Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 936  —  534. mál.




Svar


menntamálaráðherra við fyrirspurn Einars Más Sigurðarsonar og Sigríðar Jóhannesdóttur um tilraunir á grunnskólastigi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Í hverju eru þær tilraunir á grunnskólastigi fólgnar sem heimilaðar hafa verið skv.
     a.      65. gr. laga nr. 63/1974,
     b.      70. gr. laga nr. 49/1991,
     c.      53. gr. laga nr. 66/1995?


    Grein um tilraunaskóla eða tilraunir á grunnskólastigi hefur verið í grunnskólalögum allt frá 1974. Hún hljóðar svo í núgildandi grunnskólalögum, nr. 66/1995:

„53. gr.

    Menntamálaráðherra getur, með samþykki sveitarstjórnar, haft forgöngu um þróunar- og tilraunastarf í grunnskólum. Einnig getur hann veitt sveitarfélögum og einkaskólum heimild til að reka tilraunaskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða. Slík undanþága getur t.d. varðað nám, starfstíma skóla, kennslutilhögun, stundafjölda o.s.frv., enda brjóti slíkar undanþágur ekki í bága við 2. gr. þessara laga eða þrengi hlutverk grunnskóla frá því sem þar er gert ráð fyrir.
    Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.
    Menntamálaráðherra er heimilt að styrkja tilraunaskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.“
    Ekki er að sjá á gögnum sem eru varðveitt í skjalasafni ráðuneytisins og Þjóðskjalasafns að þessi grein hafi mikið verið notuð til að heimila tilrauna- og þróunarstarf í skólum á framangreindu tímabili, þ.e. frá setningu grunnskólalaganna 1974 til dagsins í dag. Engu að síður hefur margháttað þróunar- og tilraunastarf farið fram í grunnskólum á þessum tíma.
    Sérstakur Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands var rekinn samkvæmt lögum um Kennaraháskóla Íslands allt frá árinu 1971. Skólinn hafði sérstöku hlutverki að gegna hvað varðar æfingakennslu og þróunarstarf á vegum ríkisins allt þar til flutningur grunnskólans kom til árið 1996. Í lögum um Kennaraháskóla Íslands frá 1971 segir að Æfinga- og tilraunaskólinn skuli hafa með höndum uppeldisfræðilegar athuganir og tilraunir eftir því sem við verður komið. Æfinga- og tilraunaskólinn var því rekinn á grundvelli laga og reglugerða um Kennaraháskóla Íslands og tilraunastarf sem fram fór í skólanum var ekki byggt á þeim ákvæðum grunnskólalaga sem fyrirspurnin lýtur að. Fyrir liggja ýmsar skýrslur um þróunar- og tilraunastarf í Æfingaskólanum, sem nú heitir Háteigsskóli.
    Í Fossvogsskóla fór einnig fram umtalsvert tilraunastarf með opinn skóla sem hófst 1972 og stóð það tilraunastarf yfir í allmörg ár. Fossvogsskóli var fyrsti skólinn sem hlaut viðurkenningu fræðsluyfirvalda sem tilraunaskóli skv. 65. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla. Það var af skólans hálfu að þess var óskað að fá að víkja frá hinum hefðbundnu reglum sem gilt höfðu um bekkjarstarf á grunnskólastigi. Var þá haft í huga að leggja meiri áherslu á einstaklingskennslu til að nemendum gæfist kostur á að haga námi sínu með þeim hraða sem best samræmdist hæfileikum hvers og eins. Menntamálaráðuneytið veitti Fossvogsskóla umbeðna heimild sumarið 1974, fyrst til þriggja ára, en tilraunatímabilið stóð lengur og 1980 var tilraunastarfið metið af menntamálaráðuneytinu. Í bréfi ráðuneytisins þar sem tilraunin er heimiluð kemur m.a. fram að ráðuneytið fái aðstöðu til þess að láta gera í skólanum tilraunir með nýtt námsefni og nýja kennsluhætti svo og aðrar athuganir eða kannanir sem það telur nauðsynlegar til eflingar skólastarfi í landinu. Síðar, skömmu fyrir 1990, var gerð tilraun í Fossvogsskóla með einsetinn skóla en þá þurfti skólinn ekki heimild samkvæmt framangreindum ákvæðum í grunnskólalögum til tilraunastarfsins. Fyrir liggja ýmsar skýrslur um tilraunastarf í Fossvogsskóla, t.d. skýrsla menntamálaráðuneytisins, skólarannsóknadeildar frá 1980: Um opinn skóla. Fossvogsskóli.
    Árið 1989 var formlega stofnaður Þróunarsjóður grunnskóla og samkvæmt grunnskólalögum skal veita árlega fé af fjárlögum til þróunarverkefna. Menntamálaráðherra veitir fé úr Þróunarsjóði grunnskóla til styrktar þróunarverkefnum í grunnskólum landsins. Með þróunarverkefnum er átt við nýjungar, tilraunir og nýbreytni í skipulagi náms, kennsluháttum, kennslu, námsgögnum, námsmati í grunnskólum og mati á skólastarfi. Þróunarsjóður grunnskóla hefur frá stofnun sjóðsins árlega styrkt milli 20–30 þróunarverkefni. Ekki hefur þótt ástæða til að nýta heimildarákvæði í grunnskólalögum skv. 53. gr. í tengslum við styrkt þróunarverkefni úr Þróunarsjóði grunnskóla, en slíkt hefur í nokkrum tilvikum komið til umræðu. Fyrir liggja í ráðuneytinu fjölmargar skýrslur um þróunarverkefni í grunnskólum sem styrkt hafa verið af Þróunarsjóði grunnskóla frá 1989. Einnig hafa árlega verið gefnar út samantektir um þróunarverkefnin og einnig er hægt að nálgast upplýsingar á heimasíðu ráðuneytisins um styrkt þróunarverkefni.
    Á síðari árum hafa sveitarfélög víða um land stofnað þróunarsjóði með það að markmiði að styrkja þróunar- og tilraunastarf í grunnskólum sveitarfélagsins. Ekki hefur þótt ástæða til þess að nýta 53. gr. grunnskólalaga vegna þeirra þróunarverkefna.