Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 937  —  504. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Frá sjávarútvegsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Tómas Örn Kristinsson frá Kvótaþingi og Kjartan Júlíusson og Gísla Rúnar Gíslason frá Fiskistofu.
    Í 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er kveðið á um sviptingu leyfa til veiða í atvinnuskyni vegna veiða umfram aflaheimildir. Við framkvæmd þessa ákvæðis hafa komið fram ýmsir annmarkar sem hafa í sumum tilvikum leitt til óeðlilegrar niðurstöðu fyrir útgerðir. Er að mati nefndarinnar nauðsynlegt að breyta ákvæðum gildandi laga á þann veg að framkvæmd Fiskistofu verði markvissari auk þess sem útgerðir fái eðlilegt svigrúm.
    Er í frumvarpinu lagt til að Fiskistofa skuli tilkynna útgerð og skipstjóra skips með símskeyti þegar hún telur að skipið hafi veitt umfram aflaheimildir sínar og að skipið verði svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Hefur viðkomandi útgerð þrjá daga til að verða sér úti um nægilegar aflaheimildir eða beita andmælarétti telji hún þær upplýsingar sem fram koma í tilkynningu Fiskistofu rangar. Jafnframt getur Fiskistofa veitt frekari frest sé ástæða til að ætla að um ranga skráningu afla eða aflaheimilda sé að ræða. Séu aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju.
    Með þessu móti fær útgerð skips ávallt nokkurt svigrúm til að laga stöðu sína þegar um umframafla er að ræða án þess að nauðsynlegu aðhaldi sé sleppt. Talsvert var um það rætt í nefndinni hvort framangreindur tímafrestur væri nægilegur fyrir útgerð skips til að laga aflastöðu skips ef því er að skipta. Í máli fulltrúa Kvótaþings kom fram að 75% viðskipta á Kvótaþingi færu fram samdægurs og á þriðja degi frá tilboðsgjöf hefðu tæplega 90% viðskipta átt sér stað. Með hliðsjón af framansögðu telur nefndin þann þriggja daga frest sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu fullnægjandi.
    Jafnframt vekur nefndin athygli á því að breyting sú sem boðuð er í frumvarpinu hefur í för með sér að ekki þarf skilyrðislaust að grípa til veiðileyfasviptingar skv. 15. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 3. gr., ef skip heldur til veiða með neikvæða aflaheimildastöðu. Í framkvæmd hafa slík tilvik haft í för með sér veiðileyfasviptingu án tillits til ásetnings eða gáleysis samkvæmt gildandi lagaákvæðum. Mætti beita 14. gr. laganna svo breyttri eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu í slíkum tilfellum ef ljóst þykir að um gáleysi er að ræða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

    Alþingi, 20. mars 2001.


Einar K. Guðfinnsson,

form., frsm.

Jóhann Ársælsson.

Árni R. Árnason.


Svanfríður Jónasdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.

Guðjón A. Kristjánsson.


Vilhjálmur Egilsson.

Hjálmar Árnason.