Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 879  —  570. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ferðasjóð íþróttafélaga.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkenndum mótum. Úthlutun skal fara eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari er gert ráð fyrir að árlega verði veitt af fjárlögum upphæð í sérstakan ferðasjóð íþróttafélaga. Gert er ráð fyrir að íþróttafélög geti sótt um ferðastyrki í sjóðinn til að mæta kostnaði við að senda keppnislið á milli byggðarlaga til þátttöku í íþróttamótum. Drjúgur þáttur í rekstri einstakra íþróttadeilda er fjármögnun keppnisferða vegna viðurkenndra móta, svo sem Íslandsmóts og bikarkeppni. Félögin standa misvel að vígi hvað þennan kostnaðarlið varðar. Sem dæmi má nefna þátttöku keppnisliða frá Ísafirði í úrvalsdeild körfuknattleiks, þátttöku knattspyrnu- og handknattleiksliða frá Vestmannaeyjum, blakliða af Austurlandi og knattspyrnu-, körfuknattleiks- og handknattleiksliða frá Sauðárkróki og Akureyri. Í einstökum flokkum getur verið um að ræða fjölda ferða utan af landi til höfuðborgarsvæðisins þar sem flest keppnislið í viðkomandi flokkum eru. Lið á suðvesturhorninu þurfa reyndar einnig að leggja í kostnað vegna keppnisferða út á land en í sumum tilvikum getur verið um eina ferð á keppnistímabili að ræða fyrir höfuðborgarlið á móti jafnvel tíu ferðum sama keppnisflokks af landsbyggðinni. Þetta leiðir til þess að einstök íþróttafélög eru að kikna undan kostnaði og kemur það niður á öllu íþróttastarfi.
    Íþróttaástundun er hverju byggðarlagi afskaplega mikilvæg. Um er að ræða eina mestu forvörn fyrir ungt fólk. Að auki eiga keppnislið einstakra sveitarfélaga drjúgan þátt í að efla samkennd og samstöðu íbúa sveitarfélaganna. Íþróttamannvirkjum hefur fjölgað ört á þéttbýlisstöðum á landinu og möguleikar til íþróttaiðkunar eru víða afskaplega góðir. Það eykur mjög áhuga iðkenda ef þeir eiga kost á því að taka þátt í t.d. Íslandsmóti viðkomandi íþróttagreinar. Augljóslega leggst ferðakostnaðurinn þyngra á sum íþróttafélög en önnur af landfræðilegum ástæðum.
    Ferðasjóði íþróttafélaga er ætlað að jafna þennan aðstöðumun og stuðla þannig að öflugra íþróttastarfi í landinu. Hér er um eðlilega jöfnunaraðgerð að ræða. Menntamálaráðherra er ætlað að setja sérstakar reglur um úthlutun úr sjóðnum. Benda má á að í slíkum reglum mætti gera ráð fyrir fastri upphæð fyrir hvern keppnismann liðs í viðurkenndum mótum, svo sem Íslandsmóti og bikarkeppni á vegum viðkomandi sérsambanda.