Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1060  —  681. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um spilliefnagjald, nr. 56/1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Nefnd um úrvinnslu úrgangs, sbr. lög um úrvinnslugjald, fer með stjórn spilliefnagjalds og framkvæmd þessara laga.
    

2. gr.

    Í stað orðsins „spilliefnanefnd“ í 4., 5., 6., 7. og 10. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): nefnd um úrvinnslu úrgangs.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um úrvinnslugjald. Í 5. gr. frumvarps til laga um úrvinnslugjald er gerð tillaga um að nefnd um úrvinnslu úrgangs fari með stjórn og umsýslu úrvinnslugjalds og framkvæmd þess málaflokks sem frumvarpið nær til. Í ákvæðinu er jafnframt gerð tillaga um að nefndin fari með stjórn spilliefnagjalds og framkvæmd laga um spilliefnagjald. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um spilliefnagjald til samræmis við þetta, þannig að nefnd um úrvinnslu úrgangs komi í stað spilliefnanefndar og með því hefur skipan nefndarinnar einnig breyst þar sem gert er ráð fyrir að nefnd um úrvinnslu úrgangs verði skipuð níu aðilum en spilliefnanefnd er skipuð sjö aðilum, sbr. 3. gr. laganna. Þetta er lagt til þar sem hagkvæmt þykir að sama nefndin fari með framkvæmd framangreindra laga verði frumvarp um úrvinnslugjald að lögum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um spilliefnagjald,
nr. 56/1996, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um úrvinnslugjald. Hagkvæmt þykir að sama nefndin fari með stjórn og umsýslu þessara mála. Samþykkt frumvarpsins leiðir ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.