Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 959  —  314. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á barnalögum, nr. 20 22. maí 1992.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Drífu Pálsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna.
    Umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, umboðsmanni barna, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Barnaverndarstofu, Barnaheill, áfengis- og vímuvarnaráði, Félagi íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana fyrir börn og unglinga, fjölskylduráði, dómstólaráði, laganefnd LMFÍ, Rauðakrosshúsinu og Félagi einstæðra foreldra.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að sýslumaður bjóði sérfræðiráðgjöf frá sérfræðingum í fjölskylduráðgjöf til lausnar ágreiningi um umgengni og forsjá barna. Barn, sem náð hefur 12 ára aldri, á samkvæmt frumvarpinu einnig rétt á slíkri ráðgjöf ef það þjónar hagsmunum þess. Í öðru lagi er lagt til að sýslumanni verði gert kleift að beita sektarúrræði til að knýja fram efndir vegna allra umgengnisúrskurða en ekki eingöngu þegar umgengnisforeldri á í hlut eins og nú er.
    Nefndin telur mikilvægt að farsæl lausn finnist á svo viðkvæmum og vandmeðförnum málum sem ágreiningsmál foreldra um forsjá og umgengni barna eru og að sú sérfræðiráðgjöf sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu muni stuðla að því. Nefndin leggur þó áherslu á að sýslumaður bindi sig ekki um of við aldursmarkið í frumvarpinu, 12 ár, heldur meti það sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig hvort barni sé boðin ráðgjöf og það mat fari bæði eftir aldri og þroska barnsins. Hvetur nefndin til þess að þetta verði skoðað enn frekar við væntanlega heildarendurskoðun laganna. Þá er það mat nefndarinnar að eðlilegt sé að sýslumaður geti beitt sektarúrræðum til að knýja fram efndir á umgengnisúrskurðum hver svo sem á í hlut. Mælir nefndin því með því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 3. gr. Í stað orðsins „apríl“ komi: júní.

    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi er samþykkur afgreiðslu málsins
    Ólafur Örn Haraldsson, Jónína Bjartmarz og Sverrir Hermannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.



Hjálmar Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.