Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 648  —  340. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um útvarpsgjald.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Lítur ráðherra á útvarpsgjald, afnotagjald Ríkisútvarpsins, sem skatt eða þjónustugjald? Flokkist það sem þjónustugjald, hvernig er þá þjónustan sem er keypt skilgreind?
     2.      Hverjir njóta undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds eða fá afslátt af því og á grundvelli hvaða laga?
     3.      Telst undanþága frá greiðslu útvarpsgjalds til skattskyldra hlunninda?

    Svar menntamálaráðherra er byggt á upplýsingum sem óskað var frá Ríkisútvarpinu í tilefni af fyrirspurninni.
    Svo sem reglum um útvarpsgjald er skipað með ákvæðum laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, er ekki með öllu einhlítt hvort telja beri það þjónustugjald eða skatt. Það hefur nokkur einkenni hvors tveggja. Ef einvörðungu er horft til þeirra grunnþátta sem liggja innheimtu þess að baki ber vísast að telja það þjónustugjald. Sú staðreynd að mönnum er gert að greiða gjaldið án tillits til þess hvort þeir þiggja eða vilja þiggja þá þjónustu sem því er ætlað að standa undir, og í því sambandi það látið ráða úrslitum hvort menn eiga viðtæki sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, hefur óneitanlega á sér viss einkenni skattheimtu.
    Samkvæmt 3. gr. laganna eru gerðar allt aðrar og meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra fjölmiðla um fjölbreytni í dagskrá og hátt þjónustustig m.a. um dreifingu útvarpsefnis. Ríkisútvarpinu er m.a. ætlað að veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða. Einnig skal það veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega. Þá skal Ríkisútvarpið flytja efni á sviði lista og bókmennta, vísinda og sögu, auk tónlistar. Sérstaklega skal þess gætt að flytja fjölbreytt efni við hæfi barna. Ríkisútvarpið skal flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Því ber lögum samkvæmt að senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.
    Um undanþágur og afslátt af útvarpsgjaldi er fjallað í 12. gr. laga um Ríkisútvarpið og í reglugerð nr. 357/1986, um Ríkisútvarpið, með síðari breytingum. Samkvæmt þeim skal sá viðtækjaeigandi sem einungis getur nýtt sér hljóðvarpssendingar greiða 30% útvarpsgjalds. Aðeins skal greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Viðtæki í sumarbústað og einkabíl teljast á heimili. Sjúkrahús, heilsuhæli, vistheimili, dvalar- og elliheimili og sjúkradeildir slíkra stofnana, skólar, aðrar stofnanir og fyrirtæki skulu greiða 50% útvarpsgjald af hverju aukasjónvarpstæki í samfelldri notkun. Vistmenn dvalar- og elliheimila með eigin tæki í notkun þar greiða ekki útvarpsgjald af þeim. Gistihús greiða 25% útvarpsgjalds af hverju aukasjónvarpstæki og 7,5% útvarpsgjalds af hverju aukahljóðvarpstæki. Skip í millilandasiglingum greiða hálft útvarpsgjald af hverju viðtæki og heimilt er að lækka gjald af tækjum í fiskiskipum sem um lengri tíma veiða á fjarlægum miðum. Elli- og örorkulífeyrisþegar fá 20% afslátt af útvarpsgjaldi. Þeir einstaklingar sem nutu undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds 1. júní 1997, en uppfylltu ekki skilyrði til að fá hækkun á heimilisuppbót þann dag, skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 302/1997, skulu áfram undanþegnir greiðslu útvarpsgjalds. Undanþágan skal þó falla niður ef þeir öðlast síðar rétt til heimilisuppbótar. Þá er útvarpsstjóra falið að undanþiggja blinda frá útvarpsgjaldi, samkvæmt nánari tillögum frá samtökum blindra.
    Loks eru starfsmenn Ríkisútvarpsins undanþegnir útvarpsgjaldi, fyrrverandi starfsmenn þess og nokkrir fyrrverandi starfsmenn Landssímans. Ráðuneytið hefur gert á því sérstaka skoðun hvaða lög heimili undanþágu til handa starfsmönnum Ríkisútvarpsins frá greiðslu útvarpsgjalds. Niðurstaða ráðuneytisins er að ekki er að finna í lögum eða reglugerð um Ríkisútvarpið, né í eldri lögum eða reglugerðum um sömu stofnun, sérstaka heimild til slíkrar undanþágu. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 hefur starfsmönnum stofnunarinnar verið veitt undanþága frá greiðslu útvarpsgjalds og nutu flestir starfsmenn þessara fríðinda, þó með takmörkunum. Þá ályktun má a.m.k. draga af þeim gögnum sem aflað hefur verið að hér sé um að ræða venju frá upphafi ríkisrekstrar á útvarpi. Það fyrirkomulag á undanþágum sem nú er í gildi um starfsmenn Ríkisútvarpsins á rætur sínar að rekja aftur til fyrri hluta árs 1977, en þá stóð yfir kjaradeilda starfsmanna Ríkisútvarpsins og ríkisins. Í tengslum við þá deilu féllst ráðuneytið á það í bréfi til Ríkisútvarpsins, dags. 31. mars 1977, eftir málaleitan útvarpsstjóra, að fastráðnir starfsmenn, sem unnið hefðu við stofununina í a.m.k. þrjú ár, greiddu ekki afnotagjald af einu sjónvarpstæki né af útvarpsviðtæki og að fastráðnir starfsmenn, sem unnið hefðu skemur en þrjú ár, greiddu hálft afnotagjald af einu sjónvarpstæki en ekki af útvarpstækjum. Þessara hlunninda nytu þó ekki aðrir fastir starfsmenn en þeir sem unnið hefðu í a.m.k. eitt ár við stofnunina. Hér er um að ræða athugasemdalausa framkvæmd til margra áratuga, sem ráðherra gerði síðast grein fyrir í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi í apríl sl.
    Skattstjórinn í Reykjavík ritaði Ríkisútvarpinu og Íslenska útvarpsfélaginu bréf 23. október 2000 þar sem vísað er til laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, um að endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila teldist til skattskyldra tekna. Telur skattstjórinn í Reykjavík að til slíkra skattskyldra fríðinda starfsmanna stofnunarinnar teljist þau fríðindi sem felast í niðurfellingu afnotagjalda af fjölmiðlum sem stofnunin rekur. Í bréfi skattstjórans í Reykjavík frá 3. janúar 2001 til Ríkisútvarpsins er enn ítrekaður fyrrgreindur skilningur skattyfirvalda og því ekki tekið undir sjónarmið lögmanns Ríkisútvarpsins um að réttarvenja hafi skapast, að aðgerðaleysi skattyfirvalda hafi áhrif á skattlagningu og það sé ein af starfsskyldum starfsmanna Ríkisútvarpsins að fylgjast grannt með dagskrá stofnunarinnar. Endanleg niðurstaða er ekki fengin í málinu.