Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 780  —  494. mál.

                   


Tillaga til þingsályktunar



um afnám eignarskatts á íbúðarhúsnæði.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason,


Ásta Möller, Drífa Hjartardóttir, Katrín Fjeldsted.


    
    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breyting á lagaákvæðum um eignarskatt á íbúðarhúsnæði með það að markmiði að eignarskattur á íbúðarhúsnæði verði aflagður í áföngum á næstu þremur árum.

Greinargerð.


    Um langt árabil hefur ungt fólk hér á landi lagt metnað sinn í að eignast eigið íbúðarhúsnæði og er svo enn þótt merkja megi breytingu þar á. Kemur þá til mikil óánægja fólks vegna þess forms á eignarskattsstofni sem í gildi hefur verið og er verulega íþyngjandi.
    Nálægt 85% þeirra sem eru 67 ára og eldri eru eigendur húsnæðisins sem þeir búa í. Á stærstum hluta húseignanna hvíla litlar eða engar skuldir. Eigendurnir greiða því flestir eignarskatt. Slík skattlagning stríðir gegn þeirri stefnu að gera eldra fólki kleift að búa í húsnæði sem það hefur byggt upp og annast viðhald á árum saman, svo lengi sem mögulegt er og vilji þess stendur til.
    Þá hefur álagning eignarskatts íþyngjandi fjárhagsleg áhrif á ekkjur og ekkla þrátt fyrir fimm ára aðlögun frá andláti maka, þ.e. þau greiða fyrst eignarskatt sem einstaklingar að fimm árum liðnum frá fráfalli maka. Þessar ráðstafanir hafa misst marks vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs. Eignarskattur kemur mjög misjafnlega niður á fólki og getur orðið allt að fimmfalt hærri hjá einstaklingi en hjá hjónum, enda þótt um sambærilega eign sé að ræða.
    Í breyttu þjóðfélagi er sala fasteigna með öðrum hætti en áður. Stórar fasteignir seljast verr en þær smærri og það gerir öldruðu fólki, ekkjum og ekklum, erfiðara um vik við sölu stórra fasteigna. Ástandið á fasteignamarkaðnum og eignarskatturinn, svo og lækkandi tekjur, gera fyrrnefndum aðilum mjög erfitt að halda eignum sínum.
     Tilgangur skatta er að afla ríkissjóði og sveitarsjóðum nauðsynlegra tekna, með sem minnstum skaðlegum áhrifum á efnahagslíf landsins og eins litlum vandræðum og skaða fyrir greiðendur og unnt er.
    Við álagningu eignarskatts verður löggjafinn að gera sér grein fyrir hver greiðir skattinn að lokum. Nærtækasta dæmið er eignarskatturinn á ekkjur sem í skattaumræðunni hefur fengið á sig hið versta orð.
    Eignarskattur lendir á húsnæði sem eigandi notar sjálfur. Húsnæðiskostnaður hans eykst, en án aukinnar greiðslugetu, jafnvel samhliða minnkandi greiðslugetu. Afleiðingin er versnandi lífskjör og e.t.v. nauðungarsala eignarinnar vegna fjárskorts húseigandans.
    Um fasteignir ætti að gilda sú almenna regla að á þær verði ekki lögð önnur eignagjöld en fasteignagjöld sveitarfélaga. Víðast eru fasteignagjöld aðaltekjustofnar sveitarfélaga og er það vægast sagt óráðlegt að ríkið sé að seilast lengra ofan í vasa skattborgaranna með því að gera heimili þeirra og húseignir að tekjustofnum fyrir síhækkandi eignarskatta. Röksemd fyrir afnámi eignarskatts er að í reynd er um tvísköttun að tæða.
    Þeir einstaklingar, sem standa í því að koma sér upp eigin húsnæði, leggja þar með fram hluta tekna sinna sem þeir hafa greitt af tekjuskatt, jafnvel hátekjuskatt, og greiða að auki virðisaukaskatt af aðföngum.