Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 762  —  351. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um viðskiptahalla.

    Óskað var eftir upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun um 1.–5. lið fyrirspurnarinnar og frá Fjármálaeftirlitinu um 6. lið.

     1.      Hver hefur viðskiptahallinn verið árin 19971999 og hver er hann áætlaður árin 2000 og 2001?
     2.      Hver er uppsafnaður halli fyrrgreindra fimm ára?
    Taflan hér að neðan sýnir viðskiptahalla hvers árs um sig á tímabilinu 1997–2001. Samanlagður viðskiptahalli tímabilsins er áætlaður tæpir 222 milljarðar króna.

                    Viðskiptahalli í millj. kr.

Ár

Millj. kr.

1997
8.899
1998
40.051
1999
43.461
2000 (áætlun)
61.494
2001 (spá)
68.001
Samtals
221.906

Heimildir: Seðlabanki Íslands og Þjóðhagsstofnun .



     3.      Hvernig skiptist þessi halli milli fjárfestingar og neyslu?
     4.      Hve stór hluti neysluhallans er með ábyrgð opinberra aðila (samneysla) og hversu mikið er einkaneysla?
    Ekki er neitt einhlítt svar við þessum spurningum. Bera má þessi ár við tímabil þegar jafnvægi var í þjóðarbúskapnum. Árið 1997 hentar að mörgu leyti mjög vel til slíks samanburðar. Eftirspurn var þá nokkurn veginn í samræmi við framleiðslugetu, jöfnuður var á viðskiptum með vöru og þjónustu (afgangur nam um 0,6% af vergri landsframleiðslu), en lítils háttar viðskiptahalli stafaði af neikvæðum jöfnuði þáttatekna. Þá var fjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu ekki fjarri því sem hún þarf að vera til að stuðla að viðunandi hagvexti til lengdar.
    Frá árinu 1997 hafa þjóðarútgjöld vaxið hraðar en landsframleiðsla og hefur það leitt til halla á viðskiptum með vöru og þjónustu og aukinna erlendra skulda. Auknar erlendar skuldir hafa síðan haft í för með sér hærri nettóvaxtagreiðslur þjóðarbúsins sem enn hafa aukið á viðskiptahallann. Árið 1997 námu neysla og fjárfesting samtals um 99½% af vergri landsframleiðslu (VLF). Áætlað er að samsvarandi hlutfall verði ríflega 105% að meðaltali á árunum 1998–2001.

     Áætluð hlutdeild útgjaldaliða í vergri landsframleiðslu.

Útgjaldaliður 1997 1998–2001 Breyting
Fjárfesting
20,9% 23,4% 2,6 pr. stig
Neysla
78,6% 81,8% 3,2 pr. stig
Einkaneysla
57,1% 58,7% 1,7 pr. stig
Samneysla
21,5% 23,0% 1,5 pr. stig
Alls
99,4% 105,2% 5,8 pr. stig

    Ef árið 1997 er lagt til grundvallar skýrir aukin fjárfesting um 45% af halla á viðskiptum með vöru og þjónustu á árunum 1998–2001 en aukin neysla um 55%. Þar af skýrir aukin einkaneysla tæp 30% og samneysla um 25%. Ef árin1997–2001 eru borin saman við árin 1992–1996, en þau ár var að meðaltali jöfnuður á viðskiptum við útlönd, fæst að rúmlega 70% hallans á viðskiptum með vöru og þjónustu árin 1997–2001 skýrist af aukinni fjárfestingu, um 20% af aukinni samneyslu og 10% af einkaneyslu. Þess ber hins vegar að geta að tímabilið 1992–96 hentar að mörgu leyti mun verr sem viðmiðunartímabil en árið 1997 enda var hagkerfið ekki í jafnvægi þessi ár og fjárfesting óvenju lítil.
    Hér að framan hefur verið litið á vöxt hlutdeildar einstakra útgjaldaliða þjóðarinnar í vergri landsframleiðslu til að varpa ljósi á viðskiptahallann. Hægt er að skoða málið út frá öðru sjónarhorni þar sem útgjöld aðila hagkerfisins, hins opinbera og einkaaðila, eru borin saman við tekjur þeirra. Ef þannig er litið á málin er meira en allur viðskiptahalli rakinn til aukningar í útgjöldum einkaaðila. Áætlaður tekjuafgangur hins opinbera 1997–2001 er meiri en 50 milljarðar króna. „Tekjuhalli einkaaðila“ á tímabilinu er því áætlaður rúmlega 270 milljarðar króna en hann var nánast enginn árið 1996. Lauslega áætlað má rekja 155 milljarða til aukinnar einkaneyslu og 115 milljarða til aukinnar fjárfestingar einkaaðila. Hafa ber í huga að við útreikning á tekjuhalla einkaaðila er ekki tekið tillit til verðhækkana á eignum þeirra, svo sem á verðbréfum og húsnæði.

     5.      Hversu mikil er áætluð hlutdeild einkaneyslu í viðskiptahalla á
                  a.      íbúa,
                  b.      fjögurra manna fjölskyldu, fyrrgreind fimm ár?
    Ef miðað er við að hlutdeild einkaneyslu í viðskiptahalla sé um 30%, sbr. svar við 4. lið fyrirspurnarinnar, er „neysluhallinn“ árin 1997–2001 rúmlega 60 milljarðar króna eða
     a.      rúmar 220 þús. kr. á íbúa og
     b.      tæpar 900 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu.
    Ef litið er á málið miðað við tekjuhalla einkaaðila má líta svo á að neysluhallinn sé um 150 milljarðar króna eða
     a.      550 þús. kr. á íbúa og
     b.      2,2 millj. kr. á fjögurra manna fjölskyldu.

     6.      Hvernig er hallinn á einkaneyslu fjármagnaður og er vitað hvernig ábyrgðum eða tryggingum fyrir lántökum er háttað?
    Hjá Fjármálaeftirlitinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig hallinn á einkaneyslu er fjármagnaður. Að svo miklu leyti sem hann er fjármagnaður með lántöku hjá fjármálafyrirtækjum eiga lánareglur þeirra við um slíkar lántökur eins og aðrar lántökur viðskiptamanna. Samkvæmt lánareglum einstakra fjármálafyrirtækja er almenna reglan sú að teknar skuli fullnægjandi tryggingar fyrir lánum nema um sé að ræða smávægilega fyrirgreiðslu miðað við eigið fé fjármálafyrirtækis og fyrir liggi fullnægjandi vitneskja um greiðslugetu viðskiptamanns. Sama á við þegar fyrirliggjandi upplýsingar sýna að ekki er þörf sérstakra trygginga enda sé fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptamanns meðan lán eru útistandandi.