Ferill 591. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 934  —  591. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Í stað „89/48/EBE eða 92/51/EBE“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: 89/48/EBE, 92/51/EBE eða 1999/42/EB.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er unnið á vegum menntamálaráðuneytisins og miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/42/EB um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi.
    Tilskipunin var samþykkt í júní 1999 og á að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjunum fyrir 31. júlí 2001.
    Með samþykkt þessarar nýju tilskipunar eru margar eldri tilskipanir felldar úr gildi og ákvæði þeirra sameinuð í þessari einu tilskipun. Kerfi tilskipana um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og starfsréttindum er með þessu einfaldað verulega. Flest ákvæði tilskipunarinnar eru þegar í gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákveðinn hópur fólks sem hefur menntun og starfsþjálfun á þeim sviðum sem tilskipunin tekur til var þó þannig settur að hann hafði engan viðurkenndan rétt til að fá menntun sína og starfsþjálfun viðurkennda. Í tilskipuninni eru sett ákvæði sem bæta úr þessu.
    Tilskipunum sem felldar voru úr gildi má skipta í tvo meginflokka. Annars vegar eru tilskipanir sem hafa að geyma bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á tilteknu starfssviði. Í þessum tilskipunum er m.a. að finna ákvæði um þau skilyrði sem fullnægja þarf varðandi starfsreynslu og starfsþjálfun. Hins vegar eru tilskipanir sem hafa að geyma ákvæði um hvernig komið skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á tilteknu sviði. Þessar tilskipanir hafa að geyma ákvæði um höft sem aðildarríkin skulu afnema til þess að einstaklingar geti notið þess réttar sem hér um ræðir.
    Meðan tilskipunin var í undirbúningi var haft víðtækt samráð við helstu fagsambönd í Evrópu sem hlut eiga að máli og náðist samstaða um að breyta ekki ákvæðum eldri tilskipana um skilyrði sem þarf að fullnægja til að geta lagt stund á tiltekið starf í öðru ríki. Með þessum skilyrðum eru ekki gerðar miklar kröfur um menntun á viðkomandi sviði en þeim mun meiri til starfsþjálfunar og starfsreynslu. Fjölmörg störf sem tilskipunin tekur til eiga ekki við hér á landi.
    Þær tilskipanir sem felldar voru úr gildi með samþykkt tilskipunar 1999/42/EB voru á sínum tíma felldar inn í íslenskt lagakerfi af viðkomandi ráðuneytum þannig að hvað ákvæði þeirra varðar ætti að vera tiltölulega einfalt að gera viðeigandi breytingar vegna tilskipunar 1999/42/EB, e.t.v. nægir að breyta viðkomandi reglugerðum.
    Sem dæmi um störf sem falla undir þessa nýju tilskipun má nefna löggilt störf á eftirtöldum sviðum:
    —    Framleiðsla skófatnaðar, fatnaðar og sængurfatnaðar.
    —    Framleiðsla úr viði og korki.
    —    Leðuriðnaður.
    —    Framleiðsla málmvara.
    —    Raftækniiðnaður.
    —    Byggingar.
    —    Þjónusta á hárgreiðslustofum.
    —    Fasteignaviðskipti.
    Aðrar tilskipanir um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum eru:
    —    Sérstakar tilskipanir um eftirtaldar starfsstéttir: lækna, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, dýralækna, ljósmæður, lyfjafræðinga og arkitekta.
    —    Tilskipun 89/48/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár.
    —    Tilskipun 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE.
    Með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, var menntamálaráðuneytinu falið að samræma framkvæmd tilskipunar 89/48/EBE hér á landi og með lögum nr. 76/1994, um breyting á lögum nr. 83/1993, var menntamálaráðuneytinu einnig falið að sjá um og samræma framkvæmd tilskipunar 92/51/EBE. Einstök ráðuneyti sjá hins vegar um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum á þeim starfssviðum sem undir þau falla. Er þessi tilhögun í samræmi við ákvæði sem birt eru í nefndum tilskipunum. Gert er ráð fyrir hliðstæðu fyrirkomulagi hvað varðar tilskipun 1999/42/EB.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993,
um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

    Tilgangur frumvarpsins er að koma í framkvæmd tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/42/EB um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi.
    Að mati fjármálaráðuneytisins leiðir frumvarpið ekki til breytinga á útgjöldum ríkissjóðs verði það að lögum.