Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 665  —  410. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Í stað orðsins „Vígslumaður“ í 2. málsl. 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: Könnunarmaður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu þó ávallt annast könnun á hjónavígsluskilyrðum ef annað hjónaefna eða bæði eru erlendir ríkisborgarar.
     b.      Í stað orðsins „hún“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: könnunin.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.
     d.      Í stað orðanna „vígslumaður“ og „vígslumanns“ í 2. mgr. kemur: könnunarmaður, og: könnunarmanns.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „vígslumanns“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: könnunarmanns.
     b.      Í stað orðanna „fjögurra mánaða“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 30 daga.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að höfðu samráði við biskup Íslands, Prestafélag Íslands og Sýslumannafélag Íslands.
    Í IV. kafla hjúskaparlaga um hjónavígslu er m.a. mælt fyrir um það hverjir séu vígslumenn. Skv. 14. gr. laganna annast löggildir vígslumenn könnun hjónavígsluskilyrða, en hjónaefni skulu áður en hjónavígsla fer fram leggja fram vottorð þess efnis að könnun hafi átt sér stað á hjónavígsluskilyrðum samkvæmt því sem segir í II. kafla og að lög tálmi ekki ráðahagnum, sbr. 13. gr. laganna. Með frumvarpi þessu er lagt til að einungis borgaralegir vígslumenn annist könnun hjónavígsluskilyrða þegar annað hjónaefna eða bæði eru erlendir ríkisborgarar. Skv. 18. gr. laganna eru sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra borgaralegir vígslumenn.
    Könnun hjónavígsluskilyrða felst í því að leysa úr því hvort fullnægt sé lagaskilyrðum til að stofna til hjúskapar. Verður þar bæði að líta til ákvæða hjúskaparlaga og reglugerðar um könnun hjónavígsluskilyrða, nr. 326/1996, og enn fremur í sumum tilvikum til annarra laga og reglna. Á síðustu árum hefur mjög færst í vöxt að erlendir ríkisborgarar komi hingað til lands til að ganga í hjónaband og einnig að erlendir ríkisborgarar stofni til hjúskapar við íslenska ríkisborgara. Könnunarmenn meta hvaða skjöl hjónaefni þurfa að leggja fram og leggja mat á framlögð skjöl. Við könnunina getur þurft að leggja töluverða vinnu í athugun á lagaatriðum þegar um er að ræða erlenda ríkisborgara sem eftir atvikum hafa verið í hjúskap áður og er nokkur þekking könnunarmanns á alþjóðlegum einkamálarétti þá einnig nauðsynleg. Borgaralegir vígslumenn eru löglærðir og þykir því rétt að fela þeim að annast könnun hjónavígsluskilyrða þegar um erlenda ríkisborgara er að ræða, enda þyrftu aðrir vígslumenn almennt að verja tíma og fyrirhöfn til að afla sér þekkingar á lagaatriðum sem annars falla almennt utan þeirra sérsviðs.
    Til þess að taka af allan vafa um að ekki skuli taka sérstakt gjald fyrir útgáfu könnunarvottorða, sbr. 11. tölul. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, er lagt til að ákvæði þess efnis verði í hjúskaparlögum.
    Í því skyni að treysta könnunarvottorð sem grundvöll lögmætrar hjúskaparstofnunar er lagt til að gildistími könnunarvottorðs verði styttur úr fjórum mánuðum í 30 daga. Þessi breyting getur ekki valdið erfiðleikum í framkvæmd.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra verði könnunarmenn hjónavígsluskilyrða þegar erlendir ríkisborgarar eiga í hlut en fram til þessa hafa prestar og forstöðumenn trúfélaga einnig haft það með höndum. Gera má ráð fyrir að sýslumannsembættin í landinu geti tekið við útgáfu þessara könnunarvottorða án þess að starfsumfang þeirra og útgjöld aukist. Í frumvarpinu er tekið fram að ekki skuli taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorða til að staðfesta þá venju sem hefur skapast þótt heimildin hafi verið fyrir hendi í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.