Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 759  —  477. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2000.

Inngangur.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Undanfarin ár hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu verið langveigamesta verkefni ÖSE, en þar er stofnuninni falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Þá hefur ÖSE tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu sem tók gildi 10. júní 1999 og ÖSE á aðild að, einkum þeim hluta framkvæmdar sáttmálans er snýr að mannréttindum og lýðræðisþróun en jafnframt í öryggismálahlutanum. Umsvif ÖSE í Kosovo-héraði eru einnig afar fyrirferðarmikil í starfi samtakanna en hlutverk ÖSE hefur aðallega miðað að lýðræðisþróun, góðri stjórnsýslu, framkvæmd kosninga og kosningaeftirliti og stuðningi við frjálsa fjölmiðla. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu en þema ársfundarins í júlí var umfjöllun um góða stjórnsýslu.
    Júgóslavíu hafði ekki staðið til boða að taka þátt í störfum þingsins síðan landið var útilokað frá þátttöku í starfi ÖSE árið 1992 en þegar úrslit forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosninganna í Serbíu í október urðu kunn var stjórnvöldum Júgóslavíu boðin þátttaka á ný. Yfirlýsing þess efnis var undirrituð í Vínarborg 27. nóvember af nýkjörnum forseta Júgóslavíu, Vojislav Kostunica.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 2000:
    Fram til 3. október voru aðalmenn Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar og Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks.
    Kosið var í nýja Íslandsdeild í upphafi 126. þings og 3. október tók Guðjón Guðmundsson við formennsku og Jónína Bjartmarz tók við af Ástu R. Jóhannesdóttur sem varaformaður. Frá og með 3. október voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar því Guðjón Guðmundsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jónína Bjartmarz, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Gústaf Adolf Skúlason var ritari Íslandsdeildarinnar fram til 1. september en þá tók Andri Lúthersson við starfinu.
Starfsemi á árinu 2000.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 13.–14. janúar var haldinn fundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins í Vínarborg. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal, formaður, auk ritara. Helsta málefni fundarins voru niðurstöður leiðtogafundar ÖSE í nóvember 1999 og kosningaeftirlit og staða mála í Kosovo-héraði. Ályktunardrögum um átökin í Tsjetsjeníu og um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi var hafnað af fulltrúa Rússlands auk annarra, en í stjórnarnefndinni nægja mótatkvæði tveggja ríkja til að fella mál.
    Fimmtudaginn 13. janúar héldu eftirtaldir aðilar framsögur og svöruðu spurningum fundarmanna: Dr. Wolfgang Schüssel, utanríkisráðherra Austurríkis og formaður ráðherraráðs ÖSE, Jan Kubis sendiherra, framkvæmdastjóri ÖSE, Freimut Duve, sérlegur fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla, Gerard Stoudmann, yfirmaður mannrétttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR), og Thomas Price, sem fer með samræmingu á starfi ÖSE í efnahags- og umhverfismálum.
    Dr. Schüssel tók við formennsku í ráðherraráði ÖSE í ársbyrjun 2000. Í ræðu sinni sagði hann ÖSE-þingið gegna sífellt mikilvægara hlutverki í starfi stofnunarinnar, enda væri krafan um lýðræðislega þátttöku við mótun öryggisstefnu sífellt háværari. Þingmenn væru í mun nánara sambandi við almenning en framkvæmdarvaldið. Schüssel sagðist vilja eiga náið samstarf við ÖSE-þingið. Þá sagði Schüssel að í formennskutíð sinni yrði lögð áhersla á að gera flóttamönnum frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu kleift að snúa til heimkynna sinna, stuðla almennt að öruggri framkvæmd stöðugleikasáttmála Suðaustur-Evrópu, stuðla að pólitískri lausn á vanda Norður-Kákasussvæðisins og undirbúa frjálsar kosningar í Kosovo.
    Meðal þess sem fram kom í máli embættismanna á fundinum má nefna að Jan Kubis fjallaði um niðurstöður leiðtogafundar ÖSE í Istanbúl í nóvember, einkum þær ákvarðanir sem þar voru teknar um aðgerðir til að greiða fyrir bættri viðbragðsgetu ÖSE er átök eiga sér stað. Aðildarríkjunum er gert að koma upp ákveðnum mannafla sem unnt væri að kalla til og senda á vettvang með skömmum fyrirvara, og gert var ráð fyrir að áætlunin yrði orðin að veruleika sumarið 2000. Einkum lagði Kubis áherslu á mikilvægi þess að hægt yrði að senda fjölþjóðlegt lögreglulið á vettvang með skömmum fyrirvara. Jafnframt var samþykkt að koma fyrir varanlegri stjórnstöð fyrir slíkar aðgerðir svo að ekki þyrfti að koma henni upp hverju sinni, og ætti hún að vera tilbúin sumarið 2000. Gerard Stoudmann var ánægður með að ODIHR og ÖSE-þingið hefðu á árinu 1999 ávallt gefið út sameiginlegar yfirlýsingar um framkvæmd kosninga í kjölfar kosningaeftirlits og sagði að mjög gott samstarf hefði náðst við Evrópuráðsþingið við eftirlit með þingkosningunum í Rússlandi í desember 1999 og í Króatíu í byrjun janúar 2000.
    Föstudaginn 14. janúar ávörpuðu fundinn auk danska þingmannsins Helle Degn, forseta ÖSE-þingsins, þeir dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins, og dr. Peter Wittman, aðstoðarráðherra dr. Viktors Klima, kanslara Austurríkis, sem forfallaðist vegna stjórnarmyndunarviðræðna. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, flutti fundinum skýrslu sína og fagnaði því meðal annars að í yfirlýsingu leiðtogafundarins og í öryggissáttmálanum sem samþykktur var á fundinum væri ÖSE-þinginu lýst sem einni mikilvægustu stofnun ÖSE. Niðurstöður leiðtogafundarins voru ræddar og ríkti almenn ánægja með framangreind atriði.
    Breytingartillaga framkvæmdastjórnar við starfsreglur þingsins var samþykkt, en samkvæmt henni geta tvær eða fleiri nefndir þingsins ályktað sameiginlega. Á ársfundinum í Pétursborg í júlí 1999 vildu allar þrjár málefnanefndir þingsins halda sameiginlegan fund og álykta um stöðu mála og varð því að kalla saman sérstakan þingfund. Kanadíski þingmaðurinn Bill Graham, gjaldkeri þingsins, gerði fundinum grein fyrir fjármálum þingsins. Hann kynnti m.a. skýrslu KPMG endurskoðunarfyrirtækisins sem gerði engar athugasemdir við reikninga þingsins fyrir starfsárið 1998–99, en nokkur afgangur varð af rekstrarfé. Hins vegar sagði Graham að kostnaður við kosningaeftirlit á yfirstandandi starfsári yrði greinilega nokkuð hærri en áætlað hefði verið og yrði því að leita til varasjóða, sem hefðu vaxið undanfarin ár, og greiða þannig fyrir hluta þeirrar starfsemi.
    Þá voru ræddar skýrslur um kosningaeftirlit í Kasakstan, Georgíu, Rússlandi og Króatíu. Í öllum tilfellum varð það niðurstaða eftirlitsnefnda að verulegar framfarir hefðu orðið við framkvæmd kosninga þótt alls staðar væru nokkrar athugasemdir gerðar, minnstar þó í Rússlandi. Einnig voru kynnt störf sérstakrar nefndar um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, en hún hefur reynt að miðla þar málum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og hvatt til lýðræðislegra kosninga. Rúmenski þingmaðurinn Adrian Severin kynnti störf nefndarinnar og sagði að unnt væri að tína til margt jákvætt í þróun undanfarinna mánaða í Hvíta-Rússlandi, þótt hann hefði áhyggjur af ýmsu í landinu.
    Þema þingfundarins árið 2000 var til umræðu í stjórnarnefndinni, en borist höfðu tvær tillögur. Frá þýsku sendinefndinni hafði borist tillagan „hlutverk ÖSE á 21. öld: efling lýðræðislegra stofnana og virðingar við lög og reglu“, en frá bandarísku sendinefndinni tillagan „barátta gegn spillingu og fyrir góðum og heiðarlegum stjórnarháttum“. Niðurstaða nefndarinnar var að slá tillögunum tveimur saman í eitt þema: „góðir og heiðarlegir stjórnarhættir: svæðisbundið samstarf, efling lýðræðislegra stofnana, gagnsæis í stjórnsýslu og virðingar við lög og reglu og barátta gegn spillingu“. Skýrslur málefnanefndanna þriggja fyrir ársfundinn árið 2000 voru unnar út frá þessu þema.
    Loks voru tekin fyrir ályktunardrög sem lögð höfðu verið fram um stöðu mála í Hvíta- Rússlandi og í Tsjetsjeníu. Rússar mótmæltu harðlega ályktunardrögunum um Tsjetsjeníu, sögðu um innanríkismál að ræða og minntu á friðhelgi landamæra sem eitt af grundvallarviðmiðum ÖSE-starfsins. Fleiri ríki studdu Rússa og greiddu atkvæði gegn ályktunardrögunum, m.a. Kasakstan og Kirgistan. Ályktunardrögin um Hvíta-Rússland mættu einnig andstöðu Rússa og fleiri og voru líka felld.

b. 9. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Dagana 6.–10. júlí var 9. ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Búkarest í Rúmeníu. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Pétur H. Blöndal, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, varaformaður, og Jónína Bjartmarz, auk ritara. Þá sótti forseti Norðurlandaráðs, Sigríður A. Þórðardóttir alþingismaður, fundinn auk Einars Farestveits, ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Þátttaka Íslandsdeildarinnar var sem hér segir:

1. nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal.
2. nefnd um efnahagsmál, vísindi, tækni og         umhverfismál: Jónína Bjartmarz.
3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Ásta R. Jóhannesdóttir.

    Þema fundarins í Búkarest var stjórnfesta (good governance) og fjölluðu ályktanir nefndanna einkum um mikilvægi hennar. Íslandsdeildin stóð að þremur breytingartillögum þar sem í öllum tilfellum var lagt til að ÖSE-þingið ályktaði ekki einungis um að ríkisstjórnum aðildarríkjanna bæri að viðhafa góða stjórnsýslu, heldur yrði sömu áskorun beint til fjölþjóðastofnana, þ.m.t. ÖSE. Ásta R. Jóhannesdóttir mælti fyrir einni breytingartillagnanna í nefnd um lýðræði og mannréttindamál og var hún samþykkt án mótatkvæða. Jónína Bjartmarz mælti fyrir annarri tillögu í nefnd um efnahagsmál, vísindi, tækni og umhverfismál og var hún samþykkt einróma. Þriðja breytingartillagan var hins vegar felld í þeirri nefnd þar sem viðkomandi málsgrein hafði verið eytt með samþykkt annarrar breytingartillögu.
    Hinn 9. júní ritaði Pétur H. Blöndal bréf til Helle Degn, forseta ÖSE-þingsins, þar sem óskað var m.a. eftir upplýsingum um launakjör starfsmanna ÖSE-þingsins, skattareglur fyrir starfsmenn fjölþjóðastofnana og um jafnréttisáætlun ÖSE. Í anda góðrar stjórnsýslu taldi Pétur rétt að slíkar upplýsingar lægju fyrir og óskaði eftir að fá formlegt svar fyrir fund stjórnarnefndar þingsins í Búkarest eða á fundinum sjálfum. Á fundinum sagðist Pétur ekki vera sáttur við að honum hefði einungis borist persónulegt bréf frá framkvæmdastjóra þingsins, merkt trúnaðarmál. Pétur sagðist ekki skilja hvers vegna slíkar upplýsingar gætu ekki legið fyrir og taldi þetta ekki dæmi um góða stjórnsýslu. Loks lýsti hann efasemdum um ágæti skattfrelsis starfsmanna fjölþjóðastofnana. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE- þingsins, svaraði því til að launakjör starfsmannanna væru samkvæmt hefð leynileg nema laun hans sjálfs. Laun starfsmanna væru mishá af ýmsum ástæðum og reglur um skattfrelsi misjafnar eftir heimalandi starfsmanna. Hann lagði hins vegar áherslu á að launakjör starfsmanna ÖSE-þingsins væru lág á mælikvarða fjölþjóðastofnana og að reglur um skattfrelsi væru þær sömu og hjá öðrum fjölþjóðastofnunum. Pétur þakkaði fyrir svörin en sagði leynd yfir launakjörum einstakra starfsmanna oft vera notaða til að hylma yfir launamun kynjanna.
    Á fundinum var jafnframt ályktað um:
     *      stöðu mála í Hvíta-Rússlandi,
     *      stöðu mála í Moldavíu,
     *      „Ilascu-hópinn“ í Transdníestríu,
     *      ráðstefnu um stöðugleika við Svartahaf og Kaspíahaf,
     *      staðfestingu sáttmála um Alþjóðlega sakamáladómstólinn í Haag,
     *      25 ára afmæli Helsinki-sáttmálans,
     *      stöðu mála í Suðaustur-Evrópu, og
     *      þróun mála á Norður-Kákasussvæðinu.
    Ályktanir fundarins voru loks sameinaðar í eina stóra ályktun, Búkarest-yfirlýsingu ÖSE- þingsins, sem samþykkt var á þingfundi hinn 10. júlí.
    Þingfundinn ávörpuðu m.a. eftirtaldir:
     *      Helle Degn, fráfarandi forseti ÖSE-þingsins,
     *      Ion Diaconescu, forseti neðri deildar rúmenska þingsins,
     *      Mircea Ionescu Quintus, forseti efri deildar rúmenska þingsins,
     *      Emil Constantinescu, forseti Rúmeníu,
     *      Benita Ferrero-Waldner, utanríkisráðherra Austurríkis og formaður ráðherraráðs ÖSE,
     *      Petre Roman, utanríkisráðherra Rúmeníu, og
     *      Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE.
    Þau þrjú síðasttöldu svöruðu jafnframt spurningum þingmanna, sem og ýmsir af öðrum helstu embættismönnum ÖSE sem ávörpuðu fundinn. Þá áttu fulltrúar sex fjölþjóðaþinga að ávarpa fundinn, þar á meðal Sigríður A. Þórðardóttir fyrir hönd Norðurlandaráðs. Sökum tímaskorts var fjórum þeirra hins vegar boðið að ávarpa fundinn sunnudaginn 10. júlí í stað fimmtudagsins 6. júlí eða dreifa ávarpi sínu skriflega og tók Sigríður síðari kostinn. Á fundi stjórnarnefndar vakti Pétur H. Blöndal máls á þessu og sagði mjög leitt að fólk sem ferðast hefði langa leið og jafnvel varið til þess nokkrum dögum fengi svo ekki að komast að þrátt fyrir að hafa verið formlega boðið að koma og ávarpa fundinn. Helle Degn, forseti ÖSE- þingsins, tók undir með Pétri og sagðist þegar hafa rætt við framkvæmdastjóra þingsins um að slíkt mætti ekki endurtaka sig. Loks var á fundi stjórnarnefndar samþykkt veruleg hækkun fjárlaga þingsins, eða um 24%. Bill Graham, gjaldkeri þingsins, sagði ástæðurnar margar en fyrst og fremst þær að umfang starfsemi ÖSE-þingsins hefði vaxið gífurlega á undanförnum árum án nokkurrar hækkunar á fjárlögum og væri þingið mjög háð ungu fólki í starfsþjálfun sem sumt væri hreinlega í sjálfboðavinnu. Þá nefndi hann meðal annars verulega lækkun á gengi dönsku krónunnar, en skrifstofa þingsins er í Kaupmannahöfn, og var samþykkt að framvegis yrði evran gjaldmiðill þingsins. Pétur H. Blöndal lýsti efasemdum um nauðsyn hækkunarinnar, frekar ætti að hagræða og mikilvægt væri að sýna ráðdeild í meðförum á skattfé borgaranna.
    Á þingfundinum voru blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins veitt í fimmta sinn. Að þessu sinni hlaut þau rússneski blaðamaðurinn Andrei Babitsky sem lent hafði í útistöðum við rússnesk stjórnvöld vegna opinskárrar umfjöllunar sinnar um mannréttindabrot rússneska hersins í tengslum við átökin í Tsjetsjeníu. Rússnesk stjórnvöld hindruðu för Babitskys til Búkarest, en eiginkona hans tók við verðlaununum fyrir hans hönd.
    Á lokadeginum var kjörinn nýr forseti ÖSE-þingsins, auk þriggja af níu varaforsetum þess. Rúmenski þingmaðurinn Adrian Severin var kjörinn forseti, en varaforsetakjöri náðu Gennady Seleznev, forseti Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, þýski þingmaðurinn Rita Süssmuth og georgíski þingmaðurinn Nino Burdjanadze.
    Loks héldu þingkonur sérstakan fund þar sem meðal annars var fjallað um stöðu kvenna innan þingsins. Fram kom að konur væru einungis í um helmingi landsdeildanna. Konur voru jafnframt sérstaklega hvattar til að gefa kost á sér í laus embætti innan þingsins og gaf Rita Süssmuth kost á sér til varaforseta í kjölfar þess.

c. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið hefur frá upphafi tekið virkan þátt í kosningaeftirliti og lagt áherslu á mikilvægi þess í að efla lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til að sinna þessu starfi. Árið 2000 tók ÖSE-þingið m.a. þátt í kosningaeftirliti í Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu, Kosovo-héraði, Króatíu, Kirgistan, Kasakstan, Georgíu, Rússlandi og Aserbaídsjan.
    Íslandsdeildin tók þátt í kosningaeftirliti ÖSE-þingsins í Aserbaídsjan á árinu er Ásta R. Jóhannesdóttir hélt til Bakú, höfuðborgar landsins, dagana 1.–7. nóvember. Alls voru 23 þingmenn í eftirlitsnefnd ÖSE-þingsins auk fjölmargra eftirlitsaðila frá Evrópuráðinu og öðrum alþjóðastofnunum. Fyrir kosningarnar var haldinn fundur með fulltrúum stjórnvalda og stjórnarandstöðu en auk þess með fulltrúum fjölmiðla og mannréttindasamtaka. Var meðal annars farið fram á skýringar á ýmsum afar alvarlegum athugasemdum um ólýðræðisleg vinnubrögð stjórnvalda í aðdraganda kosninganna. Við framkvæmd kosninganna kom í ljós að allir eftirlitsaðilar höfðu orðið varir við kosningasvindl, hópatkvæðagreiðslur og óeðlileg vinnubrögð við talningu atkvæða svo fátt eitt sé nefnt. Formleg kvörtun var borin fram við forseta landsins og honum gerð grein fyrir hversu alvarlegt málið væri og þeirri kröfu komið á framfæri að stjórnvöld íhuguðu allar ásakanir og kærur sem fram komu á kjördag. Þá var þess krafist að efnt yrði til nýrra kosninga ef ásakanir reyndust rökum studdar.
    Í kjölfar rannsóknar á niðurstöðum kosninganna var ákveðið að ítreka enn við stjórnvöld í Aserbaídsjan að þeim bæri að verða við kröfum alþjóðastofnana um að tekið yrði á þeim álitamálum sem upp komu varðandi óeðlilega framkvæmd. Í desember var afráðið að fulltrúar ÖSE-þingsins héldu til Bakú og ítrekuðu kröfur sínar við ráðamenn og leituðu leiða til að tryggja að niðurstaða fengist í málinu. ÖSE-þingið fór þess á leit við Ástu R. Jóhannesdóttur að hún færi í þessa för í forföllum yfirmanns kosningaeftirlits ÖSE-þingsins í nóvember. Á fundum með sendinefndinni í Bakú 17. desember féllust stjórnvöld á að endurtaka kosningarnar að hluta og hétu rannsókn á meintu harðræði gegn stjórnarandstöðunni í landinu.
    Þess má geta að 7. janúar 2001 var efnt til endurkosninga í ellefu einmenningskjördæmum og sinnti Ásta eftirliti fyrir hönd ÖSE-þingsins. Í kjölfar kosninganna var því lýst yfir að verulegar framfarir hefðu orðið en jafnframt var þess getið að mörg atriði hefðu mátt fara betur. Kosningaeftirlit fulltrúa Íslandsdeildar ÖSE-þingsins á liðnu ári er ein margra vísbendinga um mikilvægi þess að Alþingi leggi sitt af mörkum er kemur að lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Evrópu.

d. Annað.
    Forseti ÖSE-þingsins hefur á árinu setið fundi fyrrverandi, núverandi og verðandi formanna ráðherraráðsins, auk þess að heimsækja nokkur aðildarríki ÖSE. Þá stóð ÖSE-þingið fyrir málþingi um skipulagða glæpastarfsemi og spillingu á Kýpur dagana 4.–5. október 2000 í samvinnu við kýpverska þingið. Íslandsdeildin tók ekki þátt í því málþingi.

Alþingi, 15. jan. 2001.



Guðjón Guðmundsson,


form.


Jónína Bjartmarz,


varaform.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Fylgiskjal I.



Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.



    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er því ætlað að:
     1.      meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr ágreiningi,
     4.      stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að þau ríki sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglur ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er miðað við að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál á afmörkuðu sviði. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahagsmál, vísindi, tækni og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (3. nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Samkvæmt þingsköpum ÖSE-þingsins skulu þingið og framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skulu teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðureglu“ (consensus rule) sem gildir á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins lýtur svokallaðri „consensus minus one“-reglu sem felur í sér að tvö eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan.


Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.



Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A. Bandaríkin 17 17
B. Rússland 15 15
C. Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland 13 52
D. Kanada og Spánn 10 20
E. Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland 8 48
F. Rúmenía 7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan 6 78
H. Búlgaría og Lúxemborg 5 10
I. Júgóslavía og Slóvakía 4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía 3 54
K. Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó 2 8
Samtals 317
Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.