Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 773  —  487. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um útboðsstefnu ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða útboðsstefnu ríkisins sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 25. maí 1993. Endurskoðuð stefna feli m.a. í sér að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum og öðrum alþjóðlegum samningum sem Ísland á aðild að verði að fullu virtar. Samtímis verði þess ávallt gætt að útboðum og innkaupum fyrir ríki og ríkisstofnanir verði hagað þannig að þau stuðli eins og kostur er að uppbyggingu og þróun íslensks iðnaðar.

Greinargerð.


    Innkaup ríkisins á þjónustu, vörum og framkvæmdum eru mjög mikil og afar mikilvæg fyrir íslensk iðnfyrirtæki og uppbyggingu íslensks iðnaðar. Í sumum tilvikum geta stórviðskipti ríkisins jafnvel ráðið úrslitum um vöxt og viðgang heilla iðngreina. Ákvarðanir um verkefni ríkisins ráða því miklu um afkomu fyrirtækjanna, atvinnu starfsmanna, nýtingu fjárfestinga og verkþekkingu í landinu. Auk þess skiptir miklu hinn beini og óbeini ávinningur sem ríki og sveitarfélög hafa af öflugum iðnrekstri, svo sem skatttekjum, minna atvinnuleysi og öðrum þjóðhagslegum ávinningi.
    Ísland á aðild að fjölþjóðlegum skuldbindingum um samkeppni og viðskiptahætti, fyrst og fremst EES-samningnum, sem bæði ríki og íslenskum iðnfyrirtækjum ber að virða. Aðferðir ríkisins við útboð og innkaup mega alls ekki brjóta í bága við þá samninga og reglur. Það er hins vegar alþekkt staðreynd að í reglum þessum felst talsvert svigrúm sem getur haft mikil áhrif á hver hreppir útboðssamning. Má í því sambandi nefna að útboðslýsingar eru gjarnan gefnar eingöngu út á tungumáli viðkomandi ríkis og ýmis skilyrði eru sett um þjónustu og vörur, svo sem efnisnotkun, afhendingartíma, viðhald, eftirlit, prófanir o.fl., sem auðveldara er fyrir innlend fyrirtæki að uppfylla en samkeppnisfyrirtæki annarra landa. Þetta leiðir af eðli máls og tryggir í flestum tilvikum hagstæðara tilboð, að teknu tilliti til allra þátta, því að með þessu er knúið fram hagkvæmasta tilboðið þegar til lengri tíma er litið en ekki endilega það lægsta. Með slíkri stefnu stuðla stjórnvöld jafnframt að iðnþróun og þjóðhagslegum ávinningi án þess að fara á svig við skuldbindingar sínar. Þetta gera aðrar þjóðir með góðum árangri og stuðla með því að atvinnuuppbyggingu í eigin landi og bættri stöðu atvinnugreina í alþjóðlegri samkeppni.
    Það er því nauðsynlegt að móta ákveðna og skýra stefnu í þessum málum fyrir þá sem annast gerð útboðslýsinga og innkaup fyrir ríki og ríkisstofnanir. Þeir hafa þá, auk laga, reglna og alþjóðlegra samninga, fyrirmæli og leiðbeiningar frá stjórnvöldum um hvaða atriði þeim ber að hafa í huga við störf sín.