Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 781  —  495. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2000.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 skyggði nokkuð á starfsemi VES en með breyttri skipan öryggis- og varnarmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins jókst mikilvægi stofnunarinnar til muna. Með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Næstu ár efldist VES verulega og gegndi æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu var ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB átti það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum var litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB.
    VES-þingið kom fyrst saman árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Á VES-þinginu koma saman þjóðkjörnir þingmenn frá aðildarríkjum sambandsins, en þau eru nú tíu talsins, þ.e. öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Loks hafa sjö ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES. Eftirfarandi ríki eiga aðild að þinginu: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Aukaaðildarríkin eru: Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild hafa: Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð. Þá eru samstarfsríkin sjö talsins: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndarformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna fjóra til fimm fundi á ári utan þingfundanna.
2. Íslandsdeild VES-þingsins árið 2000.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa ekki rétt til að tala á móðurmáli sínu á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Aðalmenn Íslandsdeildar VES-þingsins á árinu voru eftirtaldir: Kristján Pálsson, formaður, og Katrín Fjeldsted, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Þá voru varamenn: Einar Oddur Kristjánsson og Hjálmar Jónsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Gústaf Adolf Skúlason var ritari Íslandsdeildar VES-þingsins fram til 1. september en við starfinu tók Andri Lúthersson.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2000 var eftirfarandi:

Forsætisnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnarnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnmálanefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Varnarmálanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Hjálmar Jónsson.
Nefnd um almannatengsl: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Tækni- og geimvísindanefnd: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Fjármála- og stjórnsýslunefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Hjálmar Jónsson.
Þingskapanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Hjálmar Jónsson.

3. Breytt staða VES og áhrif þess á VES-þingið.
    Árið 2000 var framtíð VES-þingsins sjálfs efst á baugi í umræðum auk þess sem þær snerust að töluverðu leyti um stofnanatengsl VES við ESB og NATO en á síðustu missirum hafa átt sér stað miklar breytingar á vettvangi öryggis- og varnarmála í Evrópu. Á leiðtogafundi Bretlands og Frakklands í St. Malo í desember 1998 var öryggismálum álfunnar beint inn á ótroðnar slóðir. Þar var ákveðið að ESB kæmi sér upp sjálfstæðum hernaðarmætti og í framhaldinu var ákveðið á leiðtogafundum ESB í Köln árið 1999 að stefna bæri að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000. Á fundi leiðtoga aðildarríkja ESB í Helsinki síðar sama ár urðu leiðtogarnir sammála um að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópuríkjunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Samkæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan „annarrar stoðar“ ESB og auk þess hefur hernaðarlegum markmiðum sambandsins þegar verið ýtt úr vör en stefnt er að því að það hafi á að skipa 50–60.000 manna evrópsku herliði sem brugðist geti skjótt við er hættuástand skapast. Ákvarðanir nokkurra leiðtogafunda ESB og yfirlýsing leiðtogafundar NATO í Washington lágu til grundvallar beinu sambandi milli NATO og ESB í þessum málum og hefur þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB í kjölfarið gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar er nokkru minna en áður í ljósi þess að stofnanir öryggis- og varnarmála álfunnar hafa færst á ábyrgð ESB. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO. Því er ljóst að nauðsynlegt er að Ísland tengist VES nánari böndum og gæti þannig að stöðu landsins í öryggis- og varnarmálum Evrópu.
    VES-þingið hefur verið mikilvægur þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Þá hefur verið lagt til að nýja þingið verði grundvallað á ESB-sáttmálanum og að þingmenn þjóðþinga ESB-ríkjanna 15 taki þar sæti, auk þjóðkjörinna þingmanna evrópsku aðildarríkja NATO sem eru ekki aðilar að ESB. Tillögur þessa efnis voru settar fram á sérstöku VES-þingi í Lissabon í mars og á þeim hefur umræðan um hlutverk þjóðþinganna í öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins byggst. Þá var ákveðið að VES-þingið tæki upp viðbótarheitið: Tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu (The Interim European Security and Defence Assembly).
    Íslandsdeildin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að núverandi aukaaðildarríki VES geti tekið þátt í þróun öryggis- og varnarmálasamstarfs álfunnar, sem og framkvæmd þeirrar stefnu sem á endanum verður mótuð. Þá hefur Íslandsdeildin lagt áherslu á mikilvægi lýðræðislegs eftirlits þingmannasamkundu eins og VES-þingsins.

4. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í starfsemi VES-þingsins á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

a. Fyrri hluti 46. fundar VES-þingsins.
    Dagana 5.–8. júní var fyrri hluti 46. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson, formaður, Katrín Fjeldsted, varaformaður, og Lúðvík Bergvinsson, auk ritara. Helsta umfjöllunarefni fundarins var að sjálfsögðu sú öra þróun sem nú á sér stað í skipan Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi ESB. Einkum var rætt um framtíðarstöðu evrópsku NATO-ríkjanna sem standa utan ESB (aukaaðildarríkja VES) annars vegar og framtíðarskipan evrópsks þingmannasamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála hins vegar. Nær alger samstaða virtist ríkja um það á fundinum að evrópsku NATO-ríkin utan ESB yrðu áfram að hafa a.m.k. sambærilega stöðu og þau hafa nú innan VES. Menn voru og sammála um nauðsyn þess að þjóðkjörnir þingmenn ríkjanna 28 sem nú tengjast VES með einum eða öðrum hætti störfuðu saman á einhverjum vettvangi og samþykkti fundurinn að VES-þingið kallaðist jafnframt tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu. Þá var sett á laggirnar sérstök nefnd (Steering Committee) skipuð formönnum landsdeilda og flokkahópa til að vinna drög að skipulagi og þingsköpum nýs öryggis- og varnarmálaþings Evrópu og tók Kristján Pálsson sæti í nefndinni fyrir hönd Íslandsdeildar. Klaus Bühler, forseti VES-þingsins, átti einnig sæti í nefndinni og var kjörinn formaður hennar á fyrsta fundi. Evrópuþingið á einnig áheyrnarfulltrúa í nefndinni.
    Nefndinni er meðal annars ætlað að vinna drög að stofnsáttmála hins nýja þings og gera tillögur um samsetningu þess, atkvæðisrétt, nefndarskipan, fjármögnun o.s.frv. Ráðgert var að nefndin hittist þrisvar sinnum fram að þingfundi VES-þingsins í desember og að tillögur hennar yrðu lagðar fyrir fundinn til samþykktar. Talsverðrar spennu virtist gæta í nefndinni á þinginu þegar kom að umræðu um stöðu evrópskra NATO-ríkja utan ESB. Á fyrsta fundi nefndarinnar lagði Klaus Bühler t.d. til að atkvæðisréttur í nefndinni yrði einskorðaður við aðildarríki ESB, en aukaaðildarríki VES hafa atkvæðisrétt í nefndum þingsins. Margir urðu til að mótmæla þessu, þar á meðal Kristján Pálsson, og var ákvörðun um þetta frestað. Ákveðins ótta virtist hins vegar gæta við að láta evrópsku NATO-ríkjunum utan ESB of sterka stöðu í té í nefndinni þar sem það gæti haft neikvæð áhrif á afstöðu ESB og Evrópuþingsins til nýja þingsins. Þessi skoðun var ekki áberandi en rík ástæða er fyrir evrópsku NATO-ríkin utan ESB að standa vörð um hagsmuni sína við mótun nýs öryggis- og varnarmálaþings Evrópu.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Júlio de Castro Caldas, varnarmálaráðherra Portúgals sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB og VES fyrri hluta ársins 2000, Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála hjá ESB, og Jean-Pierre Masseret, aðstoðarvarnarmálaráðherra Frakklands sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB og VES síðari hluta ársins 2000. Loks má geta þess að Catherine Lalumière, varaformaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, tók þátt í umræðunni um stofnun öryggis- og varnarmálaþings Evrópu.
    Kristján Pálsson tók þátt í sameiginlegri umræðu um fyrstu tvær skýrslurnar, um afleiðingar þess að ákveðin verkefni VES yrðu færð yfir til ESB og um aukaaðildarríki VES og nýja skipan evrópskra öryggis- og varnarmála. Þá tóku Kristján og Katrín Fjeldsted þátt í umræðu um stofnun öryggis- og varnarmálaþings Evrópu. Í ræðum sínum fögnuðu þau fyrirætlunum um eflingu sjálfstæðs evrópsks hernaðarmáttar. Jafnframt lögðu þau áherslu á mikilvægi þess að evrópsku NATO-ríkin utan ESB fengju fullan þátttökurétt í mótun og framkvæmd evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu, svipað og nú væri innan VES. Þau þökkuðu bæði VES-þinginu og forseta þess fyrir hvernig þingið hefði ítrekað samþykkt tilmæli og ályktanir þar sem lögð er áhersla á mikilvægi sterkrar stöðu evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB. Meðal annars í ljósi þessa lögðu þau áherslu á að áfram yrði vettvangur þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðþinganna hittust og ræddu öryggis- og varnarmál Evrópu. Því lýstu þau stuðningi sínum við stofnun öryggis- og varnarmálaþings Evrópu á grunni VES- þingsins, þar sem þingmenn 28 aðildarríkja, aukaaðildarríkja og samstarfsríkja VES kæmu saman og fjölluðu um öryggis- og varnarmál álfunnar.
    Í kjölfar ávarps Javiers Solana beindi Kristján Pálsson til hans þeirri spurningu hvort áhersla leiðtogafundar NATO í Washington árið 1999 á mikilvægi þess að evrópsku NATO- ríkin utan ESB tækju sem mestan þátt í evrópskri öryggis- og varnarmálastefnu hefði tapað nokkru vægi á rúmu ári. Solana svaraði því til að af hálfu ESB yrði staðið við yfirlýsingar leiðtogafundar NATO. Hann sagði ýmsa vilja grandskoða niðurstöður leiðtogafunda ESB í Köln og Helsinki í leit að breytingum frá leiðtogafundi NATO í Washington. Sannleikurinn væri hins vegar sá að sami andi svifi enn yfir vötnum og að staðið yrði við hvert orð frá fundinum í Washington.

b. Síðari hluti 46. fundar VES-þingsins.
    Síðari hluti 46. fundar VES-þingsins fór fram í París dagana 4.–7. desember. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson, formaður, Katrín Fjeldsted, varaformaður og Lúðvík Bergvinsson, auk ritara. Enn var rætt þróun á skipan Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi ESB síðustu missiri. Tvö mál bar þar hæst, annars vegar hvernig haga ætti stöðu aðildarríkja NATO utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi ESB í framtíðinni og hins vegar voru ítrekaðar kröfur þingmanna á VES-þinginu um nauðsyn þess að þjóðkjörnir þingmenn ríkjanna 28 sem nú tengjast VES með einum eða öðrum hætti störfuðu saman á nýjum vettvangi öryggis- og varnarmála. Fyrir þingið var ljóst að ekki yrði tekin ákvörðun á árinu um skipan nýs öryggis- og varnarmálaþings Evrópu. Þó er ljóst að VES- þingið verður við lýði í einni eða annarri mynd enda styðst það við 9. grein Brussel-sáttmálans og eru aðildarríki VES á einu máli um að því verði við haldið sem réttum vettvangi öryggis- og varnarmálaumræðu í álfunni. Hin sérlega nefnd VES-þingsins hafði ekki lokið störfum sínum fyrir þingfundinn en ýmsar tillögur höfðu verið viðraðar og verður framhald umræðna um þau mál. Á þinginu var fjallað um framkvæmd öryggis- og varnarmálastefnu ESB og ályktað í þá veru að tryggt yrði að VES-þingið kæmi með beinum hætti að umræðunni um hvaða vettvangur yrði valinn fyrir framtíðarfyrirkomulag öryggis- og varnarmálaþings Evrópu. Sú umræða verður lögð til grundvallar ákvörðun um hvernig hægt verður að tryggja þátttöku evrópskra þingmanna í þessum málum. Var ráðherraráð VES hvatt til að leita allra leiða til að tryggja að formennskuríki ESB taki ákvörðun um framhaldið í samvinnu og samráði við VES og þingmannasamkundu þess. Var enn fremur hvatt til þess að ESB héldi VES-þinginu við uns ákvörðun um framtíð þessara mála hefði verið tekin.
    Þrír möguleikar hafa einkum verið ræddir með hliðsjón af þessu og gerir sá fyrsti ráð fyrir að tvö þing muni starfa í framtíðinni, annars vegar öryggis- og varnarmálaþing Evrópu, sem starfi innan ESB og hafi eingöngu Petersberg-verkefnin svokölluðu í sínum verkahring, og hins vegar VES-þing, sem fjalli um málefni er lúta að 5. grein Brussel-sáttmálans, samvinnu á sviði hergagnaframleiðslu og varnar- og öryggismál í víðu samhengi. Annar kosturinn er að eitt þing fjalli um evrópsk öryggis- og varnarmál í heild. Þar eru nokkrir ólíkir möguleikar nefndir: VES-þing með þátttöku fulltrúa Evrópuþingsins til viðbótar við þjóðkjörna fulltrúa aðildarríkjanna, þingmannasamkunda á vegum Evrópuþingsins með þátttöku þjóðkjörinna þingmanna sem sitja nú á VES-þinginu og sérstök samstarfsnefnd fulltrúa þjóðþinga og Evrópuþingsins. Þriðji möguleikinn sem nefndur hefur verið í þessu samhengi er að komið verði á nokkurs konar efri deild Evrópuþingsins með fulltrúum þjóðþinga.
    Þróun í átt að sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu ESB var fagnað á þinginu þó að ákvörðun ráðherraráðs ESB um að leggja niður VES sem þátttakanda í ófullgerðri öryggis- og varnarmálastefnu ESB væri sögð bera vott um fljótfærni. Í ályktun sinni hefði ráðherraráðið ekki gætt þess að réttindi og hagsmunir aðildarríkja sem standa utan ESB (aukaaðildarríkja VES) yrðu tryggðir er hlutverk VES færðist á ESB.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála hjá ESB, Jozias Van Aartzen, utanríkisráðherra Hollands, sem fer með formennsku í ráðherraráði VES fyrri hluta árs 2001, Lionel Jospin, forsætisráðherra Frakklands, sem fór fyrir ráðherraráði ESB og VES síðari hluta ársins 2000, Akis Tsohatzopoulos, varnarmálaráðherra Grikklands sem fer fyrir Hergagnastofnun Vestur-Evrópu (WEAG), og Art Eggleton, varnarmálaráðherra Kanada.
    Kristján Pálsson tók þátt í umræðu um framkvæmd sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu og lagði áherslu á það í ræðu sinni að enn ætti eftir að svara þeirri grundvallarspurningu hvernig þátttaka aukaaðildarríkja VES í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu yrði og á hvern hátt mætti tryggja þátttöku þjóðkjörinna þingmanna þessara ríkja í þingræðislegri umræðu um þennan málaflokk. Lýsti hann yfir áhyggjum sínum af örri þróun og sagði að gæta yrði þess að einingin innan NATO veiktist ekki við eflingu sjálfstæðs evrópsks hernaðarmáttar. Þá taldi hann og að gæta yrði að mörgum þáttum þegar ákveðið yrði hvernig haga bæri skipulagi öryggis- og varnarmálaþings Evrópu. Hann nefndi að VES-þingið og Evrópuþingið ættu að ræða á jafnræðisgrundvelli um þau mál. Ítrekaði Kristján jafnframt fyrri áherslur sínar um mikilvægi þess að evrópsku NATO-ríkin utan ESB fengju fullan þátttökurétt í mótun og framkvæmd evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu, líkt og innan VES.
    Eftir ávarp Javiers Solana, framkvæmdastjóra VES, spurði Kristján hvernig tryggt yrði að hin öra þróun í átt að nánara öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB leiddi ekki til þess að NATO-ríkin utan ESB yrðu afskipt við stefnumótun og ákvarðantöku með tilliti til Petersberg-verkefnanna. Í svari Solana kom fram að staða Íslands yrði ekki verri en áður og lagði hann áherslu á að ekki væru uppi áætlanir um að komið yrði á sameiginlegu öryggis- og varnarkerfi í álfunni. Slíkt væri og yrði á herðum NATO. Einungis væri um afmarkaðan málaflokk að ræða og áhrif Íslands á hann yrðu meiri áhrif en áður.
    Eftir ávarp Jozias Van Aartzens, utanríkisráðherra Hollands, bar Katrín Fjelsted fram spurningu um hvernig Holland, sem fer fyrir ráðherraráði VES, mæti framtíðarhorfur aukaaðildarríkja VES og hvort yfirlýsing leiðtoga NATO-ríkjanna í Washington á síðasta ári hefði misst gildi sitt. Í svari Van Aartzens kom fram að á undanförnum missirum hefði verið rætt við aukaaðildarríkin um fyrirkomulag þátttöku þeirra í málum VES og sagði hann að ljóst væri að þátttakan yrði með reglubundnum hætti bæði á embættismanna- og ráðherrastigi. Sagði hann að þegar hefði verið ákveðið að samráðsfundir á ráðherrastigi yrðu á hálfs árs fresti og að aukaaðildarríkin hefðu þar tillögurétt í öllum málum er lytu að öryggis- og varnarmálum sem og hættuástandsstjórnun. Þá fagnaði ráðherrann framlagi aukaaðildarríkjanna til verkefna sem ráðist verður í undir sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu. Sagði hann að í forustutíð Hollands yrði samráð við aukaaðildarríkin eflt til muna á öllum stigum og að evrópsku NATO-ríkin utan ESB mundu sjálfkrafa hafa rétt til að taka þátt í aðgerðum ESB þar sem búnaður NATO væri nýttur.

c. Nefndarfundir.
    Forsætisnefnd Alþingis veitti formanni Íslandsdeildar VES-þingsins takmarkaða aukafjárveitingu vegna setu hans í sérstakri nefnd VES-þingsins (Steering Committee) sem var skipuð formönnum landsdeilda og flokkahópa og sett var á laggirnar til að vinna drög að skipulagi og þingsköpum nýs öryggis- og varnarmálaþings Evrópu. Nefndin hélt þrjá fundi á árinu, einn í Brussel og tvo í París, og sótti Kristján Pálsson þá alla. Þar var efnt til umræðna við allar málefnanefndir VES-þingsins auk þess sem fulltrúar forusturíkja VES og ESB ávörpuðu nefndina og lýstu viðhorfum sínum til framtíðarþróunar öryggis- og varnarmála álfunnar og breytts hlutverks VES og VES-þingsins. Nefndin er enn að störfum en henni er sem áður segir ætlað að semja drög að stofnsáttmála hins nýja þings og gera tillögur um samsetningu þess, atkvæðisrétt, nefndarskipan, fjármögnun o.s.frv. Ráðgert er að nefndin skili tillögum sínum árið 2001 og að þær verði lagðar fyrir VES-þingið til samþykktar.

Alþingi, 15. jan. 2001.



Kristján Pálsson,


form.


Katrín Fjeldsted,


varaform.


Lúðvík Bergvinsson.


Fylgiskjal.

Ályktanir, álit og tilmæli VES-þingsins árið 2000.



Fyrri hluti 46. þingfundar, 5.–8. júní:
     1.      Tilmæli nr. A1689, um afleiðingar þess að ákveðin verkefni VES verði færð yfir til ESB.
     2.      Tilmæli nr. A1690, um aukaaðildarríki VES og nýja skipan evrópskra öryggismála.
     3.      Tilmæli nr. A1687, um ný verkefni evrópsks herafla og þann hernaðarmátt sem þau krefjast.
     4.      Tilmæli nr. A1692, um ný verkefni fyrir gervihnattamiðstöð VES.
     5.      Ályktun nr. A1685, um alþjóðlegan erindrekstur þingmanna: hlutverk fjölþjóðaþinga.
     6.      Tilmæli nr. A1686, um rannsóknarstofnanir í öryggis- og varnarmálum: stöðuna í aukaaðildarríkjunum.
     7.      Tilmæli nr. A1693, um endurskoðuð fjárlög fyrir árið 2000.
     8.      Álit nr. A1694 á fjárlögum ráðherraráðsins fyrir árið 2000.
     9.      Tilmæli nr. A1691, um framkvæmd stöðugleikasáttmála ESB fyrir Suðaustur-Evrópu.
     10.      Tilmæli nr. A1688, um stöðu mála í Kosovo.

Síðari hluti 46. þingfundar, 4.–7. desember:
     1.      Tilmæli nr. C1715, um hættuástandsstjórnun samkvæmt sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu.
     2.      Tilmæli nr. C1716, um stjórn á útbreiðslu kjarnavopna og hlut sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu í því efni.
     3.      Tilmæli nr. C1712, um varaherlið og breyttar aðstæður með tilkomu stéttar atvinnuhermanna.
     4.      Tilmæli nr. C1722, um Rússland og öryggi og varnir Evrópu.
     5.      Álit um Marseilles-yfirlýsinguna.
     6.      Tilmæli nr. C1709, um útgjöld VES-þingsins árið 1999.
     7.      Fjárlagatillögur fyrir árið 2001.
     8.      Tilmæli nr. C1719, um afleiðingar samrunaþróunar í hergagnaframleiðslu Evrópu.
     9.      Tilmæli nr. C1717, um samvinnu í eldflaugavörnum á Evró-Atlantshafssvæðinu.
     10.      Tilmæli nr. C1718, um samanburð á framlagi til rannsókna á varnarmálum í Evrópu og Bandaríkjunum.
     11.      Tilmæli nr. C1723, um rannsóknastofnanir í öryggis- og varnarmálum og stöðuna í aukaaðildarríkjum VES.
     12.      Ályktun nr. C1724, um undirsvæðastofnanir í Evrópu og þingræðislega vídd þeirra: stöðuna í Mið- og Suður-Evrópu.
     13.      Tilmæli nr. C1721, um alþjóðlega löggæslu í suðausturhluta Evrópu.