Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 932  —  589. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta í Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Austur-Skaftafellssýslu og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hingað til hafa engin lög fjallað um skógrækt í Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu. Lagt er til með lagabreytingunni að Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu verði bætt inn í verkefni Suðurlandsskóga.
    Rétt þykir að gera nokkuð ítarlega grein fyrir þeirri lagabreytingu sem hér er gerð tillaga um, þar sem almennur áhugi á skógrækt hefur mikið verið til umræðu í þjóðfélaginu og málaflokkurinn hlotið veglegt brautargengi af hálfu Alþingis.
    Upphaf nytjaskógræktar á Íslandi má rekja til ársins 1969 er Alþingi samþykkti að veita fjármagn til svokallaðrar Fljótsdalsáætlunar og voru fyrstu plönturnar gróðursettar 1970. Þar með var grunnur lagður að ræktun timburskóga í eigu einstaklinga með það að markmiði að skógurinn yrði ný auðlind bænda sem skilaði arði.
    Árið 1991 samþykkti svo Alþingi lög um Héraðsskóga sem eru í reynd fyrsta landshlutabundna verkefnið. Hinn mikli jákvæði árangur af því verkefni leiddi til þess að sett voru lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997. Í þeim er kveðið á um að vettvangur Suðurlandsskóga sé Suðurlandskjördæmi, nánar tiltekið Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla.
    Með samþykkt laga um Suðurlandsskóga var ljóst að áfram yrði knúið á frá öðrum landshlutum um stofnun sjálfstæðra verkefna og í stað þess að sérlög giltu um hvert og eitt þeirra varð niðurstaðan sú að samþykkja ein lög, nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni. Þar er kveðið á um heimild ráðherra til að stofna til sérstakra sjálfstæðra landshlutaverkefna í skógrækt að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins. Í lögunum er kveðið á um að verkefnin fái framlög til skógræktar á tilteknu landsvæði. Í framhaldi af þessum lögum voru stofnuð þrjú verkefni, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum og Norðurlandsskógar, sem ná til austurs að sýslumörkum Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu. Þar með má segja að landshlutabundin skógrækt næði til alls landsins nema Austfjarðakjördæmis, að undanskildu starfssvæði Héraðsskóga, og Gullbringusýslu. Að vilja íbúa á Austurlandi hefur landbúnaðarráðherra samkvæmt lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni gert samning við Héraðsskóga þess efnis að Múlasýslur falli undir Héraðsskóga þannig að verkefni þeirra nær nú yfir Austurland, þ.e. Múlasýslurnar tvær.
    Á sama tíma hafa komið fram óskir um að Austur-Skaftafellssýsla og Gullbringusýsla falli undir starfssvæði Suðurlandsskóga og samræmist það nýrri kjördæmaskipan. Til að svo megi verða þarf að breyta lögum um Suðurlandsskóga í þá veru sem hér er lagt til.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga.

    Tilgangur frumvarpsins er að víkka út það svæði sem fellur undir Suðurlandsskóga, en eftir breytingarnar stækkar svæðið sem nemur Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu. Í fjárlögum 2001 var gert ráð fyrir 69,2 m.kr. vegna verkefnisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.