Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1012  —  635. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um lögskráningu sjómanna,
nr. 43/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri, þar með talið skipstjóra. Heimilt er með reglugerð að veita undanþágur frá ákvæðum þessara laga um að lögskrá áhafnir hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa. Jafnframt er heimilt að uppfylltum skilyrðum, sem nánar skulu skilgreind í reglugerð, að ákveða fyrirkomulag lögskráningar skv. 4. og 5. gr. á annan hátt vegna tiltekinna flokka skipa.

II. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað upphafsmálsliðar 2. mgr. 172. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er útgerðarmanni að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. Sé útgerðarmaður jafnframt í áhöfn skips er honum skylt að tryggja sig með sama hætti. Tryggingin skal vera sem hér segir.

III. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eigi skal þó haffærisskírteini gefið út fyrir skip sem er minna en 20 brúttótonn nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.

4. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðum í lögum um lögskráningu sjómanna verði breytt í þeim tilgangi að tryggja að allir sjómenn á íslenskum skipum séu slysa- og líftryggðir. Í lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, er í 2. gr. kveðið á um að skylt sé að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 rúmlestir brúttó eða stærri. Einn megintilgangur með lögskráningu sjómanna er að ganga úr skugga um að áhöfn skips sé líf- og slysatryggð með fullnægjandi hætti, en lögskráning sjómanna fer fram á útgerðarstað skips og er framkvæmd af sýslumönnum og tollstjóra í Reykjavík. Segja má að tilgangur lögskráningar sé einkum:
     1.      að fyrirliggjandi séu upplýsingar um áhöfn skips hverju sinni,
     2.      að áhöfn skips hafi tilskilin atvinnuskírteini til starfa á skipum,
     3.      að áhöfn skips sé líf- og slysatryggð með fullnægjandi hætti,
     4.      að sannreyna siglingatíma vegna öflunar atvinnuskírteinis á skipi,
     5.      að áhöfn hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna og
     6.      grundvöllur fyrir skattafslætti sjómanna.
    Við lögskráningu er miðað við að fyrir liggi yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og á lögskráningarstjóri að ganga úr skugga um að tryggingin sé í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga.
    Lög um lögskráningu sjómanna kveða á um að ef útgerðarmaður vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi þá sé hann ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerðarmaður ekki fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.
    Samkvæmt ákvæðum siglingalaga ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna líf- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Lækka má fébætur eða láta þær niður falla ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins. Skylt er útgerðarmanni að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla samkvæmt ákvæðum laganna eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum.
    Samkvæmt lögum um almannatryggingar eru allir launþegar sem starfa á íslenskum skipum slysatryggðir samkvæmt ákvæðum laganna sem og útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar. Bætur slysatrygginga eftir almannatryggingalögum eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur eftir því sem lögin kveða nánar á um.
    Þá er rétt í þessu sambandi að vekja athygli á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en samkvæmt þeim er öllum launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði.
    Eins og hér hefur komið fram eru útgerðarmenn á bátum 12 brúttórúmlestir og minni slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögum. Engin lagaskylda hvílir á þeim samkvæmt gildandi lögum að líf- og slysatryggja sig frekar. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda hefur sambandið rekið mjög mikinn áróður fyrir því að félagsmenn kaupi sérstaka líf- og slysatryggingu, m.a. með greinum í fréttabréfi og kynningum hvers konar, og er talið að mikill meiri hluti útgerðarmanna hafi keypt líf- og slysatryggingu til hagsbóta fyrir sjálfa sig verði þeir fyrir slysum við störf í sínu skipi.
    Þess eru dæmi að slys hafi orðið á bátum sem ekki er skylt að lögskrá á og sjómenn hafi slasast eða farist án þess að hafa verið líf- eða slysatryggðir. Til að koma í veg fyrir slíkt skipaði samgönguráðherra starfshóp 8. september 1999 til að endurskoða lög um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987. Í skipunarbréfi starfshópsins kom fram að honum var ætlað að taka til umfjöllunar það álitaefni hvort skylt eigi að vera að lögskrá alla þá sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum óháð stærð þeirra, en gildandi lög miða við 12 brúttórúmlestir í því efni. Jafnframt var hópnum ætlað að fjalla um álitaefni sem varða framkvæmd laganna, t.d. að taka upp brúttótonn í stað brúttórúmlesta, lögskráningu á hafnsögubáta og björgunarbáta Slysavarnafélags Íslands og lögskráningu á farþegabáta sem notaðir eru í atvinnuskyni og eru undir þeim stærðarmörkum sem gildandi lög miða við.
    Í starfshópinn voru skipaðir: Helgi Jóhannesson frá samgönguráðuneyti, formaður, Kristján Torfason frá dómsmálaráðuneyti, Hlynur Skúli Auðunsson frá Siglingastofnun Íslands og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda. Starfsmaður hópsins var Kristinn Ingólfsson frá Siglingastofnun Íslands.
    Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til samgönguráðherra með bréfi dags. 14. mars 2001, en í áliti hópsins kemur eftirfarandi fram:
    „Það er samdóma mat hópsins að efni þyki ekki standa til þess að kveða á um lögskráningarskyldu allra skipa heldur verði miðað við skip 20 brúttótonn og stærri í því efni. Fjöldi skipa undir 20 brúttótonnum er mjög mikill, sjósókn þeirra er óregluleg og verulegt óhagræði og kostnaður myndi fylgja því að leggja slíka skyldu á útgerðarmenn eða skipstjóra þeirra skipa. Til þess að tryggja að áhafnir þessara skipa séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á gerir hópurinn tillögu um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, sem kveður á um að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum sem á hann kunna að falla skv. 1. mgr. 171. gr. siglingalaga. Jafnframt er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, og kveðið á um að skip minni en 20 brúttótonn fái ekki útgefið haffærisskírteini nema að fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar sem felast einkum í þremur atriðum:
    a. Lögskráningarskylda miðast við brúttótonn í stað brúttórúmlesta.
    Reglur nr. 244/1987, um mælingar skipa, kveða á um að frá og með 1. júlí 1987 skuli mæla skip samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa (International Convention on Tonnage Measurement of Ships) sem undirritað var í Lundúnum 23. júní 1969 og tók gildi 18. júlí 1982. Þar er miðað við að nýjar mælingareglur taki ekki til gamalla skipa fyrr en 1. janúar 1999, þ.e. annarra gamalla skipa en þeirra sem ekki eru gerðar breytingar á eftir 1. júlí 1987 og ekki hefur verið óskað endurmælingar á. Í þessum reglum felst að taka þarf upp brúttótonn í stað brúttórúmlesta í mælingum skipa, en lög um lögskráningu sjómanna miða við að skylt sé að lögskrá á skip sem eru 12 brúttórúmlestir og stærri. Þá er lagt til að skylt verði að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem eru 20 brúttótonn og stærri og skráð hér á landi. Ekki þykir ástæða til að kveða á um lögskráningarskyldu allra skipa, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, þar sem fjöldi þeirra er mjög mikill, sjósókn er óregluleg og verulegt óhagræði og kostnaður mundi fylgja því að leggja slíka skyldu á útgerðarmann eða skipstjóra þeirra skipa. Ekki er ætlunin að láta lögskráningarskyldu ná til fleiri skipa en verið hefur. Hinn 1. janúar 2001 voru á skipaskrá 1.646 skip minni en 12 brúttórúmlestir sem notuð eru í atvinnuskyni og því utan lögskráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum. Hinn 1. janúar 2001 voru á skipaskrá 1.658 skip minni en 20 brúttótonn sem notuð eru í atvinnuskyni og því utan lögskráningarskyldu samkvæmt frumvarpi þessu.
     b. Undanþágur frá lögskráningarskyldu.
    Lagt er til að heimilt verði með reglugerð að veita undanþágur frá ákvæðum þessara laga um að lögskrá áhafnir hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur höfnum verið skylt að lögskrá skipverja á hafnsögubáta í hverri ferð fyrir sig. Þeirri skipan mála fylgir mikið óhagræði þar sem stöðugt þarf að vera að skrá og afskrá skipverja. Ósk um aðstoð hafnsögubáts berst oft með skömmum fyrirvara og því lítill tími að lögskrá skipverja. Hafnsögubátar eru í öllum tilfellum reknir af höfnum viðkomandi sveitarfélaga og því á að vera tryggt að einungis menn með tilskilin atvinnuréttindi til skipstjórnar og vélstjórnar séu ráðnir til starfa og að lögboðnar tryggingar áhafnar skips séu fyrir hendi. Hvað björgunarskip varðar gilda sömu sjónarmið og um hafnsögubáta. Þessi skip eru flest í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Sjálfboðaliðar eru kallaðir út þegar hætt ber að og þeir fyrstu sem koma til skips sigla út.
    Jafnframt er lagt til að heimilt sé að uppfylltum skilyrðum, sem nánar skuli skilgreind í reglugerð, að ákveða fyrirkomulag lögskráningar á annan hátt vegna tiltekinna flokka skipa en kveðið er á um í 4. og 5. gr. laganna. Þetta á fyrst og fremst við þegar sama útgerðin hefur mörg farþegaskip eða farþegabáta í rekstri og farið er í stuttar skoðunarferðir yfir sumartímann. Í mörgum tilfellum eru útgerðir með tvö til þrjú misstór skip sem notuð eru í samræmi við eftirspurn hverju sinni, unnið er á vöktum og áhafnir færðar á milli skipa með stuttum fyrirvara. Slíkar tilfærslur geta orðið margar á dag og hefur því samkvæmt gildandi lögum í för með sér mikið óhagræði og kostnað fyrir útgerðir og lögskráningarstjóra.
     c. Lögskráning skipstjóra.
    Lagt er til að kveðið verði afdráttarlaust á um það í lögum um lögskráningu sjómanna að lögskrá beri skipstjóra á sama hátt og aðra í áhöfn skipsins.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að áhafnir skipa sem ekki er skylt að lögskrá á, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á og að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum sem á hann kunna að falla skv. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.

Um 3. gr.

    Í greininni er lögð til breyting til að tryggja að áhafnir skipa sem ekki er skylt að lögskrá á, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á. Með þessari breytingu er kveðið á um að skip sem eru minni en 20 brúttótonn fái ekki útgefið haffærisskírteini nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna,
nr. 43/1987, með síðari breytingum, o.fl.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum er varða lögskráningu sjómanna í þeim tilgangi að tryggja að áhafnir skipa sem ekki er skylt að lögskrá á, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á. Eru þetta lög um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, siglingalög, nr. 34/1985, með síðari breytingum, og lög um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að heimilt verði með reglugerð að veita undanþágur frá ákvæðum laga nr. 43/1987 um lögskráningu áhafna hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.