Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 721  —  393. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um innflutning kjöts á frísvæði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver fylgist með því og hvaða vottorða er krafist þegar um er að ræða innflutning kjöts á svokallað frísvæði eins og t.d. flugeldhús Flugleiða á Keflavíkurflugvelli?

    Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli og embætti yfirdýralæknis fylgjast með innflutningi til verslana í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli eins og um væri að ræða almennan kjötinnflutning til landsins. Flugeldhús Flugleiða er hins vegar hluti tollfrjálsrar forðageymslu fyrirtækisins og telst því tollvörugeymsla. Hugtakið frísvæði á ekki við um flugeldhúsið. Samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. tollalaga, nr. 55/1987, telst tollfrjáls forðageymsla til tollvörugeymslu, en undir það hugtak falla einnig almennar tollvörugeymslur og tollfrjálsar verslanir. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli gætir að því að heilbrigðisvottorð fylgi með innfluttu kjöti og fylgist með því að innflutt tollfrjálst kjöt fari ekki út fyrir tollfrjálst svæði.
    Þegar innflutningur er leyfður er stuðst við bestu vísindalegar upplýsingar sem tiltækar eru, t.d. í sérfræðiskýrslum og álitsgerðum alþjóðastofnana eins og WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar) og OIE (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar dýra), í Codex-gagnagrunni auk áhættumats einstakra ríkja, til þess að tryggt sé að ekki berist smitefni til landsins sem valdið getur dýrasjúkdómum. Þá er við innflutning á landbúnaðarvörum krafist þeirra vottorða sem fram koma í auglýsingum nr. 483/1995 og 324/1999.