Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 873  —  567. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.

2. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Í samþykktum er heimilt að kveða á um að stofnfjáreigendur kjósi alla stjórnarmenn sparisjóðs.


3. gr.

    Á eftir 37. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (37. gr. A.)
    Að tillögu sparisjóðsstjórnar í sparisjóði sem starfandi var 31. desember 2000 getur fundur stofnfjáreigenda ákveðið með 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, að breyta sparisjóðnum í hlutafélag að fengnu samþykki ráðherra og umsögn Fjármálaeftirlitsins. Skal breyting sparisjóðs í hlutafélag þá framkvæmd þannig að sparisjóðurinn sameinist hlutafélagi sem sparisjóðurinn hefur áður stofnað í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins og öllum eignum hans og skuldum, réttindum og skuldbindingum.
    Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um fjölda stofnenda í hlutafélagi skv. 1. mgr. Ákvæði 1. mgr. 20. gr. sömu laga um lágmarksfjölda hluthafa gilda ekki um hlutafélag skv. 1. mgr. fram að því að breyting sparisjóðs í hlutafélag skv. 1. mgr. á sér stað.
    Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 1. mgr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 23. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins. Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda samkvæmt framansögðu skal verða eign sjálfseignarstofnunar sem sett er á stofn skv. 37. gr. B.
    Ákvæði 120.–128. gr. og ákvæði 131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skulu að öðru leyti og eftir því sem við getur átt gilda um breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt undanfarandi ákvæðum þessarar greinar.
    Við breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt þessari grein heldur starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu.
    Sparisjóði sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum sem leiðir af breytingu sparisjóðs í hlutafélag er undanþegin stimpilgjöldum.
    Nú fer um eigið fé sparisjóðs sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. og skulu nefnd ákvæði sem og ákvæði 2. mgr. 7. gr. þá gilda áfram um sparisjóðinn eftir breytingu hans í hlutafélag.
    Sparisjóði sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar er auk orðsins,,sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.
    Í samþykktum sparisjóðs sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal kveðið á um atkvæðisrétt sem fylgir hlutum í sparisjóðnum og um meðferð hans. Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Í samþykktum er þó heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun skv. 37. gr. B geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Á stofnfundi skal sjálfseignarstofnunin fara með atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.
    Nú er sparisjóði breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og skulu þá í stað ákvæða 15.–23. gr., 32.–37. gr., 59. gr. og 3. mgr. 70. gr. gilda um sparisjóðinn að öðru leyti en kveðið er á um í undanfarandi ákvæðum þessarar greinar og eftir því sem við getur átt ákvæði 10.–13. gr. og 30.–31. gr. og önnur ákvæði laganna, auk ákvæða laga um hlutafélög.

    b. (37. gr. B.)
    Nú er ákveðið að breyta sparisjóði í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 37. gr. A og skal sparisjóðurinn þá gangast fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar sem við breytinguna verður eigandi þess hluta hlutafjár í sparisjóðnum sem kveðið er á um í 3. mgr. 37. gr. A. Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skal vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins.
    Í stjórn sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. skulu eiga sæti fæst fimm menn úr fulltrúaráði stofnunarinnar.
    Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar, sem í skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag, skal kjósa stjórnarmenn sjálfseignarstofnunarinnar. Fulltrúaráðið getur valið fleiri til setu í ráðinu. Nú verða fulltrúaráðsmenn færri en þrjátíu og skal þá skylt að fjölga í ráðinu á næsta fundi þess þannig að meðlimir verði eigi færri en þrjátíu.
    Einungis skal heimilt að úthluta af fjármunum sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. eða ráðstafa eignum, sem eftir verða við slit hennar, til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs við breytingu hans í hlutafélag. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur skulu að öðru leyti gilda um sjálfseignarstofnun skv. 1. mgr. Sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt þessari grein er undanþegin tekjuskatti og eignarskatti.

4. gr.

    59. gr. laganna orðast svo:
    Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:
     1.      Aðalfundur getur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Öryggissjóður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem allir sparisjóðir stofna í þessu skyni, ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Heimilt er að greiða arð þótt tap sé á rekstri sparisjóðs.
     2.      Til viðbótar arðgreiðslu skv. 1. tölul. getur aðalfundur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, þó þannig að hækkun stofnfjár samkvæmt þessum tölulið verði aldrei meiri en 5% á ári. Heimild til endurmats samkvæmt þessum tölulið flyst ekki á milli ára. Endurmat samkvæmt þessum tölulið má ekki leiða til þess að bókfært eigið fé að frádregnu stofnfé verði lægra en það var í árslok 2000. Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats samkvæmt þessum tölulið miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Arðurinn skal reiknaður af endurmetnu stofnfé eins og það er í lok reikningsárs.
     3.      Hagnað, sem ekki er ráðstafað skv. 1. og 2. tölul., skal leggja í varasjóð.

5. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 72. gr. laganna orðast svo: Um samruna hlutafélagsbanka og sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélög gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.

6. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, II, svohljóðandi:
    Komi til sameiningar sparisjóða á Vestfjörðum getur fundur stofnfjáreigenda í sameinuðum sparisjóði ákveðið, þrátt fyrir 3. mgr. 37. gr. A, að sá hluti hlutafjár sparisjóðsins sem ekki gengur til stofnfjáreigenda skuli verða eign tveggja eða fleiri sjálfseignarstofnana sem bundnar voru starfssvæðum hinna sameinuðu sparisjóða.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.     Inngangur.
    Sparisjóðirnir eiga sér nærri einnar og hálfrar aldar sögu hér á landi. Með stofnun fyrstu sparisjóðanna var fyrst og fremst að því stefnt að örva sparnað landsmanna og draga úr einkaneyslu. Var yfirlýst markmið hinna fyrstu sparisjóða að ,,koma í veg fyrir óþarfa kaup og eyðslusemi en geyma og ávaxta fé efnalítilla manna sem þeir kynnu að hafa afgangs“ eins og segir í samþykktum elstu sparisjóðanna.
    Það er reyndar ekki fyrr en upp úr 1980 að uppgangur sparisjóðanna hefst hér á landi. Þá var aukin áhersla lögð á að sparisjóðir hefðu samvinnu sín á milli, þó svo að sjálfstæði einstakra sjóða væri virt. Þessi samvinna hefur skilað sér í aukinni markaðshlutdeild sparisjóðanna í bankakerfinu. Á sama tíma hefur sparisjóðum fækkað með sameiningum þannig að hver og einn hefur orðið öflugri. Þá hafa sparisjóðirnir staðið að stofnun eða keypt fyrirtæki sem mörg hver eru með öflugustu fyrirtækjum á sínu sviði.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Stofnuð hafa verið hlutafélög um rekstur og starfsemi ríkisviðskiptabankanna, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, þeir skráðir á markaði og einkavæddir að hluta. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tóku síðan til starfa á grunni rótgróinna fjárfestingarlánasjóða. FBA hefur síðan verið einkavæddur og sameinast Íslandsbanka hf. Það má leiða rök að því að sparisjóðirnir standi frammi fyrir virkari samkeppni en áður. Framangreindar breytingar hafa því áhrif á samkeppnisstöðu sparisjóðanna.
    Sparisjóðirnir hafa í lengri tíma haft hærra eiginfjárhlutfall en viðskiptabankarnir. Á síðustu árum hafa sparisjóðirnir vaxið hratt og eiginfjárhlutfall þeirra lækkað. Frá sjónarhóli sparisjóðanna var eðlilegt að auka eignir sínar til að nýta eigið fé betur og taka virkari þátt í harðri samkeppni á markaðnum.
    Lengst af hefur öflun nýs eigin fjár ekki verið vandamál hjá íslenskum innlánsstofnunum. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni hefur þörfin á eigin fé orðið brýnni. Það er því orðin forsenda þess að samkeppnisstaða innlánsstofnana verði raunverulega jöfnuð að þær standi jafnfætis þegar kemur að möguleikum á öflun eigin fjár.
    Viðskiptaráðherra skipaði nefnd árið 1998 til að huga að stöðu sparisjóðanna og hlutverki á íslenskum fjármagnsmarkaði. Nefndinni var ætlað að taka eftirfarandi til skoðunar:
     .      Hlutverk sparisjóða á fjármagnsmarkaði, möguleika þeirra til að taka þátt í hinni öru þróun á fjármagnsmarkaði og sérkenni þeirra sem greina þá frá öðrum fjármálafyrirtækjum.
     .      Lagalega stöðu sparisjóða og samkeppnisstöðu þeirra í ljósi breyttra laga um fjármálastarfsemi hér á landi.
     .      Almenna jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á fjármagnsmarkaði með tilliti til sérstöðu sparisjóða.
     .      Áhrif breytts eignarhalds og félagsforms á þátt sparisjóðanna í að efla verðbréfamarkað hér á landi.
    Á sumarmánuðum 2000 fékk nefndin síðan heimild ráðherra til að vinna að gerð lagafrumvarps. Nefndin var skipuð Benedikt Árnasyni, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneytinu, en hann tók við formennsku í nefndinni í byrjun árs 2000 af Páli Gunnari Pálssyni, Guðmundi Haukssyni, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Sigurði Hafstein, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða. Nefndin naut aðstoðar Baldurs Guðlaugssonar hrl. og Sigurðar Jónssonar, löggilts endurskoðanda, við samningu frumvarpsins.
    Helstu atriði frumvarpsins eru:
     1.      Starfandi sparisjóðum er veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Við þessa breytingu halda sparisjóðir starfsleyfi sínu. (3. og 5. gr. frumvarpsins.)
     2.      Breytingar eru gerðar á ákvæðum um stofnfjárbréf sparisjóða í því skyni að gera bréfin að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. (1. gr. og 4. gr. frumvarpsins.)
     3.      Í stað þess að sveitarfélög eða héraðsnefndir tilnefni tvo stjórnarmenn af fimm í sparisjóði er heimilt að kveða í samþykktum á um að stofnfjáreigendur kjósi alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs. (2. gr. frumvarpsins.)

Nánar um hlutafélagavæðingu sparisjóða.
     .      Sparisjóður sem breytt er í hlutafélag er áfram sparisjóður í skilningi laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði hlutafélagalaga og ákvæði um hlutafélagsbanka eiga við um sparisjóðinn eftir því sem við getur átt.
     .      Stofnfjáreigendur fá eingöngu hlutafé sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Þó geta þeir krafist þess samkvæmt hlutafélagalögum að stofnfjárbréf þeirra verði innleyst. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins samkvæmt mati óháðra aðila sem miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins.
     .      Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins sem ekki gengur til stofnfjáreigenda skal verða eign sérstakrar sjálfseignarstofnunar. Megintilgangur hennar er að stuðla að vexti í starfsemi sparisjóðsins og viðgangi hans.
     .      Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar, sem í skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag, skulu kjósa í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar.
     .      Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag. Þetta er sama takmörkun og gildir um sparisjóði í gildandi lögum. Heimilt er að kveða á um í samþykktum að sjálfseignarstofnunin geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni.

Nánar um stofnfjárbréf.
     .      Stofnfjáreigendum er auðveldað að selja stofnfjárbréf. Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.
     .      Heimilt er að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins þó þannig að hækkun stofnfjár, að undanskyldu endurmati vegna verðlags, verði aldrei meiri en 5% á ári.
     .      Heimilt er að greiða arð þó tap sé á rekstri sparisjóðs.

2.     Hlutverk sparisjóða.
    Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var því að stuðla að almannahag.
    Á síðastliðnum hálfum öðrum áratug hafa orðið miklar breytingar á starfsheimildum og starfsemi innlánsstofnana. Starfsskilyrði sparisjóða og viðskiptabanka hafa verið jöfnuð og starfsheimildir þeirra eru nú hinar sömu. Þetta er mjög viðamikil breyting frá því sem áður var. Sérstaða sparisjóða á íslenskum fjármagnsmarkaði er því ekki hin sama og áður. Sparisjóðirnir keppa á sama markaði og önnur fjármálafyrirtæki um hylli viðskiptavina og beita sömu aðferðum við að nálgast þá. Í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á fjármagnsmarkaðnum verða sparisjóðir, líkt og aðrir, að gæta fyllsta aðhalds í rekstri í því skyni að geta boðið samkeppnishæf kjör. Taka þarf ákvarðanir um lánveitingar og fjárfestingar á grundvelli arðsemi til að skaða ekki samkeppnishæfni fyrirtækisins. Rekstrarmarkmið fjármálafyrirtækja lúta því sömu lögmálum, þó að rekstrarform þeirra og eignarhald sé ólíkt.
    Þrátt fyrir þá breyttu stöðu sem að framan greinir er ekki hægt að segja að sparisjóðir hafi glatað tengslum við uppruna sinn. Sérstaða sparisjóðanna er enn mikil. Sparisjóðir eru yfirleitt lítil fjármálafyrirtæki í miklum tengslum við sitt nánasta umhverfi. Flestir þeirra starfa einungis á takmörkuðu svæði. Þannig myndast yfirleitt sterkari tenging við mannlíf og atvinnulíf á starfssvæði sparisjóðsins en tíðkast meðal annarra fjármálafyrirtækja og meiri nálægð við viðskiptavini. Sérstaða sparisjóðanna í samanburði við viðskiptabanka er einnig fólgin í því að meiri hluti viðskipta er við einstaklinga fremur en fyrirtæki. Ekki má heldur gleyma hinni nánu samvinnu sem ríkir á milli sparisjóða. Samvinna sparisjóða gerir þeim kleift að njóta hagkvæmni stærðarinnar á mikilvægum sviðum en sjálfstæði þeirra er þó tryggt.
    Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði er kveðið á um þrjú rekstrarform: ríkisviðskiptabanka, hlutafélagsbanka og sparisjóði. Í ársbyrjun 1998 var eftirstandandi ríkisviðskiptabönkum breytt í hlutafélög og þeir skráðir á markað. Viðskiptabankar eru því allir reknir sem hlutafélagsbankar. Við þessa breytingu var betur tryggt en áður að hámarksarðsemi yrði ætíð höfð að leiðarljósi í rekstri bankanna. Færa má rök fyrir því að við þessa breytingu hafi staða sparisjóðanna breyst. Sparisjóðir lúta ekki aðhaldi og aga hlutabréfamarkaðarins og því er ekki jafn skýr og afdráttarlaus krafa gerð um arðsemi þess eigin fjár sem bundið er í rekstrinum. Vegna hinna nánu tengsla sparisjóðanna við starfssvæði sitt og samfélagsleg markmið hefur aukist þrýstingur á sparisjóði sem starfa á landsbyggðinni að lána fé til fyrirtækja á starfssvæði þeirra, jafnvel þó að draga megi arðsemi lánveitingarinnar í efa.
    Það er ekki einungis á Íslandi sem hlutafélagsformið hefur sótt á í rekstri fjármálafyrirtækja. Af 100 stærstu bönkum Evrópu árið 1990 voru 43 hlutafélagsbankar í einkaeigu og skráðir í kauphöll, 20 sparisjóðir eða sjálfseignarstofnanir og 37 bankar í eigu hins opinbera. Árið 1999 voru hins vegar 63 af 100 stærstu bönkum Evrópu hlutafélagsbankar, 14 sparisjóðir eða sjálfseignarstofnanir og 23 í eigu hins opinbera. Einkavæðing á bönkum í eigu hins opinbera hefur einnig hvarvetna leitt til stofnunar hlutafélagsbanka sem skráðir eru á markaði. Það félagsform sem sparisjóðirnir byggjast á er á undanhaldi í Evrópu, þótt sparisjóðir hafi að sönnu mjög víða sterka stöðu. Hlutafélög með sem stefna að hámarkshagnaði fyrir eigendur sína er á hraðri leið með að verða hið ráðandi form á fjármálamarkaði.
    Eðlilegt er að spurt sé hvort sparisjóðsformið og sú hugmyndafræði sem að baki sparisjóðunum er sé úrelt á fjármagnsmarkaði nútímans. Áður var þess getið að starfsheimildir sparisjóða og annarra fjármálafyrirtæka eru hinar sömu og samkeppni mikil. Sparisjóðirnir hafa að mörgu leyti sótt í smiðju hlutafélagsformsins. Þannig reka þeir til dæmis félög, sem þeir eiga sameiginlega, í hlutafélagsformi þar sem hámarksarðsemi er höfð að leiðarljósi og ekki kveðið á um samfélagsleg markmið í samþykktum.
    Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu sparisjóðsformsins á nútímafjármagnsmarkaði. Segja má að hugmyndafræðilegur ágreiningur sé ríkjandi á milli hinnar frjálsu markaðshyggju annars vegar og stefnu sem byggist á sameiginlegri eign stofnenda eða félagsmanna hins vegar. Markaðshyggjan hefur rutt sér til rúms á síðustu tveimur áratugum og hafa önnur form atvinnurekstrar en hlutafélög átt undir högg að sækja. Það er þó ekki einhlít niðurstaða fræðimanna að sparisjóðsformið sé úrelt. Í fræðiritum um þetta efni eru taldir upp ýmsir kostir sem hugmyndafræði sparisjóðanna hefur umfram hina frjálsu markaðshyggju. Þar má nefna að smæð sparisjóða og nálægð við viðskiptavini skapi jákvæðara andrúmsloft og persónulegri og betri þjónustu, sparisjóðir hafi meiri ábyrgðartilfinningu gagnvart samfélaginu og taki virkari þátt í þróun þess, sparisjóðir geti í stefnmörkun sinni litið til lengri tíma þar sem þeir eru ekki bundnir af áhuga hluthafa á skammtímaávinningi, sparisjóðir beini sjónum sínum einkum að þörfum einstaklinga og minni fyrirtækja á starfssvæði sínu og að síðustu að sparisjóðir hlaupi ekki í burtu þó að á móti blási. (Sjá t.d. J. Ravell, The Future of Savings Banks, Institute of European Finance, Bretland, 1989, og European Savings Banks – Coming of Age, Lafferty publications, Írland, 1999).

3.     Stærð og eigin fé sparisjóða.
    Sparisjóðir á Íslandi voru 25 árið 1999 en þeim fækkar í 22 með væntanlegri sameiningu fjögurra sparisjóða á Vestfjörðum í Sparisjóð Vestfjarða. Stofnfjáreigendur eru á fimmta þúsund og er hlutur þeirra í eigin fé sparisjóða um 14%. Mjög mismunandi er hversu hátt hlutfall stofnfjár er af eigin fé í einstökum sparisjóðum. Þannig er hlutfallið í nokkrum stórum sparisjóðum um og undir 1% en á milli 20% og 30% í nokkrum öðrum. Meðaltalseign hvers stofnfjáreiganda í sparisjóðum nemur um 360 þúsund.


Stofnfé og stofnfjáreigendur sparisjóða 1999.

Eignir
í m.kr.

Eigið fé
í m.kr.

Stofnfé
í m.kr.
Stofnfé/
eigið fé,
%
Fjöldi stofnfjáreigenda,
okt. 2000

Meðaleign
í þús.kr.
Sp. Reykjavíkur og nágrennis 27.412 1.831 327,2 17,9 908 360
Sp. Hafnarfjarðar 23.146 1.782 5,1 0,3 45 113
Sp. vélstjóra 16.184 1.393 24,8 1,8 533 47
Sp. í Keflavík 11.446 959 346,8 36,2 510 680
Sp. Kópavogs 6.434 655 418,8 63,9 610 687
Sp. Mýrasýslu* 5.141 686 3,0 0,4 2 1.500
Sp. Bolungarvíkur 4.048 553 36,6 6,6 117 313
Sp. Vestmannaeyja 3.037 314 0,7 0,2 70 10
Sp. Siglufjarðar 1.924 202 0,6 0,3 44 14
Sp. Norðlendinga 2.456 368 2,1 0,6 87 24
Sp. Húnaþings 1.928 229 2,0 0,9 90 22
Sp. Ólafsfjarðar 1.256 79 216,9 274,6 86 2.522
Sp. Svarfdæla 1.688 258 4,5 1,7 150 30
Eyrarsparisjóður 1.429 65 7,5 11,5 98 77
Sp. S-Þingeyinga 1.218 108 6,4 5,9 176 36
Sp. Hornafjarðar 1.837 102 74,1 72,6 182 407
Sp. Norðfjarðar 1.209 200 4,3 2,2 61 70
Sp. Önundarfjarðar 1.213 170 3,1 1,8 33 94
Sp. Þingeyrar 733 179 1,1 0,6 47 23
Sp. Ólafsvíkur 752 124 0,1 0,1 46 2
Sp. Þórshafnar 562 131 0,3 0,2 84 4
Sp. Höfðhverfinga 419 86 3,0 3,5 43 70
Sp. Súðavíkur 561 38 13,2 34,7 36 367
Sp. Strandamanna 377 134 1,2 0,9 75 16
Sp. Hólahrepps 21 7 0,1 1,4 -
         116.431 10.653 1.503,5 14,1 4.133 364
* Sveitarfélög eru einu stofnfjáreigendur Sparisjóðs Mýrasýslu

4.     Stofnfjárbréf og hlutabréf.
    Sérstaða sparisjóðsformsins er ekki hvað síst fólgin í því að stofnfjárbréf í sparisjóðum eru ekki framseljanleg nema með samþykki sparisjóðsstjórnar og veðsetning þeirra er alfarið óheimil. Stjórn sparisjóðs er á hinn bóginn skylt að innleysa stofnfjárhlut þegar sparisjóði er slitið, við gjaldþrotaskipti á búi stofnfjáreiganda og við fjárnám í stofnfjárhlut stofnfjáreiganda. Auk þess er stjórn sparisjóðs heimilt að innleysa stofnfjárhlut við andlát stofnfjáreiganda, við eigendaskipti á stofnfjárhlut þegar fjárslit fara fram milli hjóna og við brottflutning stofnfjáreiganda af starfssvæði sjóðsins.
    Stofnfjárbréf eru í veigamiklum atriðum frábrugðin hlutabréfum. Stofnfjáreigandi nýtur einungis arðs af innborguðu stofnfé sínu en hefur ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram arðgreiðslur. Hann fær með öðrum orðum ekki hlutdeild í uppsöfnuðu eigin fé sjóðsins, nema hugsanlega í gegnum arðgreiðslu. Þetta er ólíkt réttindum hluthafa í hlutafélagi, en hlutdeild hans í eigin fé félagsins er hin sama og hlutur hans af heildarhlutafé. Stofnfjáreigandi getur ekki án heimildar sparisjóðsins selt bréf sín og bréfin ganga ekki kaupum og sölum á markaði. Í hlutafélagi getur hluthafi selt hlutabréf sín án utanaðkomandi íhlutunar, nema nýtt sé heimild laga til að takmarka framsal. Stofnfjáreigandi býr enn fremur við lagatakmarkanir á atkvæðisrétti. Aðalreglan er sú að stofnfjáreigendur eiga jafnan hlut og hafa jafnan atkvæðisrétt. Heimilt er að kveða á um annað í samþykktum sparisjóðs, þó þannig að einstakur stofnfjáreigandi getur aldrei farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Í hlutafélögum er aðalreglan sú að hluthafar fara með atkvæði í samræmi við hlutdeild sína í heildarhlutafé félagsins.
    Þegar stofnfjárbréf eru í boði er áskilið í lögum að þau skulu keypt og seld á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Viðskiptin fara því fram á grundvelli fyrirfram ákveðins verðs. Þetta er ólíkt því sem gerist í viðskiptum með hlutabréf þar sem aðalreglan er sú að kaupendur og seljendur meta framtíðarhorfur félagsins og verðlagningin tekur mið af væntum núvirtum framtíðarhagnaði.
    Af framansögðu má ljóst vera að stofnfjárhlutir í sparisjóðum og hlutir í hlutafélögum eru gjörólík form. Að öllu jöfnu ættu hlutabréf að vera betri fjárfestingarkostur en stofnfjárbréf litið til lengri tíma. Ávöxtun hlutabréfa byggist á tvennu; úthlutuðum arði af nafnvirði hlutafjár og gengishækkun bréfanna. Möguleikar hluthafa til að njóta góðrar ávöxtunar eru ekki síst fólgnir í hækkun á verði bréfanna. Stofnfjáreigandi nýtur hins vegar einungis arðs af framreiknuðu stofnfé sínu og hömlur eru lagðar á framsal. Á síðustu árum hefur ávöxtun af stofnfé hins vegar verið góð og hafa bréfin verið endurmetin með hliðsjón af verðbólgu og arður greiddur.
    
5.     Öflun nýs eigin fjár.
    Sparisjóðir eiga örðugra en hlutafélagsbankar með að afla nýs eigin fjár. Stofnfjárbréf með þeim einkennum sem lýst er að framan, þ.e. þau ganga ekki kaupum og sölum á markaði, takmarkanir reistar við framsali og atkvæðisréttur er skertur, þykja síður fýsilegur kostur fyrir fjárfesta. Þetta veldur því að sparisjóðir eiga erfiðara en fjármálafyrirtæki í hlutafélagsformi með að afla sér nýs eigin fjár til vaxtar. Hér er gengið út frá því sem vísu að einkenni stofnfjárbréfa geri þau lítt áhugaverð, enda séu til staðar aðrir möguleikar til fjárfestinga sem ættu, að öðru jöfnu, að gefa betri ávöxtun. Það er þó forvitnilegt að velta því fyrir sér hvort önnur sjónarmið en hámarksarðsemi geti átt við um kaup á stofnfjárbréfum. Líklegt má telja að félagsleg sjónarmið hafi átt sinn þátt í stofnfjárbréfakaupum þeirra rúmlega fjögur þúsund sem nú eiga slík bréf. Þessir stofnfjáreigendur hafa sóst eftir því að taka í félagi með öðrum þátt í uppbyggingu á viðkomandi starfssvæði með eignarhlut í staðbundnu fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir þá annmarka sem eru á stofnfjárbréfum fyrir fjárfesti sem reynir að ná hámarksarði er ekkert sem bendir til að stofnfjáreigendur séu síður meðvitaðir eða gæti hag fyrirtækis síns síður en hluthafar í hlutafélögum. Sem dæmi um þetta má nefna að þátttaka á aðalfundum sparisjóða hefur ekki reynst minni en í hlutafélagsbönkum.
    Við þær þjóðfélagsaðstæður sem nú ríkja, þar sem eigendavitund hefur aukist, hlutafélög eru að verða hið ráðandi form atvinnurekstrar og markaðsvæðing atvinnulífsins er á mikilli hraðferð, má telja ólíklegt að fjárfestar séu tilbúnir að leggja fé í stofnfjárbréf sparisjóða í miklum mæli. Nokkrir sparisjóðir hafa þó selt stofnfjárbréf með góðum árangri á undanförnum árum. Ekki er hægt að útiloka að ástæða eftirspurnar eftir stofnfjárbréfum á síðustu árum sé von fjárfestanna um að hagnast á hugsanlegri breytingu sparisjóðsins í hlutafélag.
    Af framansögðu má draga þá ályktun að núverandi lagarammi sem sparisjóðir starfa eftir sé ófullnægjandi. Sparisjóðir verða að eiga möguleika á því að afla sér nýs eigin fjár á markaði ef þeir ætla sér að verða samkeppnishæfir á fjármagnsmarkaði. Ef engar breytingar verða gerðar á lögunum eru sparisjóðum aðeins þrjár leiðir færar. Í fyrsta lagi að nýta sér hagnað til innri uppbyggingar, í öðru lagi að auka stofnfé með því að fjölga stofnfjáreigendum eða hækka mögulega hámarkseign hvers aðila og í þriðja lagi að selja eignir eða breyta samsetningu eigna sinna. Engin þessara leiða getur gengið til lengri tíma litið fyrir sparisjóðina sem heild ef þeir ætla sér að viðhalda stöðu sinni á markaði. Niðurstaðan er því sú að æskilegt er fyrir sparisjóði að eiga möguleika á því að afla sér nýs eigin fjár með sama hætti og keppinautar þeirra á markaði.
    Þessi niðurstaða byggist á þeirri forsendu að vöxtur sé sparisjóðunum nauðsynlegur. Halda mætti því fram að sparisjóðirnir geti haldið áfram að sinna heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í heimabyggð sinni líkt og verið hefur án þess að leggja sérstaka áherslu á stækkun. Telja verður þó að þessi kostur sé ekki raunhæfur vilji sparisjóðir viðhalda þeirri stöðu á markaðinum sem þeir njóta í dag. Fyrir þessu eru margar ástæður. Samkeppni á fjármagnsmarkaði hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Samkeppnin hefur leitt til minnkandi vaxtamunar og þrýst á að fjármálafyrirtæki stækki til að unnt sé að ná bæði fram minni vaxtamun með hagkvæmni stærðar og viðunandi arðsemi. Regluverk á markaðinum kallar einnig á stækkun eininga. Í því skyni að tryggja betri áhættudreifingu hafa stjórnvöld sett sífellt strangari reglur um það hámark af eigin fé sem hver lánastofnun getur lánað til einstaks viðskiptavinar. Til að veita sístækkandi fyrirtækjum í heimabyggð sinni þjónustu verða því sparisjóðir að stækka. Auk þess má geta þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á dreifileiðum fjármálafyrirtækja með tilkomu netsins og nýrrar fjarskiptatækni. Þessar breytingar kalla á slíkar fjárfestingar í upplýsingatækni að minni fyrirtæki hafa ekki bolmagn til þátttöku.

6.     Nýjar leiðir til öflunar eigin fjár.
    Tvær leiðir hafa einkum verið nefndar hér og erlendis til að leysa framangreindan vanda sparisjóða við öflun eigin fjár. Önnur leiðin felst í því að gera sparisjóðum kleift að bjóða upp á markaðshæf bréf í sérstakri deild án þess að hrófla að öðru leyti við áður útgefnum stofnfjárbréfum eða rekstrarformi sjóðanna. Hin leiðin er að gera sparisjóðum kleift að stofna hlutafélög um reksturinn. Hér á eftir verður kostum og göllum þessara leiða lýst í stuttu máli.

a.     Sparisjóðshlutabréf.
    Þessi leið byggist á því að stofna sérstakan eiginfjársjóð sem fjármagnaður er með sölu stofnfjárhluta sem aukinn arðsréttur fylgir. Þessum stofnfjárhlutum getur líka fylgt aukinn atkvæðisréttur. Þessi bréf eru oft kölluð B-deildar bréf en eru hér nefnd sparisjóðshlutabréf.
    Markmið með útgáfu sparisjóðshlutabréfanna er að afla aukins eigin fjár til vaxtar án þess að hrófla við megineinkennum sparisjóðsformsins. Sparisjóðshlutabréfin eiga að líkjast sem mest hlutabréfaforminu og höfða þannig betur til fjárfesta heldur en stofnfjárbréfin. Bréf af þessu tagi hafa í nokkurn tíma verið gefin út í Noregi með ágætum árangri. Þar hefur myndast virkur markaður með bréf stærstu sparisjóðanna.
    Ekki er ólíklegt að flestir stærstu sparisjóðirnir hér á landi mundu gefa út sparisjóðshlutabréf hefðu þeir heimild til þess. Hvort þessi leið er vænleg til árangurs fyrir sparisjóði fer þó eftir viðtökum fjárfesta við bréfunum. Alls óvíst er hvort áhugi reyndist fyrir slíkum eftirlíkingum af hlutabréfum. Reynslan frá Noregi bendir til að ekki sé loku fyrir það skotið að markaður geti myndast með bréf stærstu sparisjóðanna. Miðað við þróun á verðbréfamarkaði er mjög ólíklegt að minni sparisjóðir gætu haft erindi sem erfiði af sölu sparisjóðshlutabréfa. Möguleikar þeirra til vaxtar væru þá takmarkaðir við sameiningu við sparisjóði eða önnur fjármálafyrirtæki. Einnig er í þessu sambandi rétt að benda á að ekki er góð reynsla hér á landi af útgáfu samvinnuhlutabréfa, sem ekki hafa náð fótfestu sem markaðsverðbréf. Þessi leið er ekki lögð til í frumvarpi þessu.

b.     Sparisjóðum breytt í hlutafélög.
    Þessi leið byggist á því að veita sparisjóðum heimild til að breyta sér í hlutafélög. Eftir að sparisjóður breytir rekstrarformi sínu í hlutafélagsform öðlast hann hliðstæðar heimildir og hlutafélagsbankar til að styrkja eiginfjárstöðu sína með aukningu hlutafjár. Samkvæmt þessari leið verður samruni með viðkomandi sparisjóði og hlutafélagi sem stofnað er um reksturinn. Sjálfseignarstofnun sem er sett saman úr eigin fé sparisjóðsins að frádregnum stofnfjárhlutum verður hluthafi í hlutafélaginu og hefur það markmið að stunda sparisjóðsstarfsemi með eignarhaldi í sparisjóðshlutafélagi. Þessi sjálfseignarstofnun verður til að byrja með langstærsti hluthafinn í nýja hlutafélaginu.
    Að öðru jöfnu ætti þessi leið að höfða betur til fjárfesta en sparisjóðshlutabréf. Hlutafélagsformið er ráðandi form í íslenskum atvinnurekstri í dag og best skilgreinda rekstrarformið í íslenskum lögum. Hlutabréf eru einnig þekkt hjá almenningi, ólíkt stofnfjárbréfum og flestum öðrum formum. Með þessari leið væri einfalt fyrir sparisjóði að auka eigið fé sitt. Þessi leið hefur einnig þann kost, sé heimildin til stofnunar hlutafélags nýtt, að jafna aðstæður á milli fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu er lagt til að sparisjóðum verði veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélög.
    Margt þarf þó að hafa í huga þegar tekin er jafn stór ákvörðun og að breyta rekstrarformi fyrirtækja. Í fyrsta lagi ber að nefna að einsýnt er að sjálfseignarstofnun, um þann hluta núverandi eigin fjár sparisjóða sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til, mun um tíma verða ráðandi hluthafi í sparisjóðshlutafélaginu. Það skiptir því sköpum hvernig staðið verður að stjórn og rekstri sjálfseignarstofnunarinnar. Í öðru lagi ber að hafa í huga að stærstu sparisjóðirnir hafa fyrst og fremst til að bera þann fjárhagslega styrk að geta boðið út hlutabréf sem ganga kaupum og sölum á markaði.
    
7.     Litlir og meðalstórir sparisjóðir.
    Eins og að framan er getið eru ekki allir sparisjóðir það stórir að geta boðið út hlutabréf sem ganga kaupum og sölum á markaði. Hlutafélög þurfa að vera nokkuð stór til að hægt sé að búast við að virkur markaður geti myndast með hlutabréfin og kostir þessa rekstrarforms þannig nýst sem best. Vísbendingar eru um það að markaðsvirði félags þurfi að nema nokkrum milljörðum króna um þessar mundir til að skynsamlegt sé að skrá það á aðallista Verðbréfaþings Íslands. Aðrir markaðir eru hins vegar fyrir hendi eða eru að koma upp þar sem búast má við að virk viðskipti geti orðið þó markaðsvirði sé lægra. Af þessu má hins vegar ráða að hlutafélagaleiðin hentar ekki öllum sparisjóðum.
    Hvað margir sparisjóðir geta nýtt sér kosti hlutafélagsformsins er ekki hægt að segja til um en miðað við stærð íslenskra sparisjóða er það mikill minni hluti þeirra 25 sjóða sem starfandi voru í lok árs 2000. Ekki er heldur víst að allir þeir sparisjóðir sem gætu nýtt sér kosti hlutafélagsformsins kjósi að gera það. Því er ekki gott að segja til um það fyrir fram hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á sparisjóðina. Einn möguleiki er sá að frumvarpið flýti fyrir sameiningu sparisjóða og sameinaðir sparisjóðir breyti rekstrarformi sínu.
    Af reynslu nágrannalandanna má draga þá ályktun að ekki verði margir sparisjóðir reknir í formi hlutafélaga hér á landi. Í Danmörku hafa um tíu sparisjóðir nýtt sér heimild til að breyta sér í hlutafélag. Þeir sem hafa breytt rekstrarformi sínu eru fyrst og fremst stærstu sparisjóðirnir. Í Noregi hafa um 25 sparisjóðir gefið út sparisjóðshlutabréf (grunnfondsbeviser) sem ganga kaupum og sölum á markaði og í þeim hópi eru allir stærstu sparisjóðirnir. Í bæði Danmörku og Noregi eru tugir lítilla og meðalstórra sparisjóða sem starfa staðbundið, hafa yfir að ráða nægu eigin fé og hafa ekki áhuga á að gefa út markaðsverðbréf.
    Hvort litlir og meðalstórir íslenskir sparisjóðir geta lifað af harðnandi samkeppni eða hvort þeim reynist nauðsynlegt að auka samvinnu sín á milli eða sameinast mun tíminn leiða í ljós. Í frumvarpinu eru hins vegar mikilvæg nýmæli þar sem reynt er að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki hug á hlutafélagsforminu. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. Það er gert með því að auðvelda stofnfjáreigendum að selja bréf sín og með því að auka arðsvon af bréfunum. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á ákvæðum laganna um stofnfjárbréf ættu þau að verða betri fjárfestingarkostur með góðri ávöxtun en minni áhættu en hlutabréf.
    
8.     Staða sparisjóða í Evrópu.
    Sparisjóðir hafa víða mjög sterka stöðu í Evrópu. Í sex ríkjum Evrópu eru sparisjóðir með yfir 30% hlut í innlánum í bankakerfinu og allt upp í 50%. Í slíkum tölum teljast allar innlánsstofnanir aðrar en hlutafélagsbankar og ríkisviðskiptabankar til sparisjóða. Sparisjóðir eru mjög ólíkir að uppbyggingu og rekstrarformi. Þeir geta t.d. verið í formi sparisjóða með svipuðum hætti og þekkist hér á landi, eins og á Spáni, í Noregi og Danmörku, byggingarsamvinnufélaga (building societies) í Bretlandi, fylkisbundinna sparisjóða með ábyrgð viðkomandi sambandsríkis í Þýskalandi (Sparkassen) eða reknir í hlutafélagsformi, svo sem á Ítalíu, í Danmörku, Hollandi og Bretlandi (sjá European Savings Banks – Coming of age, Lafferty publications, Írland 1999).
    Það er ekki rekstrarformið sem sameinar sparisjóði heldur miklu frekar áherslur þeirra og markaðssetning. Sparisjóðir eru fyrst og fremst lítil og staðbundin þjónustufyrirtæki. Hið takmarkaða starfssvæði sparisjóðanna gerir þeim kleift að veita viðskiptavinum persónulega þjónustu. Stefnan er mótuð heima í héraði en ekki í fjarlægð þar sem þekking á staðbundnum aðstæðum er takmörkuð. Þetta er talin vera ein af helstu ástæðum fyrir velgengni sparisjóða í Evrópu. Smæð sparisjóða gerir þeim nauðsynlegt að hafa nána samvinnu sín á milli. Yfirleitt er það sérstakt fyrirtæki sem sparisjóðirnir reka sameiginlega sem sinnir stærri lántökum, upplýsingatækni og fleiri þáttum þar sem hagkvæmni stærðar er mikil. Sparisjóðir einstakra landa eru einnig yfirleitt með sameiginlegt merki og markaðssetning er að hluta mótuð í samvinnu.
    Eitt einkenni sparisjóða er að þeir sinna heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í ríkari mæli en viðskiptabankar. Smæð flestra sparisjóða gerir þeim erfitt fyrir að þjónusta stærstu fyrirtæki. Sparisjóðir hafa tilheigingu til að taka minni áhættu en viðskiptabankar og innlán eru stærri hluti fjármögnunar en hjá viðskiptabönkum.
    Á síðasta áratug hafa sparisjóðir í Evrópu staðið frammi fyrir meiri breytingum á starfsumhverfi en áratugina þar á undan. Þeir hafa orðið að bregðast við opnun hólfa á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja sem meðal annars hefur gefið sparisjóðum færi á að breikka þjónustusvið sitt og stækka starfssvæðið. Þetta hefur leitt til mun meiri samkeppni en áður hefur þekkst á fjármagnsmarkaði. Víða hefur öflun nýs eigin fjár með samkeppnishæfum hætti (capital challenge) verið helsta vandamál sem sparisjóðir hafa staðið frammi fyrir. Lausnir sem mótaðar hafa verið eru í fyrsta lagi að breyta rekstrarforminu í hlutafélag, í öðru lagi að leyfa útgáfu nýrra tegunda af bréfum sem unnt er að selja á markaði, í þriðja lagi að breyta eignasamsetningu og í fjórða lagi að selja eignir. Umræða um framtíð sparisjóðanna á nútímafjármagnsmarkaði hefur að miklu leyti snúist um það hvort sparisjóðirnir geti viðhaldið séreinkennum sínum á þessum breyttu tímum eða hvort nýir tímar kalli á breytta hugmyndafræði sparisjóðanna.
    Eins og áður segir hafa sparisjóðir víða mjög sterka stöðu í hefðbundnum bankaviðskiptum. Í töflunni er sýnd markaðshlutdeild sparisjóða í innlánum í bankakerfinu árin 1984 og 1997. Taka ber fram að hlutur sparisjóða er lægri en ef miðað er við eignir bankakerfisins í stað innlána.

Hlutur sparisjóða í innlánum bankakerfisins, %.
Land 1984 1997
Austurríki 30,8 32,2
Belgía 59,6 30,7
Danmörk 28,1 7,5
Finnland 20,7 7,0
Frakkland 20,3 17,0
Holland 11,1 4,6
Ísland 15,4 22,4
Ítalía 26,6 27,0
Noregur 44,9 44,9
Portúgal 21,0 39,1
Spánn 35,4 49,3
Svíþjóð 28,9 28,3
Þýskaland 49,7 39,8


9.     Reynsla Dana af hlutafélagavæðingu sparisjóða.
    Á níunda áratugnum tókst um það víðtækt samkomulag meðal danskra sparisjóða að þörf væri á að breyta lögum á þann veg að sparisjóðum gæfist kostur á að breyta rekstarformi sínu í hlutafélag, sýndist þeim það vænlegra. Árið 1988 var dönskum lögunum breytt í því skyni og hefur sparisjóðum, sem starfandi voru í janúar 1989, síðan verið heimilt að breyta sér úr sjálfseignarstofnunum í hlutafélög en þeim jafnframt verið gefið færi á að viðhalda ýmsum sérkennum sem sparisjóðirnir hafa verið þekktir fyrir.
    Yfirlýstur tilgangur lagabreytingarinnar var að gefa sparisjóðunum aukið færi á að afla nýs eigin fjár til rekstrar síns. Þeim tilgangi hefur verið náð af því að eftir að sparisjóður breytir rekstrarformi sínu í hlutafélagsform öðlast hann hliðstæðar heimildir og hlutafélagsbankar til að styrkja eiginfjárstöðu sína með aukningu hlutafjár. Danskir sparisjóðir, sem breytt hefur verið í hlutafélög, hafa eftir sem áður heimild til að kalla sig sparisjóði að því tilskyldu að í sömu andrá sé gefið til kynna að um hlutafélag sé að ræða.
    Samkvæmt hinum dönsku reglum hafa sparisjóðir um tvær leiðir að velja kjósi þeir á annað borð að breyta rekstarformi sínu í hlutafélagsform. Samkvæmt annarri leiðinni verður samruni með viðkomandi sparisjóði og hlutafélagi sem stofnað er um reksturinn en eignir sparisjóðsins, að frádregnum skuldum, eru færðar í sjálfseignarstofnun sem er hluthafi í hlutafélaginu. Sé hin leiðin valin verður sömuleiðis samruni með sparisjóðnum og hlutafélagi en í stað þess að stofnaður sé sérstök sjálfseignarstofnun verða eignir sparisjóðsins að frádregnum skuldum bundnar í varasjóði hlutafélagsbankans.
    Reynsla Dana af hlutafélag1avæðingu sparisjóða hefur almennt verið góð. Um tíu sparisjóðir hafa breytt rekstrarformi sínu, aðallega hinir stærri. Þegar lögin tóku gildi seint á níunda áratugnum voru tveir sparisjóðir langstærstir, SDS og Bikuben. SDS sameinaðist nokkrum viðskiptabönkum fljótlega eftir hlutafélagavæðingu og hætti að skilgreina sig sem sparisjóð. Bikuben starfaði hins vegar í sjö ár án sameiningar við viðskiptabanka. Þegar hann sameinaðist Giro-banken árið 1996 hélt hann áfram stöðu sinni sem sparisjóður. Árið 1998 hætti hann síðan samvinnu við aðra sparisjóði og var sameinaður Den Danske Bank í árslok 2000. Sex millistórir sparisjóðir breyttu rekstrarformi sínu fljótlega eftir að lögin tóku gildi. Um 70 sparisjóðir breyttu ekki rekstrarformi sínu og hafa ekki hug á að gera það. Þessir sparisjóðir starfa á afmörkuðum landssvæðum í sterkum tengslum við sitt umhverfi og þurfa ekki á meiru eigin fé að halda. Mikið samstarf er á milli þessara sparisjóða.
    Allir sparisjóðir sem breytt hafa rekstrarformi sínu, að einum undanskildum, völdu þá leið að stofna sjálfseignarstofnun sem varð hluthafi í sparisjóðnum. Stofnanirnar áttu yfirleitt um 20–40% af sparisjóðum í upphafi en þó allt upp í 100%. Eignarhlutur þeirra hefur smátt og smátt minnkað, fyrst og fremst vegna hlutafjáraukningar og samruna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er ætlunin að auðvelda stofnfjáreigendum að selja stofnfjárbréf sín. Í 1. mgr. 20. gr. laganna segir að stjórn sparisjóðs sé heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði við þrjár tilteknar aðstæður; í fyrsta lagi við andlát stofnfjáreiganda, í öðru lagi við eigendaskipti á stofnfjárhlut þegar fjárslit fara fram milli hjóna og í þriðja lagi við brottflutning stofnfjáreiganda af starfssvæði sjóðsins. Telja verður að skilyrði þessi séu of þröng og æskilegt sé fyrir stofnfjáreigendur að heimildin sé rýmkuð. Fyrir vikið ættu stofnfjárbréf að verða fýsilegri fjárfestingarkostur.
    Samkvæmt þessari grein er innlausn stofnfjárhluta í sparisjóði að beiðni stofnfjáreigenda sparisjóðum einungis heimil en ekki skyld. Synji sparisjóður um innlausn fer samkvæmt ákvæðum 21. gr. Með þessari breytingu verða stofnfjárbréf ekki að framseljanlegum bréfum sem ganga kaupum og sölum á markaði. Áfram mun gilda ákvæði 18. gr. um bann við sölu eða öðru framsali stofnfjárhlutar í sparisjóði nema með samþykki sparisjóðsstjórnar.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er lagt til að fundur stofnfjáreiganda hafi val um hvort sveitarfélög (eða héraðsnefndir) skuli skipa tvo af fimm stjórnarmönnum í sparisjóði. Nokkuð hefur verið um það rætt á undanförnum árum hvort sú skipan að sveitarfélög skipi í stjórn sparisjóðs sé eðlileg. Hefur í því sambandi verið nefnt að það skjóti skökku við að í stjórn sparisjóða skuli sitja fulltrúar aðila sem oft eiga engra beinna hagsmuna að gæta við rekstur þeirra en fara samt sem áður með 40% stjórnarsæta. Sameiningar sparisjóða og sameiningar sveitarfélaga geta einnig leitt til þess að erfiðara er að velja sveitarfélagsmenn til setu í stjórnum sparisjóða. Sé það hins vegar vilji einstakra sparisjóða að hverfa ekki alfarið frá því fyrirkomulagi sem gilt hefur er því farin sú leið í þessu frumvarpi að aðkoma sveitarfélaga sé háð ákvörðun fundar stofnfjáreigenda.

Um 3. gr.


     Um a-lið (37. gr. A).
    Í þessari grein er kveðið á um heimildir til að breyta starfandi sparisjóðum í hlutafélög og hvernig að því beri að standa.
    Í 1. mgr. er kveðið á um með hvaða hætti breytingin í hlutafélag skuli eiga sér stað. Greinin á sér samsvörun í samrunaákvæði 72. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Það skal tekið fram að samþykki ráðherra er fengið að loknum fundi stofnfjáreigenda. Breyting sparisjóðs í hlutafélag er framkvæmd með samruna sparisjóðsins við hlutafélag sem sparisjóðurinn hefur áður stofnað í þessu skyni. Rétt er einnig að taka fram að heimildin til umbreytingar sparisjóðs í hlutafélag takmarkast við þá sparisjóði sem eru starfandi hinn 31. desember 2000. Verði frumvarpið að lögum verður ekki unnt að stofna nýja sparisjóði í formi hlutafélaga eða að breyta sparisjóðum sem stofnaðir verði eftir 31. desember 2000 síðar í hlutafélag. Við stofnun nýrra innlánsstofnana mun valið því standa á milli þess að stofna hlutafélagsbanka eða sparisjóð í rekstrarformi samkvæmt núgildandi lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda stofnenda og hluthafa. Þetta er gert til einföldunar þannig að sparisjóðurinn geti stofnað hlutafélagið án þátttöku annarra og verið eini hluthafinn í því þar til breyting sparisjóðs í hlutafélag á sér stað.
    Í 3. mgr. er sagt til um hvernig hlutafé í hlutafélaginu skuli skiptast við breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Þeir geta einnig, sbr. 4. mgr. (131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög), krafist þess að stofnfjárbréf þeirra verði innleyst ef þeir hafa greitt atkvæði gegn samruna sparisjóðsins við hlutafélagið og skrifleg krafa um það er gerð innan mánaðar frá því að fundur stofnfjáreigenda var haldinn.
    Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði segir að stofnfjáreigendur hafi ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs um fram það sem mælt er fyrir um í lögunum. Einnig segir að stofnfjáreigendur skuli einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Stofnfjáreigendur eiga með öðrum orðum ekki tilkall til eigin fjár sparisjóðs nema þess stofnfjár sem þeir sjálfir lögðu til hans, en það er heimilt að endurmeta skv. 23. gr. laganna. 3. mgr. greinarinnar tekur mið af þessu. Þar segir að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum skuli nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 23. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi. Þetta er best að útskýra með dæmi. Gerum ráð fyrir að stofnfé í sparisjóði nemi 50 millj. kr. af 500 millj. kr. eigin fé hans, eða 10%. Ef áætlað markaðsvirði sparisjóðsins samkvæmt mati óháðra aðila er tvöfalt eigið fé hans, eða 1.000 milljónir, eiga stofnfjáreigendur rétt á að fá hlutafé í sparisjóðnum sem nemur 5%, þ.e. 50 milljónum af áætluðu markaðsvirði, 1.000 milljónum. Afgangurinn, 95% af hlutafé sparisjóðsins, rennur til sjálfseignarstofnunar samkvæmt lokamálslið 3. mgr.
    Í 3. mgr. kemur einnig fram að óháður aðili skuli meta áætlað markaðsvirði sparisjóðs sem hyggur á breytingar á rekstarformi sínu. Miðað er við að markaðsvirðið sé áætlað út frá því að sparisjóðurinn haldi áfram rekstri í dreifðri eignaraðild en ekki hvað þriðji aðili sé tilbúinn að greiða fyrir sparisjóðinn. Mikilvægt er að óháður aðili sé fenginn til að meta markaðsvirðið. Ekki er eðlilegt að stjórn sparisjóðsins hafi sjálf þetta mat með höndum. Það kemur til af því að meiri hluti sparisjóðsstjórnar eru fulltrúar stofnfjáreigenda sem hafa hagsmuni af því að markaðsvirðið sé metið sem lægst enda leiðir það til meiri hlutafjáreignar stofnfjáreigenda í sparisjóðnum. Það er síðan sparisjóðsstjórnar, að fengnu mati óháðs aðila, að leggja til við fund stofnfjáreigenda að breyta sparisjóði í hlutafélag.
    Sá aðili, einn eða fleiri, sem sparisjóðsstjórn fær til að meta markaðsvirði sparisjóðsins verður að hafa faglega þekkingu til að bera til að meta virði fyrirtækja. Hér er átt við lánastofnanir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, ráðgjafarfyrirtæki og endurskoðunarfyrirtæki svo dæmi séu nefnd. Með óháðum aðila er átt við að aðilinn hafi ekki beinna viðskiptahagsmuna að gæta við sparisjóðinn, t.d. endurskoði reikninga sparisjóðsins eða hafi sterk viðskiptatengsl við hann að öðru leyti.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að samrunaákvæði 120.–128. gr. hlutafélagalaga gildi um samruna sparisjóðs og hlutafélags þess sem sparisjóður stofnar í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins. Einnig gildir ákvæði 131. gr. en þar er kveðið á um að hluthafar eigi kröfu á því að hlutabréf þeirra verði innleyst ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að hluthafafundurinn var haldinn.
    Eftirfarandi er stutt lýsing á gangi mála við umbreytingu sparisjóðs í hlutafélag:
     1.      Stjórn sparisjóðs tekur ákvörðun um að stefna að breytingu sparisjóðsins í hlutafélag.
     2.      Stjórn sparisjóðs felur óháðum aðila að meta áætlað markaðsvirði sparisjóðsins.
     3.      Sparisjóðurinn stofnar hlutafélag til breytingar á sparisjóðnum með samruna.
     4.      Stjórnir sparisjóðsins og hlutafélagsins gera og undirrita samrunaáætlun og semja greinargerð með henni. Greinargerðinni fylgir sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur og upphafsefnahagsreikningur hlutafélagssparisjóðsins.
     5.      Matsmenn gera skýrslu um samrunaáætlunina.
     6.      Samrunaáætlunin og skýrsla matsmanna eru send til hlutafélagaskrár og tilkynning um móttöku þessara skjala birt í Lögbirtingablaðinu.
     7.      Sparisjóðurinn undirbýr stofnun sjálfseignarstofnunar sem verður eigandi þess hluta hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda.
     8.      Tillaga um breytingu sparisjóðsins í hlutafélag á grundvelli samrunaáætlunarinnar og niðurstöðu mats óháðs aðila um áætlað markaðsvirði sparisjóðsins (og þar með um hlutdeild stofnfjáreigenda í heildarhlutafé hlutafélagssparisjóðsins) er lögð fyrir fund stofnfjáreigenda. Fund þennan má í fyrsta lagi halda einum mánuði eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaðinu um móttöku samrunaáætlunar og skýrslu matsmanna.
     9.      Stjórn hlutafélagsins tekur ákvörðun um samruna sparisjóðsins við félagið.
     10.      Samþykkis viðskiptaráðherra leitað fyrir breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Viðskiptaráðherra óskar eftir umsögn Fjármálaeftirlitsins.
     11.      Hlutafélagaskrá tilkynntar ákvarðanir um samrunann.
    Rétt er að taka fram að ákvæði 4. gr. laga nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, gilda um samruna sparisjóðsins við hlutafélagið. Slit sparisjóðsins við samrunann hefur því ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir hlutafélagið og heldur ekki fyrir sparisjóðinn. Þá tekur hlutafélagið samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 65/1982 við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sparisjóðsins.
    Í 5. mgr. segir að við breytingu sparisjóðs í hlutafélag haldi starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu. Hlutafélagið tekur að sér allan rekstur sparisjóðsins og allar eignir hans og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Hér er því ekki um nýja starfsemi að ræða og ekki þörf á að veita starfsleyfi að nýju.
    Í 6. mgr. segir að ekki sé skylt að gefa út innköllun til lánardrottna og breytingin sé undanþegin stimpilgjöldum í veðmálabókum.
    Í 7. mgr. segir að undanþágur 7. gr. laganna frá kröfum um eigið fé gildi áfram eftir breytingu sparisjóðs í hlutafélag.
    Í 8. mgr. er kveðið á um að sparisjóði sem breytt er í hlutafélag sé auk orðsins ,,sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.
    Í 9. mgr. er tekið upp það ákvæði 2. mgr. 35. gr. laganna að einstökum hluthöfum sé óheimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Þetta er gert í því skyni að stuðla að dreifðri eignaraðild. Ákvæðið um hámarksatkvæðisrétt einstakra hluthafa girðir ekki fyrir að í samþykktum einstakra hlutafélagssparisjóða verði kveðið á um enn takmarkaðri atkvæðisrétt einstakra hluthafa. Í samþykktum einstakra hlutafélagssparisjóða er unnt að kveða nánar á um framkvæmd takmörkunarinnar, t.d. varðandi það hvort tengdir aðilar, samkvæmt nánari skilgreiningu í samþykktunum skuli teljast einn aðili.
    Í þessari málsgrein er einnig kveðið á um að sjálfseignarstofnunin geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Skal kveðið á um slíka undanþágu frá meginreglunni í samþykktum hlutafélagsins. Sjálfseignarstofnunin mun í upphafi eiga mikinn meiri hluta í flestum ef ekki öllum sparisjóðum sem breyta sér í hlutafélag. Þykir óeðlilegt að hluthafi sem á mikinn meiri hluta hlutafjár njóti ekki atkvæðisréttar í samræmi við eign sína. Það er síðan sparisjóðum í sjálfsvald sett hvort þeir nýta þessa heimild. Þar eð sjálfseignarstofnunin sjálf er í flestum tilvikum ráðandi hluthafi er það í raun hún sem tekur ákvörðun um takmörkun á atkvæðisrétti. Hér verður að hafa í huga að megintilgangur hennar er að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Telja verður ólíklegt að áhugi fjárfesta á bréfum í sparisjóði verði mikill, eða að það myndist virkur markaður með bréf hans, hafi sjálfseignarstofnunin ekki hug á að draga úr vægi sínu við stjórn sparisjóðsins. Þannig er hvati fyrir sjálfseignarstofnanir að minnka hlut sinn því annars nýtast ekki kostir hlutafélagsformsins til fulls. Á stofnfundi, þar sem atkvæði eru greidd um drög að samþykktum, skal sjálfseignarstofnunin greiða atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.
    Í 10. mgr. er kveðið á um að ákvæði laganna um hlutafélagsbanka auk ákvæða laga um hlutafélög skuli gilda eftir því sem við getur átt um sparisjóði sem breyta sér í hlutafélög.
    Um b-lið (37. gr. B).
    Í þessari grein eru ákvæði um sjálfseignarstofnunina sem eignast það hlutafé sparisjóðs sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til. Um hana skulu gilda ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur að öðru leyti en því sem kveðið er á um í þessari grein.
    Í lögum nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, segir í 3. gr. að sjálfseignarstofnun teljist stunda atvinnurekstur ef hún a) hefur tekjur af sölu á vörum og þjónustu og því um líku eða stundar starfsemi sem er í meginatriðum hliðstæð starfsemi annarra félaga eða einstaklinga í atvinnurekstri; b) fer með meiri hluta atkvæða í hlutafélagi eða einkahlutafélagi eða öðrum félögum sem fer með öðrum hætti með sambærileg yfirráð. Ganga má út frá því að sjálfseignarstofnanir þær sem stofnaðar væru við breytingu sparisjóðs í hlutafélag mundu allar eða nær allar uppfylla skilyrði b-liðar við upphaf starfseminnar. Til að taka af allan vafa um það hvort ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eigi við, og til að allar sjálfseignarstofnanir sem stofnaðar eru í þessu skyni lúti sams konar reglum, er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um að þær lúti ætíð ákvæðum téðra laga.
    Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Að lokum renna þó allar eignir hennar til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Hlutverki sínu sinnir sjálfseignarstofnunin fyrst og fremst með því að annast hlut sinn í viðkomandi sparisjóði og ráðstafa mótteknum arði. Þrátt fyrir þetta er mögulegt að sjálfseignarstofnunin stuðli best að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins með því að selja hluta af eign sinni í sparisjóðnum, sér í lagi ef hlutur hennar í sparisjóðnum er yfirgnæfandi. Sjálfseignarstofnunin gæti einnig aukið hlut sinn í sparisjóði eftir sölu fyrir það söluandvirði bréfa sem ekki var úthlutað strax til menningar- og líknarmála. Við sameiningu sparisjóðs við annað fjármálafyrirtæki er við það miðað að sjálfseignarstofnunin eignist hlut í hinu nýja fyrirtæki og haldi starfsemi sinni áfram nema ákvörðun verði tekin um slit.
    Ekki er hægt að segja til um hver sé eðlilegur hlutur sjálfseignarstofnunar í sparisjóði eða hvort eðlilegt sé að sjálfseignarstofnun muni eiga í sparisjóði til allrar framtíðar. Minnkun eignarhlutar sjálfseignarstofnunar getur gerst með því að sjálfseignarstofnunin taki ekki þátt í útboðum á nýju hlutafé, með samruna eða með sölu á hluta af eignarhlut. Telja verður að í flestum tilvikum verði talið nauðsynlegt að sjálfseignarstofnun minnki eignarhlut sinn í sparisjóðum, enda ekki líklegt að kostir hlutafélagsformsins nýtist til fulls ef sjálfseignarstofnunin hefur í hyggju að viðhalda ráðandi eignarhlut í sparisjóði.
    Af 10.–12. gr. laganna, sbr. 14. gr., leiðir að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með hæfi sjálfseignarstofnunar til að fara með hlut í sparisjóði sé eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar virkur í skilningi laganna. Um eftirlit með sjálfseignarstofnunum fer að öðru leyti eftir lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Í frumvarpinu er ekki gerð tilraun til að kveða með afgerandi hætti á um fjárfestingarstefnu sjálfseignarstofnunarinnar, að öðru leyti en því sem leiðir af megintilgangi hennar. Ástæðan er sú að ekki er líklegt að hægt sé að taka með tæmandi hætti í löggjöf á öllum þeim tilvikum sem upp kunna að koma á starfstíma sjálfseignarstofnunar.
    Sá megintilgangur sjálfseignarstofnunar að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins setur starfsemi hennar ramma. Telja verður að hún sinni þessu hlutverki sínu best með eignarhlut í sparisjóði. Stór hluti efnahagsreiknings sjálfseignarstofnunar hlýtur því ætíð að vera hlutafjáreign hennar í sparisjóði.
    Sjálfseignarstofnunin á ekki að vera fjárfestingarfélag sem fæst við virkar fjárfestingar í mismunandi félögum, enda tilgangur hennar annar. Sá hluti söluandvirðis eða arðgreiðslna sem ekki renna til líknar- og menningarmála samkvæmt ákvörðun stjórnar er þó nauðsynlegt að endurfjárfesta. Sem almenna leiðbeiningu um slíkar fjárfestingar má nefna að eðlilegt er að sjálfseignarstofnun fjárfesti í auðseljanlegum eignum, svo sem sjóðum um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eða í skuldabréfum og hlutabréfum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði, þó þannig að sjálfseignarstofnunin eignist ekki það stóran hlut að hún hafi með fjárfestingu sinni áhrif á stjórn viðkomandi útgefanda.
    Andvirði greidds arðs til sjálfseignarstofnunar er hægt að ráðstafa með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er hægt að endurfjárfesta með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði. Í öðru lagi getur sjálfseignarstofnunin ávaxtað laust fé, t.d. í innlánum eða markaðsverðbréfum, sbr. umfjöllun hér á undan. Í þriðja lagi getur hún ráðstafað andvirði móttekins arðs til menningar- og líknarmála.
    Í 2. mgr. segir að í stjórn sjálfseignarstofnunar skulu eiga sæti fæst fimm menn úr fulltrúaráðinu. Þetta er frávik frá lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur þar sem fæst þrír menn skulu sitja í stjórn. Talið er mikilvægt að fleiri en þrír menn komi að stjórnun jafnmikils fjár og sjálfseignarstofnanir sem hér um ræðir hafa umleikis.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hvernig kjósa skuli í stjórn sjálfseignarstofnana. Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar skal velja stjórnarmenn úr sínum hópi. Í fulltrúaráði skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag. Vakin skal athygli á því að af 1. mgr. 16. gr., sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur leiðir að fulltrúaráðsmaður getur hvenær sem er sagt sig úr fulltrúaráðinu. Fulltrúaráðsmenn mega ekki vera færri en þrjátíu. Talið er að þeir einstaklingar sem hafa lagt sparisjóðnum til fé í gegnum tíðina í formi stofnfjár, og þannig tekið þátt í uppbyggingu hans, séu best til þess fallnir að stýra sjálfseignarstofnun sem hefur þann megintilgang að stuðla að viðgangi sparisjóðsins og og vexti í starfsemi hans. Stofnfjáreigendurnir sem mynda fulltrúaráðið hafa þó engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í sjálfseignarstofnuninni, enda er úthlutun fjárins eingöngu til almannaheilla.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvernig ráðstafa skuli hagnaði og úthlutuðum fjármunum. Í gildandi samþykktum sparisjóða er kveðið á um að eignum sparisjóðsins, sem eftir kunna að vera við slit hans eftir að skuldir hafa verið greiddar og stofnfjáreigendum greiddur eignarhlutur þeirra, skuli ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Hér er því í reynd verið að kveða á um að þessi skipan skuli haldast þrátt fyrir breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Orðalag greinarinnar þýðir þó ekki að sjálfseignarstofnanir geti ekki endurfjárfest arðgreiðslur með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði eða fjárfest í öðrum markaðsverðbréfum, sbr. umfjöllun hér að framan, heldur að úthlutun af fjármunum hennar eða ráðstöfun eigna við slit verður að vera til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs við breytingu hans í hlutafélag. Með fjármunum sjálfseignarstofnunar er átt við upphafseign hennar, þ.e. hlutafjáreign í sparisjóði, og uppsafnaðan hagnað. Í þessari málsgrein er jafnframt kveðið á um undanþágu sjálfseignarstofnunar frá tekjuskatti og eignarskatti.
    

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um ráðstöfun hagnaðar og ákvörðun arðs í sparisjóðum sem ekki breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari kosti á fjármagnsmarkaði. Breyting í þá átt var síðast gerð árið 1993. Þá var við ákvörðun um greiðslu arðs felld niður viðmiðun við bestu innlánskjör í sparisjóði á hverjum tíma en lagt í vald aðalfundar að ákveða arðgreiðsluna.
    Eina breytingin í 1. tölul. greinarinnar er að lagt er til að heimilt verði að greiða arð þótt tap sé af rekstri sparisjóðs. Arðgreiðslan takmarkast þó af ákvörðun öryggissjóðs. Í 1. tölul. er, eins og í gildandi lögum, kveðið á um að aðalfundur geti ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð og öryggissjóður ákveði hámarkshlutfall arðgreiðslu. Í greininni er kveðið á um öryggissjóð samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í stað Tryggingasjóðs sparisjóða. Tilvísanir í Tryggingasjóð sparisjóða hafa verið teknar út úr lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að frátaldri þessari í 59. gr. Með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, var X. kafli laga um viðskiptabanka og sparisjóði felldur úr gildi. Tryggingasjóður sparisjóða er enn þá starfandi en nú sem öryggissjóður skv. 19. gr. laga nr. 98/1999. Ákvörðun Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu er eins konar öryggisventill fyrir sjóðinn enda hefur hann verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla arðs tefli ekki hag einstakra sparisjóða í tvísýnu.
    Í 2. tölul. er nýmæli. Í því skyni að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti er lagt til að heimilt sé að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins þó þannig að hækkun stofnfjár verði aldrei meiri en 5% á ári. Þessi hækkun á stofnfé kemur til viðbótar endurmati skv. 23. gr. laganna. Þessari breytingu er ætlað að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki áhuga á að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti með því að auka arðsvon stofnfjáreigenda.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Bráðabirgðaákvæði þetta kemur til vegna væntanlegrar sameiningar fjögurra sparisjóða á Vestfjörðum í Sparisjóð Vestfjarða. Ákvæði þetta gerir það að verkum að möguleiki er á að fjórar sjálfseignarstofnanir geti orðið hluthafar í Sparisjóði Vestfjarða, kjósi sjóðurinn að breyta sér í hlutafélag.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996,
um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila stofnfjáreigendum sjóða að breyta sparisjóði í hlutafélag. Skal þá stofnfjárframlag breytast í hlutafé, en það nemur að meðaltali 14,1% af eigin fé sparisjóða. Það sem eftir stendur, að meðaltali 85,9% af eigin fé, skal vera eign sjálfseignarstofnunar sem hefur það að markmiði að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi viðkomandi sparisjóðs. Þessar sjálfseignarstofnanir eru undanþegnar tekju- og eignarsköttum. Við slit þeirra skal fjármununum varið til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.