Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 660  —  379. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    


    Með dómi Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins töldu margir að endir væri fenginn í áralangri deilu á milli öryrkja og ríkisvaldsins um það hver réttur öryrkja til aðstoðar úr opinberum sjóði væri. Dómur Hæstaréttar er skýr og hann er í fullu samræmi við kröfugerð Öryrkjabandalagsins, svo mjög að hvorugum málsaðila datt í hug eftir uppkvaðningu að ekki yrði fallist á hina skýru niðurstöðu hans. En viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa sett málin í þann farveg sem engan óraði fyrir og með meðferð sinni á málinu, ef fram heldur sem horfir, hefur ríkisstjórninni tekist að sjá til þess að enn um skeið munu öryrkjar þurfa að heyja baráttu fyrir dómstólum fyrir stjórnarskrárvörðum rétti sínum. Stjórnarandstaðan fordæmir meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu og er í grundvallaratriðum ósammála fráleitri túlkun hennar á skýrum dómi Hæstaréttar. Er það mat minni hluta nefndarinnar að í frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi sé ríkisstjórnin að brjóta gegn skýrum fyrirmælum Hæstaréttar um að tenging tekjutryggingar örorkulífeyrisþega við tekjur maka sé óheimil, sbr. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, og að frumvarpið feli í sér brot á stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum. Í ljósi þessa mun minni hlutinn leggja til að málinu verði vísað frá. Mun minni hlutinn í nefndaráliti þessu rökstyðja nánar þessa niðurstöðu sína.
    Minni hlutinn lýsir yfir furðu sinni á því hversu mikla þverúð ríkisstjórnin hefur sýnt í málinu og fullyrðir að slík meðferð á hópi sem sannanlega hafa verið brotin mannréttindi á sé einsdæmi. Virðist það víðs fjarri að nokkur vilji sé til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að binda enda á þessa áralöngu þrætu við öryrkja. Rétt er að rifja það upp að fyrst þegar deilan kemur fyrir dómstól var það einhuga niðurstaða þriggja dómara þar að Tryggingastofnun (ríkisvaldinu) hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tengingar við tekjur maka á tímabilinu 1994–1998. Tryggingastofnun (ríkisvaldið) áfrýjaði niðurstöðunni varðandi þetta tímabil eigi að síður til Hæstaréttar þrátt fyrir að málið væri augljóslega tapað hvað þetta tímabil varðar. Eðlilegra hefði verið fyrir ríkisvaldið að láta a.m.k. þessum hluta málsins lokið þar sem hverjum manni mátti vera ljóst að þar fór ríkisvaldið með vafasaman málflutning, enda kom í ljós að Hæstiréttur var einhuga um að Tryggingastofnun (ríkisvaldinu) hefði verið óheimilt að tengja tekjutryggingu öryrkja við tekjur maka á þessu tímabili. Í lýðræðisþjóðfélagi kallar niðurstaða sem þessi frá æðsta dómstóli þjóðfélags á einföld viðbrögð: að ríkisvaldið virði niðurstöðu dómsins og geri að fullu upp við þann hóp sem brotið var á. En niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að aðeins þurfi að gera upp að hluta við þennan hóp og vitnar til fyrningarreglna. Slík framkoma lýsir vafasamri beitingu ríkisstjórnarinnar á valdi sínu, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.

Aðdragandi málsins og helstu málavextir.
    Aðdragandi þess máls sem hér er til umfjöllunar er sá að 1. janúar 1994 tóku gildi ný heildarlög um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem enn eru í gildi að stofni til. Í lögunum var ekki að finna heimild til skerðingar tekjutryggingar á grundvelli tekna maka heldur var einungis heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna öryrkjans sjálfs. Í kjölfar laganna var sett reglugerð nr. 485/1995 þar sem kveðið var á um í 2. mgr. 4. gr. hennar að heimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Þessari reglu var beitt til skerðingar tekjutryggingar örorkulífeyrisþega allt frá gildistöku laganna og þar til lög nr. 149/1998 tóku gildi. Ágreiningurinn í málinu snýst því um tvö tímabil, í fyrsta lagi tímabilið þegar reglugerðin var grundvöllur skerðingar og í öðru lagi tímabilið eftir að lög nr. 149/1998 tóku gildi, eða frá 1. janúar 1999. Kröfur Öryrkjabandalagsins í málinu ná til þessara tveggja tímabila.
    Hvað fyrra tímabilið varðar vekur minni hlutinn athygli á því að í héraðsdómi þeim sem síðan var áfrýjað til Hæstaréttar sem felldi þann dóm sem frumvarp ríkisstjórnarinnar er sprottið af kemur fram að fjölmargir félagsmenn aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins hafi leitað réttar síns hjá Tryggingastofnun ríkisins á þeim grundvelli að reglugerðina skorti lagastoð en án árangurs. Þá hafi sumir leitað til umboðsmanns Alþingis á sama grundvelli en án árangurs. Þannig hafi umboðsmaður í áliti 13. apríl 1998 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 485/1995 hafi verið lögmætt en þar er m.a. fjallað um það til hvaða lagastoðar reglugerðin sæki gildi sitt. Byggði hann álit sitt á því að í eldri lögum hefði verið fullnægjandi lagaheimild til skerðingarinnar og ekki yrði fullyrt að brottfall sérstakrar reglugerðarheimildar benti til breytingar á framkvæmd laganna að þessu leyti. Öryrkjabandalagið mótmælti þessari túlkun umboðsmanns og taldi hana ekki fullnægja viðteknum túlkunarkostum, m.a. um lögmæti og að lagaákvæði um takmarkanir á mannréttindum skuli vera skýr og ótvíræð. Þeir þrír dómarar sem dæmdu málið í héraðsdómi komust allir að þeirri niðurstöðu að umrætt skerðingarákvæði í reglugerðinni hefði skort lagastoð og skerðing á grundvelli þess væri því óheimil. Sama var uppi á teningnum í Hæstarétti þar sem það var samdóma niðurstaða þeirra fimm dómara sem málið dæmdu að reglugerðarheimild hefði skort og skerðing á grundvelli hennar því óheimil.
    Með lögum nr. 149/1998 var umdeilt skerðingarákvæði lögfest og varð að 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993. Stjórnarandstaðan í heilbrigðis- og trygginganefnd skilaði séráliti þegar frumvarp til laganna var afgreitt úr nefndinni þar sem sérstaklega var gagnrýnd sú málsmeðferð sem frumvarpið fékk í þinginu, en frumvarpið var lagt fram degi áður en þingi var frestað í desember 1998 og því var hvorki unnt að senda málið til umsagnar né gafst tóm til ítarlegrar umræðu í þinginu. Í áliti minni hlutans segir enn fremur:
    „Fyrir liggur að hér kann að vera um brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar [að ræða]. Fyrir því liggja eftirfarandi rök:
1.      Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“
2.      Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
    Í þessum greinum er því skýlaust lýst yfir að allir skuli jafnir fyrir lögum og að allir skuli njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar. Undir orðalag 65. gr., þar sem rætt er um „stöðu að öðru leyti“, fellur ljóslega hjúskaparstaða. Þegnum ríkisins verður því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.
    Í ljósi þessa getur stjórnarandstaðan ekki greitt atkvæði með málinu. Hún hefur jafnframt bent á leiðir sem gætu tryggt að ívilnun gagnvart bótaþegum hefði náð fram að ganga án þess að lögfest yrðu ákvæði sem mögulega fælu í sér mannréttindabrot. Við því vildi meiri hlutinn ekki verða. Stjórnarliðið verður því að bera ábyrgð á samþykkt framangreindra laga.“
    Undir þetta álit skrifuðu Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir. Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra, og Guðný Guðbjörnsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kvennalistans, tóku þátt í afgreiðslu málsins og voru samþykk álitinu.
    Í framhaldi af þessu hefur stjórnarandstaðan tvívegis lagt fram frumvarp sem mælt hefur fyrir um afnám tengingar tekjutryggingar við tekjur maka, það fyrra á 125. þingi og nú liggur fyrir þinginu frumvarp þessa efnis sem þegar hefur verið vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og bíður þar afgreiðslu.

Dómur Hæstaréttar og viðbrögð ríkisstjórnarinnar í kjölfar hans.
    Dómur Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 2000 í málinu nr. 125/2000: Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök, staðfestir að skilningur stjórnarandstöðunnar í málinu hefur verið réttur frá upphafi.
    Viðbrögð Öryrkjabandalags Íslands við lögum nr. 149/1998 voru snögg. Einungis nítján dögum eftir að lögin tóku gildi stefndi bandalagið Tryggingastofnun ríkisins. Kröfur Öryrkjabandalags Íslands voru í fyrsta lagi að skerðing skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 væri óheimil (fyrra tímabilið) og var fallist á það eins og rakið var hér að framan og jafnframt að skerðing tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka skv. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, sbr. lög nr. 149/1998, væri óheimil (síðara tímabilið).
    Öryrkjabandalagið byggði kröfu sína fyrir síðara tímabilið á því að skerðing tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á grundvelli tengingar við tekjur maka væri andstæð 76. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um rétt til aðstoðar vegna örorku, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og vísaði í þessu sambandi til 12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og 9. og 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Jafnframt taldi Öryrkjabandalagið að skerðingin væri andstæð jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar sem ætti rót sína að rekja til 2. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Fleiri lagarök voru tínd til, svo sem að skerðingarreglan væri í andstöðu við 1. gr. laga um málefni fatlaðra.
    Það er skemmst frá því að segja að meiri hluti Hæstaréttar féllst að fullu á seinni kröfu Öryrkjabandalags Íslands. Þetta má glöggt sjá þegar kröfugerð Öryrkjabandalagsins fyrir Hæstarétti og dómsorð réttarins eru lesin saman. Kröfugerð Öryrkjabandalagsins var svohljóðandi:
    „…að einnig verði viðurkennt með dómi Hæstaréttar, að aðaláfrýjanda hafi frá 1. janúar 1999 verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.“
    Dómsorð Hæstaréttar hljóðaði svo:
    „Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.“
    Það er óumdeild meginregla í lögfræði að við túlkun dóma skuli fyrst og fremst taka mið af kröfugerð aðila annars vegar og dómsorði hins vegar. Minni hlutinn telur ljóst að Hæstiréttur hafi með skýru dómsorði sínu, sem er orðrétt samhljóða kröfugerð Öryrkjabandalagsins, verið að banna þá aðferð sem fram kemur í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993 og felst í því að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega með tengingu við tekjur maka. Ríkisstjórnin hefur hins vegar þá túlkun á dómi Hæstaréttar í frammi að þrátt fyrir skýrt dómsorð hafi Hæstiréttur verið að meina eitthvað annað sem lesa megi úr því sem segir í forsendum dómsins. Minni hlutinn hafnar slíkri túlkun algerlega og vekur athygli á því að sameiginlegur skilningur Eiríks Tómassonar lagaprófessors, Sigurðar Líndal lagaprófessors og Skúla Magnússonar lektors var að það vægi þungt við skýringu á dómi ef kröfugerð annars aðila væri tekin beint upp í dómsorð. Undir þetta tóku fleiri lögfræðingar sem komu fyrir nefndina. Slíkt mælti tvímælalaust með því að túlka dóminn á þann veg sem stjórnarandstaðan gerir. Eiríkur Tómasson sagði jafnframt að í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar væri ekki mikið fjallað um þetta atriði og hvers vegna það hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu þegar valið væri á milli tveggja skýringarkosta. Aðspurður hvort með leið ríkisstjórnarinnar væri hún að taka áhættu vegna ásakana um mannréttindabrot svaraði Eiríkur Tómasson því til fyrir nefndinni að svo væri vegna þess að ekki væri hægt að fullyrða með óyggjandi hætti hver yrði niðurstaða dómstóla ef málið yrði borið undir þá að nýju, en það væri hins vegar pólitískt mat hvort slík áhætta yrði tekin. Í þessu sambandi má benda á dóm Hæstaréttar frá árinu 1988, bls. 1532 í dómasafni Hæstaréttar, en þar er vakin athygli á þeirri staðreynd að mannréttindi séu sett til verndar borgurunum en ekki stjórnvöldum. Því er eðlilegt að túlka dóminn mannréttindasjónarmiðinu í hag.
    Eins og sjá má að framan fellst meiri hluti Hæstaréttar án fyrirvara á kröfu Öryrkjabandalagsins í dómsorðinu og þar birtist niðurstaða hans. Í forsendum dóma koma hins vegar fram rök dómsins fyrir þeirri niðurstöðu sem birtist í dómsorði og ber að túlka það með hliðsjón af þeim. Ekki er óeðlilegt að þar sé í einhverjum mæli komið inn á mótrök en slíkt er þá iðulega gert til að skerpa á niðurstöðunni. Þetta má glögglega sjá á nokkrum stöðum í dóminum, t.d. þar sem fjallað er um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna. Hæstiréttur hrindir þeirri staðhæfingu að hér sé grundvöllur sem réttlæti skerðingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka með því að benda á að slík framfærsluskylda sé ekki á milli sambúðarfólks, en skv. 44. gr. laga nr. 117/1993 gildir 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga einnig um sambúðarfólk. Þessu tengt fjallar Hæstiréttur um breytinguna sem varð á stjórnarskránni árið 1995. Ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem með breytingunni varð að 76. gr., hljóðaði svo:
    „Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja.“
    Með breytingunni varð hins vegar grundvallarbreyting á ákvæðinu sem leiddi til þess að um einstaklingsbundinn lágmarksframfærslurétt varð að ræða sem löggjafanum er óheimilt að leggja á herðar annarra, eins og heimilt var samkvæmt eldra ákvæðinu. Ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hljóðaði svo eftir breytinguna:
    „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“
    Af orðalagi ákvæðisins eftir breytinguna má vera fullljóst að heimildin til að leggja umrædda lágmarksframfærslu á herðar annarra var felld niður. Þetta má einnig glögglega lesa úr orðum Hæstaréttar þar sem hann fjallar um þetta og undirstrikað er með eftirfarandi orðum í dómnum:
    „Samkvæmt framanrituðu verður 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt.“
    Annað dæmi um þetta er þegar Hæstiréttur bendir á að í lögum sé þó víða tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks og bendir í því sambandi á skattalög og lög um félagslega aðstoð og dregur af því þá ályktun að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki, enda hafi löggjafinn í þessum tilvikum metið það málefnalegt og fært það í lög og við það er ekki gerð athugasemd, enda var þess ekki krafist. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar má einnig segja að löggjafinn hafi metið það málefnalegt með lögfestingu laga nr. 149/ 1998 að skerða þann lágmarksframfærslueyri sem felst í tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka en það er hins vegar það málefnalega mat löggjafans sem Hæstiréttur telur að stangist á við stjórnarskrána og alþjóðlega sáttmála sem íslenska ríkið er bundið af og skerðing á þessum grundvelli því talin óheimil.
    Í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar sem frumvarp hennar byggist á og birt er sem fylgiskjal með því er framangreind setning úr dómi Hæstaréttar um að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki slitin úr því samhengi sem hún er sett fram í og dregin sú ályktun að með þessu sé Hæstiréttur að segja að heimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka en bara ekki eins mikið og nú er gert! Þessu heldur starfshópurinn fram þó svo að í málinu hafi einungis verið fjallað um það hvort þessi aðferð við skerðingu væri heimil eða ekki. Með öðrum orðum, Öryrkjabandalagið hélt því fram að þetta væri óheimilt og gerði kröfu um slíkt en Tryggingastofnun gerði kröfu um að því yrði hafnað og stofnunin sýknuð. Öryrkjabandalagið krafðist þess aðeins að sú aðferð að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka yrði dæmd óheimil, m.a. á grundvelli þess að hún væri andstæð stjórnarskrá. Í málinu var ekki deilt um fjárhæðir heldur aðferð og þá aðferð dæmdi Hæstiréttur ólögmæta.
    Starfshópurinn leggur mikið upp úr þeim orðum sem birtast í forsendum dóms Hæstaréttar þar sem segir að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998. Starfshópurinn túlkar orðin „á þann hátt“ sem endanlega staðfestingu á því sem áður hefur komið fram að Hæstiréttur sé að segja að heimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka ef það er gert í minna mæli en nú er gert og á þessu er 1. gr. frumvarpsins byggð. Starfshópurinn dregur síðan ályktun af þessu og segir:
    „Í dóminum felst því ekki, að með öllu sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Það er aðeins samkvæmt dómsorðunum óheimilt að gera á þann hátt, sem gert er í 5. mgr. 17. gr. Til að ákveða hvað teljast megi heimilt og hvað ekki í þessu efni, þarf nánari athugun á forsendum dómsins.“
    Hér kemur alvarleg staðreyndavilla fram í orðum starfshópsins því að það stendur alls ekki í dómsorðinu að það sé óheimilt að skerða á þann hátt heldur kemur orðalagið á þann hátt aðeins fyrir í forsenduorðum Hæstaréttar. Starfshópurinn virðist þó átta sig á þessu því hann segir: „Þetta orðalag er raunar notað í forsendum dómsins.“ Engu síður heldur hann ótrauður áfram að túlka dóminn eins og umrætt orðalag komi fram í dómsorðinu sjálfu eins og sjá má í tilvitnun hér að ofan. Þetta verður að telja alvarlegan galla á röksemdafærslu starfshópsins og er nægjanlegt til að varpa rökstuddum vafa á þá niðurstöðu sem hópurinn kemst að og birtist í 1. gr. frumvarpsins. Það er óumdeild grundvallarregla innan lögfræðinnar að túlka beri dómsorð með hliðsjón af forsendum dómsins en ekki öfugt, sé þess á annað borð þörf sem ekki verður talið í þessu máli þar sem Hæstiréttur felst orðrétt á kröfu Öryrkjabandalagsins. Í samræmi við þetta er því síður heimilt að taka eina setningu úr forsendunum og túlka dómsorðið og að auki allar aðrar forsendur sem fram koma í dóminum með hliðsjón af henni eins og gert er í skýrslu starfshópsins. Telji menn að þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi fallist orðrétt á kröfu Öryrkjabandalags Íslands í dómsorði sé þörf á að túlka það frekar hljóta menn að gera það með því að túlka dómsorðið með hliðsjón af forsendunum. Ef þannig er litið á málið má augljóst vera að Hæstiréttur er með orðalaginu „á þann hátt“ að árétta að einungis sé óheimilt að beita þeirri aðferð við skerðingu að tengja tekjutryggingu örorkulífeyrisþega við tekjur maka og að eftir sem áður sé heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna öryrkjans sjálfs, enda kemur það skýrlega fram í málflutningi beggja aðila að ekki er ágreiningur um hið síðarnefnda, né gerð krafa um að slíkt yrði dæmt óheimilt.
    Í l. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að áfram verði heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Í samræmi við framangreint er ákvæðið í beinni andstöðu við dóm Hæstaréttar og verður því talið brjóta gegn ákvæðum 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem íslenska ríkið er skuldbundið af.
    Meiri hluti nefndarinnar kemst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, eigi við um kröfur þeirra örorkulífeyrisþega sem rétt eiga samkvæmt dómi Hæstaréttar. Minni hlutinn mótmælir þessum skilningi. Minni hlutinn vill þó benda á að jafnvel þótt fallist verði á skilning meiri hlutans þá séu ýmis álitaefni uppi hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi hefur verið bent á í umræðu um málið að höfðun viðurkenningarmáls slíti fyrningu og því sé ekki rétt að nota fyrningarreglur eins og gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar við túlkun dómsins aftur í tímann. Helsta málsvörn ríkisstjórnarinnar gegn þessum málflutningi er vísun í dóm Hæstaréttar nr. 46/1998 þar sem fjallað var um endurgreiðslu aðflutningsgjalda sem greidd voru af tollyfirvöldum vegna innflutnings á frystum kartöflum. Málavextir voru þeir að í viðurkenningarmáli hafði Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að álagning jöfnunargjaldsins á umræddu tímabili fengi ekki samrýmst þeim takmörkunum sem heimild ráðherra væru settar og þeim kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu sem gæta hefði átt. Álagningin var því dæmd ólögmæt og höfðaði síðan tiltekið fyrirtæki mál gegn ríkinu til endurgreiðslu ofgreidds fjár í kjölfar viðurkenningarmálsins. Ríkisvaldið bar fyrir sig fyrningu í málinu á þeim grundvelli að krefjast hefði mátt endurgreiðslu strax og gjaldið hefði verið greitt, sem ekki var gert af hálfu fyrirtækisins. Þá bar ríkisvaldið því einnig við að fyrirtækið hefði bersýnilega greitt gjaldið til ríkisins í þeirri trú að því væri að lögum skylt að gera það og að það hefði ekki verið fyrr en löngu seinna í sambandi við rannsókn tollyfirvalda á réttmæti aðflutningsskýrslna að fyrirtækið fór að halda því fram að gjaldtaka væri óheimil að lögum. Að auki var því borið við af hálfu ríkisvaldsins í málinu að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir tjóni vegna gjaldtökunnar, það hefði getað velt gjaldinu yfir á viðskiptavini sína, enda hefði varan öll selst. Á þessum grundvelli féllst Hæstiréttur síðan á að láta málshöfðun viðurkenningarmálsins ekki rjúfa fyrningarfrestinn. Það er að mati minni hlutans hæpin röksemd af hálfu meiri hlutans að halda því fram að þessi dómur hafi fordæmisgildi varðandi það mál sem hér um ræðir. Í fyrsta lagi gilda allt önnur sjónarmið um ofgreidda skatta og hugsanlegan rétt til endurgreiðslu þeirra en um vangreiddar bætur á borð við það sem mál Öryrkjabandalagsins fjallar um. Rétturinn til greiðslu aðstoðar úr opinberum sjóði á grundvelli örorku er stjórnarskrárvarinn og fjallar um grundvallarmannréttindi. Það er því tæpast hægt að líkja slíkum rétti saman við réttarstöðu manna gagnvart ofgreiddum sköttum, auk þess sem fyrirsvar var ólíkt í þessum tveimur málum. Sú fyrirsvarsheimild sem Öryrkjabandalagið byggir málsókn sína á í málinu var lögfest með lögum nr. 91/1991 og var þá um nýmæli að ræða. Ekki hefur reynt á það, svo að minni hlutinn viti, hvort málssókn af þessu tagi rýfur fyrningu. Meðan svo er má segja að það sé álitaefni hvort fyrning hafi rofnað við málshöfðun Öryrkjabandalagsins. Ljóst er að mikil hagkvæmnisrök eru því til stuðnings að mál af þessu tagi rjúfi fyrningu, t.d. í málum sem eru eins vaxin og það sem hér er til umfjöllunar. Ljóst er að ef sú regla verður ekki talin gilda að málssókn í viðurkenningardómum, skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, slíti fyrningu, hefðu allir öryrkjar sem rétt eiga samkvæmt dómi Hæstaréttar nú þurft að fara í mál sérstaklega, til að tapa ekki rétti sökum fyrningar. Ljóst er að mikið hagræði væri af þeirri almennu reglu að viðurkenningardómar slitu fyrningu þótt það væri að sjálfsögðu ávallt undir kröfugerð og öðrum málatilbúnaði komið hvort reglan ætti við í hverju tilviki fyrir sig.
     Minni hlutinn bendir að auki á 6. gr. laga nr. 14/1905, en þar segir:
    „Nú viðurkennir skuldunautur skuld sína við kröfueiganda annaðhvort með berum orðum eða á annan hátt, — t.d. með því að lofa borgun eða greiða vexti — eftir þann tíma, er fyrningarfrest ella hefði átt að telja frá, og hefst þá nýr fyrningarfrestur frá þeim degi …“
    Í þessu sambandi má í fyrsta lagi spyrja hvort ekki hafi falist í því viðurkenning þegar forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins tilkynnti eftir dómsuppkvaðningu Hæstaréttar að þegar yrði hafist handa við að greiða þeim öryrkjum sem eiga inni hjá stofnuninni, en starfsmenn Tryggingastofnunar lýstu því nánar á fundi nefndarinnar að skilningur þeirra á málinu hefði verið sá að með dómi Hæstaréttar hefði það verið dæmt óheimilt að beita skerðingarheimild 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, með öðrum orðum að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka. Ekkert hefði verið því til fyrirstöðu tæknilega að greiða út bætur 1. janúar á grundvelli þeirrar túlkunar, allt sem til hefði þurft væri breyting á frítekjumarki í reglugerð og slíkt væri unnt að gera á skömmum tíma.
    Allt benti því til að þessari áralöngu deilu ríkisstjórnarinnar og öryrkja væri lokið hvað þennan tiltekna hóp varðar þótt ljóst væri að kveða þyrfti nánar á um rétt annarra hópa lífeyrisþega á grundvelli dómsins síðar.
    Hvernig svo sem litið verður á þetta mál telur minni hlutinn að þegar í ljós kemur að íslenska ríkið eða stofnanir þess hafa brotið mannréttindi á þegnum sínum, eins og háttar til í þessu máli, beri því fortakslaus siðferðileg skylda til að bæta þeim einstaklingum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Í þessu sambandi má vitna í dóm Hæstaréttar frá árinu 1988, bls. 1532 í dómasafni Hæstaréttar, sem áður var vitnað til, þar sem vakin er athygli á því að mannréttindaákvæði séu sett fyrir einstaklingana en ekki stjórnvöld. Í ljósi þessa dóms er eðlilegt að túlka dóm Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins mannréttindasjónarmiðinu í hag í stað þess að túlka ríkisvaldinu í hag eins og meiri hlutinn vill gera.
    Stjórnarliðar hafa gert því skóna að strangt til tekið þyrfti ekki að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár, sbr. 2. mgr. 48. gr. almannatryggingalaga. Þótt minni hlutinn hafni því að regla þessarar greinar eigi við í þessu máli vill hann benda á að tryggingaráð hefur, þrátt fyrir orðalag ákvæðisins, úrskurðað mun lengra aftur í tímann og sem dæmi má nefna úrskurð tryggingaráðs í málinu nr. 44/1994 þar sem úrskurðað var um bætur rúmlega 12 ár aftur í tímann. Hefur þeirri stefnu verið fylgt af hálfu stofnunarinnar að þegar um mistök eða sök hennar er að ræða sé vikið frá ákvæði 2. mgr. 48. gr. laganna.
    Frumvarpið gerir aðeins ráð fyrir að greitt sé fjögur ár aftur í tímann, en samkvæmt dómi Hæstaréttar voru bætur skertar með ólöglegum hætti í sjö ár. Með tilvísun til þess sem fram er komið telur minni hlutinn að greiða eigi sjö ár aftur í tímann.
    Í b-lið ákvæðis til bráðabirgða I í frumvarpinu er kveðið á um að fyrir tímabilið 1. janúar 1999 til 31. janúar 2001 skuli greiða tekjutryggingu sem reiknast á þann hátt sem greinir í 1. gr.
    Það er óumdeilt að óheimilt er að setja afturvirk íþyngjandi ákvæði í lög. Minni hlutinn hafnar með öllu þeirri túlkun sem fram kemur í skýrslu starfshópsins og nefndaráliti meiri hlutans að hér sé um ívilnandi reglu að ræða og hún því heimil. Rök minni hlutans eru eftirfarandi: Við dóm Hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka, féll framangreind skerðingarheimild niður. Við þetta varð til nýtt réttarástand þar sem óheimilt var að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka. Þetta tiltekna réttarástand gildir því fyrir umrætt tímabil sem leiðir til þess að Tryggingastofnun er skylt að greiða örorkulífeyrisþegum sem rétt eiga, svo framarlega sem eigin tekjur koma ekki til skerðingar, fulla tekjutryggingu eins og hún var hverju sinni á umræddu tímabili. Sem dæmi hefði Tryggingastofnun átt að greiða 50.990 kr. 1. janúar 2001 sem er upphæð fullrar tekjutryggingar að viðbættum grunnörorkulífeyri.
    Í samræmi við þetta mótmælir minni hlutinn því harkalega að ætlunin sé að skerða bætur til örorkulífeyrisþega í hjúskap aftur í tímann, enda standist það ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Við þetta má síðan bæta að það hefur verið talið eitt af grundvallarskilyrðum réttarríkis að óheimilt sé að lög virki aftur fyrir sig og þá sérstaklega ef þau eru íþyngjandi.
    Í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að þær greiðslur sem öryrkjar eigi rétt á aftur í tímann samkvæmt frumvarpinu beri 5,5% vexti. Minni hlutinn mótmælir þessu enda er eðlilegast að miða við ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987, þannig að miðað sé við að greiddir séu þeir almennu vextir sem á hverjum tíma eru jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum og almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og að þessir vextir reiknist fram að gjalddaga, sem í þessu tilviki yrði fyrsti dagur hvers mánaðar á tímabilinu, sbr. 4. gr. laganna. Frá hverjum gjalddaga ættu síðan að reiknast dráttarvextir, svo sem þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. 10. gr. vaxtalaga, til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Villandi upplýsingar.
    Minni hlutinn gagnrýnir villandi upplýsingar um rétt öryrkja á Norðurlöndum, sbr. fylgiskjal 2 í fylgiskjali III með frumvarpinu. Má taka sem dæmi að í töflu 1 í fylgiskjalinu er tekjutrygging sögð vera 43.396 kr. árið 1998, en inni í þeirri fjárhæð eru heimilisuppbætur sem falla niður um leið og öryrki hefur sambúð og telst því ekki til tekjutryggingar. Staðreyndin er sú, sbr. fyrirliggjandi upplýsingar, að hvergi á Norðurlöndunum er grundvallarréttur til aðstoðar úr opinberum sjóði á grundvelli örorku jafnlág upphæð og hér á landi. Stjórnarliðar hafa borið fyrir sig staðhæfingar um að tengingar við tekjur maka tíðkist annars staðar á Norðurlöndum og nefnt sem dæmi fyrirkomulagið í Danmörku. Minni hlutinn varar við því að bera þessa hluti saman á þann hátt sem ríkisstjórnin gerir í málflutningi sínum.
    Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar vill hún tryggja að örorkulífeyrisþegi í hjúskap hafi aldrei vegna tekna maka lægri framfærslueyri en 43.424 kr., sem er helmingi lægra en 100% öryrki í Danmörku fær. Samanburð á kerfum þessara tveggja landa ber að skoða í þessu ljósi (sjá nánar fylgiskjal VI úr upplýsingariti um almannatryggingar og félagslega aðstoð í EB og EES-ríkjunum – MISSOC).
    Minni hlutinn gagnrýnir einnig harðlega skerðingarákvæði 1. gr. frumvarpsins sem felur í sér brattari skerðingu vegna eigin tekna öryrkja en áður hefur tíðkast.
    Þessi skerðingarákvæði eru óvirðing við öryrkja sem geta og vilja nýta krafta sína til að leggja sitt af mörkum til þátttöku í atvinnulífinu og til að vinna fyrir fjölskyldu sinni. Ákvæðin í frumvarpinu eru vinnuletjandi, þau hvetja ekki til þess að lífeyrisþegar nýti sér þann rétt að ganga í hjónaband né minnka þau líkur á að lífeyrisþegar skilji við maka sinn af fjárhagsástæðum eins og því miður hefur verið algengt. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á ályktun prestastefnu árið 1997 þar sem staða lífeyrisþega með tilliti til fjölskylduþátttöku var til umfjöllunar, sjá fylgiskjal IV. Það ber einnig að minna á að gömlu skerðingarreglurnar gilda áfram þrátt fyrir viðbótarregluna og bitna því enn harkalegar á þeim öryrkjum sem verst eru settir og eru í sambúð með öðrum öryrkja eða ellilífeyrisþega.
    Skerðingarákvæði 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, sem dæmt hefur verið sem brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, ásamt þeirri sérreglu sem mælt er fyrir í frumvarpinu munu halda áfram að skerða tekjutryggingu lífeyrisþega á grundvelli tekna maka verði frumvarpið að lögum. Þetta grefur undan hjónabandinu og möguleikum lífeyrisþega til að hefja sambúð og stofna fjölskyldu.

Kjör lífeyrisþega á Íslandi.
    Í bók Stefáns Ólafssonar prófessors, Íslenska leiðin, um íslenska velferðarkerfið, sem Tryggingastofnun lét vinna og gaf út, segir um skerðingu lífeyris vegna tekna maka (bls. 273): „Þá er önnur beiting skerðingarreglna í almannatryggingakerfinu á Íslandi einnig fátíð, en það er skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka þeirra. Sú regla er arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum þar sem framfærsluskylda var lögð á fjölskylduna eða ættingja í heild áður en til fátækraaðstoðar gæti komið, með tilheyrandi athugun á þörf og því hvort hinn fátæki verðskuldaði aðstoðina.
    Hugmyndafræði almannatrygginga, sem leysti gömlu fátækraaðstoðina að mestu af hólmi á 20. öldinni, gengur gegn þessari hugsun að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur, eins og fram kom í fyrstu tveimur köflunum í þessari bók. Þess vegna hafa vestrænar þjóðir horfið frá slíkri framkvæmd almannatrygginga nú á dögum. Framkvæmd þessarar reglu á Íslandi rýrir mjög kjör þeirra öryrkja sem fyrir verða, samkvæmt mati OECD á kjarastöðu lífeyrisþega í aðildarríkjunum, og það kemur einnig fram í skýrslu forsætisráðherra vorið 1999 um stöðu öryrkja. En félagsleg og sálræn áhrif slíks fyrirkomulags eru þó enn alvarlegri því öryrki í slíkri stöðu er að hluta rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.“
    Minni hlutinn tekur undir þessi orð Stefáns. Tekjutrygging lífeyrisþega, ekki síst öryrkja, skal vera óháð tekjum maka þeirra. Þannig styðjum við best við bakið á því fólki sem verst er statt í samfélaginu og einnig við grunneiningu þjóðfélagsins, fjölskylduna. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að lífeyrisþegi í hjónabandi eða sambúð á ekki rétt á heimilisuppbótum allt að 22.556 kr. á mánuði, sem hann ætti rétt á byggi hann einn. Þannig er lífeyrisþegi í hjónabandi eða sambúð ávallt með lægri almannatryggingagreiðslur sem þessu nemur, auk þess sem tekjur maka skerða tekjutryggingu hans.
    Kjör öryrkja hafa versnað í góðærinu í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í samanburði við aðra hópa í samfélaginu sem sést best á því að kaupmáttur lífeyrisþega hefur skerst mun meira en þeirra sem lægstu launin hafa í þjóðfélaginu.
    Skattleysismörkin hafa staðið í stað svo að lífeyrisþegi sem býr einn og nýtur eingöngu bóta lendir í að greiða af þeim skatt sem aldrei hefur viðgengist fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hlutur sjúklinga í einstaka lyfjum hefur hækkað um mörghundruð prósent. Bifreiðastyrkjum fyrir fatlaða var fækkað um helming og lánakjörin á bifreiðakaupalánum fyrir fatlaða hækkuð úr 1% í markaðsvexti.
    Á sama tíma og ríkissjóður skilar miklum tekjuafgangi breikkar bilið milli tryggingagreiðslna og almennra launa, sbr. fylgiskjal V úr staðtölum almannatrygginga 1999. Húsaleiga hefur hækkað, fasteignagjöldin hækkað, matvörur hækkað, framfærslan almennt hækkað og ekki síst lyfin. Á þennan hátt hefur stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks birst lífeyrisþegum. Því hefur oft verið haldið fram að slíkt hafi viðgengist hjá fyrri ríkisstjórnum. Það var hins vegar ein þumalfingursregla sem þessar ríkisstjórnir höfðu og hún var sú að kaupmáttur bóta örorku- og ellilífeyrisþega skyldi ekki skerðast meira en kaupmáttur þeirra sem lægstu launin hefðu í þjóðfélaginu. Í upplýsingum kjararannsóknarnefndar, sbr. fylgiskjal V úr staðtölum almannatrygginga, kemur í ljós að kaupmáttur lífeyrisþega skertist um 10% minna en kaupmáttur lægstu launa á tímabilinu 1991–1995. Síðan hefur það gerst að kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 37,5% en kaupmáttur lífeyrisgreiðslna um 11,2% eða um þriðjunginn af því sem kaupmáttur lágmarkslauna hefur batnað. Ljóst er því að leitun er að annarri eins kjararýrnun hjá þessum hópi og í tíð þessarar ríkisstjórnar ef mið er tekið af þróun lágmarkslauna í landinu.
    Einn hópur lífeyrisþega hefur lítt komið til umfjöllunar í þessari umræðu en það eru lífeyrisþegar á stofnunum. Þeir missa lífeyri sinn eftir fjögurra mánaða dvöl á stofnun á tveggja ára tímabili. Þeir fá þá um 18.000 kr. í vasapeninga á mánuði og byrjar sú upphæð að skerðast við eigin tekjur umfram 3.700 kr. og falla greiðslur alveg niður þegar lífeyrisþegi hefur um 31.000 kr. í eigin tekjur (upphæðir samkvæmt handbók Tryggingastofnunar ríkisins). Taka verður á þessum greiðslum sérstaklega því að það getur ekki talist fullnægjandi að skammta fötluðum og sjúkum lífeyrisþegum sem dæmast til langdvalar á stofnunum þessar smánargreiðslur. Vasapeningagreiðslurnar og þær reglur sem um þær gilda byggjast á löngu úreltum viðhorfum til sjúkra og fatlaðra og þarfnast endurskoðunar í ljósi nýfallins dóms Hæstaréttar.

Niðurstaða.
    
Niðurstaða Hæstaréttar í því máli sem hér hefur verið reifað og frumvarp ríkisstjórnarinnar byggist á var sú að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur byggir þessa niðurstöðu á 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar auk annarra lagaraka. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar mælir, þrátt fyrir áðurgreinda niðurstöðu Hæstaréttar, fyrir um áframhaldandi skerðingu tekjutryggingar á grundvelli tekna maka. Það felur þar á ofan í sér afturvirkni lagaákvæða, ef samþykkt verður, og gengur út á að fyrningu verði borið við í stað þess að bæta að fullu það sem haft hefur verið af viðkomandi hópi öryrkja öll sjö árin. Minni hlutinn telur að með framlagningu frumvarpsins geri ríkisstjórnin tilraun til að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og að frumvarpið feli í sér beint brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Ummæli sem höfð eru eftir gestum í nefndaráliti þessu hafa verið borin undir þá og hafa þeir staðfest að ummælin séu rétt eftir höfð.
    Minni hluti nefndarinnar getur ekki staðið að afgreiðslu málsins og leggur því til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:

    
    Þar sem frumvarp þetta felur í sér brot á stjórnarskrá og mannréttindum, svo sem ítarlega er rökstutt í nefndaráliti þessu, leggur minni hlutinn til að heilbrigðis- og trygginganefnd verði falið að leggja fram nýtt frumvarp, sem allra fyrst, er fullnægi dómi Hæstaréttar og feli jafnframt í sér nauðsynlegar breytingar er varða aðra hópa lífeyrisþega sem málið snertir. Samkvæmt framansögðu samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

    Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 22. jan. 2001.Bryndís Hlöðversdóttir,


frsm.


Þuríður Backman.


Ásta R. Jóhannesdóttir.

Fylgiskjal I.


Alþýðusamband Íslands:

Ályktun miðstjórnar ASÍ.


(10. janúar 2001.)Ríkisstjórnin hlíti dómi Hæstaréttar – endurskoðun skattkerfisins óumflýjanleg.
    
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar á ríkisstjórnina að virða undanbragðalaust niðurstöðu æðsta dómstóls landsins í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins. Miðstjórn ASÍ styður öryrkja í baráttu þeirra fyrir að fá greiddar óskertar bætur í samræmi við dómsniðurstöðuna strax frá 1. janúar sl.
    Miðstjórn ASÍ telur óumflýjanlegt að ráðast í endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins og að í þeirri vinnu verði meðal annars að taka mið af efnisatriðum dóms Hæstaréttar. Alþýðusamband Íslands hefur áður lagt áherslu á að tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins verði aukin. Í tengslum við kjarasamningana sl. vetur gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að farið yrði í ítarlega könnun á kostum og göllum fjölþrepatekjuskatts. Þrátt fyrir eftirrekstur bólar ekkert á því starfi. Þá hefur ASÍ farið fram á þátttöku í yfirstandandi vinnu við endurskoðun almannatrygginga og samspil þeirra við skattkerfið og lífeyrissjóðina en án árangurs hingað til.
    Sú staða sem upp er komin vegna dóms Hæstaréttar og það uppnám sem hann virðist hafa valdið hjá stjórnvöldum staðfestir enn og aftur nauðsyn þess að vinna við endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins verði hafin þegar í stað í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar. Alþýðusamband Íslands lýsir sig, eins og jafnan fyrr, reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um þessi mál.Fylgiskjal II.


Ályktun á miðstjórnarfundi Bandalags háskólamanna.


(17. janúar 2001.)    Eftirfarandi ályktun var samþykkt einróma á miðstjórnarfundi Bandalags háskólamanna 17. janúar 2001:
    „Miðstjórn Bandalags háskólamanna (BHM) styður þá kröfu Öryrkjabandalags Íslands að skerðing tekjutryggingar vegna tekna maka skuli afnumin. Grunnlífeyrir og tekjutrygging, samtals 51 þúsund kr., verði óskert. Líkt og verið hefur þá er tekið tillit til tekna maka við samsköttun öryrkja eins og annarra þjóðfélagsþegna. BHM skorar á Alþingi að standa vörð um stjórnarskrárvarin mannréttindi öryrkja.“

Björk Vilhelmsdóttir, formaður BHM.
Fylgiskjal III.


Úr samþykktum 39. þings BSRB.


(25.–28. október 2000.)    39. þing BSRB krefst þess að atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga verði stórlega auknar og skerðingar undangenginna ára bættar.
    39. þing BSRB krefst þess að tekjutenging við laun maka öryrkja og lífeyrisþega verði afnumin.Fylgiskjal IV.


Úr samþykkt prestastefnu 1997.


    Prestastefnan á Akureyri 1997 beinir því til Alþingis að gerð verði gangskör að því að leiðrétta það ranglæti sem öryrkjar búa við, að tekjutrygging þeirra, sem er 25.800 kr. á mánuði, tekur að skerðast um leið og tekjur maka fara fram úr 36.831 kr. og þurrkast alveg út er tekjur maka verða hærri en 150 þús. kr. á mánuði. Þar með getur öryrkinn aðeins lagt með sér í búið örorkulífeyrinn sem er tæplega 14 þús. kr. á mánuði. Augljóst er að fyrirkomulag þetta stofnar hjónaböndum fólks í hættu og hvetur prestastefnan stjórnvöld að leiðrétta þetta ranglæti.
Fylgiskjal V.

STAÐTÖLUR ALMANNATRYGGINGA 1999 (bls. 26).Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


MISSOC – Mutual Information System on Social Protection in the EU Member States and the European Economic Area:

Social Protection in the Member States in the EU Member States
and the European Economic Area.

(Situation on January 1st 2000 and Evolution.)Table V - Invalidity: Benefits. (2. Calculation method, pension formula or amounts.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.