Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 789  —  502. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Flm.: Þuríður Backman.



1. gr.

    6. málsl. i-liðar 36. gr. laganna orðast svo:
    Séu liðnar 36 klst. eða meira frá innritun sjúklings greiðist flutningskostnaður milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.

2. gr.

    Lögin öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 125. löggjafarþingi en komst ekki á dagskrá á því þingi. Frumvarpið er því endurflutt en því fylgdi svohljóðandi greinargerð: „Samkvæmt gildandi lögum greiðir Tryggingastofnun ríkisins kostnað við sjúkraflug ef sjúklingur er fluttur beint að heiman frá sér en sé hann fluttur af sjúkrahúsi greiðir viðkomandi stofnun flutninginn. Þetta fyrirkomulag hefur þann galla að minni sjúkrahús veigra sér við að innrita sjúklinga sem gætu þurft á sjúkraflugi að halda vegna þess að kostnaðurinn gengur nærri fjárhag lítilla stofnana. Það ýtir undir að sjúklingar séu strax sendir á sjúkrahús í Reykjavík eða á Akureyri í stað þess að gangast undir rannsókn heima fyrir til að ganga úr skugga um hvort sjúkraflug reynist nauðsynlegt. Einnig leiðir þetta til ónákvæmrar skráningar í þeim tilfellum þegar sjúklingur nýtur aðhlynningar á litlu sjúkrahúsi áður en til flutnings kemur. Sú breyting sem hér er lögð til mundi koma minni sjúkrahúsunum til góða, bæta nýtingu þeirra og draga úr sjúkraflugi.“