Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 886  —  541. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóri Haraldsson og Guðríði Þorsteinsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Ólafsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Bjarneyju Friðriksdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Elsu S. Þorkelsdóttur lögfræðing.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar er lúta að rétti ellilífeyrisþega til tekjutryggingar. Forsaga þessa frumvarps er sú að 19. desember 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í málinu nr. 125/2000: Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök. Ekki var litið svo á að sá dómur ætti beint við um ellilífeyrisþega og í samræmi við það tóku lög nr. 3/2001 sem Alþingi setti í kjölfarið til að fullnægja dómi Hæstaréttar ekki til þeirra.
    Frumvarp þetta kveður á um að ellilífeyrisþegum verði tryggð sömu réttindi og örorkulífeyrisþegum voru tryggð með lögum nr. 3/2001. Meiri hlutinn er sammála þeirri afstöðu sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að til framtíðar eigi sömu efnisrök við um réttindi ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega að þessu leyti.
    Í máli fulltrúa Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík kom fram að samráð hefði verið haft við þá áður en frumvarpið var lagt fram og jafnframt að frumvarpið fæli í sér skref í rétta átt til að bæta kjör ellilífeyrisþega.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Breytingin felst í eftirfarandi:
    Lagt er til að orðalagi ákvæðis III til bráðabirgða verði breytt þannig að ekki fari á milli mála að þeir sem ekki hafa sótt um tekjutryggingu en eiga rétt á henni skv. 1. gr. laganna geti sótt um hana sér til handa og eigi þá sama rétt og aðrir sem réttar munu njóta samkvæmt lögunum.

Alþingi, 15. mars 2001.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Jón Kristjánsson.Sigríður A. Þórðardóttir.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.