Ferill 653. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1031  —  653. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til allt að fimm ára í senn, áfangastjóra til allt að fjögurra ára og aðra stjórnendur að höfðu samráði við skólanefnd.

2. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við lausn kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs í janúar sl.
    Hinn 8. janúar sl. gaf menntamálaráðherra út tvær endurskoðaðar reglugerðir um starfsemi framhaldsskóla, um starfslið og skipulag framhaldsskóla, nr. 5/2001, og um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga, nr. 6/2001. Endurskoðun þessara reglugerða var hluti af lausn kjaradeilu fyrrnefndra aðila. Fyrri reglugerðin fól í sér veigamikla breytingu á innra skipulagi framhaldsskóla. Mikilvæg ákvæði um vinnutíma, skiptingu starfa og ábyrgð eru nú skilgreind í reglugerð í stað kjarasamnings áður.
    Í samræmi við framangreindar breytingar er með frumvarpi þessu lagt til að starfsheitið deildarstjóri verði fellt niður í lögum um framhaldsskóla. Að öðru leyti þarfnast frumvarp þetta ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla
nr. 80/1996, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að starfsheitið deildarstjóri verði fellt úr lögunum og störf þeirra ýmist falin kennurum eða öðrum stjórnendum í samræmi við ákvæði reglugerðar menntamálaráðherra um starfslið og skipulag framhaldsskóla.
    Frumvarpið er flutt í tengslum við lausn á kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og fjármálaráðherra í janúar sl. Kostnaður vegna breytinga sem felast í frumvarpinu er hluti af kostnaði vegna kjarasamningsins og hefur ekki verið metinn sérstaklega. Fjármálaráðuneytið hefur áætlað að kostnaður við kjarasamninginn nemi um 800 m.kr. á ári þegar allir þættir hans verða komnir til framkvæmda.