Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 763  —  309. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um fyrirhugað laxeldi hér á landi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve margar umsóknir um laxeldi í kvíum liggja nú fyrir og hvenær og hvar hyggjast umsækjendur hefja þann rekstur?
     2.      Hve mikil framleiðsla er fyrirhuguð í heild hjá þessum stöðvum og hjá hverri þeirra um sig?

    Upplýsingar um umsóknir um laxeldi í kvíum byggjast á umsóknum sem borist hafa embætti veiðimálastjóra til umsagnar frá Skipulagsstofnun.

Nafn stöðvar Fyrirhuguð framleiðsla
1. Eldisstöð Víkurlax ehf. í Eyjafirði 800 tonn
2. Eldisstöð Agva Norðurland í Eyjafirði 3.600 tonn
3. Eldisstöð Agva ehf. í Mjóafirði 8.000 tonn
4. Eldisstöð Samherja í Reyðarfirði 6.000 tonn
5. Eldisstöð Salar Islandica í Berufirði 8.000 tonn
6. Eldisstöð Íslandslax hf. í Vestmannaeyjum 4.000 tonn
7. Eldisstöð Íslandslax hf. undir Vogastapa 4.000 tonn
8. Eldisstöð Silungs ehf. undir Vogastapa 6.500 tonn

    Ekki er um fleiri umsóknir að ræða en heyrst hefur um áhuga manna á laxeldi á norðanverðu Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og Ströndum. Rétt er að taka fram að tilgreint framleiðslumagn byggist á óskum eldisstöðvanna, sem ekki er víst að leyfi verði veitt fyrir.
    Margar stöðvanna hyggjast hefja rekstur vorið 2001 en ljóst er að uppbygging verður hæg vegna takmarkaðs magns seiða til eldisins. Stöðvar, sem nú þegar stunda strandeldi, munu þó geta byggt upp rekstur á skiptieldi með meiri hraða en þar er fyrst og fremst um að ræða Íslandslax hf., Silung ehf. og hugsanlega samstarfsaðila þeirra.