á því, hvort brot gegn ákvæðum 1. mgr. telst vera stórfellt. Sem dæmi er nefnt hvort verknaður hafi verið unninn í atvinnu- eða hagnaðarskyni, hvort brot sé liður í skipulagðri starfsemi, hvort um mikinn fjölda mynda hafi verið að ræða eða hvort myndirnar hafi sýnt ófyrirleitna meðferð á börnum. Skv. 3. mgr. 10. gr. a nægir gáleysi til refsiábyrgðar fyrir sum brotin.
    Tilraun til barnaklámsbrota er refsiverð skv. 16. kafla, 17. gr., sbr. 23. kafla. Í 17. gr. segir:

              17 § För förberedelse eller stämpling till eller underlåtenhet att avslöja myteri döms till ansvar enligt vad som sägs i 23 kap. Detsamma skall gälla försök eller förberedelse till grovt dobbleri, försök til sådant barnpornografibrott som avses i 10 a § första stycket, om det inte är ringa, och försök eller förberedelse till grovt barnpornografibrott. Lag (1998: 1444).

    Þá er kveðið á um hlutdeild í 23. kafla sænsku hegningarlaganna, sbr. 4. gr.

    e) Brot framin utan Svíþjóðar
    Til þess að sænsk yfirvöld geti höfðað mál á hendur sænskum ríkisborgurum fyrir barnaklámsbrot sem þeir hafa framið utan Svíþjóðar er það skilyrði að verknaðurinn sé refsiverður í landinu þar sem brotið er framið, sbr. 2. kafla sænsku hegningarlaganna, 2. gr.

    f) Smygl
    Í lögum nr. 1443 frá árinu 1998, Om förbud mot införsel och utförsel av barnpornografi, sbr. lög nr. 418/1960, Om straff för varesmuggling, er kveðið á um smygl á barnaklámi til eða frá Svíþjóð. Lögin eru ein grein og hljóðar hún svo:

              En skildring av barn i pornografisk bild får inte föras in i eller ut ur Sverige.
              Bestämmelser om straff för olovlig införsel m.m. finns i lagen (1960:418) om straf för varusmuggling.

    Refsimörkin fyrir smygl eru sektir eða fangelsi í allt að tvö ár, sbr. 1. gr. laga nr. 418/1960. Sé brot minni háttar skal dæma sektir, sbr. 2. gr. sömu laga, en fyrir stórfellt brot er lögbundin lágmarksrefsing fangelsi ekki skemur en í 6 mánuði og hámarksrefsing er fangelsi allt að 6 árum, sbr. 3. gr. sömu laga.

     g) Eignaupptaka
    Í lögum nr. 1478 frá árinu 1994, Lag om förverkande av barnpornografi, er kveðið á um upptöku á efni með barnaklámi. Lögin eru aðeins ein grein og hljóðar hún svo:

              En skildring av barn i pornografisk bild skall förklaras förverkad.
              Förverkande får underlåtas om förverkandet är oskäligt.
              Första stycket tillämpas inte, om en skildring kan förverkas enligt bestämmelser i brottsbalken eller i lagen (1960:418) om straff för varusmuggling. Lag (1998:1445).

    Samkvæmt lögunum skulu myndir með barnaklámi sæta skilyrðislausri upptöku, svo framarlega sem upptaka er ekki talin vera ósanngjörn miðað við aðstæður. Þetta þýðir að slíkt efni ber ávallt að gera upptækt og þurfa þau skilyrði sem sett eru endranær í refsilöggjöfinni fyrir upptöku eigna í tengslum við brot ekki að vera fyrir hendi. Sem dæmi má nefna mann sem tekur myndbandstæki á leigu og rekst á myndband með barnaklámi sem gleymst hefur í tækinu. Hann kemur því í hendur lögreglunnar sem sér ekki ástæðu til að hefja opinbera rannsókn. Þrátt fyrir það hefur hún heimild til upptöku efnisins. Ekki ber aftur á móti að beita upptöku samkvæmt þessum lögum ef upptökuheimild hegningarlaganna eða laga um smygl eiga við um aðstæður.

1.3 Klámmyndir er sýna ofbeldi og kúgun
    Í 16. kafla, 10. gr. b, sænsku hegningarlaganna er að finna ákvæði sem leggur refsingu við því að dreifa eða hafa ásetning um að dreifa myndum sem sýna kynferðislegt ofbeldi eða kúgun gagnvart mönnum eða dýrum, svo framarlega sem verknaðurinn telst ekki forsvaranlegur miðað við aðstæður. Það hljóðar svo:

              10 b § Den som i bild skildrar sexuellt våld eller tvång med uppsåt at bilden eller bilderna sprids eller som sprider en sådan skildring, döms, om inte gärningen med hänsyn till omständigheterna är forsvarlig, för olaga våldsskildring till böter eller fängelse i högst två år. Detsamma gäller den som i rörliga bilder närgånget eller utdraget skildrar grovt våld mot människor eller djur med uppsåt att bilderna sprids eller som sprider en sådan skildring.
              Sprider någon av oaktsamhet en skildring som avses i första stycket och sker spridningen i yrkesmässig verksamhet eller eljest i förvärvssyfte, döms såsom i första stycket sägs.
              Första og och andra styckena gäller inte filmer eller videogram som Statens biografbyrå har godkänt för visning. De gäller inte heller en teknisk upptagning med rörliga bilder med samma innehåll som en film eller ett videogram som har godkänts av biografibyrån. Vidare gäller första och andra styckena inte offentliga förevisningar av filmer eller videogram.
              Har en teknisk upptagning med rörliga bilder försetts med ett intyg om att en film eller ett videogram med samma innehåll har godkänts av Statens biografbyrå, skall inte dömas till ansvar enligt första eller andra stycket för spridning av upptagningen. Detta gäller dock inte om intyget var oriktigt och den som har spritt upptagningen har insett eller bort inse detta. Lag (1998:1444).

    Refsing við broti gegn 1. mgr. getur varðað sektum eða fangelsi í allt að 2 ár. Þá er einnig refsing lögð við brotum sem framin eru af gáleysi í auðgunartilgangi, sbr. 2. mgr. Þá er í 3. og 4. mgr. m.a. nánar kveðið á um þau tilvik þegar myndir hafa hlotið leyfi Kvikmyndaeftirlits ríkisins til sýninga. Falla þær þá ekki undir 1. mgr.
    Bann laganna við klámmyndum af því tagi sem lýst er í 10. gr. b er mun þrengra en þegar um barnaklám er að ræða samkvæmt 10. gr. a. Verknaðarlýsing í 10. gr. a er mun víðtækari. Þar er lagt fortakslaust bann við myndum með barnaklámi, hvort sem þær eru til einkanota eða ætlaðar til dreifingar.

1.4 Þátttaka barna og ungmenna í klámmyndum
    Í 6. kafla 7. gr. sænsku hegningarlaganna er að finna ákvæði sem fjallar m.a. um kynferðislega áreitni gagnvart börnum og ungmennum. Hljóðar það svo:

               7 § Den som, i annat fall än som avses förut i detta kapitel, sexuellt berör barn under femton år eller förmår barnet att företa eller medverka i någon handling med sexuell innebörd, döms för sexuellt ofredande till böter eller fängelse i högst två år.
              För sexuellt ofredande döms även den som genom tvång, förledande eller annan otillbörlig påverkan förmår någon som har fyllt femton men inte arton år att företa eller medverka i en handling med sexuell innebörd, om handlingen är ett led i framställning av pornografisk bild eller utgör en posering i annat fall än när det är fråga om framställning av en bild.
              Detsamma skall gälla, om någon blottar sig för annan på sätt som är ägnat att väcka anstöt eller eljest genom ord eller handling på ett uppenbart sedlighetssårande sätt uppträder anstötligt mot anna. Lag (1994:1499)

    Í 1. mgr. er lögð refsing við því að sýna börnum yngri en 15 ára kynferðislega áreitni eða fá þau til að taka þátt í verknaði sem er kynferðislegs eðlis (svo sem að sitja fyrir á nektarmyndum eða taka þátt í kynferðisathöfnum sem eru liður í framleiðslu á klámmyndum). Getur slíkt brot varðað sektum eða fangelsi í allt að 2 ár. Í 2. mgr. er mælt fyrir um kynferðislega misnotkun ungmenna á aldrinum 15–18 ára. Í því sambandi er rétt að taka fram að í sænskri löggjöf er byggt á því að ungmenni sem hafa náð 15 ára aldri séu fær um að taka sjálf ákvarðanir er varða kynlíf sitt, sbr. 6. kafla, síðari málslið 1. mgr. 4. gr. Engu að síður er talið rétt að vernda ungmenni á aldrinum 15–18 ára gegn misnotkun í tengslum við framleiðslu barnakláms. Ungmenni eru oft áhrifagjörn og geta þannig látið tilleiðast til að taka þátt í gerð barnakláms án þess að gera sér nokkra grein fyrir neikvæðum afleiðingum ákvörðunar sinnar þegar til lengri tíma er litið. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. hefur þannig þýðingu í baráttu yfirvalda gegn framleiðslu á barnaklámi. 145 Brot gegn 2. mgr. varðar sektum eða fangelsi í allt að 2 ár. Í 3. mgr. er loks að finna almennt blygðunarsemisákvæði, sem tekur ekki sérstaklega til barna.

1.5 Takmarkanir á meðferð löglegs klámefnis
    Þrátt fyrir að klám sé löglegt í Svíþjóð, að barnaklámi og klámi er inniheldur ofbeldi og kúgun undanskildu, eru því settar skorður af hálfu hins opinbera hversu áberandi (sýnilegt) það má vera. Löggjafinn hefur þannig sett reglur um meðferð kláms t.d. á almannafæri í þeim tilgangi að vernda almennt velsæmi. Þessar reglur er að finna í 16. kafla, 11. gr., sænsku hegningarlaganna. Ákvæði 12. gr. í 16. kafla er af sama meiði, en gerð verður grein fyrir því í kafla 1.6 hér á eftir.
    Í fyrri málslið 11. gr. er ákvæði sem bannar að klámmyndir, sem eru til þess fallnar að vekja hneykslan fólks, séu hafðar til sýnis á almannafæri, svo sem á auglýsingaskiltum eða plakötum. Lagagreinin hljóðar svo:

               11 § Den som på eller vid allmän plats genom skyltning eller annat liknande förfarande förevisar pornografisk bild på sätt som är ägnat att väcka allmän anstöt dömes för otillåtet förfarande med pornografisk bild till böter eller fängelse i högst sex månader. Det samma gäller den som med posten sänder eller på annat sätt tillställer någon pornografisk bild utan föregående beställning. Lag (1970:225).

    Þá er í 10. gr. Allmänna ordningsstadga, nr. 617 frá árinu 1956, með síðari breytingum, að finna bann við því að hafa klám til sýnis á opinberum vettvangi. Þar segir:

              10 § Offentlig tillställning som utgör pornografisk föreställning får inte anordnas.

    Viðurlög við broti gegn þessu banni getur varðað viðkomandi sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði, sbr. 29. gr.
    Þá er í síðari málslið 11. gr. lagt bann við því með sömu rökum að dreifa klámmyndum í pósti nema viðkomandi hafi sérstaklega beðið um það.

1.6 Afhending klámefnis til barna og ungmenna
    Í 16. kafla sænsku hegningarlaganna, 12. gr., er svohljóðandi ákvæði:

              12 § Den som bland barn eller ungdom sprider en skrift, bild eller teknisk upptagning som genom sitt innehåll kan verka förråande eller eljest medföra allvarlig fara för de ungas sedliga fostran, döms för förledande av ungdom till böter eller fängelse i högst sex månader. Lag (1998:1444).

    Samkvæmt ákvæðinu er bannað að dreifa á meðal barna og ungmenna ritmáli, myndum eða upptökum sem innihalda efni sem er til þess fallið að hafa skaðleg áhrif á siðferðisvitund þeirra. Refsing við broti þessu eru sektir eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Ákvæðinu er fyrst og fremst beint að þeim sem standa fyrir skipulegri dreifingu á efni af þessu tagi til barna og ungmenna, t.d. þegar það er gert í grennd við skóla, félagsmiðstöðvar eða aðra staði þar sem börn og ungmenni safnast saman.

1.7 Netið
    Ákvæði sænsku hegningarlaganna sem banna barnaklám og klám er inniheldur ofbeldi eða kúgun gegn mönnum eða dýrum taka einnig til dreifingar þess á netinu. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á lögum nr. 112 frá árinu 1998, Om ansvar för elektroniska anslagstavlor. Lögin fjalla um rekstur svonefndra „netþjóna“ þar sem menn geta m.a. sett upp eða vistað heimasíður sem eru aðgengilegar hverjum þeim sem tengdur er við netið. Í 5. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu þess er rekur netþjóninn til þess að eyða eða stöðva frekari útbreiðslu efnis af ákveðnu tagi, þ.m.t. barnakláms. Brot gegn ákvæði þessu getur varðað sektum eða fangelsi í allt að 6 ár.

1.8 Kvikmyndir
    Í Svíþjóð starfar kvikmyndaeftirlit á vegum hins opinbera sem sinnir eftirliti bæði með kvikmyndum ætluðum börnum og fullorðnum. Samkvæmt lögum nr. 886/1990, Om granskning och kontroll av filmer och videogram (granskningslagen), skulu allar kvikmyndir og myndbönd sem ætluð eru til opinberra sýninga hljóta samþykki frá Kvikmyndaeftirlitinu (biografbyrå). Ef mynd, eða hluti af henni, telst vera skaðleg á einhvern hátt, svo sem vegna þess að hún inniheldur kynferðislegt ofbeldi eða nauðung eða sýnir barn á klámfenginn hátt, er sýning hennar ekki leyfð. Refsing við því að sýna opinberlega, af ásetningi eða gáleysi, mynd, sem hefur ekki hlotið tilskilið leyfi kvikmyndaeftirlitsins, er sektir eða fangelsi í allt að 6 mánuði, sbr. 19. gr. laga nr. nefndra laga.

1.9 Sjónvarp
    Sjónvarpssendingar eru í ákveðnum tilvikum háðar opinberu leyfi. Ýmis skilyrði eru sett í slík leyfi, m.a. að forsvarsmenn sýni sérstaka aðgát við val á efni og útsendingartímum, sbr. 3. kafla, 9. tölul. 2. gr., laga nr. 884/1996, um hljóðvarp. Þannig ber að sýna sérstaka aðgát þegar sýnt er efni sem inniheldur ofbeldi eða er kynferðislegs eðlis.
    Þá er jafnframt að finna í nefndum lögum ákvæði er býður öllum þeim sem senda út sjónvarpsefni sem inniheldur klám að gera það á þeim tímum sólarhrings sem ólíklegt er að börn séu að horfa, sbr. 6. kafla 2. gr. nefndra laga. Þá ber að vara fólk við áður en slíkar útsendingar hefjast.

2. Vændi
2.1 Almennt
    Ekki er refsivert að stunda vændi í Svíþjóð. Aftur á móti er að finna ákvæði í sænsku hegningarlögunum sem m.a. leggur bann við því að hafa í frammi hneykslanlega hegðun á almannafæri. Þetta ákvæði setur einkum þeim sem stunda götuvændi takmörk varðandi það á hvaða hátt þeir geta vakið athygli á þjónustu sinni. Þá er að finna í sænskri refsilöggjöf ákvæði er hafa það að markmiði að stemma stigu við vændi. Þannig er refsivert að hagnýta sér vændi annarra (koppleri) og kaupa vændisþjónustu.

2.2 Stundan vændis
    Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um það í Svíþjóð hvort rétt væri að leggja refsingu við því að stunda vændi með þeim rökum að það kynni að draga úr því. Gegn því hefur aftur á móti m.a. verið bent á neikvæðar afleiðingar þess fyrir þá sem stunda vændi, auk þess sem sönnunarerfiðleikar séu miklir. 146 Niðurstaðan hefur ávallt orðið sú að að leggja ekki refsingu við vændi.

2.3 Hagnýting vændis
    Um hagnýtingu vændis (koppleri) er fjallað í 6. kafla, 8. gr., sænsku hegningarlaganna. Í Norstedts Juridiska Ordbog er hugtakið „koppleri“ skilgreint á eftirfarandi hátt:

               Koppleri är ett sexual brott sem består i att främja eller på otillbörligt sätt utnyttja att annan har tillfälliga sexuella förbindelser mot ersättning.

    Orðið er þýtt sem „vændismiðlun“ í sænsk – íslenskri orðabók.
    Tilvitnuð lagagrein hljóðar svo:

               8 § Den som främjar eller på ett otillbörligt sätt ekonomiskt utnyttjar att annan har tillfälliga sexuella förbindelser mot ersättning, döms för koppleri till fängelse i högst fyra år.
              Om en person som med nyttjanderätt har upplåtit en lägenhet får veta att lägenheten helt eller till väsentlig del används för tillfälliga sexuella förbindelser mot ersättning och inte gör vad som skäligen kan begäras för att få upplåtelsen att upphöra, skall han eller hon, om verksamheten fortsätter eller återupptas i lägenheten, anses ha främjat verksamheten och dömas till ansvar enligt första stycket. Lag (1998:393).

    Samkvæmt 1. mgr. ber að refsa þeim fyrir milligöngu sem í ávinningsskyni stuðla að eða á ósæmandi hátt hagnýta sér vændi annarra. Þá ber 2. mgr. einnig að refsa þeim fyrir milligöngu sem lána (leigja) húsnæði vitandi að þar er stundað vændi eða gera ekki ráðstafanir til að segja upp leigunni (láninu), heldur láta starfsemina viðgangast í húsakynnum sínum. Refsing fyrir milligöngu er sektir eða fangelsi í allt 4 ár.
    Í 6. kafla sænsku hegningarlaganna, 9. gr., er fjallað um stórfellda vændismiðlun eða hagnýtingu (grovt koppleri). Við því broti liggur þyngri refsing en fyrir brot gegn 8. gr. eða fangelsi ekki skemur en tvö ár og allt að sex árum. Lagagreinin hljóðar svo:

               9 § Är brott som avses i 8 § grovt, skall dömas för grovt koppleri till fängelse, lägst två och högst sex år.
              Vid bedömande av om brottet är grovt skall särskilt beaktas, om den som har begått gärningen främjat tillfälliga sexuella förbindelser mot ersättning i större omfattning eller hänsynslöst utnyttjat annan. Lag (1984:399).

    Samkvæmt 2. mgr. skal sérstaklega, við mat á því hvort brot vændismiðlarans eða milligöngumannsins telst vera stórfellt, líta til umfangs þeirrar vændisstarfsemi sem hann hefur stuðlað að og eins til þess hvort hann hefur notfært sér þann sem vændið stundar á ófyrirleitinn hátt. Sem dæmi má nefna ef vændismiðlari nýtir sér vímuefnafíkn annars einstaklings, misþyrmir honum eða hótar honum ofbeldi o.s.frv., allt í því skyni að fá hann til að stunda vændi eða haldi slíkri iðju áfram.
    Samkvæmt 6. kafla 12. gr. sænsku hegningarlaganna er tilraun til vændismiðlunar og stórfelldrar vændismiðlunar refsiverð, ásamt því að undirbúa eða sammælast um slíkan verknað. Vísast nánar til 23. kafla laganna í þessu sambandi.

2.4 Kaup á vændi
    a) Kaup á vændi barna og ungmenna
    Allt frá árinu 1965 hefur það verið refsivert í Svíþjóð að kaupa vændisþjónustu af börnum eða ungmennum yngri en 18 ára. Gildandi ákvæði er að finna í 6. kafla sænsku hegningarlaganna, 10. gr., og hljóðar það svo:

               10 § Den som genom att utlova eller ge ersättning skaffar eller söker skaffa sig tillfälligt sexuellt umgänge med någon som är under arton år, döms för förförelse av ungdom till böter eller fängelse i högst sex månader. Lag (1984:399).

    Samkvæmt ákvæðinu varðar það þann sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði sem gegn greiðslu eða loforði um greiðslu verður sér úti um eða reynir að verða sér úti um vændisþjónustu einstaklings sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Slíkt brot nefnist á sænsku forförelse af ungdom. Ef seljandinn er yngri en 15 ára gerist kaupandinn jafnframt brotlegur við ákvæði 6. kafla, 2. málsl. 1. mgr. 4. gr., sænsku hegningarlaganna, sem bannar skilyrðislaust kynferðisathafnir með börnum yngri en 15 ára. Refsing við því broti er fangelsi í allt að 4 ár. Ef brotið er stórfellt getur refsing orðið fangelsi í allt að sex ár, en lágmarksrefsing er fangelsi í sex mánuði.
    Ákvæði 11. gr. í sama kafla er 10. gr. til frekari fyllingar. Það hljóðar svo:

              11 § Till ansvar som i detta kapitel är föreskrivet för en gärning som begås mot någon under en viss alder skall dömas även den som inte insåg men hade skälig anledning anta att den andra personen inte uppnått sådan alder. Lag (1998:393).

    Lagagreinin á við um öll kynferðisbrot skv. 6. kafla sænsku hegningarlaganna sem framin eru gegn börnum og ungmennum sem ekki hafa náð ákveðnum aldri. Samkvæmt þessu ákvæði getur sá sem kaupir vændisþjónustu af ungmenni ekki borið fyrir sig að honum hafi ekki verið kunnugt um aldur seljandans hafi honum mátt vera ljóst að viðkomandi hafði ekki náð 18 ára aldri.
    Í upplýsingum frá sænska dómsmálaráðuneytinu, dags. 7. janúar 1999, kemur fram að aðeins fá mál komi upp árlega vegna kaupa á vændisþjónustu ungmenna. Til að mynda voru einungis 12 einstaklingar dæmdir fyrir þess konar brot á árunum 1992–1997, þar af aðeins tveir á árunum 1995–1997. 147

     b) Kaup á vændi almennt
    Með lögum nr. 498/1998, lag om förbud mot köp av sexuella tjänster, er lögð refsing við kaupum á vændi í Svíþjóð. Lögin eru aðeins ein grein og hljóðar hún svo:

              Den som mot ersättning skaffar sig en tillfällig sexuell förbindelse, döms – om inte gärningen är belagd med straff enligt brottsbalken – för köp av sexuella tjänster till böter eller fängelse i högst sex månader.
              För försök döms till ansvar engligt 23 kap. brottsbalken.

    Brot á undir þessi lög að svo miklu leyti sem hegningarlögin eiga ekki við um háttsemina. Þá er tilraun refsiverð. Eitt einstakt tilvik nægir til refsiábyrgðar og taka lögin til allrar vændisþjónustu óháð því hvar hún býðst, svo sem á götum úti, á hótelum og gistiheimilum eða á svonefndum nuddstofum (massageinstitut). Með greiðslu er bæði átt við peninga og annars konar verðmæti, svo sem eiturlyf eða áfengi. Í þeim tilvikum sem sá er býður greiðslu fyrir kynlífsþjónustu er annar en sá sem greiðir fyrir hana gerast báðir brotlegir við lögin, svo framarlega sem loforðið um greiðslu var forsenda þess að þjónustan var veitt. Þá verður þeim sem vændið stundar ekki refsað samkvæmt þessum lögum fremur en endranær.

2.5 Bann við klámsýningum
    Í 2. kafla, 14. gr., ordningslagen, nr. 1617 frá árinu 1993, er eftirfarandi ákvæði:

              14 § Offentlig tillställning som utgör pornografisk föreställning får ikke anordnas.

    Samkvæmt þessu eru bannaðar klámfengnar sýningar sem almenningur hefur aðgang að. Markmiðið er að sporna gegn vændi. Bannið tekur til sýninga þar sem fólk er í kynferðislegum athöfnum eða hefur í frammi hegðun sem er blygðunarlaus og ögrandi. Brot gegn banni þessu varðar sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði, sbr. 29. gr. laganna.

2.6 „Bastuklúbbar“ og sambærileg starfsemi
    Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 375 frá árinu 1987, Om förbud mot s.k. bastuklubbar och andra liknande verksamheter, er eftirfarandi ákvæði að finna:

              Tillställning eller sammankomst till vilken allmänheten har tillträde får inte anordnas, om den med hänsyn till utforming, inredning eller beskaffenhet i övrigt av den lokal eller plats där den skall äga rum och den verksamhet som förekommer eller är avsedd att förekomma eller annan omständighet är särskilt ägnad att underlätta för besökare att ha sexuellt umgänge i lokalen eller på platsen med annan besökare.

    Lögin taka til staða sem eru reknir með það fyrir augum að fólk hittist þar til að stofna til kynferðislegra skyndikynna og að þar séu aðstæður til að þau geti farið fram. Viðskiptavinirnir greiða fyrir aðstöðu og aðra þjónustu, en greiðslur fara ekki fram á milli þeirra sjálfra. Lögin lýsa því ekki hefðbundinni vændisstarfsemi. Þau miða fyrst og fremst að því að stemma stigu við því að kynsjúkdómar breiðist út og er þannig ekki beinlínis beint gegn vændi sem slíku. Refsiábyrgð sæta þeir sem standa fyrir rekstri af þessu tagi og þeir sem leggja slíkum rekstri lið, svo sem með fjárhagslegum stuðningi. Refsing fyrir brot gegn þessu ákvæði er fangelsi í allt að 2 ár, sbr. 3. gr. laganna. Fyrir minni háttar brot má dæma sektir. Lög þessi eiga ekki við um vændishús (bordel) þar sem þau eiga einungis við þegar viðskiptavinirnir hafa kynferðisleg samskipti án þess að greiðslur fari á milli þeirra.

2.7 Húsaleigulög o.fl.
    Fasteignaeigendum er heimilt að segja upp leigjendum og búseturéttarhöfum þegar húsnæði er notað undir vændisstarfsemi, sbr. 12. kafla, 1. mgr. 9. tölul. 42. gr., Jordabalken, og 7. kafla, 8. tölul. 18. gr., bostadsrättslagen (nr. 614/1991).


V. FINNLAND



1. Klám
1.1 Almennt
    Allt fram til 1. janúar 1999 var ákvæði um dreifingu á klámi að finna í sérstökum lögum sem hétu Lag ang. undertryckande av osedliga publikationers spridning, nr. 23 frá árinu 1927, með síðari breytingum. Með lögum nr. 563/1998, sem lögleiddu ýmsar breytingar á finnsku hegningarlögunum, Strafflagen frá 19. desember 1889 (nr. 39/1889), og gengu í gildi 1. janúar 1999, voru ákvæði um klám og dreifingu þess tekin upp í 17. kafla hegningarlaganna, Om brott mot allmän ordning.

1.2 Dreifing á klámi
    Eins og áður var nefnt giltu í Finnlandi sérstök lög frá árinu 1927 um dreifingu kláms og voru þau í gildi þar til sambærileg ákvæði voru tekin upp í 17. kafla hegningarlaganna, sbr. lög nr. 563/1998. Samkvæmt lögum nr. 23/1927 var bannað að hafa á boðstólnum, selja eða dreifa með öðrum hætti klámefni. Lögin tóku til klámefnis sem birtist í formi „tryckalster, skrift, bildlig framställning eller annat alster“ (t.d. styttur, hljóðsnældur, kvikmyndir og myndbönd) eins og sagði í 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá var lagt bann við inn- og útflutningi klámefnis í þessum tilgangi. Samkvæmt lögunum var leyfilegt að hafa klámefni undir höndum til einkanota, ásamt því að flytja það til landsins eða úr landi ef ekki stóð til að dreifa því eða hafa það aðgengilegt almenningi.
    Árið 1957 var nýtt ákvæði tekið upp í lög nr. 23/1927 sem mælti fyrir um stofnun sérstakrar nefndar („övervakningsnämnd“) er skyldi m.a. hafa það hlutverk að fylgjast með útgáfu á klámefni og vera dómsmálaráðuneytinu til ráðgjafar um framkvæmd laganna og hugsanlegar breytingar á þeim.
    Orðið „pornografi“ kom ekki fyrir í lögunum frá 1927, heldur var notast við orðin: „som sårar tukt och anständighet“ og „osedlig“. Í daglegu tali var orðið „pornografi“ notað í sömu merkingu og þessi orð. Því var orðalagi laganna breytt í nútímalegra horf með breytingalögum nr. 563/1998 og orðið „pornografi“ tekið upp í lagatextann.
    Hugtakið klám hefur tekið miklum breytingum með árunum. Það sem álitið var klám í byrjun aldarinnar og um miðbik hennar þarf ekki að vera það nú. Inntak hugtaksins er því háð tíma og stað hverju sinni, auk þess sem það er háð viðhorfum hvers aldurshóps fyrir sig á hverjum tíma. Með þessum rökum hafa Finnar ekki talið forsendur fyrir því að taka upp í lagatexta skilgreiningu á hugtakinu.
    Rökin að baki ákvæðunum sem bönnuðu dreifingu kláms voru á sínum tíma þau ætluðu skaðlegu áhrif sem klám hefði á samfélagið. Áhrifin voru talin birtast í fjölgun kynferðisbrota og auknu kynferðislegu óeðli. Síðari tíma rannsóknir hafa aftur á móti ekki stutt þetta. Skorður við klámi nú á dögum byggjast á mismunandi uppeldislegum og menningarlegum sjónarmiðum. 148
    Markmiðið með endurskoðun á klámákvæðum laga nr. 23/1927 með breytingalögum nr. 563/1998 var að þrengja refsiákvæði sem lúta að dreifingu kláms. Haft var að leiðarljósi að almenningur gæti sjálfur ráðið því hvort hann yrði sér úti um klám til einkanota eða ekki, en rétt þótti að koma í veg fyrir að klám væri haft opinberlega til sýnis þannig að fólk hefði val um það hvort það kæmi fyrir augu þess eða ekki. 149 Þrenns konar klámefni (klámmyndum) er þó bannað með öllu að dreifa samkvæmt gildandi finnskri löggjöf, þ.e. barnaklámi, klámi sem felur í sér ofbeldi og klámi sem sýnir kynferðisathafnir með dýrum.
    Ákvæði er lýtur að dreifingu klámmynda er nú að finna í 17. kafla, 18. gr., finnsku hegningarlaganna. Það ber heitið Spridning av pornografisk bild og hljóðar svo:

               18 § Den som saluför eller till uthyrning bjuder ut eller sprider eller i detta syfte tillverkar eller i landet för in bilder eller bildupptagningar som på ett sedlighetssårande sätt visar barn, våld eller tidelag, skall för spridning av pornografisk bild dömas till böter eller fängelse i högst två år.
              Vad som bestäms i 17 § 2 mom. gäller också bilder och bildupptagningar som avses i denna paragraf.

    Samkvæmt 1. mgr. er bannað að bjóða til kaups eða leigu, dreifa eða í þessu skyni framleiða eða flytja til landsins myndir eða myndupptökur sem sýna börn á klámfenginn hátt, kynferðislegt ofbeldi eða kynferðislegar athafnir með dýrum. Slíkt brot nefnist spridning av pornografisk bild og varðar viðkomandi sektum eða fangelsi í allt að tvö ár. Þá fellur dreifing á myndum á netinu (över datanet) undir ákvæðið.
    Ákvæðið tekur til mynda og myndupptaka. Sú spurning getur vaknað hvers konar konar myndir eða myndupptökur falli hér undir. Ljósmyndir og eftirprentanir þeirra falla hér augljóslega undir og einnig hreyfanlegar myndir, svo sem kvikmyndir og myndbönd. Þar sem eitt aðalmarkmið lagaákvæðisins er að koma í veg fyrir að kynferðisbrot séu framin á börnum við gerð klámefnis þótti ekki nauðsynlegt að láta það taka til mynda sem eru málaðar, teiknaðar eða unnar á svipaðan hátt nema fyrirmyndin hafi verið barn eins og um ljósmynd hafi verið að ræða og að hún sýni það á kynferðislegan hátt. 150
    Þar sem oft er ógjörningur að staðhæfa aldur barns sem sýnt er á klámmynd, er miðað við „… att bilden kan konstateras föreställa en person som inte ännu har uppnått en fullvuxen människas sexuella mognadsnivå.“ Við matið er rétt að hafa til hliðsjónar 6. gr. 20. kafla, eins og henni var breytt með breytingalögum nr. 563/1998, sem leggur refsingu við því að hafa kynferðismök við barn sem ekki hefur náð 16 ára aldri. 151
    Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. 17. kafla, sbr. 2. mgr. 17. gr. í sama kafla, ber ekki að beita refsingu samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ef myndefni sem annars er ólögmætt er dreift í forsvaranlegum tilgangi, svo sem því er dreift í upplýsingaskyni eða það hefur listrænt gildi. Þá er heldur ekki heimilt að beita refsingu samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ef myndefni hefur verið skoðað af opinberum aðilum sem hafa það hlutverk að hafa eftirlit með sýningu og dreifingu á myndefni og þeir hafa gefið leyfi til sýningar/dreifingar þess, sbr. lag om filmgranskning, nr. 299/ 1965, með síðari breytingum, og lag om granskning av videoprogram och andra bildprogram, nr. 697/1987, með síðari breytingum.

1.3 Barnaklám
    Um dreifingu á barnaklámi gilda ákvæði 18. gr. 17. kafla sem lýst er í kaflanum hér á undan.
    Í 19. gr. 17. kafla finnsku hegningarlaganna, sbr. breytingalög nr. 563/1998, er að finna ákvæði er ber fyrirsögnina Innehav av barnpornografisk bild og lýtur sérstaklega að vörslum á barnaklámi. Það hljóðar svo:

              19 § Den som orättmätigt innehar ett fotografi, ett videoband, en film eller någon annan verklighetstrogen bildupptagning som visar ett barn som deltar i samlag eller i något därmed jämförbart sexuellt umgänge, eller som visar barn på något annat uppenbart sedlighetssårande sätt, skall för innehav av barnpornografisk bild dömas till böter eller fängelse i högst sex månader.

    Markmiðið með ákvæði af þessu tagi, sem ekki var að finna í lögum nr. 23/1927, um dreifingu á klámefni, er fyrst og fremst að vernda börn fyrir kynferðislegri misnotkun sem þau verða fyrir við gerð þess konar efnis. Önnur röksemd er sú viðleitni að vernda einstaklinga fyrir þeim álitshnekki sem myndir af þessu tagi gætu valdið þeim síðar á lífsleiðinni. Þá óttast menn að kynferðislega brenglaðir einstaklingar noti barnaklámmyndir til að ginna börn til samlags við fullorðna. 152
    Í lögunum er að finna útlistun á því hvað telst vera barnaklám. Um barnaklám er án nokkurs vafa að ræða þegar mynd sýnir „ett barn som deltar i samlag eller i något därmed jämförbart sexuellt umgänge“. Þá er það einnig barnaklám þegar mynd sýnir „barn på något annat uppenbart sedlighetssårande sätt“. Síðari skilgreiningin er óljósari og getur verið erfiðara að sanna að myndir sem ekki beinlínis sýna kynferðismök eða hegðun sem jafna má til kynferðismaka séu klámmyndir. Sem dæmi má nefna nektarmyndir af börnum. Þær geta legið á þessum mörkum. Þær geta hvort tveggja verið kynferðislegs eðlis eða talist eðlilegar með öllu, svo sem þegar foreldrar mynda börn sín. Fer það allt eftir aðstæðum og framsetningu hverju sinni. Um skilgreiningu á hugtakinu „samlag“ vísast til 1. mgr. 10. gr. 20. kafla, sbr. lög nr. 563/1998.
    Um hugtakið barn vísast til umfjöllunar í kafla 1.2 um dreifingu klámmynda.
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998 er því lýst til hvers konar mynda ákvæðið tekur. Fram kemur að meginmarkmiðið með ákvæðinu sé að vernda börn gegn kynferðislegri misnotkun. Í samræmi við þetta taki ákvæðið eingöngu til mynda sem byggjast á raunverulegum atburðum, jafnvel þótt ekki sé hægt að bera kennsl á þá einstaklinga sem á myndunum eru. Á sama hátt féllu undir ákvæðið myndir af raunverulegu fólki sem skeytt hefði verið saman úr mörgum myndum og þannig búnar til aðstæður sem ekki væru raunverulegar. Skilyrðið væri ekki að um ljósmynd væri að ræða og gæti teikning eða annars konar vinnsla myndar, sem fæli í sér nákvæma lýsingu á kynferðislegu samneyti sem hefði átt sér stað, fallið undir ákvæðið. Aftur á móti ættu myndir sem að öllu leyti væru tilbúnar, t.d. með tölvutækni, ekki undir ákvæðið. 153
    Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að varsla (handhöfn) myndanna sé ólögmæt (orättmätig). Varsla mynda af þessu tagi getur við ákveðnar kringumstæður verið réttlætanleg (lögmæt), svo sem í þeim tilvikum er lögreglan hefur þær undir höndum vegna rannsóknar máls, handhafar ákæruvalds vegna hugsanlegrar málshöfðunar eða dómarar sem hafa mál til meðferðar. Þá er hægt að hugsa sér að verið sé að nota þær í vísindaskyni eða til þess að vinna fréttaefni.
    Ásetningur er skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt ákvæðinu. Hafi efni með barnaklámi komist í vörslur einhvers sem ekki veit af því eða gerir sér enga grein fyrir því um hvers konar efni er að ræða verður honum ekki refsað.
    Brot gegn ákvæðinu varðar sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Af refsimörkunum má merkja að litið er á vörslur á barnaklámi sem vægara brot en dreifingu þess, þar sem refsihámarkið er fangelsi í 2 ár. Sá sem gerist sekur um dreifingu á barnaklámi hefur oftast líka haft efnið í vörslum sínum. Í þeim tilvikum er látið nægja að dæma fyrir alvarlegra brotið, þ.e. dreifingu barnakláms.“ 154

1.4 Markaðssetning á klámi sem söluvöru
    Í 20. gr. 17. kafla er að finna ákvæði sem ber heitið Sedlighetssårande marknadsföring. Greinin setur því takmörk hvaða aðferðum má beita við kynningu og markaðssetningu efnis sem er til þess fallið að særa blygðunarsemi almennings í því skyni að auðgast á því, svo sem með því að selja það, nota það í skiptum eða leigja það út. Greinin hljóðar svo:

               20 § Den som i förvärvssyfte
          1)      till en person som inter har fyllt 15 år överlåter,
          2)      offentligt ställer ut till allmänt påseende,
          3)      utan mottagarens samtycke tillställer någon, eller
          4)      på ett sätt som väcker allmän anstöt offentligt i annons, broschyr, affisch eller annan reklam bjuder ut till försäljning eller förevisar
    bilder, bildupptagningar eller föremål som är sedlighetssårende och därigenom ägnade att väcka allmän anstöt, skall för sedlighetssårande marknadsföring dömas till böter eller fängelse i högst sex månader.
              För sedlighetssårande marknadsföring döms också den som på ett sätt som avses i 1 mom. 4 punkten bjuder ut till försäljning eller förevisar upptagningar som innehåller text eller ljud som är sedlighetssårende och därigenom ägnade att väcka allmän anstöt.

    Ákvæði 20. gr. eru ekki bundin við ákveðnar tegundir kláms eins og 18. gr. gerir ráð fyrir, sem bannar eingöngu dreifingu á barnaklámi og klámi er inniheldur ofbeldi eða tengist dýrum, heldur taka þau til alls klámefnis sem er til þess fallið að særa blygðunarsemi fólks. Markmiðið með ákvæði af þessu tagi er að gera hverjum og einum þjóðfélagsþegni kleift að ráða því hvort klám verður á vegi hans eða ekki og að enginn þurfi að horfa upp á klám án þess að bera sig eftir því. 155
    Samkvæmt 1. mgr. er ákvæðið takmarkað við myndir, myndupptökur eða hluti (t.d. styttur) sem eru til þess fallnir að særa blygðunarsemi fólks og fólk getur ekki varist að sjá eða á erfitt með að verjast því. Þannig fellur ekki undir ákvæðið klámefni í ritmáli. Texti, sem birtist t.d. í bók eða tímariti, krefst beinnar þátttöku „þolandans“ , þ.e. „þolandinn“ þarf að hefja lestur og getur jafnframt hætt um leið og honum misbýður. Hljóðupptökur og upplestur geta fallið undir 1. mgr. 20. gr. eftir atvikum. 156

     a) Afhending klámefnis til barna
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. er bannað að afhenda börnum, sem ekki hafa náð 15 ára aldri, klámefni í auðgunarskyni. Með þessu móti er verið að vernda velsæmiskennd þessa viðkvæma aldurshóps, sem almennt hefur hvorki náð fullum kynþroska né mótað hugmyndir sínar um kynlíf og kynferðishegðun.

     b) Klám til sýnis á almannafæri
    Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. er bannað að hafa til sýnis á almannafæri myndir, myndupptökur eða hluti sem eru til þess fallnir að særa blygðunarsemi þegnanna. Með þessu móti er verið að vernda borgarana gegn því að þurfa að horfa upp á klám án þess að hafa borið sig eftir því. Þannig er bannað að hafa hluti af þessu tagi til sýnis á stöðum sem almenningur hefur frjálsan aðgang, svo sem í verslunum, á veitingastöðum, í almenningsfarartækjum, á flugvöllum, brautarstöðvum, í almenningsgörðum og úti um stræti og torg.

     c) Dreifing klámefnis án beiðni
    Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. er bannað að senda fólki klámefni án beiðni eða samþykkis þess. Markmiðið með þessu ákvæði er að koma í veg fyrir að fólki sé sent efni af þessu tagi í pósti án þess að það hafi beðið sérstaklega um það. Þá geta ýmsir einkaaðilar jafnframt staðið fyrir dreifingu á slíku efni inn á heimili fólks, t.d. búðir sem selja kynlífsvarning. Þá segir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998: 157

              Verbet „tillställer“ betyder här att en bild, en bildupptagning eller ett föremål sänds som sådan, inte t.ex. rundradio- eller kabeltelevisionssändning.

    Þá getur verið að klámmyndir séu sendar fólki óumbeðið með tölvupósti eða með faxi. Þeir sendingarmátar falla jafnframt undir ákvæðið. 158

     d) Auglýsingar
    Í 4. tölul. 1. mgr. er lagt bann við því að auglýsa klámframleiðslu á þann hátt að það særi blygðunarsemi fólks. Þannig gerist sá sem í hagnaðarskyni auglýsir klámmyndir, klámupptökur eða aðra klámfengna hluti á þann hátt að það vekur almenna hneykslan brotlegur gegn ákvæðinu. Auglýsingarnar geta hvort heldur sem er verið í formi mynda og/eða texta. Þannig geta auglýsingar, sem eingöngu eru í textaformi og birtast t.d. í dagblöðum og bjóða til sölu klámfengið efni, verið svo grófar, t.d. vegna þess að þær innihalda nákvæma lýsingu á efni klámmyndar, að þær falli undir þessa málsgrein. 159
    Samsvarandi ákvæði, sem tekur til auglýsinga, sem eru til þess fallnar að særa blygðunarsemi manna, á upptökum sem innihalda hneykslanlega texta eða annars konar hljóð, er að finna í 2. mgr. greinarinnar.

1.5 Eignaupptaka
    Í breytingalögum nr. 563/1998 er að finna nýmæli í 23. gr. 17. kafla, en hún ber fyrirsögnina Bestämmelser om påföljder. Lagagreinin fjallar um önnur refsikennd viðurlög tengd broti en eiginlega refsingu (refsivist eða fésektir). Í 3. mgr. greinarinnar er fjallað um heimild til eignaupptöku í tengslum við þau brot sem fjallað er um í 17. kafla. Þar segir:

              Filmer och andra upptagningar som har använts för spridning av våldsskildring och som gärningsmannen har i sin besittning, bilder och bildupptagningar som på ett sedlighetssårande sätt visar barn eller våld eller tidelag, barnpornografiska bilder och bildupptagningar, pornografiska bilder, bildupptagningar och föremål som har använts vid sedlighetssårande marknadsföring … skall dömas förverkade till staten, oberoende av vem som äger dem.

    Samkvæmt ákvæðinu er m.a. heimilt að gera eftirfarandi hluti upptæka: (i) klámmyndir og -upptökur sem lýst er í 18. gr., (ii) barnaklámmyndir og -upptökur sem lýst er í 19. gr. og (iii) myndir, upptökur og hluti sem notaðir hafa verið við markaðssetningu á klámi þannig að það varði við 20. gr.
    Samkvæmt þessu tekur eignaupptökuheimildin ekki bara til þeirra hluta sem innihalda hið klámfengna efni, sbr. 18. og 19. gr., heldur einnig til auglýsinga, bæklinga, plakata og annars sambærilegs sem er liður í að koma slíkum hlutum á framfæri í söluskyni, sbr. 20. gr. 160
    Þá er í 4. mgr. 23. gr. ákvæði sem heimilar yfirvöldum að gera upptækt andvirði þeirra hluta sem taldir eru upp í 3. mgr. þegar þeir hafa verið afhentir öðrum, þeim eytt eða þeir hafa verið skemmdir. Þá er í ákvæðinu vísað til 2. kafla 16. gr. finnsku hegningarlaganna um hlutdeild í hagnaði af broti.

1.6 Brot gegn blygðunarsemi
    Í 1. mgr. 9. gr. 20. kafla finnsku hegningarlaganna var að finna svohljóðandi ákvæði:

              Gör någon offentligen sig skyldig till handling, som sårar tukt och sedlighet och därigenom åstadkommer förargelse, skall han för offentlig kränkning av sedligheten dömas till fängelse i högst sex månader eller till böter.

    Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998 kemur fram að ákvæði þessu hafi fyrst og fremst verið beitt í þrenns konar tilvikum: Í fyrsta lagi þegar einstaklingar beruðu sig á almannafæri (strípihneigð), í öðru lagi þegar fólk hafði kynferðismök á almannafæri og í þriðja lagi þegar um hneykslanlegar kynlífssýningar (sexshow) var að ræða sem stóðu almenningi opnar, svo sem á veitingahúsum, börum eða sambærilegum stöðum, þar sem sýnendur höfðu kynmök. Með ákvæðinu er verið að vernda almenna velsæmiskennd og halda uppi lögum og reglu í samfélaginu. Hugmyndin að baki ákvæði sem þessu er ekki að hafa áhrif á kynhegðun viðkomandi, heldur hlífa almenningi við því að horfa upp á slíka hegðun. 161
    Til fyllingar ákvæðunum um klám, sem tekin voru upp í finnsku hegningarlögin með breytingalögum nr. 563/1998, var samsvarandi ákvæði tekið upp í 21. gr. 17. kafla, þó með breyttu orðalagi. Lagagreinin ber fyrirsögnina Offentlig kränkning av sedligeten og hljóðar svo:

               21 § Den som offentligt företar en sedlighetssårande handling på ett sätt som väcker anstöt skall, om straff för gärningen inte bestäms på något annat ställe i lag, för offentlig kränkning av sedligheten dömas till böter eller fängelse i högst sex månader.

    Ekki er nánar útskýrt í ákvæðinu hvað átt er við með „en sedlighetssårande handling“, enda erfitt að njörva niður slíka skilgreiningu í eitt skipti fyrir öll þar sem ógerlegt er að sjá fyrir allar þær aðstæður sem geta komið upp. Forsenda þess að hægt sé að beita þessu ákvæði er að hegðun veki hneykslun hjá áhorfanda. Ekki er skilyrði að hún veki almenna hneykslun, nægilegt er að hún veki hneykslun í fámenni. Ef blygðunarsemi áhorfendanna er ekki særð með framferði viðkomandi hefur ekkert brot verið framið. Sá sem t.d. stendur fyrir sýningu kynferðisleg eðlis ætti þannig að láta áhorfendur vita fyrir fram hvers eðlis hún er til að koma í veg fyrir að hún veki hneykslun. 162
    Aðeins kemur til beitingar þessa ákvæðis að brot falli ekki undir önnur lagaákvæði, svo sem klámákvæðin í 17. kafla eða kynferðisbrotaákvæðin í 20. kafla finnsku hegningarlaganna.
    Refsimörkin fyrir brot af þessu tagi eru þau sömu og þau voru áður en breytingalög nr. 563/1998 gengu í gildi, sektir eða fangelsi í allt að 6 mánuði.

1.7 Gildissvið finnskra refsilaga
    Fyrsti kafli finnsku hegningarlaganna fjallar um gildissvið finnskra refsilaga. Í 11. gr. hans er m.a. að finna ákvæði sem kveður svo á að refsa skuli finnskum þegnum eftir finnskum refsilögum ef þeir fremja brot sem lýst er í 17. kafla, 18. og 19. gr., finnsku hegningarlaganna á erlendri grund, óháð því hvort verknaðurinn er refsiverður samkvæmt lögum þess lands þar sem hann er framinn eða ekki.

2. Vændi
2.1 Almennt
    Gildandi ákvæði um vændi er að finna í 20. kafla finnsku hegningarlaganna. Kaflinn sætti gagngerri endurskoðun fyrir fáum árum sem leiddi til breytingalaga nr. 563/1998. Fram til þess tíma hafði hann einungis tvisvar sinnum sætt verulegum breytingum allt frá því að finnsku hegningarlögin voru sett árið 1889, annars vegar árið 1926 og hins vegar árið 1971. Árið 1971 miðuðu breytingarnar fyrst og fremst að því að koma til móts við breytt viðhorf til kynlífs, m.a. voru afnumin refsiákvæði sem vörðuðu kynhegðun samkynhneigðra. Til viðbótar má nefna lagabreytingar sem gerðar voru árið 1994, en þær breyttu m.a. lagaákvæðum varðandi nauðgun og þvingun til samræðis með ólögmætri nauðung með þeim hætti m.a. að ekki var lengur gerður greinarmunur á því hvort brotin voru framin innan eða utan hjúskapar.
    Með breytingalögum nr. 563/1998 var m.a. heiti kaflans breytt úr Om sedlighetsbrott í Om sexualbrott og eins var refsiákvæði, sem laut sérstaklega að því að hvetja til kynlífsathafna á milli einstaklinga af sama kyni, afnumið til samræmis við breytt viðhorf til samkynhneigðra. 163 Þá var þeim ákvæðum kaflans, sem höfðu fram til þessa verið kynbundin, þ.e. bundin við að karlmenn væru gerendur og konur þolendur, breytt á þann veg að þau urðu ókynbundin.
    Eitt aðalmarkmiðið með endurskoðun 20. kafla var að sporna svo sem frekast væri unnt við kynferðislegri misnotkun barna og ungmenna. Liður í því var m.a. lögfesting nýmælis í 8. gr. er leggur bann við kaupum á kynlífsþjónustu af börnum eða ungmennum undir 18 ára aldri.

2.2 Stundan vændis
    Ekki er lögð refsing við því að stunda vændi í Finnlandi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998 segir að það mundi án efa hafa áhrif í þá átt að draga úr vændi yrðu þeir sem það stunda og viðskipavinir þeirra látnir sæta refsiábyrgð. Lögleiðing refsinga fyrir þessa háttsemi hefði þó vafalaust ýmis vandamál í för með sér, m.a. styrkja stöðu vændismiðlara (kopplare), þar sem þeir sem stunda vændi yrðu háðari þeim. Þá var talið að það kynni að leiða til þess að þeir sem stunda vændi færu síður í læknisskoðun og mundu ekki kæra brot sem þeir yrðu fyrir af hálfu viðskiptavina eða miðlara. 164

2.3 Kynlífsathafnir samkynhneigðra
    Árið 1971 var 2. mgr. bætt við 9. gr. í 20. kafla finnsku hegningarlaganna þar sem lögð var refsing við því að hvetja opinberlega til kynlífsathafna einstaklinga af sama kyni. Málsgreinin hljóðaði svo:

              Den som offentligen uppmanar till otukt mellan personer av samma kön, skall för uppmaning till otukt mellan personer av samma kön dömas till i 1 mom. nämnt straff.

    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. varðaði brot gegn ákvæðinu sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði.
    Lögfesting 2. mgr. 9. gr. var á sínum tíma byggð á þeim rökum að vernda þyrfti ungt fólk sem ekki hefði mótaðar kynlífshugmyndir. Þá væri það staðreynd að almenn andúð væri á kynferðissamböndum milli einstaklinga af sama kyni þótt ekki væru þau refsiverð. 165
    Þannig var í 2. mgr. 9. gr. lögð refsing við því að hvetja opinberlega til athafna sem, samkvæmt finnskri löggjöf, voru refsilausar. Þetta þótti skjóta skökku við og brjóta í bága við meginreglur um tjáningarfrelsi. Þá voru Finnar gagnrýndir fyrir þetta lagaákvæði á alþjóðlegum vettvangi. Ákvæðið, sem þótti eingöngu til þess fallið að viðhalda fordómum gagnvart samkynhneigðum, var því afnumið með breytingalögum nr. 563/1998.

2.4 Hagnýting vændis
     a) Almennt
    Í 9. gr. 20. kafla finnsku hegningarlaganna er að finna ákvæði um hagnýtingu vændis. Ákvæðið ber fyrirsögnina Koppleri (vændismiðlun) og er svohljóðandi:

              9§ Den som för att skaffa sig eller någon annan ekonomisk vinning
       1)      ordnar ett rum eller något annat ställe för samlag eller en därmed jämförlig sexuell handling som utförs mot ersättning,
       2)      på annat sätt utnyttjar att någon utför sådana handlingar eller
       3)      förleder eller genom påtryckning förmår någon till sådana handlingar,
    skall för koppleri dömas till böter eller fängelse i högst tre år.
              Försök är straffbart.

    Ákvæði 1. mgr. 9. gr. tekur til svonefndra vændismiðlara (milligöngumanna), þ.e. til þeirra sem notfæra sér vændi annarra sjálfum sér eða öðrum til fjárhagslegs ávinnings (ekonomisk vinning).
    Í ákvæðinu er ekki notað hugtakið „prostitution“ heldur orðalagið „samlag eller en därmed jämförlig sexuell handling som utförs mot ersättning“ sem hefur í raun sömu merkingu. Vendipunkturinn í skilgreiningu á vændi er að kynferðisleg þjónusta sé látin í té gegn greiðslu (mot ersättning). Greiðslan getur hvort heldur sem er verið í formi peninga eða annarra verðmæta.
    Refsimörkin fyrir vændismiðlun eru sektir eða fangelsi í allt að þrjú ár. Þá er tilraun refsiverð skv. 2. mgr. 9. gr.

    b) Útvegun húsnæðis
    
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. er refsivert að láta þeim er stundar vændi í té herbergi eða annað húsnæði í þeim tilgangi að hann geti stundað þar iðju sína. Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að verknaðurinn sé unninn í ávinningsskyni. Ávinningur milligöngumannsins getur t.d. falist í því að nýta sér aðstæður með þeim hætti að fara fram á óeðlilega háa leigu fyrir húsnæði eða taka við greiðslu í óvenjulegu formi. Þá getur vaknað grunur um hagnýtingu við útleigu hótelherbergja, t.d. þegar hótelherbergi eru leigð út í klukkustund.

     c) Hagnýting með öðrum hætti
    
Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. er lögð refsing við því að notfæra sér vændi annarra með öðrum hætti. Hér undir gæti fallið milliganga sem felst í því að verða þeim sem stundar vændi úti um viðskipavini. Í þessum tilvikum er algengt að greiðslan fyrir þjónustuna renni að hluta til milligöngumannsins. Ákvæðið er þó ekki bundið við að greiðsla komi frá þeim sem vændið stundar heldur gætu þær aðstæður verið fyrir hendi að viðskiptavinurinn greiddi milligöngumanninum fyrir að vísa sér á vændisþjónustu. Þá geta milligöngumenn hagnast á því að gefa upp símanúmer eða heimilisföng aðila sem stunda vændi í gegnum sérstakar símalínur sem bera ákveðið gjald (avgiftsbelagda telefonlinjer). 166

    d) Hvatning eða þrýstingur
    
Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. er refsivert að hvetja aðra manneskju eða beita hana þrýstingi í því skyni að fá hana til að stunda vændi. Hér er mikilvægt að sýna fram á að milligöngumaðurinn hafi með hegðun sinni reynt að hafa afgerandi áhrif á ákvörðun einstaklings í þá átt að leggja út á braut vændis eða halda sig á henni eða hafi haft afgerandi áhrif á ákvörðun hans. Ef milligöngumaðurinn gengur lengra en lýst er í ákvæðinu, svo sem með beinum hótunum, ofbeldi eða öðrum slíkum aðgerðum, þvingar aðra manneskju til kynlífs með þriðja manni eða misnotar aðstöðu sína skv. 1. mgr. 5. gr. í 20. kafla, geta ákvæði um nauðgun, ólögmæta nauðung eða kynferðislega misnotkun átt við um verknaðinn. Auk þess sem önnur ákvæði hegningarlaganna geta komið til skoðunar.

2.5 Kaup á vændi
    Í 8. gr. 20. kafla finnsku hegningarlaganna er lagt bann við því að kaupa kynlífsþjónustu af börnum og ungmennum yngri en 18 ára. Ákvæðið kom nýtt inn í lögin með breytingalögum nr. 563/1998, en fram að því hafði ekkert samsvarandi ákvæði verið að finna. Fyrirsögn 8. gr. er Köp av sexuella tjänster av ung person og hljóðar hún svo:

              8 § Den som genom att utlova eller ge ersättning får någon som är under aderton år att idka samlag eller företa en annan sexuell handling, skall för köp av sexuella tjänster av ung person dömas till böter eller fängelse i högst sex månader.
              Försök är straffbart.

    Kaup á vændisþjónustu er að öðru leyti ekki refsiverður verknaður samkvæmt finnskri löggjöf.
    Umrætt ákvæði var lögfest í Finnlandi í kjölfar aukinnar umræðu um sérstaka þörf fyrir vernd barna og ungmenna gegn kynferðislegri misnotkun. Mikilvæg rök þóttu vera fyrir því að gera skýran greinarmun á því hvort um börn og ungmenni var að ræða í þessu sambandi eða fullorðna einstaklinga. Því þótti ýmislegt mæla með því að lögfesta ákvæði er legði bann við því að kaupa vændisþjónustu af börnum og ungmennum, en ekki var litið svo á að sama gilti um kaup á vændisþjónustu af fullorðnum. Í greinargerð kemur m.a. fram að ungmenni séu að jafnaði ekki nægilega þroskuð til að meta áhrif gerða sinna til lengri tíma. Þá séu meiri líkur á því að vændismiðlarar misnoti þau. Einnig sé viss hætta á að ungmenni, sem háð eru fíkniefnum, freistist til þess að fjármagna neysluna með vændi. Þess sé vænst að með því að leggja refsingar við kaupum á vændisþjónustu af þessum aldurshópi megi stemma stigu við þessum vandamálum.
    Enn fremur er í greinargerðinni að finna hugleiðingar um hvort eðlilegt sé og sanngjarnt að refsa aðeins kaupanda þjónustunnar en ekki seljandanum, ekki síst í ljósi þess að oft er það sá sem býður þjónustuna til sölu sem á frumkvæðið að viðskiptunum. Engu að síður megi ganga út frá því við þessar aðstæður að kaupandinn sé almennt þroskaðri einstaklingur og hafi sterkari stöðu. Hann ætti þannig bæði að gera sér grein fyrir slæmum afleiðingum til lengri tíma litið fyrir líf ungmennisins að stunda þessa iðju og þeim ástæðum sem búa þar að baki. Hann ætti því af siðferðilegum ástæðum ekki að notfæra sér þessar aðstæður. 167
    Samkvæmt 1. mgr. er refsivert að fá ungmenni, sem ekki hefur náð 18 ára aldri, til að stunda kynmök eða annars konar kynlífsathafnir gegn greiðslu eða loforði um greiðslu. Brotamaðurinn getur sjálfur verið yngri en 18 ára. Greiðslan er oftast í formi peninga en getur einnig verið í formi annarra verðmæta.
    Um skilgreiningu á orðinu samlag vísast til 1. mgr. 10. gr. 20. kafla og um skilgreiningu á orðunum annan sexuell handling vísast til 2. mgr. sömu greinar, sbr. lög nr. 563/1998. Ákvæði 8. gr. taka til kynmaka og annarra kynlífsathafna á milli einstaklinga af gagnstæðu kyni sem og af sama kyni.
    Til þess að hægt sé að refsa fyrir brot gegn 8. gr. þarf verknaðurinn að vera unninn af ásetningi. Sá sem brýtur gegn 8. gr. getur jafnframt gerst brotlegur við 9. gr. (koppleri) eða 6. eða 7. gr. (barn yngra en 16 ára). Refsing fyrir brot gegn ákvæðinu er sektir eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Skv. 2. mgr. 8. gr. er tilraun jafnframt refsiverð.

2.6 Gildissvið finnskra refsilaga
    Um gildissvið finnsku hegningarlaganna vegna brota á 8. og 9. gr. 20. kafla þeirra vísast til 11. gr. 1. kafla laganna (sbr. kafla 1.7 hér að framan). Þar er m.a. kveðið svo á að refsa skuli finnskum þegnum eftir finnskum refsilögum fyrir brot sem þeir hafa framið erlendis og lýst er í 6., 7., 8. eða 9. gr. (ef verknaður hefur beinst að ungmenni yngra en 18 ára) 20. kafla, óháð því hvort verknaðurinn er refsiverður samkvæmt lögum þess lands þar sem hann er framinn eða ekki.

VI. NIÐURSTÖÐUR



    Í skýrslu þessari er að finna upplýsingar um lagaumhverfi á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi varðandi löggjöf og eftirlit með klámi og vændi. Ekkert ríkjanna hefur sett sérstakar reglur um fylgdarþjónustu og símavændi, sbr. orðalag beiðni þeirrar sem er tilefni skýrslunnar. Fylgdarþjónusta og símavændi fellur undir reglur um vændi, að svo miklu leyti sem vændi er hluti af slíkri þjónustu. Þá fellur símaklám og klám á netinu undir almennar reglur um klám. Í samræmi við þetta lúta niðurstöður skýrslunnar að klámi annars vegar og vændi hins vegar.

1. Klám
1.1 Klámhugtakið

    Hvað telst klám er breytilegt eftir tíðarandanum hverju sinni. Öll ríkin fimm nota áþekkar skilgreiningar á hugtakinu. Í aðalatriðum byggjast þær á því að klám sé efni sem leggur áherslu á kynlíf og það sem að því lýtur vegna kynlífsins sjálfs, án nokkurs annars sýnilegs tilgangs, t.d. listræns eða vísindalegs. Til viðbótar er lögð áhersla á að efnið sé ögrandi og framleitt í ávinningsskyni.

1.2 Almennt bann við birtingu og dreifingu
    Almennt bann við birtingu og dreifingu á klámi er eingöngu í gildi í Noregi og á Íslandi. Önnur ríki hafa afnumið slíkt bann. Í Danmörku var það gert þegar á sjöunda áratugnum. Meginrökin fyrir því hafa verið þau að ekki hafi tekist að sýna fram á slík almenn skaðleg áhrif kláms að það réttlæti skerðingu á frelsi fólks til þess að nálgast það á löglegan hátt.

1.3 Takmarkanir á útbreiðslu kláms
    Í löggjöf ríkjanna þriggja sem ekki hafa í löggjöf sinni almennt bann við birtingu og dreifingu á klámi, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, er samt sem áður að finna reglur sem eiga að stuðla að því að klámi sé ekki haldið að fólki sem ekki kærir sig um það eða að börnum og ungmennum. Þessar reglur miða að því að takmarka og hefta útbreiðslu kláms. Reglurnar lúta m.a. að því að klám sé ekki haft til sýnis á almannafæri og að auglýsingum um klám og innihaldi þeirra. Af því má vera ljóst að birting klámefnis er hvergi með öllu frjáls, auk þess sem aðferðum við markaðssetningu þess eru skorður settar.

1.4 Barnaklám
    Barnaklám er lýst refsivert alls staðar á Norðurlöndum, hvort sem um er að ræða vörslur, framleiðslu, dreifingu, sýningu, kynningu, inn- eða útflutning o.s.frv. Þetta helst m.a. í hendur við alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði. Reglurnar eru áþekkar í öllum ríkjunum, en ástæða er til að benda á eftirfarandi atriði:

     a) Skilgreining á barni
    Ekki kemur fram í 210. gr. íslensku hegningarlaganna hverjir teljast börn í tengslum við ákvæði er lúta að barnaklámi. Af greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 126/1996 er ljóst að miðað var við þá skilgreiningu sem fram kom í barnaverndarlögum á þeim tíma, eða 16 ár. Með lögum nr. 160/1998, 1. gr., var barnaverndarlögunum breytt og aldursmarkið hækkað í 18 ár. Af því leiðir að það kann að vera álitamál hvort íslensku lögin miða við 16 eða 18 ára aldur. Í samanburðarlöndunum er tekið á þessu álitamáli með allt öðrum hætti. Reglurnar þar miðast ekki við tiltekið aldursmark heldur líkamlegan þroska. Er þá venjulegast miðað við að einstaklingur hafi náð líkamlegum þroska sem jafngildir kynferðislegum lögaldri í viðkomandi landi. Í Danmörku er t.d. miðað við að myndir sýni einstakling sem hefur líkamlegan þroska er svarar til barna er ekki hafa náð 15 ára aldri. Það er í samræmi við kynferðislegan lögaldur í Danmörku, sem er 15 ár. Í Noregi er miðað við að einstaklingar sem ekki hafa tekið út kynþroska séu börn í skilningi norska ákvæðisins um barnaklám. Áður var miðað við 16 ára aldursmark og hefur sú regla nú verið afnumin. Í Svíþjóð er miðað við einstaklinga sem ekki hafa náð fullum kynþroska eða sem af mynd að dæma eða kringumstæðum að öðru leyti virðast yngri en 18 ára. Í Finnlandi teljast þeir einstaklingar börn sem ekki hafa náð fullum kynþroska og kemur fram í greinargerð að rétt sé að hafa til hliðsjónar kynferðislegan lögaldur sem er 16 ár þar í landi. Íslensku lögin og skýringar á þeim í greinargerð skera sig úr að því leyti að þar er hvorki að finna skírskotun til kynþroska né til kynferðislegs lögaldurs. Þetta var hins vegar gert í frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sem lagt var fram á 120. löggjafarþingi (1995– 1996), 168 en dagaði uppi. Þegar nýtt frumvarp sama efnis var lagt fram á næsta löggjafarþingi á eftir höfðu athugasemdir þessa efnis verið teknar út. Ástæða virðist vera til að benda á hvort ekki sé rétt við skýringu íslenska ákvæðisins að leggja fremur áherslu á kynþroska en tiltekin aldursmörk, hvort sem þau eru 16 eða 18 ár. Það liggur í eðli þessara brota að þeir sem sækjast eftir efni af þessu tagi (pedofil) eru yfirleitt að leita eftir myndum af ókynþroska einstaklingum, einstaklingum sem eru rétt að byrja kynþroska eða eru sýndir í gervi og/eða umhverfi barna.
    Bent skal á að skv. 1. mgr. 202. gr. íslensku hegningarlaganna er svonefndur kynferðislegur lögaldur á Íslandi 14 ár. Hann er því sá lægsti á Norðurlöndum. Í Danmörku og Svíþjóð er hann 15 ár en 16 ár í Noregi og Finnlandi. 169 Af þessu leiðir að samkvæmt íslenskum lögum eru kynferðismök við 14 ára ungling, með hans vilja og samþykki og án þess að hægt sé að sýna fram á að hann hafi verið tældur til þeirra (sbr. 2. mgr. 202. gr. hgl.), refsilaus verknaður. Sé hins vegar miðað við þann skilning sem fram kemur í greinargerð með íslensku lögunum er varsla á efni sem sýnir 14 ára ungmenni í kynferðismökum refsiverð. Hér virðist vera um nokkurt misræmi að ræða þar sem t.d. varsla á myndum af hugsanlega fullkomlega löglegu athæfi er refsiverð. Vegna þessa og í ljósi þjóðréttarskuldbindinga á þessu sviði er ástæða til að varpa því fram hvort ekki væri rétt að hækka kynferðislegan lögaldur samkvæmt íslenskum lögum.

    b) Refsingar
    Refsingar við barnaklámsbrotum eru í aðalatriðum sambærilegar. Þó sker Ísland sig úr að því leyti að eingöngu er hægt að dæma í sektir fyrir vörslur á barnaklámi en í samanburðarlöndunum er heimilt að dæma í fangelsi, í allt að sex mánuði í Danmörku og Finnlandi og í allt að tvö ár í Noregi og Svíþjóð. Þá sker Sviþjóð sig úr að því leyti að sé um stórfelld barnaklámsbrot að ræða er lágmarksrefsing 6 mánaða fangelsi og getur orðið allt 4 ára fangelsi.

     c) Vörslur á barnaklámi
    Að því er varðar vörslur á barnaklámi sker Danmörk sig úr að því leyti að það eru eingöngu vörslur á grófu barnaklámi sem lýstar eru refsiverðar.

     d) Aðgangur að barnaklámi gegn greiðslu
    Bent er á að í Danmörku og Noregi er það sérstaklega mælt refsivert að verða sér úti um aðgang að barnaklámi gegn greiðslu. Hér er einkum hafður í huga aðgangur manna að barnaklámefni um rafræna miðla, t.d. netið, án þess að efnið sé afritað eða aðrar ráðstafanir gerðar til þess að varðveita það. Það fellur illa að hefðbundnum skilningi á vörsluhugtakinu að líta svo á að maður sem kaupir sér aðgang að barnaklámefni í gegnum rafræna miðla án þess að afrita það hafi vörslur þess. Ástæða kann að vera til að endurskoða íslensku lögin að þessu leyti.

     e) Þátttaka ungmenna í klámmyndum
    Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er að finna sérstök ákvæði í hegningarlögum er leggja refsingar við því að fá börn eða ungmenni yngri en 18 ára til þátttöku í gerð klámefnis. Geta brot þessi varðað fangelsisrefsingu í allt að 2 ár. Þetta er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Í íslenskum hegningarlögum er að finna ákvæði sem tekur til slíks atferlis, þ.e. 5. mgr. 206. gr., en ákvæðið tekur þó ekki sérstaklega til barna og ungmenna. Í ljósi samnings Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist hlýtur að koma til skoðunar að setja í íslensk lög ákvæði sem felur í sér skilyrðislaust bann við því að börn og ungmenni séu fengin til þátttöku í gerð klámefnis.

     f) Gildissvið
    Í Noregi og Finnlandi hefur gildissvið hegningarlaganna verið rýmkað á þann veg að þau taka einnig til barnaklámsbrota sem þegnar þeirra ríkja fremja utan heimalandsins, óháð því hvort verknaðurinn er refsiverður samkvæmt lögum þess lands þar sem hann er framinn. Samkvæmt íslenskum lögum er það aftur á móti skilyrði að háttsemin sé refsiverð í viðkomandi landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga.

     g) Raunverulegar – tilbúnar barnaklámmyndir
    Nokkur munur er á milli einstakra landa varðandi það hvort og að hvaða marki ákvæðin um barnaklám taka til tilbúinna mynda sem sýna börn í kynferðisathöfnum, svo sem teiknaðra, málaðra eða unninna með tölvutækni. Í Danmörku falla slíkar myndir ekki undir ákvæðið og ekki heldur í Finnlandi nema að nokkru leyti. Í Svíþjóð eru vörslur á tilbúnum myndum refsilausar, en óheimilt er að dreifa þeim. Í íslenskum og norskum rétti er ekki gerður greinarmunur á myndum sem sýna raunverulega atburði annars vegar og tilbúna atburði hins vegar.

     h) Rannsókn mála
    Rétt er að benda á að í Danmörku hefur verið farin sú leið að breyta skilyrðum fyrir beitingu þvingunarráðstafana sem fela í sér inngrip í friðhelgi einkalífs til þess að auðvelda rannsókn mála er lúta að barnaklámi. Ástæða þessarar lagabreytingar var einkum sú öra þróun sem hefur orðið á sviði tölvutækni og miðar breytingin að því að auðvelda lögreglu rannsókn brota þar sem þessi tækni er notuð til þess að dreifa barnaklámi.

1.5 Nektarsýningar
    Í Danmörku hefur dómsmálaráðuneytið sett sérstakar reglur um nektardanssýningar. Á Norðurlöndunum er einnig að finna reglur sem varða svonefnd „live-show“, þ.e. opinskáar sýningar kynlífsathafna, þar sem settar eru skorður við slíkum sýningum. Að 2. mgr. 210. gr. hgl. frátalinni er ekki að finna neinar sérstakar reglur sem lúta að sýningum af þessu tagi. Benda má á að í lögum um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988, er að finna ákvæði í 3. gr. sem heimilar að settar séu í lögreglusamþykktir fyrir hvert sveitarfélag reglur um skemmtanahald. Hugsanlegt er að á grundvelli þessa ákvæðis sé unnt að setja nánari reglur sem lúta að nektarsýningum og framkvæmd þeirra. Ekki verður þó talið að beinlínis sé hægt að banna þær.

1.6 Afhending á klámefni til barna og ungmenna
    Reglur um afhendingu klámefnis til barna og ungmenna eru nokkuð mismunandi á Norðurlöndunum. Á Íslandi og í Noregi og Svíþjóð er miðað við 18 ár, í Danmörku 16 ár og í Finnlandi 15 ár.

1.7 Eftirlit með efni á netinu
    Að síðustu er vakin athygli á sænskum lögum frá árinu 1998 sem lúta að eftirlitsskyldu þeirra sem reka netþjóna með því efni sem þar er að finna.

2. Vændi
2.1 Stundan vændis
    Ísland er eina ríkið á Norðurlöndum þar sem stundan vændis í framfærsluskyni er refsiverð. Afnám refsinga við vændi hefur verið stutt þeim rökum að vændi væri fyrst og fremst félagslegt vandamál sem ætti að fyrirbyggja með félagslegum úrræðum til handa þeim sem það stunda. Viðbrögð við vændi ættu að vera ráðstafanir til að hjálpa þessum ógæfusömu einstaklingum en ekki refsingar. Íslenska ákvæðið er því augljóslega úr takti við réttarþróun annars staðar á Norðurlöndunum.

2.2 Kaup á vændi
    Almennt eru kaup á vændisþjónustu refsilaus á Norðurlöndunum, nema í Svíþjóð þar sem hafa verið sett sérstök lög um þetta efni. Í öllum ríkjunum, að Íslandi undanskildu, er þó að finna sérstök ákvæði sem leggja refsingar við kaupum á vændisþjónustu barna og ungmenna. Þó ber að hafa í huga að í íslensku hegningarlögunum er að finna ákvæði sem geta átt við kaup á slíkri þjónustu ungmenna, sbr. 1. og 2. mgr. 202. gr. Þó er ljóst að þetta ákvæði veitir ekki sambærilega vernd og hin sérstöku ákvæði í lögum nágrannaríkjanna. Er í því sambandi m.a. bent á að þar er miðað við 18 ára aldur.
    Enn fremur er vert að benda á að í Noregi og Finnlandi hefur gildissvið hegningarlaganna verið rýmkað að því er slík brot varðar og taka lögin líka til brota sem þegnar þessara ríkja fremja utan heimalands síns, óháð því hvort þau eru refsiverð í því landi þar sem þau eru framin.
    Í ljósi þessa hlýtur að koma til skoðunar hvort ástæða sé til að lögfesta sambærilegt ákvæði í íslensk hegningarlög. Það væri um leið í góðu samræmi við 34. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

2.3 Hagnýting
    Í löggjöf allra Norðurlanda, að Íslandi meðtöldu, er að finna ákvæði um milligöngumenn og hagnýtingu vændis. Ákvæðin eru misjafnlega útfærð en samanburður á þeim leiðir í ljós að þau veita svipaða vernd. Ástæða er þó til að benda sérstaklega á ákvæði í sænsku hegningarlögunum sem mælir fyrir um þyngri refsingar við brotum sem teljast stórfelld.
    Ákvæðin um milligöngu og hagnýtingu vændis bera með sér að í öllum ríkjunum er leitast við að stemma stigu við vændi. Þetta sjónarmið kemur einnig fram í reglum sem er að finna í löggjöf þessara ríkja sem lúta að takmörkunum á auglýsingum á eða eftir vændisþjónustu.

2.4 Hugtakið „lauslæti“
    Í 2.–5. mgr. 206. gr. íslensku hegningarlaganna er ávallt notað orðið lauslæti. Í 1. mgr. er aftur á móti notað orðið vændi. Orð sambærileg við lauslæti voru framan af notuð í lagatexta nágrannaríkjanna en hafa nú að mestu leyti vikið fyrir orðinu „prostitution“ (vændi) sem þykir mun nútímalegra orðfæri. Ástæða er til þess að hafa þetta í huga ef íslensku lögin verða endurskoðuð.


Ritaskrá



Alþingistíðindi
    1991–1992, A-deild.
    1991–1992, B-deild.
    1994–1995, A-deild.
    1995–1996, A-deild.
    1996–1997, A-deild.
    1998–1999, A-deild.
    1999–2000, A-deild.
    1999–2000, B-deild.
Andenæs, Johs. og Bratholm, Anders. Speciell strafferett. 3. útgáfa. Ósló 1997.
Andenæs, Johs. Alminnelig strafferett. 4. útgáfa. Ósló 1997.
Ásta Sigrún Helgadóttir. Vændi og hagnýting þess. Kandídatsritgerð við lagadeild Háskóla Íslands. Maí 1993.
v. Eyben, W.E. Juridisk Ordbog. Kaupmannahöfn 1992.
Forslag til lov om ændringer i borgerlig straffelov. (Forældelse, pornografi, homoseksuel prostitution m.v.) Folketingsåret 1966–67 (2. samling). Bls. 2450–2526.
Forslag til lov om ændring i borgerlig straffelov. (Pornografiske billeder m.v.) Justitsmin. L.A. 1968 – 20002 – 25, bls. 3050–3056.
Forslag til lov om ændring af straffeloven. (Afkriminalisering af prostitution m.v. samt kriminalisering af kunder til prostituerede under 18 år.) Lovforslag nr. L 43. Folketinget 1998–1999.
Forslag til lov om ændring af straffeloven og retsplejeloven. (Forældelse, styrket indsats mod seksuelt misbrug af børn og unge samt IT-efterforskning.) Lovforslag nr. L 281. Folketinget 1999–2000. Sérprent Justitsmin., j.nr. 1999 – 730 – 0026.
Greve, Vagn o.fl. Kommenteret straffelov. Speciel del. Kaupmannahöfn 1997.
Jónatan Þórmundsson. Um kynferðisbrot. Skýrsla nauðgunarmálanefndar, bls. 95–130. Reykjavík 1989. Einnig birt í Úlfljóti 1989, bls. 21–42.
Jónatan Þórmundsson. Afbrot og refsiábyrgð I. Reykjavík 1999.
Kriminalforsorgsudvalgets betænkning om prostitution. Udvalgets 4. betækning. Betækning Nr. 678. Kaupmannahöfn 1973.
Kutchinsky, Berl. Law, Pornography and Crime. The Danish Experience. Scandinavian Studies in Criminology, Vol. 16. Ósló 1999.
Matningsdal, Magnus. Straffeloven. Karnov kommenterte lover. Ósló 1995.
Martinger, Sven. Norstedts Juridiska Ordbok. 3. útgáfa. Kristianstad 1991.
Morgunblaðið, 20. mars 1980.
Om lov om endringer i straffeloven mv. (seksuallovbrudd). Ot. prp. nr. 28 (1999–2000).
Réttindi barna á Íslandi. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Reykjavík 1995.
Safn greinargerða við almenn hegningarlög, nr. 19 1940, ásamt breytingum. Úlfljótur. Kennslurit I. 1978.
Seksuallovbrudd. Straffelovkommisjonens delutredning VI. Norges Offentlige Utredninger (NOU) 1997:23.
Regeringens proposition 6/1997 (RP 6/1997 rd). Greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998 (Finnland).
Skýrsla nauðgunarmálanefndar. Dómsmálaráðuneytið. Reykjavík 1989.
Slettan, Svein og Øie, Toril-Marie. Forbrytelse og straff. Lærebok i strafferett. Ósló 1997.
Svala Ólafsdóttir. Skýrsla um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. „Heggur sá er hlífa skyldi“. Umboðsmaður barna. Reykjavík 1997.
Vera. Tímarit um konur og kvenfrelsi. 1. tbl. 2000.
Waaben, Knud. Strafferettens specielle del. 4. útgáfa. Kaupmannahöfn 1996.
Ökat skydd för barn. Ytterligare åtgärder mot sexuella övergrepp m.m. Ds 1993:80. Justitiedepartementet. Stockholm 1993.
Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins. Ríkisstjórn Íslands. Janúar 2000.

Dómaskrá



    Hæstaréttardómar
    H 1954:695
    H 1955:47
    H 1972:397
    H 1973:452
    H 1983:1568
    H 1984:855
    H 1990:305
    H 1990:1103
    H 1992:1705
    H 1998:516
    H 1998:969

    Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins 12. júní 1998, mál nr. E-8/97.
Neðanmálsgrein: 1
1 Sbr. 1. gr. laga nr. 126/1996.
Neðanmálsgrein: 2
2 Sbr. lög nr. 39/2000.
Neðanmálsgrein: 3
3 Sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 39/2000.
Neðanmálsgrein: 4
4 Sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 39/2000.
Neðanmálsgrein: 5
5 Skýrsla nauðgunarmálanefndar, gefin út af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík 1989, bls. 114. Þessi skilgreining hafði áður birst árið 1985 í fjölriti eftir Jónatan Þórmundsson sem bar heitið: Um kynferðisbrot, inngangur.
Neðanmálsgrein: 6
6 Sbr. H 1990:1103 (bls. 1110) og H 1998:969 (bls. 975–976).
Neðanmálsgrein: 7
7 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 562.
Neðanmálsgrein: 8
8 Alþingistíðindi B 1999–2000, bls. 4285.
Neðanmálsgrein: 9
9 Í H 1998:969 var ákærði að auki sakfelldur fyrir brot gegn áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni.
Neðanmálsgrein: 10
10 Það var fyrst með lögum nr. 126/1996, sbr. 1. gr., sem fjórðu málsgreininni, sem fjallaði sérstaklega um barnaklám, var bætt við 210. gr. hgl. Ákvæðum hennar var síðan breytt með lögum nr. 39/2000. Þar sem 4. mgr. var orðuð að nýju í breytingalögum nr. 39/2000, þótt ekki væri um miklar breytingar á henni að ræða, er látið nægja að vísa til þeirra laga í tengslum við umfjöllun um 4. mgr. 210. gr.
Neðanmálsgrein: 11
11 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 565.
Neðanmálsgrein: 12
12 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 562.
Neðanmálsgrein: 13
13 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 562 .
Neðanmálsgrein: 14
14 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 1864.
Neðanmálsgrein: 15
15 Þskj. 582 – 333. mál.
Neðanmálsgrein: 16
16 Þskj. 29 – 29. mál.
Neðanmálsgrein: 17
17 Um þetta efni vísast nánar til skýrslu um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum (Heggur sá er hlífa skyldi) frá árinu 1997.
Neðanmálsgrein: 18
18 Þskj. 613 – 359. mál.
Neðanmálsgrein: 19
19 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 561–562.
Neðanmálsgrein: 20
20 Þskj. 613 – 359. mál.
Neðanmálsgrein: 21
21 Þskj. 693 – 428. mál.
Neðanmálsgrein: 22
22 Sbr. tilskipun ráðsins frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur (89/552/EBE).Vísað er til tilskipunarinnar í X. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Neðanmálsgrein: 23
23 Alþingistíðindi A 1999–2000, bls. 2014.
Neðanmálsgrein: 24
24 Hér vísast til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins frá 12. júní 1998 í máli E-8/97: TV 1000 Sverige AB gegn ríkisstjórn Noregs.
Neðanmálsgrein: 25
25 Alþingistíðindi A 1999–2000, bls. 2014.
Neðanmálsgrein: 26
26 Lög nr. 47/1995 leystu af hólmi lög nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum, og komu í staðinn fyrir ákvæði sem áður hafði verið að finna í VI. kafla laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966.
Neðanmálsgrein: 27
27 Reglugerðinni hefur tvisvar sinnum verið breytt, sbr. reglugerð nr. 303/1996 og reglugerð nr. 258/1998.
Neðanmálsgrein: 28
28 Alþingistíðindi A 1994 (118. löggjafarþing), bls. 1624.
Neðanmálsgrein: 29
29 Alþingistíðindi A 1994 (118. löggjafarþing), bls. 1624.
Neðanmálsgrein: 30
30 Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 4679–4681.
Neðanmálsgrein: 31
31 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 791–792.
Neðanmálsgrein: 32
32 Jónatan Þórmundsson: Um kynferðisbrot, inngangur, Reykjavík 1985, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 33
33 Morgunblaðið 20. mars 1980, bls. 20–21. Í kandídatsritgerð Ástu Sigrúnar Helgadóttur við lagadeild Háskóla Íslands frá því í maí árið 1993, sem ber heitið Vændi og hagnýting þess, er hugtakið vændi skilgreint á sama hátt, sbr. bls. 24. Vísað er til ritgerðarinnar með leyfi höfundar.
Neðanmálsgrein: 34
34 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 5042–5043.
Neðanmálsgrein: 35
35 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 5082–5084.
Neðanmálsgrein: 36
36 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 5082–5084, og Alþingistíðindi B 1991–1992, bls. 1350–1351 og 8668–8669.
Neðanmálsgrein: 37
37 Sjá t.d. Alþingistíðindi B 1991–1992, bls. 8393 og 8398–8399.
Neðanmálsgrein: 38
38 Alþingistíðindi B 1991–1992, bls. 8396–8397.
Neðanmálsgrein: 39
39 Vændi og hagnýting þess, bls. 46.
Neðanmálsgrein: 40
40 Safn greinargerða við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, ásamt breytingum, Úlfljótur, kennslurit I, 1978, bls. 60.
Neðanmálsgrein: 41
41 Safn greinargerða við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, ásamt breytingum, bls. 60.
Neðanmálsgrein: 42
42 Safn greinargerða við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, ásamt breytingum, bls. 60.
Neðanmálsgrein: 43
43 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 791.
Neðanmálsgrein: 44
44 Alþingistíðindi A 1991–1992, bls. 791.
Neðanmálsgrein: 45
45 Samkvæmt 14. gr. hgl. verður einstaklingur sakhæfur 15 ára gamall.
Neðanmálsgrein: 46
46 Þskj. 842 – 524. mál (123. löggjafarþing).
Neðanmálsgrein: 47
47 Þskj. 1013 – 524. mál (123. löggjafarþing).
Neðanmálsgrein: 48
48 Svar frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík með bréfi dags. 7. júlí 2000.
Neðanmálsgrein: 49
49 Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi, 1. tbl. 2000, bls. 25–27.
Neðanmálsgrein: 50
50 Alþingistíðindi B 1999–2000, bls. 461–462.
Neðanmálsgrein: 51
51 Nefndin var skipuð fulltrúum frá Reykjavíkurborg, dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu. Í greinargerð nefndarinnar, dags. 18. nóv. 1999, kemur eftirfarandi fram varðandi hlutverk hennar: „Tilefni þess að Reykjavíkurborg óskaði eftir viðræðum við framangreind ráðuneyti var sú þróun sem verið hefur í málefnum nektarstaða eða svonefndra „erótískra veitingastaða“ en í dag eru starfandi sjö slíkir staðir í borginni, þar af hafa fjórir þeirra hafið starfsemi frá því haustið 1998. Ekkert lát virðist á fjölgun þessara staða og borgaryfirvöld hafa fá úrræði til að sporna við eða hafa nokkra stjórn á þessari starfsemi. Eina virka úrræðið er eftirlit lögreglu með þessum stöðum. Í ljósi þeirra takmörkuðu úrræða, sem fyrir hendi eru, var það álit borgaryfirvalda að til þyrfti að koma breyting á gildandi löggjöf. Því óskaði Reykjavíkurborg eftir viðræðum við framangreind ráðuneyti um slíkar breytingar.“
Neðanmálsgrein: 52
52 Þskj. 763 – 483. mál.
Neðanmálsgrein: 53
53 Þskj. 693 – 428. mál.
Neðanmálsgrein: 54
54 Þskj. 693 – 428. mál.
Neðanmálsgrein: 55
55 Sjá nánar um þessar alþjóðlegu skuldbindingar greinargerð með frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (barnaklám), Alþingistíðindi A 1996–1997, bls. 563.
Neðanmálsgrein: 56
56 Waaben, Knud: Strafferettens specielle del, bls. 64–65.
Neðanmálsgrein: 57
57 Justitsmin. L.A. 1968-20002-25, bls. 3051.
Neðanmálsgrein: 58
58 Justitsmin. L.A. 1968-20002-25, bls. 3053.
Neðanmálsgrein: 59
59 Justitsmin. L.A. 1968-20002-25, bls. 3055 .
Neðanmálsgrein: 60
60 Waaben, Knud: Strafferettens specielle del, bls. 65–66.
Neðanmálsgrein: 61
61 Waaben, Knud: Strafferettens specielle del, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 62
62 Sérprent af greinargerð með lovforslag nr. L 281, Foketinget 1999–2000, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 63
63 Sérprent af L 281, bls. 17 .
Neðanmálsgrein: 64
64 Sérprent af L 281, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 65
65 Sérprent af L 281, bls. 17–18.
Neðanmálsgrein: 66
66 Sérprent af L 281, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 67
67 Lovforslag L 281/2000.
Neðanmálsgrein: 68
68 Sérprent af L 281, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 69
69 Sérprent af L 281, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 70
70 Sérprent af L 281, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 71
71 Sérprent af L 281, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 72
72 Sérprent af L 281, bls. 23 og 35.
Neðanmálsgrein: 73
73 Sérprent af L 281, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 74
74 Sérprent af L 281, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 75
75 Sérprent af L 281, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 76
76 Sérprent af L 281, bls. 18–19.
Neðanmálsgrein: 77
77 Sérprent af L 281, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 78
78 Sérprent af L 281, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 79
79 Sérprent af L 281, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 80
80 Sérprent af L 281, bls. 27–29.
Neðanmálsgrein: 81
81 „Cirkulæreskrivelse til samtlige politimestre og Politidirektøren i København“, dags. 11. ágúst 1995.
Neðanmálsgrein: 82
82 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 200.
Neðanmálsgrein: 83
83 Greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1999, lovforslag nr. L 43, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 84
84 Lovforslag nr. L 43, Folketinget 1998–1999, fremsat den 8. oktober 1998 af justitsministeren (Frank Jensen).
Neðanmálsgrein: 85
85 Greinargerð með L 43, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 86
86 Greinargerð með L 43, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 87
87 Karen Rønde (Venstre), tirsdag den 20. oktober 1998 (L 43), bls. 254.
Neðanmálsgrein: 88
88 Greinargerð með L 43, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 89
89 230. gr. dönsku hegningarlaganna var afnumin með breytingalögum árið 1967, en hún fjallaði sérstaklega um vændi samkynhneigðra. (Athuga ber þó að ný 230. gr. kom inn í lögin vorið 2000 og fjallar um bann við töku klámmynda af ungmennum sem ætlaðar eru til dreifingar.)
Neðanmálsgrein: 90
90 Bls. 68.
Neðanmálsgrein: 91
91 Greinargerð með L 43, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 92
92 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 243.
Neðanmálsgrein: 93
93 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 242.
Neðanmálsgrein: 94
94 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 244, og Waaben, Knud: Strafferettens specielle del, bls. 69.
Neðanmálsgrein: 95
95 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 244.
Neðanmálsgrein: 96
96 Sjá nánar Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 243.
Neðanmálsgrein: 97
97 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 245–246.
Neðanmálsgrein: 98
98 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 246.
Neðanmálsgrein: 99
99 Waaben, Knud: Strafferettens specielle del, bls. 69.
Neðanmálsgrein: 100
100 Greinargerð með L 43, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 101
101 Greinargerð með L 43, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 102
102 Greinargerð með L 43, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 103
103 Greinargerð með L 43, bls. 2–5.
Neðanmálsgrein: 104
104 Greinargerð með L 43, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 105
105 Greinargerð með L 43, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 106
106 Greinargerð með L 43, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 107
107 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 251–252.
Neðanmálsgrein: 108
108 Greve, Vagn o.fl.: Kommenteret straffelov, speciel del, bls. 252.
Neðanmálsgrein: 109
109 Greinargerð með L 43, bls. 3–4.
Neðanmálsgrein: 110
110 Ot. prp. nr. 28 (1999–2000), om lov om endringer i straffeloven mv. (seksuallovbrudd), bls. 7.
Neðanmálsgrein: 111
111 Seksuallovbrudd, Straffelovkommisjonens delutredning VI, NOU 1997:23.
Neðanmálsgrein: 112
112 Breytingalög nr. 31 frá 24. maí 1985.
Neðanmálsgrein: 113
113 Breytingalög nr. 49 frá 22. maí 1992.
Neðanmálsgrein: 114
114 Op. prp. nr. 28, bls. 98.
Neðanmálsgrein: 115
115 Andenæs, Johs. og Bratholm, Anders: Spesiell Strafferett, bls. 129.
Neðanmálsgrein: 116
116 Ot. prp. nr. 28, bls. 119.
Neðanmálsgrein: 117
117 Ot. prp. nr. 28, bls. 118.
Neðanmálsgrein: 118
118 Ot. prp. nr. 28, bls. 92.
Neðanmálsgrein: 119
119 Sbr. lög nr. 49 frá 22. maí 1992.
Neðanmálsgrein: 120
120 Ot. prp. nr. 28, bls. 118.
Neðanmálsgrein: 121
121 Ot. prp. nr. 28, bls. 92 og Matningsdal, Magnus: Straffeloven (Karnov kommenterte lover), bls. 209.
Neðanmálsgrein: 122
122 Ot. prp. nr. 28, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 123
123 Ot. prp. nr. 28, bls. 99–100.
Neðanmálsgrein: 124
124 Ot. prp. nr. 28, bls. 100.
Neðanmálsgrein: 125
125 Ot. prp. nr. 28, bls. 100.
Neðanmálsgrein: 126
126 Ot. prp. nr. 28, bls. 101.
Neðanmálsgrein: 127
127 Ot. prp. nr. 28, bls. 85.
Neðanmálsgrein: 128
128 Ot. prp. nr. 28, bls. 117.
Neðanmálsgrein: 129
129 Slettan, Svein og Øie, Toril-Marie: Forbrytelse og straff, bls. 420.
Neðanmálsgrein: 130
130 Andenæs, Johs. og Bratholm, Anders: Speciell strafferet, bls. 127.
Neðanmálsgrein: 131
131 Ot. prp. nr. 28, bls. 82.
Neðanmálsgrein: 132
132 Ot. prp. nr. 28, bls. 82.
Neðanmálsgrein: 133
133 Ot. prp. nr. 28, bls. 87–88.
Neðanmálsgrein: 134
134 Ot. prp.nr. 28, bls. 88.
Neðanmálsgrein: 135
135 Ot. prp. nr. 28, bls. 88.
Neðanmálsgrein: 136
136 Matningsdal, Magnus: Straffeloven, bls. 206.
Neðanmálsgrein: 137
137 Ot. prp. nr. 28, bls. 116.
Neðanmálsgrein: 138
138 Ot. prp. nr. 28, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 139
139 Ot. prp. nr. 28, bls. 88.
Neðanmálsgrein: 140
140 Ot. prp. nr. 28, bls. 90.
Neðanmálsgrein: 141
141 Ot. prp. nr. 28, bls. 82–85.
Neðanmálsgrein: 142
142 Ot. prp. nr. 28, bls. 84.
Neðanmálsgrein: 143
143 Kaflinn er að verulegu leyti byggður á upplýsingum sem fengust frá sænska dómsmálaráðuneytinu, sbr. bréf dags. 4. maí 2000.
Neðanmálsgrein: 144
144 Justitiedepartementet: Ökat skydd för barn, ytterligare åtgärder mot sexuella övergrepp m.m., Ds 1993:80, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 145
145 Ökat skydd för barn, bls. 22–23.
Neðanmálsgrein: 146
146 Ökat skydd för barn, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 147
147 Þetta kemur fram í svari danska dómsmálaráðuneytisins við 6. spurningu frá „Folketingets Retsudvalg“ sem sett var fram í tengslum við meðferð og umfjöllun frumvarps til breytinga á dönsku hegningarlögunum í danska Þjóðþinginu, varðandi það hvort rétt væri að lögleiða refsingu fyrir kaup á vændisþjónustu ungmenna (L 43 – bilag 6–9).
Neðanmálsgrein: 148
148 Greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 563/1998 (RP (Regerings proposition) 6/1997 rd), bls. 144.
Neðanmálsgrein: 149
149 RP 6/1997 rd, bls. 145.
Neðanmálsgrein: 150
150 RP 6/1997 rd, bls. 146.
Neðanmálsgrein: 151
151 RP 6/1997 rd, bls. 146.
Neðanmálsgrein: 152
152 RP 6/1997 rd, bls. 148.
Neðanmálsgrein: 153
153 RP 6/1997 rd, bls. 149.
Neðanmálsgrein: 154
154 RP 6/1997 rd, bls. 150.
Neðanmálsgrein: 155
155 RP 6/1997 rd, bls. 150.
Neðanmálsgrein: 156
156 RP 6/1997 rd, bls. 150.
Neðanmálsgrein: 157
157 RP 6/1997 rd, bls. 152.
Neðanmálsgrein: 158
158 RP 6/1997 rd, bls. 152.
Neðanmálsgrein: 159
159 RP 6/1997 rd, bls. 152.
Neðanmálsgrein: 160
160 RP 6/1997 rd, bls. 157.
Neðanmálsgrein: 161
161 RP 6/1997 rd, bls. 153.
Neðanmálsgrein: 162
162 RP 6/1997 rd, bls. 153–154.
Neðanmálsgrein: 163
163 Áður en breytingalög nr. 563/1998 gengu í gildi var þessi ákvæði að finna í 20. kafla, 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 9. gr.
Neðanmálsgrein: 164
164 RP 6/1997 rd, bls. 167.
Neðanmálsgrein: 165
165 RP 6/1997 rd, bls. 167–168.
Neðanmálsgrein: 166
166 RP 6/1997 rd, bls. 185.
Neðanmálsgrein: 167
167 RP 6/1997 rd, bls. 183.
Neðanmálsgrein: 168
168 Þskj. 582 – 333. mál.
Neðanmálsgrein: 169
169 Hér má benda á að Finnar sáu ástæðu til að hækka kynferðislegan lögaldur úr 15 árum í 16 árið 1998, sbr. lög nr. 563/1998.