Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 799  —  120. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.


    Það er álit minni hluta að þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpi sjávarútvegsráðherra, og meiri hluti nefndarinnar mælir með, nái ekki því markmiði að stöðva sjálftöku á kvótum sem mest eru nýttir af stærstu og öflugustu fiskiskipum flotans, frystitogurunum. Samkvæmt frumvarpinu verður áfram hægt að nýta sér tegundartilfærslu og ekki verður komið í veg fyrir að stórútgerðin safni til sín verðlitlum kvótategundum, t.d. sandkola og skrápflúru, geymi þær síðan hjá sér og breyti yfir í verðmeiri fisktegundir þegar það hentar vegna verðs og skorts á kvótum. Karfi og grálúða hafa verið þær fisktegundir sem mest hefur verið breytt í á undanförnum árum og oft verið veitt 10–15% umfram leyfðan afla í þeim tegundum. Á síðasta fiskveiðiári, 1999–2000, var rúmlega 60% af sandkolakvótanum breytt í aðrar fisktegundir og tæpum 46% af skrápflúrukvótanum ásamt 16% af steinbítskvótanum. Alls voru 9.768 tonn notuð í breytingar sem gáfu 1.779 tonn af karfa, 1.505 tonn af grálúðu, 711 tonn af skarkola og 693 tonn af ýsu eftir tegundarbreytingar útgerðanna.
    Nefndin tók á 125. löggjafarþingi heils hugar undir sjónarmið sem fram komu í frumvarpi sem flutt var af undirrituðum og samþykkt var að vísa til ríkisstjórnarinnar með þeim orðum að ,,tegundartilfærslur eins og þær hafa verið túlkaðar gangi gegn markmiði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um vernd og uppbyggingu fiskistofna“.
    Frumvarpið, sem undirritaður flutti á 125. löggjafarþingi, fól í sér að tegundartilfærsla yrði afnumin. Í staðinn yrði leyft að veiða umfram úthlutun enda væri þá fært til baka af næsta árs úthlutun í sömu fisktegund og veitt var umfram af fiskveiðiárið á undan. Í frumvarpinu var gerð tillaga um 2%. Vel kann að vera að það hafi verið of þröng heimild og þau 5% sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 10. gr. laganna hefðu mátt standa, enda væri þá tegundartilfærslan felld niður með verðmætastuðlum einstakra fisktegunda sem í lögunum eru og meiri hlutinn vill enn þá hafa í lögunum.
    Tillaga meiri hlutans er spor í þá átt sem lögð var til, en nær ekki því markmiði að stöðva upptöku á kvótum annarra fisktegunda sem strandveiðiflotinn í aflamarkskerfinu gæti þá ef til vill nýtt sér. Frumvarpið stöðvar ekki heldur sjálftöku kvóta yfir í karfa og grálúðu sem fyrst og fremst færist yfir til frystiskipaflotans. Breytingin í frumvarpi sjávarútvegsráðherra nær því ekki þeim markmiðum sem að var stefnt en er í besta falli lítið skref á þeirri leið að afnema tegundartilfærslu. Undirritaður mun því að óbreyttu sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febr. 2001.


Guðjón A. Kristjánsson.Prentað upp.