Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1050  —  672. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

     a.      Á eftir 47. gr. laganna kemur ný grein, 47. gr. a, svohljóðandi:
             Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.
             Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar og svipaðs búnaðar við akstur.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Notkun farsíma og annars fjarskiptabúnaðar.

2. gr.

    Á eftir 4. mgr. 51. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fullnaðarskírteini til þess sem hefur bráðabirgðaskírteini má gefa út, enda fullnægi hlutaðeigandi eftirtöldum skilyrðum:
       a.      hafi farið í akstursmat eftir að hafa haft bráðabirgðaskírteini samfellt í eitt ár.
       b.      hafi ekki í eitt ár samfellt fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota eða á sama tíma verið án ökuréttar vegna sviptingar hans.
    Nú stenst umsækjandi ekki akstursmat og skal honum þá vísað í próf að nýju. Ef umsækjandi stenst ekki próf skal lögreglustjóri afturkalla ökuréttindi skv. 53. gr.
    Nú fullnægir hlutaðeigandi ekki skilyrðum b-liðar 5. mgr. og skal þá endurútgefa bráðabirgðaskírteini að liðnum gildistíma þess.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 52. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ökupróf“ í b-lið kemur: og akstursmat.
     b.      Á eftir orðinu „próf“ í d-lið kemur: akstursmat.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar sex mánuðir eru liðnir frá birtingu þeirra. Eigi skal refsa fyrir brot gegn 1. gr. fyrr en ár er liðið frá gildistöku laganna.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, að notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar verði bönnuð. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum umferðarlaga um ökuréttindi.
    Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði til að fara yfir umferðarlög og reglur settar á grundvelli þeirra í þeim tilgangi að gera tillögur og ábendingar um atriði sem betur mættu fara í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðina. Í starfshópnum áttu sæti Þorgerður K. Gunnarsdóttir alþingismaður, sem var formaður hópsins, Hjálmar Björgvinsson aðalvarðstjóri, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Ingvi Hrafn Óskarsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður samgönguráðherra, og Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs. Ritari starfshópsins var Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðherra í febrúar 2001. Þar er að finna fjölmargar tillögur um breytingar á lögum og reglum um umferðarmálefni. Að öðru leyti en fram kemur í frumvarpinu eru tillögur hópsins til nánari athugunar í ráðuneytinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að bann verði sett við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur vélknúins ökutækis. Einnig er lagt til að dómsmálaráðherra fái heimild til að setja nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar og svipaðs búnaðar við akstur. Heimildarákvæðinu er ætlað að tryggja að samfara tæknilegri þróun verði unnt að setja reglur um notkun slíks búnaðar við akstur með hliðsjón af umferðaröryggi.
    Í umferðarlögum er ekki að finna ákvæði sem fjallar beinlínis um notkun farsíma við akstur. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er mælt fyrir um að vegfarandi skuli „sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skal og sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitssemi“. Þetta almenna ákvæði getur tekið til notkunar farsíma og mun áfram gilda að sínu leyti.
    Notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í umferðinni er augljóslega til þess fallin að draga úr færni ökumanns til að stjórna bifreið og auka hættu í umferðinni. Þetta styðst við fjölda erlendra rannsókna. Af þessum sökum hafa mörg ríki lagt bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur og má meðal þeirra telja Danmörku, Noreg, Bretland, Belgíu, Grikkland, Ítalíu, Lúxemborg og Þýskaland. Hér er lagt til að fylgt verði fordæmi þessara þjóða.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að sett verði sérstök skilyrði fyrir því að gefið verði út fullnaðarskírteini til þess sem hefur bráðabirgðaskírteini. Þessi skilyrði eru að hlutaðeigandi hafi farið í akstursmat eftir að hafa haft bráðabirgðaskírteini í a.m.k. eitt ár og að viðkomandi hafi ekki undanfarandi ár fengið punkta í punktakerfi ökumanna eða verið án ökuréttar vegna sviptingar hans.
    Sú staðreynd er vel þekkt að ungir og reynslulitlir ökumenn valda hlutfallslega fleiri slysum en aðrir í umferðinni. Þetta kemur ekki á óvart þar sem augljóst er að ökumaður nær aukinni færni eftir því sem hann öðlast meiri reynslu af akstri. Í þessu sambandi hefur því verið hreyft hvort rétt væri að hækka ökuskírteinisaldur en hann er víða hærri en hér á landi. Fyrir þessu hafa verið færð þau rök að draga mundi úr slysatíðni hjá byrjendum væru þeir eldri og þroskaðri. Þetta hefur þó ekki verið leitt í ljós með óyggjandi hætti, enda verður ekki fullyrt að hærri aldri fylgi aukin þekking á umferðarreglum né örugg vissa fyrir því að eldri ökumenn brjóti í minna mæli umferðarreglur. Þá þykir heppilegra að reynt verði að sporna gegn slysum hjá ungum ökumönnum með öðrum og vægari aðgerðum sem byggjast á fræðslu og hvatningu um að fylgja umferðarreglum. Slíkar aðgerðir hvíla á trausti og taka mið af því að velflestir ungir ökumenn eru til fyrirmyndar í umferðinni. Þessi viðhorf eru lögð til grundvallar hér og er lagt til að gerð verði frekari aðgreining milli bráðabirgðaökuskírteinis og fullnaðarskírteinis með því að setja áðurgreind skilyrði fyrir því að gefið verði út fullnaðarskírteini. Þessi skilyrði fela í sér aðhald fyrir byrjendur í umferðinni þannig að þeir fari að umferðarreglum og stuðla að því að þeir leitist við að efla þjálfun sína fyrir akstursmat sem gangast verður undir áður en fullnaðarskírteini er gefið út.
    Gert er ráð fyrir að akstursmat fari fram á vegum Umferðarráðs og að það annist löggiltir prófdómendur. Miðað er við að akstursmat taki um 30–45 mínútur og fari fram á bifreið sem umsækjandi hefur til umráða. Nánar verður kveðið á um akstursmat í reglugerð. Ekki er gert ráð fyrir að akstursmatið verði jafnumfangsmikið og verklegt ökupróf. Því er gert ráð fyrir að umsækjanda verði vísað í próf að nýju sé árangur í akstursmati ekki viðhlítandi. Standist umsækjandi ekki próf ber lögreglustjóra að afturkalla ökuréttindi, sbr. 53. gr. laganna.
    Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. laganna er bráðabirgðaskírteini gefið út til byrjanda og gildir í tvö ár. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að unnt verði að sækja um fullnaðarskírteini þegar umsækjandi hefur haft bráðabirgðaskírteini í eitt ár. Ef ekki er fullnægt skilyrðum til að fá útgefið fullnaðarskírteini er gert ráð fyrir að bráðabirgðaskírteini verði endurútgefið að liðnum gildistíma þess.

Um 3. gr.


         Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglur um akstursmat svo og um gjaldtöku vegna akstursmats. Er þá miðað við að gjald standi undir kostnaði við akstursmatið.

Um 4. gr.


    Til að ráðrúm gefist til að undirbúa gildistöku er lagt til að lögin taki ekki gildi fyrr en sex mánuðum frá birtingu þeirra. Mikilvægt er að bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar verði kynnt almenningi, auk þess sem akstursmat þarfnast undirbúnings með setningu ítarlegra reglna. Þá er lagt til að ekki verði refsað fyrir brot gegn 1. gr. fyrr en ár er liðið frá gildistöku laganna. Til stuðnings því fyrirkomulagi má vísa til fenginnar reynslu við lögleiðingu öryggisbelta.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á umferðarlögum,
nr. 50 30. mars 1987.

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða verði bönnuð. Ekki er talið að lögfesting þessa ákvæðis leiði til teljandi útgjalda fyrir ríkissjóð. Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að sett verði skilyrði fyrir því að gefið verði út fullnaðarskírteini til þeirra sem fengið hafa bráðabirgðaökuskírteini til tveggja ára, þ.e. einkum til ungra ökumanna. Þessi skilyrði felist í því að viðkomandi fari í akstursmat eftir að hafa haft bráðabirgðaskírteini í eitt ár og hafi ekki fengið punkta í punktakerfi ökumanna á tímabilinu. Fyrirhugað er að löggildir prófdómendur á vegum Umferðarráðs annist akstursmatið og að það verði ekki jafnumfangsmikið og verklegt ökupróf heldur taki það 30–45 mínútur. Áætlað er að viðbótarkostnaður Umferðarráðs af því að standa fyrir akstursmatinu geti numið alls um 10 m.kr. Þar af eru um 8 m.kr. launakostnaður prófdómara og skrifstofufólks en afgangurinn er vegna ferðakostnaðar, aðkeyptrar þjónustu og hlutdeildar í sameiginlegum kostnaði. Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði um að þessum kostnaði verði mætt að fullu með ríkistekjum af gjaldi á þá sem gangast undir akstursmat á sama hátt og á við um ökupróf. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist jafnmikið og útgjöldin, eða um 10 m.kr., þannig að afkoman verði óbreytt eftir sem áður.