Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 802  —  452. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um starfsemi Landhelgisgæslunnar.

     1.      Í hve margar klukkustundir á tímabilinu 1. janúar 1998 til 1. september 2000 voru þyrlur Landhelgisgæslunnar annars vegar og gæsluflugvélin hins vegar á flugi vegna:
                  a.      gæslu 200 sjómílna lögsögunnar,
                  b.      æfingaflugs, ótengdu Slysavarnaskóla sjómanna?

    Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru á flugi vegna:
     a.      gæslu 200 sjómílna lögsögunnar:
    – Árið 1998 samtals 95 klst. og 52 mínútur.
    – Árið 1999 samtals 56 klst. og 29 mínútur.
    – Árið 2000, frá 1. janúar til 1. september, samtals 39 klst. og 50 mínútur.
     b.      æfingaflugs sem tengist ekki Slysavarnaskóla sjómanna:
    – Árið 1998 samtals 159 klst. og 50 mínútur.
    – Árið 1999 samtals 179 klst. og 48 mínútur.
    – Árið 2000, frá 1. janúar til 1. september, samtals 101 klst. og 51 mínútur.

    Gæsluflugvél Landhelgisgæslunnar var á flugi vegna:
     a.      gæslu 200 sjómílna lögsögunnar:
    – Árið 1998 samtals 499 klst. og 28 mínútur.
    – Árið 1999 samtals 487 klst. og 50 mínútur.
    – Árið 2000, frá 1. janúar til 1. september, samtals 273 klst. og 18 mínútur.
     b.      æfingaflugs sem tengist ekki Slysavarnaskóla sjómanna:
    – Árið 1998 samtals 5 klst. og 9 mínútur.
    – Árið 1999 samtals 4 klst. og 6 mínútur.
    – Árið 2000, frá 1. janúar til 1. september, samtals 2 klst. og 59 mínútur.
    
Tímabil Gæsla 200 nm Æfingaflug Sæbjörg
TF-SYN
Fokker F-27 1.1.98 – 31.12.98 499:28:00 5:09:00 0
1.1.99 – 31.12.99 487:50:00 4:06:00 0
1.1.00 – 1.9.00 273:18:00 2.59:00 0
TF-LIF
Super Puma 1.1.98– 31.12.98 37:25:00 84:18:00 15:31:00
1.1.99 – 31.12.99 30:23:00 100:44:00 12:51:00
1.1.00 – 1.9.00 13:57:00 53:45:00 9:43:00
TF-SIF
Dauphin 1.1.98 – 31.12.98 58:27:00 75:32:00 19:42:00
1.1.99 – 31.12.99 26:06:00 79:04:00 31:16:00
1.1.00 – 1.9.00 25:53:00 48:06:00 17:32:00


     2.      Hve margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar nutu endurmenntunar á fyrrgreindu tímabili, skipt eftir starfsgreinum, en í svari ráðherra á þskj. 328 kom fram að kostnaður við hana nam 31.745.448 kr.? Hvert var heiti náms?
     3.      Hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar oftar en einu sinni notið endurmenntunar á fyrrgreindu tímabili? Ef svo er, hve margir, hve oft og úr hvaða starfsgreinum?

    Á þingskjali 328, 205. mál á yfirstandandi löggjafarþingi svaraði dómsmálaráðherra fyrirspurn um endurmenntun starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Í svarinu var kostnaður við átta starfsþætti sundurliðaður. Í bókhaldi er ekki skráður kostnaður við námskeiðahald vegna hvers og eins starfsmanns. Fyrirhugað er að gera starfsferilsskrár starfsmanna Landhelgisgæslunnar þar sem upplýsingar um námskeið og fleira mun koma fram. Verður þá auðveldara að gefa upplýsingar um endurmenntun hvers og eins starfsmanns. Eðli málsins samkvæmt þurfa flugmenn reglulega að sækja námskeið til endurmenntunar til þess að halda atvinnuskírteinum sínum. Tvisvar á ári þurfa flugmenn á gæsluflugvélum og þyrlum Landhelgisgæslunnar að sækja námskeið í svokölluðum flughermi (simulator) en námskeið þessi eru haldin í Noregi og Hollandi.
    Flugmenn, flugvirkjar, stýrimenn í flugdeild og kafarar fara annað hvert ár á námskeið í björgunaræfingum í Aberdeen í Skotlandi. Þar er m.a. kennt hvernig á að bregðast við þegar nauðlenda þarf flugvél eða þyrlu á landi eða sjó.
    Flugvirkjar hafa farið á námskeið í Frakklandi til þess að öðlast tegundaréttindi á þyrlur Landhelgisgæslunnar. Einnig hefur verið fenginn kennari frá Frakklandi til þess að halda námskeið hérlendis fyrir flugvirkja.
    Yfirstjórn Landhelgisgæslunnar, flugmenn, flugvirkjar, skipstjórnarmenn í flugdeild, starfsmenn stjórnstöðvar og skipherrar fóru á svokallað CRM (Company Resource Management) námskeið. Stendur til að halda slíkt námskeið fyrir áhafnir varðskipanna.
    Skipstjórnarmenn hafa farið á köfunarnámskeið í Svíþjóð og námskeið hjá danska sjóhernum.
    Um borð í varðskipum eru haldin ýmis námskeið fyrir áhafnir, t.d. köfunaræfingar, námskeið um eldvarnir, línubyssur, reykköfun og skyndihjálp og þyrluæfingar. Þessi námskeið eru ekki hluti af þeim kostnaði sem áður hefur verið tilgreindur enda sjá starfsmenn alfarið um þau í vinnutímanum.
    Sprengjusérfræðingar hafa sótt námskeið í sprengjueyðingu hjá danska sjóhernum og á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
    Starfsmenn sjómælinga hafa farið á námskeið í Caris sem er sérhæft úrvinnsluforrit sjókorta, mælinganámskeið, netstjórnunarnámskeið og almennt tölvunámskeið. Einnig hafa verið sóttar ráðstefnur á vegum Alþjóðasjómælingastofnunarinnar í Mónakó. Yfirstjórn Landhelgisgæslunnar hefur sótt ýmis námskeið, m.a. á sviði lögfræði, fjármála og bókhalds og tölvunámskeið.
    Lögð er áhersla á að námskeiðahald og endurmenntun hjá Landhelgisgæslunni miði að því að halda starfsmönnum í sem bestri þjálfun svo að þeir séu reiðubúnir að takast á við erfið verkefni þegar þau ber að höndum.