Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 791  —  504. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal fylgjast með nýtingu fiskiskipa á aflaheimildum. Bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund skal Fiskistofa tilkynna það útgerð og skipstjóra viðkomandi skips með símskeyti og jafnframt að skipið sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Telji móttakandi tilkynningar að upplýsingar Fiskistofu um afla skips séu rangar og að skipið hafi ekki veitt umfram aflaheimildir skal hann innan þriggja virkra daga koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa getur veitt lengri frest til athugasemda ef ástæða er til að ætla að um ranga skráningu afla eða aflaheimilda sé að ræða. Óheimilt er að stunda veiðar í atvinnuskyni að loknum fresti nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu þar um. Séu aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju.
    Komi til leyfissviptingar í annað sinn á sama fiskveiðiári vegna veiða umfram aflaheimildir skal Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur til viðbótar þeim tíma sem leiðir af leyfissviptingu skv. 1. mgr., í sex vikur gerist það í þriðja sinn og í tólf vikur gerist það oftar. Úthlutun aflaheimilda í upphafi nýs fiskveiðiárs hefur ekki áhrif á lengd leyfissviptingar samkvæmt þessari málsgrein. Um framkvæmdina fer að öðru leyti skv. 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er kveðið á um sviptingu leyfa til veiða í atvinnuskyni vegna veiða umfram aflaheimildir. Við framkvæmd þessa ákvæðis hafa komið fram ýmsir annmarkar sem hafa í sumum tilvikum leitt til óeðlilegrar niðurstöðu fyrir útgerðir. Þykir því nauðsynlegt að gera hér nokkrar breytingar á gildandi ákvæði sem gera framkvæmd Fiskistofu markvissari auk þess að veita útgerðum eðlilegra svigrúm. Samkvæmt því sem hér er lagt til skal Fiskistofa tilkynna útgerð og skipstjóra skips með skeyti þegar hún telur að skipið hafi veitt umfram aflaheimildir sínar, jafnframt að leyfi skipsins til veiða í atvinnuskyni falli niður frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Að fenginni slíkri tilkynningu frá Fiskistofu hefur viðkomandi útgerð því þrjá daga til þess að flytja nægjanlegar aflaheimildir á skipið eða til þess að koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu telji hún að aflaheimildastaða skipsins sé önnur en fram kemur í tilkynningu Fiskistofu. Þá er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti veitt frekari frest sé ástæða til að ætla að um ranga skráningu afla eða aflaheimilda sé að ræða enda getur athugun á slíku tekið nokkurn tíma. Í reynd er það svo að í langflestum tilvikum þegar Fiskistofa tilkynnir útgerð um umframafla eru upplýsingar Fiskistofu réttar og mistök í skráningu afla eða aflaheimilda eru frekar undantekningartilvik.
    Með þessari framkvæmd fær útgerð ávallt nokkurt svigrúm til að laga stöðu sína þegar um umframafla er að ræða án þess að nauðsynlegu aðhaldi sé sleppt. Ekki er gert ráð fyrir að til sviptingar leyfis til veiða komi strax eins og núgildandi ákvæði gerir ráð fyrir án tillits til þess hversu mikill umframaflinn er eða hvort hann er í tegundum sem telja verði að sé aukaafli í viðkomandi veiðum. Þá yrði eftir þessa breytingu ekki skilyrðislaust gripið til sérstakra aðgerða ef skip héldi til veiða með neikvæðri aflaheimildastöðu eins og gildandi ákvæði kveða á um en framkvæmd þess ákvæðis hefur reynst mjög erfið og leitt til misræmis.
    Taki leyfissvipting hins vegar gildi fær skipið leyfi til veiða þegar aflaheimildastaða þess hefur verið lagfærð. Komi aftur til sviptingar leyfis til veiða í atvinnuskyni á sama ári vegna veiða umfram aflaheimildir kemur til sérstakra tímabundinna leyfissviptinga skv. 2. mgr. Er þar aðeins vikið frá gildandi ákvæði að því leyti að kveðið er skýrt á um sviptingu þegar veitt er umfram aflaheimildir oftar en þrisvar á sama fiskveiðiári og að nýtt fiskveiðiár hafi aldrei áhrif á lengd leyfissviptingarinnar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að sníða af ýmsa vankanta sem framkvæmd laganna hefur leitt í ljós. Reiknað er með að breytingarnar geri eftirlitsstörf Fiskistofu markvissari, en veiti útgerðum jafnframt eðlilegt svigrúm gagnvart henni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.