Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 800  —  510. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Í stað 1.–11. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að selja 51% eignarhlut íslenska ríkisins í Kísiliðjunni hf. við Mývatn. Söluandvirðið skal renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.

2. gr.

    12. gr. laganna, sem verður 2. gr., orðast svo:
    Starfræktur skal sérstakur sjóður, Kísilgúrsjóður, sem hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar.
    Ráðstöfunarfé sjóðsins skal vera:
     1.      20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001.
     2.      68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 og þar til kísilgúrvinnslu er hætt.
     3.      Framlag á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.
     4.      Aðrar tekjur.
    Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.
    Iðnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjóð þennan.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1.     Inngangur.
    Kísiliðjan hf. við Mývatn var stofnuð 13. ágúst árið 1966 með stofnsamningi íslenska ríkisins og bandaríska fyrirtækisins John-Manville Corporation. Hefur verksmiðjan frá upphafi starfað samkvæmt lögum nr. 80/1966. Eigendur verksmiðjunnar eru nú íslenska ríkið með 51% hlut, Celite Corporation, dótturfyrirtæki World Minerals, sem á 48,56% hlut og átján sveitarfélög á Norðurlandi sem eiga 0,44% hlut.
    Kísiliðjan hf. vinnur hráefni sitt úr setlögum á botni Mývatns en ekki er vitað til þess að hliðstæð vinnsla fari fram annars staðar í heiminum. Mývatn er mjög grunnt, sólarljós nær því alls staðar til botns og lífauðgi er einstök. Það sem einkennir lífið í vatninu öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga. Kísilgúr er gerður úr skeljum dauðra kísilþörunga en skeljarnar mynda nokkurra metra þykkt setlag á botni vatnsins.
    Um langt árabil hafa staðið yfir deilur um það hvort starfsemi Kísiliðjunnar hf. hafi skaðleg áhrif á lífríki Mývatns. Botnleðjunni er dælt úr Mývatni á sumrin meðan vatnið er íslaust. Gosaska og foksandur eru skilin úr leðjunni en gúrnum síðan safnað í hráefnisþró til vetrarins.
    Skipst hafa á skin og skúrir í rekstri Kísiliðjunnar hf. Allt fram til ársins 1972 var taprekstur á fyrirtækinu, m.a. vegna byrjunarörðugleika og ónógrar afkastagetu. Á árunum 1973–1979 var Kísiliðjan hf. hins vegar rekin með hagnaði og staðan styrktist með ári hverju. Vegna erfiðra markaðsaðstæðna og mikilla nýframkvæmda í kjölfar jarðhræringa í Mývatnssveit varð tap á rekstri félagsins 1980–1982. Þá tók við hagnaðarskeið sem varði fram á tíunda áratuginn. Síðustu ár hefur rekstrarafkoma verksmiðjunnar verið óviðunandi.
    Árið 1997 mat Byggðastofnun þýðingu Kísiliðjunnar hf. fyrir efnahag og atvinnulíf í Mývatnssveit. Niðurstaðan var sú að líklegt mætti telja að 75 ársverk mundu hverfa úr atvinnulífi sveitarfélagsins ef starfsemi Kísiliðjunnar hf. hætti og um 210 íbúar þyrftu að finna sér annað lífsviðurværi að öðru óbreyttu. Eftir stæði 260 manna samfélag sem að stórum hluta væri í dreifbýli, með um 130 ársverk og um 10% lægri meðallaun en nú. Byggðastofnun reiknaði með að tekjur sveitarsjóðs gætu dregist saman um helming og tekjur Húsavíkurbæjar mundi dragast saman um 4% auk þess sem minni verkefni yrðu í tengslum við útflutning um Húsavíkurhöfn.

2.     Markaður fyrir kísilgúr.
    Kísilgúr hentar vel til síunar ýmissa vökva, t.d. bjórs. Heimsframleiðsla á kísilgúr er u.þ.b. 800 þúsund tonn. Nokkur vöxtur er í notkun kísilgúrs í Asíu. Markaðsaðstæður eru hins vegar erfiðar í Evrópu og Bandaríkjunum vegna minnkandi eftirspurnar og nýrrar síunartækni. Raunverð kísilgúrs lækkaði um 14% á síðasta áratug og er ekki búist við hækkandi verði á næstu árum. Veruleg umframafkastageta er einnig á kísilgúrmarkaði. Framtíðarhorfur fyrir kísilgúr eru því háðar mikilli óvissu.
    World Minerals, eigandi Celite, er langstærsti framleiðandi og seljandi kísilgúrs í heiminum með um og yfir helming markaðarins. Fyrirtækið er það eina sem framleiðir kísilgúr í mörgum löndum og er með sölukerfi um allan heim. Fyrirtækið framleiðir kísilgúr í Bandaríkjunum, Frakklandi, Mexíkó, á Spáni, í Chile, Kína og á Íslandi. Kísiliðjan hf. selur allar afurðir sínar í gegnum sérstakt sölufélag, World Minerals Ísland hf., sem World Minerals á en það er með höfuðstöðvar sínar á Húsavík.

3.     Námuleyfi.
    Síðasta námuleyfi til Kísiliðjunnar hf. var gefið út árið 1993. Leyfið var til töku efnis á afmörkuðum svæðum í Ytriflóa og gildir til ársins 2010. Gert er ráð fyrir að ekki sé unnt að dæla efni úr núverandi námusvæði eftir sumarið 2001. Kísiliðjan hf. hefur af þessum sökum unnið að undirbúningi fyrir nýtt námaleyfi og mati á umhverfisáhrifum af þeim sökum. Á árinu 2000 heimilaði skipulagsstjóri ríkisins að kísilgúr yrði tekinn úr afmörkuðum svæðum í Syðriflóa að uppfylltum ströngum skilyrðum. Úrskurður skipulagsstjóra var síðan staðfestur af umhverfisráðherra með nokkrum breytingum.

4.     Viðræður við Allied EFA.
    Árið 1998 stofnuðu EFA hf. (Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf.) og bandarískt fyrirtæki, Allied Resource Corporation, nýtt fyrirtæki, Allied EFA hf. EFA hf. og aðrir íslenskir fjárfestar eiga um þriðjung í Allied Resource. Tilgangur Allied EFA hf. er m.a. fjárfestingar í framleiðslufyrirtækjum á sviði orkufreks iðnaðar, efnaiðnaðar og endurvinnsluiðnaðar.
    Hið nýja fyrirtæki keypti hlut í norsku fyrirtæki sem heitir Promeks ASA. Promeks hefur unnið í nánu samráði við norsk iðnfyrirtæki að því að þróa aðferð til framleiðslu á kísildufti og býr fyrirtækið yfir einkaleyfi til að framleiða duftið með þessari nýju aðferð. Kísilduft er meðal annars hægt að framleiða úr kísilryki, kísilgúr, kvarsi, perlusteini og vikri og er notað sem fylliefni í margs konar iðnaðarvörur, svo sem gúmmí, plast, málningu o.fl.
    Forsvarsmenn Allied EFA hf. fóru þegar að leita að hentugum stað fyrir tilraunaverksmiðju til að reyna þessa nýju tækni. Í þessu skyni ræddi Allied EFA hf. við iðnaðarráðuneytið sumarið 1998 um mögulega staðsetningu tilraunaverksmiðjunnar, og síðar iðnaðarverksmiðjunnar, í Kísiliðjunni hf. við Mývatm.
    Ekkert varð úr samningum við Allied EFA hf. á árinu 1998. Þríhliða viðræður voru síðan í gangi á árinu 1999 á milli Allied EFA hf., World Minerals og íslenska ríkisins á árinu 1999 en þær leiddu ekki heldur til sölu Kísiliðjunnar hf. Réðist það einkum af því að World Minerals sá sér ekki hag í því að selja eignarhlut sinn en það var skilyrði af hálfu Allied EFA hf. að bæði íslenska ríkið og World Minerals seldu hlut sinn. Á árinu 2000 reisti síðan Allied EFA hf. tilraunaverksmiðju í Norður-Noregi til að prófa vinnsluferlið og gæði framleiðslunnar. Á síðasta hausti tóku Allied EFA hf. og World Minerals aftur upp viðræður og leiddu þær til þríhliða samninga um sölu verksmiðjunnar með íslenska ríkinu.

5.     Samningar um sölu Kísiliðjunnar.
    Það er mat íslenska ríkisins og World Minerals að framtíðarhorfur í kísilgúrframleiðslu séu tvísýnar. Rekstrarafkoma hefur ekki verið viðundandi í nokkur ár og vegna vaxandi tilkostnaðar og nýrrar tækni eru ekki lengur sömu forsendur fyrir starfsemi verksmiðjunnar.
    Af þessum sökum tóku tveir stærstu eigendur Kísiliðjunnar hf. þá ákvörðun að skrifa undir samninga um sölu á sínum hlut í Kísiliðjunni hf. til Allied EFA. Með því er áframhaldandi atvinna við Mývatn tryggð eins og kostur er.
    Samningar um sölu verksmiðjunnar voru undirritaðir 13. febrúar 2001. Samningarnir voru bundnir ýmsum skilyrðum, þar á meðal fyrirvara um samþykki Alþingis. Samkvæmt samningunum skal yfirfærsla eigna eiga sér stað eigi síðar en 45 dögum eftir undirritun samninga. Skilyrði fyrir samningum eru eftirfarandi:
          Lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, verði breytt þannig að iðnaðarráðherra fái heimild til sölu verksmiðjunnar og Kísiliðjan hf. starfi samkvæmt almennum lögum.
          Allir stjórnarmenn Kísiliðjunnar hf. samþykki sölu verksmiðjunnar en kveðið er á um það skilyrði í samþykktum hennar.
          Aðrir eigendur Kísiliðjunnar hf. en íslenska ríkið og Celite Corporation nýti ekki forkaupsrétt sinn.
          Stjórnir hlutaðeigenda félaga samþykki sölu verksmiðjunnar.
          Samningar á milli íslenska ríkisins og World Minerals verði felldir úr gildi.
          Kostgæfnisathugun hafi verið gerð.
    Íslenska ríkið og World Minerals skuldbundu sig með samningum að fella úr gildi alla samninga sem gerðir hafa verið á milli eigenda Kísiliðjunnar hf. til þessa. Samkomulag er þó um að söluskrifstofa World Minerals á Húsavík starfi áfram þar til kísilgúrframleiðslu verður hætt eða til ársloka 2005. Felld eru úr gildi öll sérákvæði um sölufélagið þannig að það mun framvegis lúta almennum íslenskum reglum sem gilda um hlutafélög.
    Áform eigenda Promeks um uppbyggingu fyrirtækisins fela í sér byggingu og rekstur nokkurra kísilduftverksmiðja. Að fenginni jákvæðri niðurstöðu á hagkvæmni kísilduftframleiðslunnar skuldbindur Promeks sig til að reisa næstu verksmiðju á lóð Kísiliðjunnar hf. Allied EFA hf. hyggst stofna félagið Promeks á Íslandi til að kaupa Kísiliðjuna við Mývatn og eiga og reka fyrirhugaða kísilduftsverksmiðju. Áformin eru í stuttu máli þau að kísilgúr verði framleiddur, að fengnu nýju námaleyfi, til ársloka 2004 með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár. Þetta er gert til að tryggja að atvinna í sveitarfélaginu verði samfelld. Allied EFA hf. og World Minerals hafa gert með sér samkomulag um að söluskrifstofa World Minerals á Húsavík muni áfram selja kísilgúr frá Kísiliðjunni hf. Ákvörðun um byggingu kísilduftsverksmiðju Promeks á Íslandi verður tekin í ágúst 2002, og ef af verður, mun verksmiðjan verða byggð á árinu 2003 og hefja rekstur á árinu 2004.
    Jafnframt hafa iðnaðarráðherra og Allied EFA hf. skrifað undir samstarfssamning. Í honum er kveðið á um að:
          Allied EFA hf. kynni fyrir iðnaðarráðuneytinu þau fjárfestingarverkefni á sviði iðnaðar sem Allied EFA og dótturfélög þess eru að vinna að á hverjum tíma.
          Allied EFA hf. geri grein fyrir hvort og með hvaða hætti er hægt að staðsetja umrædd verkefni á lóð Kísiliðjunnar hf. í nágrannasveitarfélögum eða annars staðar á Íslandi.
          Að skilgreina þær hindranir sem eru í vegi fyrir því að staðsetja iðnaðarfyrirtæki á framangreindum stöðum og leita leiða til að ryðja þeim hindrunum úr vegi.
    Íslenska ríkið og Celite selja hlut sinn í Kísiliðjunni á um 122 millj. kr. sem er jafnhátt skráðu hlutafé í bókum félagsins. Íslenska ríkið fær fyrir sinn hlut um 62 millj. kr. sem er greitt með skuldabréfi til fimmtán ára.
    Á árinu 1999 mat Kaupþing verðmæti verksmiðjunnar að beiðni iðnaðarráðuneytisins. Verksmiðjan var þá metin á tæplega 200 millj. kr. Síðan þá hefur verið taprekstur á verksmiðjunni og markaðsaðstæður hafa versnað. Áætlað er að upplausnarverð verksmiðjunnar sé um 150 millj. kr. að teknu tilliti til lokunarkostnaðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að heimild fáist fyrir iðnaðarráðherra að selja 51% eignarhlut íslenska ríkisins í Kísiliðjunni hf. við Mývatn en sölusamningur um hlutinn hefur þegar verið gerður við Allied EFA hf. með fyrirvara um samþykki Alþingis. Söluandvirðið skal renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar. Ríkisstjórnin gæti, að fengnum tillögum iðnaðarráðherra, tekið ákvörðun um að setja féð í einstök verkefni á svæðinu eða falið Kísilgúrsjóði að ráðstafa fénu til atvinnuuppbyggingar.
    Lagt er til að ákvæði laganna um kísilgúrverksmiðju við Mývatn verði felld úr gildi að undanskilinni 12. gr. Kísiliðjan hf. mun þá lúta almennum lögum en ekki sérlögum. Lög nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, standa þó óbreytt.

Um 2. gr.

    Kísilgúrsjóði var komið á fót í kjölfar útgáfu námaleyfis á árinu 1993. Með lögum nr. 17/1995 var starfsemi sjóðsins lögfest. Hér er lagt til að ákvæði um sjóðinn standi að mestu óbreytt. Framlag til sjóðsins á fjárlögum hefur verið 5 millj. kr. og er það langstærsti hluti tekna sjóðsins. Sú breyting er lögð til að fulltrúi kísilgúrverksmiðjunnar sitji ekki í stjórn sjóðsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 80/1966,
um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er iðnaðarráðherra heimilt að selja 51% eignarhlut íslenska ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn. Gert er ráð fyrir að kísilgúrvinnslu verði hætt á vegum verksmiðjunnar árið 2004. Með frumvarpinu er lagt til að fjármögnun á sjóði til eflingar atvinnulífi í Mývatnssveit verði breytt þar sem arðgreiðslur af hlut ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni falli niður að öðru óbreyttu.
    Framlög í sjóðinn fyrir árið 2001 eru áætluð 5,5 m.kr. Tekjur sjóðsins eru annars vegar allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda Kísiliðjunnar, samkvæmt heimildum í fjárlögum hverju sinni, og 20% af námagjaldi Kísiliðjunnar. Frá og með árinu 2002 fellur arðgreiðslan niður, en á móti hækkar hlutdeild sjóðsins í námagjaldi upp í 68%. Gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins frá árinu 2002 til ársins 2004 verði um 3 m.kr. á ári. Einnig fái sjóðurinn framlag á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.
    Rétt er að taka fram að samningar um sölu á hlut ríkisins í verksmiðjunni hafa þegar verið undirritaðir. Áætlað söluverð á hlut ríkisins er 62 m.kr. sem er jafnframt bókfært verð hlutar ríkisins. Söluandvirðið skal renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.