Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 844  —  467. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um rekstrarleyfi veitinga- og gististaða.

     1.      Hvað líður endurskoðun rekstrarleyfa veitinga- og gististaða sem samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 67/1985 falla undir nýja flokka og var gert að afla sér tilskilinna rekstrarleyfa fyrir 1. janúar sl.?
    Til stendur að endurskoða fyrirkomulag þessara mála í maí nk. hjá Reykjavíkurborg.
    Sent var bréf í nóvember 2000 til allra rekstraraðila veitingastaða í umdæmi sýslumannsins í Kópavogi þar sem lagabreytingin var kynnt og skorað á þá að sækja á ný um veitingaleyfi, teldu rekstaraðilar að reksturinn félli undir 9. gr. laga nr. 67/1985, sbr. 2. gr. laga frá 9. maí 2000. Aðeins einn sótti um leyfi á ný.
    Önnur sýslumannsembætti hafa ekki aðhafst í þessum málum.

     2.      Eru einhver dæmi þess að sveitarstjórnir hafi synjað umsóknum um slíka endurnýjun á grundvelli hinna nýju ákvæða í fyrrnefndum lögum?
    Ekki er vitað til þess að sveitarstjórnir hafi synjað umsóknum um endurnýjun leyfa á grundvelli hinna nýju ákvæða.
    Hjá sýslumanninum í Kópavogi er til skoðunar umsókn eins aðila um leyfi til reksturs næturklúbbs. Bæjarstjórn Kópavogs gaf neikvæða umsögn um umsóknina en afstaða hefur ekki verið tekin til útgáfu leyfisins.

     3.      Hversu margir staðir eru nú reknir á leyfum skv. i-lið 9. gr. laganna um næturklúbba, þ.e. veitingastaðir með reglubundna skemmtistarfsemi þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni?
     4.      Hvaða staðir eru það og hvar á landinu eru þeir?

    Á landinu öllu eru samtals átta staðir reknir á leyfum skv. i-lið 9. gr. laga nr. 67/1985. Um er að ræða sjö staði í Reykjavík og einn í Kópavogi, samkvæmt bráðabirgðaleyfi skv. 4. gr. laga nr. 67/1985 (sami staður og greint er frá í svari við 2. tölul.). Staðirnir eru eftirgreindir:
    Bóhem, Grensásvegi 7,
    Clinton, Aðalstræti 4b,
    Club 7, Hverfisgötu 8–10,
    Maxim, Hafnarstræti 9,
    Óðal, Austurstræti 12a,
    Vegas, Laugavegi 45,
    Þórskaffi, Brautarholti 20,
    Goldfinger, Smiðjuvegi 14.
    Tekið skal fram að svör bárust ekki frá sýslumannsembættunum á Akranesi, Höfn og í Vík.