Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 668  —  413. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    11. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt með það fyrir augum að fella niður ákvæði laga um Ríkisútvarpið er varðar framkvæmdasjóð stofnunarinnar.
    Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins var stofnaður með breytingu á útvarpslögum árið 1970. Var þá kveðið á um að 5% af heildartekjum stofnunarinnar skyldu renna í sjóðinn. Það hlutfall var hækkað í 10% með breytingu á útvarpslögum árið 1979.
    Þau markmið sem stefnt var að með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins voru að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. Þessum markmiðum hefur verið náð. Öll starfsemi Ríkisútvarpsins hefur nú verið flutt í hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti og verið sameinuð þar. Samhliða flutningum hefur tækjakostur verið endurnýjaður. Þá hefur uppbyggingu dreifikerfis fyrir eina sjónvarpsrás og tvær rásir hljóðvarps, sem Ríkisútvarpinu ber skylda til að reka lögum samkvæmt, verið lokið með þeim árangri að meira en 99% þjóðarinnar ná þessum útsendingum.
    Í ljósi þessa er lagt til með frumvarpi þessu að sú lagaskylda sem hvílt hefur á Ríkisútvarpinu að taka frá 10% af brúttótekjum stofnunarinnar verði felld niður. Ætti það að greiða fyrir því að Ríkisútvarpinu verði gert betur kleift en áður að framleiða og kaupa dagskrárefni til flutnings í útsendingum sínum.



Fylgiskjal I.

Greinargerð útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.


(1. desember 2000.)

    Ákvæði um sérstakan framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins var fyrst sett í lög með breytingum á útvarpslögum 5. apríl 1971. Í 14. gr. þeirra laga var svohljóðandi ákvæði:
    „Í sjóð er nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins skal leggja 5% af brúttótekjum stofnunarinnar.
    Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði og tækjakost fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.“
    Með lögum um breytingu á útvarpslögum, nr. 17/1971, var 1. mgr. 14. gr. orðuð svo:
    „Í sjóð er nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins skal leggja 10% af brúttótekjum stofnunarinnar.“
    Á þeim tíma hafði byggingarnefnd vegna nýs útvarpshúss fyrir alla starfsemi hljóðvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins verið sett á laggirnar og stórverkefni blöstu einnig við varðandi dreifingu sjónvarps um landið og uppbyggingu FM-dreifikerfis fyrir hljóðvarpssendingar.
    Við setningu útvarpslaga, nr. 68/1985, var breyting enn gerð á ákvæði um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins, sbr. 23. gr. þeirra laga, er hljóðaði svo:
    „Í sjóð sem nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins skal leggja 10% af brúttótekjum stofnunarinnar.
    Aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau renni óskipt í sjóðinn.
    Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.“
    Tillaga um þessa breytingu kom fram í áliti útvarpslaganefndar sem unnið hafði að gerð frumvarps um ný útvarpslög og skilaði af sér í október 1982. Í greinargerð nefndarinnar er tekið fram að í síðustu málsgreininni sé dreifikerfum bætt við hlutverk Framkvæmdsjóðsins og þá ekki síst höfð í huga brýn þörf á endurbyggingu langbylgjustöðvar í stað Vatnsendastöðvar. Lítt reyndi á framkvæmd ákvæðisins um aðflutningsgjöldin því að það var gert óvirkt við árlega afgreiðslu lánsfjárlaga, utan einu sinni, uns það var afnumið með lögum nr. 144/1995.
    Markmiðunum með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins hefur verið náð og var það innsiglað nú fyrir skemmstu þegar sjónvarpsstarfsemi Ríkisútvarpsins var flutt í Útvarpshúsið við Efstaleiti og öll starfsemi stofnunarinnar sameinuð þar. Samhliða flutningum hefur tækjakostur verið endurnýjaður. Þá hefur uppbyggingu dreifikerfis fyrir eina sjónvarpsrás og tvær rásir hljóðvarps, sem Ríkisútvarpinu ber skylda til að reka lögum samkvæmt, verið lokið með þeim árangri að meira en 99% þjóðarinnar ná þessum útsendingum. Stórátak hefur og verið gert í endurbyggingu langbylgjukerfisins með hinum nýju sendistöðvum á Gufuskálum og Eiðum.
    Á allnokkrum sveitabæjum á tiltölulega afskekktum svæðum eru enn ekki skilyrði til að ná útsendingum Sjónvarpsins. Áætlað er að kostnaður vegna viðbótarsenda og annarra aðgerða við dreifikerfið til að þjóna umræddum bæjum, sem eru 41 að tölu, nemi um 120 milljónum króna. Þá er miðað við venjulega senda fyrir eina rás Sjónvarpsins. Ný tækni, sem er í þróun, getur orðið álitlegur kostur við að leysa umrædd tæknivandamál með heildstæðari lausnum en viðbætur við hið hefðbundna dreifikerfi Sjónvarpsins fela í sér.
    Landssími Íslands hf. vinnur nú áætlun um ISDN-væðingu sveitabæja. Með ISDN-tækninni er lagður grunnur að stafrænum flutningi til símnotenda. Sá grunnur getur jafnframt verið nýttur til að flytja sjónvarpsefni frá dagskrárveitu til notenda ef fjarlægð frá stofnveitu fjarskiptakerfisins í heimahús notenda er innan viðráðanlegra marka. Þarna getur verið um tvær mismunandi lausnir að ræða. Dagskrárveita sé með efni frá fleiri stöðvum, e.t.v. frá Sjónvarpinu, Stöð 2, Skjá einum o.fl., og notandinn velji efni til áhorfs eftir framboði og áhuga. Hin leiðin er að dagskrárveitan sé dagskrárháð, t.d. eingöngu með dagskrá Sjónvarpsins í boði, og tæknilausnir aðlagaðar hverjum sveitabæ eða fáum sveitabæjum. Í fyrri kostinum mundi kostnaður við dreifinguna væntanlega deilast á fleiri aðila, en í þeirri síðari aðeins á Sjónvarpið. Búnaður fyrir þjónustu af þessu tagi er á þróunarstigi og óvíst í hvað miklum mæli hann mun henta umræddum sveitabæjum en þróunin er ör um þessar mundir. Lausnir af þessum toga eru álitlegar þegar almennt er horft til þróunar og samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Með hliðsjón af framansögðu á það ekki við lengur að Ríkisútvarpinu sé skylt að taka frá 10% af brúttótekjum til framkvæmda og binda í þessum sjóði, óháð því hverjar þarfirnar raunverulega eru og hvernig sem ástatt er í fjármálum stofnunarinnar að öðru leyti. Hlutverk Ríkisútvarpsins hlýtur fyrst og fremst að vera að framleiða og kaupa dagskrárefni til flutnings í útsendingum sínum.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið.

    Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði niður ákvæði laga um Ríkisútvarpið er varðar framkvæmdasjóð stofnunarinnar. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á útgjöld ríkisins verði það að lögum.