Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 639  —  389. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
     Heilsárseldi: Hefðbundið laxeldi í sjókvíum frá 50 gramma göngustærð upp í markaðsstærð.
     Skiptieldi: Eldi á laxi í strandeldi upp í 500–1000 grömm og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
     Örmerkingar: Merkingar á laxi með örsmáum málmflísum í snoppuna.

2. gr.

    3. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    1. Til fiskeldis og hafbeitar þarf rekstrarleyfi landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma, fiskeldisnefndar, fisksjúkdómanefndar, veiðimálanefndar og veiðimálastjóra. Landbúnaðarráðherra skal einnig leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun.
    2. Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar skal vera skrifleg og skulu þar koma fram upplýsingar um m.a. eignaraðild að fiskeldis- eða hafbeitarstöð, fagþekkingu umsækjanda, stærð stöðvar, framleiðslumagn, eldistegundir, eldisaðferðir, matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, o.fl. Umsókn skulu fylgja skilríki um afnot lands, vatns og sjávar, áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, rekstraráætlun, leyfi til mannvirkjagerðar, leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur svo og önnur gögn sem landbúnaðarráðherra óskar eftir að lögð verði fram.
    3. Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar skal landbúnaðarráðherra leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á þá getur landbúnaðarráðherra lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstrarleyfi er veitt, þar á meðal að framkvæma á eigin kostnað rannsóknir á hvort fyrirhuguð starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar feli í sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna, svo sem merkingar á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum, samantekt á öðrum hagsmunum í veiðimálum og fiskeldi á svæðinu, mat á stöðu fiskstofna í helstu ám á svæðinu og mat á fari laxfiska í nágrenni fyrirhugaðrar eldisstöðvar.
    4. Ef umsókn og önnur gögn eru fullnægjandi að mati landbúnaðarráðherra gefur hann út rekstrarleyfi til fimm ára. Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar, hvort um sé að ræða seiðaeldi, hafbeit, strandeldi, skiptieldi eða heilsárseldi, leyfilegar tegundir í eldi, leyfilegt framleiðslumagn, hámark sleppinga á seiðum í hafbeit og skyldu fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski og áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur. Landbúnaðarráðherra getur ákveðið að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma og/eða takmarka stærð eða framleiðslumagn fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar og hámark sleppinga á seiðum í hafbeit. Einnig getur landbúnaðarráðherra bundið rekstrarleyfi tilteknum skilyrðum, m.a. um að leyfishafi framkvæmi á eigin kostnað rannsóknir á hvort starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar hafi í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum, sníkjudýrum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna, svo sem merkingar á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum, samantekt á öðrum hagsmunum í veiðimálum og fiskeldi á svæðinu, mat á stöðu fiskstofna í helstu ám á svæðinu, mat á fari laxfiska í nágrenni fyrirhugaðrar eldisstöðvar, mat á fari eldisfiska með kerfisbundnum merkingum og sleppingum á eldisfiski, vöktun á nærliggjandi ám og vöktun á kynþroska og heilbrigði fiska í eldi. Óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi fyrr en ákvörðun um matsskyldu eða úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eftir því sem við á. Ákvörðun um rekstrarleyfi skal vera í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.
    5. Rekstrarleyfi tekur fyrst gildi þegar dýralæknir fisksjúkdóma og veiðimálastjóri hafa gert úttekt á fiskeldis- eða hafbeitarstöð.
    6. Ef breytingar verða á eldistegundum og/eða framleiðslumagni getur landbúnaðarráðherra fellt rekstrarleyfi úr gildi.
    7. Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis- eða hafbeitar er óheimil.
    8. Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis- eða hafbeitar skal leyfishafi greiða gjald í ríkissjóð sem miðast við kostnað við meðferð umsóknar og útgáfu leyfisins samkvæmt gjaldskrá sem staðfest skal af landbúnaðarráðherra.
    9. Fiskeldis- og hafbeitarstöðvum er óheimilt að hefja starfsemi eða flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldis- eða hafbeitarstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið. Landbúnaðarráðherra getur veitt undanþágu til starfsemi og flutnings á eldisfiski og/eða seiðum í fiskeldis- eða hafbeitarstöð ef stöð hefur fengið starfsleyfi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur.

4. gr.

    72. gr. laganna orðast svo:
    1. Fiskeldisstöð sem missir út eldisfisk er heimil, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu, veiði innan 200 metra frá stöðinni, enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að fiskur slapp út ef þetta gerist á göngutíma laxfiska og skal framkvæmd í samráði við fulltrúa veiðimálastjóra.
    2. Ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði skv. 1. mgr. innan 12 klukkustunda eftir að hún missir út eldisfisk getur veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 1. mgr.
    3. Leyfishafa rekstrarleyfis er skylt að tilkynna embætti veiðimálastjóra ef fiskeldisstöð missir út eldisfisk. Ef um ítrekaðar slysasleppingar er að ræða getur landbúnaðarráðherra tekið rekstrarleyfi til endurskoðunar eða fellt það úr gildi.

5. gr.

    Á eftir 73. gr. laganna koma fimm nýjar greinar og breytist greinatala samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (74. gr.)
    Ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefur ekki hafið starfsemi að því marki sem gert var ráð fyrir í rekstraráætlun innan 12 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis er landbúnaðarráðherra heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi. Ef rekstraráætlun er ekki fylgt eftir þann tíma er landbúnaðarráðherra einnig heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi.

    b. (75. gr.)
    1. Veiðimálastjóri skal hafa eftirlit með starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Eftirlitsskyldir aðilar eru fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem hafa fengið rekstrarleyfi samkvæmt 62. gr. þessara laga.
    2. Fyrir eftirlit veiðimálastjóra skulu fiskeldis- og hafbeitarstöðvar greiða árlegt gjald í ríkissjóð sem skal vera 0,25% af brúttósöluverði framleiðslu fiskeldis- og hafbeitarstöðva samkvæmt ársreikningi næstliðið ár á undan álagningu. Hafi tvær eða fleiri fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar sameinast skal miða fjárhæð brúttósöluverðs við samanlagða ársreikninga þeirra. Árlegt eftirlitsgjald skal þó aldrei vera lægra en 25.000 kr. Fjárhæð þessi skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert, í fyrsta sinn 1. janúar 2002.
    3. Eftirlitsgjald skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 1. september ár hvert. Veiðimálastjóri skal annast innheimtu eftirlitsgjaldsins og tilkynna eftirlitsskyldum aðilum bréflega um álagningu. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðu dráttarvextir á greiðslu gjaldsins frá gjalddaga.

    c. (76. gr.)
    1. Kynbættan eldislax er eingöngu heimilt að nýta til fiskeldis og óheimilt er að sleppa honum í fiskrækt eða hafbeit. Veiðimálastjóri getur veitt rannsóknaraðila undanþágu til sleppitilrauna í smáum stíl.
    2. Flutningur eldistegunda sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva svo og flutningur og sleppingar lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða er óheimill.
    3. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu til flutnings á eldistegundum sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva svo og til flutnings á lifandi fiski og frjóvguðum hrognum milli ótengdra vatnasvæða að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma og fisksjúkdómanefndar. Veiðimálastjóri skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar eða vatnasvæði gefa tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun.

    d. (77. gr.)
    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill.

    e. (78. gr.)
    Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa kafla með reglugerðum og öðrum stjórnvaldsreglum, m.a. um útgáfu rekstrarleyfa, örmerkingar á hluta af eða öllum laxaseiðum í kvíaeldi, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á fiskeldis- og hafbeitarstöðvum, eftirlit með starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, flutning eldistegunda milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva, flutning fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða o.fl. Landbúnaðarráðherra getur einnig að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma, fiskeldisnefndar, veiðimálanefndar, veiðimálastjóra og Veiðimálastofnunar takmarkað eða bannað fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi. Jafnframt getur landbúnaðarráðherra ákvarðað svæðaskiptingu fiskeldis meðfram strönd landsins og heildarframleiðslu á hverju svæði.

6. gr.

    85. gr. laganna, er verður 90. gr., orðast svo:
    1. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála.
    2. Til aðstoðar landbúnaðarráðherra um stjórn fiskeldis- og veiðimála eru fiskeldisnefnd, veiðimálanefnd og veiðimálastjóri.

7. gr.

    Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein er verður 94. gr. og breytist greinatala samkvæmt því. Greinin verður svohljóðandi:
    1. Í fiskeldisnefnd eiga sæti fjórir menn. Landbúnaðarráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu veiðimálastjóra. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn.
    2. Fiskeldisnefnd skal vera til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi bæði á landi og í sjó og fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt lögum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á tilvísunum í lögunum:
     a.      Í stað „95. og 97. gr.“ í 3. mgr. 3. gr. kemur: 101. og 103. gr.
     b.      Í stað „94. og 96. gr.“ í 5. mgr. 14. gr. kemur: 101. og 103. gr.
     c.      Í stað „94. gr.“ í 6. mgr. 14. gr. kemur: 101. gr.
     d.      Í stað „94. og 96. gr.“ í 7. mgr. 14. gr. kemur: 101. og 103. gr.
     e.      Í stað „94. gr.“ í 4. mgr. 16. gr. kemur: 101. gr.
     f.      Í stað „94. gr.“ í 17. gr. kemur: 101. gr.
     g.      Í stað „94. gr.“ í 20. gr. kemur: 101. gr.
     h.      Í stað „94. gr.“ í 5. mgr. 30. gr. kemur: 101. gr.
     i.      Í stað „95. gr.“ hvarvetna í 2. mgr. 50. gr. kemur: 101. gr.
     j.      Í stað „94. gr.“ í 2. mgr. 59. gr. kemur: 101. gr.
     k.      Í stað „75. og 76. gr.“ í 1. mgr. 77. gr., sem verður 82. gr., kemur: 80. og 81. gr.
     l.      Í stað „83. gr.“ í 1. mgr. 84. gr., sem verður 89. gr., kemur: 88. gr.
     m.      Í stað „93. gr.“ í 94. gr., sem verður 100. gr., kemur: 99. gr.
     n.      Í stað „95. gr.“ í 96. gr., sem verður 102. gr., kemur: 101. gr.
     o.      Í stað „98. gr.“ í 99. gr., sem verður 105. gr., kemur: 104. gr.
     p.      Í stað „100. gr.“ í 101. gr., sem verður 107. gr., kemur: 106. gr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði laga þessara skulu gilda um veitingu allra rekstrarleyfa sem verða gefin út eftir gildistöku laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem eru í rekstri við gildistöku laga þessara skulu endurnýja rekstrarleyfi sín innan árs frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að setja skýrari og ítarlegri ákvæði í IX. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, um fiskeldi og hafbeit. Ljóst er að löggjöf um fiskeldi hefur lengi verið ábótavant hér á landi. Núgildandi löggjöf um þennan málaflokk er fábrotin og gefur stjórnvöldum ekki nægjanlegt svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar. Í löggjöfina vantar ýmis ákvæði sem eðlilegt og nauðsynlegt má telja að þar sé að finna.
    Með frumvarpi þessu er leitast við að setja fram skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja og treysta þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna gegn aukinni hættu á fisksjúkdómum, óæskilegri blöndun fiskstofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum. Með lögum nr. 50/1998 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sem höfðu þetta markmið en náðu eingöngu til hafbeitar. Sömu sjónarmið eiga hins vegar í mörgum tilvikum við um annars konar fiskeldi, einkum sjókvíaeldi þar sem alltaf fylgir því nokkur hætta á að eldisfiskur sleppi úr kvíum.
    Helstu nýmæli í frumvarpinu eru að landbúnaðarráðherra veitir rekstrarleyfi en samkvæmt gildandi lögum veitir veiðimálastjóri rekstrarleyfi. Veiðimálastjóri verður hins vegar umsagnaraðili um veitingu rekstrarleyfa. Einnig er í frumvarpinu mikilvægt nýmæli þar sem settar eru skýrar og afdráttarlausar reglur um á hvaða grunnsjónarmiðum landbúnaðarráðherra ber að byggja meðferð umsókna um rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar.
    Annað nýmæli er að landbúnaðarráðherra ber við meðferð umsókna um rekstrarleyfi að leita umsagnar dýralæknis fisksjúkdóma, fiskeldisnefndar, fisksjúkdómanefndar og veiðimálastjóra auk veiðimálanefndar. Einnig ber landbúnaðarráðherra að leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði gefi tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun.
    Með frumvarpinu er stofnuð sérstök nefnd, fiskeldisnefnd sem landbúnaðarráðherra skipar. Gert er ráð fyrir að fjórir menn eigi sæti í nefndinni, einn skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu veiðimálastjóra. Nefndinni er ætlað að vera til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi bæði á landi og í sjó og sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin með gildandi lögum á hverjum tíma.
    Í frumvarpinu eru að öðru leyti settar skýrari reglur um hvaða upplýsingar og gögn skuli fylgja umsókn um rekstrarleyfi. Nýmæli er að rekstrarleyfi skuli gefið út til 5 ára en landbúnaðarráðherra getur einnig ákveðið skemmri gildistíma rekstrarleyfis. Eðlilegt þykir að takmarka gildistíma rekstrarleyfis með þessum hætti þar sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir hjá stjórnvöldum um þessa atvinnugrein og því eðlilegt að stjórnvöld endurskoði reglulega ákvarðanir sínar um rekstrarleyfi og önnur atriði er varða slíka starfsemi. Einnig eru sett ákvæði um skilyrði sem nauðsynlegt þykir að landbúnaðarráðherra setji eða geti sett í rekstrarleyfi til fiskeldis- eða hafbeitar. M.a. er þar að finna ákvæði um að ef fyrirliggjandi gögn veita ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti geti landbúnaðarráðherra lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar, m.a. að framkvæma tilteknar rannsóknir á hvort starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar hafi í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra geti tekið ákvörðun um slíka rannsóknaskyldu áður en rekstrarleyfi er gefið út en einnig að rekstrarleyfi sé gefið út í takmarkaðan tíma og rannsóknaskylda sé lögð á leyfishafa á gildistíma rekstrarleyfisins. Geta þá niðurstöður slíkra rannsókna verið lagðar til grundvallar við ákvörðun um hvort framlengja skuli gildistíma rekstrarleyfis, heimila meiri framleiðslu o.fl. Einnig er í frumvarpinu ákvæði um tengsl rekstrarleyfa við ákvæði laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Nýmæli er í frumvarpinu um að rekstrarleyfi taki fyrst gildi þegar dýralæknir fisksjúkdóma og veiðimálastjóri hafa gert úttekt á fiskeldis- eða hafbeitarstöð. Eftir gildandi lögum skal gera úttekt á stöð áður en rekstrarleyfi er gefið út en það ákvæði hefur ekki reynst raunhæft í framkvæmd þar sem mannvirki stöðvanna og búnaður er oft ekki fyrir hendi þegar umsóknir um rekstrarleyfi eru til meðferðar. Einnig má nefna ákvæði um að heimilt sé að fella rekstrarleyfi úr gildi ef breytingar verða á eldistegundum og/eða framleiðslumagni og ákvæði um bann við framsali, leigu og veðsetningu rekstrarleyfis.
    Í frumvarpinu er nýmæli um gjaldtökuheimild fyrir útgáfu rekstrarleyfa svo og ákvæði um að embætti veiðimálastjóra skuli hafa eftirlit með fiskeldis- og hafbeitarstöðvum og um gjaldtöku fyrir slíkt eftirlit.
    Mikilvægt ákvæði er í frumvarpinu um að ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefur ekki hafið starfsemi að því marki sem gert var ráð fyrir í rekstraráætlun innan 12 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis geti landbúnaðarráðherra fellt rekstrarleyfi úr gildi. Sama gildir ef rekstraráætlun er ekki fylgt eftir þann tíma.
    Enn fremur er í frumvarpinu nýmæli um að skylt sé að tilkynna embætti veiðimálastjóra ef fiskeldisstöð missir út eldisfisk og að ítrekaðar slysasleppingar geti leitt til þess að landbúnaðarráðherra taki rekstrarleyfi til endurskoðunar eða felli það jafnvel úr gildi, svo og ákvæði um að ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði innan 12 klukkustunda eftir að hún missti út eldisfisk geti veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu.
    Þá kemur þar fram afdráttarlaust ákvæði um að fiskeldis- og hafbeitarstöðvum sé óheimilt að hefja starfsemi og að óheimilt sé að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar fyrr en rekstrarleyfi er fengið. Landbúnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá því. Einnig má nefna mikilvægt nýmæli um bann við flutningi eldistegunda sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva og einnig bann við flutningum og sleppingum lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða en veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum. Í núgildandi löggjöf eru ekki skýr ákvæði um þetta en mjög mikilvægt er að slík ákvæði séu í lögum þar sem slíkur flutningur getur falið í sér verulega aukna hættu á fisksjúkdómum og óæskilegri blöndun fiskstofna.
    Nýmæli er í frumvarpinu um að kynbættan eldislax megi eingöngu nýta til fiskeldis og lagt bann við því að hann sé nýttur til fiskræktar eða hafbeitar. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði í vísindalegum tilgangi. Einnig er þar ákvæði um bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði.
    Loks eru í frumvarpinu víðtækar heimildir fyrir landbúnaðarráðherra til að setja reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur til að stýra eldisstarfseminni, m.a er þar mikilvægt ákvæði um að landbúnaðarráðherra geti takmarkað eða bannað fiskeldi eða hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi, svo og ákvarðað heildarframleiðslu á hverju svæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er bætt við 1. gr. laganna nokkrum orðskýringum í samræmi við efni frumvarpsins að öðru leyti.

Um 2. gr.


    Lagt er til að ákvæði 3. mgr. 15. gr. laganna verði fellt brott en í 5. gr. frumvarpsins er nýtt ákvæði með svipuðu efni sem verður 78. gr. laganna en gengur þó mun lengra. Rétt þykir að þetta ákvæði verði í IX. kafla laganna um fiskeldi og hafbeit.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er að nokkru leyti samhljóða núgildandi ákvæði 62. gr. laga nr. 76/1970 en einnig eru gerðar á því ýmsar breytingar sem miða að því að gera það skýrara og ítarlegri ákvæði sett um ýmis atriði sem fjallað er um í ákvæðinu í núverandi mynd.
    Helstu nýmæli í ákvæðinu eru að útgáfa rekstrarleyfa til fiskeldis- og hafbeitar færist til landbúnaðarráðherra en samkvæmt gildandi löggjöf skal veiðimálastjóri gefa út rekstrarleyfi. Einnig er hér annað mikilvægt nýmæli en það er að í frumvarpinu er tekin afdráttarlaus afstaða til þess að við meðferð umsókna um rekstrarleyfi skuli landbúnaðarráðherra leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti fyrirhugaðrar starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. Enn fremur er það nýmæli að við meðferð umsókna um rekstrarleyfi ber landbúnaðarráðherra að leita umsagnar dýralæknis fisksjúkdóma, fiskeldisnefndar, fisksjúkdómanefndar og veiðimálastjóra auk veiðimálanefndar en eftir gildandi lögum ber veiðimálastjóra sem hefur á hendi útgáfu rekstrarleyfa eingöngu að leita umsagnar veiðimálanefndar. Landbúnaðarráðherra ber einnig að leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á svæðinu gefa tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun. Hér er um skyldubundið ákvæði að ræða. Eftir gildandi lögum er slík skylda eingöngu fyrir hendi þegar um er að ræða hafbeit og ef ljóst þykir að þessar aðstæður séu fyrir hendi.
    Í ákvæðinu er að finna ítarlegri upptalningu en áður um ýmsar upplýsingar og gögn sem skila ber með umsókn um rekstrarleyfi, t.d. um eignaraðild að fiskeldis- og hafbeitarstöð, fagþekkingu umsækjanda, stærð stöðvar, framleiðslumagn, eldistegundir, áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, rekstraráætlun, matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Upptalning í ákvæðinu á upplýsingum og gögnum sem ber að leggja fram með umsókn um rekstrarleyfi er ekki tæmandi og getur landbúnaðarráðherra óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum ef hann telur ástæðu til. Lagt er í vald landbúnaðarráðherra að meta hverju sinni hvaða upplýsingar og gögn skuli lögð fram með umsókn önnur en þau sem tilgreind eru í ákvæðinu.
    Hér er að finna upptalningu á ákvæðum sem skulu vera í rekstrarleyfi, t.d. um stærð fiskeldis- og hafbeitarstöðvar, hvers konar eldi um sé að ræða, leyfilegar tegundir í eldi, leyfilegt framleiðslumagn, hámark sleppinga á seiðum í hafbeit og skyldu fiskeldis- og hafbeitarstöðvar til annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skulu vera í rekstrarleyfi ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi og áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur en afar þýðingarmikið er að í rekstrarleyfi komi fram hvernig rekstrarleyfishafi ætlar að bregðast við komi til þess að fiskur sleppi.
    Einnig eru í ákvæðinu nýmæli um að ef fyrirliggjandi gögn veita ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja rekstri fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar geti landbúnaðarráðherra áður en rekstrarleyfi er gefið út lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar, m.a. að framkvæma á eigin kostnað tilteknar rannsóknir á hvort fyrirhuguð starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar hafi í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna. Slíkar ákvarðanir landbúnaðarráðherra skulu vera skriflegar og innihalda upplýsingar um hvað á að rannsaka og hvenær niðurstöður eigi að liggja fyrir. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á því í hverju slíkar rannsóknir geti verið fólgnar. Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að þetta ákvæði komi til framkvæmda ef landbúnaðarráðherra getur ekki tekið afstöðu til umsóknar um rekstrarleyfi nema slíkar rannsóknir liggi fyrir. Ljóst er að slíkar rannsóknir geta haft í för með sér verulegan kostnað og má telja eðlilegt að umsækjandi beri þann kostnað, einkum ef umsókn hans er þannig úr garði gerð eða aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði hans þannig að landbúnaðarráðherra getur ekki á grundvelli fyrirliggjandi gagna tekið afstöðu til þess hvort verða skuli við umsókn um rekstrarleyfi eða ekki. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að umsækjandi beri þennan kostnað. Hins vegar er ljóst að landbúnaðarráðherra ber við þessar ákvarðanir eins og aðrar að gæta meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og að beita þessu ákvæði ekki með meira íþyngjandi hætti en tilefni er til hverju sinni.
    Enn fremur er það nýmæli í ákvæðinu að rekstrarleyfi skuli gefin út til 5 ára en landbúnaðarráðherra getur þó ákveðið að rekstrarleyfi skuli gilda í skemmri tíma. Enn fremur er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra geti veitt slíkt rekstrarleyfi með skilyrði um að leyfishafi framkvæmi á eigin kostnað tilteknar rannsóknir tengdar aukinni hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna á gildistíma leyfisins eða hluta gildistímans. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á því í hverju slíkar rannsóknir geta verið fólgnar. Niðurstöður slíkra rannsókna geta orðið grundvöllur að ákvörðun landbúnaðarráðherra um að framlengja gildistíma leyfisins og/eða grundvöllur að leyfilegri aukningu á framleiðslumagni fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. Almennt verður að gera ráð fyrir að landbúnaðarráðherra beiti þessu ákvæði ekki nema það sé talið nauðsynlegt og ekki með meira íþyngjandi hætti en tilefni er til. Sömu sjónarmið eiga hér við og um rannsóknaskyldu áður en rekstrarleyfi er gefið út varðandi skyldu landbúnaðarráðherra til að gæta meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
    Í ákvæðinu kemur einnig fram að óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi fyrr en ákvörðun um matsskyldu eða úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eftir því sem við á. Mat á umhverfisáhrifum felur í sér að metin eru áhrif framkvæmdar og starfsemi hennar á umhverfið. Ákvörðun um hvort framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum er tekin á gundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000. Ekki er því hægt að taka ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrr en fyrir liggur niðurstaða um hvort framkvæmd skuli fara í mat á umhverfisáhrifum og ef svo er þá ekki fyrr en fyrir liggur niðurstaða úr mati á umhverfisáhrifum.
    Breytingar á eldistegundum og/eða framleiðslumagni geta samkvæmt ákvæðinu leitt til þess að landbúnaðarráðherra felli rekstrarleyfi úr gildi.
    Enn fremur er í ákvæðinu nýmæli um að framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis- eða hafbeitar sé óheimil. Rekstrarleyfi skulu samkvæmt því bundin við nafn leyfishafa. Með ákvæði þessu er gert ráð fyrir að rekstrarleyfi skuli bundið við þá fiskeldis- eða hafbeitarstöð sem fær það útgefið. Hér er átt við að óheimilt er að selja, leigja eða veðsetja rekstrarleyfi. Þetta ákvæði kemur þó ekki í veg fyrir að eigendaskipti geti orðið að fiskeldis- eða hafbeitarstöð ef sami lögaðili með sömu kennitölu er áfram handhafi rekstrarleyfisins. Með banni við framsali, leigu o.fl. er því átt við að óheimilt sé að selja rekstrarleyfi til annarra lögaðila eða einstaklinga en fengu leyfið útgefið. Samkvæmt því er hægt að selja fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar sem hafa rekstrarleyfi. Þetta þýðir hins vegar að ef einstaklingur er handhafi rekstrarleyfisins og rekstur fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar er á hans nafni getur þessi sami einstaklingur ekki framselt rekstrarleyfið með því að selja það eða leigja það eða reksturinn.
    Þá er í ákvæðinu heimild til gjaldtöku fyrir rekstrarleyfi. Gjaldið greiðist í ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að slík gjaldtaka miðist eingöngu við kostnað við meðferð umsóknar og útgáfu rekstrarleyfis samkvæmt gjaldskrá sem staðfest verður af landbúnaðarráðherra.
    Loks er í ákvæðinu það nýmæli að fiskeldis- eða hafbeitarstöðvum sé óheimilt að hefja starfsemi og óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar fyrr en þær hafa fengið rekstrarleyfi. Landbúnaðarráðherra getur þó veitt undanþágu til starfsemi og flutnings á eldisfiski eða seiðum í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar ef stöð hefur fengið starfsleyfi samkvæmt ákvæðum annarra laga. Hér er einkum átt við leyfi samkvæmt lögum nr. 7/ 1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Önnur skilyrði eru ekki sett um þetta atriði og lagt í vald landbúnaðarráðherra að meta hvenær veita skuli slíkar undanþágur. Sambærilegt ákvæði er í núgildandi löggjöf um hafbeit en ekki annars konar fiskeldi.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er að hluta til sama efnis og 72. gr. núgildandi laga. Einnig er það nýmæli í ákvæðinu að fiskeldisstöðvum sem missa út eldisfisk sé skylt að tilkynna það embætti veiðimálastjóra og að ítrekaðar slysasleppingar geti leitt til þess að landbúnaðarráðherra taki rekstrarleyfi til endurskoðunar og jafnvel felli það úr gildi. Með ítrekuðum slysasleppingum er átt við að fiskeldisstöð missi út fisk í annað skipti á tilteknu tímabili, t.d. einu ári eða skemmri tíma. Einnig er hér ákvæði um að ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði innan 12 klukkustunda eftir að hún missir út eldisfisk getur veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu með sömu skilyrðum og gilda um stöðina sjálfa. Ljóst er að mikil þörf er á þessu ákvæði og er lagt til að það verði lögfest með frumvarpi þessu.

Um 5. gr.


     Um a-lið (74. gr.).
    Í ákvæði þessu er gert ráð fyrir að ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefur ekki hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun innan 12 mánaða eftir útgáfu rekstrarleyfis sé landbúnaðarráðherra heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi og einnig ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð fylgir ekki rekstraráætlun eftir þann tíma. Ákvæði þessu er ætlað að sporna við því að fiskeldis- og hafbeitarstöðvar eða aðrir aðilar afli sér rekstrarleyfa ef ekki er fyrirhugaður raunverulegur rekstur á grundvelli leyfisins. Fiskeldi er takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að koma í veg fyrir að aðilar helgi sér staði víðs vegar um landið sem hagkvæmir eru til starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva án þess að hafa í hyggju að nýta þá aðstöðu og takmarka þannig aðgang annarra að henni. Nokkur umræða hefur verið um að hætta sé á að aðilar vilji safna rekstrarleyfum í þeim tilgangi að auðvelt verði að koma þeim í verð síðar en með frumvarpi þessu er hins vegar girt fyrir þann möguleika þar sem í 7. mgr. 3. gr. frumvarpsins, sem verður 7. mgr. 62. gr. laganna, er ákvæði um bann við framsali, leigu og veðsetningu rekstrarleyfa.
     Um b-lið (75. gr.).
    Ákvæðið tengist að nokkru leyti ákvæði 69. gr. laganna en einnig er hér það nýmæli að embætti veiðimálastjóra skuli hafa eftirlit með starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Hér er m.a. átt við eftirlit með eldisrými, fóðurnotkun og framleiðslumagni en ekki er gert ráð fyrir að þessi listi sé tæmandi. Lagt er í vald veiðimálastjóra að meta hversu víðtækt slíkt eftirlit á að vera. Einnig er hér að finna heimild til gjaldtöku fyrir slíkt eftirlit veiðimálastjóra en gert ráð fyrir að sú gjaldtaka verði fast árlegt gjald sem miðist við hlutfall af brúttósöluverði framleiðslu fiskeldis- og hafbeitarstöðva samkvæmt ársreikningi næstliðið ár á undan og er enn fremur bundið við lágmarksfjárhæð sem skal breytast um hver áramót í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Gjaldið greiðist í ríkissjóð. Rétt þótti að fara þessa leið við ákvörðun um gjaldtöku fyrir eftirlit þar sem ljóst er að erfitt er að koma við gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá fyrir einstaka liði eftirlits en eftirlitið getur verið mismunandi eftir einstökum fiskeldis- eða hafbeitarstöðvum. Þá er í ákvæðinu fjallað um með hvaða hætti gjaldið skuli innheimt og viðurlög ef það er ekki greitt á eindaga. Í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er einnig gert ráð fyrir sérstöku eftirliti vegna starfsleyfis samkvæmt þeim lögum en þar er um að ræða annan eftirlitsaðila.
     Um c-lið (76. gr.).
    Hér er lögfest að kynbættan eldislax megi eingöngu nýta til fiskeldis og lagt bann við því að hann sé nýttur til fiskræktar og hafbeitar. Hins vegar er í ákvæðinu undanþága til að kanna slíka notkun vísindalega, sem gæti haft bæði hagnýta og vísindalega þýðingu.
    Einnig er lagt til að lögfesta ákvæði um bann við flutningi eldistegunda sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Enn fremur er lagt til að lögfest verði bann við flutningi á lifandi fiski og frjóvguðum hrognum milli ótengdra vatnasvæða. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum 2. mgr. að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma og fisksjúkdómanefndar. Við ákvörðun um hvort undanþága skuli veitt eða ekki er gert ráð fyrir að veiðimálastjóri leggi sjálfstætt mat á hvort slíkir flutningar kunni að hafa í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna. Veiðimálastjóri skal einnig leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á svæðinu gefi tilefni til aukinnar hættu á óæskilegri blöndun fiskstofna. Í núgildandi löggjöf eru ekki sambærileg ákvæði en ljóst er að mjög mikilvægt er að slík ákvæði séu í lögum. Flutningar eldistegunda sem ekki eru fyrir í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvum milli stöðva geta haft ófyrirsjáanleg og skaðleg áhrif. Einnig er ljóst að flutningur lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða getur haft skaðleg áhrif, bæði sjúkdómstengd og vistfræðileg. Veiðimálastjóri mun ekki hafa óbundnar hendur við ákvarðanatöku samkvæmt þessu ákvæði en í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji reglugerð þar sem nánar verður kveðið á um framkvæmd þessa ákvæðis.
     Um d-lið (77. gr.).
    Nauðsynlegt þykir að setja ákvæði um bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði þar sem slíkur innflutningur getur haft í för með sér verulega sjúkdómahættu.
     Um e-lið (78. gr.).
    Í þessu ákvæði eru heimildir fyrir landbúnaðarráðherra til að setja reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur sem nýttar verða til að stýra eldisstarfseminni bæði með tilliti til svæðaskiptingar og magns á hverju svæði svo og takmarkanir á fiskeldisstarfseminni á vissum viðkvæmum svæðum. Einnig er sett inn heimild til að krefjast örmerkinga á nokkrum hluta eða jafnvel öllum seiðum sem sett eru í sjókvíaeldi en umræða hefur verið um slíkt í nágrannalöndunum.

Um 6. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála og er það óbreytt frá gildandi lögum en í gildandi ákvæði segir að landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn allra veiðimála. Einnig kemur fram í ákvæðinu að til aðstoðar landbúnaðarráðherra um stjórn fiskeldis- og veiðimála séu fiskeldisnefnd, veiðimálanefnd og veiðimálastjóri. Hér hefur fiskeldisnefnd verið bætt við þá aðila sem hafa það hlutverk að aðstoða ráðherra við stjórn fiskeldis- og veiðimála en samkvæmt gildandi ákvæði eru það einungis veiðimálanefnd og veiðimálastjóri. Fiskeldisnefnd er nýmæli í lögum þessum og er gerð grein fyrir skipan hennar og hlutverki í 7. gr., sbr. umfjöllun um það ákvæði hér á eftir.

Um 7. gr.


    Lagt er til að stofnuð verði sérstök nefnd, fiskeldisnefnd, sem í eiga sæti fjórir menn skipaðir af landbúnaðarráðherra til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu veiðimálastjóra. Hlutverk fiskeldisnefndar er að vera til ráðgjafar og að taka þátt í stefnumótun um fiskeldi bæði á landi og í sjó. Eins og tilnefningum í nefndina er háttað er hér um að ræða embættismannanefnd en í nefndinni eiga eingöngu sæti aðilar sem tilnefndir eru af opinberum stofnunum. Nefndinni er ætlað að tryggja samráð og samræma sjónarmið landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis um fiskeldi á landi og í sjó en gera má ráð fyrir að verkefni nefndarinnar varði m.a. staðsetningu fiskeldis- og hafbeitarstöðva, leyfilegar eldistegundir, stærðir stöðva og eldiseininga, söfnun upplýsinga um fiskeldi í öðrum löndum, uppbyggingu stoðgreina sem þörf er á við fiskeldi og fleiri atriði sem geta varðað starfrækslu fiskeldis og hafbeitar. Einnig er nefndinni samkvæmt 62. gr. laganna ætlað að vera umsagnaraðili um veitingu rekstrarleyfa sem landbúnaðarráðherra gefur út. Þá er fiskeldisnefnd ætlað að vera umsagnaraðili við ákvarðanir landbúnaðarráðherra samkvæmt 78. gr. laganna um að takmarka eða banna fiskeldi eða hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi og ákvarðanir um svæðaskiptingu meðfram strönd landsins og heildarframleiðslu á hverju svæði. Þá mun nefndin sinna þeim verkefnum sem henni eru falin samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma.

Um 8. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið samræmist ákvæði 4. mgr. 62. gr. núgildandi laga. Mikill misbrestur er á að þessu ákvæði hafi verið fylgt í framkvæmd. Ef þetta frumvarp verður að lögum verður fiskeldis- og hafbeitarstöðvum sem eru í rekstri í dag óheimilt að starfa að ári liðnu nema þær hafi fengið rekstrarleyfi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um lax- og silungsveiði,
nr. 76/1970, með síðari breytingum.

    Tilgangur með frumvarpinu er að setja skýrari og ítarlegri ákvæði um fiskeldi og hafbeit. Kveðið er á um aukinn leyfiskostnað og eftirlit. Gert er ráð fyrir að sótt verði um 5–10 leyfi til hafbeitar og fiskeldis árlega. Einnig verður innt af hendi eftirlit með um 60 eldisstöðvum. Skv. 3. gr. skulu leyfisgjöld og grunnrannsóknir vera greidd samkvæmt gjaldskrá staðfestri af landbúnaðarráðherra. Eftirlitsgjöld skv. 6.gr. frumvarpsins eru 0,25% af brúttósöluverði framleiðslu fiskeldis- og hafbeitarstöðva miðað við ársreikning næstliðið ár á undan álagningu. Ekki verður hægt að innheimta gjaldið fyrr en einu ári eftir gildistöku laganna og því er ekki gert ráð fyrir innheimtu fyrir árið 2001. Áætlað er að eftirlitsgjaldið skili um 8 m.kr. frá og með árinu 2002. Áætlað er að leyfis- og eftirlitsgjöld komi á móti auknum kostnaði sem frumvarpið hefur í för með sér. Einnig er kveðið á um að stofna skuli fiskeldisnefnd. Kostnaður við nefndina er áætlaður um 0,5 m.kr. og gert er ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan fjárheimilda landbúnaðarráðuneytisins.