Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 672 — 402. mál.
Svar
menntamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um íslenska búninga.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
1. Hefur þjóðbúningaráð sem Alþingi ályktaði að koma á fót, sbr. þingsályktun 10. mars 1999 verið skipað?
2. Er fyrirhugað að stofna leiðbeiningarþjónustu í sambandi við notkun og gerð íslenskra búninga, sbr. sömu þingsályktun?
3. Hvaða áform eru um stuðning við gerð íslenskra búninga?
4. Er fyrirhugað að standa fyrir kynningum á íslenskum búningum í skólum og á öðrum vettvangi? Ef svo er, á hvers vegum verða kynningarnar?
5. Hvernig er fyrirhugað að tryggja að fagleg þekking við gerð íslenskra búninga viðhaldist hjá klæðskerum, kjólameisturum og í handverksiðnum? Eru uppi áform um stuðning í þessum efnum, til dæmis við handverk sem tengist íslenskum búningum, svo sem prjón, skúfagerð, orkeringu, knipl, balderingu og silfursmíði?
6. Er fyrirhugað að veita vestur-íslenskum áhugamönnum aðstoð og leiðbeiningu um gerð íslenskra búninga?
7. Er fyrirhugað að skrá alla íslenska búninga sem til eru á byggðasöfnum landsins?
8. Er fyrirhugað að styðja námskeiðahald í tengslum við íslenska búninga í öðrum byggðarlögum landsins en á suðvesturhorninu, svo sem með því að greiða ferðakostnað kennara og leiðbeinenda?
Skipað var í þjóðbúningaráð 10. janúar 2001. Í þjóðbúningaráði eru:
Lilja Árnadóttir, tilnefnd af Þjóðminjasafni Íslands, formaður,
Áslaug Sverrisdóttir, tilnefnd af Árbæjarsafni,
Svanhildur Stefánsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands,
Dóra Guðbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Þjóðdansafélagi Íslands, og
Elínbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.
Varamenn eru:
Margrét Gísladóttir, tilnefnd af Þjóðminjasafni Íslands,
Unnur Björk Lárusdóttir, tilnefnd af Árbæjarsafni,
Halla Aðalsteinsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands,
Lilja Ingibjörg Jóhannsdóttir, tilnefnd af Þjóðdansafélagi Íslands, og
Kristín Jónsdóttir Schmidhauser, tilnefnd af Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.
Ráðuneytið bíður eftir tillögum þjóðbúningaráðs um verkefni og starfsemi eins og óskað var eftir í erindisbréfi þess.
Á þessu ári er varið 1,5 millj. kr. til þjóðbúningaráðs til ráðstöfunar. Frekari stuðningur ræðst af samþykkt Alþingis við afgreiðslu fjárlaga.
Ráðuneytið mun varðandi þessi efni ekki hafa frumkvæði heldur væntir tillagna þjóðbúningaráðs.