Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1051  —  673. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna, sbr. lög nr. 142/1998, fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. mgr. 15. gr. laganna falli brott en henni var bætt við lögin með lögum nr. 142/1998. Hún hljóðar svo: „Við smíði varðskips er eigi skylt að láta fara fram útboð og er heimilt að leita tilboða frá einum eða fleiri aðilum. Sama gildir um viðhald varðskips þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast.“
    Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel gerði athugasemdir við þessa lagabreytingu og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Hóf stofnunin undirbúning að málshöfðun gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum.
    Eftir nánari athugun og viðræður hefur orðið að samkomulagi að leggja til að umrædd breyting verði felld brott og að smíði varðskips verði þegar þar að kemur boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Málaferli fyrir EFTA-dómstólnum munu þá um leið falla niður. Er frumvarp þetta flutt í tilefni af því samkomulagi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði niður ákvæði í lögum um Landhelgisgæslu Íslands þar sem tiltekið er að ekki sé skylt að láta fara fram útboð um smíði varðskips heldur sé heimilt að leita tilboða frá einum eða fleiri aðilum. Þessi tillaga um breytingu á lögunum er gerð í framhaldi af samkomulagi íslenskra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel sem gert hafði athugasemdir við lagasetninguna. Verði frumvarpið að lögum er fyrirhugað að smíði nýs varðskips verði boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þar að kemur. Ætla má að útboð á breiðari grundvelli en skylt er samkvæmt gildandi lögum geti haft í för með sér meiri verðsamkeppni og lægri smíðakostnað en ella væri. Ógerlegt er þó að segja til um hugsanleg kostnaðaráhrif enda hefur ekki verið leitað eftir tilboðum í smíði nýs varðskips.