Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 674  —  414. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.

    Við 37. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins er heimilt, að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og landbúnaðarráðherra, að eiga aðild að og stofna rannsóknar- og þróunarfyrirtæki er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði heimilt að eiga aðild að og stofna rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem vinna að því að hagnýta niðurstöður rannsókna stofnunarinnar. Er það álitið kostur fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins að geta átt aðild að stofnun sérstakra fyrirtækja um slík verkefni. Með því getur stofnunin betur fylgt eftir niðurstöðum rannsókna sinna svo að þær nýtist betur í þágu landbúnaðarins.
    Stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins óskaði eftir því að ráðuneytið beitti sér fyrir breytingu á lögum stofnunarinnar í þessu skyni, en slík breyting hefur þegar verið gerð á lögum um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985, Iðntæknistofnun Íslands, sbr. lög nr. 77/1986, Hafrannsóknastofnun, sbr. lög nr. 72/1984, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sbr. lög nr. 71/1989, og Orkustofnun, sbr. lög nr. 53/1985.
    Í frumvarpinu er lagt til að aðild að og stofnun félaga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins verði háð samþykki stjórnar stofnunarinnar og landbúnaðarráðherra hverju sinni.
    Jafnframt er heimildin bundin við aðild að félögum með takmarkaðri ábyrgð, þannig að áhætta stofnunarinnar verði takmörkuð við hlutafjárframlög.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1965,
um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

    Tilgangur frumvarpsins er að veita Rannsóknastofnun landbúnaðarins heimild til að stofna og eiga hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.
    Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.