Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 677  —  417. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


1. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Í Hæstarétti eiga sæti níu dómarar sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra að undangengnu samþykki Alþingis. Dómsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu sína um skipan í embætti hæstaréttardómara og þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna sem þátt taka í leynilegri atkvæðagreiðslu um tillöguna að samþykkja hana til að hún nái fram að ganga. Sé samþykkis synjað skal dómsmálaráðherra leggja fyrir nýja tillögu, og sé samþykkis enn synjað, hafa um málið samráð við þingflokka.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði laga þessara hrófla í engu við stöðu núverandi hæstaréttardómara en gilda um skipan í embætti héðan í frá.

Greinargerð.


    Nýlegir atburðir hafa vakið upp umræður um stöðu Hæstaréttar og mikilvægi þess að sjálfstæði og óhæði æðsta dómstóls þjóðarinnar sé virt, sem og auðvitað að hann verji þessa stöðu sína sjálfur. Víða erlendis er reynt að tryggja að fagleg sjónarmið ein ráði ferðinni við skipan dómara sem aftur á að vera ávísun á hlutleysi og óhæði dómsins. Oftast er þá um að ræða að einhvers konar samþykki þjóðþingsins þarf við tillögum framkvæmdarvaldsins. Þannig þurfa hinir tveir meginvaldhafarnir að koma sér saman um skipan manna í æðstu stofnun þriðja valdsviðsins, dómsvaldsins.
    Frumvarp það sem hér er flutt gengur út á að Alþingi þurfi að samþykkja, með auknum meiri hluta tveggja þriðju hluta þingmanna sem þátt taka í sérstakri leynilegri atkvæðagreiðslu þar um, tillögur frá dómsmálaráðherra um skipan hæstaréttardómara. Með því ætti að vera tryggt að flokkspólitísk sjónarmið kæmust þar ekki að. Einnig ætti sú staðreynd að nýir dómarar hefðu hlotið stuðning yfirgnæfandi meiri hluta alþingismanna, að einhverju leyti bæði úr meiri hluta og minni hluta á hverjum tíma eins og væntanlega þyrfti til, að treysta faglega og sjálfstæða stöðu þeirra.
    Einnig væri vert að skoða, enda þótt það sé ekki lagt til í frumvarpinu, hvort ekki ætti að koma til óháður umsagnaraðili í stað Hæstaréttar sem legði mat á hæfni umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara og gerði tillögur til dómsmálaráðherra um röð þeirra.