Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1000  —  625. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 3. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er þó skylt að þinglýsa leigusamningi vegna íbúðar í eigu sveitarfélaga eða félaga sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga.

2. gr.

    1. tölul. 6. gr. laganna orðast svo: ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri.

3. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. um íbúðarhúsnæði hafa fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða rétt til húsaleigubóta. Undanþága þessi gildir einnig um námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum.

4. gr.

    Við 1. tölul. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er þó skylt að þinglýsa leigusamningi vegna íbúðar í eigu sveitarfélaga eða félaga sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á vegum félagsmálaráðuneytisins er starfandi samráðsnefnd um húsaleigubætur sem skipuð er fulltrúum félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk samráðsnefndarinnar er m.a. að fylgjast með framkvæmd laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Samráðsnefndin hefur leitað eftir athugasemdum við framkvæmd laganna hjá þeim starfsmönnum sveitarfélaga sem annast afgreiðslu húsaleigubóta og frá félagasamtökum sem starfa á sviði húsnæðismála sem rekstraraðilar eða hagsmunasamtök. Hinn 10. mars 2000 hélt samráðsnefndin málþing þar sem fjallað var um reynsluna af lögunum.

    Frumvarp þetta er byggt á tillögum sem samráðsnefnd um húsaleigubætur lagði fyrir félagsmálaráðherra með bréfi 21. nóvember 2000. Markmiðið með þeim tillögum var að lagfæra þau vandamál sem komið hafa fram við framkvæmd laga um húsaleigubætur, nr. 138/ 1997, og einnig að koma betur til móts við hópa sem búa við sérstakar aðstæður, svo sem fatlaða á sambýlum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, var sú breyting gerð að þeir sem bjuggu í félagslegu húsnæði sveitarfélaga gátu sótt um húsaleigubætur. Með 1. og 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög og leigjendur þeirra verði leyst undan skyldu til þinglýsingar á leigusamningum. Hér er um að ræða leiguíbúðir sem eru í eigu sveitarfélaga. Sveitarfélögin sjálf greiða út húsaleigubætur. Stundum er það jafnvel sama stofnunin, þ.e. félagsmálastofnun eða félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélags, sem sér um úthlutun íbúðanna og afgreiðslu húsaleigubóta. Tilgangurinn með skilyrði um þinglýsingu var sá að stuðla að því að vandað yrði til leigusamninga og að koma í veg fyrir málamyndagerninga. Sveitarfélög eru í þessu tilviki í senn leigusalar og greiðendur húsaleigubóta. Þykir því óþarft að þinglýsa leigusamningum vegna leiguíbúða sveitarfélaga. Vegna þessa hefur komið fram sú ósk frá sveitarfélögum að afnumin verði sú skylda að þinglýsa verði leigusamningum vegna útleigu íbúða sem eru í eigu sveitarfélaga. Slíkt fyrirkomulag mundi einfalda ferlið á útleigu þessara íbúða.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að áhrif skyldleikatengsla verði þrengd. Komið hefur fram mikil gagnrýni á þá ákvörðun að rýmka áhrif skyldleikatengsla með lögunum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þannig að bannið tæki til allra íbúða sem eru í eigu skyldmenna eða tengdra, óháð því hvort leigusali og leigutaki búi í sama húsnæði. Ákvæði eldri laga, nr. 100/1994, gerðu greinarmun á því hvort leigusali byggi í sama húsi og leigutaki eða annars staðar. Sérstaklega kemur óhagræði í ljós vegna þessa þegar sífellt verður erfiðara að fá leiguíbúðir og leiga á almennum leigumarkaði hækkar. Starfsmenn sveitarfélaga sem annast afgreiðslu húsaleigubóta hafa gagnrýnt þetta ákvæði og telja það oft koma illa niður á ungu og efnaminna fólki. Talið er að vægi skyldleikatengsla varðandi leigufjárhæð sé minna þegar leiguhúsnæðið er annað en það sem leigusali býr sjálfur í. Vegna þessa er lagt til að ákvæði 6. gr. laga nr. 138/1997 varðandi skyldleikatengsl milli leigjanda og leigusala verði fært til fyrra horfs, það er eins og 7. gr. laga nr. 100/1994 hljóðaði áður.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að réttur til húsaleigubóta verði rýmkaður. Fram hafa komið ábendingar um nauðsyn þess að bæta rétt þeirra sem búa í samnýttu húsnæði, t.d. öryrkja sem búa á sambýlum. Markmiðið með þessu ákvæði er að bæta rétt öryrkja sem búa á sambýlum þar sem hluti rýmisins er sameiginlegur, svo sem eldunaraðstaða. Í skýrslu kostnaðarnefndar vegna tilflutnings þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga, frá október 2000, kemur m.a. eftirfarandi fram: „Kostnaðarnefnd gengur út frá því að íbúar hvers sambýlis muni njóta húsaleigubóta sem einstaklingar en ekki sem hópur eins og verið hefur og miða áætlanir um auknar leigugreiðslur við það. Aukakostnaður vegna þessa er áætlaður um 40 m.kr.“
    Lagt er til að stúdentar sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi eigi einnig rétt til húsaleigubóta. Rétt þykir að láta undanþágu þessa taka til námsmanna á framhalds- og háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum. Í þessum tilvikum telst aðstaða þeirra „íbúðarhúsnæði“. Ástæða þessa er að félagslegar aðstæður þeirra kalla á slíkt fyrirkomulag.

Um 4. gr.


    Greinin er sama efnis og 1. gr. frumvarpsins. Um skýringar vísast í athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki verði skylt að þinglýsa leigusamningi vegna íbúðar í eigu sveitarfélags eða félaga í þeirra eigu. Einnig er lagt til að áhrif skyldleikatengsla leigusala og leigutaka verði þrengd og mun réttur leigutaka til húsaleigubóta aðeins falla niður ef leigusali er skyldmenni sem býr í sama húsnæði og leigutaki. Ekki er unnt að meta að hve miklu leyti bótaþegum muni fjölga við þessa breytingu.
    Þá er lagt til að fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða hafi rétt til húsaleigubóta, svo og námsmenn á framhalds- og háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum. Verði frumvarpið að lögum munu fatlaðir á sambýlum eiga rétt á húsaleigubótum en Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur til þessa að verulegu leyti staðið undir þeim kostnaði ásamt leigutekjum. Með samþykkt frumvarpsins má því gera ráð fyrir að húsaleigubætur ásamt leigutekjum standi að mestu undir rekstri húsnæðisins. Gera má ráð fyrir að auknar húsleigubætur til fatlaðra geti verið á bilinu 30–35 m.kr. á ári. Nokkur óvissa er um áhrif frumvarpsins á húsaleigubætur til námsmanna á framhalds- og háskólastigi en gera má ráð fyrir að þær gætu numið um 14–16 m.kr. á ári. Samtals aukast því húsaleigubætur sveitarfélaga um 44–51 m.kr. á ári verði frumvarpið að lögum. Samkvæmt samningi milli ríkis og sveitarfélaga greiðir ríkissjóður árlega framlag til jöfnunar húsaleigubóta í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og nemur það 306 m.kr. árið 2001. Ekki liggur fyrir endanlegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig auknum kostnaði af frumvarpinu verður mætt.