Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 901  —  420. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um kostnað við að skýra hæstaréttardóma.

    Litið er svo til að átt sé við kostnað sem stofnað var til við öflun sérfræðiaðstoðar til að meta áhrif tilvitnaðra dóma og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar. Upplýsinga vegna dóms um veiðileyfi var aflað hjá sjávarútvegsráðuneytinu.

     1.      Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs við:
                  a.      störf lögfræðinganefndar sem skipuð var í kjölfar öryrkjadómsins í desember sl.,
                  b.      sérfræðiaðstoð við að meta dóm Hæstaréttar frá desember 1998 um stjórn fiskveiða og gera breytingar á þágildandi lögum í tilefni dómsins?
    Svar við a-lið er 1.332.780 kr., auk virðisaukaskatts. Svar við b-lið er 825.000 kr., auk virðisaukaskatts.

     2.      Hvernig skiptust launin og hve mikið kom í hlut hvers:
                  a.      annars vegar milli nefndarmanna og hins vegar milli starfsmanna nefndarinnar um öryrkjadóminn,
                  b.      fyrir sérfræðiaðstoð við að meta dóm Hæstaréttar um stjórn fiskveiða?

    Alþingi hefur sett upplýsingalög, nr. 50/1996, sem hafa að meginreglu að tryggja almenningi aðgang að hvers kyns upplýsingum í vörslu stjórnvalda. Almennt er þó viðurkennt að tiltekna hagsmuni beri að verja fyrir óheftum aðgangi almennings, þar á meðal einkahagsmuni einstaklinga. Þótt Alþingi sé ekki á gildissviði þessara laga, né stofnanir er undir það heyra, eru skrifleg svör við fyrirspurnum frá þinginu lögð þar fram og prentuð í Alþingistíðindum, sem allir hafa aðgang að. Eftir atvikum þykir því eðlilegt að leyst sé úr beiðni um aðgang að upplýsingum frá Alþingi á grundvelli sömu sjónarmiða um einkalífsvernd og fyrrnefnd lög byggjast á, sér í lagi að því er varðar upplýsingar er kunna að vera undirorpnar þagnarskyldu á grundvelli þeirra og kann þannig að varða við almenn hegningarlög að veita aðgang að þeim.
    Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt þykir og eðlilegt að leynt fari. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur á grundvelli lögskýringargagna ítrekað skýrt þetta ákvæði með tilliti til launa fyrir störf í þágu hins opinbera. Samkvæmt þeim fordæmum sem úrskurðir hennar veita eru upplýsingar um hvers kyns laun fyrir tiltekin störf, sem ekki teljast til fastra launa eða annarra fastra kjara, t.d. greiðslur fyrir mælda yfirvinnu eða önnur sérstök störf, ótvírætt undanþegnar aðgangi með tilliti til einkahagsmuna þess er veitir greiðslunum viðtöku. Af því leiðir jafnframt að stjórnvöld eru gagnvart öðrum en þeim sem upplýsingarnar varða bundin þagnarskyldu, nema annað leiði ótvírætt af lögum.
    Að þessu virtu þykir ekki unnt að veita upplýsingar um hvernig kostnaður af framangreindum nefndarstörfum skiptist á milli einstakra launamanna.

     3.      Hver var heildarfjöldi vinnustunda við:
                  a.      nefndarstarfið út af öryrkjadóminum, annars vegar hjá nefndarmönnum og hins vegar hjá starfsmönnum nefndarinnar, og hve marga fundi hélt nefndin,
                  b.      sérfræðiaðstoð við að meta dóm Hæstaréttar um stjórn fiskveiða?
    Svar við a-lið er að heildarfjöldi greiddra stunda var samtals 203 stundir og svar við b-lið er að heildarfjöldi greiddra stunda var samtals 165 stundir.
                                  
     4.      Hver tók ákvörðun um fjárhæð greiðslna skv. 2. lið? Hvaða reglur gilda almennt um greiðslur fyrir nefndarstörf á vegum ráðuneyta fyrir:
                  a.      nefndarmenn eða sérfræðinga innan ráðuneyta,
                  b.      sérfræðinga utan ráðuneyta?
    Sérfræðingum innan ráðuneytis er ekki greidd þóknun fyrir störf í nefndum nema þegar nefndarstarf er ekki innan skilgreinds verksviðs viðkomandi starfsmanns, en þá er leitað umsagnar þóknananefndar eða ákvörðun um þóknun tekin af ráðuneytisstjóra.
    Greiðsla til sérfræðinga utan ráðuneytis greiðist samkvæmt taxta viðkomandi sérfræðings eða samkvæmt fyrirframákveðnu samkomulagi nema þegar um hefðbundin stjórnar- eða nefndarstörf er að ræða, en þá er jafnan leitað umsagnar þóknananefndar.