Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 940  —  449. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum (innlánsdeildir).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Jóhannes Sigurðsson hrl. og Geir Geirsson, löggiltan endurskoðanda. Þá bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, ríkisskattstjóra, Kaupfélagi Skagfirðinga, Verslunarráði Íslands og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Frumvarpið er endurflutt nánast óbreytt frá 125. löggjafarþingi, en þá var það ekki útrætt. Því er ætlað að bæta stöðu innlánsdeilda samvinnufélaga með því að styrkja eiginfjárhlutfall þeirra og tryggja virkara eftirlit en verið hefur.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um það hvort rekstur innlánsdeilda væri bundinn við samvinnufélög, þannig að eftir breytingu samvinnufélags í hlutafélag væri því óheimilt að reka innlánsdeild áfram. Í lögum um hlutafélög eru ekki ákvæði um heimild hlutafélags til að reka innlánsdeild, en í lögum um samvinnufélög er skýrt tekið fram að samvinnufélagi sé heimilt að starfrækja innlánsdeild. Meiri hlutinn lítur svo á að ekki hafi verið ætlunin að svipta samvinnufélög sem breytt er í hlutafélög rétti til að reka áfram innlánsdeildir og gerir breytingartillögu við frumvarpið þess efnis til að skera úr um allan vafa hvað þetta varðar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. efnismgr. 1. gr. bætist svohljóðandi málsliður: Hlutafélag, sem breytt hefur verið úr samvinnufélagi á grundvelli 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b, skal hafa sömu heimild og samvinnufélagið til að reka áfram innlánsdeild og skal í þessum rekstri hafa sömu réttarstöðu í íslenskri löggjöf og samvinnufélög eftir því sem við á.

    Kristinn H. Gunnarsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2001.


Vilhjálmur Egilsson,

form., frsm.

Einar K. Guðfinnsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.

Hjálmar Árnason.