Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1061  —  682. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Í stað orðanna „Til og með 30. júní 2001“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: Til og með 31. desember 2002.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að til og með 31. desember 2002 þurfi að leita leyfis fyrir innflutningi lifandi sjávardýra.
    Með 5. gr. laga nr. 115/1999, um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, var gildistími bráðabirgðaákvæðis laganna framlengdur til 30. júní 2001. Gildistími bráðabirgðaákvæðisins hafði áður verið framlengdur til 31. desember 1999 með 3. gr. laga nr. 134/1998, um breytingu á sömu lögum. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum er forsaga bráðabirgðaákvæðisins rakin. Þá kemur einnig fram að með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 17. júlí 1998 hafi Ísland yfirtekið tilskipanir ráðherraráðsins 91/496/EBE um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og dýraafurða frá þriðju ríkjum og 90/425/EBE um eftirlit með heilbrigði dýra og dýraafurða frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar humar, lúðuseiði, barrahrogn, hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Samkvæmt ákvörðuninni hafi átt að endurskoða ákvæðið fyrir 1. júlí 1998. Í ljósi væntanlegrar endurskoðunar og þar sem embætti yfirdýralæknis hefði lýst yfir áhyggjum sínum vegna takmarkaðra möguleika til eftirlits með innflutningi á framangreindum tegundum væri lagt til að framlengja gildistíma ákvæðisins um eitt ár. Endurskoðun fór fram á árinu 1999 og með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 18. desember 1999 er gert ráð fyrir að gildissvið gerðanna að því er Ísland varðar haldist óbreytt til og með 30. júní 2001. Eftir það taki Ísland gerðirnar yfir varðandi alla lifandi fiska sem falla undir þær. Það þýðir að fram til 30. júní 2001 eiga áðurtaldar tegundir að vera í frjálsu flæði á Evrópska efnahagssvæðinu en eftir 30. júní 2001 allar tegundir lifandi fiska sem undir gerðirnar falla. Landbúnaðarráðuneytið hefur sótt um til Eftirlitsstofnunar EFTA að fá samþykkta viðbótarvernd, í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins þar um, gegn innflutningi á lifandi fiski frá stöðvum þar sem tilteknir fisksjúkdómar finnast. Þar sem ákvörðun hefur ekki verið tekin um það hvort Ísland fái slíka viðbótarvernd samþykkta þykir rétt að leggja til að núgildandi bráðabirgðaákvæði verði framlengt frá 30. júní 2001 til 31. desember 2002.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 55/1998, um meðferð,
vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að framlengja um 18 mánuði gildistíma bráðabirgðaákvæðis um frjálsan innflutning lifandi sjávardýra milli Íslands og Evrópska efnahagssvæðisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.