Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1026  —  648. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. lög nr. 46/1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi félagsmálaráðherra um atvinnuréttindi útlendinga. Í gildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, og í gildandi lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri er að finna ákvæði um atvinnurekstrarleyfi. Bæði frumvörpin gera ráð fyrir að sérstök atvinnurekstrarleyfi verði afnumin.
    Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi, eða atvinnuréttarleyfi eins og það var nefnt, var lögfest með lögum nr. 26/1982. Það var síðan fellt úr lögum með lögum nr. 69/1993 vegna notkunarleysis. Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi voru tekin aftur upp með lögum nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, en ástæður þess voru tvíþættar samkvæmt greinargerð. Talið var óeðlilegt að útlendingur, sem hygðist stofna til rekstrar hér á landi, ætti greiðari aðgang að atvinnulífi og vinnumarkaði en þeir sem réðu sig til almennra starfa. Enn fremur var það talið nauðsynlegt til að auðvelda eftirlitsaðilum, fyrst og fremst Útlendingaeftirlitinu, að rækja lögbundið eftirlitsstarf.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um atvinnurekstrarleyfi verði lögð niður á nýjan leik. Ástæður eru fyrst og fremst notkunarleysi sem fyrr, lítið hefur reynt á ákvæði þetta og hefur það jafnframt valdið nokkrum vanda í framkvæmd þar sem lítið er um viðmiðunarreglur sem hins vegar er að finna þegar kemur að útgáfu atvinnuleyfa. Þannig veita atvinnurekstrarleyfi í þeirri mynd sem þau eru í dag enga frekari möguleika á eftirliti umfram það sem útgáfa atvinnu- og dvalarleyfa gerir. Enn fremur má segja að fyrrnefnd rök um greiðari aðgang erlendra aðila sem hyggjast stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, sem haldið var fram þegar ákvæðið var tekið upp í lög, eigi ekki við. Með því að ólíkar reglur gildi um sjálfstæðan atvinnurekstur og almenna launþega má miklu frekar segja að um mismunun sé að ræða.
    Telja má víst að það sé til einföldunar á stjórnsýslu að fella niður sérstakt ákvæði um atvinnurekstrarleyfi þannig að ákvæði um atvinnuleyfi, auk reglna um dvalarleyfi, gildi með sama hætti um sjálfstæða atvinnurekendur og almenna launþega. Þannig mundi hlutafélag eða einkahlutafélag sem stofnað er af erlendum aðila búsettum hér á landi, að uppfylltum skilyrðum laga, sækja um atvinnuleyfi fyrir hönd hins erlenda starfsmanns með sama hætti og innlendir atvinnurekendur gera. Enn fremur er rétt að hafa í huga að í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög er að finna reglur um rétt erlendra aðila til stofnunar hlutafélaga hér á landi, en með þeim kröfum má segja að felist ákveðið eftirlit með stofnun slíks atvinnurekstrar. Niðurfelling atvinnurekstrarleyfa á auk þess ekki að hafa áhrif á eftirlit Útlendingaeftirlitsins þar sem erlendur aðili sem hyggst stofna til sjálfstæðs rekstrar verður eftir sem áður að uppfylla skilyrði laga um dvalarleyfi ásamt skilyrðum laga um atvinnuleyfi.
    Með örfáum undantekningum gera innlend lög á sviði fjárfestinga- og atvinnurekstrar ráð fyrir því að erlendur aðili sem hefur fasta búsetu hér á landi skuli njóta sömu réttinda og innlendur aðili með fasta búsetu. Einnig er rétt að benda á að þróun tvíhliða og fjölþjóðlegra samninga á þessu sviði gengur í sömu átt. Hafa Íslendingar m.a. verið talsmenn þessa á alþjóðavettvangi. Það er í samræmi við þessar áherslur að erlendum aðilum verði veitt landskjararéttindi (e. national treatment) eins og afnám sérstaks atvinnurekstrarleyfis væri.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 34/1991,
um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. lög nr. 46/1996.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi félagsmálaráðherra um atvinnuréttindi útlendinga. Tilgangur með frumvörpunum er að afnema sérstök atvinnurekstrarleyfi erlendra aðila.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.