Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1054  —  675. mál.
Frumvarp til lagaum Seðlabanka Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)I. KAFLI

Staða, markmið og verkefni.

1. gr.

    Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Um stjórn hans fer samkvæmt lögum þessum.
    Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans.

2. gr.

    Aðsetur og varnarþing Seðlabanka Íslands er í Reykjavík.

3. gr.

    Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.
    Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr.

4. gr.

    Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

II. KAFLI
Útgáfa seðla og myntar.
5. gr.

    Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.
    Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.
    Tilefnismynt sem Seðlabankinn gefur út skal vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði. Seðlabankanum er heimilt að ákveða að tilefnismynt sé seld með álagi á ákvæðisverð hennar. Ágóða af sölu tilefnismyntar skal varið til lista, menningar eða vísinda samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra.
    Forsætisráðherra ákveður að fengnum tillögum Seðlabankans lögun, útlit og fjárhæð seðla þeirra og myntar sem bankinn gefur út og lætur birta auglýsingu um það efni.

III. KAFLI
Innlend viðskipti.
6. gr.

    Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Honum er einnig heimilt að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu.
    Seðlabankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal hvaða lánastofnunum öðrum en innlánsstofnunum er heimilt að eiga innstæður í bankanum.

7. gr.

    Seðlabanki Íslands getur veitt lánastofnunum, sem geta átt innlánsviðskipti við bankann, sbr. 6. gr., lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt. Bankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein.
    Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins getur hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur.

8. gr.

    Til að ná markmiðum sínum skv. 3. gr. kaupir Seðlabanki Íslands og selur ríkistryggð verðbréf og önnur trygg innlend verðbréf á verðbréfamarkaði eða í beinum viðskiptum við lánastofnanir.

9. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að gefa út framseljanleg verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja lánastofnunum sem geta átt innlánsviðskipti við hann, sbr. 6. gr.

10. gr.

    Seðlabanki Íslands ákveður vexti af innlánum við bankann, af lánum sem hann veitir og af verðbréfum sem hann gefur út.

11. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarfjárhæð sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Enn fremur er Seðlabankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.
    Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar samkvæmt þessari grein, þar á meðal til hvaða lánastofnana hún tekur. Í þeim má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir eðli lánastofnana og verðbréfasjóða og flokkum innlána og annarra skuldbindinga sem bindingin nær til. Gæta skal jafnræðis við ákvörðun bindiskyldu þannig að hún valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu á milli þeirra innlendu fyrirtækja sem sæta innlánsbindingu.

12. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða í þeim tilgangi að mæta fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili, sbr. 4. gr. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana.

13. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga.

14. gr.

    Seðlabanki Íslands annast hvers konar bankaþjónustu fyrir ríkissjóð aðra en lánafyrirgreiðslu, sbr. 16. gr. Innstæður ríkissjóðs skulu varðveittar á reikningum í Seðlabankanum nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars.
    Seðlabankinn skal vera ríkisstjórn til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál, þar á meðal erlendar lántökur, og taka að sér framkvæmd í þeim efnum eftir því sem um verður samið.

15. gr.

    Stjórnvöld veita Seðlabanka Íslands þær upplýsingar um efnahagsmál almennt og um ríkisfjármál, lántökur og greiðsluáætlanir ríkissjóðs sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi bankans.

16. gr.

    Seðlabanka Íslands er óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán.
    Verðbréf, sem skráð eru í opinberri kauphöll og gefin eru út af þeim aðilum sem um ræðir í 1. mgr. og Seðlabankinn kaupir á verðbréfamarkaði eða af lánastofnunum til að ná markmiðum sínum í peningamálum, skulu ekki teljast lán samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

17. gr.

    Seðlabanki Íslands stundar önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Í því skyni er bankanum meðal annars heimilt að eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi, verðbréfaskráningar og greiðslukerfa.
    Seðlabankanum er óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Honum er þó heimilt að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður hefur gefið út.

IV. KAFLI
Gengismál, gjaldeyrismarkaður og erlend viðskipti.
18. gr.

    Seðlabanki Íslands verslar með erlendan gjaldeyri, hefur milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og stundar önnur erlend viðskipti sem samrýmast markmiðum og hlutverki bankans.
    Að fengnu samþykki forsætisráðherra ákveður Seðlabankinn hvaða stefna skuli gilda um ákvörðun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.
    Seðlabankinn setur reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða eftir því sem kveðið er á um í lögum um gjaldeyrismál. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulegum gjaldeyrismörkuðum.

19. gr.

    Hvern virkan dag sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi skal Seðlabanki Íslands skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það gengi skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Enn fremur getur Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar á þeim dögum sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt ekki starfandi. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.

20. gr.

    Seðlabanki Íslands varðveitir gjaldeyrisvarasjóð í samræmi við markmið og hlutverk bankans. Bankastjórn setur starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins sem bankaráð staðfestir, sbr. 28. gr.
    Seðlabankanum er heimilt að taka lán til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Honum er jafnframt heimilt að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra banka- eða fjármálastofnana um lánveitingar til að efla gjaldeyrisvarasjóð þátttakenda.

21. gr.

    Seðlabanki Íslands annast samskipti og viðskipti við alþjóðlegar stofnanir á starfssviði sínu í umboði ríkisstjórnarinnar eða eftir því sem honum er falið með lögum.
    Seðlabankinn fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Forsætisráðherra skipar einn mann og annan til vara til fimm ára í senn til þess að taka sæti í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Seðlabankanum er jafnframt heimilt að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum, enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka.

V. KAFLI
Stjórnskipulag.
22. gr.

    Yfirstjórn Seðlabanka Íslands er í höndum forsætisráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum. Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum bankastjórnar.

23. gr.

    Í bankastjórn Seðlabanka Íslands sitja þrír bankastjórar og er einn þeirra formaður bankastjórnar. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.
    Forsætisráðherra skipar formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn. Ekki er skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar. Aðeins er heimilt að skipa sama mann bankastjóra tvisvar sinnum. Sama á við um þann sem skipaður er formaður bankastjórnar. Hafi hann áður verið skipaður bankastjóri tvisvar sinnum verður hann þó aðeins einu sinni skipaður formaður bankastjórnar. Um endurskipun gilda ekki ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Forfallist bankastjóri þannig að bankastjórn sé ekki fullskipuð getur forsætisráðherra sett bankastjóra tímabundið í stað hans.
    Undirskrift tveggja bankastjóra Seðlabankans þarf til þess að skuldbinda bankann. Þó er bankastjórn heimilt að veita tilteknum starfsmönnum umboð til þess að skuldbinda bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum samkvæmt reglum sem hún setur og staðfestar skulu af bankaráði, sbr. 28. gr.

24. gr.

    Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands er talsmaður bankans og kemur fram fyrir hönd bankastjórnar. Bankastjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum, sbr. ákvæði 1. mgr. 23. gr., þ.m.t. hver skuli vera staðgengill formanns bankastjórnar í fjarveru hans.
    Formaður bankastjórnar Seðlabankans kallar bankastjórn saman til fundar. Ávallt skal boðað til fundar þegar annar hinna bankastjóranna óskar. Fundurinn er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankastjórnar situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns bankastjórnar.
    Ákvarðanir bankastjórnar skulu skráðar og áritaðar af bankastjórn. Bankastjórn setur starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gerð grein fyrir ákvörðunum bankastjórnar í peningamálum og forsendum þeirra.

25. gr.

    Bankastjórum Seðlabanka Íslands er óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Rísi ágreiningur um ákvæði þessarar greinar gagnvart bankastjórum skal ráðherra skera úr. Með samþykki bankaráðs setur bankastjórn reglur um þátttöku annarra starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 28. gr.

26. gr.

    Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
    Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.

27. gr.

    Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands kallar bankaráð saman til fundar. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar bankaráðsmaður æskir þess. Fundur bankaráðs er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankaráðs situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Á fundum bankaráðs skal halda gerðabók.
    Bankastjórar sitja fundi bankaráðs og taka þátt í umræðum. Þeir skulu þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður.

28. gr.

    Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Bankastjórn skal jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur. Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
     a.      Staðfesta tillögur bankastjórnar um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans.
     b.      Ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni þeirra.
     c.      Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða aðalendurskoðanda.
     d.      Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, sbr. 24. gr.
     e.      Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um umboð starfsmanna bankans til þess að skuldbinda bankann, sbr. 23. gr.
     f.      Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
     g.      Staðfesta tillögu Seðlabankans til forsætisráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
     h.      Veita forsætisráðherra umsögn um reglugerð um framkvæmd einstakra þátta laga þessara þegar svo ber undir, sbr. 39. gr.
     i.      Staðfesta ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
     j.      Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem bankastjórn leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
     k.      Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar.
     l.      Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um viðurlög í formi dagsekta, sbr. 37. gr.
     m.      Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um heimild starfsmanna bankans til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 25. gr.
     n.      Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um varðveislu gjaldeyrisforðans, sbr. 20. gr.

VI. KAFLI
Öflun upplýsinga, rannsóknir og skýrslugerð.
29. gr.

    Til þess að sinna hlutverki sínu skv. 3. og 4. gr. getur Seðlabanki Íslands milliliðalaust aflað upplýsinga frá þeim sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun og annarra fyrirtækja eða aðila sem lúta opinberu eftirliti með starfsemi sinni, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Skylt skal öllum að láta Seðlabankanum í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda til hagskýrslugerðar að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr.

30. gr.

    Seðlabanki Íslands gerir skýrslur og áætlanir um peningamál, greiðslujöfnuð, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bankans varðar. Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en ársfjórðungslega gera opinberlega grein fyrir stefnu sinni í peningamálum og fyrir þróun peningamála, gengis- og gjaldeyrismála og aðgerðum sínum á þeim sviðum. Þá skal Seðlabankinn gefa út ársskýrslu þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir starfsemi sinni.

31. gr.

    Seðlabanki Íslands stundar hagrannsóknir sem lúta að viðfangsefnum bankans á sviði peningamála og fjármálakerfis. Jafnframt er bankanum heimilt að stuðla að rannsóknum annarra á þessum sviðum.

VII. KAFLI
Reikningsskil og ráðstöfun hagnaðar.
32. gr.

    Reikningsár Seðlabanka Íslands er almanaksárið. Fyrir hvert reikningsár skal gera ársreikning og skal gerð hans lokið innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs. Um gerð ársreiknings fer eftir lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.
    Forsætisráðherra setur nánari reglur um reikningsskil og ársreikning að fengnum tillögum Seðlabankans, sbr. 28. gr.

33. gr.

    Innri endurskoðun í Seðlabanka Íslands er í höndum aðalendurskoðanda, sbr. 28. gr. Auk þess skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun hjá Seðlabankanum.
    Að lokinni endurskoðun á ársreikningi bankans skal hann undirritaður af bankastjórn og staðfestur af bankaráði, sbr. 28. gr. Hafi bankaráðsmaður fram að færa athugasemdir við ársreikning skal hann undirritaður með fyrirvara og koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.
    Endurskoðaður reikningur skal lagður fyrir forsætisráðherra til áritunar eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Ársreikning Seðlabankans skal birta í ársskýrslu bankans, sbr. 30. gr. Enn fremur skal bankinn birta mánaðarlegt efnahagsyfirlit.

34. gr.

    Árlega skal fjárhæð sem svarar til tveggja þriðju hluta hagnaðar Seðlabanka Íslands á liðnu reikningsári greidd í ríkissjóð. Greiðsla fer fram eigi síðar en 1. júní ár hvert.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Seðlabankinn aðeins greiða þriðjung hagnaðar síns í ríkissjóð ef eigið fé bankans í lok reikningsárs svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins í lok reikningsársins á undan.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
35. gr.

    Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Bankaráðsmönnum, bankastjórum og öðrum starfsmönnum Seðlabankans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að sá, sem óskar upplýsinga, sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
    Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið skulu gera með sér samstarfssamning þar sem m.a. er kveðið nánar á um samskipti stofnananna.

36. gr.

    Seðlabanki Íslands er undanþeginn tekju- og eignarskatti samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt eins og þau eru á hverjum tíma.
    Hvers konar skuldbindingar, sem gefnar eru út af bankanum og í nafni hans, svo og skuldbindingar sem veita bankanum handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum bankans og framsöl þeirra skulu undanþegin stimpilgjaldi.

37. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða fangelsi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að beita lánastofnanir viðurlögum í formi dagsekta sem ákveðnar eru samkvæmt reglum sem settar eru af bankastjórn með samþykki bankaráðs, sbr. 28. gr., hlíti þær ekki reglum bankans um bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð. Dagsektir sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför að lögum. Reglur um viðurlög skulu kynntar Fjármálaeftirlitinu, lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum. Ákvörðun um að beita dagsektum má kæra til ráðherra. Sé vanræksla ítrekuð er bankanum heimilt að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið að leggja til við viðskiptaráðherra að viðkomandi stofnun verði svipt starfsleyfi. Innheimt viðurlög samkvæmt þessari grein skulu renna að ¾ hlutum til ríkissjóðs og skulu þau greidd 1. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.
    Seðlabankanum er heimilt að beita þá aðila viðurlögum í formi dagsekta sem vanrækja að veita bankanum upplýsingar, sem hann á rétt á samkvæmt lögum þessum, eða veita bankanum vísvitandi rangar upplýsingar. Bankastjórn setur reglur um þessi viðurlög sem skulu staðfestar af bankaráði.

38. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um viðfangsefni sín samkvæmt lögum þessum eftir því sem ástæða verður talin til. Seðlabankinn birtir reglur sem hann setur samkvæmt lögum þessum þannig að þær séu aðgengilegar almenningi.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.
39. gr.

    Forsætisráðherra getur, að fengnu áliti bankaráðs, sett með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara.

40. gr.

    Lög þessi öðlast gildi nú þegar. Um leið falla úr gildi lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með áorðnum breytingum. Ákvæði 5. gr. laga nr. 54/1974 um þátttöku Seðlabanka Íslands í greiðslu kostnaðar af starfsemi Þjóðhagsstofnunar fellur úr gildi 1. janúar 2002.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við gildistöku laga þessara kýs Alþingi sjö fulltrúa í bankaráð Seðlabanka Íslands og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

II.

    Bankastjórar Seðlabanka Íslands við gildistöku laga þessara halda störfum sínum til loka skipunartíma síns. Ákvæði 2. mgr. 23. gr. um skipun bankastjóra gildir frá og með fyrstu skipun í embætti bankastjóra eftir gildistöku laganna. Við gildistöku laganna skipar forsætisráðherra formann bankastjórnar úr röðum bankastjóra til sama tíma og skipun hans í embætti bankastjóra varir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í desember 2000 skipaði forsætisráðherra nefnd til þess að semja frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands. Í nefndinni áttu sæti Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, formaður, Jón Sigurðsson rekstrarhagfræðingur, Sighvatur Björgvinsson alþingismaður, sem skipaður var framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á meðan nefndin starfaði, Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður og Vilhjálmur Egilsson alþingismaður. Ritari nefndarinnar var Skarphéðinn Steinarsson í forsætisráðuneyti. Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, starfaði með nefndinni. Í erindisbréfi nefndarinnar sagði m.a. að núgildandi lög um bankann væru að stofni til frá árinu 1986. Frá þeim tíma hefðu orðið miklar breytingar á íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði. Því væri nauðsynlegt að laga löggjöf um Seðlabankann að þessum breyttu aðstæðum. Í því sem hér fylgir er greint frá þeim meginsjónarmiðum um einföldun markmiða, sjálfstæði til að beita stjórntækjum og um gagnsæi og reikningsskil gagnvart stjórnvöldum og almenningi sem höfð voru að leiðarljósi við samningu frumvarpsins. Nefndin átti þess kost að kynna sér ýmislegt efni um þróun þessara þátta í öðrum löndum auk löggjafar seðlabanka ýmissa landa.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á starfsemi Seðlabanka Íslands sem munu leiða til að bankinn verði sjálfstæðari en áður og geti þannig betur sinnt stjórnun peningamála. Með auknu sjálfstæði seðlabanka er þeim gert kleift að vinna með markvissari hætti að því hlutverki sínu.
    Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru að starfsemi Seðlabanka Íslands verði sett skýrt markmið um að tryggja stöðugt verðlag. Ráðherra komi að því að skilgreina það markmið en bankinn hafi fullt sjálfstæði í ákvörðunum um hvernig markmiðinu verði náð með beitingu þeirra stjórntækja sem hann býr yfir. Ríkisstjórnin mun eftir sem áður ákveða gengisstefnuna, þó í samræmi við meginmarkmið laganna um stöðugt verðlag. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þrír bankastjórar sitji í bankastjórn Seðlabankans og að ákvörðunarvald í peningamálum verði í höndum bankastjórnar. Bankastjórn mun ein taka ákvörðun um beitingu stjórntækja bankans í stað þess að eiga um það samráð við ráðherra. Þá er skipunartími bankastjóra lengdur úr fimm árum í sjö en fjöldi skipunartímabila takmarkaður og ráðherra skipar bankastjóra og formann bankastjórnar sérstaklega. Einnig er kveðið á um fjölgun í bankaráði og að það kjósi sér sjálft formann úr eigin röðum. Hlutverk þess er líka eflt nokkuð. Ríkissjóði verður óheimilt að taka lán hjá bankanum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að bankastjórn setji starfsreglur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum og að opinberlega skuli gerð grein fyrir slíkum ákvörðunum og forsendum þeirra. Með þessu er stuðlað að faglegum vinnubrögðum og frekara gagnsæi stefnunnar í peningamálum. Nauðsynlegt þykir að styrkja eiginfjárstöðu bankans og gerir frumvarpið ráð fyrir að svo verði.
    Með samþykki frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands búa við sams konar starfsskilyrði og seðlabankar í flestum iðnríkjum.
    Núgildandi lög um Seðlabanka Íslands voru sett 1986 og tóku gildi 1. nóvember það ár. Í þeim var m.a. staðfest sú meginbreyting að Seðlabankinn ákvæði ekki lengur einhliða vexti innlánsstofnana en rýmkun á því fyrirkomulagi hófst á árinu 1984. Frá því að lögin um Seðlabankann voru sett hafa orðið afar miklar breytingar á íslensku fjármálakerfi. Peningamarkaður og millibankamarkaður fyrir gjaldeyri urðu til á fyrri hluta síðasta áratugar. Fjármagnsmarkaður þróaðist hratt í framhaldi af stofnun Verðbréfaþings Íslands árið 1985 og skráning hlutabréfa hófst árið 1990. Á síðasta áratug var löggjöf um starfsemi hinna ýmsu tegunda fjármálastofnana endurnýjuð, að verulegu leyti að fyrirmynd Evrópusambandsins sem Íslandi var skylt að fylgja í kjölfar aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu. Segja má að íslensk löggjöf um fjármálakerfið sé nú nánast í fullu samræmi við það sem gerist í Evrópu.
    Lögin um Seðlabanka Íslands hafa þó að mestu staðið óbreytt frá 1986 þrátt fyrir þær miklu breytingar sem urðu á innlendum fjármálamarkaði og þrátt fyrir endurskoðun nánast allra annarra laga sem um starfsemi á fjármálamarkaði gilda. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á lögunum þegar nauðsynlegt hefur verið talið að laga einstök atriði þeirra að breyttum aðstæðum. Flestar hafa þær einskorðast við afmörkuð atriði. Mikilvæg breyting varð þó á árinu 1998 þegar Alþingi samþykkti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Um leið var felldur niður sá kafli laganna um Seðlabankann sem fjallaði um bankaeftirlit. Af öðrum nýlegum breytingum má nefna að á árinu 1998 var bætt inn í 3. gr. laganna ákvæði þess efnis að Seðlabankinn skyldi stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Í lok ársins 1999 var einnig lítillega breytt ákvæði 8. gr. laganna til þess að gera bankanum kleift að setja lausafjárreglur fyrir lánastofnanir sem betur samrýmdust aðstæðum en þær sem bankinn hafði sett fyrr á því ári. Þá var samþykkt breyting sem fól í sér flutning á forræði Seðlabankans frá viðskiptaráðherra til forsætisráðherra í byrjun árs 2000.
    Á undanförnum árum hefur löggjöf seðlabanka fjölmargra landa verið breytt í grundvallaratriðum. Nefna má að Maastricht-sáttmálinn sem fól í sér stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu kvað á um grundvallaratriði sem gilda skyldu um starfsemi Seðlabanka Evrópu og seðlabanka allra aðildarlanda bandalagsins. Meðal skilyrða fyrir aðild að myntbandalaginu var að löggjöf um seðlabanka viðkomandi lands hefði verið breytt til samræmis við ákvæði Maastricht-sáttmálans. Jafnvel í löndum sem ekki uppfylltu önnur skilyrði aðildar og ekki hafa enn gengið í myntbandalagið, svo sem í Svíþjóð, var lögunum breytt og uppfylla þau nú skilyrði aðildar að myntbandalaginu. Víða annars staðar var löggjöf bankanna einnig breytt, svo sem í Bretlandi. Nýtt fyrirkomulag þar í landi uppfyllir þó ekki að fullu skilyrði Maastricht-sáttmálans en er mun fullkomnara en hið fyrra varðandi gagnsæi og reikningsskil peningastefnunnar. Löggjöf nýsjálenska seðlabankans var breytt í upphafi tíunda áratugarins og þess ástralska nokkrum árum síðar. Þá hefur löggjöf seðlabanka fjölmargra nýiðnvæddra ríkja og þróunarríkja verið breytt á undanförnum árum auk þess sem sett voru lög um seðlabanka í þeim ríkjum sem hurfu frá miðstýrðu hagkerfi að markaðsbúskap.
    Megineinkenni breytinga sem gerðar hafa verið á löggjöf seðlabanka er að markmið þeirra hafa verið einfölduð, sjálfstæði þeirra til að beita tækjum sínum í peningamálum aukið og ríkari kröfur gerðar um gagnsæi peningastefnunnar og starfsemi bankanna og reikningsskil þeirra gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Þá hefur verið tekið fyrir aðgang ríkissjóðs að fjármögnun í seðlabankanum þar sem hann hafði verið heimill. Síðast en ekki síst hafa gjarnan verið gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi yfirstjórnar bankanna sem m.a. hafa í sumum tilvikum falið í sér stofnun sérstakra peningastefnunefnda sem veitt er ákvörðunarvald í peningamálum og þurfa að gera rækilega grein fyrir ákvörðunum sínum. Í einföldun markmiðssetningar bankanna hefur falist að peningastefnunni hefur yfirleitt verið falið eitt meginmarkmið í iðnríkjunum, þ.e. að stuðla að verðstöðugleika þar sem verðstöðugleiki þýðir lítil mæld verðbólga, t.d. á bilinu 1–3%. Sums staðar er seðlabönkunum sjálfum falið að skilgreina meginmarkmiðið en annars staðar er það sett af ríkisstjórn eða í samvinnu ríkisstjórnar og seðlabanka. Annað algengt markmið seðlabanka er að stuðla að öryggi fjármálakerfisins, þ.m.t. öryggi greiðslukerfa. Þetta viðfangsefni hefur orðið æ umfangsmeira í starfsemi margra seðlabanka á undanförnum árum, enda talið nauðsynlegt í kjölfar þess að hömlum var létt af fjármagnshreyfingum á milli landa. Á alþjóðavettvangi hefur verið lögð mjög vaxandi áhersla á virkt eftirlit með fjármálastarfsemi og virka yfirsýn yfir ýmsa áhættuþætti í fjármálakerfinu og í þjóðarbúskapnum í því skyni að leitast við að koma í veg fyrir alvarleg áföll.
    Stöðugt verðlag hefur verið valið meginmarkmið peningastefnunnar þar sem verðbólga er fyrst og fremst peningalegt fyrirbrigði. Margt getur valdið tímabundinni verðbólgu. Viðvarandi verðbólga er hins vegar afleiðing ófullnægjandi aðhalds í peningamálum. Til langs tíma hefur stefnan í peningamálum því áhrif á verðlag en síður á hagvöxt og atvinnu. Þar sem seðlabankar hafa í aðalatriðum aðeins eitt stjórntæki, þ.e. vexti, og geta því aðeins náð einu þjóðhagslegu markmiði til langs tíma er eðlilegt að meginmarkmið peningastefnunnar sé stöðugt verðlag. Þetta þýðir ekki að markmiðið um stöðugt verðlag sé mikilvægara en t.d. markmið um fulla atvinnu, heldur einfaldlega að það sé í eðli hinna peningapólitísku stjórntækja að þau henti betur til að hafa áhrif á verðlag. Tilgangslítið er að setja peningastefnunni markmið sem hún getur ekki náð. Reynsla gefur einnig til kynna að slík markmiðssetning geti leitt til verri árangurs í stjórn peningamála en ella. Með verðstöðugleika geta peningamálin með framsýnni stefnumótun lagt sitt af mörkum til að stuðla að stöðugu efnahagsumhverfi sem er undirstaða vaxtargetu hagkerfisins til langs tíma.
    Að sama skapi hefur skilningur vaxið á nauðsyn þess að festa stefnu verðstöðugleika í lög. Með því ávinnst það að mun erfiðara verður að bregða út af stöðugleikastefnu í peningamálum fyrir skammtímahagsmuni. Heppilegast til þess að ná þessu markmiði hefur gjarnan verið talið að gefa seðlabönkum með formlegum hætti fullt og óskorað vald til þess beita stjórntækjum sínum í því skyni að ná meginmarkmiðinu um stöðugt verðlag. Bankarnir þurfi ekki að hlíta fyrirskipunum ríkisstjórnar eða ráðherra um aðgerðir í peningamálum sem ganga gegn því markmiði.
    Ekki felst í þessu að seðlabanki taki einn ákvörðun um hvert eigi að vera hið endanlega markmið peningastefnunnar. Sú ákvörðun er betur komin í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar að því tilskildu að markmiðin sem kjörin stjórnvöld setja seðlabankanum séu þannig að þeim verði náð með stjórntækjum hans og að þau séu sett fyrir opnum tjöldum.
    Segja má að fyrsta skref í aðlögun gengisstefnunnar frá harðri fastgengisstefnu í átt til meiri sveigjanleika hafi verið stigið með víkkun vikmarka gengisstefnunnar í +/.6% haustið 1995. Annað skref var stigið í febrúar 2000 þegar þau voru víkkuð í +/.9%. Í kjölfar breytinganna var genginu leyft að sveiflast innan markanna. Upptaka verðbólgumarkmiðs sem kjölfestu peningastefnunnar og afnám vikmarka yrði af þessum sökum ekki eins róttæk breyting og ef fylgt hefði verið harðri fastgengisstefnu. Af þessu leiðir að afnám vikmarkanna eitt og sér gæfi ekki tilefni til breytinga á gengi krónunnar. Í opnu hagkerfi hefur gengið sterk áhrif á verðlag. Peningastefnan mundi af þeirri ástæðu eftir sem áður þurfa að taka tillit til gengisþróunarinnar.
    Sem fyrr segir hafa auknar kröfur um gagnsæi einnig einkennt breytingarnar á löggjöf seðlabanka víða um heim. Þessi þróun tengist að nokkru almennum kröfum um aukið gagnsæi í opinberri stjórnsýslu en sjónum hefur einnig verið beint sérstaklega að gagnsæi peningamála fyrir mikilvægi stefnunnar í peningamálum almennt og trúverðugleika hennar fyrir hagkerfið í heild. Haustið 1998 voru staðfestar á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins reglur um gagnsæi peningamála sem aðildarlöndin voru eindregið hvött til þess að tileinka sér þótt þau væru ekki skyldug til þess (sjá grein í þriðja hefti ársfjórðungsrits Seðlabankans, Peningamála, árið 2000). Sérstaklega er vikið að gagnsæi peningastefnunnar og kveðið á um að starfsreglur skuli setja um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana bankastjórnar í peningamálum, sbr. 24. gr. og skýringar við hana.
    Breytingarnar sem felast í þessu frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands þýða að meginmarkmið stefnunnar í peningamálum verður hið sama og annars staðar, hliðstæðar kröfur verða gerðar til Seðlabanka Íslands og gerðar eru til annarra seðlabanka um gagnsæi og fagleg vinnubrögð við mótun og framkvæmd stefnunnar í peningamálum, bankanum verður veitt sjálfstæði til þess að beita tækjum sínum til þess að ná meginmarkmiði laganna og fjárhagslegt sjálfstæði hans eykst við að lokað verður í lögum fyrir möguleika ríkissjóðs á fjármögnun í Seðlabankanum. Á alþjóðavettvangi hefur mikið verið lagt upp úr þessum atriðum í mati á löggjöf seðlabanka. Að frumvarpinu samþykktu mundu lögin um Seðlabanka Íslands því líta vel út á þá mælikvarða sem lagðir hafa verið á slík lög á undanförnum árum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Fyrsta málsgrein er efnislega samhljóða 1. gr. núgildandi Seðlabankalaga. 2. mgr. er samhljóða 1. málsl. 2. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. málsl. 2. gr. núgildandi Seðlabankalaga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 3. gr.

    Í þessari grein felast verulegar breytingar frá 3. gr. núgildandi Seðlabankalaga og vísast í því sambandi m.a. til þess sem fram kom í almennum athugasemdum hér að framan. Í núgildandi lögum er Seðlabankanum ætlað margþætt hlutverk. Viðfangsefnin sem þar eru talin upp eru ekki endilega í innbyrðis samræmi og að einhverju leyti falla þau utan hefðbundins verksviðs seðlabanka. Eins og fram kom í almennum athugasemdum hér að framan hefur í breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um seðlabanka ýmissa landa á undanförnum árum nánast án undantekningar falist mikil einföldun á markmiðssetningu bankanna. Verðbólga er fyrst og fremst peningalegt fyrirbrigði sem fyrr segir og stjórntæki seðlabanka duga öðru fremur til þess að hafa áhrif á verðbólgu. Því hefur markmiðið um stöðugt verðlag orðið meginmarkmið seðlabanka flestra iðnríkja auk fjölmargra annarra ríkja. Með stöðugu verðlagi er ekki átt við að verðbólga verði engin heldur að hún verði lítil. Algengt er í iðnríkjunum að stefna að því að hún sé á bilinu 1–3%.
    Önnur markmið, svo sem um fulla atvinnu og hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta, eru jafnan mikilvæg markmið efnahagsstjórnar stjórnvalda. Í frumvarpinu felst hins vegar viðurkenning á því sem lýst er í almennu athugasemdunum að framan að stjórntæki peningamála henta best til þess að hafa áhrif á verðlag. Því er eðlilegt að setja þeim meginmarkmið í þeim efnum fremur en markmið sem stjórntæki þeirra duga illa eða ekki til þess að ná.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. segir að með samþykki ráðherra sé Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Hér er átt við svokallað formlegt verðbólgumarkmið sem nú tíðkast meðal ýmissa seðlabanka, bæði í iðnríkjum og utan þeirra. Með verðbólgumarkmiði er átt við að Seðlabankanum sé sett ákveðið tölulegt markmið um verðbólgu og að hann hafi óheft svigrúm til þess að beita stjórntækjum sínum í því skyni að vinna að því að verðbólgumarkmiðinu sé náð. Í grein eftir Þórarin G. Pétursson sem birtist í fyrsta hefti ársfjórðungsrits Seðlabanka Íslands, Peningamála, árið 2000, sagði m.a.: „Megineinkenni þessa fyrirkomulags eru í fyrsta lagi að verðstöðugleiki er gerður með formlegum hætti að meginmarkmiði stjórnar peningamála. Þannig eru gefin skýr skilaboð um hvar áherslur í stjórnun peningamála liggja og á hvaða kvarða beri að meta frammistöðu seðlabankans. Í öðru lagi er gefin yfirlýsing um að verðbólgu verði haldið innan tiltekinna marka innan ákveðins tímabils. Í þriðja lagi velja stjórnvöld verðbólgumarkmiðið (einhliða eða í samráði við seðlabankann) en seðlabanka viðkomandi lands er veitt frelsi til að ná því markmiði með þeim hætti sem hann telur vænlegast til árangurs. Að lokum er gagnsæi í stjórnun peningamála og upplýsingaflæði frá seðlabankanum til almennings og stjórnvalda aukið. Jafnframt er oft nánari útlistun á því hvernig Seðlabankinn standi reikningsskil gerða sinna.
    Þar sem peningastefnan byggist á verðbólgumarkmiði er ekki um að ræða neitt formlegt millimarkmið, eins og fast gengi eða tiltekinn vöxt peningamagns. Hins vegar má segja að vegna þess lykilhlutverks sem verðbólguspár seðlabankans gegna í stjórn peningamála með formlegu verðbólgumarkmiði sé verðbólguspáin sjálf orðin nokkurs konar millimarkmið stefnunnar. Í reynd virkar stefnan þá þannig að seðlabankinn gerir verðbólguspá miðað við óbreytta stefnu í peningamálum. Sé spáð verðbólga (t.d. til næstu tveggja ára) utan marka verðbólgumarkmiðsins ber seðlabankanum að bregðast við með aðgerðum í peningamálum. Stjórnendur bankans velja síðan þá samsetningu aðgerða sem þeir telja heppilegasta til að ná markmiðum hans.“
    Í greininni segir enn fremur að ýmis lönd hafa valið að taka upp beint verðbólgumarkmið sem kjölfestu peningastefnu seðlabanka sinna. Þeirra á meðal eru Ástralía, Bretland, Kanada, Nýja-Sjáland, Svíþjóð, Tékkland, Ísrael og Brasilía.
    Sem fyrr segir er í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að með samþykki ráðherra geti Seðlabankinn sett tölulegt markmið um verðbólgu. Þetta þýðir að ákvörðun um hið endanlega verðbólgumarkmið sé í höndum ráðherra og að Seðlabankinn fái síðan fullt svigrúm til þess að beita stjórntækjum sínum til þess að ná því markmiði. Með því að taka upp formlegt verðbólgumarkmið sem kjölfestu peningastefnunnar væri stefnt að því að formfesta verðstöðugleika sem meginmarkmið peningastefnunnar. Markmiðið væri einnig að tryggja opnari og skilvirkari stjórn peningamála sem stuðlar að efnahagslegum langtímastöðugleika og hagsæld til frambúðar. Verði sett tölulegt markmið um verðbólgu hér á landi verður um leið skilgreint hvaða verðbólgumælikvarða skuli stuðst við og til hve langs tíma skuli horft við setningu þess.
    Í núgildandi lögum er ákvæði um að bankastjórn Seðlabankans hafi rétt til að lýsa opinberlega verulegum ágreiningi við ríkisstjórnina og skýra skoðanir sínar. Hún skuli engu síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna sem ríkisstjórnin markar nái að lokum tilgangi sínum. Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er þessu breytt og Seðlabankanum gert skylt að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi sem hann telji það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu eins og það er skilgreint í 1. mgr. greinarinnar. Með breytingu á 3. gr. laganna verður óþarft ákvæðið um að bankastjórn hafi rétt til þess að lýsa opinberlega verulegum ágreiningi við ríkisstjórn. Með tímanum hefur sú breyting orðið að Seðlabankinn gerir reglulega, opinberlega og með skömmu millibili grein fyrir mati sínu á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum. Auk þess að lýsa stefnunni í peningamálum og framvindu peningamálanna birtir bankinn mat sitt á öðrum þáttum þjóðarbúskaparins og samspili þeirra við peningamálin.
    Í þessari grein felst að Seðlabankinn hefur sjálfstæði til þess að beita tækjum sínum til að vinna að meginmarkmiðinu um stöðugt verðlag. Verði valin sú leið að setja skilgreint markmið um verðbólgu, þ.e. verðbólgumarkmið, felur greinin í sér að endanleg ákvörðun um hvað það skuli vera verður tekin af ráðherra. Bankinn mun þó taka þátt í mótun markmiðsins og það getur augljóslega ekki stangast á við meginmarkmiðið um stöðugt verðlag. Bankinn tekur hins vegar ákvörðun um hvernig tæki hans skuli notuð til þess að ná því markmiði, sem kann að verða sett, án íhlutunar ráðherra.

Um 4. gr.

    Í 3. gr. núgildandi Seðlabankalaga eru talin upp margvísleg ólík hlutverk bankans. Fremur en að telja upp hin ýmsu viðfangsefni hans er valin sú leið að kveða almennt á um þau og að hann skuli sinna þeim viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Ástæða þykir þó til að tilgreina sérstaklega varðveislu gjaldeyrisvarasjóðs og að bankinn skuli stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Ástæða þess að þessi viðfangsefni eru valin sérstaklega er að þau eru einkar mikilvæg í starfi seðlabanka. Viðfangsefni flestra seðlabanka er að varðveita gjaldeyrisvarasjóð þjóðar sinnar en hlutverk hans er m.a. að tryggja fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Áherslan á virkt og öruggt fjármálakerfi er í samræmi við þá auknu áherslu sem lögð er á það í seðlabönkum flestra landa að stuðla að öryggi fjármálakerfisins, þ.e. að tryggja fjármálastöðugleika. Þetta er vaxandi viðfangsefni í Seðlabanka Íslands og nauðsynlegt þykir að kveða sérstaklega á um það í lögunum. Í þessu felst ekki að bankinn feti sig inn á verksvið Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur hlutverki að gegna sem skilgreint er í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það byggist m.a. á því að fylgjast með því að stofnanir sem sæta eftirliti Fjármálaeftirlits starfi í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda. Athygli Seðlabankans beinist ekki að þessu og síður að einstökum stofnunum en verkefni Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankinn beinir fyrst og fremst sjónum að hinu þjóðhagslega umhverfi fjármálakerfisins og að fjármálakerfinu í heild, styrk þess og veikleikum. Bankinn leitast við að stuðla að öryggi fjármálakerfisins. Greiðslukerfi falla undir þetta viðfangsefni Seðlabankans. Þau eru þó tilgreind sérstaklega, enda einkar mikilvægt að tryggja virka og örugga starfsemi þeirra. Víðast hvar er það svo að seðlabankar gegna þýðingarmiklu hlutverki í greiðslukerfum landa sinna. Þeir eru einnig miðstöð uppgjörs á greiðslum á milli einstakra lánastofnana. Lengi vel var ekki minnst á greiðslukerfi eða greiðslumiðlun í lögum um Seðlabanka Íslands. Ákvæði um að hann skyldi stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd var þó fellt inn í 3. gr. laganna á árinu 1998 eins og þegar hefur verið getið. Þá þegar hafði Seðlabankinn tekið frumkvæðið í að breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi innlendra greiðslukerfa þannig að það uppfyllti kröfur sem almennt eru gerðar til greiðslukerfa í öðrum löndum, ekki síst um öryggi. Það hefur verið gert og nú snemma árs 2001 hillir undir að innlend greiðslukerfi uppfylli allar kröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi til greiðslukerfa. Um þessi mál hefur verið fjallað í ársfjórðungsriti Seðlabankans, Peningamálum, t.d. í 1. og 4. hefti árið 2000.

Um 5. gr.

    Greinin er samhljóða 5. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 6. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Í henni er kveðið á um að Seðlabanki Íslands taki við innlánum frá innlánsstofnunum sem nánar eru skilgreindar í greininni og frá öðrum lánastofnunum. Með öðrum lánastofnunum er hér átt við stofnanir sem starfa samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en banka og sparisjóði, svo og ýmsa opinbera lánasjóði, svo sem Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun, Lánasjóð landbúnaðarins, Lánasjóð sveitarfélaga, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Ferðamálasjóð, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Hafnabótasjóð, Orkusjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Í núgildandi lögum segir að Seðlabankinn megi ákveða að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og frá fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu. Í þeim segir einnig að Seðlabankinn setji nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein. Á grundvelli gildandi laga hefur bankinn kosið að taka við innlánum frá lánastofnunum sem sæta bindiskyldu af hálfu Seðlabankans. Auk innlánsstofnana hefur bindiskylda frá árinu 1998 náð til þeirra annarra lánastofnana sem ekki njóta framlaga á fjárlögum til starfsemi sinnar. Að því er varðar aðrar lánastofnanir en banka og sparisjóði þykir einnig eðlilegt að Seðlabankinn geti átt viðskipti við Íbúðalánasjóð. Á grundvelli þessarar greinar getur bankinn tekið við innlánum frá dótturfyrirtækjum eða útibúum erlendra banka sem kjósa að starfa á Íslandi.

Um 7. gr.

    Fyrri málsgrein þessarar greinar er efnislega samhljóða 7. gr. núgildandi laga um Seðlabankann. Hún felur í sér að bankinn getur veitt þeim stofnunum sem eiga innlánsviðskipti við hann skv. 6. gr. lán með kaupum á verðbréfum eða gegn annarri tryggingu sem bankinn metur gilda. Meginlausafjárviðskipti Seðlabankans við lánastofnanir sem eiga kost á innlánsviðskiptum við bankann fara nú fram með reglulegum uppboðum á svokölluðum endurhverfum verðbréfasamningum. Lánastofnanir sem eiga innlánsviðskipti við bankann eiga einnig möguleika á svokölluðum daglánum. Í öllum þessum viðskiptum krefst Seðlabankinn trygginga af hálfu stofnananna sem felast í markaðsverðbréfaeign þeirra.
    Í 2. mgr. 7. gr. felst nýmæli. Hér er fjallað um það hlutverk seðlabanka sem kallað hefur verið lánveitandi til þrautavara (eða örþrifalánveitandi, á ensku „lender of last resort“). Í gildandi Seðlabankalögum er ekkert ákvæði sem beinlínis kveður á um að Seðlabankanum sé heimilt við sérstakar aðstæður að veita lánastofnunum fyrirgreiðslu umfram þá sem fellur undir regluleg viðskipti. Í málsgreininni segir að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur. Þetta þýðir að þegar bankinn metur það svo að fyrirgreiðsla hans sé nauðsynleg til þess að ekki skapist ótti um öryggi fjármálakerfisins eða möguleiki á keðjuverkun vegna erfiðleika einnar stofnunar geti hann gripið inn í til þess að fleyta viðkomandi stofnun tímabundið yfir þá erfiðleika sem hún kann að hafa ratað í. Sérstaklega er tekið fram að þetta gildi um lausafjárvanda einstakra stofnana. Það þýðir að Seðlabankinn kemur ekki til aðstoðar með sérstakri fyrirgreiðslu til þess að efla eiginfjárstöðu stofnana sem lenda í vanda. Hann veitir með öðrum orðum ekki gjaldþrota lánastofnunum eða stofnunum með eiginfjárstöðu undir löglegum mörkum fyrirgreiðslu til þess að forða þeim frá gjaldþroti eða gera þeim kleift að uppfylla skilyrði laga um lágmarks eigið fé. Í slíkum tilvikum verður að koma til nýtt hlutafé.
    Seðlabankinn má aðeins veita sérstaka fyrirgreiðslu ef sannanlegt þykir að viðkomandi stofnun eigi við lausafjárvanda en ekki eiginfjárvanda að stríða. Fyrirgreiðsla Seðlabankans getur annars vegar falist í því að hann veiti ábyrgð á skuldbindingum þeirra lánastofnana sem í hlut eiga eða veiti þeim lán með sérstökum kjörum og þá hugsanlega gegn öðrum tryggingum en venja er að krefjast í viðskiptum skv. 1. mgr., þ.e. í reglulegum viðskiptum bankans við lánastofnanir. Það verður Seðlabankans að meta tryggingarnar sem hér um ræðir og geta þær m.a. verið önnur skuldabréf í eigu viðkomandi stofnunar en þau sem uppfylla þau skilyrði sem Seðlabankinn hefur sett til reglubundinna viðskipta skv. 1. mgr. eða fasteignir eða aðrar eignir viðkomandi lánastofnunar. Þá getur einnig komið til álita að bankinn krefjist breytinga á starfsemi viðkomandi stofnunar, t.d. breytinga á yfirstjórn, sem skilyrði fyrir fyrirgreiðslu. Erfitt getur reynst að greina á milli lausafjárvanda og víðtækari vanda stofnunar. Þegar upp koma vandamál af því tagi sem ákvæði þessarar málsgreinar beinast að leiðir af sjálfu sér að Seðlabankinn mun eiga náið samstarf og samráð við Fjármálaeftirlitið við lausn þess vanda sem upp kann að hafa komið. Þá verður einnig að gera ráð fyrir því að Seðlabankinn geri ráðherra sérstaklega grein fyrir slíkum tilvikum.
    Þess má geta að ákvæði hliðstæð því sem hér um ræðir eru í lögum fjölmargra seðlabanka og þykja nauðsynleg sem varnagli fyrir fjármálakerfið. Rök sem beint hefur verið gegn því að ákvæði þessa efnis skuli vera í seðlabankalögum eru einkum þau að með því sé skapaður svokallaður freistnivandi (e. „moral hazard“) sem gerir lánastofnanir áhættusæknari en þær mundu ella verða í trausti þess að seðlabanki komi þeim til bjargar ef á bjátar. Vitað er af samskiptum við alþjóðleg fyrirtæki sem meta lánshæfi að þau leggja mikið upp úr skýrum ákvæðum um möguleika seðlabanka til þess að gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara. Meðal annars af þeim sökum er talið eðlilegt að leggja til að það verði fest í lög um Seðlabanka Íslands.

Um 8. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 11. gr. núgildandi Seðlabankalaga og þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 11. gr. núgildandi Seðlabankalaga að öðru leyti en því að í gildandi lögum er óheimilt að framselja verðbréf sem greinin fjallar um til annarra en lánastofnana sem geta átt innlánsviðskipti við bankann. Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir hömlum á framsal þessara verðbréfa. Ástæða þess er sú að hæfa þykir að Seðlabankinn hafi möguleika til þess að gefa út markaðsverðbréf til þess að tryggja greið viðskipti á innlendum verðbréfamarkaði ef skortur verður á framboði verðbréfa annarra útgefenda, svo sem ríkissjóðs.

Um 10. gr.

    Greinin er samhljóða 9. gr. núgildandi Seðlabankalaga að viðbættri heimild til þess að ákveða vexti af verðbréfum sem bankinn gefur út. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 11. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 8. gr. núgildandi Seðlabankalaga ef frá er talin krafa um samþykki ráðherra sem er í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. gildandi laga. Seðlabankinn hefur haft heimild lögum samkvæmt til þess að beita stjórntækjum sínum án þess að kveðið sé á um sérstakt samráð við ráðherra ef frá hefur verið talin bindiskylda. Í frumvarpinu sem hér liggur fyrir er Seðlabankanum tryggt sjálfstæði til þess að beita tækjum sínum og því fylgir að afnumin er kvöðin sem hingað til hefur gilt um að einungis megi leggja bindiskyldu á lánastofnanir að samþykki ráðherra liggi fyrir. Þess má geta að bindiskyldu hefur afar sjaldan verið breytt undanfarin ár. Síðla árs 1993 voru bindihlutföll lækkuð nokkuð í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir sem miðuðu að lækkun vaxta. Snemma árs 1998 var fyrirkomulagi innlánsbindingar breytt og það samræmt því sem þá þegar hafði verið ákveðið fyrir Seðlabanka Evrópu. Enda þótt breytingarnar 1998 hafi verið umfangsmiklar fólst ekki í þeim breyting á heildarfjárhæð bundinna innlána þeirra stofnana sem sætt höfðu innlánsbindingu til þess tíma. Hins vegar var lögð bindiskylda á fleiri stofnanir en áður.
    Þá er sú breyting gerð í 2. mgr. greinarinnar að kveðið er á um að gæta skuli jafnræðis við ákvörðun bindiskyldu þannig að hún valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu á milli þeirra innlendu fyrirtækja sem sæta innlánsbindingu af hálfu Seðlabankans. Í þessu ákvæði felst ekki að innlánsbinding skuli vera hin sama í íslenskum og hliðstæðum erlendum stofnunum.
    Heimilt verður að setja sérstakar reglur um útibú erlendra lánastofnana ef ákvæði í reglum um innlendar lánastofnanir falla illa að þeim, svo sem ef viðmiðun er höfð við stærðir úr samstæðureikningi og þess háttar.

Um 12. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 8. gr. gildandi laga. Hér er á vissan hátt um svokallaðar varúðarreglur að ræða og má færa fyrir því rök að setning þeirra ætti að vera í höndum Fjármálaeftirlitsins. Rétt er þó talið að halda þessu ákvæði í Seðlabankalögunum, enda mikilvægt að Seðlabankinn hafi jafnan eins góða möguleika og kostur er til þess að vaka yfir lausafjárstöðu lánastofnana og kerfisins í heild. Eins og fram kemur í athugasemdum við 34. gr. hafa Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið með sér náið samstarf og samráð. Upplýsingar streyma greiðlega á milli stofnananna á grundvelli samstarfssamnings sem þær hafa gert sín í milli lögum samkvæmt.
    Heimilt verður að setja sérstakar reglur um útibú erlendra lánastofnana ef ákvæði í reglum um innlendar lánastofnanir falla illa að þeim, svo sem ef viðmiðun er höfð við stærðir úr samstæðureikningi og þess háttar.

Um 13. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru samhljóða 4. mgr. 8. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Á vissan hátt gildir hið sama um efni þessarar greinar og um efni 12. gr. sem lýst er hér að framan, þ.e. að um varúðarreglur er að ræða. Eðlilegt þykir þó að setning þeirra og eftirfylgni með þeim sé í höndum Seðlabankans, sérstaklega að því er varðar þær lánastofnanir og annarra sem tekið hafa að sér hlutverk viðskiptavaka á innlendum gjaldeyrismarkaði. Nauðsynlegt er fyrir Seðlabankann að geta daglega fylgst með gjaldeyrisjöfnuði þeirra.
    Heimilt verður að setja sérstakar reglur um útibú erlendra lánastofnana ef ákvæði í reglum um innlendar lánastofnanir falla illa að þeim, svo sem ef viðmiðun er höfð við stærðir úr samstæðureikningi og þess háttar.

Um 14. gr.

    Þessi grein er efnislega samhljóða 1. mgr. 10. gr. núgildandi Seðlabankalaga að öðru leyti en því að hér er tekið fram að Seðlabankinn megi ekki veita ríkissjóði lánafyrirgreiðslu, sbr. 16. gr. Í henni er m.a. kveðið á um að innstæður ríkissjóðs skuli varðveittar í Seðlabankanum nema sérstakt tilefni gefist til annars. Þetta er mikilvægt í hagstjórnarskyni en þó viðurkennt að undir einhverjum kringumstæðum kunni ríkissjóður að vilja eiga innstæður annars staðar og þá væntanlega í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. Seinni málsgrein þessarar greinar er samhljóða 17. gr. núgildandi laga. Í lögum um Lánasýslu ríkisins segir að heimilt sé að semja við Seðlabankann um að hann annist framkvæmd erlendra lánamála, ríkisábyrgða- og endurlánamála, svo og önnur verkefni sem Lánasýslunni eru falin eftir því sem hagkvæmt þykir. Seðlabankinn hefur um áratuga skeið annast erlend lánamál ríkissjóðs í umboði fjármálaráðherra. Á grundvelli laganna um Lánasýslu ríkisins sömdu fjármálaráðherra og Seðlabankinn um að bankinn færi áfram með erlend lánamál ríkissjóðs. Sá samningur var síðast endurnýjaður í apríl 1997.

Um 15. gr.

    Þessi grein er nýmæli. Stjórnvöld skulu veita Seðlabankanum þær upplýsingar um efnahagsmál almennt og sérstaklega um ríkisfjármál, lántökur og greiðsluáætlanir ríkissjóðs sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi bankans. Hér er um það að ræða að Seðlabankinn hafi ætíð undir höndum allar upplýsingar um efnahagsmál, ekki síst fjármál ríkissjóðs, sem áhrif geta haft á mat hans á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum sérstaklega og á þörf fyrir aðgerðir af hans hálfu. Mikilvægt er að bankinn sé ætíð vel upplýstur um ríkisfjármál og annað í störfum ríkisstjórnar sem áhrif getur haft á ákvarðanir hans í peningamálum.

Um 16. gr.

    Veigamikil breyting er gerð frá ákvæðum núgildandi Seðlabankalaga. Seðlabankanum verður óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum, öðrum en lánastofnunum, lán. Í 2. mgr. 10. gr. núgildandi Seðlabankalaga segir að bankanum sé „heimilt að veita ríkissjóði lán til skamms tíma. Skulu slík lán greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárhagsárs með lántöku eða annarri fjáröflun utan Seðlabankans.“ Óheftur aðgangur ríkissjóðs að fyrirgreiðslu í Seðlabankanum átti án efa sinn þátt í óstöðugleika og mikilli verðbólgu sem hér ríkti fram undir lok níunda áratugarins.
    Á árinu 1992 var gerður samningur á milli fjármálaráðherra og Seðlabanka Íslands um að ríkissjóður hætti að yfirdraga reikninga sína í Seðlabankanum og mundi þaðan í frá mæta fjárþörf sinni með uppboðum á ríkisverðbréfum á markaði. Þessi samningur hefur verið endurnýjaður þrisvar síðan og á sinn þátt í að hér á landi tókst að skapa þann stöðugleika sem ríkti á síðasta áratug liðinnar aldar. Við endurskoðun seðlabankalaga víða um heim á undanförnum árum hefur ein meginbreytingin falist í því að loka fyrir aðgang ríkissjóðs að seðlabönkum þar sem hann hefur á annað borð verið til staðar. Þetta er mikilvægur þáttur í að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði seðlabankanna og stuðla að eðlilegri vaxtamyndun í landinu auk þess að koma í veg fyrir þensluhvetjandi fjármögnun á fjárþörf ríkissjóðs. Með þessari breytingu yrði staðfestur í lögum sá mikilvægi áfangi sem náðist með samkomulagi fjármálaráðherra og Seðlabankans á árinu 1992 og Seðlabankalögin að þessu leyti færð í sama horf og í flestum eða öllum öðrum iðnríkjum auk fjölda annarra ríkja.
    Í 2. mgr. þessarar greinar er þó kveðið á um að Seðlabankinn megi kaupa á verðbréfamarkaði verðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum til þess að ná markmiðum sínum í peningamálum. Kaup á verðbréfum þessara aðila með þessum hætti skulu ekki teljast lán samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Verðbréf útgefin af ríkissjóði mynda gjarnan kjölfestu á verðbréfamörkuðum þjóðlanda og mynda um leið grundvöll fyrir hvers konar viðskipti seðlabanka og afskipti þeirra af mörkuðum í því skyni að vinna að meginmarkmiðum sínum í peningamálum.

Um 17. gr.

    Fyrsti málsliður greinarinnar er efnislega samhljóða 1. málsl. 12. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Í 2. málsl. er kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi, verðbréfaskráningar og greiðslukerfa. Í þessu felst m.a. að Seðlabankanum sé heimilt að eiga hlut í Verðbréfaþingi Íslands, Reiknistofu bankanna, Fjölgreiðslumiðlun hf. og í verðbréfamiðstöðvum sem starfa samkvæmt lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Heimildin nær einnig til eignaraðildar bankans að Bank for International Settlements í Basel í Sviss. Fyrri málsliður 2. mgr. er efnislega samhljóða 2. málsl. 12. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Hér er þó einnig kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður hefur gefið út.

Um 18. gr.

    Framsetning þessarar greinar er töluvert einfaldari en hliðstætt ákvæði í 15. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Greinin felur í sér að Seðlabankinn versli með erlendan gjaldeyri, hafi milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og stundi önnur erlend viðskipti sem samrýmast markmiðum og hlutverki bankans.
    Í 2. mgr. segir að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ráðherra hvaða stefna skuli gilda um ákvörðun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Þetta er í samræmi við núgildandi Seðlabankalög en ber einnig að skilja í samræmi við meginmarkmið bankans eins og því er lýst í 3. gr. frumvarpsins; gengisstefnan getur ekki orðið önnur en sú sem samrýmist meginmarkmiði stefnunnar í peningamálum. Gengisstefnan getur m.a. falist í fastgengisstefnu gagnvart einum gjaldmiðli eða „körfu“ gjaldmiðla, með eða án vikmarka. Hún getur einnig falist í sveigjanlegri gengisstefnu, eða gengisfloti, sem fara mundi saman við val á verðbólgumarkmiði sem kjölfestu peningastefnunnar á grundvelli 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Seðlabankinn setji reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða og að þegar sérstaklega standi á geti bankinn tímabundið takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulegum gjaldeyrismörkuðum. Með skipulegum gjaldeyrismarkaði er átt við heildsölumarkað sem byggist á þátttöku viðskiptavaka með þeim réttindum og skyldum sem kveðið verður á um í reglum. Ákvæði af þessu tagi er nauðsynlegt því að þær aðstæður geta skapast að Seðlabankinn telji að ekki verði hjá því komist að takmarka viðskipti, a.m.k. um stundarsakir. Aðstæður sem hér um ræðir eru m.a. þær að erlend staða Seðlabankans verði fyrir skyndilegum skakkaföllum.

Um 19. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru efnislega samhljóða ákvæðum í V. kafla núgildandi Seðlabankalaga og þarfnast ekki frekari skýringa annarra en þeirra að tilefni til þess að fella niður gengisskráningu getur verið hið sama og greint er í niðurlagi skýringar við 18. gr.

Um 20. gr.

    Hér er kveðið á um að Seðlabankinn skuli varðveita gjaldeyrisvarasjóð í samræmi við markmið og hlutverk bankans. Ákvæði greinarinnar eru einfölduð frá ákvæðum hliðstæðra greina í núgildandi Seðlabankalögum. Þá felst sú breyting í orðalagi greinarinnar að kveðið er á um að bankastjórn skuli setja starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins og að bankaráð skuli staðfesta þær.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að taka lán til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Slík heimild er í núgildandi Seðlabankalögum og krefst hún ekki frekari skýringa. Þá er tekið fram að Seðlabankanum sé heimilt að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra banka og fjármálastofnana um lánveitingar til að efla gjaldeyrisvarasjóð þátttakenda. Ákvæði þessa efnis er ekki í núgildandi Seðlabankalögum en eðlilegt þykir að Seðlabankanum sé gert kleift að taka þátt í alþjóðlegum samningum af þessu tagi líkt og seðlabönkum flestra eða allra nágrannalandanna.

Um 21. gr.

    Greinin er að hluta til samsvarandi ákvæðum í V. kafla núgildandi Seðlabankalaga. Bankinn getur m.a. átt samskipti við stofnanir á borð við Alþjóðabankann, Efnahags- og framfarastofnunina OECD og aðrar stofnanir á starfssviði hans. Kveðið er sérstaklega á um að Seðlabankanum sé jafnframt heimilt að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum en um getur í 2. mgr., enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka.

Um 22. gr.

    Greinin er samhljóða 21. gr. núgildandi Seðlabankalaga.

Um 23. gr.

    Við skipun í embætti er almenna reglan að skipa í embætti til fimm ára í senn og ekki eru takmarkanir á því hversu oft megi skipa sama mann í embættið. Frá þessari reglu er vikið í frumvarpinu og gert ráð fyrir að bankastjórar Seðlabankans verði skipaðir til sjö ára í senn og að ekki verði heimilt að skipa þá oftar en tvisvar eða samtals í fjórtán ár. Með því móti er leitast við að tryggja stöðugleika í starfsemi bankans en jafnframt að hæfileg endurnýjun verði í yfirstjórn bankans. Álitið er að jafnvægi verði milli nauðsynlegs stöðugleika og endurnýjunar með þessum hætti. Formaður bankastjórnar er skipaður af ráðherra. Í því felst breyting frá núgildandi Seðlabankalögum sem kveða á um að bankastjórn kjósi formann úr sínum hópi til þriggja ára í senn. Bankastjóra sem endurskipaður hefur verið í embætti, þ.e. hefur verið bankastjóri í meira en sjö ár, má skipa formann bankastjórnar til sjö ára frá gildistökudegi skipunarinnar að telja. Þannig er fræðilega mögulegt að sami maður geti verið bankastjóri í allt að 21 ár, bankastjóri í allt að fjórtán ár og formaður bankastjórnar í sjö ár. Í nefndinni sem samdi frumvarpið var nokkuð rætt hvort breyta ætti stöðuheitum á þann veg að oddviti bankastjórnar yrði kallaður aðalbankastjóri en ekki formaður bankastjórnar. Ekki var efnislegur munur á þeim skilningi sem lagður var í hvort heiti um sig og niðurstaðan varð sú að halda því síðarnefnda.
    Mikilvægt er að bankastjórn sé jafnan fullskipuð, þ.e. að skipað sé í lausar stöður án ástæðulauss dráttar. Ella getur sú staða komið upp að ákvörðunarvald í peningamálum sé alfarið í höndum formanns bankastjórnar. Því er í greininni gert ráð fyrir að forsætisráðherra geti sett bankastjóra tímabundið ef bankastjóri forfallast um stundarsakir eða hverfur fyrirvaralaust úr starfi, svo sem við andlát. Þetta gildir jafnt um formann bankastjórnar sem aðra bankastjóra.
    Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins munu áfram gilda um allt það sem varðar bankastjóra Seðlabanka Íslands og ekki er sérstaklega ákveðið að hafa með öðrum hætti. Gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins því m.a. um brottvikningu bankastjóra. Vísað er til þess að ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eins og það er nú gildi ekki um endurskipun bankastjóra.
    Rétt þykir að kveða á um að undirskrift tveggja bankastjóra þurfi til að skuldbinda bankann, enda er yfirstjórn bankans í höndum þriggja einstaklinga og því þurfi meiri hluta þeirra til að staðfesta skuldbindingar bankans.

Um 24. gr.

    Staða formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands verður sérstakt embætti með þessum lögum og er hlutverk hans að vera talsmaður bankans, stýra fundum bankastjórnar og annað sem kann að felast í slíku oddvitahlutverki. Bankastjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum, þar á meðal um hvor bankastjóranna gegnir störfum staðgengils formanns bankastjórnar. Á fundum bankastjórnar er fjallað um öll mál sem varða starfsemi bankans og ákvarðanir teknar um málefni hans nema öðrum sé falið ákvörðunarvald samkvæmt lögunum. Afl atkvæða í bankastjórn ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Ef aðeins tveir bankastjórar eru á fundum bankastjórnar ræður atkvæði formanns ef ágreiningur er um afgreiðslu mála.
    Ákvarðanir sem teknar eru á fundum bankastjórnar skulu skráðar með viðeigandi hætti og staðfestar með áritun bankastjórnar. Til þess að tryggja að ætíð séu viðhöfð bestu fagleg vinnubrögð við mótun og framkvæmd peningastefnunnar, í ljósi ákvæðanna um meginmarkmið stefnunnar skv. 3. gr., þykir rétt að festa í lög ákvæði um að sérstakar starfsreglur gildi um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana bankastjórnar í peningamálum. Hér er t.d. átt við verkferli sem gilda við undirbúning ákvarðana, við hvaða upplýsingar skuli stuðst og eftir atvikum hvaða embættismenn bankans aðrir en bankastjórar taki þátt í því ferli þótt á endanum sé það bankastjórn sem formlega tekur ákvörðun. Mikilvægt er einnig að gera skýra grein fyrir ákvörðunum bankastjórnar, sérstaklega þeim sem varða beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Þær skal birta opinberlega þannig að skýrt sé á hvaða forsendum þær byggjast og hvað í þeim felst. Með ákvæðum þessarar greinar er leitast við að tryggja að ákvarðanir bankastjórnar séu ætíð reistar á eins faglegum grunni og kostur er, að peningastefnan sé gagnsæ og að bankastjórn standi reikningsskil gerða sinna gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Greinin felur ekki í sér kvöð um að bankastjórn skuli birta frásagnir af umræðum á fundum þegar ákvarðanir í peningamálum eru teknar eða afstöðu einstakra bankastjóra.
    Í nefndinni sem samdi frumvarpið var rætt hvort kveða skyldi á um sérstaka peningastefnunefnd sem í sætu fleiri en bankastjórar sem færi með ákvörðunarvald í peningamálum. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki heldur að fela bankastjórn ákvörðunarvaldið en jafnframt að fela henni að setja starfsreglur um ákvörðunarferil peningamála sem lýst er í málsgreininni hér að framan.

Um 25. gr.

    Efni þessarar greinar svarar til 2. mgr. 28. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Með þessu ákvæði er lögfest að bankastjórum og formanni bankastjórnar er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Telja verður eðlilegt að bankastjórn setji reglur um þetta efni gagnvart öðrum helstu yfirmönnum bankans og öðrum starfsmönnum. Ætla verður að ákvæði um þetta efni verði í ráðningarsamningi þeim er bankaráð gerir við forstöðumann endurskoðunardeildar telji bankaráð ástæðu til þess.
    Rísi ágreiningur um efni þessarar greinar gagnvart bankastjórum þykir eðlilegt að ráðherra skeri úr. Gagnvart öðrum starfsmönnum bankans er það bankastjórnar að skera úr.
    Ákvæði þessarar greinar ber að túlka þröngt þannig að bankastjórar sitji ekki í stjórn stofnana eða atvinnufyrirtækja utan bankans eða taki þátt í atvinnurekstri nema slíkt sé sérstaklega boðið í lögum.

Um 26. gr.

    Lagt er til að bankaráðsmönnum verði fjölgað úr fimm í sjö. Þessi breyting er í samræmi við eflt eftirlitshlutverk bankaráðsins. Hún tryggir breiðari samsetningu þess og að fleiri sjónarmið komist að við umfjöllun í bankaráði. Þótt hlutverk bankaráðsins sé skilgreint í lögunum og þar komi fram hvaða atriði það eru sem bankaráðinu ber að fjalla um og taka ákvarðanir um er engu síður ástæða til að á fundum bankaráðs verði fjallað um mál sem eru til athugunar hjá bankastjórn, sérstaklega varðandi stefnuna í peningamálum.
    Þriðji málsliður 1. mgr. er nýjung. Telja verður óeðlilegt vegna hættu á hagsmunaárekstrum og aðgangs að trúnaðarupplýsingum um samkeppnisaðila að stjórnendur og starfsmenn lánastofnana og þeirra fjármálastofnana sem Seðlabankinn á viðskipti við sitji í bankaráði Seðlabankans. Því er lagt til að óheimilt verði að kjósa þá í bankaráðið.
    Fjórði málsliður 1. mgr. er einnig nýjung. Rétt þykir að tilgreina að umboð bankaráðs gildi þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið til að tryggja að Seðlabankinn verði ekki án bankaráðs.
    Í þessari málsgrein er einnig tekið fram að varamaður taki sæti aðalmanns sem látið hefur af störfum þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins. Rétt þykir að hafa skýrt ákvæði af þessu tagi í lögunum. Gert er ráð fyrir að nýtt bankaráð verði kjörið í upphafi hvers kjörtímabils.
    Fram að þessu hefur ráðherra skipað formann og varaformann bankaráðs úr hópi kjörinna aðalmanna. Eftirleiðis er gert ráð fyrir að bankaráðið kjósi sér sjálft formann og varaformann og skal kosningin gilda fyrir kjörtímabil ráðsins. Fela má formanni bankastjórnar að kalla nýkjörið bankaráð saman til fyrsta fundar og stjórna kjöri formanns bankaráðs.

Um 27. gr.

    Þessi grein samsvarar 3. mgr. 31. gr. og 32. gr. núgildandi Seðlabankalaga. Lagt er til að í stað núgildandi ákvæðis um að bankaráð haldi fundi eftir þörfum en að jafnaði eigi sjaldnar en hálfsmánaðarlega komi ákvæði þess efnis að formaður bankaráðs kalli bankaráð saman til fundar án þess að getið sé um lágmarkstíðni funda. Telja verður eðlilegt að bankaráð setji sér sjálft slíkar reglur ef þörf krefur. Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um að atkvæði formanns ráði úrslitum ef atkvæði falla jafnt á fundum bankaráðs. Einnig er lagt til að lögfest verði að halda skuli gerðabók á fundum bankaráðs.
    Ekki er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um þátttöku annarra starfsmanna bankans en bankastjóra á fundum bankaráðs. Bankaráð getur þó ákveðið að tilgreindir starfsmenn bankans sitji reglulega fundi ráðsins og kallað aðra til eftir því sem tilefni gefst til.

Um 28. gr.

    Í þessari grein eru talin upp verkefni bankaráðs. Ákvæði þar að lútandi er að finna á víð og dreif í núgildandi Seðlabankalögum, svo sem 2. mgr. 13. gr., 25. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 28. gr., 29. gr., 31. gr. og 34. gr. Einnig eru talin upp fjölmörg verkefni bankaráðs í reglugerð fyrir bankann.
    Víða í frumvarpinu er vísað til ákvarðana sem Seðlabankinn skal taka eða tillagna sem hann skal gera. Sé ekki tekið fram í þessari grein að bankaráð hafi ákvörðunarvald á því sviði ber að líta svo á að ákvörðunarvaldið eða tillögurétturinn sé í höndum bankastjórnar.
    Í 1. málsl. greinarinnar er tekið fram að bankaráð hafi eftirlit með starfsemi bankans. Það ber að skilja þannig að bankaráði, sem er kjörið af Alþingi, sé falið að veita rekstri og starfsemi hans aðhald og sinna eftirliti af hálfu löggjafarvaldsins auk annarra verkefna sem eru nánar tilgreind í þessari grein. Þá er í 2. málsl. kveðið á um að bankastjórn skuli upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur. Í því felst m.a. að fara yfir mat bankastjórnar á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum og forsendur ákvarðana og ákvarðanir í peningamálum og ganga úr skugga um að ætíð sé unnið á faglegum grunni. Því er ætlast til að bankaráð fjalli um stefnu bankans í peningamálum þótt það taki ekki ákvarðanir um hana. Auk þess fylgist bankaráð með öðrum þáttum í starfsemi bankans.
    Í a–n-liðum eru síðan talin upp verkefni sem bankaráði er sérstaklega ætlað að sinna.
    Ákvæði a-liðar ber að túlka þannig að bankaráð verði að staðfesta skipurit bankans en ekki önnur atriði í stjórnskipulagi hans eins og starfslýsingar einstakra starfsmanna.
    Bankaráði ber samkvæmt ákvæði b-liðar að ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. formanns bankastjórnar. Auk ákvörðunar um laun og hlunnindi sem fylgja starfinu þarf bankaráð að ákveða hvaða rétt bankastjórar hafa til biðlauna og eftirlauna og hvernig með skuli farið við starfslok. Þannig kann í einhverjum tilvikum að vera ástæða til að kveða sérstaklega á um fyrirkomulag eftirlauna bankastjóra sem láta af starfi áður en þeir komast á eftirlaun frá þeim lífeyrissjóði sem þeir eiga aðild að.
    Í c-lið er kveðið á um að bankaráð skuli hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða aðalendurskoðanda. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast hefur í Seðlabankanum og í öðrum bönkum og fjármálastofnunum. Bankaráðið hefur með höndum eftirlit með starfsemi bankans og því er rökrétt að innri endurskoðun fari fram á þess vegum. Eins og fram kemur í 33. gr. annast Ríkisendurskoðun einnig endurskoðun hjá Seðlabankanum.
    Samkvæmt ákvæði d-liðar skal bankaráð staðfesta reglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum. Eins og fram kemur í skýringum við 24. gr. er þetta mikilvægur þáttur í að tryggja fagleg vinnubrögð og gagnsæi stefnunnar í peningamálum.
    Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um hverjum sé heimilt að skuldbinda bankann og er í e-lið kveðið á um að reglur um slíkt sem settar eru innan bankans skuli staðfestar af bankaráði.
    Þótt gerð kjarasamninga teljist hluti daglegrar stjórnunar á rekstri bankans og því í höndum bankastjórnar að standa að þeim er um að ræða svo viðamikinn þátt í rekstri að eðlilegt telst að bankaráð þurfi að staðfesta gerð slíkra samninga, sbr. f-lið. Þá eru reglur er lúta að lífeyrismálum starfsmanna af sama tagi.
    Í g-, i-, j- og k-liðum eru skilgreind verkefni bankaráðs varðandi áætlun um rekstur, reikningsskil og ráðstöfun eigna.
    Bankaráðið skal skv. h-lið veita forsætisráðherra umsögn um reglugerð um framkvæmd einstakra þátta laganna. Bankaráðið þarf að þekkja vel til starfsemi bankans á hverjum tíma og er því viðeigandi til samráðs fyrir setningu frekari reglna um starfsemi bankans.
    Seðlabanka Íslands verður skv. 37. gr. heimilt að beita lánastofnanir viðurlögum í formi dagsekta, sem ákveðnar eru af bankastjórn með samþykki bankaráðs, hlíti þær ekki reglum bankans um bindiskyldu, laust fé eða gjaldeyrisjöfnuð. Hér er átt við að bankastjórn setji reglur um viðurlög sem bankaráð skal staðfesta en ekki að bankaráð skuli fjalla um einstök tilvik þegar viðurlögum er beitt. Í l-lið er bankaráði falið að staðfesta reglur um viðurlög.
    Í 25. gr. frumvarpsins er kveðið á um að bankastjórum sé almennt óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri. Ekki er þörf á að setja svo skýrt lagaákvæði um aðra starfsmenn bankans en fela bankaráðinu þess í stað að setja reglur þar um.
    Seðlabankinn skal varðveita gjaldeyrisvarasjóð í samræmi við markmið og hlutverk bankans. Skv. 20. gr. frumvarpsins skal bankastjórn setja starfsreglur um varðveislu hans. Í n-lið er bankaráði falið að staðfesta slíkar starfsreglur.

Um 29. gr.

    Í VI. kafla frumvarpsins er sameinað efni sem fjallað er um í IV. og VI. kafla núgildandi Seðlabankalaga. Upplýsingaöflun er mjög þýðingarmikil í starfi Seðlabankans, bæði til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. og 4. gr. og til hagskýrslugerðar. Hagskýrslugerðin nær til allra þátta sem varða peningamál, greiðslujöfnuð við útlönd og gengis- og gjaldeyrismál. Því er mjög brýnt að heimildir bankans í þessum efnum séu rúmar og skýrar og að heimilt sé að beita viðurlögum ef upplýsingaskylda er vanrækt, líkt og t.d. er kveðið á um í lögum um hagfræðiskýrslur.

Um 30. gr.

    Seðlabanki Íslands skal gera skýrslur og áætlanir um peningamál, greiðslujöfnuð, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bankans varðar. Ekki er aðeins ætlast til þess að bankinn sinni þessu hlutverki heldur einnig að hann geri opinberlega grein fyrir stefnu sinni í peningamálum og fyrir þróun peningamála, gengis- og gjaldeyrismála og aðgerðum sínum á þeim sviðum. Þessi kvöð þykir sjálfsögð í seðlabankalöggjöf nú til dags. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið hefur víða um lönd verið lögð mjög rík áhersla á að auka gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, ekki síst í mótun og framkvæmd peningastefnu. Ákveðnar leiðbeiningarreglur í þessum efnum voru samþykktar á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 1998 og er eindregið mælt með að seðlabankar aðildarlanda sjóðsins tileinki sér þær í hvívetna. Þær fela m.a. í sér það sem kveðið er á um í þessari grein, þ.m.t. að gefa út ársskýrslu þar sem ítarlega er gerð grein fyrir starfsemi bankans.
    Í greininni er sett kvöð á Seðlabankann að standa reikningsskil (e. „accountability“) gerða sinna. Það er liður í auknum gagnsæiskröfum að seðlabankar geri sem rækilegasta grein fyrir stefnu sinni í peningamálum, forsendum ákvarðana, mati á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum sem lagt er til grundvallar stefnumótun hans og síðast en ekki síst ýmsum þáttum í starfi bankans öðrum en þeim sem snerta endilega peningastefnuna beint. Þessu viðfangsefni sinnir Seðlabanki Íslands nú með útgáfu ársfjórðungsritsins Peningamála þar sem hann gerir grein fyrir stefnu sinni, aðgerðum og mati á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum. Í ársskýrslu sinni gerir bankinn svo grein fyrir ýmsum þáttum í starfsemi sinni. Þá hafa bankastjórn og aðrir yfirmenn bankans jafnan verið reiðubúnir að skýra opinberlega stefnu og markmið bankans. Enda þótt þessi háttur sé við hafður nú þegar þykir sjálfsagt að lögfesta kröfu um upplýsingaskyldu bankans með þeim hætti sem hér er gert.

Um 31. gr.

    Seðlabanki Íslands skal stunda hagrannsóknir sem lúta að viðfangsefnum hans á sviði peningamála og fjármálakerfis. Með rökum má eflaust halda því fram að ákvæði af þessu tagi sé óþarft í lögum um Seðlabankann. Hins vegar þykir ástæða til þess að leggja áherslu á þetta viðfangsefni og þá skyldu Seðlabankans að sinna hagrannsóknum á verksviði sínu. Þá er í greininni jafnframt kveðið sérstaklega á um heimild bankans til þess að stuðla að rannsóknum annarra á þessum sviðum, t.d. háskóla og stofnana þeirra.

Um 32. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 31. gr. gildandi Seðlabankalaga ef frá er talið að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð ársreiknings skuli lokið innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs í stað tveggja samkvæmt núgildandi lögum. Ástæða þessa er sú að í 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um tengingu eigin fjár Seðlabankans við niðurstöðutölu úr reikningsuppgjöri lánakerfisins í lok næstliðins árs. Það uppgjör liggur jafnan ekki fyrir fyrr en í byrjun þriðja mánaðar ársins á eftir. Ákvæði 2. mgr. um að ráðherra setji nánari reglur um reikningsskil og ársreikning að fengnum tillögum Seðlabankans er efnislega samhljóða ákvæðum núgildandi laga.

Um 33. gr.

    Hér er kveðið á um að innri endurskoðun í Seðlabanka Íslands skuli vera í höndum aðalendurskoðanda, sbr. 28. gr. Auk þess annist Ríkisendurskoðun endurskoðun hjá Seðlabankanum. Gengið er út frá því að aðalendurskoðandi sé löggiltur endurskoðandi. Í þessari málsgrein felst sú breyting frá 29. gr. núgildandi Seðlabankalaga að fellt er niður ákvæði um að auk þess skuli endurskoðun hjá Seðlabankanum framkvæmd af skoðunarmanni, löggiltum endurskoðanda, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Endurskoðun hjá bankanum verður þá með sama hætti og hjá öðrum stofnunum ríkisins. Eins og í gildandi lögum er aðalendurskoðandi, sem stýrir innri endurskoðun bankans, ráðinn af bankaráði og heyrir beint undir það, sbr. ákvæði 28. gr. Ríkisendurskoðun hefur annast endurskoðun hjá Seðlabankanum og verður ekki séð að sérstakur skoðunarmaður sé nauðsynlegur til þess að tryggja fullnægjandi endurskoðun. Ríkisendurskoðun hefur það jafnan í hendi sér að fela sjálfstætt starfandi endurskoðanda fyrir sína hönd endurskoðun hjá Seðlabankanum.
    Að öðru leyti er greinin efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga ef frá er talið að ekki er lengur kveðið á um að bankinn skuli birta mánaðarlegt efnahagsyfirlit í Lögbirtingablaðinu.

Um 34. gr.

    Í 33. gr. núgildandi Seðlabankalaga er kveðið á um að árlega skuli helmingur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára, að frádregnu framlagi í arðsjóð skv. 2. mgr., greiddur í ríkissjóð. Í 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að árlega skuli fjárhæð sem svarar til tveggja þriðju hluta hagnaðar Seðlabankans á liðnu reikningsári greidd í ríkissjóð. Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að hærra hlutfall af hagnaði Seðlabankans skuli greitt í ríkissjóð en gert hefur verið samkvæmt núgildandi Seðlabankalögum. Í 2. mgr. er hins vegar kveðið á um að þrátt fyrir þetta skuli Seðlabankinn aðeins greiða þriðjung hagnaðar síns í ríkissjóð ef eigið fé hans í lok reikningsársins svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins í lok ársins. Með útlánum og innlendri verðbréfaeign lánakerfisins er átt við þá stærð sem birtist í skýrslum Seðlabankans sem m.a. eru birtar í ritum bankans og í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans. Þar nær lánakerfið til Seðlabankans, innlánsstofnana, annarra lánastofnana, sbr. athugasemdir við 6. gr., lífeyrissjóða, tryggingafélaga, lána ríkisins og útlanda, þ.e. lána frá útlöndum. Miðað við uppgjör reikninga lánakerfisins í lok ársins 2000 þyrfti eigið fé bankans að vera 36,4 milljarðar króna. Miðað skal við þær upplýsingar sem fyrir liggja við uppgjör reikninga bankans og skal eiginfjárviðmiðuninni ekki breytt þótt þær kynnu að breytast síðar. Viðmiðun við þessa heildarstærð úr reikningum lánakerfisins er valin þar sem hún gefur vísbendingu um umfang fjármálakerfisins sem þykir eðlileg viðmiðun í þessu samhengi.
    Ástæða þess að greinin er útfærð á þennan hátt er sú að nauðsynlegt þykir að tryggja að Seðlabankinn búi jafnan yfir ákveðnu lágmarks eigin fé til þess að hafa styrk til þess að gegna hlutverki sínu. Sem stendur er eigið fé bankans lægra en viðmiðunin segir til um og því nauðsynlegt að efla eiginfjárstöðuna. Ástæður þessa eru m.a. að talið er nauðsynlegt að eigið fé Seðlabankans sé nægilega mikið til þess að ávöxtun þess geti staðið undir rekstrarkostnaði bankans. Auk rekstrarfjár þarf bankinn á fé að halda til þess að framfylgja markmiðum sínum í verðlagsmálum og að því er varðar fjármálastöðugleika. Rök hníga til þess að sterk tengsl séu á milli eiginfjárþarfar seðlabanka og þeirrar gengis- og vaxtaáhættu sem hann býr við. Seðlabanki Íslands býr við mikla gengisáhættu vegna eignasamsetningar sinnar auk þess sem hlutfall seðla og myntar af heildareignum bankans er mjög lágt miðað við það sem gerist hjá öðrum seðlabönkum. Talið er nauðsynlegt, í ljósi sveiflna sem verða í umhverfi Seðlabankans, að hann hafi yfir nægilega rúmri eiginfjárstöðu að ráða til þess að geta tekist af fullnægjandi afli á við sveiflur á mörkuðum, t.d. í líkingu við þær sem urðu á gjaldeyrismarkaði á miðju ári 2000. Engar algildar reglur eða viðmiðanir eru til um eigið fé seðlabanka. Þó má fullyrða að vegna smæðar hagkerfisins og sveiflna í umhverfinu þurfi Seðlabanki Íslands að ráða yfir sterkari eiginfjárstöðu en seðlabankar í stærri ríkjum sem ekki sæta sömu sveiflum og verða hér á landi. Í lok ársins 2000 var eigið fé Seðlabankans 21,7 milljarðar króna. Til þess að ávöxtun þess nægi til að standa straum af rekstrarkostnaði bankans þyrfti eigið fé að vera 24–25 milljarðar króna og til þess að Seðlabankinn sé undir það búinn að mæta sveiflum sem fyrirvaralaust geta orðið í gjaldeyrisforðanum og á innlendum mörkuðum má færa rök fyrir því að eigið fé hans þyrfti að auka til viðbótar um a.m.k. 10 milljarða króna. Lágmarks eigið fé Seðlabankans ætti samkvæmt því að vera um 35 milljarðar króna.
    Nefnd sem samdi frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands sem rætt var á Alþingi 1992 en hlaut ekki afgreiðslu varð sammála um að leggja til að eigið fé bankans í lok reikningsárs skyldi ekki vera lægra en 6% af vergri landsframleiðslu ársins á undan. Væri eigið fé undir þessum mörkum greiddist fjórðungur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára í ríkissjóð, annars hagnaðurinn að fullu. Í greinargerð með því frumvarpi sagði m.a. að æskileg stærð gjaldeyrisvarasjóðs réðist einkum af tvennu: annars vegar mikilvægi utanríkisviðskipta fyrir þjóðarbúið og hins vegar hvort víðtækar hömlur gildi um fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Athuganir sýndu að eigið fé Seðlabankans væri lægra í hlutfalli við verga landsframleiðslu en eigið fé seðlabanka annars staðar á Norðurlöndum að Finnlandi undanskildu. Utanríkisviðskipti Íslands væru hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en annars staðar á Norðurlöndum. Það kallaði því á hlutfallslega stærri gjaldeyrisvarasjóð hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt hefði markvisst verið dregið úr hömlum á fjármagnshreyfingum síðan 1990 og innan nokkurra ára mætti búast við því að þær hefðu horfið að fullu. Aukið frelsi í gengis- og gjaldeyrismálum leiddi væntanlega til meiri sveiflna í gjaldeyriskaupum og sölu og kallaði á stærri gjaldeyrisvarajóð en ella. Þá mætti benda á að hér á landi væru seðlar og mynt í umferð mun lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu en annars staðar á Norðurlöndum. Af öllum þessum atriðum leiddi að eigið fé Seðlabankans væri mikilvægara til að fjármagna gjaldeyrisforðann en annars staðar á Norðurlöndum og þyrfti því að vera hlutfallslega meira hér á landi. Ef viðmiðun frumvarpsins frá 1992 ætti að gilda þyrfti eigið fé bankans nú að vera um 37 milljarðar króna. Í litlu og opnu hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil er mjög mikilvægt að seðlabankinn búi yfir sterkri eiginfjárstöðu.
    Sömu rök gilda nú og við samningu frumvarpsins sem lagt var fram 1992. Hömlum var létt af fjármagnsflutningum og frá byrjun árs 1995 hafa engar takmarkanir verið á flutningi fjármagns til og frá landinu. Það liggur í eðli máls að sú breyting fól m.a. í sér hættu á meiri sveiflum en áður.
    Hægt er að efla eigið fé bankans með tvennum hætti, annars vegar með beinu framlagi úr ríkissjóði og hins vegar með því að gera honum kleift að styrkja það á nokkru árabili þar til ákveðnu marki er náð eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í 2. mgr. 33. gr. núgildandi Seðlabankalaga er kveðið á um að árlega skuli leggja í svokallaðan arðsjóð a.m.k. jafngildi 40 millj. kr. miðað við verðlag í árslok 1994. Arðsjóður skuli ávaxtaður í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innlánum en helmingur árlegra tekna hans skuli renna í Vísindasjóð, sbr. lög um Rannsóknarráð Íslands. Þetta ákvæði er fellt út úr frumvarpinu nú. Ástæðan er sú að óeðlilegt er að leggja kvaðir á Seðlabankann sem eru óskyldar starfsemi hans og hlutverki sem seðlabanka og eðli máls samkvæmt eiga heima í fjárlögum. Ákvæðið um framlag í arðsjóð hefur verið í lögunum um Seðlabankann allt frá setningu fyrstu laganna árið 1961. Á þeim tíma kunna að hafa verið gildar ástæður til þess að búa svo um hnúta að Seðlabankinn stæði undir framlagi hins opinbera til Vísindasjóðs. Fyrirkomulag af þessu tagi heyrir sögunni til og er ástæða til þess að fella niður þá kvöð sem á bankanum hefur hvílt að fjármagna Vísindasjóð.

Um 35. gr.

    Í greininni er kveðið á um þagnarskyldu og trúnaðarupplýsingar, gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis og um samskipti við Fjármálaeftirlitið. Efni greinarinnar er að mestu leyti samhljóða ákvæðum gildandi laga. Þess má þó geta í sambandi við 4. mgr. að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og í núgildandi Seðlabankalögum er kveðið á um að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið skuli gera með sér sérstakan samstarfssamning. Skömmu eftir að Fjármálaeftirlitið tók til starfa var gerður slíkur samstarfssamningur og var hann endurnýjaður á miðju síðasta ári. Þar er kveðið á um ýmsa þætti sem varða samstarf stofnananna og nákvæmlega skilgreind regluleg upplýsingaskipti á milli þeirra.
    Í greininni er einnig kveðið á um upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis. Hér er einkum átt við seðlabanka annarra landa eða stofnanir á sviði eftirlits með fjármálastarfsemi. Upplýsingar sem um ræðir varða einkum málefni einstakra fjármálastofnana eða atriði sem snerta fjármálalegan stöðugleika.

Um 36. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 35. gr. núgildandi Seðlabankalaga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 37. gr.

    Fyrsta málsgrein þarfnast ekki skýringa. Í 2. mgr. er kveðið á um viðurlög í formi dagsekta. Í 5. mgr. 8. gr. núgildandi Seðlabankalaga segir að Seðlabankinn geti beitt lánastofnanir og verðbréfasjóði viðurlögum skv. 37. gr. sömu laga sé ákvörðunum bankans varðandi bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð ekki hlítt. Í núgildandi Seðlabankalögum er ráðherra heimilt að setja nánari ákvæði um starfsemi bankans. Þar á meðal skuli ákveða viðurlög í formi dagsekta og refsivaxta sé ákvörðunum bankans ekki hlítt. Í frumvarpinu er kveðið á um þessi atriði og að ákvörðun dagsekta verði ekki reglugerðarefni heldur verði þær ákveðnar af bankastjórn með samþykki bankaráðs. Þá er einnig kveðið á um það í þessari grein að viðurlögin skuli kynnt Fjármálaeftirlitinu og lánastofnunum sem þau geta átt við. Þá er kveðið á um að sé vanræksla ítrekuð geti bankinn að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið lagt til við viðskiptaráðherra að viðkomandi stofnun verði svipt starfsleyfi. Ólíklegt er að til þessa komi en engu síður talið nauðsynlegt að til slíkra örþrifaráða sé hægt að grípa þegar tilefni gefst til.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem byggist á 20. gr. gildandi laga og felur í sér að Seðlabankinn geti beitt þá viðurlögum sem vanrækja að veita bankanum upplýsingar sem hann á rétt á. Ákvæðið er efnislega áþekkt ákvæðum laga um hagskýrslur.

Um 38. gr.

    Seðlabanki Íslands skal birta reglur sem hann setur þannig að þær séu aðgengilegar almenningi. Í samræmi við ákvæði laga um birtingu stjórnvaldsákvarðana hefur Seðlabankinn um allmargra ára skeið birt allar reglur sem hann hefur sett í B-deild Stjórnartíðinda áður en þær hafa tekið gildi. Í einstökum greinum frumvarpsins er kveðið á um að Seðlabankinn setji nánari reglur um einstök atriði. Þrátt fyrir það er talin ástæða til að hafa einnig í lögunum almenna heimild fyrir Seðlabankann til að setja reglur um viðfangsefni sín önnur en þau sem sérstaklega er kveðið á um að hann skuli setja reglur um. Viðfangsefni af þessu tagi geta t.d. verið á sviði greiðslumiðlunar.

Um 39. gr.

    Ráðherra getur að fengnu áliti bankaráðs sett með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd einstakra ákvæða laganna. Í 37. gr. gildandi laga segir að í reglugerð sem ráðherra gefur út að fengnum tillögum bankaráðs skuli setja nánari ákvæði um starfsemi bankans í samræmi við lögin. Breytingin felst í því að gert er valkvætt hvort ráðherra setur reglugerð fremur en að það verði skylt eins og er í núgildandi Seðlabankalögum.

Um 40. gr.

    Ekkert ætti að hindra að lögin geti tekið gildi um leið og Alþingi hefur samþykkt frumvarpið. Við gildistöku nýrra laga um Seðlabanka Íslands falla úr gildi ákvæði 5. gr. laga nr. 54/1974 um þátttöku Seðlabankans í greiðslu kostnaðar af starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Um þetta gilda svipuð rök og færð voru fram í skýringum við 34. gr. um framlag bankans til Vísindasjóðs. Þjóðhagsstofnun er ríkisstofnun sem eðlilegt er að njóti að fullu framlaga á fjárlögum til starfsemi sinnar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Við gildistöku laganna kýs Alþingi nýtt bankaráð þannig að það umboð þess gildi frá þeim tíma. Frá sama tíma fellur niður umboð þess bankaráðs sem kosið var á Alþingi síðla árs 1998 fyrir fjögurra ára kjörtímabil sem hófst 1. október það ár.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveður ákvæðið á um að bankastjórar Seðlabanka Íslands við gildistöku laganna skuli gegna störfum til loka skipunartíma síns. Frá og með fyrstu skipun í embætti bankastjóra eftir að lögin hafa tekið gildi skulu hins vegar gilda ákvæði 2. mgr. 23. gr. Það þýðir með öðrum orðum að bankastjóri sem heldur stöðu sinni við gildistöku laganna situr til loka þess tímabils sem hann var skipaður til. Að því loknu er heimilt að endurskipa hann til sjö ára, tvisvar sinnum, sbr. ákvæði 2. mgr. 23. gr. Þá gerir ákvæðið jafnframt ráð fyrir að við gildistöku laganna skipi ráðherra formann bankastjórnar úr röðum þáverandi bankastjóra og að fyrsta formennskuskeið hans takmarkist við þau ár sem eftir lifa af skipunartíma hans sem bankastjóra við gildistöku laganna.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands.

    Tilgangur frumvarpsins er að auka sjálfstæði Seðlabanka Íslands og gera honum kleift að vinna með markvissari hætti að stjórn peningamála.
    Bein áhrif frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum, eru þau að niður fellur hlutdeild bankans í rekstri Þjóðhagsstofnunar, sem undanfarin ár hefur verið um 60 m.kr. á ári, og einnig fellur niður framlag bankans í Vísindasjóð sem hefur verið 145 m.kr. á ári. Að öðru leyti munu áhrifin ráðast af arðgreiðslum bankans í ríkissjóð.
    Gildandi lög um Seðlabanka Íslands kveða á um að arðgreiðsla hans í ríkissjóð skuli vera helmingur af meðalhagnaði bankans næstliðin þrjú ár, að frádregnu framlagi í arðsjóð. Frumvarpið kveður hins vegar á um að árlega skuli fjárhæð sem svarar til tveggja þriðju hluta hagnaðar bankans á liðnu reikningsári greidd í ríkissjóð, þó þannig að ef eigið fé bankans í lok reikningsárs svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins skal aðeins greiða þriðjung hagnaðar í arð. Arðgreiðslur bankans í ríkissjóð munu því ráðast af hagnaði bankans og hlutfalli eigin fjár hans miðað við fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins.