Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1030  —  652. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um leikskóla, nr. 78/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    2. og 3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra setur leikskólum aðalnámskrá leikskóla. Þar skal kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans, gildi leiksins og meginstefnu varðandi starfshætti og innra gæðamat.
    Menntamálaráðuneytið hefur aðalnámskrá leikskóla stöðugt til endurskoðunar, sér um útgáfu hennar og breytingar þegar þörf er talin á. Auglýsing um gildistöku aðalnámskrár leikskóla skal birt í Stjórnartíðindum.

2. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Heimilt er að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna undir stjórn leikskólakennara, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins. Nánar skal kveðið á um leiðbeiningar- og stjórnunarhlutverk leikskólakennara í reglugerð.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við sameiginlega niðurstöðu Félags íslenskra leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga í tengslum við samþykkt nýs kjarasamnings þar sem er að finna svofellda sameiginlega yfirlýsingu þessara aðila:
    „Vegna þess að ekki hefur tekist að uppfylla ákvæði 12. gr. laga nr. 78/1994, um leikskóla, um að það starfslið sem annast uppeldi og menntun barna í leikskólum skuli hafa leikskólakennaramenntun og ekki er fyrirséð að það takist á næstu árum, lýsa aðilar þessa samnings því yfir að þeir muni beita sér sameiginlega fyrir því að gerð verði breyting á lögum, sem skilgreinir sérstaklega ábyrgðarhlutverk leikskólakennarans við uppeldi og menntun innan leikskólans og stjórnunarábyrgð hans gagnvart aðstoðarfólki sem ekki hefur leikskólakennaramenntun. Aðilar eru sammála því að til lengri tíma skuli stefnt að því að allir starfsmenn leikskóla sem annast uppeldi og menntun skuli hafa leikskólakennaramenntun.
    Með framangreint að leiðarljósi hvetja samningsaðilar bæði sveitarfélög og leikskólastjóra til að haga ráðningarmálum í leikskólum á þann veg að allar stjórnunarstöður hafi forgang hvað mönnun varðar. Þannig verði lögð aukin áhersla á að allar deildir leikskóla verði undir stjórn leikskólakennara.“
    Í frumvarpi þessu er lagt til að 12. gr. leikskólalaga verði breytt til samræmis við sameiginlega niðurstöðu Félags leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga.
    Þá er enn fremur lagt til að í stað orðsins uppeldisstefna í 2. og 3. mgr. 4. gr. verði notað heitið aðalnámskrá leikskóla um uppeldismarkmið í starfi leikskóla.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um leikskóla, nr. 78/1994.

    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að nota heitið aðalnámskrá leikskóla fyrir það sem hefur heitið uppeldisstefna leikskóla. Hins vegar er lagt til að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna undir stjórn leikskólakennara, enda fáist ekki leikskólakennarar til starfanna.
    Frumvarpið hefur ekki áhrif á útgjöld ríkisins sem fer með yfirstjórn leikskólamála samkvæmt lögunum.