Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 856  —  550. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2000.

1. Inngangur.
    Evrópuráðsþingið gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi Evrópuráðsins, enda hugmyndabanki stofnunarinnar og vaxandi pólitískt afl innan álfunnar. Á þinginu sitja 527 fulltrúar sem skiptast til helminga í aðalmenn og varamenn. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi atkvæða á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í fjórtán málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman fjórum sinnum á ári, í lok janúar, apríl, júní og september. Í seinni tíð hefur mikilvægi stjórnarnefndar þingsins aukist mjög en hún kemur saman nokkrum sinnum á ári og ályktar um mál á milli þinga. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
     *      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     *      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
     *      vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir og sjálfstjórnarsvæði sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sem dæmi um það má nefna að í Amsterdamsáttmála Evrópusambandsins (ESB) er málsgrein þar sem undirritun mannréttindasáttmála Evrópu er gerð að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir inngöngu í sambandið.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað beint til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því iðulega frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál. Evrópuráðið er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Þingfundir þar sem menn starfa saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því mjög mikilvægir, ekki síst fyrir nýfrjáls ríki Mið- og Austur-Evrópu. Þá er afar mikilvægt að eldri lýðræðisríki álfunnar taki virkan þátt í starfi Evrópuráðsþingsins. Reynslan hefur sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

2. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildarinnar á árinu voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildarinnar var Gústaf Adolf Skúlason fram til 1. september en þá tók Andri Lúthersson við því starfi.

3. Helstu málefni Evrópuráðsþingsins árið 2000.
    Á síðasta ári fögnuðu Evrópuráðið og aðildarríki þess þeim tímamótum að hálf öld var liðin frá því að mannréttindasáttmáli Evrópu var undirritaður í Róm. Sáttmálinn hefur um fimmtíu ára skeið tryggt mannréttindi allra þegna aðildarríkja Evrópuráðsins sem eru nú tæplega 800 milljónir. Af þessu tilefni var efnt til sérstaks hátíðarfundar í Róm í nóvember þar sem saman komu ráðherrar um 50 ríkja álfunnar til að minnast undirritunar mannréttindasáttmála Evrópu. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna kom fram að enn þann dag í dag ættu íbúar álfunnar í átökum sem leiddu til alvarlegra mannréttindabrota. Var vakin athygli á því að geta Evrópuráðsins til að stöðva eða fyrirbyggja slík brot væri oft og tíðum vannýtt og hvatt til þess að lagastofnanir Evrópuráðsins, ekki síst Evrópuráðsþingið, beittu sér er stjórnvöld aðildarríkja brytu á rétti þegna sinna. Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með efnhags-, laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og eru þau nú fjörutíu og eitt talsins, auk þess sem fjöldi ríkja hefur sótt um aðild. Pólitískt vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár.
    Átökin í Tsjetsjeníu bar hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins árið 2000. Á fyrsta þingfundi Evrópuráðsþingsins í janúar var efnt til sérstakrar umræðu um stöðu rússnesku sendinefndarinnar innan þingsins vegna stríðsins í Tsjetsjeníu. Tillaga sem flutt var á fyrsta þingfundi Evrópuráðsþingsins um að svipta þingnefnd Rússa atkvæðisrétti sínum á þinginu vegna átakanna var naumlega felld. Málefni Norður-Kákasushéraðsins voru til umfjöllunar á öllum þingfundum í Strassborg og var ítrekað samþykkt að þrýsta á ráðherranefndina um að hefja undirbúning brottvísunar Rússlands úr Evrópuráðinu yrðu ekki greinilegar umbætur á sviði mannréttinda í Tsjetsjeníu eins og hefur verið krafist. Þá var talsvert fjallað um mannréttindaskrá Evrópusambandsins (ESB) og var hvatt til þess að hún yrði í fullu samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu og veikti hann ekki. Hefur Evrópuráðið hvatt ESB til að gerast aðili að mannréttindasáttmála Evrópu, enda eru öll aðildarríki ESB aðilar að Evrópuráðinu. Málefni Balkanskaga voru einnig til umfjöllunar á þinginu. Evrópuráðið fagnaði úrslitum kosninganna í Júgóslavíu í september og stjórnarskiptunum í kjölfarið. Nýkjörnum forseta Júgóslavíu, Vojislav Kostunica, var boðið að ávarpa haustfund utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópuráðsins í nóvember. Þá tilkynnti forsætisnefnd Evrópuráðsþingsins í desember að hafist yrði handa við að kanna aðildarumsókn Júgóslavíu að Evrópuráðinu.
    Hér á eftir fara ítarlegri upplýsingar um starfsemi Evrópuráðsþingsins á árinu 2000.

4. Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2000.
a. Fyrsti hluti þingins.
    Dagana 24.–28. janúar var fyrsti hluti Evrópuráðsþingsins árið 2000 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, og Bryndís Hlöðversdóttir, auk ritara. Þá sótti Tómas Ingi Olrich fund vísinda- og tækninefndar þingsins þar sem hann hafði unnið skýrslu á vegum nefndarinnar um grunn að samræmdri stefnu Evrópuríkja í orkumálum.
    Meðal þess sem hæst bar á fundinum voru brýnar umræður um ástand mála í Tsjetsjeníu og um stöðu rússnesku sendinefndarinnar á þinginu, en tillaga um að svipta þingnefnd Rússa atkvæðisrétti sínum vegna stríðsins í Tsjetsjeníu var felld með 83 atkvæðum gegn 71. Sendinefnd Mexíkós sat fund þingsins í fyrsta sinn. Á þingfundi var Lára Margrét Ragnarsdóttir endurkjörin varaforseti þingsins og á fundi félags- og heilbrigðismálanefndar til varaformennsku í nefndinni. Á fundi umhverfis-, skipulags- og sveitarstjórnarnefndar var Ólafur Örn Haraldsson kjörinn varaformaður nefndarinnar. Á fundi flokkahóps frjálslyndra var Ólafur Örn útnefndur í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins fyrir hönd flokkahópsins. Á fundi vísinda- og tækninefndar var skýrsla Tómasar Inga Olrich um grunn að samræmdri orkustefnu fyrir Evrópu samþykkt. Ákveðið var að hún yrði tekin til umfjöllunar á þinginu síðar á árinu.
    Eftirtaldir ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum þingmanna: Rosario Green, utanríkisráðherra Mexíkós, Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, David Andrews, utanríkisráðherra Írlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Ígor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, Wolfgang Schüssel, utanríkisráðherra Austurríkis og formaður ráðherraráðs ÖSE, Füsun Koroglu, aðstoðarráðherra í tyrknesku ríkisstjórninni, og Christos Pahtas, aðstoðarefnahagsmálaráðherra Grikklands.
    Ýmsar kröfur voru settar fram á hendur rússneskum stjórnvöldum um aðgerðir og umbætur á mannréttindum í Tsjetsjeníu. Skýrt var tekið fram í tilmælum þingsins að ef Rússar yrðu ekki við þessum kröfum fyrir fund þingsins í apríl yrði áframhaldandi aðild Rússlands að Evrópuráðinu óhjákvæmilega tekin á dagskrá fundarins. Í drögum stjórnmálanefndar að tilmælum um átökin í Tsjetsjeníu var lagt til að Rússum yrði gefinn frestur til 31. maí til að sýna fram á að virðing fyrir mannréttindum í Tsjetsjeníu hefði greinilega batnað. Lagt var til að ráðherranefndin fylgdist náið með þróuninni og hæfi undirbúning að brottvísun Rússlands úr Evrópuráðinu teldi hún ríkið ekki hafa orðið við framangreindum kröfum fyrir 31. maí.

b. Annar hluti þingsins.
    Annar hluti þingfundarins var haldinn í Strassborg dagana 3.–7. apríl. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, og Margrét Frímannsdóttir, auk ritara.
    Þingið ákvað að samþykkja kjörbréf nýrrar rússneskrar sendinefndar en meina henni þó um atkvæðisrétt í þinginu vegna mannréttindabrota Rússa í átökunum í Tsjetsjeníu og var þetta mál efst á dagskrá þingsins. Jafnframt var samþykkt að mæla með því við ráðherranefndina að hefja skyldi undirbúning brottvísunar Rússlands úr Evrópuráðinu hefðu ekki orðið greinilegar umbætur á mannréttindum í Tsjetsjeníu. Þá bar til tíðinda að lagt var til að Úkraínu yrði vikið brott úr Evrópuráðinu vegna fyrirhugaðrar ólögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi um að styrkja stöðu forsetans gagnvart þinginu. Tillagan var samþykkt með þeirri breytingu að brottvikningin væri bundin ólöglegri framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Vytautas Landsbergis, þingforseti Litháens, Ilir Meta, forsætisráðherra Albaníu, og Brian Cowen, utanríkisráðherra Írlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem svaraði spurningum þingmanna. Loks tók Borys Tarasyuk, utanríkisráðherra Úkraínu, þátt í umræðum um stofnanabreytingar í Úkraínu og Marc Verwilghen, dómsmálaráðherra Belgíu, tók þátt í umræðum um hlutverk þjóðþinga í baráttu gegn spillingu.
    Á þingfundinum var samþykkt breytingartillaga í málefnum Tsjetsjeníu þar sem þess var krafist að Rússar sýndu strax fram á greinilegar umbætur í mannréttindamálum í héraðinu. Ráðherranefndin var beðin um að fylgjast með því og hefja þegar undirbúning brottvísunar Rússlands úr Evrópuráðinu þætti árangurinn ekki viðunandi.
    Í umræðunni um átökin í Tsjetsjeníu tók Lára Margrét Ragnarsdóttir það fram að þótt rússnesk stjórnvöld hefðu haft ríka ástæðu til að hlutast til um óöldina sem ríkti þar væri engin leið að láta eyðilegginguna og mannréttindabrotin óátalin. Hún lagði jafnframt áherslu á að alvarleg mannréttindabrot hefðu verið framin af báðum aðilum átakanna. Vísaði Lára Margrét til þess sem bar fyrir augu fulltrúa í heimsókn sérstakrar eftirlitsnefndar þingsins til héraðsins, en Lára Margrét átti sæti í nefndinni. Hún lýsti þeirri trú sinni að rússnesk stjórnvöld væru reiðubúin að koma á lögum og reglu í Tsjetsjeníu og sagði ýmislegt hafa komið fram í máli þeirra sem benti til þess. Árangur væri hins vegar óviðunandi og þess vegna yrði Evrópuráðsþingið að grípa til aðgerða sem líklegar gætu talist til að hafa áhrif á gang mála.
    Í drögum að tilmælum eftirlitsnefndar vegna stofnanabreytinga í Úkraínu var lagt til að aðild Úkraínu að Evrópuráðinu yrði slitið ef svokölluð „þjóðaratkvæðagreiðsla“ færi fram líkt og fyrirhugað var hinn 16. apríl. Þar yrðu kjósendur beðnir að greiða atkvæði um tillögur sem lytu að því að færa völd frá þinginu til forsetans. Samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar Evrópuráðsþingsins væri slík þjóðaratkvæðagreiðsla ólögmæt þar sem hún stangaðist á við stjórnarskrá Úkraínu, en henni væri einungis unnt að breyta með samþykki tveggja þriðju hluta þingsins og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið. Þá þótti ýmislegt óljóst í framkvæmd og skipulagi þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Á þingfundi var samþykkt breytingartillaga við tilmælin þar sem mælst var til að ráðherranefnd Evrópuráðsins sæi til þess að ákvæði stjórnarskrárinnar yrðu virt við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar, einkum að ekki yrðu gerðar tilraunir til ólögmætra stjórnarskrárbreytinga. Yrði framkvæmdin hins vegar þannig að hún stangaðist á við stjórnarskrá landsins var mælt með því að aðild Úkraínu að Evrópuráðinu yrði slitið. Ólafur Örn Haraldsson var meðflutningsmaður breytingartillögunnar.

c. Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 26.–30. júní var þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2000 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, og Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, auk ritara.
    Á fundinum var meðal annars samþykkt að mæla með aðild Armeníu og Aserbaídsjan að Evrópuráðinu við ráðherranefndina, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, frá og með ársbyrjun 2001. Rússneska þingið kaus að greiða ekki fyrir ferð landsdeildar sinnar á fundinn, en vegna átakanna í Tsjetsjeníu var rússneska sendinefndin svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu á fundi þess í apríl. Fáeinir rússneskir þingmenn sóttu þó þingfundinn í boði flokkahópa sinna í Evrópuráðsþinginu. Þingið fagnaði því að rússnesk stjórnvöld hefðu sýnt fram á vilja til umbóta, en þær þóttu þó engan veginn nægjanlegar til að draga til baka samþykkt þingsins frá því í apríl. Tilmæli þingsins til ráðherranefndarinnar voru því ítrekuð og hún hvött til að taka á málinu af meiri festu.
    Talsverðar breytingar voru samþykktar á innra skipulagi Evrópuráðsins en þeim er ætlað að auka skilvirkni í starfsemi þess. Helst ber þar að nefna fækkun málefnanefnda þingsins úr fjórtán í tíu. Ákveðið var að sameina vísinda- og tækninefnd og mennta- og menningarmálanefnd annars vegar og landbúnaðarnefnd og umhverfisnefnd hins vegar. Þá tæki framkvæmdastjórn og stjórnmálanefnd þingsins við verkefnum nefndar um almannatengsl og efnahagsnefndin tæki við verkefnum fjárlaganefndar. Breytingarnar tækju gildi í ársbyrjun 2001 og Ísland ætti sem fyrr rétt á einu sæti í hverri nefnd.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Bernard Kouchner, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum Kosovo-héraðs, Guido de Marco, forseti Möltu, Charles Frank, starfandi forseti Þróunarbanka Evrópu, Lamberto Dini, utanríkisráðherra Ítalíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Boris Trajkovski, forseti fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu, Armen Khachatryan, forseti þingsins í Armeníu, Murtuz Aleskerov, forseti þingsins í Aserbaídsjan, Zurab Zhvania, forseti þingsins í Georgíu, og Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.
    Í umræðunni um átökin í Tsjetsjeníu fagnaði Lára Margrét Ragnarsdóttir því að rússnesk stjórnvöld hefðu sýnt verulegan umbótavilja hvað mannréttindi varðaði, en lagði áherslu á að ekki væri nóg að gert, raunverulegar umbætur væru enn of takmarkaðar til að hægt væri að breyta afstöðu þingsins frá fundi þess í apríl. Hún sagði óviðunandi að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefði enn ekki fordæmt framferði rússneskra stjórnvalda í átökunum og sagði að þótt þau hefðu haft ríka ástæðu til að hlutast til um óöldina í Tsjetsjeníu væri eyðileggingin og mannréttindabrotin sem Rússar hefðu framið þar algerlega óréttlætanleg. Harmaði hún þá ákvörðun rússnesku dúmunnar að kosta ekki þátttöku fulltrúa sinna á fundinum og sagðist telja að þátttaka þeirra á fundinum hefði getað stuðlað að bættum skilningi og flýtt fyrir lausn málsins.

d. Fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsins 2000.
    Fjórði hluti þingfundarins var haldinn í Strassborg dagana 25.–29. september. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður, og Margrét Frímannsdóttir, auk ritara. Þá sat Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasvið, jafnframt hluta fundarins.
    Þingið samþykkti meðal annars að eftirliti með lýðræðisþróun í Króatíu yrði hætt í ljósi þess að úrbótum hefði þegar verið hrint í framkvæmd og að miklar framfarir hefðu orðið á yfirstandandi ári. Stjórnvöld í Króatíu hefðu jafnframt skuldbundið sig til að gera flest sem komið hefði fram í Dayton-samkomulaginu og ályktunum Evrópuráðsins. Nýafstaðnar kosningar í Júgóslavíu voru teknar fyrir utan dagskrár á þinginu og í umræðum komu fram áhyggjur manna af framkvæmd kosninganna í Serbíu.
    Á þingfundinum var því fagnað að stjórnvöld í Rússlandi hefðu gengist fyrir umbótum í mannréttindamálum í Norður-Kákasushéraðinu og var Rússlandsstjórn jafnframt hvött til að ráðast hið fyrsta í að leysa úr helstu vandamálum héraðsins svo að íbúar þess nytu fullra mannréttinda. Samþykkt var að Evrópuráðsþingið mæti árangurinn á næsta fundi og vonast til að að þeim tíma liðnum hefðu Rússar gert nægilegar umbætur til að rússneska sendinefndin fengi aftur full réttindi á þinginu.
    Þá samþykkti þingið ályktun þar sem ESB var hvatt til að gerast aðili að mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi fyrirætlana ESB um mannréttindaskrá taldi þingið ekkert mæla í móti slíkri aðild. Hvatt var til þess að samningur ESB yrði í fullu samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu og að þess yrði gætt til hins ýtrasta að fyrirhuguð mannréttindaskrá Evrópusambandsins veikti ekki mannréttindasáttmálann. Þingið beindi þeim tilmælum því til ráðherranefndarinnar að haft yrði í huga að Evrópa yrði ætíð stærri en fjöldi aðildarríkja ESB segði til um og því nauðsynlegt að viðhalda góðum samskiptum milli Evrópuráðsins og ESB sem miðuðust við hlutverk Evrópuráðsins og sérkenni þess.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Adrian Severin, forseti þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Jaume Matas, umhverfismálaráðherra Spánar, Carlo Azeglio Ciampi, forseti Ítalíu, Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, Donald Johnston, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, Luzius Wildhaber, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, Stjepan Mesic, forseti Króatíu, og Umberto Ranieri, utanríkisráðherra Ítalíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins.
    Í utandagskrárumræðu um nýafstaðnar forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningar í Júgóslavíu lýsti Ólafur Örn Haraldsson yfir þungum áhyggjum vegna framkvæmdar kosninganna og þá aðallega vegna þeirrar ákvörðunar stjórnvalda í Júgóslavíu að leyfa ekki eða hindra komu erlendra og óháðra kosningaeftirlitsmanna til landsins. Sagði hann að í valdatíð sitjandi forseta Júgóslavíu hefði serbneska þjóðin verið svipt réttmætri stöðu sinni meðal evrópskra bræðraþjóða og þurft að þola langvinn stríðsátök og félagslega nauð. Fagnaði hann því að málefni Júgóslavíu hefðu verið tekin á dagskrá Evrópuráðsþingsins og sagði að umræðan ætti vel heima á þeim vettvangi. Þá fagnaði hann þeirri þróun í Serbíu að stjórnarandstaðan hefði náð að sameinast um stefnumið og fulltrúa og taldi að kosningabarátta stjórnarandstöðuaflanna hefði náð að endurvekja vonir serbnesku þjóðarinnar um umfangsmiklar breytingar á vettvangi stjórnmála. Sagði hann að með sameinuðum vilja væri hægt að vonast til breytinga á stjórnarfari sem yrðu serbnesku þjóðinni, Balkanskaga og Evrópu til heilla.
    Í umræðunni um átökin í Tsjetsjeníu lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir á það áherslu að brýnast væri að koma hjálpargögnum til hinna fjölmörgu sem ættu um sárt að binda í kjölfar átakanna. Sagði hún að þörfin á matvælum, klæðum og lyfjum væri afar knýjandi og að skjótra aðgerða væri þörf. Sagði hún jafnframt að það væri á ábyrgð fulltrúa á Evrópuráðsþinginu að tryggja að hjálparstarfi Rússa og alþjóðlegra aðila yrði hrint í framkvæmd. Lára Margrét lýsti einnig yfir miklum áhyggjum af því hve slæm áhrif átök undanfarinna missira hefðu haft á komandi kynslóðir í Tsjetsjeníu og hvatti Evrópuráðið til að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar menntamála í héraðinu. Þá hvatti hún rússnesk stjórnvöld til að tryggja dreifingu hjálpargagna, koma á lögum og reglu og til að leita leiða til að rétta hlut kvenna sem sætt hefðu kerfisbundnu ofbeldi.
    Lára Margrét tók einnig til máls í umræðunni um mannréttindaskrá ESB og fór inn á hversu mikilvægt væri að hún yrði í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Sagði hún að tveir ólíkir sáttmálar sem kvæðu á um mannréttindi í álfunni byðu hættunni heim og gæfu varasamt fordæmi. Hún varaði jafnframt við því að grundvallarforsendur mannréttindasáttmálans gætu veikst með tilkomu mannréttindaskráar ESB. Í því samhengi hvatti hún ESB til að gerast formlegur aðili að mannréttindasáttmála Evrópu hið fyrsta. Sagði hún það geta valdið áhyggjum ef skrá ESB um grundvallarréttindi yrði að lögformlegum samningi og eðlilegt væri að forsjá Evrópuráðsins í þessum málum yrði ekki teflt í tvísýnu. Fagnaði hún því jafnframt að mannréttindaskrá ESB virtist samhljóða mannréttindasáttmála Evrópu og hvatti þingmenn þeirra ríkja ESB sem sætu Evrópuráðsþingið til að beita sér fyrir því að Evrópuráðið héldi stöðu sinni sem gæsluaðili grundvallarréttinda Evrópubúa.
    Ólafur Örn Haraldsson tók tvisvar til máls fyrir hönd flokkahóps frjálslyndra á þinginu. Í umræðu um vatnsforða og landbúnað, gagnkvæma miðlun upplýsinga um vatnsforða á netinu og hlutverk Evrópuráðsins í því samhengi benti hann á hve brýnt væri að taka á vandamálum tengdum vatnsforða í suðurhluta álfunnar og sagði að samræmdar aðgerðir mundu bæta þar úr. Taldi Ólafur Örn mikilvægt að árétta að sveitarstjórnir í umræddum ríkjum væru lykillinn að úrbótum á þessu sviði, ekki síst með tilliti til gagnkvæmrar miðlunar upplýsinga. Benti hann á að ekki mætti ætla Evrópuráðinu of miðlægt hlutverk í miðlun upplýsinga en taldi þó að Evrópuráðið gæti beitt sér fyrir því að auka skilning þjóða á vandamálum tengdum vatnsforða.
    Í umræðu um umhverfisslys og verndun og stjórnun vatnasvæðis Dónár lagði Ólafur Örn áherslu á að í ljósi umhverfisslysa sem hefðu orðið í álfunni á undanförnum missirum væri afar brýnt að koma á samræmdum reglugerðum og lögum svo að tryggja mætti að þeir sem yllu tjóni bæru kostnað sem af því hlytist. Benti hann þó jafnframt á að mikil óvissa ríkti um hverjir væru bótaskyldir. Uns slíkum reglugerðum yrði komið á og þær samræmdar væru það skattgreiðendur sem bæru kostnað vegna umhverfisslysa. Þá hvatti hann ráðherranefndina til að endurskoða afstöðu sína til tilmæla þingsins um að komið yrði á sérlegum samningi um vatnasvæði Dónár og sagði afar brýnt að tekið yrði á svæðisbundnum vandamálum er vörðuðu svæðið á vettvangi Evrópuráðsins.

5. Nefndarstörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Á árinu sat Lára Margrét Ragnarsdóttir í forsætisnefnd Evrópuráðsþingsins en hún tekur ákvarðanir um stjórn þingsins, hvaða mál eru tekin á dagskrá o.s.frv., og sem varaforseti stýrði Lára Margrét þingfundum reglulega. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndarstarfi skiptist þannig:

Forsætisnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnarnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnmálanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Laganefnd: Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Bryndís Hlöðversdóttir
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Bryndís Hlöðversdóttir
Efnahagsnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Umhverfis-, skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd: Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Þingskapanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Fjárlaganefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Landbúnaðarnefnd: Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Vísinda- og tækninefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Mennta- og menningarmálanefnd: Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Félags- og heilbrigðismálanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Bryndís Hlöðversdóttir
Nefnd um almannatengsl þingsins: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í hátt á annan tug slíkra funda á árinu 2000 og var það einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru. Alls sótti Lára Margrét Ragnarsdóttir sex fundi í stjórnmálanefndinni, einn fund í stjórnarnefnd, sex fundi í forsætisnefnd og fjóra fundi félags- og heilbrigðismálanefndar. Ólafur Örn Haraldsson sótti tvo fundi í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins, tvo fundi umhverfisnefndar og einn fund í mennta- og menningarmálanefnd. Þá sótti Margrét Frímannsdóttir tvo fundi í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins.
    Í kjölfar fundar í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins í Barí á Ítalíu dagana 4.–6. nóvember 1999 undir yfirskriftinni Ofbeldi gegn konum: frá heimilisofbeldi til þrældóms hélt Margrét Frímannsdóttir erindi um mansal á fundi Jafnréttisráðs 8. febrúar. Þar ræddi hún um það sem fram hafði komið á fundinum í Barí. Mansal er vaxandi vandamál sem þyrfti brýna úrlausn en að sama skapi hefði þessi umræða ekki náð athygli ráðamanna á Vesturlöndum. Í erindi sínu sagði Margrét frá ferð jafnréttisnefndarinnar í flóttamannabúðir en þar var m.a. fjöldi unglingsstúlkna frá Balkanskaga sem flúið höfðu aðila sem höfðu keypt þær á uppboðsmörkuðum til kynlífsþrælkunar. Erindi Margrétar var þýtt á fjölda tungumála og hefur það verið birt í heild sinni í fjölmiðlum erlendis.
    Utan venjubundinna nefndarfunda tók Lára Margrét þátt í sérlegri sendinefnd Evrópuráðsþingsins sem hélt í tvígang til Rússlands og Tsjetsjeníu til að meta ástand mála í héraðinu og viðbrögð rússneskra stjórnvalda við ályktunum Evrópuráðsþingsins. Þá má geta þess að Tómas Ingi Olrich lagði fram skýrslu vísinda- og tækninefndar um orkustefnu Evrópu og var hún samþykkt af stjórnarnefnd á fundi hennar í október.

Alþingi, 15. jan. 2001.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Ólafur Örn Haraldsson,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.



Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2000.



    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2000:

Fyrsti hluti þingfundar, 24.–28. janúar:
     1.      Ályktun nr. 1209, um lýðræði og efnahagslega þróun.
     2.      Tilmæli nr. 1437, um óformlega menntun.
     3.      Tilmæli nr. 1438, um ógnun öfgaflokka við lýðræði í Evrópu.
     4.      Tilmæli nr. 1439, um mannréttindaskrá ESB.
     5.      Ályktun nr. 1210, um mannréttindaskrá ESB.
     6.      Tilmæli nr. 1440, um takmarkanir við veitingu pólitísks hælis í aðildarríkjum Evrópuráðsins og ESB.
     7.      Tilmæli nr. 1441, um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     8.      Ályktun nr. 1211, um skuldbindingar Búlgaríu á vettvangi Evrópuráðsins.
     9.      Tilmæli nr. 1443, um ættleiðingar milli ríkja og virðingu við réttindi barna.
     10.      Tilmæli nr. 1444, um átökin í Tsjetsjeníu.
     11.      Tilmæli nr. 1445, um heilsufarslegt öryggi Evrópubúa.
     12.      Tilmæli nr. 1446, um bann við notkun sýklalyfja við matvælaframleiðslu.
     13.      Tilmæli nr. 1447, um efnahagslegar afleiðingar jarðskjálftanna í Tyrklandi og Grikklandi.
     14.      Tilmæli nr. 1448, um félagslegar afleiðingar jarðskjálftanna í Tyrklandi.
     15.      Tilskipun nr. 563, um fólksflutninga frá Miðjarðarhafssvæðinu til Vestur-Evrópu.
Annar hluti þingfundar, 3.–7. apríl:
     1.      Tilmæli nr. 1450, um ofbeldi gegn konum í Evrópu.
     2.      Tilmæli nr. 1451, um stofnanabreytingar í Úkraínu.
     3.      Tilmæli nr. 1452, um framlag fjölþjóðlegra þingmannasamtaka til stöðugleikasáttmálans í Suðaustur-Evrópu.
     4.      Tilmæli nr. 1453, um skuldbindingar fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu á vettvangi Evrópuráðsins.
     5.      Ályktun nr. 1213, um skuldbindingar fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu á vettvangi Evrópuráðsins.
     6.      Tilmæli nr. 1454, um menntamál í Bosníu og Hersegóvínu.
     7.      Tilmæli nr. 1455, um stöðu tatara á Krímskaga.
     8.      Tilmæli nr. 1456, um átökin í Tsjetsjeníu.
     9.      Tilmæli nr. 1457, um notkun nýrrar tækni í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
     10.      Tilmæli nr. 1458, um stofnun embættis úrskurðaraðila til samræmingar á túlkun samninga Evrópuráðsins.
     11.      Tilmæli nr. 1460, um stofnun embættis umboðsmanns barna í Evrópu.
     12.      Tilmæli nr. 1459, um neyðaráætlun í málefnum barna í Kosovo.
     13.      Ályktun nr. 1215, um baráttu gegn þátttöku barna í vopnuðum átökum.

Þriðji hluti þingfundar, 26.–30. júní:
     1.      Álit nr. 220, um drög að landslagssáttmála Evrópuráðsins.
     2.      Ályktun nr. 1220, um umbætur á starfsháttum og nefndarskipan Evrópuráðsþingsins.
     3.      Ályktun nr. 1217, um evrópskar flugsamgöngur.
     4.      Ályktun nr. 1218, um Þróunarbanka Evrópu og efnahagslega þróun í Mið- og Austur- Evrópu.
     5.      Tilmæli nr. 1466, um fjölmiðla og menntun.
     6.      Ályktun nr. 1219, um skuldbindingar Albaníu á vettvangi Evrópuráðsins.
     7.      Álit nr. 221, um umsókn Armeníu um aðild að Evrópuráðinu.
     8.      Álit nr. 222, um umsókn Aserbaídsjan um aðild að Evrópuráðinu.
     9.      Ályktun nr. 1221, um átökin í Tsjetsjeníu.
     10.      Tilmæli nr. 1467, um ólöglega innflytjendur og baráttuna gegn skipulögðu smygli á þeim.
     11.      Tilmæli nr. 1468, um líftækni.
     12.      Tilmæli nr. 1469, um mæður í fangelsum og börn þeirra.
     13.      Tilmæli nr. 1470, um stöðu samkynhneigðra í aðildarríkjum Evrópuráðsins og stöðu samkynhneigðra og maka þeirra við veitingu pólitísks hælis og gagnvart reglum um ríkisborgararétt í Evrópu.

Fjórði hluti þingfundar, 25.–29. september:
     1.      Ályktun nr. 1222, um vatnsforða og landbúnað.
     2.      Tilmæli nr. 1471, um tækni tengda vatni og stjórnun vatnsforða.
     3.      Tilmæli nr. 1472, um gagnkvæma miðlun upplýsinga um vatnsforða á netinu og hlutverk Evrópuráðsins.
     4.      Tilmæli nr. 1473, um skuldbindingar Króatíu á vettvangi Evrópuráðsins.
     5.      Ályktun nr. 1223, um skuldbindingar Króatíu á vettvangi Evrópuráðsins.
     6.      Tilmæli nr. 1474, um stöðu samkynhneigðra í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     7.      Tilmæli nr. 1475, um stöðu flóttamanna sem sækja um landvistarleyfi í evrópskum flughöfnum.
     8.      Tilmæli nr. 1476, um Sameinuðu þjóðirnar við aldamót.
     9.      Ályktun nr. 1224, um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og hið hnattræna hagkerfi.
     10.      Ályktun nr. 1225, um horfur á nýjum viðskiptafærum Evró-Atlantshafsríkja.
     11.      Tilmæli nr. 1477, um fullnustu dóma við Mannréttindadómstól Evrópu.
     12.      Tilmæli nr. 1478, um átökin í Tsjetsjeníu.
     13.      Ályktun nr. 1227, um átökin í Tsjetsjeníu.
     14.      Tilmæli nr. 1479, um mannréttindaskrá Evrópusambandsins.
     15.      Ályktun nr. 1228, um mannréttindaskrá Evrópusambandsins.
     16.      Ályktun nr. 1229, um umhverfisslys.
     17.      Tilmæli nr. 1480, um verndun og stjórn vatnasvæðis Dónár.

    Stjórnarnefnd þingsins kemur fram fyrir hönd þess á milli þingfunda og hefur hún á árinu afgreitt fjölda ályktana og tilmæla til ráðherranefndarinnar.